Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 6. nóvember 2002. |
|
Nr. 493/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember 2002, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að um kl. 17.00 í gær hafi lögregla handtekið kærða vegna gruns um innbrot í [...] og [...], þaðan sem m.a. hafi verið stolið erlendum gjaldeyri að andvirði 200.000-300.000 krónur og 15-20 flöskum af sterku áfengi. Vitni hafi séð bifreið af gerðinni MMC Lancer sedan, rauða að lit og hafi fyrstu stafirnir í skráningarnúmerinu verið TT. Í bifreiðinni hafi verið 3-4 manneskjur. Kveðst lögregla telja að um sé að ræða bifreiðina TT-[...] en kærði hafi keypt bifreiðina hinn 23. október sl.
Á sama tíma hafi verið gerð húsleit á dvalarstað kærða og fundist talsvert af þýfi m.a. úr innbrotum í [...] og [...]. Þaðan hafi m.a. verið stolið fartölvu, starfrænni myndavél, reiðufé, farsíma og ýmsum skilríkjum. Þá hafi fundist í gær, við leit í ofangreindri bifreið, þýfi úr innbrotinu í [...].
Lögreglan kveður rannsókn málsins vera á frumstigi, m.a. sé talsvert af þýfinu ófundið. Þá hafi lögregla rökstuddan grun um að fleiri en kærði séu viðriðnir brotið. Vegna rannsóknarhagsmuna þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi, svo hann fái ekki tækifæri til að spilla sakargögnum eða hafa samband við aðra þá sem tengst geta málinu eða komist undan. Að mati lögreglunnar séu því miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo ofangreint mál verði upplýst.
Kærði sé grunaður um nokkur brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.
Kærði er grunaður um nokkur brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geta fangelsisrefsingu. Kærði hefur neitað sakargiftum. Rannsóknargögn, sem fyrir liggja, vekja hins vegar grunsemdir um aðild hans að málinu þannig að telja verður að rökstuddur grunur sé fram kominn um að hann tengist meintum brotum. Með hliðsjón af því að rannsókn málsins er á byrjunarstigi og hætta á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintum brotum og hann hefur tengsl við þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi og ber að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og hún er fram sett.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember 2002, kl. 16:00.