Hæstiréttur íslands
Mál nr. 819/2014
Lykilorð
- Lögregla
- Handtaka
- Tjáningarfrelsi
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2015. |
|
Nr. 819/2014.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Kristni Guðmundssyni (Skúli Bjarnason hrl.) |
Lögregla. Handtaka. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu.
Haustið 2013 fór Vegagerðin í framkvæmdir við lagningu svokallaðs Álftanesvegar í Garðabæ sem að hluta lá um Gálgahraun. Framkvæmdirnar sættu mótmælum, einkum þar sem þær hefðu í för með sér óafturkræf náttúruspjöll á hrauninu og umhverfi þess, auk þess sem uppi var ágreiningur um lögmæti framkvæmdanna. Mótmælin fóru að öllu leyti friðsamlega fram en mótmælendur höfðu komið sér fyrir í hrauninu, meðal annars innan vinnusvæðis, og neituðu að hlíta fyrirmælum lögreglunnar um að víkja vegna framkvæmdanna. Fór svo að lögreglan fjarlægði mótmælendur með valdi og voru nokkur þeirra handtekin, þar á meðal K. Eftir að K hafði verið látinn laus sneri hann aftur í Gálgahraun og þar var hann handtekinn að nýju. Var deilt um það hvort K hefði neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa umrætt vinnusvæði í aðdraganda síðari handtökunnar. Talið var að mótmæli K og annarra mótmælenda teldust ótvírætt til tjáningar í skilningi 73. gr. stjórnarskrárinnar og að sá réttur þeirra til að hafa uppi slík mótmæli yrði eingöngu takmarkaður eftir þeim skilyrðum sem greinir í 3. mgr. greinarinnar, sbr. 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefði verið veitt lagagildi með lögum nr. 62/1994. Fyrir lægi að framkvæmdirnar hefðu átt sér viðhlítandi stoð að lögum þegar í þær hefði verið ráðist. Lögreglu hefði því borið, í samræmi við fyrirmæli e. og f. liða 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, að ljá Vegagerðinni aðstoð við að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar hefðu verið til þess að tryggja allsherjarreglu, sbr. 15. gr. laganna. Af gögnum málsins sem og vætti lögreglumanna teldist sannað að K hefði ekki hlýtt ítrekuðum fyrirmælum um að færa sig af vinnusvæði þar sem hann hafði verið staddur. Með þessum hætti hefði hann brotið gegn 19. gr. lögreglulaga enda yrði réttur hans til að mótmæla að víkja að því marki sem hann hefði staðið því í vegi að framkvæmdir gætu haldið áfram, sbr. 60. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Var sérstaklega áréttað að aðgerðir lögreglu á vettvangi hefðu ekki gengið lengra en þörf krafðist og að K hefði ekki verið bannað að mótmæla framkvæmdunum með öllum tiltækum og löglegum ráðum, heldur eingöngu á vinnusvæðinu. Við ákvörðun refsingar, sem frestað var skilorðsbundið í tvö ár, var litið til þess að K hefði ekki áður hlotið refsingu, að fyrir honum hefði vakað að standa vörð um náttúruverðmæti og að það hefði hann gert með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla þó svo að í þessu tilviki hefði hann gengið lengra en heimilt var.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð.
I
Forsaga málsins, sem varðar atburði er áttu sér stað 21. október 2013, var sú að Vegagerðin áformaði haustið 2013 að hefja lagningu svokallaðs Álftanesvegar í Garðabæ sem að hluta til lægi um Gálgahraun. Framkvæmdirnar voru umdeildar og sættu meðal annars mótmælum á þeirri forsendu að þær hefðu í för með sér óafturkræf náttúruspjöll á hrauninu og umhverfi þess. Hafði nokkur hópur fólks mótmælt framkvæmdunum með friðsömum hætti þá um haustið og meðal annars komið saman í Gálgahrauni af því tilefni. Þá var uppi ágreiningur um lögmæti framkvæmdanna, en fjögur nánar tilgreind náttúruverndarsamtök höfðu höfðað dómsmál til viðurkenningar á ólögmæti þeirra og jafnframt krafist þess að lagt yrði lögbann við því að ráðist yrði í framkvæmdirnar.
Í kjölfar þess að Vegagerðin óskaði aðstoðar lögreglu, meðal annars til þess að koma í veg fyrir mögulegar tafir á framkvæmdum vegna mótmælanna, var ráðist í þær að morgni 21. október 2013 með því að stór ýta hóf að ryðja fyrirhugað vegstæði. Lögregla var af þessu tilefni með viðbúnað á svæðinu en nokkurn fjölda mótmælenda hafði þá þegar drifið að. Mótmælin fóru að öllu leyti friðsamlega fram en mótmælendur höfðu komið sér fyrir í hrauninu, meðal annars innan vinnusvæðis, og neituðu að hlíta fyrirmælum lögreglunnar um að víkja vegna framkvæmdanna. Af gögnum málsins verður ráðið að markmið mótmælenda hafi öðrum þræði verið að hindra að framkvæmdir héldu áfram meðan dómar hefðu ekki gengið í umræddum málum. Fór svo að lögreglan fjarlægði í framhaldinu mótmælendur með valdi og nokkur þeirra voru handtekin af því tilefni, þar á meðal ákærði.
Eftir að ákærði hafði verið látinn laus sneri hann aftur í Gálgahraun og þar var hann handtekinn að nýju klukkan 13.29 sama dag og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu, þar sem hann var vistaður í fangaklefa en sleppt í kjölfar skýrslutöku. Í málinu er ekki deilt um framangreinda atburðarás en ágreiningur stendur um það hvort ákærði hafi neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa umrætt vinnusvæði í aðdraganda síðari handtökunnar.
II
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. greinarinnar, eins og henni var breytt með 11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er kveðið á um að hver maður eigi rétt á að láta hugsanir sínar í ljós, en hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Er hér um víðtæka vernd tjáningarfrelsisins að ræða og hefur ákvæðið verið skýrt svo að í því sé fólginn réttur manna til að miðla upplýsingum með öllum formum tjáningar. Frelsi þetta nær þannig bæði til prentaðs og talaðs máls, auk tjáningar sem felst í annars konar athöfnum. Þá segir í 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995, að menn eigi rétt á að safnast saman vopnlausir, en lögreglunni sé heimilt að vera við almennar samkomur. Í niðurlagi greinarinnar kemur síðan fram að banna megi mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.
Með fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar er slegið föstum almennum rétti einstaklinga til þess að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir með friðsamlegum hætti. Þá verða ákvæðin ekki túlkuð öðruvísi en svo að af þeim verði leiddur réttur hóps einstaklinga til að nýta saman tjáningarfrelsi sitt með fundum eða sameiginlegum mótmælum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands 30. september 1999 í máli nr. 65/1999. Verða rétti þessum ekki settar skorður nema með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 62/1994.
Þau mótmæli ákærða og annarra mótmælenda, sem áður er lýst, teljast ótvírætt til tjáningar í skilningi 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af því leiðir að réttur þeirra til að hafa uppi slík mótmæli varð aðeins takmarkaður eftir þeim skilyrðum sem greinir í 3. mgr. greinarinnar og áður er lýst, enda færu mótmælin friðsamlega fram eða ekki væri uggvænt að af þeim leiddi óspektir, sbr. 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.
III
Svo sem fyrr greinir heimilar 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að tjáningarfrelsi megi setja skorður með lögum og þá meðal annars í þágu allsherjarreglu og vegna réttinda annarra, enda teljist slík takmörkun nauðsynleg og samrýmist lýðræðishefðum.
Hvað sem leið andstöðu við umræddar vegaframkvæmdir við Álftanesveg, meðal annars af náttúruverndarlegum ástæðum og eftir atvikum vegna ágreinings um lögmæti þeirra, liggur fyrir að framkvæmdirnar áttu sér viðhlítandi stoð að lögum þegar í þær var ráðist. Lögreglu bar því, í samræmi við fyrirmæli e. og f. liða 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, að ljá Vegagerðinni aðstoð við að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar voru til þess að tryggja allsherjarreglu svo sem nánar er mælt fyrir um í 15. gr. laganna.
Af gögnum málsins, sem og vætti lögreglumanna, sem grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi, er sannað að ákærði hlýddi ekki ítrekuðum fyrirmælum um að færa sig af vinnusvæði þar sem hann var staddur. Þannig raskaði hann þeim framkvæmdum við vegalagninguna sem stóðu yfir og voru samkvæmt framangreindu lögmætar. Braut ákærði með þessum hætti gegn 19. gr. lögreglulaga enda varð réttur hans til mótmæla að víkja að því marki sem hann stóð því í vegi að framkvæmdir gætu haldið áfram, sbr. 60. gr. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ber þá sérstaklega að árétta að aðgerðir lögreglu á vettvangi gengu ekki lengra en þörf krafði og ákærða var ekki bannað að mótmæla framkvæmdunum með öllum tiltækum og löglegum ráðum, heldur eingöngu á vinnusvæðinu. Samkvæmt þessu hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brotið réttilega heimfært til refsilaga í ákæru.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur ekki áður hlotið refsingu, að fyrir honum vakti að standa vörð um náttúruverðmæti, sem hann og fleiri töldu að verið væri að vinna óbætanlegan skaða, og að það gerði hann með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla þó svo að í þessu tilviki hafi hann gengið lengra en heimilt var. Verður því frestað ákvörðun refsingar hans á þann hátt sem nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til þess að samhliða þessu máli eru rekin átta önnur samkynja mál.
Dómsorð:
Frestað er ákvörðun refsingar ákærða, Kristins Guðmundssonar, skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Skúla Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 9. október 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 28. janúar 2014 og dómtekið 12. september sl., var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 21. desember 2013, á hendur Kristni Guðmundssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir brot gegn lögreglulögum, með því að hafa mánudaginn 21. október 2013, um kl. 13:29, í Garðahrauni í Garðabæ, neitað að hlýða ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set, en ákærði var staddur á vinnusvæði, þar sem unnið var að lagningu nýs Álftanesvegar, rétt norðnorðvestan við Garðastekk. Telst brotið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga nr. 90/1996. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði mætti við þingfestingu málsins þann 28. janúar sl. og neitaði sök. Skilaði ákærði greinargerð þann 24. febrúar sl. og krafðist þá þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara sýknu. Þá krafðist ákærði þess að sækjandi málsins, Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari, viki sæti í málinu með vísan til 26. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 88/2008, en ákærði hygðist leiða sækjanda sem vitni í væntanlegri aðalmeðferð málsins. Fór málflutningur um þessa kröfu ákærða fram, í máli nr. S-2/2014, sem er nákvæmlega eins mál og þetta mál, þann 24. mars sl. og var kröfum ákærða hafnað. Var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 254/2014 þann 8. maí sl. Ákærði óskaði í framhaldi eftir fresti til að leggja fram frekari gögn, sem hann gerði í þinghaldi 5. júní sl. Fór aðalmeðferð fram 11. og 12. september sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Óumdeilt er að unnið var um þessar mundir í Garðahrauni eða Gálgahrauni, eins og það er kallað, í Garðabæ við lagningu nýs vegar til Álftaness. Hefur sú vegalagning sætt mótmælum og einstaklingar mótmælt henni með því að mæta á vinnusvæði Vegagerðarinnar og reynt að tefja eða stöðva vegalagninguna. Undir rekstri málsins lýstu ákærðu öll, í málum S-1/2014 til og með S-9/2014, því að þau hafi verið í Gálgahrauni umrætt sinn í mótmælaskyni og hafi mótmælin verið friðsamleg en það sé stjórnarskrárbundinn réttur hvers manns að tjá sig opinberlega og halda uppi friðsamlegum mótmælum. Enginn ágreiningur er um það að þátttaka ákærða í ofangreindum mótmælum hafi verið á friðsamlegum nótum. Þá er ekki ágreiningur um það að umræddan dag hafi Vegagerðin hafið ruðning í Gálgahrauni fyrir nýju vegastæði. Samkvæmt því sem næst verður komist hafi lögreglu verið gert viðvart deginum áður eða samdægurs um að hætta væri á að mótmælin, sem voru daglega í Gálgahrauni, myndu hugsanlega tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdir. Hafi lögreglan því verið með viðbúnað og komið á svæðið umræddan morgun.
Þá liggur fyrir að eftir að verktakar hófu vinnu þá hafi merkingar utan um fyrirhugað vinnusvæði, eftir framgangi verksins, verið færðar til þannig að ljóst væri hvar vinnuvélar færu um. Við þá framkvæmd hafi mótmælendur verið komnir inn fyrir merkt vinnusvæði og á svæði þar sem jarðvinna færi fram.
Þá er ekki um það deilt að lögreglan hafi gefið fyrirmæli í gjallarhorn um að mótmælendum væri gert að rýma vinnusvæðið. Sumir gerðu það en aðrir ekki. Þá er það sammerkt með öllum málunum að öll ákærðu höfðu verið handtekin fyrr um morguninn fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar. Ágreiningur er um hvort lögreglan hafi gefið hverjum og einum ákærðu fyrirmæli og viðvörun um handtöku ef þau hlýddu ekki þessum fyrirmælum og þá hvort þau hafi verið innan eða utan merkts vinnusvæðis.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglan hafi haft afskipti af ákærða eftir að hún hafi ítrekað verið búin að gefa fólki fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið, í gjallarhorni svo að þau færu örugglega ekki framhjá neinum. Ákærði hafi legið á bakinu fyrir innan lokanir og ekki hlýtt ítrekuðum beinum fyrirmælum um að færa sig. Hafi þurft að bera ákærða á milli lögreglumanna út af svæðinu þar sem hann hafi neitað að ganga uppréttur. Ákærði kvaðst í framburðarskýrslu hjá lögreglu hafa fengið fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa svæðið og taldi hann fyrirmælin hafa verið skýr. Lögreglan hafi viljað að hann hefði sig á brott, það hefði ekki verið hægt að misskilja það. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki farið að fyrirmælum lögreglu kvaðst ákærði hafa fyllst máttleysi og ekki getað farið. Þá kvað ákærði hjá lögreglu að þegar hann hefði verið handtekinn í seinna skiptið hafi verið girt í kringum hann og hann þá beðinn að yfirgefa vinnusvæðið.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á umræddu svæði eftir hádegi þennan dag. Ákærði kvaðst halda að hann hafi ekki fengið bein fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa svæðið, það hafi eitthvað verið gasprað í gjallarhorn en ákærði hafi ekki verið í neinum órétti þarna. Aðspurður um það að ákærði hafi legið á bakinu í jörðinni þegar lögreglan kom að honum og ekki hlýtt fyrirmælum hennar um að yfirgefa svæðið, kvaðst ákærði hafa komið þarna að, sest á þúfu ásamt fleirum og verið að maula nesti, töluvert langt frá því svæði sem Vegagerðin var að athafna sig. Síðan hafi lögreglumann borið að og ákærði rætt við hann. Það megi vel vera að lögreglumaðurinn hafi beðið sig að fara en ákærði hafi ekki haft kraft til að fara, auk þess sem hann hafi ekki verið þarna í neinum órétti. Lögreglumaðurinn hafi beðið hann um að færa sig og ákærði rætt við hann. Ákærði kvaðst kannski ekki hafa brugðist nógu fljótt við en hann hafi ekki óhlýðnast því að fara. Ákærði kvaðst ekki hafa talið þetta vera fyrirmæli frá lögreglunni. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu um að fyrirmæli lögreglu hafi verið skýr um að hann yfirgæfi svæðið. Kvað ákærði langt um liðið og hann myndi þetta ekki svo í dag. Ákærði kvaðst ekki hafa sýnt neinn mótþróa umrætt sinn né sýnt af sér ofbeldi en lögreglan hafi borið hann í börum út af svæðinu að lögreglubifreið. Síðan hafi hann verið fluttur á lögreglustöð og settur í fangaklefa. Ákærði sagði að borðar hafi verið settir í kringum mótmælendur þegar atburðirnir gerðust og hann hafi ekki talið sig vera innan neins vinnusvæðis. Ákærði kvað sér hafa verið boðið fyrir hádegi, þegar hann var handtekinn í fyrra skiptið, að ganga frá brotinu með sektargerð en hann hafnað því. Ákærði var inntur eftir skýringu í lögregluskýrslu sinni um að hann hafi verið máttlaus þegar lögreglan bar hann út af svæðinu. Kvaðst ákærði hafa verið að lýsa máttleysi yfirvalda í þessu máli almennt við lögreglumanninn og sagt honum að hann væri líklega bara jafn máttlaus og yfirvöld vegna þessa. Því hafi lögreglan þurft að bera hann af svæðinu.
Vitnið A lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvað ákærða hafa verið gefin ítrekuð fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið áður en hann var handtekinn. Ákærði hafi ekki staðið upp heldur legið kyrr. Lögreglan hafi neyðst til að handtaka ákærða og bera hann út af vinnusvæðinu. Vitnið kvað ákærða hafa verið innan afmarkaðs vinnusvæðis þegar hann var handtekinn.
Vitnið B lögreglumaður kvaðst hafa komið að handtöku ákærða. Staðfesti vitnið að öllum á svæðinu hafi verið gefin skýr fyrirmæli um að yfirgefa svæðið sem búið var að afmarka. Allir sem vitnið kom að og handtók hafi fengið skýr fyrirmæli um að yfirgefa svæðið og ef því hafi ekki verið hlýtt hafi þeir verið handteknir. Vitnið kvaðst sjálft hafa gefið ákærða fyrirmæli um að yfirgefa svæðið áður en hann var handtekinn. Kvað vitnið um tíu til fimmtán mínútur hafa liðið frá því að fólki voru gefin sérstök fyrirmæli um að yfirgefa svæðið og þar til farið var í að framfylgja þeim með handtökum. Vitnið kvað framkvæmdaraðila á svæðinu hafa sett upp keilur til að loka fyrirhugaðri leið vinnuvéla og þannig afmarkað væntanlegt vinnusvæði.
Vitnið Sesselja Guðmundsdóttir, ákærða í máli S-6/2014, gaf skýrslu sem vitni í máli þessu. Vitnið kvaðst hafa setið við hliðina á ákærða þegar hann var handtekinn. Ákærði hafi verið að ræða á lágum nótum við lögreglumenn í rólegheitum í nokkra stund og vitnið heyrt að ákærði hafi sagst vera máttfarinn og ekki geta staðið upp. Annað hafi vitnið ekki heyrt. Lögreglan hafi þá komið með börur og flutt hann. Vitnið kvað að ekki hafi verið búið að afmarka vinnusvæðið þegar vitnið kom að en menn hafi verið að vinna við að merkja svæðið á meðan þau sátu þarna en það hafi ekki verið lokað í endann. Vitnið kvað enga hættu hafa stafað af ákærða og hann ekki sýnt ofbeldi.
Vitnið C, sonur ákærða, gaf skýrslu fyrir dóminum. Gætt var ákvæða 117. gr. laga nr. 88/2008. Vitnið kvaðst hafa setið á þúfu ásamt ákærða og kannski hafi verið um hundrað metrar í gröfuna. Þeir hafi síðan verið afgirtir með tveimur línum þar sem þeir sátu. Lögreglumenn hafi komið að þeim og beðið þá um að yfirgefa svæðið. Þeir hafi fengið tiltölulega skýr fyrirmæli um að fara út af svæðinu, sem vitnið hafi gert en ákærði ekki, ákærði hafi bara setið áfram og ekki gert neitt. Einhverjar mínútur hafi liðið frá því og þar til ákærði var handtekinn.
Vitnið D, lögreglumaður og stjórnandi á vettvangi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið stjórnandi aðgerða á vettvangi. Kvaðst vitnið aðspurt ekki muna hversu lengi undirbúningur aðgerða hafi staðið en lögregla hefði margoft verið búin að fara á svæðið vegna mótmæla á fyrri stigum. Aðspurt um sektargerðir frá föstudeginum 18. september 2013 kvaðst vitnið ekki geta svarað fyrir um tilkomu sektargerða í málinu. Aðspurt um það hvort hafi verið búið að ákveða fyrirfram hvaða einstaklinga ætti að handtaka á mánudeginum, kvað vitnið það alls ekki vera rétt. Vitnið hafi ekkert vitað um það á föstudeginum hvað myndi gerast á mánudeginum en vitnið hafi fengið fyrirmæli á mánudagsmorgninum um að fara á vettvang vegna mótmælanna. Þá hafi enginn vitað um það hvernig verkefni lögreglunnar yrði eða myndi þróast. Vitnið kvað lögregluna margítrekað hafa reynt að fá fólkið til að fara af vettvangi en það ekki gengið eftir. Þegar ákærðu hafi verið handtekin höfðu þau öll verið handtekin fyrr um morguninn og færð af svæðinu svo að lögreglan hafi verið búin að reyna vægari úrræði áður en til handtöku kom. Þau sem hafi verið handtekin hafi öll verið innan vinnusvæðis, en hins vegar skipti það yfirleitt ekki máli hvort fólk sé innan afmarkaðs svæðis eða ekki, sé á annað borð nauðsynlegt að beita 19. gr. lögreglulaga. Kvað vitnið að í þessu tilviki hafi öllum verið gefin almenn fyrirmæli um að yfirgefa vinnusvæðið. Þeir sem ekki hafi hlýtt þeim fyrirmælum hafi fengið í framhaldi skýr fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa svæðið, og hafi því ekki verið hlýtt hafi fólk verið handtekið og flutt af svæðinu.
Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa heyrt þegar lögregla beindi þeim fyrirmælum til mótmælenda að yfirgefa vinnusvæði. Kvaðst vitnið sjálft hafa sætt handtöku. Vinnusvæðið hafi eingöngu verið markað með keilum og böndum og hafi svæðið sífellt verið á hreyfingu. Taldi vitnið að bæði mótmælendum og lögreglu hafi stundum stafað hætta af vinnuvélum innan svæðisins.
Önnur sönnunargögn.
Upplýsingaskýrsla lögreglu liggur fyrir í málinu og er hún rakin undir kaflanum „málsatvik“. Þá liggur fyrir skýrsla lögreglu um handtöku ákærða fyrr um morguninn eða kl. 11:02. Var ákærði þá borinn út af vinnusvæði, sem búið var að loka af og ákærði neitaði að yfirgefa, en sleppt að því loknu.
Skýrsla lögreglu vegna síðari handtökunnar liggur einnig fyrir og þá mótmælti ákærði því að hafa verið inni á merktu vinnusvæði og mótmælti því að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu.
Ákærði lagði fram fjölda ljósmynda sem teknar voru umræddan dag en eru þó ótímasettar. Þá lagði ákærði einnig fram myndband, sem sett hafði verið saman um mótmælin í Gálgahrauni og handtökur og úr fréttatíma RÚV. Að auki lagði ákærði fram útskrift úr fésbókarsíðu F og athugasemdir við fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Forsendur og niðurstöður.
Ekki er ágreiningur um að ákærði ásamt fleira fólki var í Gálgahrauni umrætt sinn í þeim tilgangi að mótmæla væntanlegri vegagerð í gegnum hraunið.
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og skv. 2. mgr. á hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þetta segir að tjáningarfrelsið er takmarkað þannig að það gengur ekki lengra en önnur stjórnarskrárvarin réttindi manna, t.d. varðandi eignarétt og almannaheill. Í máli þessu höfðu þar til bær stjórnvöld tekið ákvörðun um að leggja veg um Gálgahraun og ekki liggur annað fyrir í málinu en að þau hafi haft þar til bær réttindi og heimildir til að leggja umþrættan veg. Þá liggur fyrir að lögregla eða framkvæmdaraðili Vegagerðarinnar færði til merkingar, sem voru keilur og borðar, eftir því sem verkið vannst til. Þýddi það að færa þurfti merkingar til sem afmörkuðu fyrirhugað vinnusvæði. Við það hafi einhver hluti mótmælenda lent innan merkinga á væntanlegu vinnusvæði. Af myndbandi því, sem ákærði lagði sjálfur fram, má sjá og heyra lögreglu ítrekað biðja mótmælendur í gegnum gjallarhorn að fara út af vinnusvæðinu. Hefur það ekki farið fram hjá neinum þeirra sem voru í næsta nágrenni lögreglu.
Ákærði krefst sýknu í máli þessu og kveðst ekki hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Í málinu liggur fyrir fjöldi ljósmynda sem ákærði lagði fram. Eru þær teknar af fréttaveitum og af einstaklingum sem ekki liggur fyrir hverjir eru. Verður að taka ljósmyndum þessum með fyrirvara um sönnunargildi þeirra, en ekki er ljóst af þeim hvenær dags eða í hvaða tilgangi þær voru teknar.
Málsvörn ákærða byggist á því að aðgerðir lögreglu hafi stangast á við stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar ákærði í 73. og 74. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. og 11. gr. Mannréttindasáttmálans. Hafi aðgerðir lögreglu haft það eina markmið að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli ákærða og annarra sem þar hafi verið staddir. Þá hafi aðgerðir lögreglu haft annarlegan tilgang sem hafi verið sá að fá fólk til að gerast brotlegt við lög og í þeim tilgangi að geta brotið mótmælin á bak aftur. Í því skyni hafi lögregla stækkað afmarkað svæði jafnóðum og búið var að vísa fólki út fyrir fyrra svæði. Í kjölfarið hafi lögregla gripið til alvarlegra aðgerða sem hafi verið handtökur og frelsissviptingar og í mörgum tilfellum vistun í fangaklefa.
Ákærði byggir á því að hann hafi átt stjórnarskrárbundinn rétt til að mótmæla, svo framarlega sem það væri gert á friðsaman hátt. Engu ofbeldi hafi verið beitt í umrætt sinn og þá hafi hann ekki sýnt neinn mótþróa þegar lögreglan handtók hann. Þá taldi ákærði þá hagsmuni sína og réttindi til að halda uppi lögmætum mótmælum meiri en þá hagsmuni Vegagerðarinnar að eyðileggja Gálgahraun. Þá hafi skilyrði 19. gr. lögreglulaga ekki verið uppfyllt, enda hafi ákærði mátt vera þarna þar sem um lögmætan tilgang var að ræða og hann hafi verið utan merkts svæðis og að auki hafi hann ekki verið ógnandi né hafi verið um uppþot að ræða.
Af myndskeiði sem ákærði lagði fram má sjá að nokkrir mótmælendur leggjast flötum beinum á jörðina rétt fyrir framan tönn jarðýtunnar og hlusta á lögreglumann vísa þeim burt af svæðinu en þau mótmæla. Engar tímasetningar eru á myndbandinu svo að ekki er ljóst hvort um var að ræða mótmæli fyrir eða eftir hádegi. Hins vegar sjást vel afmarkanir svæðisins með keilum og borðum sem átti ekki að dyljast neinum sem horfði yfir athafnasvæðið. Þá heyrist einnig á myndskeiðinu að lögregla hvetur fólk ítrekað í gjallarhorni að fara út fyrir vinnusvæðið.
Ákærða Kristni er gefið að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu í umrætt sinn en hann kvaðst hafa verið í hrauninu í lögmætum tilgangi þegar hann var handtekinn. Þá neitaði ákærði að hafa fengið fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa vinnusvæði en kvaðst hafa átt samræður við lögreglumenn áður en hann var handtekinn.
Í ákærunni er ákært fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og brotið talið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga. Ákærði taldi sig vera í fullum rétti við mótmælaaðgerðir sínar í umrætt sinn og hafi lögregla gengið á rétt hans með aðgerðum sínum. Margar lærðar greinar hafa verið skrifaðar um rétt einstaklinga til skoðana- og tjáningarfrelsis og er sá réttur bundinn í 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33 frá 1944 en þar segir í 1. mgr.: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.“ Í 2. mgr. segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. segir að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Samkvæmt 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, til að gæta öryggis einstaklinga og almennings eða til að afstýra brotum eða stöðva þau. Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að vísa fólki á brott eða fjarlægja það og fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim. Í 19. gr. er síðan að finna almennt ákvæði sem kveður á um skyldu borgaranna til að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Það er meginregla íslenskrar stjórnskipunar að enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt ákærði teldi sig hafa ástæðu til að draga í efa að heimilt væri að ganga svo langt sem raun ber vitni við vegaframkvæmdir, veitti það ekki rétt til að hindra framkvæmdir hennar á þann hátt, sem ákærði gerði.
Í máli þessu liggur fyrir að ákærði hlýddi ekki augljósum fyrirmælum lögreglu um að fara út af vinnusvæðinu og láta af aðgerðum sínum að því marki sem hann gekk á rétt annarra til að halda áfram lögmætum framkvæmdum og voru aðgerðir lögreglu því nauðsynlegar í umrætt sinn og samrýmast heimildum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Samkvæmt framburði vitnanna B lögreglumanns, sem kvaðst sjálfur hafa gefið ákærða fyrirmæli um að yfirgefa svæðið, Sesselju Guðmundsdóttur, sem kvaðst hafa heyrt ákærða ræða við lögreglumann í lágum hljóðum, og sonar ákærða, C, sem kvaðst hafa hlýtt fyrirmælum lögreglunnar þegar hún bað þá um að yfirgefa vinnusvæðið, telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærði hafi óhlýðnast fyrirmælum lögreglu eins og greinir í ákæru. Átti ákærða því að vera fullljóst að hann var að fara gegn fyrirmælum lögreglu. Þá breytir engu þótt ákærði hafi ekki neitað að yfirgefa svæðið, heldur felast í þeirri háttsemi einni að standa ekki upp og yfirgefa svæðið þegar honum var fyrirskipað það, þannig að lögregla þurfti að bera ákærða af svæðinu, mótmæli við fyrirmælum lögreglu.
Auk þess telur dómurinn engu máli skipta hvort merkingar hafi verið komnar áður eða eftir að ákærði kom inn á svæðið, þar sem honum mátti vera fullljóst að þegar lögreglan bað hann að fara af svæðinu var ákærði þá þegar innan merkinga um vinnusvæði.
Telur dómurinn ákæruvaldið hafa fært fram lögfulla sönnun þess að ákærði hafi gerst brotlegur eins og greinir í ákæru og verður honum gerð refsing fyrir. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður. Þrátt fyrir að ákærði hafi verið í friðsamlegum mótmælum í Gálgahrauni umrætt sinn, þá verður sá tilgangur ekki metinn honum til refsilækkunar í máli þessu þar sem mótmæli ákærða gengu lengra en stjórnarskrárvarinn réttur hans var. Er þeirri málsástæðu hafnað.
Er refsing ákærða ákveðin 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í átta daga. Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem eru málflutningslaun skipaðs verjanda hans, Skúla Bjarnasonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Kristinn Guðmundsson, greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta daga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem eru málflutningslaun skipaðs verjanda hans, Skúla Bjarnasonar hrl., 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.