Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Föstudaginn 24

 

Föstudaginn 24. janúar 2003.

Nr. 32/2003.

Fasteignafélagið Stoðir hf.

(Halldór Jónsson hdl.)

gegn

Guðbrandi Jónatanssyni

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu F um að G yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli, sem hann höfðaði gegn F. Samkvæmt gögnum málsins var þrisvar sinnum í september og desember 2002 gert árangurslaust fjárnám hjá G. Var ekki talið að hann hafi hnekkt líkum, sem þessi fjárnám veittu fyrir því að hann væri ófær um að greiða málskostnað, yrði sá kostnaður felldur á hann í máli aðilanna. Var G því gert að setja málskostnaðartryggingu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli, sem hann höfðaði gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér skuld að fjárhæð 523.558 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt reikningi, sem varnaraðili gaf út í febrúar 2001 fyrir verklaunum úr hendi sóknaraðila. Samkvæmt gögnum málsins var þrisvar sinnum í september og desember 2002 gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila. Hann hefur ekki hnekkt líkum, sem þessi fjárnám veita fyrir því að hann sé ófær um að greiða málskostnað, verði sá kostnaður felldur á hann í máli aðilanna. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðila því gert að setja innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 200.000 krónur í því formi, sem héraðsdómari metur gilt.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Varnaraðila, Guðbrandi Jónatanssyni, ber innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að setja tryggingu að fjárhæð 200.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila, Fasteignafélaginu Stoðum hf.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2002.

Mál þetta var tekið til úrskurðar hinn 10. desember sl. um framkomna kröfu um málskostnaðartryggingu.

Stefnandi er Guðbrandur Jónatansson, kt. 130254-5869, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi.

Stefndi er Fasteignafélagið Stoðir hf., kt. 450599-3529, Kringlunni 4-12, Reykjavík.

 Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 523.558 kr. ásamt dráttarvöxtum, af 792.627 kr. frá 28.03.2001 til 18.04.2001, af  523.558 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Við þingfestingu málsins 5. desember sl. gerði stefndi kröfu til þess að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu með vísan til b-liðar 1. mgr.  133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Af hálfu stefnanda var mótmælt kröfu stefndu um málskostnaðartryggingu.  Málsaðilar voru sammála um að leggja ágreining þeirra í úrskurð dómara.

Í þinghaldi í málinu 10. desember sl. krafðist stefndi þess að stefnanda yrði gert að setja tryggingu að fjárhæð 500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu.  Þeirri kröfu var mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint framkominni.

Stefndi byggir kröfu sína á því að stefnandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota árið 1995 og hafi skiptum vegna þrotabúsins lokið í mars 1996 án þess að nokkuð greiddist upp í lýstar kröfur. Nú liggi fyrir tvö árangurslaus fjárnám frá því í september 2002 og því fyrir hendi lögmæt skilyrði til að óska gjaldþrotaskipta á búi stefnanda.  Ljóst sé að fjárhagsstaða stefnanda gefi stefnda ástæðu til að ætla að stefnandi sé ógreiðslufær.  Þá telur stefndi sig nauðbeygðan til að taka til varna í máli þessu sem að hans mati sé höfðað að tilefnislausu.  Máli þessu hafi verið vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2002 og hafi stefnanda verið gert að greiða stefnda 65.000 kr. í málskostnað, sem enn hafi ekki verið greiddar.  Eins og málatilbúnaði stefnanda sé háttað sé ljóst að dómkveðja þurfi matsmenn í máli þessu með tilheyrandi kostnaði.  Því sé þess krafist að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu verði hafnað.  Árangurslaust fjárnám sé ekki nægjanlegur grundvöllur þess að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir því að stefnda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu. Þá var tilgreindri fjárhæð málskostnaðartryggingar mótmælt sérstaklega sem of seint fram kominni.

                Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Fyrir liggur að stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota árið 1995 og lauk skiptum í búinu sama ár án þess að nokkuð greiddist upp í lýstar kröfur.  Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum máls að í september 2002 var tvisvar sinnum gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda.  Þótt þannig séu fram komnar líkur á því að stefnandi sé ekki greiðslufær verður ekki framhjá því litið að mál þetta hefur stefnandi höfðað til greiðslu verklauna fyrir unnið verk í þágu stefnda, sem einungis hefur fengist greitt að litlum hluta. Er því ekki um tilefnislausa málshöfðun að ræða af hans hálfu og ekki fyrirsjáanlegt hver úrslit verða. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda ekki gert að setja málskostnaðartryggingu í máli þessu og er hafnað þeirri kröfu stefnda. 

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kröfu stefnda, Fasteignafélagsins Stoða hf., um það, að stefnanda Guðbrandi Jónatanssyni,verði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli þessu, er hafnað.