Hæstiréttur íslands

Mál nr. 282/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson hrl.),
(Þyrí H. Steingrímsdóttir réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð

Reifun

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því hafa hrint fyrrum sambýliskonu sinni utan í vegg með nánar tilgreindum afleiðingum. Var refsing X ákveðin fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var X gert að greiða A miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og  Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að refsing hans verði milduð og hann sýknaður af einkaréttarkröfu.

Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa 1. september 2014 hrint þáverandi sambýliskonu utan í vegg á heimili sínu og við það hafi brotaþoli hlotið þá áverka sem í ákæru greinir.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi ræddi lögregla við brotaþola á vettvangi. Tjáði hún lögreglu að hún hafi umræddan dag knúið dyra hjá ákærða til að sækja þangað muni, en með henni hafi verið vitnið B. Er ákærði hafi opnað dyrnar og hún náð að komast inn, hafi komið til orðaskaks milli sín og ákærða, sem lyktað hafi með því að ákærði hafi slengt sér utan í vegg. Nokkrum klukkustundum síðar leitaði brotaþoli á slysadeild og lýsti atvikum fyrir lækni á sömu lund. Við skoðun læknis kom í ljós þreifanleg lítil kúla á hnakka og við skoðun á hálsi reyndist hún vera með eymsli við þreifingu hliðlægt við hálshrygg vinstra megin og niður með herðavöðvum. Framanvert á brjóstkassa, hægra megin, reyndist hún vera með eymsli og var þar byrjandi mar. Hún leitaði aftur til læknis á heilsugæslu 3. september 2014. Þar lýsti hún atvikum á sama veg og hún hafði gert á vettvangi og við fyrri læknisskoðun. Reyndist hún við skoðun læknis vera stirð í baki og hálsi, með mar á húð hliðlægt á vinstri öxl og þreifieymsli í vöðvum aðlægt hrygg, mest í vöðvum í kringum brjósthrygg, en einnig eymsli í vöðvum í herðum og hálsi.

Er brotaþoli lagði fram kæru á hendur ákærða 12. september 2014 gaf hún skýrslu hjá lögreglu. Var framburður hennar um atvik á sömu lund og hún hafði lýst hjá lögreglu á vettvangi, að ákærði hefði slengt sér utan í vegg er hún náði að komast inn í íbúð hans. Framburður hennar fyrir dómi var einnig samhljóða þeirri frásögn er hún hafði áður gefið hjá lögreglu og fyrir þeim læknum sem önnuðust hana vegna þeirra áverka er hún kvaðst hafa fengið umrætt sinn. Rennir framburður vitnisins B stoðum undir fyrrgreindan framburð hennar. Ákærði hefur á hinn bóginn engar skýringar getað gefið á þeim áverkum brotaþola sem greinir í ákæru. Með hliðsjón af framangreindu eru engin efni til að hagga því mati héraðsdóms að framburður brotaþola sé trúverðugur, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um sakfellingu ákærða og heimfærslu brotsins til refsiákvæðis. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfu með vísan til forsendna hans, svo og ákvæði dómsins um sakarkostnað.

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í 60 daga, sem bundin verður skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða 2/3 hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu héraðsdóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði 2/3 hluta alls áfrýjunarkostnaðar, sem nemur í heild 698.018 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Þyríar H. Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns 186.000 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2016.

                Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 21. apríl 2015 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir líkamsárás, á hendur fyrrum sambýliskonu sinni og barnsmóður, A, kt. [...], með því að hafa mánudaginn 1. september 2014, innandyra á heimi sínu að [...] í Reykjavík, hrint henni utan í vegg sem við það brotnaði, með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka á framvegg brjóstkassa, mar á öxl og upphandlegg, yfirborðsáverka á hársverði, tognun og ofreynslu á háls- og brjósthrygg.

                Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

                Brotaþoli gerir kröfu um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. september 2014 en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

                Mánudaginn 1. september 2014 klukkan 20.36 fékk lögregla boð um að fara að [...] í Reykjavík vegna líkamsárásar. Er lögregla kom á staðinn hitti hún fyrir ákærða, brotaþola og B. Fram kemur að aðilar hafi verið nokkuð rólegir en ljóst að eitthvað hefði gengið á þar sem gat hafi verið á vegg á móts við inngang í íbúðina. Lögreglumenn hafi rætt við ákærða og brotaþola. Í samtali við ákærða hafi komið fram að ákærði og brotaþoli væru að skilja. Þetta kvöld hafi brotaþoli komið á staðinn og B verið með í för. Er ákærði hafi opnað fyrir þeim hafi brotaþoli og B ruðst inn í íbúðina. B hafi ítrekað tekið ákærða hálstaki. Hann hafi kýlt í vegg sem hafi brotnað við höggið og haft í hótunum við ákærða.

                Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi verið með marblett á handlegg. Brotaþoli hafi greint þannig frá atvikum að hún hafi komið á staðinn til að ná í eigur sínar og hafi hún áður reynt að ná á ákærða en ekki tekist. Brotaþoli hafi þá brugðið á það ráð að fá B með sér þar sem hún hafi ekki þorað að hitta ákærða ein síns liðs. Þau hafi knúið dyra og gengið inn er ákærði hafi opnað fyrir þeim. Til orðaskaks hafi komið og á endanum hafi ákærði slengt brotaþola utan í vegg. Hafi hún lent með háls og höfuð á veggnum. B hafi gengið á milli þeirra og hent ákærða frá brotaþola og hafi ákærði fallið í gólfið. Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi verið að sjá áverka á brotaþola, en hún hafi borið við eymslum í hálsi og höfði eftir árás ákærða. Þá kemur fram í skýrslunni að lögreglumenn hafi orðið vitni að því er ákærði hafi gengið að B, sett hönd sína við hlið höfuðs hans og verið með ógnandi tilburði gagnvart honum. Hafi lögregla þurft að ganga á milli til að ekki kæmi til átaka.

                Föstudaginn 12. september 2014 mætti brotaþoli á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Greindi brotaþoli þá ítarlega frá atvikum málsins. Sérfræðingur í bráðalækningum á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 25. nóvember 2014 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á spítalann, 1. september 2014. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun á höfði sé áþreifanleg lítil kúla á hnakka en ekki eymsli við þreifingu á kinnbeinum, enni eða kjálka. Við skoðun á hálsi hafi brotaþoli verið með eymsli við þreifingu hliðlægt við hálshrygg vinstra megin og niður eftir herðavöðvum. Fái hún verk við að snúa hálsi til hægri. Við skoðun á brjóstkassa hafi hún verið með þreifieymsli framan til á brjóstkassa hægra megin. Mar hafi verið byrjað að koma þar út. Heilsugæslulæknir hefur 22. desember 2014 ritað læknisvottorð vegna brotaþola. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi leitað á heilsugæslustöð 3. september 2014. Við skoðun hafi brotaþoli verið með mar á húð hliðlægt á vinstri öxl um 2x5 cm að stærð. Engin bakeymsli hafi verið yfir hryggjartindum. Brotaþoli hafi verið með dreifð þreifieymsli á vöðvum aðlægt hrygg, mest í kringum brjóstkassa, en einnig eymsli í vöðvum í herðum og hálsi. Við hálshreyfingar hafi brotaþoli verið stirð við að hreyfa höku að bringu og horfa upp. Tekið hafi í við þær hreyfingar.

Samkvæmt gögnum málsins mætti ákærði á lögreglustöð, miðvikudaginn 3. september 2014, til að leggja fram kæru á hendur B fyrir líkamsárás. Sérfræðingur í heimilislækningum á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur, 25. september 2014, ritað læknisvottorð vegna komu ákærða á slysadeild 1. september 2014. Í vottorðinu kemur fram að ákærði hafi verið greindur með tognun í hálsi og mar á báðum handleggjum, vinstri mjöðm og aftan í baki eftir ætlaða líkamsárás. Hugsanlega hafi verið brákuð rif og einkenni um vægan heilahristing. Kæra ákærða um líkamsárás á hendur B var felld niður.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærði og brotaþoli skýrslu fyrir dóminum. Einnig komu fyrir dóminn B, móðir brotaþola, læknar er rituðu læknisvottorð vegna brotaþola og ákærða og lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins. Loks komu fyrir dóminn vitni er komu á vettvang skömmu eftir atvik. Hér á eftir verður gerð grein fyrir framburðum ákærða og vitna að því marki er máli skiptir fyrir niðurstöðu málsins.

                Ákærði hefur greint svo frá að mánudaginn 1. september 2014 hafi hann verið á heimili sínu. Dyrabjöllunni hafi verið hringt. Um leið og ákærði hafi opnað hurðina hafi hún verið rifin upp. Fyrir utan hafi verið brotaþoli og B. B hafi umsvifalaust hent ákærða út í fatahengi og vegg í íbúðinni með þeim afleiðingum að öxl ákærða hafi lent í veggnum og brotið gat á hann. Brotaþoli hafi verið fyrir aftan B sem hafi haldið áfram inn eftir gangi íbúðarinnar í átt að baðherbergi þar sem hann hafi tekið ákærða hálstaki. Þá hafi B ítrekað slegið ákærða í síðuna eða búkinn og fleygt honum utan í veggi og hurðarstaf við herbergi og baðherbergi. Það eina sem ákærði hafi gert hafi verið að bera hendur fyrir sig og verjast.  Honum hafi loks tekist að komast út og hringja í Neyðarlínuna. Brotaþoli hafi kvatt B til að ganga í skrokk á ákærða og sagt að ákærði ætti það skilið. Þá hafi B tjáð ákærða að hann hafi lengi langað að lemja hann.

                Ástæða alls þessa væri sú að ákærði og brotaþoli væru að skilja og stæðu í umgengis- og forsjárdeilu. Brotaþoli hafi gefið upp þá ástæðu fyrir heimsókninni umrætt sinn að hún væri komin til að sækja föt og hluta af innbúi. Ákærði kvaðst hafa leitað á slysadeild eftir árásina og komið hafi í ljós að hann var blár og marinn víðs vegar á líkamanum og líklega með brákuð rifbein beggja megin. Ákærði gaf meðal annars skýrslu hjá lögreglu 10. nóvember 2014. Er undir ákærða var borið að í frumskýrslu lögreglu kæmi fram að hann hafi tjáð lögreglu að ástæða þess að veggur í íbúð ákærða væri brotinn væri sú að B hafi kýlt í vegginn, kvaðst ákærði hafa verið í uppnámi á þessari stundu og ekki lýst atvikum rétt. Hann hafi ekki hugsað málið rétt fyrr en eftir á og ekki áttað sig á því hvernig veggurinn hafi brotnað fyrr en hann hafi endurupplifað atvikin.

                Brotaþoli hefur skýrt svo frá að hún og ákærði hafi verið að skilja eftir fimm ára samband og ættu þau saman dreng. Ákærði væri mikill skapmaður og hafi hann oft öskrað á brotaþola í skapofsaköstum. Hann hafi hins vegar aldrei lagt hendur á hana. Eftir skilnaðinn hafi allt gengið vel í fyrstu. Við fyrirtöku hjá sýslumanni vegna umgengni hafi ákærði breyst og að lokum komið upp deila um umgengni við son aðila. Mánudaginn 1. september 2014 hafi brotaþoli verið á leið heim til ákærða til að sækja dót er hún hafi átt heima hjá honum. Hafi hún verið búin að hringja og senda ákærða sms-skilaboð en ákærði engu svarað. Hún hafi þá ákveðið að fara heim til ákærða og haft með í för móður sína og B, vin sinn til margra ára. Brotaþoli hafi knúið dyra og ákærði opnað. Hún hafi náð að troða sér inn fyrir ákærða og gengið inn forstofuna. Brotaþoli hafi snúið sér við og ákærði ,,dúndrað“ henni upp við vegg og ýtt á hana þannig að hann hafi sett hendur á vinstri öxl og vinstri bringu hennar. Vinstri hlið höfuðs brotaþola og bak hafi lent á veggnum. Hafi hún meitt sig á höfði, hálsi, baki og vinstri öxl við höggið. Veggurinn hafi brotnað við höggið. B hafi þá komið inn og gengið á milli ákærða og hennar. Hann hafi hrint ákærða þannig að hann hafi dottið inn ganginn og meðal annars lent á ,,barnahliði“. Ákærði hafi orðið mjög reiður.  B hafi lagt hann niður til að róa hann og tjáð honum að brotaþoli ætlaði einungis að ná í dót sitt. Í framhaldi hafi B sleppt honum. Ákærði hafi hlaupið um og beðið B um að kýla sig. Að lokum hafi ákærði hlaupið út og hringt í Neyðarlínuna, auk þess sem hann hringdi í föður sinn og vinafólk. Móðir brotaþola hafi hlúð að henni á meðan á þessu stóð og hafi móðirin verið síðust inn í íbúðina. Lögregla hafi komið á staðinn og rætt við aðila. 

                B kvað brotaþola hafa leitað til sín með ósk um aðstoð við að sækja einhverja muni heim til ákærða, en brotaþoli og ákærði hafi verið að skilja. Hafi brotaþoli tjáð B að hún hafi ítrekað reynt að nálgast hlutina. B hafi haft sendiferðabifreið til umráða og hafi hann tekið vel í að aðstoða brotaþola við flutninginn. Er B hafi komið að [...] hafi brotaþoli og móðir hennar verið komnar á staðinn og hafi þau þrjú gengið saman að íbúðinni. Brotaþoli hafi knúið dyra. Ákærði hafi opnað og brotaþoli troðið sér framhjá honum. Allt hafi gerst frekar hratt í framhaldi. Ákærði hafi ýtt við brotaþola þannig að hún hafi fallið á vegg í íbúðinni og í framhaldi hafi hún dottið niður á gólf. B hafi  heyrt hvellinn er brotaþoli hafi lent á veggnum. Hann hafi hins vegar ekki séð hvort ákærði hafi ýtt brotþola á vegginn eða slegið hana þannig að hún féll. Hafi B gengið á milli þeirra og ýtt við ákærða þannig að hann hafi dottið inn ganginn. B hafi litið til baka og séð móður brotaþola vera að hlúa að henni. Ákærði hafi staðið á fætur og verið ,,brjálaður“ og  hafi B tekið um ákærða og lagt hann í gólfið. Hann hafi beðið ákærða um að róa sig og sagt honum að brotaþoli væri einungis komin til að sækja eigur sínar. Stuttu síðar hafi B staðið á fætur og gengið í átt að móður brotaþola. Ákærði hafi komið á eftir, öskrað á hann og meðal annars sagt B að lemja sig. Móðir brotaþola hafi þá gengið á milli. Ákærði og móðirin hafi ,,hnakkrifist“ og ákærði sífellt sagt að B ætti að lemja sig. Ákærði hafi í framhaldi þessa rokið út úr íbúðinni og hringt í Neyðarlínuna. Einnig hafi hann hringt í vini sína. Brotaþoli og móðir hennar hafi hafist handa við að taka saman dót brotaþola. Ákærði hafi komið aftur að B og sagt honum að lemja sig. Móðir brotaþola hafi á ný gengið á milli. Stuttu síðar hafi lögregla komið á staðinn. Hafi ákærði sagt lögreglu að B væri ekki velkominn í íbúðinni. Að ósk lögreglu hafi B farið út úr íbúðinni. Eftir þetta hafi margir vinir ákærða komið á staðinn, sem og tveir bræður brotaþola. Töluverður æsingur hafi verið í hópnum. Er B hafi verið fyrir utan hafi ákærði á ný komið og sagt B að lemja sig. Lögreglumaður hafi komið að og sagt ákærða að hætta þessu. Munir brotaþola hafi verið settir í sendiferðabifreiðina og B farið á brott á henni. B kvaðst ekki hafa ráðist á ákærða, svo sem ákærði héldi fram. Ef ákærði hafi fengið áverka þetta kvöld geti það hafa komið við fallið er B hafi ýtt honum frá brotaþola.

                Móðir brotaþola hefur lýst atvikum svo að umrætt sinn hafi þær mæðgur verið á leið á fyrrum heimili brotaþola til að sækja hluti í eigu brotaþola. Hafi hún verið skilin við ákærða. Vinur brotaþola, B, hafi komið á sendibíl, en hún hafi verið búin að spyrja hann hvort hann gæti sótt fyrir hana dót. Brotaþoli hafi hringt dyrabjöllunni og ákærði hafi opnað. Um leið og hann hafi opnað og séð hver var á ferð hafi hann ætlað að loka hurðinni aftur. Brotaþoli hafi troðið sér á milli og komist inn og farið inn gang íbúðarinnar. Þar hafi hún snúið sér við. Á þessum tíma hafi móðir brotaþola, sem hafi verið öftust í röðinni, verið komin inn í íbúðina. Hafi hún séð ákærða hrinda brotaþola. Við það hafi brotaþoli dottið aftur fyrir sig og á vegg sem hafi brotnað við þetta. Í kjölfarið hafi brotaþoli fallið í gólfinu. Hafi B gengið á milli ákærða og brotaþola og hrint ákærða inn ganginn. Ákærði hafi dottið og orðið mjög reiður. Hafi hann staðið upp en B lagt hann aftur niður, haldið honum og beðið hann um að róa sig. Þegar þar hafi verið komið sögu hafi móðirin verið að hlúa að brotaþola. B hafi sleppt ákærða, en á þeim tíma hafi móðirin staðið við dyr inn í eldhúsið. Ákærði hafi komið að móðurinni og öskrað á hana. Hún hafi öskrað á hann á móti en hann hafi verið mjög ógnandi og komið alveg upp að andliti móðurinnar. Í framhaldi hafi hann gengið að B og sagt honum að lemja sig. Hafi móðirin staðið á milli þeirra og sagt B að hlusta ekki á ákærða. Ákærði hafi í kjölfarið farið út úr íbúðinni og hringt í Neyðarlínuna. Eftir stutta stund hafi hann komið til baka og gengið rakleitt upp að B, ögrað honum á ný og beðið hann um að lemja sig. Hafi móðirin gengið á milli og ýtt ákærða frá. Kvaðst móðirin hafa tekið á móti lögreglu er hana hafi  borið að garði.  

                Lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í henni. Ekki er ástæða til að reifa framburð lögreglumanna sérstaklega utan þess að C lögreglumaður kvaðst telja nánast víst að móðir brotaþola hafi verið á vettvangi, ásamt brotaþola, ákærða og vini brotaþola, er lögreglu hafi borið að garði. Hafi C láðst að geta þessa í frumskýrslu lögreglu. Þá gáfu símaskýrslu læknar er rituðu læknisvottorð vegna brotaþola og ákærða. Gerðu þeir grein fyrir atriðum tengdum ákverkum brotaþola og ákærða. Að endingu komu fyrir dóminn sem vitni einstaklingar úr vina- og fjölskylduhópi ákærða. Varð ekkert af þessum vitnum vitni að hinni ætluðu árás. Vitni báru að móðir brotaþola hafi tjáð vitnunum á vettvangi að hún hafi ekki verið brotaþola samferða inn í íbúðina og ekki orðið vitni að hinni ætluðu árás. Hafi hún beðið úti í bíl á meðan hún hafi átt sér stað. Ekki er að öðru leyti ástæða að gera grein fyrir þessum framburðum hér fyrir dóminum.

                Niðurstaða:

                Ákærða er gefin að sök líkamsárás á hendur fyrrum sambýliskonu sinni og barnsmóður með því að hafa innandyra á heimili sínu að [...] í Reykjavík hrint brotaþola utan í vegg sem við það á að hafa brotnað, með þeim afleiðingum að brotaþoli fékk yfirborðsáverka á framvegg brjóstkassa, mar á öxl og upphandlegg, yfirborðsáverka á hársverði og loks tognun og ofreynslu á háls- og brjósthrygg. Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940.

                Ákærði neitar sök. Kveður hann brotaþola og vin hennar B hafa ráðist inn til ákærða umrætt sinn. Hafi B kastað ákærða utan í vegg, sem brotnað hafi við árásina. B hafi verið hvattur áfram af brotaþola. Hafi B tekið ákærða hálstaki og lamið hann í síðuna og búk.

                Brotaþoli hefur lýst atvikum þannig að hún hafi smeygt sér fram hjá ákærða er hann hafi opnað útidyrahurðina. Hafi hún snúið sér við og ákærði þá hrint brotaþola utan í vegg, sem brotnað hafi við árásina. B hafi gengið á milli og hrint ákærða inn gang íbúðarinnar. Hafi ákærði fallið við þetta. Framburðir B og móður brotaþola, um árás ákærða á brotaþola, eru í samræmi við framburð brotaþola. Ákærði og brotaþoli leituðu bæði á slysadeild í beinu framhaldi af hinni ætluðu árás. Að auki leitaði brotaþoli á heilsugæslustöð tveim dögum síðar. Læknisvottorð vegna þessara skoðana liggja frammi í málinu.

Í máli þessu liggja fyrir andstæðir framburðir um ástæðu þess að veggurinn á heimili ákærða brotnaði. Við mat á sök er til þess að líta að áverkar er brotaþoli greindist með voru nokkuð meiri en áverkar þeir er ákærði greindist með eftir samskipti við B. Geta áverkar brotaþola samrýmst staðhæfingum brotaþola um árás ákærða. Er einnig til þess að líta að af framburði ákærða verður ekki annað ráðið en að brotaþoli hafi ekki lent í neinum átökum þetta kvöld. Fær það ekki staðist í ljósi þeirra áverka er brotaþoli greindist með við komu á slysadeild þetta sama kvöld. Þá er til þess að líta að ákærði hefur orðið missaga um ástæðu þess að títtnefndur veggur brotnaði. Er lögregla ræddi við ákærða á vettvangi bar ákærði að B hefði brotið vegginn með því að slá í gegnum hann með hnefa. Hér fyrir dómi ber ákærði hins vegar að B hafi kastað ákærða á vegginn, sem brotnað hafi í kjölfarið. Hefur ákærði fyrir dómi viðurkennt að hafa greint lögreglu frá þessu á þennan veg en komið með þá skýringu að hann hafi verið í uppnámi og ekki lýst atvikum rétt. Rýrir þetta atriði nokkuð trúverðugleika framburðar ákærða. Brotaþoli var á hinn bóginn trúverðug í framburði sínum fyrir dóminum. Þegar til ofangreindra atriða er litið telur dómurinn óhætt að leggja trúverðugan framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu og telja hafið yfir vafa að ákærði hafi hrint brotaþola utan í vegg, sem við það hafi brotnað, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut þá áverka er í ákæru greinir. Breytir framburður húsasmíðameistara er gerði við umræddan vegg ekki þessari niðurstöðu, en til þess er að líta að umræddur húsasmíðameistari er, að eigin sögn, samstarfsmaður ákærða. Með hliðsjón af öllu framanrituðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.  

                Ákærði er fæddur í [...] 1972. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Með hliðsjón af atvikum öllum, sbr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Í ljósi sakaferils ákærða verður refsingin bundin skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir.  

                Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta. Er bótakrafan rökstudd með þeim hætti að brot ákærða gagnvart brotaþola hafi verið alvarlegt. Þá hafi brotaþola liðið illa vegna brots ákærða. Eins hafi árás ákærða verið fólskuleg. Loks hafi brotaþoli glímt við ótta og óöryggi með viðvarandi hætti frá því atvikið átti sér stað. Um bótagrundvöll er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993. Ákærði hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola. Á brotaþoli rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða. Verða þær ákveðnar að álitum og þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.  

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti. Þá greiði hann málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

                Símon Sigvaldason kveður upp þennan dóm.

                                                                              D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði, A, 400.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. september 2014 til 7. júní 2015 en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 1.460.200 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 920.700 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hæstaréttar-lögmanns, 511.500 krónur.