Hæstiréttur íslands
Mál nr. 541/2011
Lykilorð
- Vöruflutningar
- Bifreið
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2012. |
|
Nr. 541/2011. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Árna
Valberg Margeirssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Bifreiðir. Vöruflutningar.
Á var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa sem ökumaður vöruflutningabifreiðar í þrígang brotið gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Á bar fyrir sig að í öllum tilvikum hefði verið um að ræða akstur með fiskúrgang, sem honum hefði verið refsilaus á grundvelli þágildandi reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Á var sakfelldur og gert að greiða 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara refsimildunar.
Fyrir uppsögu hins
áfrýjaða dóms var gætt ákvæða 2. málsliðar 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefið að sök að hafa vanrækt að taka sér lögboðið hlé frá akstri við vinnu sína 4., 11. og 26. nóvember 2009. Hinn 28. desember sama ár kynnti Vegagerðin vinnuveitanda ákærða að til stæði að kanna akstur bifreiða fyrirtækisins og fór sú skoðun fram 2. febrúar 2010. Með bréfi 9. mars sama ár tilkynnti Vegagerðin fyrirtækinu um niðurstöðu skoðunarinnar og 16. sama mánaðar sendi stofnunin lögreglu kæru vegna málsins. Lögregla tók í framhaldinu skýrslu af ákærða í gegnum síma 21. apríl sama ár vegna ætlaðra brota hans og var ákæra gefin út 13. desember sama ár. Af þessu verður ráðið að eigi síðar en 21. apríl 2010 hafi ákærða verið kunnugt um hvaða sakir voru á hann bornar. Þá er þess og að geta að ákærði viðurkenndi fyrir dómi að sér hefði borist sektarboð lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem dagsett er 18. október 2010, en í því var ákærða gefinn kostur á að ljúka máli vegna framangreindra sakargifta með greiðslu sektar í ríkissjóð.
Ákærði kveðst hafa flutt fiskúrgang í öllum þeim ferðum sem ákæra tekur til og hafi sér því ekki verið skylt að taka lögboðin hlé frá akstri. Fyrir liggur í málinu að ákærði skráði engar upplýsingar í ökurita um ástæður þess að hann tók sér ekki hlé frá akstri fyrrgreind skipti svo sem honum var kostur. Hann ber því á hinn bóginn við að hafa, eins og honum var heimilt, þess í stað prentað út strimil úr ökurita í hvert sinn og skráð á bakhlið hans athugasemd um hvaða farm var ekið með hverju sinni. Þá strimla lagði ákærði ekki fram í málinu, en hann hafði allt frá upphafi lögreglurannsóknar fullt tilefni til þess. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða
allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda
síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í
dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal
vera óraskaður.
Ákærði, Árni Valberg Margeirsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 242.503 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. júlí 2011.
I.
Mál þetta, sem dómtekið
var að aflokinni aðalmeðferð 24. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans
á Suðurnesjum, útgefinni 13. desember 2010, á hendur Árna Valberg Margeirssyni,
[...], Grindavík, „fyrir eftirtalin umferðarlagabrot hér á landi sem ökumaður
við vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni:
I.
Með því að hafa sem
ökumaður vörubifreiðarinnar [...] vanrækt að gera lögboðið hlé á
aksturstímabili sem hófst miðvikudaginn 4. nóvember 2009 kl. 14:11 og lauk sama
dag kl. 21:49 og stóð því í 7:12 klst. eða 2:42 klst. (60 %) umfram leyfðan
aksturstíma.
Telst þetta varða við 1.
mgr. 7. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma
ökumanna, sbr. c-lið 1. mgr. 44. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr.
50/1987 með síðari breytingum.
II.
Með því að hafa sem
ökumaður vörubifreiðarinnar [...] vanrækt að gera lögboðið hlé á
aksturstímabili sem hófst miðvikudaginn 11. nóvember 2009 kl. 08:15 og lauk
sama dag kl. 15:05 og stóð því í 6:16 klst. eða 1:46 klst. (39,3 %) umfram
leyfðan aksturstíma.
Telst þetta varða við 1.
mgr. 7. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma
ökumanna, sbr. c-lið 1. mgr. 44. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr.
50/1987 með síðari breytingum.
III.
Með því að hafa sem
ökumaður vörubifreiðarinnar [...] vanrækt að gera lögboðið hlé á
aksturstímabili sem hófst fimmtudaginn 26. nóvember 2009 kl. 12:15 og lauk sama
dag kl. 19:11 og stóð því í 6:22 klst. eða 1:52 klst. (41,5 %) umfram leyfðan
aksturstíma.
Telst þetta varða við 1.
mgr. 7. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma
ökumanna, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr.
50/1987 með síðari breytingum.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.“
Af
hálfu ákærða er aðallega sýknu af öllum ákæruliðum, en til vara vægustu
refsingar sem lög leyfa og að hún verði höfð skilorðsbundin. Þá krefst ákærði
þess að málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði.
II.
Málsatvik eru þau að hinn
28. desember 2009 var fyrirtækinu [A] sent bréf þar sem boðuð var koma
eftirlitsmanna Vegagerðarinnar í starfstöð fyrirtækisins 2. febrúar 2010 til
skoðunar á gögnum varðandi akstur bifreiða fyrirtækisins fyrir tímabilið 2.
nóvember til 11. desember 2009. Í tilkynningu Vegagerðarinnar hinn 9. mars 2010
til fyrirtækisins um afgreiðslu málsins segir að upplýsingum um akstur ökutækja
hafi verið hlaðið niður af ökumannakorti/ökurita hinn 2. febrúar 2010. Rannsókn
umræddra gagna hafi farið fram og hafi hún leitt í ljós brot þriggja ökumanna á
reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og hafi kærur vegna þess verið
sendar lögreglu til meðferðar.
Kæra Vegagerðarinnar í
máli þessu er dags. 16. mars 2010 og þar segir að úttekt og rannsókn á
haldlögðum hjá fyrirtækinu [A] hafi m.a. leitt í ljós þrjú meint brot ákærða,
Árna Valbergs, á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.
Samkvæmt gögnum málsins
tók lögreglan hinn 21. apríl 2010 símaskýrslu af ákærða þar sem kæruatriðin
voru borin undir hann. Er þar haft eftir ákærða að hann hafi farið yfir
útprentun úr tölvu bifreiðarinnar og að hann telji ekki að hann hafi brotið
reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Er haft eftir ákærða að þegar
dagarnir væru teknir í heild sinni væri niðurstaðan sú að hann hefði ekki gerst
brotlegur. Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 8. júní 2010, segir að þegar
símaskýrsla hafi verið tekin af ákærða hafi hann óskað eftir að fá að leggja
fram gögn um að tímamælingin væri ekki rétt. Ákærði hafi hins vegar ekki komið
með þessi gögn til lögreglu.
Verður nú rakinn
framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa
þykir:
Ákærði neitaði sök. Hann
kvaðst ekki telja að hann hefði brotið gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma
ökumanna eins og greindi í ákæru. Hann sagði að skipta mætti hvíldartímanum
niður. Þá daga, sem um ræddi í málinu, hefði hann verið búinn að taka lögboðna
hvíld í meira 15 mínútur í senn, sem samtals hefði náð 45 mínútum og því hefði
hann ekki gerst brotlegur gegn áðurgreindum reglum. Kvað hann túlkun
Vegagerðarinnar á reglunum vera ranga. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir
því að við skýrslutöku hjá lögreglu hefði hann óskað eftir því að fá að leggja
fram gögn, sem sýndu fram á að tímamæling Vegagerðarinnar væri röng.
Ákærði var næst spurður
út í einstaka liði ákærunnar. Að því er varðar I. lið ákærunnar kvaðst ákærði
ekki muna hvar hann hefði verið að aka hinn 4. nóvember 2009, en hann hefði
hins vegar verið að flytja bein og slor. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa
vanrækt að gera lögboðið hlé á þessu aksturstímabili. Að því er varðar II. lið
ákærunnar kvaðst ákærði heldur ekki muna hvar hann hefði verið að aka hinn 11.
nóvember 2009, en hann hefði í þetta skipti einnig verið að flytja bein og
slor. Sagðist ákærði ekki hafa vanrækt að gera lögboðið hlé á þessu
aksturstímabili. Að því er varðar III. lið ákærunnar kvaðst ákærði heldur ekki
muna hvar hann hefði verið að aka fimmtudaginn 26. nóvember 2009, en hann hefði
sem fyrr verið að flytja bein og slor. Þá kvaðst ákærði ekki hafa vanrækt að
gera lögboðið hlé á þessu aksturstímabili.
Ákærði kvaðst hafa tekið
lögboðið 45 mínútna hlé á aksturstíma þeim sem um ræðir og sagðist ákærði
einnig vita að þessi akstur væri undanþegin tímaákvæðum reglugerðar um akstur-
og hvíldartíma ökumann þar sem hann hefði verið flytja fiskúrgang. Aðspurður
kvaðst ákærði hafa unnið við akstur ökutækja í 11 ár. Ákærði sagðist kannast
við þær reglur sem giltu um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og kvaðst einnig
kunna á ökurita. Ákærði sagðist hins vegar ekki kannast við sérstakan takka á
ökuritum, sem nota ætti þegar ekið væri ,,utan svæðis“, en kvaðst þó telja að
hann væri notaður þegar bílar færu í ferjur og þess háttar. Hann sagði að
reglur um notkun þessa taka hefðu ekki verið kynntar honum. Kvaðst ákærði hafa
fyrir venju að skrifa athugasemdir undanþáguakstur aftan á strimil, sem hann
prentaði úr ökuritanum í lok dags, þegar hann væri að aka samkvæmt
undanþáguákvæðum reglugerðarinnar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Hann
sagðist ekki hafa sýnt lögreglu þessa seðla á sínum tíma þar sem hann hefði
ekki verið boðaður formlega í skýrslutöku hjá lögreglu. Kvaðst hann ekki eiga
þessi gögn ekki lengur.
Akstursskýrslur voru
bornar undir ákærða og sagði ákærði að fyrirtækið [A] ynni fyrir fyrirtækið [B],
sem væri staðsett á Reykjanesi [...]. Sagðist ákærði sækja bein og slor út um
allt land, meðal annars til Vestfjarða, Djúpavogs, Þingeyrar og flytja til
áðurgreinds fyrirtækis á Reykjanesi.
Ákærði sagði að
aksturstími hans hinn 4. nóvember 2009 hefði hafist klukkan 09:16 eins og fram
kæmi á dskj. 11, en ekki klukkan 14:11 eins og í
ákæru greindi. Sagðist hann hafa tekið hlé fyrir klukkan 14:11 og þegar
dagurinn væri tekinn saman í heild sinni væri ekki um neitt brot að ræða.
Ákærði sagði einnig að hann væri með stafrænan ökurita í mælaborðinu, sem færi
að blikka eftir fjórar klukkustundir og 15 mínútur og færi að pípa eftir fjórar
klukkustundir og 30 mínútur. Hann sagðist því vita nákvæmlega hverju sinni
hversu legni hann væri búin að aka hverju sinni og hversu mikla hvíld hann
hefði tekið. Hann sagði að allir þessir þrír dagar væru eins, þ.e. að hann
hefði tekið lögboðna hvíld og akstur hefði hafist fyrr en fram kæmi í ákærunni.
Jafnframt hefði akstri ekki lokið á þeim tíma sem fram kæmi í ákærulið II.
Ákærði kvaðst hafa
prentað út miða í lok hvers akstursdags og kvittað á hann hvað hann hefði verið
að gera viðkomandi dag, en þessir miðar væru tapaðir. Hann sagði að lögregla
hefði ekki spurt hann að því hvað hann hefði verið að flytja þessa umræddu
daga.
Vitnið [C] kom fyrir dóm
og kvaðst hafa tekið símaskýrslu af ákærða og staðfesti efni hennar. Að lokinni
skýrslutöku hefði ákærði tjáð honum að hann gæti komið með gögn á lögreglustöð,
sem sýndu fram á að hann hefði ekki brotið gegn reglum um lögboðinn hvíldartíma
ökumanna. Kvaðst vitnið hafa hringt aftur í ákærða nokkrum dögum síðar og
ítrekað við hann að skila þessum gögnum en þau hefðu ekki borist lögreglu.
Vitnið kvaðst hafa kynnt sér efni ákærunnar áður en hann yfirheyrði ákærða en
hann sagðist ekki hafa spurt ákærða út í hvað hann hefði verið að flytja þessa
umræddu daga. Sagðist hann hafa spurt ákærða hvort hann vildi koma á stöðina og
gefa þar skýrslu en ákærði hefði samþykkt að gefa skýrslu í gegnum síma.
Vitnið [D] kom fyrir dóm
en hann er bróðir ákærða og yfirmaður hans hjá fyrirtækinu. Sagðist hann hafa
tekið á móti starfsmönnum Vegagerðarinnar hinn 2. febrúar 2010 og látið þá hafa
öll þau gögn sem þeir hefðu beðið um á rafrænu formi, en kvaðst aðspurður ekki
muna eftir því að hafa látið þá hafa gögn sem sýndu fram á að um akstur ákærða
hefði gilt undanþáguákvæði reglugerðarinnar. Hann sagði að ákærði starfaði sem
bílstjóri hjá fyrirtækinu og að hann keyrði ekki um á neinum ákveðnum leiðum
heldur færi vítt og breitt um landið. Hann sagði að fyrirtækið sinnti aðallega
flutningi á fiski og fiskúrgangi, svo og flutningi á gámum.
Vitnið [E] gaf skýrslu í
gegnum síma. Vitnið staðfesti það að fyrirtækið [A] flytti fiskúrgang fyrir
fyrirtækið [B], en hann sagðist vera fyrirsvarsmaður þess fyrirtækis. Hann
sagði að öruggt væri að ákærði hefði flutt fyrir hann bein og slor hinn 4.
nóvember 2009 ef reikningar frá fyrirtæki hans sýndu að greitt hefði verið
fyrir slíkan flutning.
Vitnið [F] kom fyrir dóm
og sagðist hafa unnið hjá Vegagerðinni í tæp 10 ár, en þar áður hefði hann
starfað sem lögreglumaður í tæp 20 ár. Hann staðfesti að hafa gert
greiningarskýrslu vegna meintra brota ákærða í málinu. Kvað hann Vegagerðina
hafa unnið sín gögn upp úr þeim gögnum, sem fyrirtækið [A] hefði látið
stofnuninni í té og prentað út úr sínu tölvukerfi þau gögn sem væru lögð fram í
málinu. Vitnið útskýrði þau gögn málsins, sem væru unnin af Vegagerðinni. Hann
sagði að hinn 4. nóvember 2009 hefði ákærði ekið í 7 klukkustundir og 12
mínútur án þess að ná lögboðnum hléum á þessu bili. Vitnið sagði ennfremur að
Vegagerðin gerði greinamun á stöðvun og hléi. Hann sagði að hlé væri stöðvun
sem varaði að lágmarki í 15 mínútur, en stöðvun næði ekki því lágmarki, þ.e.
varaði skemur en 15 mínútur. Hann sagði að eftir fjórar klukkustundir í akstri
væri ökumönnum skylt að taka að lágmarki 45 mínútuna hlé, en ökumenn gætu skipt
hléinu niður í þrjú 15 mínútna hlé, en til þess að hléin væru gild yrðu þau að
ná a.m.k. 15 mínútum að lágmarki.
Vitnið sagði hinn 4.
nóvember 2009 hefði akstur ákærða hafist klukkan 14:11 og lokið klukkan 21:49
eða því varað í 7 klukkustundir og 12 mínútur. Á þessum tíma hefði ákærði
einungis gert eitt hlé sem varað hefði í meira en 15 mínútur, þ.e. í 20
mínútur, og hefði hann því ekki náð hinu lögboðna 45 mínútna hléi á
aksturstímanum eins og reglugerðin gerði ráð fyrir.
Hinn 11. nóvember 2009
hefði ákærði hefði hafið akstur klukkan 08:15 og lokið akstri klukkan 15:05. Ákærði
hefði ekið í 6 klukkustundir og 16 mínútur án þess að ná lögboðnum hléum, en
ákærði hefði einungis tekið tvö hlé, annað sem stóð í 15 mínútur og hitt sem
stóð í 19 mínútur. Vitnið kvað þetta vera sambærilegt brot og það sem átti sér
stað hinn 4. nóvember 2009.
Hinn 26. nóvember 2009
hefði ákærði ekið frá klukkan 12:15 til klukkan 19:11 eða í 6 klukkustundir og
22 mínútur og á þessu tímabili hefði hann einungis stöðvað í 12 mínútur og
tekið eitt hlé í 15 mínútur og því ekki náð lögboðnu hléi í 45 mínútur eins og
reglugerðin gerir ráð fyrir. Hann sagði að um misritun í gögnum Vegagerðarinnar
væri að ræða hvað þennan lið varðaði, þ.e. þar ætti að standa hlé þar sem hléið
næði 15 mínútum en ekki stöðvun eins og í gögnunum greindi.
Vitnið sagði að þeir
ökumenn, sem styddust við undanþáguákvæði reglugerðarinnar, bæri að merkja inn
á ökuritann með sérstökum takka að þeir væru utan svæðis eða ,,out of scope“ á enskri tungu. Ef
að ökumenn hefðu ekki þekkingu til að nota þennan takka þá ætti viðkomandi að
prenta út strimil úr ökuritanum í lok dagsins og skrifa aftan á hann
athugasemdir um hvers konar akstur hefði verið að ræða og hvað viðkomandi hefði
verið að flytja. Ökumanni bæri síðan að geyma strimilinn. Hann sagði að
ökumönnum væri kennt þetta á námskeiði til ökuréttinda og að upplýsingar um
notkun ökuritans væri mjög aðgengilegar á netinu. Hann sagði einnig að til væri
handbók á íslensku um ökurita.
Vitnið sagði að samkvæmt
reglugerðinni bæri ökumönnum að geyma strimla, sem þeir hefðu ritað aftan á, í
eitt ár frá þeim degi sem var ritað hefði verið á þá. Hann sagði einnig að
engin slík gögn hefðu verið afhent þegar Vegagerðin hefði verið að rannsaka
ætluð brot ákærða. Loks sagði vitnið að ökuritinn léti ökumanninn vita með pípi
þegar farið væri fram yfir lögboðinn hvíldartíma.
III.
Af hálfu ákærða var lögð
fram greinargerð í málinu. Þar segir að málsatvikum sé ekki nægilega lýst í
ákæru. Hvorki sé tiltekið hvar brotin hafi átt sér stað né hver farmurinn var í
umrædd skipti. Reglugerðin sem ákæran grundvallist á innihaldi hins vegar
undanþágur frá skráningu aksturs og hvíldartíma. Þá komi ekki fram í
greiningarskýrslu umferðareftirlitsmanns hver farmurinn var í greind skipti eða
hvar ákærði ók eða við hvaða aðstæður. Þá kveðst ákærði telja að engin
sjálfstæð rannsókn eða gagnaöflun hafi farið fram hjá lögreglu. Einungis hafi
verið tekin ein símaskýrsla af ákærða. Frumgögn þau, sem afhent hafi verið af
fyrirtækinu [A] hafi ekki verið lögð fram í málinu. Þá hafi gögnin verið tekin
af starfsstöð fyrirtækisins án þess að skilin væru eftir afrit af þeim.
Kveðst ákærði telja að
eins og rannsókn þessa máls sé úr garði gerð, sbr. 53. og 54. gr. laga um
meðferð sakamála nr.88/2008, sé ákærði knúinn til að taka til varna í málinu,
og kveðst byggir dómkröfur sínar á eftirfarandi málsástæðum.
Ákærði kveðst byggja í
fyrsta lagi á því að mál þetta sé ekki rannsakað á fullnægjandi hátt, sbr. VII.
kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ljóst sé að fjölmörg
undanþáguákvæði séu í umræddri reglugerð, sem ákæruvaldið byggi mál sitt á.
Hluti af starfi hans hafi verið fólginn í því að flytja fiskúrgang til og frá
fiskvinnslu og í bræðslu víðs vegar að af landinu og samkvæmt d-lið, 1. mgr. 4.
gr. reglugerðar nr. 662/2006 eigi reglugerðin ekki við ef bifreið er notuð í
slíkan flutning.
Þá kveðst ákærði mótmæla
því að framlögð gögn, sem stafi frá Vegagerð ríkisins, geti talist fullgild
sönnunargögn. Um sé að ræða útprentun á einhverju, sem eigi að stafa úr ökurita
bifreiðarinnar [...]. Hafi öll rannsókn málsins sem máli skipti farið fram hjá
Vegagerð ríkisins, en ekki hjá lögreglu. Hafi ákærða á því stigi ekki verið
gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns eins og lögboðið sé í
stjórnsýslulögum, þ.e. áður en Vegagerð ríkisins ellegar embætti lögreglustjóra
tók þá ákvörðun að kæra ætluð brot. Hefði ákærða gefist kostur á að gæta réttar
síns fljótlega eftir að gögn voru tekin af starfstöð hans hefði hann getað
greint frá því hvaða farm hann var að flytja og hvert hann ók, sem og við hvaða
aðstæður.
Samkvæmt 1.mgr. 52. gr.
laga um meðferð sakamála fari lögreglan með rannsókn sakamála. Slík rannsókn
hafi ekki farið fram í málinu og ljóst sé að Vegagerð ríkisins hafi ekki
lögregluvald. Hvað varði rannsókn sakamála bendir ákærði á ákvæði 1. og 2. mgr.
53. gr.. 54. gr., og 1. mgr. 56. gr. Ekki verði séð að þessum lagaákvæðum hafi
verið fylgt eftir. Sama gildi um ákæruvaldið, sbr. 2. og 3. mgr. 18. gr. laga
um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Varðandi efnishlið
málsins hafi algerlega verið horft framhjá 3. mgr. 18. gr. og 52-54. gr. laga
um meðferð sakamála nr. 88/2008 og því sé ógerlegt fyrir ákærða að verjast í
máli þessu. Virðist svo sem einblínt hafi verið á refsiákvæðin, en þau ákvæði
reglugerðar nr. 662/2006, sem horfi ákærða til sýknu hafi verið látin
afskiptalaus. Í þessu sambandi sé vert að minnast á c- lið 3. mgr. 2. gr., sem
og á d- lið. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, svo og 11. og 13. gr. hennar.
Bendir ákærði sérstaklega á 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, en þar segi:
„Ökumenn þessara bifreiða skulu þó, eftir því sem unnt er, fylgja reglum um
aksturs- og hvíldartíma.“ Hafi farmurinn fallið undir undanþáguákvæði 4. gr.
beri ökumanni því ekki að fara eftir reglugerðinni nema að því leyti sem unnt
sé. Með tilliti til hins óljósa og valkvæða orðalags 2. mgr. 4. gr. reglugerðar
nr. 662/2006, og samspils hennar við undanþágureglur 1. mgr. sömu lagagreinar
kveðst ákærði mótmæla því, með hliðsjón af efni 1. mgr. 69. gr.
stjórnarskrárinnar, að lögð verði á hann refsiábyrgð á þessum grundvelli, þótt
hann hafi ekki fylgt reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, jafnvel þótt
honum hefði verið það unnt.
Í 13. gr. viðkomandi
reglugerðar nr. 662/2006 segi eftirfarandi: „Ökumanni er heimilt að víkja frá
ákvæðum reglugerðarinnar að því tilskildu að umferðaröryggi sé ekki teflt í
tvísýnu, þurfi hann að ná hentugum áfangastað, enda sé það nauðsynlegt til að
tryggja öryggi fólks eða til þess að koma í veg fyrir tjón á bifreið eða farmi.
Noti ökumaður þessa heimild, skal hann skrá í ökurita með hvaða hætti og hvers
vegna það var gert.“
Ákærði kveðst ekki hafa
skráð neinar upplýsingar í ökurita viðkomandi bifreiðar þar sem honum hafi
verið það ómögulegt. Ákærði kveðst þó sjálfur hafa prentað strimil út úr
ökurita bifreiðar sinnar þá daga, sem voru lengri en aðrir vegna veðurs eða annarra
atriða, en einnig kveðst ákærði hafa prentað út þá daga, sem hann var að flytja
fiskúrgang og ritað á þá seðla. Honum hafi ekki borið að geyma umrædd gögn
lengur en eitt ár frá akstursdegi með vísan til 12. gr. reglugerðar nr.
661/2006. Vísar ákærði um þetta atriði til dóms Hæstaréttar í máli nr.
491/2010.
Þá kveðst ákærði byggja á
því að hann hafi tekið sér mun lengri hlé en tilgreint sé í ákæru, en ranglega
sé lesið úr gögnum þeim, sem sögð séu stafa frá ökurita bifreiðarinnar [...].
Ákæruliður 1.
Hér sé um að ræða akstur
frá klukkan 14.11 til klukkan 18.25 eða samtals í 4 klukkustundir og 17
mínútur, en þá hafi verið tekið hlé til u.þ.b. klukkan 19.10, þ.e. lögboðið hlé
í 45 mínútur, en síðan hafi verið ekið til klukkan 21.49 og vinnu hætt. Hér hafi
ákærði einnig verið að aka með fiskúrgang og því hafi hann verið undanþeginn
reglugerð.
Ákæruliður II.
Hér hafi ákærði verið að
flytja fiskúrgang og því hafi hann verið undanþeginn reglum um aksturs- og
hvíldartíma ökumanna.
Ákæruliður III.
Hér hafi ákærði verið að
flytja fiskúrgang og því hafi hann verið undanþeginn reglum um aksturs- og
hvíldartíma ökumanna.
Ákærði bendir einnig á að
samkvæmt 6. mgr. 68. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 beri að setja reglugerð um
hæfi og þjálfun eftirlitsmanna. Sú reglugerð hafi ekki enn verið sett. Eina
reglugerðin, sem sett hafi verið samkvæmt umræddri lagagrein sé reglugerð nr.
661/2006 um ökurita og notkun hans. Ráðherra hafi því látið hjá líða að setja
þá reglugerð, sem mestu varði, þ.e. um starfsmenn Vegagerðar ríkisins. Með öllu
ólíðandi sé að starfsmenn Vegagerðar ríkisins taki sér lögregluvald þegar ekki
hafi verið gefin út reglugerð um hæfi og þjálfun starfsmanna Vegagerðarinnar.
Ákærði bendir einnig á að
meðferð ökurita sé ekki einföld, sbr. t.d. 3. og 4. gr. reglugerðar nr.
661/2006, sem og III. kafli hennar. Allar leiðbeiningar um notkun rafrænna
ökurita séu á ensku eða öðrum erlendum tungumálum og á flóknu tæknimáli. Engar
leiðbeiningar hafi komið frá Vegagerð ríkisins um notkun ökuritanna og gögn
þeim tengdum.
Ákærði bendir á að
starfsmenn Vegagerðar ríkisins hafi ekki uppfyllt rannsóknarreglu 10. gr.
stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr., né leiðbeiningarskyldu sína í 7. gr.
umræddra laga.
Ákærði bendir á að ætluð
brot ákærða eigi að hafa átt sér stað á tímabilinu frá 4. nóvember til 26.
nóvember 2010, en á þeim árstíma sé allra veðra von. Snjór og ís á akbrautum
geri erfiðara fyrir þar sem draga þurfi úr ferð svo ekki fari illa. Við slíkar
aðstæður geti ferðatími hæglega tvöfaldast.
Þar sem ofangreind atriði
hafi ekki verið rannsökuð, s.s. veður og færð, og hver farmur bifreiðarinnar
var í hverju tilviki fyrir sig, verði ekki betur séð en að mikið vanti uppá að
rannsókn málsins sé í þeim farvegi að málið sé tækt til sakfellingar.
Ákærði kveðst telja að í
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sé byggt á því að ásetningur hafi
verið fyrir hendi, sem sjáist best á því að í 3. mgr. sömu greinar sé
sérstaklega hnykkt á ásetningi, þ.e. með orðunum „vitund eða vilja eiganda
ökutækis eða stjórnanda í starfi“. Verður ekki séð að ætluð brot hafi verið
framin af ásetningi.
Ákærði kveðst einnig
byggja á að ákæran brjóti gegn 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrár um jafnræði og
atvinnufrelsi, en ljóst sé að ekkert eftirlit sé til dæmis með
fólksflutningabifreiðum innan Reykjavíkursvæðisins eða með
leigubifreiðarstjórum, svo dæmi sé tekið.
Þá kveðst ákærði einnig
byggja á því að ákæran sé röng þar sem vísað sé til ákvæða reglugerðar nr.
662/2006, þ.e. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. án tilvísunar til refsiákvæða í
reglugerðinni sjálfri, þ.e. 14. gr. hennar. Þá kveðst ákærði alfarið hafna því
að hann hafi gerst brotlegur við alla stafliði og málsgreinar 44. gr. a
umferðarlaga nr. 50/1987. Hvað varði tilvísun ákæruvaldsins til 44. gr. b, sé
slíku alfarið hafnað, enda eigi umþrætt reglugerð nr. 662/2006 sér enga
lagastoð í henni, hvorki að því er varði efni né umfang. Þá kveðst ákærði hafna
því að ætluð brot hans eigi undir allar málsgreinar 100. gr. umferðarlaga nr.
50/1987 og að ætluð brot hans eigi undir alla þá stafliði sem tilgreindir séu
undir hverri málsgrein í umræddri lagagrein.
Ákærði kveðst einnig
byggja sýknukröfu sína á því að með því að koma hátternisreglum fyrir í
reglugerðum, s.s. gert sé í öllum ákvæðum II. kafla reglugerðar nr. 662/2006
hafi ráðherra farið langt út fyrir valdsvið sitt. Þau ákvæði sem hér um ræði
séu 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 662/2006. Bæði geymi
reglugerðarákvæðin hátternisreglu, þ.e. í fyrsta lagi að aksturstími skuli ekki
vera lengri en níu klukkustundir, en heimilt sé að lengja hann í tíu
klukkustundir tvisvar í viku og í öðru lagi að ökumaður skuli gera hlé á akstri
sínum í a.m.k. 45 mínútur eftir akstur í 4 ½ klukkustund nema hvíldartími hans
sé að hefjast. Við brotum á þessum hátternisreglum sé síðan lögð refsing, sbr.
14. gr. reglugerðarinnar. Gangi þetta gegn grunnreglunni í 1. mgr. 69. gr.
stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. og 1. mgr. 7. gr. laga um
Mannréttindasáttmála Evrópu.
Þá kveðst ákærði einnig
telja að reglugerð nr. 662/2006 skorti lagastoð þar sem ekki sé kveðið á um
umfang þess valds sem ráðherra sé framselt í 44. gr. a í umferðarlögum nr.
50/1987. Með því að fela ráðherra þá óheftu ákvörðun að setja hámarksviðmið þau
sem um geti í hátternisreglunum í 1.mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. og ákveða í
þeim hve lengi ökumenn megi aka dag hvern og eftir hve langan tíma þurfi að
gera hlé sé farið gegn grunnreglunni í 1.mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.
Þá bendir ákærði á að
ljóst sé samkvæmt reglugerð um viðurlög við brotum á umferðalögum nr. 930/2006
að bjóða hefði átt ákærða að ljúka málinu með sektargerð og greiðslu hóflegrar
sektar. Þar sem ákæruvaldið hafi ekki gert það beri að vísa málinu frá án
kröfu.
IV.
Í máli þessu er ákærða
gefið að sök að hafa sem ökumaður vörubifreiðarinnar [...] á tímabilinu frá 4.
nóvember 2009 til 26. nóvember 2009 þrívegis brotið gegn 1. mgr. 7. gr., sbr.
14. gr. reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, sbr.
c-lið 44. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 að því er varðar ákæruliði I og II og
sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. a að því er varðar ákærulið III., allt sbr. 100. gr.
umferðarlaga.
Í greinargerð sinni
tiltekur ákærði í löngu máli fjölmörg atriði til stuðnings sýknukröfu sinni.
Hann nefnir til að mynda að á skorti að atvikum máls sé lýst í ákæru, en hvorki
sé tiltekið hvar brotin eigi að hafa verið framin né hver farmur bifreiðarinnar
hafi verið; að heimfærsla í ákæru til refsiákvæða sé röng þar sem ekki sé vísað
til ákvæðis 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006; að ákæran samræmist ekki ákvæðum
75. gr. stjórnarskrár um atvinnufrelsi, jafnræðisreglu í 65. gr. og 1. mgr. 69.
gr. hennar um skýrleika refsiheimildar; að lögregla hafi ekki rannsakað málið
sjálfstætt samkvæmt VII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en
einvörðungu stuðst við ófullnægjandi gögn Vegagerðarinnar; að Vegagerðin hafi
farið út fyrir valdsvið sitt og ekki gætt að stjórnsýslureglum, svo sem um
rannsókn máls, andmælarétt og meðalhóf; að ráðherra hafi ekki uppfyllt skyldu
sína um að setja reglur í samræmi við fyrirmæli 6. mgr. 68. gr. umferðarlaga um
hæfi og þjálfun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar; að leiðbeiningar með þeim
ökurita sem um ræðir hafi verið ófullnægjandi; að málið sé órannsakað að því
leyti að meðal annars hafi ekki verið kallað eftir nauðsynlegum gögnum um
ferðir bifreiðarinnar og farm hennar í hverri ökuferð fyrir sig eða gögnum um
veðurfar og færð á vegum, en þessi gögn gætu hafa sýnt fram á að
undantekningarákvæði reglna um akstur hafi átt við um ferðir ákærða. Þá kveðst
ákærði telja að þar sem ákærða hafi ekki verið boðið upp á það að ljúka málinu
með sektargerð beri að vísan málinu frá án kröfu.
Í ákæru málsins er vísað
til 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og er
fullyrðing ákærða um annað í greinargerð því röng. Þá er ranglega fullyrt í
greinargerð ákærða að í ákæru sé vísað til 1. mgr. 6. gr. áðurgreindrar
reglugerðar.
Samkvæmt ákvæðum 148. gr.
laga um meðferð sakamala nr. 88/2008 er lögreglustjóra heimilt en ekki skylt að
gefa sakborningi kost á að ljúka máli með svokallaðri sektargerð. Er því ekki
fallist á með ákærða að vísa beri málinu frá á þeim grundvelli að honum hafi
ekki verið gefinn kostur á að ljúka málinu með þeim hætti.
Grunur um
umferðarlagabrot ákærða kom upp 9. mars 2010 eftir athugun Vegagerðarinnar á
rafrænum gögnum úr ökurita bifreiðarinnar og var málið sent lögreglustjóranum á
Suðurnesjum til rannsóknar 16. sama mánaðar. Lögregla tók skýrslu af ákærða 21.
apríl 2010 og bar undir hann sakaratriði. Eftir ákærða er haft að hann rengi
ekki aksturstíma þann, sem undir hann var borinn og er sá sami og í ákæru
greinir, en sagðist hafa tekið lögboðna hvíld á milli og gæti hann ekki séð að
hann hefði gerst brotlegur. Ennfremur er haft eftir ákærða í skýrslunni að
þegar dagarnar væru teknir í heild sinni þá hefði hvíldartími ekki verið
brotinn. Í skýrslunni virðist ákærði ekki hafa borið fyrir sig að
undanþáguákvæði reglugerðarinnar hafi átt við um aksturinn. Samkvæmt
upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 8. júní 2010, óskaði ákærði eftir að leggja
fram gögn um að tímamælingin væri ekki rétt, en þau gögn hafi ekki borist
lögreglu. Við svo búið taldi lögregla fram komin nauðsynleg gögn til að
saksækja ákærða. Frá upphafi rannsóknar málsins hafði ákærði alla möguleika á
að upplýsa, leggja fram eða vísa til gagna um akstur sinn á því tímabili er
ákæran tekur til, en ákærði var yfirheyrður um sakaratriði innan árs frá því að
umræddur akstur átti sér stað.
Ekki verður fallist á með
ákærða að ákæru sé áfátt um atriði sem nauðsynlegt er að greina í henni samkvæmt a. til e. liðum 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.
Meðal rannsóknargagna eru
gögn frá Vegagerð ríkisins, sem [F], starfsmaður Vegagerðarinnar staðfesti að
hann hefði unnið upp úr ökurita umræddrar bifreiðar. Hafa þau gögn ekki verið
vefengd og hefur ákærði ekki sýnt fram á að ekki sé unnt að byggja á þeim.
Ákærði hefur til
stuðnings sýknukröfu meðal annars vísað til þess að ákvæði framangreindra
reglugerða séu ekki fullnægjandi refsiheimild og feli í sér brot á
jafnræðisreglum 65. gr. stjórnarskrár. Þá hefur hann eins og áður segir vísað
til þess að undanþáguákvæði reglugerðar nr. 662/2006, einkum 4., 9. og 13. gr.,
kunni að hafa átt við um akstur hans í einstökum tilvikum sem um ræðir í ákæru
eða þeim öllum.
Eins og greinir í dómi
Hæstaréttar í máli nr. 14/2010 eru reglugerðir þær, sem um ræðir í málinu,
settar með viðhlítandi stoð í lögum og taka almennt og í eðlilegu samhengi upp
þráðinn þar sem fyrirmæli í settum lögum þrýtur. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr.
reglugerðar nr. 661/2006 um ökurita og notkun hans, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr.
a. umferðarlaga bera flytjandi og ökumaður ábyrgð á því að ökuriti vinni rétt
og skrái hverju sinni réttar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og
upplýsingar er sýni hraða bifreiðarinnar og fleira, á skífu í skífuökurita eða
í rafrænan ökurita eða á rafrænt ökumannskort. Ákærði hefur ekki lagt fram gögn
til stuðnings framangreindum fullyrðingum sínum um að undanþáguákvæði
reglugerðanna eigi við í máli þessu.
Í 1. mgr. 7. gr.
reglugerðar nr. 662/2006, sem í gildi var þegar akstur ákærða átti sér stað,
segir að ökumaður skuli gera hlé á akstri í að minnsta kosti 45 mínútur eftir
akstur í fjóra og hálfa klukkustund nema hvíldartími hans sé að hefjast. Þá
segir í 2. mgr. 7. gr. að ökumaður megi í stað hlés samkvæmt 1. mgr. gera hlé á
akstri í a.m.k. 15 mínútur í senn á fjögurra og hálfrar klukkustundar
aksturstímanum eða strax eftir að akstri lýkur enda sé hvíldin samtals a.m.k.
45 mínútur.
Hinn 4. nóvember 2009
hófst akstur ákærða klukkan 14:11 og lauk sama dag klukkan 21:49 og stóð því í
sjö og hálfa klukkustund. Á þessum aksturstíma tók ákærði aðeins eitt hlé sem
stóð lengur en í 15 mínútur, þ.e. klukkan 18.47 og var það í 20 mínútur. Er
þetta skýrt brot á 1. mgr. 7. gr. áðurgreindrar reglugerðar.
Hinn 11. nóvember 2009
hófst akstur ákærða klukkan 08:15 og lauk sama dag klukkan 15:05 og stóð því í
sex klukkustundir og 16 mínútur. Á þessum aksturstíma tók ákærði aðeins tvö
hlé, annað klukkan 12:58 sem stóð í 15 mínútur og annað klukkan 14.04 sem stóð
í 19 mínútur eða samtals 34 mínútur. Er þetta sömuleiðis skýrt brot á 1. mgr.
7. gr. áðurgreindrar reglugerðar.
Hinn 26. nóvember 2009
hófst akstur ákærða klukkan 12:15 og lauk sama dag klukkan 19:11 og stóð því í
sex klukkustundir og 22 mínútur. Á þessum aksturstíma tók ákærði aðeins eitt 15
mínútna hlé klukkan 15.25. Er þetta einnig skýrt brot á 1. mgr. 7. gr.
fyrrgreindrar reglugerðar.
Samkvæmt gagnályktun frá
18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru saknæmisskilyrðin ásetningur og
gáleysi lögð að jöfnu þegar um brot á sérrefsilögum er að ræða, nema annað sé
sérstaklega tekið fram. Svo er ekki gert í refsiákvæðum þeim, sem á er byggt í
máli þessu. Er því ekki fallist á með ákærða að ásetnings sé krafist hvað
umrædd brot ákærða á umferðarlögum varðar, enda væri það í andstöðu við margra
ára dómaframkvæmd á þessu sviði.
Með hliðsjón af öllu
framangreindu þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í
ákæru greinir og er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í
ákærunni.
Ákærði hefur unnið sér
til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. og 14. gr.
reglugerðar nr. 662/2006. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður
gerst sekur um aðra refsiverða háttsemi en þau brot sem hér um ræðir. Með
hliðsjón af öllu framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sekt að
fjárhæð 280.000 krónur, sem greiða ber til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá
uppkvaðningu dómsins, ella sæti ákærði fangelsi í 20 daga.
Enginn útlagður kostnaður
hefur fallið til við meðferð málsins. Við ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs
verjanda ákærða er höfð hliðsjón af því að Hæstiréttur Íslands hefur tekið
afstöðu til vel flestra þeirra atriða, sem verjandi ákærða tiltekur í
greinargerð til stuðnings sýknukröfu ákærða, en sömu vörnum virðist hafa verið
haldið uppi í hæstaréttarmáli nr. 14/2010, sem dæmt var hinn 3. júní 2010. Með
hliðsjón af framangreindu þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þormóðs
Skorra Steingrímssonar hdl., hæfilega ákveðin að fjárhæð 87.850 krónur að
meðtöldum virðisaukaskatti. Er ákærða gert að greiða að áðurgreind
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.
Dóm þennan kveður upp
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna
embættisanna.
Dómsorð:
Ákærði, Árni Valberg
Margeirsson, greiði 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna
frá uppkvaðningu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 20 daga.
Ákærði greiði
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl.,
87.850 krónur.