Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-48
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Manndráp
- Tilraun
- Líkamsárás
- Brot í nánu sambandi
- Heimfærsla
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 21. mars 2022 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. febrúar sama ár í máli nr. 444/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 31. janúar 2021, á hótelherbergi í Reykjavík, veist að eiginkonu sinni, ógnað lífi, heilsu og velferð hennar með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut mörg rifbrot, mar á lifur, áverkaloftbrjóst, áverkahúðbeðsþembu, mar á lunga og áverkafleðruholsblæðingu. Taldist brotið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga en ekki fallist á að háttsemin yrði heimfærð undir ákvæði laganna um tilraun til manndráps þar sem ásetningur til þess var ekki talinn sannaður. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði og honum gert að greiða 2.000.000 krónur í miskabætur. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi, samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í sex ár og honum gert að greiða brotaþola 2.500.000 krónur í miskabætur.
5. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Hann vísar sérstaklega til lokamálsliðar ákvæðisins þar sem Landsréttur hafi sakfellt hann fyrir tilraun til manndráps en um sé að ræða ákæruefni sem hann hafði verið sýknaður af í héraðsdómi. Því beri að verða við ósk hans um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þá telur hann að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til og fari gegn fræðikenningum í refsirétti og fyrri fordæmum Hæstaréttar. Hann byggir á að það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar í málinu um beitingu 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Árásin hafi hvorki verið nægilega alvarleg til að heimfæra ætti háttsemina undir fyrrnefnt ákvæði né liggi fyrir sönnun um ásetning leyfisbeiðanda til manndráps. Þá sé í dómi Landsréttar ekki vikið að framburði vitna sem borið hafi um ástand brotaþola fyrir meinta árás og samskipti við leyfisbeiðanda. Loks hafi refsing verið ákveðin til muna of þung og að því leyti sé dómur Landsréttar einnig bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess, meðal annars um heimfærslu háttsemi leyfisbeiðanda til refsiákvæða, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er þá jafnframt haft í huga að leyfisbeiðandi var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í Landsrétti en hafði verið sýknaður af því broti í héraði. Beiðnin er því samþykkt.