Hæstiréttur íslands
Mál nr. 533/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 10. október 2011. |
|
Nr. 533/2011.
|
Hafþór Ingi Jónsson (sjálfur) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.) Páli Þór Magnússyni og Jóni Guðmanni Þórissyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
H átti í viðskiptum með skuldbréf við V hf. Gerðu aðilar með sér samkomulag um uppgjör vegna viðskiptanna sem reist var á niðurstöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, með það fyrir augum að H yrði eins settur og ef aldrei hefði orðið af viðskiptum aðila. H höfðaði mál á hendur S hf., ábyrgðartryggjanda V hf., og þeim P og J, varaformanni stjórnar V hf. og forstjóra, til heimtu skaðbóta þar sem H hélt því fram að V hf. hefði ekki staðið við áðurgreint samkomulag um greiðslur. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi vegna vanreifunar þar sem H hefði ekki í kröfugerð sinni tekið tillit til þátta sem hefðu áhrif á ætlað fjárhagslegt tjón hans. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til þess að V hf. hefði greitt inn á kröfu H en í héraðsdómsstefnu hans hefði hvorki verið tekið tillit til þessa né gerð viðhlítandi grein fyrir innborgununum.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Af gögnum málsins má sjá, að sóknaraðili fékk greitt frá VBS Fjárfestingabanka hf. inn á kröfu sína 14.649.485 krónur 12. nóvember 2008 og 23.132.086 krónur 3. febrúar 2009. Ekki er tekið tillit til þessara innborgana í kröfugerð sóknaraðila í héraðsdómsstefnu og þar er heldur ekki gerð nein viðhlítandi grein fyrir þeim. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hafþór Ingi Jónsson, greiði hverjum varnaraðila, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Páli Þór Magnússyni og Jóni Guðmanni Þórissyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2011.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. ágúst 2011, er höfðað 8. desember 2010, af Hafþóri Inga Jónssyni, Þórðarsveig 2 í Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík, Páli Þ. Magnússyni, Eskiholti 20 í Garðabæ, og Jóni G. Þórissyni, Unnarbraut 2 á Seltjarnarnesi.
Dómkröfur stefnanda voru tilgreindar orðrétt með eftirfarandi hætti í stefnu:
1. Að viðurkennt verði með dómi niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum frá 2. nóvember 2010 í máli nr. 236/2010, þ.e. að stefnandi eigi rétt á bótum úr stjórnendaábyrgðartryggingu VBS Fjárfestingabanka hf., kt. 621096-3039, skírteinisnúmer FJ-19261, hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
2. Að stefndu verði gert in solidum að greiða stefnanda kr. 90.296.547,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 89.484.047,- frá 1. febrúar 2010 til 15. nóvember 2010 en af kr. 90.296.547,- frá þeim degi til greiðsludags.
3. Stefnandi gerir kröfu um að stefndu in solidum greiði honum málskostnað. Aðallega er krafist málskostnaðar á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna í málinu en til vara skv. tímagjaldi. Þá er gerð krafa á hendur stefndu um greiðslu virðisaukaskatts (nú 25,5%) á tildæmdan málskostnað. Sundurliðaður málskostnaðarreikningur verður lagður fram af hálfu stefnanda eigi síðar en við aðalmeðferð málsins.
Hið stefnda félag, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst þess aðallega að öllum kröfum stefnanda á hendur sér verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Til vara er þess krafist að hið stefnda félag verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og hann dæmdur til að greiða því málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Að því frágengnu krefst félagið að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður.
Stefndu, Páll og Jón, krefjast hvor um sig sýknu af kröfu stefnanda auk málskostnaðar.
Málflutningur fór fram um frávísunarkröfu hins stefnda félags 30. ágúst 2011 og er einungis sá þáttur hér til úrlausnar. Í þinghaldinu lagði stefnandi fram bókun þar sem hann féll frá viðurkenningarkröfu sinni í 1. tölul. dómkrafna sinna. Þá boðaði hann að fjárkrafa hans myndi lækka um 812.500 krónur sem yrði þess í stað liður í málskostnaðarkröfu stefnanda. Að öðru leyti krafðist stefnandi að frávísunarkröfunni yrði hrundið og honum úrskurðaður málskostnaður í þessum þætti málsins samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefndu, Páls og Jóns, er ekki gerð sérstök krafa um að málinu verði vísað frá dómi. Í greinargerð þeirra er það hins vegar látið í vald dómara að ákveða hvort nánar tiltekin atriði í málatilbúnaði stefnanda eigi að valda frávísun málsins.
II.
Málsatvik
Stefnandi var í viðskiptum við VBS Fjárfestingabanka hf. en þessir aðilar munu hafa gert með sér samning 2. október 2006 um svonefnda öryggisvörslu. Á þeim grundvelli keypti stefnandi 23 skuldabréf að nafnverði 4.000.000 króna hvert, en þau höfðu verið gefin út af Hörðukór 3 ehf. og tryggð með fyrsta veðrétti í einstökum eignarhlutum fasteignarinnar að Hörðukór 3 í Kópavogi. Kaupverð bréfanna nam samtals 80.529.739 krónum eða 3.501.293 krónum hvert.
Stefnandi seldi fyrrgreind bréf 27. ágúst 2007 á 3.925.060 krónur hvert. Sama dag keypti stefnandi alls 39 skuldabréf sem voru hvert að nafnvirði 2.700.000 krónur. Þessi bréf voru tryggð með öðrum veðrétti í landi Laugardæla og Uppsala í Flóahreppi í Árnessýslu. Kaupverð hvers bréfs var 2.295.511 krónur eða samtals 89.524.929 krónur. Skuldari þeirra var Fjárfestingafélagið Ferjuholt ehf. en í gögnum málsins kemur fram að dótturfélag VBS Fjárfestingabanka, Fremd ehf, hafi átt 28% hlut í Ferjuholti ehf. Að öðru leyti mun Ferjuholt ehf. hafa verið í eigu Eignasmára ehf. Bréf þessi voru ekki greidd á gjalddaga 20. ágúst 2008.
Í framlögðum gögnum kemur fram að framangreind skuldabréf hafi verið seld 12. og 13. nóvember 2008. Í kjölfar þess virðist stefnandi hafa fengið greitt inn á kröfuna 14.649.485 krónur hinn 13. nóvember 2008 og 23.132.086 krónur hinn 3. febrúar 2009. Í stefnu og öðrum gögnum málsins kemur einnig fram að stefnandi hafi jafnframt fengið ellefu veðskuldabréf með gjalddaga 1. október 2011 sem tryggingu fyrir því sem eftir stæði af skuldinni.
Stefnandi kvartaði til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki í febrúar 2009 yfir viðskiptum sínum við VBS Fjárfestingabanka hf. Í úrskurði sínum 17. september 2009 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði með skuldabréfaviðskiptunum 27. ágúst 2007 farið á svig við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og hagsmuni stefnanda, sbr. 4. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í samræmi við það var talið rétt að stefnandi yrði eins settur og ef aldrei hefði orðið af kaupunum á þessum skuldabréfum. Var bankanum því gert að greiða stefnanda heildarkaupverð bréfanna, samtals 89.524.929 krónur með almennum vöxtum frá 27. ágúst 2007 til 16. mars 2009 og dráttarvöxtum frá þeim degi. Til frádráttar skyldu koma fyrrgreindar innborganir bankans auk þess sem bankanum var gert að framselja stefnanda ellefu verðtryggð skuldabréf, sem stefnandi hafði fengið við uppgjör aðila, hverju að fjárhæð 5.000.000 krónur, en þau voru tryggð með fyrsta veðrétti í fasteigninni Dalvegi 30 í Kópavogi.
Stefnandi og VBS Fjárfestingabanki hf. gerðu með sér sértsakt samkomulag 26. október 2009 um uppgjör á grundvelli niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt samkomulaginu nam skuldin 23. október 2009 85.329.000 krónum. Skyldi sú upphæð uppfærð til 1. febrúar 2010 miðað við þágildandi dráttarvexti og fjárhæðin, 89.697.000 krónur, sett á skuldabréf. Skuldbatt bankinn sig til að greiða skuldina með ellefu, mánaðarlegum greiðslum tíunda hvers mánaðar, fyrst 10. febrúar 2010. Í samkomulaginu kom fram að ef breyting yrði á dráttarvöxtum til 1. febrúar 2010 skyldi taka tillit til þess við lokagreiðslu 10. desember 2010. Í niðurlagi samkomulagsins kom fram að til tryggingar á réttum og skilvísum greiðslum skyldi stefnandi hafa þau ellefu veðskuldabréf, sem kveðið var á um í úrskurðarorði, að handveði þar til skuldin væri að fullu greidd. Stefnandi kveður bankann ekki hafa greitt samkvæmt skuldabréfinu en hann sé nú í slitameðferð. Fram kemur í stefnu að stefnandi hafi lýst kröfu í bú bankans vegna ofangreindrar skuldar.
Stefnandi leitaði því næst til stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., en VBS Fjárfestingabanki hf. var þar með starfsábyrgðartryggingu verðbréfamiðlara og svonefnda stjórnendaábyrgðartryggingu (D&O trygging). Þegar umrædd viðskipti áttu sér stað var stefndi Páll varaformaður stjórnar fjárfestingabankans og stefndi Jón forstjóri hans. Af hálfu hins stefnda tryggingafélags var bótaábyrgð úr síðarnefndu tryggingunni hafnað og leitaði stefnandi þá til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum í ágúst 2010. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 2. nóvember 2010 og komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á bótum úr umræddri tryggingu. Vísaði úrskurðarnefndin m.a. til þess að þegar stefnandi leitaði fyrst til Fjármálaeftirlitsins í desember 2008 og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki í febrúar 2009 hefði tryggingin verið í gildi. Þá taldi nefndin að forstjóri VBS Fjárfestingabanka hf. hefði borið ábyrgð á skorti á upplýsingagjöf og að það hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda.
Með bréfi 15. nóvember 2010 tilkynnti stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., að félagið myndi ekki hlíta framangreindum úrskurði.
III.
1. Helstu málsástæður stefnanda samkvæmt stefnu
Um bótaábyrgð stefndu vísar stefnandi einkum til niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum eins og nánari grein er gerð fyrir í stefnu. Að auki byggir stefnandi á því að umrædd stjórnendaábyrgðartrygging hafi verið í fullu gildi gagnvart sér sem tjónþola alveg óháð því hvort viðkomandi vátryggingarsamningur milli stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. og VBS Fjárfestingabanka hf. kunni að hafa verið fallinn úr gildi 22. júní 2009, eins og byggt hafi verið á af hálfu stefnda. Um ábyrgðartryggingu sé að ræða og óheimilt hafi verið að víkja frá fyrirmælum laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga í skilmálum tryggingarinnar. Um þetta vísar stefnandi til 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna sem og 44. og 46. gr. þeirra.
Til stuðnings bótaábyrgð stefndu Jóns og Páls, sem stefnandi telur að hafi verið aðalstjórnendur VBS Fjárfestingabanka hf. þegar hin umdeildu viðskipti áttu sér stað, vísar stefnandi til þess að eigandi að 72% hlut í Fjárfestingafélaginu Ferjuholti ehf., sem hafi verið skuldari umræddra skuldabréfa, hafi verið einkahlutafélagið Eignasmári, sem hafi í raun verið í eigu tiltekins, nafngreinds manns sem hafi hlotið allmarga refsidóma. Stefnandi byggir á því að aðalstjórnendur fjárfestingabankans hafi haft vitneskju um þessa fortíð mannsins. Hafi þeir brotið gegn starfsreglum og skyldum fjármálafyrirtækja sem og almennum skaðabótareglum, m.a. með því að upplýsa ekki stefnanda um brotaferil hans. Þá hafi stjórnendur bankans tekið mikla áhættu með þátttöku í þessu verkefni í samstarfi við viðkomandi aðila. Þeirri áhættu hafi verið velt yfir á venjulegan viðskiptamann sem hafi verið í góðri trú og látið glepjast af gylliboðum um góða og örugga fjárfestingu. Telur stefnandi að með þessu hafi aðalstjórnendur VBS Fjárfestingabanka hf. bakað sér persónulega skaðabótaábyrgð gagnvart sér og að hið stefnda vátryggingafélag beri þar með skyldu á grundvelli umræddrar tryggingar til að bæta hið fjárhagslega tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna viðskiptanna.
Stefnandi telur enn fremur að hinir stefndu stjórnendur VBS Fjárfestingabanka hf. hafi bakað sér bótaskyldu vegna skorts á upplýsingum þegar til viðskipta með umrædd bréf var stofnað sem og þeim hagsmunaárekstri sem til staðar hafi verið vegna aðildar dótturfélags bankans að rekstri Ferjuholts ehf. Um þessi atriði vísar stefnandi til úrskurðar úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Ekki stoði að umræddir stjórnendur beri fyrir sig að almennir starfsmenn bankans hafi gert mistök við upplýsingagjöf til stefnanda. Þá hljóti stjórnendur bankans að bera ábyrgð á þeim hagsmunaárekstri sem til staðar hafi verið.
Stefnandi vísar enn fremur til þess að VBS Fjárfestingabanki hf. hafi vitað að skuldari Hörðukórsbréfanna gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt bréfunum. Þessum upplýsingum hafi verið haldið leyndum þegar stefnandi var fenginn til að nota andvirði þeirra til að kaupa Laugardælabréfin svokölluðu. Ef stefnandi hefði vitað um þau vandamál sem uppi voru í tengslum við Hörðukórsverkefnið hefði hann ekki hugleitt að kaupa Laugardælabréfin. Telur stefnandi að með þessu hafi bankinn losnað tímabundið undan greiðsluskyldu. Hafi hér skort mjög á alla eðlilega varúð og upplýsingagjöf og byggir stefnandi á því að um vítaverða vanrækslu hafi verið að ræða, sérstaklega af hálfu stjórnenda VBS Fjárfestingabanka hf. Leiði þessi afglöp sjálfstætt og óháð til persónulegrar bótaábyrgðar hinna stefndu stjórnenda.
2. Helstu málsástæður stefnda, Sjóvá Almennra trygginga hf., fyrir því að vísa beri málinu frá dómi
Stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., byggir frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda sé svo óskýr og vanreifaður að ekki sé unnt að leggja efnisdóm á málið. Annmarkarnir séu svo verulegir að ekki sé hægt að bæta úr þeim undir rekstri málsins án þess að hið stefnda félag verði fyrir réttarspjöllum og að hætta sé á að vörnum þess verði áfátt af þeim sökum.
Hið stefnda félag vísar m.a. til þess að sundurliðun fjárkröfu stefnanda í stefnu sé verulega ábótavant. Einhverjir dráttarvextir virðist vera hluti af höfuðstól kröfunnar en ekki sé gerð viðhlítandi grein fyrir fjárhæð þeirra eða útreikningum að baki höfuðstól.
Þá er vísað til þess að það liggi fyrir að stefnandi hafi lýst kröfu í bú VBS Fjárfestingabanka hf. en ekki liggi fyrir fjárhæð þeirrar greiðslu sem stefnandi kunni að fá úr búinu. Jafnframt liggi fyrir að stefnandi hafi tekið við ellefu nánar tilgreindum skuldabréfum til tryggingar á eftirstöðvum kröfu sinnar á hendur VBS Fjárfestingabanka hf. Samkvæmt þessu telur hið stefnda félag að það sé með öllu óljóst hvort stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni og þar sem ekki hafi verið upplýst um þessar greiðslur verði ekki lagður efnisdómur á málið.
Hið stefnda félag telur því að málatilbúnaður stefnanda sé svo óskýr að ekki samræmist meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Því beri að vísa málinu frá á grundvelli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Sjónarmið sem stefndu, Páll og Jón, telja að geti valdið frávísun málsins.
Stefndu benda á að málatilbúnaður stefnanda sé um margt óljós t.d. varðandi kröfufjárhæðina. Bent er á að VBS Fjárfestingabanki hf. hafi þegar greitt inn á tjónið auk þess sem stefnandi hafi lýst því yfir að hann eigi rétt til vátryggingabóta úr vátryggingu verðbréfamiðlara. Auk þess hafi stefnandi skuldabréf að nafnvirði 55.000.000 króna sem tryggingu. Því láti nærri að tjón stefnanda sé ekkert eða í það minnsta óverulegt. Bótakrafan sé því vanreifuð.
Þá vísar stefndi Páll til þess að ekki verði betur séð en að stefnanda hafi borið að stefna öllum stjórnarmönnum VBS Fjárfestingabanka hf. sem voru í stjórn félagsins þegar stefnandi keypti hin umdeildu Laugardælabréf. Einstakir stjórnarmenn hlutafélaga geti ekki borið ábyrgð á störfum stjórnar og ábyrgð stjórnarmanna sé almennt óskipt. Ábyrgðartrygging sú sem stefnandi reisi kröfu sína á hafi verið tekin fyrir VBS Fjárfestingabanka hf. vegna hugsanlegra skaðaverka stjórnenda og stjórnar. Bankinn hafi verið hinn vátryggði samkvæmt c-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Ekki séu færð rök fyrir því í stefnu hvernig einn stjórnarmaður geti ásamt forstjóra og vátryggingafélagi borið solidaríska ábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda.
Stefndi Jón tekur einnig fram að allan rökstuðning vanti fyrir því á hvaða lagagrunni hann eigi að bera solidaríska ábyrgð á fjárkröfunni með meðstefndu.
4. Sjónarmið stefnanda um frávísunarkröfuna
Stefnandi mótmælir því að einhverjir þeir annmarkar séu á málatilbúnaði hans sem eigi að leiða til frávísunar málsins. Í stefnu sé fjallað sérstaklega á bls. 9 um það með hvaða hætti fjárkrafan sé fundin út. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna fór stefnandi nánar yfir útreikning hennar. Stefnandi bendir einnig á að ekkert sé fast í hendi varðandi þá frádráttarliði sem kunni hugsanlega að koma til. Þá komi þau ellefu skuldabréf sem hann hafi að handveði máli þessu ekki við en þau séu í eigu slitastjórnar VBS Fjárfestingabanka hf. Hann muni aðeins nota þau bréf ef hann fái ekki kröfuna greidda annars staðar frá og verði fallist á kröfu hans í þessu máli muni hann skila þeim. Ekki séu líkur á því að hann fái mikið greitt úr þrotabúi VBS Fjárfestingabanka hf. og hafi hann útbúið sérstaka framsalsyfirlýsingu þar sem hann framselur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., hverja þá greiðslu sem hann kunni að fá við slitin. Þá mótmælir stefnandi að einhverjir dráttarvextir séu hluti af höfuðstól kröfunnar. Auk þess hafnar hann því að stjórnarmenn bankans eigi óskipta aðild að sakarefninu.
IV.
Eins og rakið hefur verið er mál þetta höfðað til greiðslu bóta vegna viðskipta við VBS Fjárfestingabanka hf. með 39 skuldabréf 27. ágúst 2007. Fyrir liggur samkomulag milli stefnanda og bankans um uppgjör vegna þeirra viðskipta sem reist er á úrskurði úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þessu samkomulagi er lýst í II. kafla hér að framan, en eins og þar kemur fram fól það í sér að bankinn gaf út skuldabréf að fjárhæð 89.697.000 krónur til stefnanda auk þess sem hann fékk ellefu veðskuldabréf að handveði til tryggingar á greiðslu. Ekki mun hafa verið greitt af fyrrgreindu skuldabréfi.
Af stefnu verður ráðið með nægilega skýrum hætti að stefnandi reisi kröfu sína á því á því að hann hafi orðið fyrir tjóni í fyrrgreindum viðskiptum 27. ágúst 2007. Þá er ljóst af lestri stefnunnar að hann byggir á því að þetta tjón megi rekja til saknæmrar háttsemi stjórnenda VBS Fjárfestingabanka hf., annars vegar forstjórans, stefnda Jóns, og hins vegar varaformanns stjórnar bankans, stefnda Páls. Á þeim grundvelli telur stefnandi sig eiga rétt á greiðslu úr stjórnendaábyrgðartryggingu sem VBS Fjárfestingabanki ehf. var með hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Endanleg krafa stefnanda er um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar sem hann telur svara til þess fjárhagslega tjóns sem hann hafi orðið fyrir í þessum viðskiptum. Í stefnu er gerð nokkur grein fyrir þessari kröfugerð. Þar kemur fram að krafan sé tvíþætt. Annars vegar sé hún „vegna beins tjóns“ sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir „og nánar er gerð grein fyrir í samkomulagi“ hans við VBS Fjárfestingabanka hf. Nemi hún 89.484.047 krónum „auk lögmæltra dráttarvaxta, sbr. nánar um leiðréttingu höfuðstóls“ sem stefnandi lýsir nánar síðar í stefnunni. Í stefnu kemur einnig fram að stefnandi hafi bætt við stefnufjárhæðina 812.500 krónum sem stefnandi skilgreinir sem „sanngjarnt endurgjald vegna vinnu“ við málskot til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Eins og fram hefur komið boðar stefnandi að fallið verði frá þessum kröfulið.
Til útskýringar á fyrrnefndu kröfunni að fjárhæð 89.484.047 krónur segir eftirfarandi í stefnu: „Fjárhagslegir hagsmunir mínir í stefnu þessari miðað við 30. nóvember 2010 nema kr. 101.638.758,- þ.e. höfuðstóll kr. 90.296.547,- og dráttarvextir kr. 11.342.211,-. Einhverjir liðir kynnu að koma til frádráttar og horfi ég þar helst til starfsábyrgðartryggingar verðbréfamiðlara, sem á þessu stigi er ekki tilbúin til afgreiðslu og útborgunar. Varðandi handveðsskuldabréfin, sem ég hef til tryggingar bótagreiðslum, eru þau í eigu VBS nú slitastjórnar og þarf ég að skila þeim fái ég tjón mitt bætt annars staðar frá. En eins og málið stóð hinn 30. nóvember s.l. nemur hið fjárhagslega tjón mitt framangreindri fjárhæð kr. 101.638.758,- enda ekkert fast í hendi með hugsanlega frádráttarliði. Það athugist að stefnufjárhæðin að stærstum hluta tekur mið af samkomulaginu á dskj. 17 þ.e. uppfærð kröfufjárhæð pr. 1. febrúar 2010 kr. 89.697.000,- og var sú fjárhæð sett á skuldabréf á dskj. nr. 18. Átti fjárhæðin síðan að taka breytingum með hliðsjón af þróun dráttarvaxta, sem lækkuðu fram til 1. febrúar s.l. og er þannig fundinn út höfuðstóll stefnufjárhæðar að þessu leyti kr. 89.484.047,-. Ekki ætti að vera tölulegur ágreiningur í málinu um þennan þátt kröfu minnar enda aðeins um að ræða útreikning dráttarvaxta á tiltekinn höfuðstól.“
Þessi útlistun er ekki að öllu leyti skýr þar sem hið fjárhagslega tjón er talið vera 101.638.758 krónur meðan stefnufjárhæðin er 89.484.047 krónur, en ekki er útskýrt hvaða þýðingu innborganir VBS Fjárfestingabanka hf. hafa í því samhengi. Þó er ljóst að fjárkrafan tekur mið af höfuðstól skuldabréfsins sem gefið var út á grundvelli samkomulagsins milli stefnanda og VBS Fjárfestingabanka hf. 26. október 2009 að teknu tilliti til leiðréttingar vegna lækkunar á dráttarvöxtum frá útgáfudegi skuldabréfsins til 1. febrúar 2010. Ekki er hins vegar gerð nægjanleg grein fyrir því á hvaða tölulegu forsendum leiðréttingin er reist og þar með hvernig endanleg kröfufjárhæð er fundin út.
Enn fremur háttar svo til í máli þessu að uppgjör hefur farið fram vegna hinna umdeildu viðskipta á grundvelli niðurstöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. samkomulag stefnanda við VBS Fjárfestingabanka hf. frá 26. október 2009. Fjárhagslegt tjón stefnanda af viðskiptunum hlýtur að lokum að ráðast af endurheimtum stefnanda á grundvelli þessa uppgjörs. Fyrir liggur að stefnandi hefur lýst kröfu við slit á þrotabúi VBS Fjárfestingabanka hf. á grundvelli skuldabréfsins, dags. 26. október 2010, en ekki liggur fyrir hvort, og þá hve mikið, stefnandi kunni að fá greitt upp í kröfur sínar úr búinu. Þá liggur fyrir að stefnandi hefur ellefu veðskuldabréf bankans að handveði til tryggingar á greiðslum samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi. Í stefnu, eða framlögðum gögnum málsins, kemur ekkert fram um að samið hafi verið um takmarkanir á rétti stefnanda samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð til að krefja og taka á móti vöxtum og afborgunum af þessum skuldabréfum. Í kröfugerð stefnanda er ekki tekið tillit til þessara þátta sem ljóslega hafa þó afgerandi áhrif á hið fjárhagslega tjón sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir og stefndu beri að bæta. Eins og kröfugerðin er úr garði gerð, og að teknu tilliti til þess hvernig stefnandi lýsir fjárhagslegu tjóni sínu í stefnu, telur dómurinn að málatilbúnaður stefnanda stangist á við kröfur d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna framangreindra annmarka er óhjákvæmilegt að vísa málinu í heild frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur til stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., og 175.000 krónur til hvors stefndu, Páls Þ. Magnússonar og Jóns G. Þórissonar.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Hafþór Ingi Jónsson, greiði stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 350.000 krónur í málskostnað og stefndu, Páli Þ. Magnússyni og Jóni G. Þórissyni, hvorum um sig 175.000 krónur í málskostnað.