Hæstiréttur íslands

Mál nr. 208/2016

Rósa Gunnarsdóttir (Ólafur Örn Svansson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldabréf
  • Gengistrygging

Reifun

Aðilar deildu um hvort lán sem R tók hjá Í hf. hefði verið lán í erlendum myntum eða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Í dómi héraðsdóms var vísað til þess að yfirskrift veðskuldabréfsins hefði borið með sér að um væri að ræða veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, lánsfjárhæðin hefði fyrst verið tilgreind í erlendum gjaldmiðlum og síðan jafnvirðis í íslenskum krónum og vextir verið tilgreindir Libor og Euribor. Að þessu virtu var talið að um hefði verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Í Hæstarétti var sú niðurstaða staðfest og tekið fram skuldbindingin hefði því ekki farið í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2016. Hún krefst þess að viðurkennt verði að skuld samkvæmt veðskuldabréfi 14. júlí 2005, hafi eftir greiðslu á gjalddaga þess 7. apríl 2015 staðið í 8.909.820 krónum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á það með stefnda að veðskuldabréfið, sem málið tekur til, hafi verið í erlendum gjaldmiðlum og því fór skuldbindingin ekki í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Af þessu leiðir að stefndi verður sýknaður af kröfu áfrýjanda.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur er óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Rósa Gunnarsdóttir, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 16. nóvember sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Rósu Gunnarsdóttur, Sundlaugavegi 30, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 7. maí 2015.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi, að skuld samkvæmt veðskuldabréfi aðila nr. 519517/18-21, útgefnu hinn 14. júlí 2005, hafi eftir greiðslu á gjalddaga hinn 7. apríl 2015, staðið í 8.909.820 krónum.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi greiði honum málskostnað, að skaðlausu.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Málavextir eru þeir, að hinn 14. júlí 2005 gaf stefnandi út veðskuldabréf til Íslandsbanka.

                Fyrirsögn skuldabréfsins er „veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“.  Lánsfjárhæðin, þ.e. höfuðstólsfjárhæðin er þar fyrst tilgreind í fjórum erlendum gjaldmiðlum, sterlingspundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og fjárhæð hvers þeirra tilgreind og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum.  Vextir samkvæmt skuldabréfinu eru tilgreindir LIBOR- og EURIBOR-vextir.  Tilgreining lánsfjárhæðarinnar er í samræmi við lánsumsókn stefnanda, undirritaða sama dag. 

                Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 7. október 2008 með stoð í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.  Í framhaldi af þessu var stofnaður Glitnir banki hf., sem nú ber heiti stefnda, og var tilgreindum eignum og skuldum ráðstafað til hans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 15. október 2008, en ágreiningslaust er að hin umþrætta skuldbinding hafi verið flutt yfir til stefnda.

                Skuldabréfinu var tvívegis skilmálabreytt, fyrst hinn 18. mars 2009 og síðan 16. júní 2009.  Í skilmálabreytingunum voru eftirstöðvar skuldbindingarinnar eingöngu tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.

                Eftir setningu laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, endurreiknaði stefndi skuldbindingu stefnanda.  Það var gert samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og henni var breytt með lögum nr. 151/2010, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, en samkvæmt lagagreininni skal peningakrafa bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lán teljast ógild.  Í 3. mgr. 18. gr. segir, að vexti samkvæmt ákvæði 1. mgr. skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu nema samið sé um annað.  Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laganna skal, við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar, upphaflegur höfuðstóll skuldar vaxtareiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr.  Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag.  Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum greinarinnar.  Skuld stefnanda samkvæmt umræddu skuldabréfi var að eftirstöðvum að jafnvirði 21.446.938 króna samkvæmt þeim útreikningi miðað við 29. september 2011, og lækkaði að jafnvirði 8.616.682 króna.  Í þessum fjárhæðum var í reynd meðtalinn mismunur á annars vegar vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og erlendum vöxtum frá stofndegi kröfunnar til endurútreikningsdags.

                Stefnandi þekktist endurútreikninginn og skyldu eftirstöðvar þess, miðað við 29. september 2011, vera 21.446.938 krónur eftir endurútreikninginn.  Skuldbindingunni var þannig breytt yfir í íslenskar krónur og vextir reiknaðir af hinum nýja höfuðstól í íslenskum krónum frá þeim degi.

                Ágreiningslaust er að erlendir gjaldmiðlar skiptu ekki um hendur við efndir aðalskyldna aðila.  Stefndi kveður þó að skuldbindingin hafi líkt og aðrar sams konar skuldbindingar verið meðhöndlaðar sem skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum í bókhaldskerfum bankans.

                Með bréfi, dagsettu 30. maí 2013, tilkynnti stefnandi stefnda að ekki kæmi til frekari útreiknings lánssamningsins, þar sem Hæstiréttur hefði komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 542/2011, að lánssamningur eins og sá sem stefnandi gerði við forvera stefnda teldist erlent lán.

III

                Stefnandi byggir kröfur sínar á því að framangreint skuldabréf sé bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

                Samkvæmt dómum Hæstaréttar sé nægilegt að ef efni eða orðalag samnings er óljóst um það hvort lán sé erlent eða gengistryggt þurfi að horfa á raunverulega framkvæmd samningsins.  Stefnandi telur að dómur Hæstaréttar í máli nr. 567/2014 styðji málatilbúnað hans, en umþrætt skuldabréf sé nákvæmlega eins og það skuldabréf sem þar hafi verið til umfjöllunar.  Í dóminum segi m.a.: „... þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um áðurnefnt skuldabréf, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd eða framkvæmd að öðru leyti. ... Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki skorið úr um hvort lánið samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi sé lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið með ólögmætum hætti gengi erlendra gjaldmiðla.“

                Orðalag þess löggerning sem um sé deilt í málinu sé ekki nægilega skýrt svo að hægt sé að komast að niðurstöðu um raunverulegt inntak og eðli veðskuldabréfsins, nema með því að líta til raunverulegrar framkvæmdar þess.  Hvergi í veðskuldabréfinu, lánsumsókn eða skilmálabreytingum sé talað um að lánið sé erlent lán.

                Óumdeilt sé að lánsfjárhæðin hafi verið greidd út í íslenskum krónum og ávallt hafi verið greitt af láninu með sama hætti.  Einnig sé óumdeilt að þegar skilmálabreytingarnar hafi verið undirritaðar 18. mars 2009, 8. júní 2009 og 16. júní 2009, hafi engin breyting verið gerð þar á.  Blasi því við, að mati stefnanda, að ef horft er til framkvæmdar samningsins sé um ólögmætt gengistryggt lán að ræða. 

                Hæstiréttur hafi í framangreindum dómi í máli nr. 524/2011 komist að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu, að skuldabréf sem sé byggt á nákvæmlega sama formi og það skuldabréf sem hér sé til úrlausnar, sé ekki nægilega skýrt um það hvort lánið sé erlent eða gengistryggt.  Í framangreindu dómsmáli hafi hins vegar ekki verið lögð fram sönnunargögn um það hvort lánið hefði verið greitt út og endurgreitt í krónum eða erlendum gjaldmiðlum.  Í fyrrgreindu hæstaréttarmáli hafi stefndi byggt á því að lánið hefði verið greitt út og endurgreitt í erlendum myntum, og þar sem stefnandi hefði sönnunarbyrði um það atriði hafi málinu verið vísað frá dómi.

                Í máli því sem hér sé til úrlausnar sé í raun enginn munur á málatilbúnaðinum frá því sem hafi verið í fyrrgreindu dómsmáli nema sá að í þessu máli liggi fyrir að aðilar efndu samningsskyldur sínar með íslenskum krónum.

                Samkvæmt nýjasta dómi Hæstaréttar liggi því fyrir að efni umþrætts skuldabréfs sé ekki nægilega skýrt um það hvort lánið sé lögmætt erlent lán eða gengistryggt.  Þar sem framkvæmd samnings stefnanda þessa máls hafi verið í íslenskum krónum sé þar af leiðandi ljóst að um sé að ræða ólögmætt gengistryggt lán í skilningi 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Eftir að stefnandi breytti kröfugerð sinni gerir stefndi ekki lengur athugasemdir um fjárhæð kröfunnar, ef talið verður að lánið hafi verið íslenskt lán bundið ólögmætri gengistryggingu.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hin umdeilda skuldbinding sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum fram að áðurnefndri myntbreytingu í september 2011.

                Í fyrsta lagi sé fyrirsögn þess: „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“.  Þá hafi lánsfjárhæðin, þ.e. höfuðstólsfjárhæð, samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst verið tilgreind í fjórum erlendum gjaldmiðlum, sterlingspundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum.  Þá séu vextir samkvæmt skuldabréfinu tilgreindir LIBOR- og EURIBOR-vextir, til samræmis við að um erlent lán sé að ræða.  Í skilmálabreytingum, sem stefnandi hafi gengist undir, sé eingöngu getið hinna erlendu lánsfjárhæða og rætt um lán í erlendum gjaldmiðlum.  Af þessu leiði, bæði um einstök atriði og að samanlögðu, að umrædd skuldbinding teljist ótvírætt vera í erlendum gjaldmiðlum.

                Raunar sé það svo, líkt og stefnandi viðurkenni í málatilbúnaði sínum, að Hæstiréttur Íslands hafi margsinnis slegið því föstu að skuldbinding sem þessi sé í erlendum gjaldmiðlum. sbr. dóm Hæstaréttar frá 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011, sbr. og dóm réttarins frá 5. desember 2013 í máli nr. 446/2013, en þar, líkt og í fyrirliggjandi máli, hafi verið ráðgert að efndir aðalskyldu lántaka færu fram í íslenskum krónum, sbr. 5. gr. hinnar umdeildu skuldbindingar.  Einnig vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 7. maí 2015 í máli nr. 835/2014.

                Stefndi telur, að engin rök standi til þess að leggja dóm Hæstaréttar í máli nr. 573/2014 til grundvallar, eins og stefnandi virðist gera.  Í ljósi eldri og yngri dómafordæma réttarins væri þá sá dómur, túlkaður með þeim hætti sem stefnandi geri, í beinu ósamræmi við fyrri dóma, þ. á m. að form og efni skuldaskjala sem þessara beri það ótvírætt með sér að vera í erlendum gjaldmiðlum. 

                Skilja verði kröfu stefnanda, sem sé háð því að lánið teljist hafa verið í íslenskum krónum í öndverðu, sem svo að fram til 2. júlí 2011 sé stuðst við svokallaða „fullnaðarkvittanaaðferð“, en í því felist væntanlega að afborganir af höfuðstól skuldarinnar, sem stefnandi hafi innt af hendi, komi að fullu til frádráttar höfuðstólnum, sem beri hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga.  Fjárhæð greiddra vaxta hafi þar ekki áhrif, enda teljist þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils, en frá endurútreikningsdegi beri skuldbindingin vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010.  Breytt fjárhæð dómkröfu stefnanda taki mið af þeim útreikningi.  Við aðalmeðferð málsins féllst stefndi á fjárhæð dómkröfu stefnanda yrði talið að lánið hefði í öndverðu verið í íslenskum krónum gengistryggt, en þá væri ekki ágreiningur um að skilyrði fullnaðarkvittanareglunnar teldust vera uppfyllt.

                Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 151/2010.  Einnig vísar stefndi til almennra reglna fjármunaréttar.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Í máli þessu greinir aðila á um hvort lán, sem stefnandi tók 14. júlí 2005, hjá Íslandsbanka hf., sem stefndi leiðir rétt sinn frá, hafi verið í íslenskum krónum og bundið við gengi erlendra mynta með þeim hætti að í bága færi við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, eða hvort um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.

                Fjöldi dóma liggur fyrir þar sem reynt hefur á framangreint álitaefni.  Hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamningsins þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki tekst á hendur. 

                Umdeilt lán var veitt með því að stefnandi gaf út skuldabréf, sem bar yfirskriftina: „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum Húsnæðislán“.  Þá sagði í skuldabréfinu: „Undirritaður útgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Íslandsbanka hf. ... GBP 13.126 ... CHF 29.797 ... JPY 10.357.328 ... EUR 76.521 ... Jafnvirði í íslenskum krónum þann 14.7.2005 15.000.000“.  Í 5. lið skuldabréfsins sagði svo: „Greiðslur af láni þessu skal lántaki inna af hendi í íslenskum krónum.  Íslandsbanki skal reikna út fjárhæð hverrar afborgunar og/eða vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstefndur af allt að 10 dögum fyrir gjalddagann.“  Vextir af láninu skyldu samkvæmt skuldabréfinu vera LIBOR- og ERUIBOR-vextir.

                Eins og að framan greinir var um að ræða skuld reista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess var í erlendum gjaldmiðlum og þar sem fjárhæð skuldarinnar var skýrlega tilgreind í þremur erlendum myntum, sem sagt var að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum.  Þá voru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán væri að ræða.  Form og efni skuldaskjalsins bar því ótvírætt með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendu myntum.  Þá er og til þess að líta að við þær tvær skilmálabreytingar skuldabréfsins var skuldbindingin tilgreind í erlendum myntum og jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum aðeins getið í fyrri skilmálabreytingunni.  Að þessu gættu gat hvorki framangreint ákvæði um endurgreiðslu skuldarinnar né útgreiðsla lánsins engu breytt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013, varðandi sams konar skuldaskjal.  Þegar framangreind atriði eru virt verður lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í hinum tilgreindu myntum. 

                Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnda.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Rósu Gunnarsdóttur.

                Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.