Hæstiréttur íslands
Mál nr. 584/2016
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Lán
- Endurgreiðslukrafa
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2016. Hann krefst þess aðallega að stefndu Önnu Brynju verði gert að greiða sér 303.143.294 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2008 til greiðsludags og að viðurkennt verði að stefndi Pétur Þór beri einfalda ábyrgð á þeirri skuld. Til vara krefst áfrýjandi þess að rift verði tveimur arðgreiðslum Seven Miles ehf. til stefndu Önnu Brynju, annars vegar arðgreiðslu að fjárhæð 200.000.000 krónur samkvæmt fundargerð hluthafafundar Seven Miles ehf. 4. janúar 2009 og hins vegar arðgreiðslu að fjárhæð 100.000.000 krónur samkvæmt fundargerð aðalfundar Seven Miles ehf. 30. júní 2009. Þá krefst hann þess að stefndu Önnu Brynju verði gert að greiða sér 300.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. október 2011 til greiðsludags. Lok krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var einkahlutafélagið Seven Miles eignarhaldsfélag og samkvæmt samþykktum félagsins, mótteknum hjá fyrirtækjaskrá 25. júní 2007, var tilgangur þess fjárfestingar í hlutabréfum, verðbréfum og fasteignum, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Meðal eigna félagsins voru 38% hlutafjár í einkahlutafélögunum Spori og Sporbaugi, en þau félög ráku skóverslanir og höfðu með hendi innflutning í tengslum við þann rekstur. Átti stefnda Anna Brynja 82% hlutafjár í Seven Miles ehf. og Tómas Ottó Hansson 18%. Stefndi Pétur Þór var framkvæmdastjóri félagsins og eini stjórnarmaður þess frá 26. mars 2007, en frá sama tíma var stefnda Anna Brynja varamaður í stjórn. Hinn 8. desember 2008 tók Stefán Bragi Bjarnason sæti sem varamaður í stjórn félagsins í stað stefndu Önnu Brynju.
Með tilkynningu aðalkröfuhafa Seven Miles ehf., Sparisjóðabanka Íslands hf., síðar SPB hf., 7. október 2009 leysti bankinn til sín alla hluti stefndu Önnu Brynju og áðurnefnds Tómasar Ottós í félaginu á grundvelli handveðssamninga 2. febrúar sama ár, þar sem fyrrgreindir hlutir voru settir að veði til tryggingar skuldum félagsins við bankann. Í kjölfarið var skipt um stjórn í félaginu og með beiðni, er barst Héraðsdómi Reykjavíkur 12. nóvember 2009, var óskað eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Um ástæður fyrir beiðninni sagði að fjárhagsstaða félagsins væri afar bág og að fyrir lægi að það væri ófært að standa í fullum skilum við lánardrottna. Með úrskurði héraðsdóms 16. sama mánaðar var félagið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá munu einkahlutafélögin Sporbaugur og Spor hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurðum 21. desember 2009.
Á árinu 2008 innti Seven Miles ehf. af hendi fjölda greiðslna til stefndu Önnu Brynju, sem færðar voru sem skuld á viðskiptareikningi hennar. Voru greiðslurnar tilgreindar meðal annars „Úttekið Anna Brynja“, „Anna Brynja/úttekið“, „Anna Brynja/millifært“ og „Útborgun.“ Þá var sumarhús fært á stefndu með tilgreiningunni „Sumarhús Skorradal á Önnu Brynju“ með fjárhæðinni 19.676.080 krónur. Alls námu úttektirnar ríflega 350.000.000 krónum. Samkvæmt yfirliti yfir fjárhagshreyfingar Seven Miles ehf. árið 2008 var skuld stefndu samkvæmt viðskiptareikningi lækkuð um 189.702.400 krónur með tveimur færslum 3. október 2008 með skýringunni „Úttekið Pétur“, sem myndaði skuld stefnda Péturs Þórs, þáverandi eiginmanns stefndu, á viðskiptareikningi hans hjá félaginu. Bókhaldið var fært á þann hátt að sama dag voru 9.191.841 króna færðar aftur til baka á viðskiptareikning stefndu. Nam lækkun skuldar hennar samkvæmt viðskiptareikningi því 180.510.559 krónum. Viðskiptaskuld stefnda Péturs Þór var síðan lækkuð samdægurs um 179.215.486 krónur með skýringunni „Bankareikn. Seven M. Byr 05-761218“. Samkvæmt viðskiptareikningi stefndu Önnu Brynju hjá Seven Miles ehf. árið 2008 var hún talin skulda félaginu 303.143.294 krónur í árslok það ár, en það er sú fjárhæð sem áfrýjandi krefst aðallega að hún greiði sér. Þrátt fyrir að viðskiptamannabókhald Seven Miles ehf. hafi verið fært með þessu móti halda stefndu því fram að í raun hafi ekki verið um skuld að ræða, heldur hafi stefnda Anna Brynja haft í vörslum sínum á tilgreindum reikningum fjármuni í eigu félagsins, samtals að fjárhæð 316.831.128 krónur.
Stefndu halda því fram að stefnda Anna Brynja hafi samkvæmt framansögðu verið skuldlaus við félagið í árslok 2008 og hafi framangreindum fjármunum þess, sem hún hafði í sínum umráðum, verið ráðstafað til hennar með tveimur arðgreiðslum á hluthafafundum 4. janúar 2009 að fjárhæð 200.000.000 krónur og 30. júní sama ár að fjárhæð 100.000.000 krónur.
Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að skuld stefndu Önnu Brynju sé ógreidd, enda hafi þær ráðstafanir, sem lækkuðu skuld hennar, einungis verið til málamynda, ólögmætar eða riftanlegar. Áfrýjandi höfðað mál til endurheimtu fjármunanna 27. október 2011, en með dómi Hæstaréttar 7. janúar 2015 í máli nr. 857/2014 var málinu vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Mál þetta var síðan höfðað 16. júní 2015.
Aðalkrafa áfrýjanda nemur þeirri fjárhæð er bókuð var sem skuld á viðskiptamannareikningi stefndu Önnu Brynju í bókhaldi Seven Miles ehf. í árslok 2008 með tilliti til leiðréttinga. Annars vegar voru leiðréttar innborganir og úttektir, sem fóru í gegnum bankareikning stefndu en ekki félagsins, og hins vegar bókhaldsfærslur milli viðskiptamannareikninga hennar og stefnda Pétur Þórs.
II
Fyrir Hæstarétti hafa stefndu fallið frá þeirri málsástæðu að krafa áfrýjanda sé fyrnd.
Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er slíku félagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Einnig er félagi óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila samkvæmt 1. málslið eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að ef félagið hefur innt af hendi greiðslur í tengslum við þær ráðstafanir sem eru andstæðar 1. og 2. mgr. skuli endurgreiða þær með dráttarvöxtum.
Af hálfu stefndu Önnu Brynju er því haldið fram að sá háttur, sem hafður var á af hálfu Seven Miles ehf., að færa fjármuni félagins inn á reikninga sem formlega hafi verið skráðir á stefndu, hafi komið til vegna óvissuástands sem ríkti á fjármálamörkuðum hér á landi í kjölfar „bankahrunsins“ og þá sérstaklega vegna innstæðutrygginga lögaðila. Þá hafi allir reikningarnir verið taldir til eigna félagsins í bókum þess og innstæður í árslok 2008 verið tilgreindar meðal handbærs fjár í ársreikningi. Að því er þetta varðar verður að gæta að því að upphaflega voru umræddar færslur bókaðar sem úttektir stefndu, umræddir reikningar voru á hennar nafni og enginn samningur gerður um að fjármunirnir væru eign Seven Miles ehf. eða að stefnda skyldi geyma féð fyrir félagið. Þá var hvorki samið um ráðstöfunarrétt fjárins né lagt bann við því að stefnda myndi sjálf nýta það. Samkvæmt þessu var um að ræða peningaúttektir úr félaginu til stefndu og þar með óheimila lánveitingu í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Af hálfu stefndu er á því byggt að með bókhaldsfærslum þeim, sem áður eru raktar og fram fóru á árinu 2008, hafi umrædd skuld verið gerð upp. Þar sem peningar skiptu ekki um hendur með þessum bókhaldsfærslum var ekki um að ræða endurgreiðslu samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Að fenginni þessari niðurstöðu verður að taka afstöðu til þess hvort skuld stefndu Önnu Brynju við félagið hafi verið gerð upp með fyrrgreindum arðgreiðslum.
Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 138/1994 tekur hluthafafundur ákvörðun um úthlutun arðs eftir að félagsstjórn hefur lagt fram tillögur um það efni. Hinn 4. janúar 2009 var samþykkt á hluthafafundi í Seven Miles ehf. tillaga um að greiða „viðbótar arð að fjárhæð 200.000.000 á grundvelli heimildar skv. ársreikningi 2007“. Áður hafði verið samþykkt á aðalfundi félagsins 24. september 2008 að greiða arð að fjárhæð 100.000.000 krónur fyrir árið 2007. Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 74. gr. laganna að einungis sé heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Eftir orðanna hljóðan má einungis úthluta arði á grundvelli ársreiknings síðasta reikningsárs. Í því felst að ekki má samþykkja á síðari hluthafafundi arðgreiðslur samkvæmt samþykktum ársreikningum fyrri ára þótt heimild til úthlutunar arðs hafi ekki verið notuð þá eða eftir atvikum að fullu. Sem fyrr greinir var arðgreiðsla vegna ársins 2007 ráðin á hluthafafundi 24. september 2008. Af þeirri ástæðu gat ekki komið til þess að samþykktar yrðu frekari arðgreiðslur vegna ársins 2007 á hluthafafundi á árinu 2009. Að framansögðu virtu getur áðurnefnd ráðstöfun ekki komið til skuldajafnaðar við skuld stefndu Önnu Brynju við áfrýjanda.
Á aðalfundi Seven Miles ehf. 30. júní 2009 var lagður fram ársreikningur félagsins fyrir árið 2008. Samkvæmt honum var hagnaður þess talinn nema 94.170.161 krónu. Þá kom fram í fundargerð aðalfundar að eiginfjárstaða félagsins væri afar sterk, en eigið fé samkvæmt ársreikningi þess næmi ríflega 315.000.000 krónum. Á fundinum var samþykkt að greiða út arð að fjárhæð 100.000.000 krónur, sem eins og áður skyldi eingöngu greiðast til stefndu Önnu Brynju.
Í málinu liggur fyrir kaupsamningur 20. ágúst 2008 um hlutafé milli Seven Miles ehf. sem seljanda og Thor Trading company ehf. sem kaupanda um sölu 38% hlutafjár í Sporbaugi ehf. Í staðinn fékk Seven Miles ehf. hlutabréf að nafnverði 450.000 krónur í Thor Trading company ehf., sem voru 47,5% af hlutafé síðarnefnda félagins. Eftir þau viðskipti var eina eign Thor Trading company ehf. 38% hlutur í Sporbaugi ehf. samkvæmt ársreikningi 2008. Andvirði bréfanna, sem afhent voru sem greiðsla, var í kaupunum metið á 190.000.000 krónur. Á árinu 2007 var bókfært virði bréfanna í Sporbaugi ehf. samkvæmt ársreikningi Seven Miles ehf. 32.300.000 krónur, en fyrrgreind kaup voru gerð á genginu 500. Fram kom í ársreikningnum og hjá endurskoðanda félagsins að eignarhlutinn í Sporbaugi ehf. væri færður á kostnaðarverði í bókhaldi þess. Þá vísa stefndu til þess að við ákvörðun kaupverðs hlutabréfanna hafi verið litið til fyrri viðskipta með hlutabréf í Sporbaugi ehf. Er þá verið að vísa annars vegar til sölu félagsins á eigin bréfum til Milestone ehf. í mars 2006 á genginu 600 og til starfsmanna félagsins í júlí 2007 á genginu 333,3. Af þessum viðskiptum verður ráðið að eignir Seven Miles ehf. hafi í raun rýrnað, þar sem í þeim fólst að félagið skipti á 38% hlut í Sporbaugi ehf. fyrir 18% í sama félagi.
Samkvæmt ársreikningi Seven Miles ehf. 2008 var hagnaður af þessum viðskiptum talinn nema 157.700.000 krónum undir liðnum „Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi“ og þá sagði í skýringum að þetta væri „Hagnaður af eignarhlutum og verðbréfum.“
Í fundargerð aðalfundar Seven Miles ehf. 24. september 2008 kom fram að stærstur hluti hagnaðar félagsins árið 2007 hafi verið vegna sölu á eignarhlut í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til Shoe Life ehf. og ætti félagið þá einungis eftir 38% eignarhlut í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Þá sagði í fundargerðinni að samþykkt væri „að selja hlutinn í Sporbaugi ehf. til Thor Trading company ehf. ... Ljóst væri að Thor Trading company hefur ekki fjármagn til þess að greiða fyrir hlutinn með öðru en hlutafé í félaginu sjálfu.“ Samþykkt var að ljúka málinu þannig og talið eðlilegt að verðmæti hlutarins í Sporbaugi ehf. yrði metið eins og það var metið árið 2007. Yrði heildarverð fyrir hlutinn því 190.000.000 krónur sem greitt yrði með hlutafé í Thor Trading company ehf. Af þessu er ljóst að 24. september 2008 lá fyrst fyrir samþykki hluthafafundar í Seven Miles ehf. um sölu á hlutabréfum í Sporbaugi ehf. til Thor Trading company ehf., en eins og áður greinir var kaupsamningur um söluna dagsettur 20. ágúst sama ár, eða um mánuði fyrr. Á þessu hafa engar viðhlítandi skýringar verið gefnar.
Samkvæmt ársreikningi Sporbaugs ehf. 2008, sem gerður var 5. mars 2009, nam tap félagsins 300.380.342 krónum, en árið 2007 hafði hagnaður þess verið 14.936.034 krónur. Þá var eigið fé félagsins neikvætt um 131.286.895 krónur.
Í bréfi stjórnarformanns Sporbaugs ehf. 7. september 2009 til tveggja aðal lánardrottna félagins, VBS og Sparisjóðabanka Íslands hf., kom fram að hann hefði verið fenginn til liðs við stjórn félagsins og Spors ehf. á hluthafafundi í félögunum 8. desember 2008, en þá hefðu félögin verið orðin gjaldþrota, Sporbaugur ehf. vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu og Spor ehf. sökum „ábyrgða utan efnahags.“
Stefndi Pétur Þór var meðstjórnandi og framkvæmdastjóri Sporbaugs ehf. og var því eða mátti vera kunnugt um bága fjárhagsstöðu félagsins á árinu 2008. Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að eignarhlutur Seven Miles ehf. í Sporbaugi ehf. hafi verið seldur 20. ágúst 2008 til Thor Trading company ehf. á því verði, sem í kaupsamningi greinir, er allt að einu ljóst að við ákvörðun arðgreiðslu á aðalfundi félagsins 30. júní 2009 var félagið í raun eignalaust vegna yfirvofandi gjaldþrots Sporbaugs ehf. svo sem greinir í fyrrnefndu bréf stjórnarformanns félagsins til helstu lánadrottna þess. Í þessu sambandi er einnig til þess að líta að þegar tekin var ákvörðun um arðgreiðsluna hafði fyrr á árinu verið úthlutað 200.000.000 krónum sem arði úr félaginu vegna ársins 2007. Samkvæmt þessu voru engin efni til að arðgreiðslan færi fram og getur hún af þeim sökum ekki komið til skuldajafnaðar við skuld stefndu Önnu Brynju við áfrýjanda.
Að öllu framansögðu virtu verður aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina og stefndu Önnu Brynju gert að greiða áfrýjanda 303.143.294 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er.
Eins og áður greinir hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að um óheimila lánveitingu samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 hafi verið að ræða til stefndu Önnu Brynju á árinu 2008. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar eru þeir sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir samkvæmt 1. og 2. mgr. ábyrgir fyrir tapi einkahlutafélags ef ekki er unnt að endurgreiða féð eða afturkalla tryggingar.
Á þeim tíma, sem fyrrgreindar peningaúttektir stefndu Önnu Brynju áttu sér stað, var stefndi Pétur Þór stjórnarmaður Seven Miles ehf. og framkvæmdastjóri. Samkvæmt yfirlýsingu stefndu Önnu Brynju 16. maí 2011 til skiptastjóra áfrýjanda, sem hún staðfesti fyrir dómi, kvaðst stefnda ekki hafa á neinn hátt séð um fjárreiður fyrir Seven Miles ehf. og hafi þær og annað, sem viðkom rekstri félagsins, verið í höndum stefnda Péturs Þórs. Þetta staðfesti hann fyrir dómi. Samkvæmt þessu er fallist á með áfrýjanda að stefndi Pétur Þór beri einfalda ábyrgð á því tapi félagsins sem hlaust af hinni ólögmætu lánveitingu, sbr. 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Eftir úrslitum málsins verður stefndu gert að greiða áfrýjanda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefnda, Anna Brynja Ísaksdóttir, greiði áfrýjanda, þrotabúi Seven Miles ehf., 303.143.294 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2008 til greiðsludags.
Viðurkennt er að stefndi, Pétur Þór Halldórsson, beri einfalda ábyrgð á framangreindri skuld stefndu Önnu Brynju við áfrýjanda.
Stefndu greiði áfrýjanda óskipt 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2016.
Mál þetta er höfðað 16. júní 2015 og dómtekið 25. apríl 2016.
Stefnandi er þrotabú Seven Miles ehf., Lágmúla 7, Reykjavík.
Stefndu eru Anna Brynja Ísaksdóttir, Lindarbraut 28, Seltjarnarnesi og Pétur Þór Halldórsson, Vatnsstíg 16-18, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að stefndu Önnu Brynju verði gert að greiða stefnanda 303.143.294 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2008 til greiðsludags.
2. Að viðurkennt verði að stefndi Pétur Þór Halldórsson beri einfalda ábyrgð á greiðslu skuldar stefndu Önnu Brynju við stefnanda á tildæmdri fjárhæð.
Til vara er þess krafist:
1. Að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags til stefndu Önnu Brynju:
a. Arðgreiðslu að fjárhæð 200.000.000 króna samkvæmt fundargerð hluthafafundar hins gjaldþrota félags, dagsettri 4. janúar 2009.
b. Arðgreiðslu að fjárhæð 100.000.000 króna samkvæmt fundargerð aðalfundar hins gjaldþrota félags, dagsettri 30. júní 2009.
2. Að stefndu Önnu Brynju verði gert að greiða stefnanda 303.143.294 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 203.143.294 krónum frá 31. desember 2008 til 7. október 2011, en af 303.143.294 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
3. Að viðurkennt verði að stefndi Pétur Þór Halldórsson beri einfalda ábyrgð á greiðslu skuldar stefndu Önnu Brynju við stefnanda að fjárhæð 203.143.294 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2008 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda með álagi, auk þess sem stefnanda verði gerð réttarfarssekt. Stefndu kröfðust þess upphaflega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði dómsins 21. desember sl. var þeirri kröfu hafnað.
Málsatvik
Einkahlutafélagið Seven Miles var eignarhaldsfélag sem átti 38% hlut í félögunum Spori ehf. og Sporbaugi ehf., sem höfðu með höndum rekstur skóverslana og innflutning í tengslum við þann rekstur. Stefnda Anna Brynja Ísaksdóttir var eigandi 82% hlutafjár í Seven Miles ehf., en meðeigandi hennar, Tómas Ottó Hansson, átti 18% hlut í félaginu. Stefndi Pétur Þór Halldórsson var framkvæmdastjóri félagsins og frá 26. mars 2007 eini stjórnarmaður þess. Stefnda Anna Brynja var varamaður í stjórn frá stofnun félagsins 19. maí 2004 til 9. júlí 2009. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur, dagsettur 20. ágúst 2008, um sölu Seven Miles ehf. á 38% hlut í Sporbaugi ehf. til Thor Trading Company ehf. og kemur fram að kaupverð hlutarins sé 190.000.000 króna. Undir kaupsamninginn ritar stefnda Anna Brynja fyrir hönd seljanda, en stefndi Pétur Þór fyrir hönd kaupanda.
Þann 7. október 2009 leysti Sparisjóðabanki Íslands hf., síðar SPB hf., til sín alla hluti stefndu Önnu Brynju og meðeiganda hennar í félaginu, en hlutirnir höfðu verið settir að handveði til tryggingar skuldum félagsins við bankann. Var félaginu jafnframt skipuð ný stjórn. Þá gekk bankinn að veði í hlutaeign Seven Miles ehf. í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til tryggingar skuldbindingum félaganna þriggja við bankann, en bankinn hafði gjaldfellt öll lán sín til félaganna með tilkynningum til þeirra 10. september 2009. Samkvæmt tilkynningu til Seven Miles ehf. um gjaldfellingu nam uppgreiðsluverð skuldar félagsins 188.064.653 krónum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2009 var bú Seven Miles ehf. tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni nýrrar stjórnar félagsins. Samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra þrotabúsins frá 14. maí 2014 er aðeins ein krafa eftir á kröfuskrá, þ.e. krafa SPB hf. að fjárhæð 81.643.963 krónur, auk vaxta og kostnaðar ef til kemur, en greiddar hafi verið 58.243.000 krónur inn á kröfuna.
Með stefnu birtri 27. október 2011 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu Önnu Brynju „til staðfestingar á riftun ráðstafana og til endurgreiðslu verðmæta og greiðslu skaðabóta“. Í því máli var krafist riftunar sex nánar tilgreindra greiðslna Seven Miles ehf. til stefndu á tímabilinu 31. desember 2008 til 30. júní 2009, þ. á m. tveggja arðgreiðslna, samkvæmt fundargerðum hluthafafunda 4. janúar og 30. júní 2009. Þá var þess krafist að stefnda greiddi stefnanda 400.000.000 króna auk dráttarvaxta. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. janúar 2015 í málinu nr. 857/2014, var málinu vísað frá dómi sökum vanreifunar.
Í stefnu í máli þessu er því lýst að við skoðun á bókhaldi félagsins hafi komið í ljós að á árinu 2008 hafi félagið innt af hendi greiðslur til stefndu Önnu Brynju, sem færðar hafi verið sem skuld stefndu á viðskiptareikningi hennar. Færslurnar hafi t.d. verið merktar „Úttekið Anna Brynja“, „Anna Brynja/Úttekið“, „Anna Brynja/Millif.“, „Útborgun“. Auk þess hafi félagið fært til stefndu Önnu Brynju sumarhús þess í Skorradal með færslu merktri „Sumarhús Skorradal á Önnu Brynju“ að fjárhæð 19.676.080 krónur. Telur stefnandi að greiðslurnar hafi verið lán til stefndu í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í stefnu er að finna yfirlit um færslur á viðskiptareikningi stefndu Önnu Brynju hjá félaginu, sem stefnandi byggir dómkröfur sínar á. Telur stefnandi að skuld hennar við félagið hafi numið 303.143.294 krónum 31. desember 2008.
Því er haldið fram fram í stefnu að nokkrar færslur hafi verið færðar í bækur félagsins í því skyni að eyða út skuld stefndu. Þannig komi fram í bókhaldi félagsins að fjármunir hafi verið lagðir inn á bankareikninga sem voru bókfærðir sem eign félagsins, en hafi í raun verið í eigu stefndu. Í reikningum félagsins hafi þessar greiðslur verið færðar sem greiðsla inn á skuld hennar við félagið. Með tveimur færslum dagsettum 3. október 2008 hafi skuld stefndu Önnu Brynju, samkvæmt viðskiptareikningi, verið lækkuð um 189.702.400 krónur. Skýringar hafi í báðum tilvikum verið „Úttekið Pétur“ og hafi myndast skuld sömu fjárhæðar á viðskiptareikningi stefnda Péturs Þórs. Hafi bókhaldið verið fært þannig að 9.191.841 króna hafi verið færðar aftur á reikning stefndu Önnu Brynju samdægurs. Nettó lækkun skuldar hennar í bókhaldi vegna færslnanna nemi því 180.510.559 krónum.
Þá hafi skuld stefndu Önnu Brynju við félagið vegna innstæðna á bankareikningum hennar verið greidd á árinu 2009 með skuldajöfnuði við tvær arðgreiðslur sem samkvæmt fundargerðum hafi verið samþykktar á hluthafafundum 4. janúar og 30. júní það ár, fyrri arðgreiðslan að fjárhæð 200.000.000 króna, en hin síðari að fjárhæð 100.000.000 króna. Arðgreiðslurnar hafi verið inntar af hendi með þeim hætti að stefnda hafi tekið yfir innstæður á reikningum sínum og með því orðið skuldlaus við félagið.
Er aðalkrafa stefnanda á því reist að stefnda Anna Brynja skuldi félaginu 303.143.294 krónur, sem henni beri að endurgreiða með dráttarvöxtum, sbr. 4. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá beri stefndi Pétur Þór ábyrgð á endurgreiðslu, sbr. 5. mgr. 79. gr. laganna. Varakrafa stefnanda lýtur að riftun framangreindra arðgreiðslna á grundvelli ákvæða laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.
Stefndu hafna því að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur þeim, enda hafi ekki verið sýnt fram á að færslur á viðskiptareikningi stefndu Önnu Brynju, félaginu til eignar, hafi falið í sér ólögmætar lánveitingar í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Verði talið að um lánveitingar hafi verið að ræða telja stefndu að um hafi verið að ræða viðskiptalán samkvæmt sömu lagagrein. Þá hafi úttektir stefndu Önnu Brynju hjá félaginu verið endurgreiddar að fullu. Stefndu hafna því jafnframt að fullnægt sé skilyrðum riftunar samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.
Stefndu gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins, sem og Rögnvaldur Dofri Pétursson, löggiltur endurskoðandi.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að ráðstöfun fjármuna hins gjaldþrota félags til stefndu, sem fram fór með fjölmörgum greiðslum á árinu 2008, hafi falið í sér ólögmætar úttektir fjármuna eða ólögmætar lánveitingar til stefndu Önnu Brynju sem stjórnarmanns og hluthafa, sbr. einkum ákvæði 77. og 79. gr. nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Endurgreiðslukrafa samkvæmt aðalkröfu sé á því byggð að stefnda Anna Brynja sé enn í skuld við félagið vegna ólögmætra úttekta á fjármunum félagsins á árinu 2008. Meintar endurgreiðslur í október og desember 2008 geti ekki talist gildar, enda hafi engir fjármunir skilað sér til félagsins. Þá byggir stefnandi á því að stefndi Pétur beri ábyrgð á endurgreiðslu stefndu Önnu Brynju gagnvart stefnanda samkvæmt 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Varakrafa stefnanda er byggð á því, verði talið að arðgreiðslur á árinu 2009 hafi verið lögmætar, að þær séu riftanlegar á grundvelli ákvæða XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Stefnandi kveður varakröfuna vera þess eðlis að á hana geti reynt að hluta samhliða aðalkröfu, t.d. ef önnur arðgreiðslan telst ólögmæt en ekki hin.
Um aðalkröfu stefnanda
Lánveitingarnar. Sem fyrr greinir byggist aðalkrafa stefnanda á því að fjármunir félagsins, sem stefnda Anna Brynja nýtti í eigin þágu á árinu 2008, hafi verið ólögmætar lánveitingar eða greiðslur til hluthafa sem séu enn ógreiddar. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé slíku félagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins lán. Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán sem er giftur eða í óvígðri sambúð með hluthafa, stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra félags. Stefnda Anna Brynja hafi verið stærsti hluthafi félagsins allan þann tíma sem atvik þau sem rakin hafa verið taka til auk þess að vera varamaður í stjórn og eiginkona stjórnarmanns og framkvæmdastjóra félagsins. Bann við lánveitingum einkahlutafélags til hluthafa sé til að tryggja skil á milli fjármuna félagsins og fjármuna hluthafa þess. Hluthafar eigi ekki að fara með fjármuni félagsins sem sína eigin enda skapi slíkt hættu á því að hluthafinn hagnist með óréttmætum hætti á kostnað félagsins og þar með kröfuhafa þess og annarra hluthafa. Lán samkvæmt ákvæðinu teljist greiðsla peningaupphæðar, ígildis hennar eða fjárhagslegra verðmæta með áskilnaði um endurgreiðslu peningagreiðslunnar, ígildis hennar eða skilum á verðmætunum. Stefnandi telur augljóst að ákvæðið taki til peningagreiðslnanna til stefndu Önnu Brynju enda hafi hún fengið fjármuni í eigin þágu sem henni beri að endurgreiða félaginu. Gera verði þá kröfu að endurgreiðslan fari fram með peningum en ekki með öðrum hætti, eins og t.d. skuldajöfnuði eða skuldskeytingu. Ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994 hefði enga þýðingu ef einstaklingar gætu komið sér undan endurgreiðsluskyldu með því að nota áhrif sín í félagi til að færa skuldina yfir á annan aðila. Þá vísar stefnandi einnig til 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994 um endurgreiðsluskyldu ólögmætrar greiðslu til hluthafa.
Meintar endurgreiðslur lánveitinganna. Stefnandi byggir á því að meintar endurgreiðslur í október og desember 2008 geti ekki talist endurgreiðsla fjármunanna í samræmi við áskilnað 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, enda hafi einungis verið um að ræða bókhaldsfærslur en ekki endurgreiðslu fjármuna. Þannig geti meint greiðsla stefndu Önnu Brynju á viðskiptaskuld, með færslum í október og desember 2008, sem sagt var að fælu í sér innborgun á hennar eigin bankareikning, ekki talist endurgreiðsla á skuld, enda hefði félagið hvorki haft aðgang að né ráðstöfunarrétt yfir innstæðum á reikningum hennar.
Þá geti stefnda Anna Brynja ekki losnað undan skuldbindingu til endurgreiðslu gagnvart félaginu með skuldskeytingu, enda fari það beinlínis gegn ákvæðum 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Sú aðferð sem stefndu viðhöfðu, að færa skuldina fyrst yfir á stefnda Pétur en færa síðan í bókhaldi félagsins að hann hafi gert upp skuldina með greiðslu inn á persónulegan bankareikning stefndu Önnu Brynju, verði ekki talin endurgreiðsla fjármuna af hennar hálfu samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Að auki bendir stefnandi á að svo virðist sem þessar færslur hafi allar verið færðar í bókhald félagsins seint á árinu 2009. Í það minnsta liggi fyrir að þær hafi verið færðar í bókhald félagsins eftir 9. júní 2009. Að virtum atvikum málsins telur stefnandi ljóst að þær hafi einungis verið færðar til þess að láta líta svo út að stefnda Anna Brynja hafi greitt skuldir sínar við félagið.
Stefnandi vísar til yfirlits um úttektir stefndu Önnu Brynju, sem að framan greini, en samkvæmt því hafi skuld hennar numið 303.143.294 krónum 31. desember 2008, áður en til umdeildra færslna í bókhaldi félagsins kom. Er aðalkrafa stefnanda byggð á því að stefndu beri að endurgreiða að fullu úttekna fjármuni úr félaginu á árinu 2008 og að hinar umdeildu færslur hafi ekki leyst hana undan þeirri skyldu.
Skuld stefndu Önnu Brynju vegna þess að fjármunir félagsins voru á hennar
persónulegu reikningum. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að skuld á viðskiptareikningi stefndu Önnu Brynju hafi með lögmætum hætti verið gerð upp að hluta eða öllu leyti með framangreindum færslum í bókhaldi félagsins byggir stefnandi á því að stefnda skuldi þrotabúinu þá fjármuni sem lagðir voru inn á persónulega reikninga hennar. Vísar stefnandi til þess að stefnda hafi verið sögð vera með fjármuni inni á persónulegum reikningum í lok árs 2008 samtals að fjárhæð 316.831.128 krónur, sem hún hafi haldið á fyrir félagið. Stefnandi byggir á því að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að viðskiptaskuld stefndu hafi verið uppgerð með framangreindum færslum hafi félagið, með þessu, um leið veitt stefndu nýtt lán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Henni beri því að endurgreiða félaginu þessa fjármuni, sbr. 4. mgr. 79. gr. laganna. Þá vísar stefnandi einnig til endurgreiðsluskyldu samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laganna ef skuld stefndu Önnu Brynju vegna fyrrgreindra innstæðna verður ekki talin ólögmæt lánveiting í skilningi 1. mgr. 79. gr. þeirra. Loks vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins um endurgreiðsluskyldu stefndu Önnu Brynju, verði ekki talið að endurgreiðsluskylda hennar yrði ekki byggð á fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 138/1994.
Stefnandi gerir sömu endurgreiðslukröfu á hendur stefndu Önnu Brynju og áður, þ.e. að hún endurgreiði fjárhæð sem svarar til úttekta hennar á árinu 2008 að frádreginni arðgreiðslu ársins eða samtals 303.143.294 kr.
Um ólögmæti arðgreiðslna á árinu 2009. Stefnandi vísar til þess að arðgreiðslurnar á árinu 2009 hafi verið inntar af hendi með þeim hætti að stefnda Anna Brynja hafi tekið yfir innstæður á sínum eigin bankareikningum, sem hafi verið taldar eign félagsins. Stefnandi telur að arðgreiðslurnar hafi allar verið ólögmætar enda hafi þær hvorki uppfyllt form- né efnisskilyrði laga nr. 138/1994.
Arðgreiðsla dagsett 4. janúar 2009 sé sögð grundvallast á hluthafafundi sem haldinn hafi verið þann dag. Í fundargerð hafi verið bókuð tillaga um að greiða út „viðbótar arð“ að fjárhæð 200 milljónir króna á grundvelli meintrar heimildar í ársreikningi 2007 og með vísan til „fyrri bókana varðandi greiðsluna“. Augljóst sé að ársreikningur 2007 var ekki ársreikningur síðasta reikningsárs, líkt og ákvæði 74. gr. laga nr. 138/1994 geri að áskilnaði, auk þess sem í ársreikningnum hafi enga slíka heimild til arðgreiðslu verið að finna. Með tilvísun til „fyrri bókana varðandi greiðsluna“ sé væntanlega vísað til bókunar á meintum aðalfundi félagsins 24. september 2008. Þar hafi verið vísað til bókunar á fundi í apríl sama ár um að arðgreiðslur á árinu gætu numið allt að 310 milljónum króna. Stefnandi bendir á að fundargerð meints fundar hafi ekki fundist auk þess sem meintur fundur í apríl hafi verið haldinn áður en ársreikningur fyrir árið 2007 lá fyrir, sem virðist hafa verið 24. september 2008. Því geti arðgreiðslur ekki grundvallast á meintum fundi.
Auk þess hafi komið fram í fundargerð aðalfundar árið 2008 að stjórnin legði til að arðgreiðslur yrðu einungis 100 milljónir króna. Þannig hafi jafnframt verið brotið gegn 76. gr. laga nr. 138/1994 með arðgreiðslunni þar sem kveðið sé á um að ekki megi úthluta meiri arði en félagsstjórn leggur til eða samþykkir. Í því felist að félagið sé bundið við þá ákvörðun sem tekin er um arðgreiðslur á árinu og sé ekki heimilt að samþykkja á síðari hluthafafundum arðgreiðslur samkvæmt reikningum liðinna ára, jafnvel þótt heimild til úthlutunar arðs hafi ekki verið að fullu nýtt á viðkomandi ári þegar ákvörðun var tekin um ráðstöfun hagnaðar og taps. Með fyrri ákvörðun hafi hagnaði félagsins verið ráðstafað með bindandi hætti þannig að 100 milljónir króna hafi verið greiddar í arð en hagnaður farið að öðru leyti í varasjóð.
Þá bendir stefnandi á að í skýrslu stjórnar félagsins í ársreikningi 2008 sé ekki að finna heimild til frekari arðgreiðslna vegna ársins 2007 en stjórninni sé skylt í skýrslu sinni að gera grein fyrir ráðstöfun hagnaðar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Ekki sé heldur gerð grein fyrir þessari arðgreiðslu eða viðbótararðgreiðslu í skýrslu stjórnar í ársreikningi ársins 2008 sem stjórnin hefði augljóslega þurft að gera hafi verið um að ræða „eftirá“ ráðstöfun á hagnaði liðins árs. Loks telur stefnandi ljóst að gögn málsins bendi til þess að fundurinn hafi ekki verið haldinn 4. janúar 2009, heldur eftir 18. ágúst 2009, enda verði ráðið af gögnum málsins að bækur félagsins hafi borið með sér neikvæða stöðu þangað til „búinn hafi verið til hagnaður með hækkun á hlutafé í Thor Trading Company ehf. þann 18. ágúst 2009“.
Arðgreiðsla 30. júní 2009. Hvað varðar arðgreiðslu sem sögð er hafa farið fram 30. júní 2009, sé óljóst af fundargerð hluthafafundarins á hvaða ársreikningi hún grundvallaðist. Af fundargerð hluthafafundar virðist mega ráða að hún hafi verið grundvölluð á ársreikningnum frá 2007, sbr. orðalagið: „til viðbótar þeim arði sem ákveðið var að greiða á fundi 4. janúar 2009“, en það sé óheimilt enda ekki um að ræða ársreikning síðasta reikningsárs. Þá hafi verið brotið gegn 76. gr. laga nr. 138/1994 með þessari arðgreiðslu þar sem félagsstjórn hefði einungis samþykkt arðgreiðslu að fjárhæð 100 milljónir króna fyrir árið 2007.
Verði hins vegar talið að arðgreiðslan hafi farið fram á grundvelli ársreiknings fyrir árið 2008 bendir stefnandi á að samkvæmt upplýsingum frá endurskoðanda félagsins hafi ársreikningurinn ekki verið samþykktur fyrr en samdægurs hluthafafundinum. Slíkt sé ekki heimilt samkvæmt ársreikningslögum enda skylt að leggja undirritaðan ársreikning fram í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.
Einnig telur stefnandi gögn málsins benda til þess að fundurinn hafi ekki verið haldinn 30. júní 2009 heldur eftir 18. ágúst 2009, enda byggi ársreikningurinn á þeirri forsendu að félagið hafi fengið afhenta hluti í Thor Trading Company ehf. að nafnverði 450.000 krónur, en upplýst hafi verið að sú afhending gat ekki átt sér stað fyrr en í fyrsta lagi þann 18. ágúst 2009. Þá liggi fyrir að færslur á ársreikningi hafi ekki getað byggst á kaupsamningi sem dagsettur var 20. ágúst 2008, þar sem í honum var kveðið á um að Seven Miles ehf. ætti að fá alla hluti í Thor Trading Company ehf. sem áttu að vera að nafnverði 190.500.000 krónur og því ljóst að framsetning reikningsins á þessum viðskiptum gat ekki byggst á meintum kaupsamningi. Einnig vísar stefnandi til þess að kaupsamningurinn hafi verið undirritaður af hálfu stefndu Önnu Brynju fyrir hönd Seven Miles ehf., en stefnda Anna Brynja hafi engar heimildir haft til að skuldbinda Seven Miles ehf. Því hafi félagið ekki orðið skuldbundið af undirritun hennar á umræddum kaupsamningi.
Stefnandi vísar einnig til ósamræmis við fundargerð dagsetta 24. september 2008 og þess sem fyrir liggur um tildrög hins umdeilda ársreiknings fyrir rekstrarárið 2008.
Stefnandi byggir jafnframt á því að ársreikningurinn sé marklaus um rekstur og hagnað félagsins á árinu 2008, enda verið að færa í hann eignarhluta og hagnað af sölu á hlutabréfum milli tengdra aðila sem augljóslega hafi verið gerð í blekkingarskyni í ágúst 2009, en á þeim tíma hafi sömu aðilum verið ljóst að Sporbaugur ehf. væri á leið í gjaldþrot.
Þar sem skilyrði til arðgreiðslu, samkvæmt XII. kafla laga nr. 138/1994 hafi ekki verið fyrir hendi hafi arðgreiðslur til stefndu Önnu Brynju verið í andstöðu við ákvæði laganna og beri henni því að endurgreiða þá skuld. Verði niðurstaða dómsins sú að skuldjöfnun stefndu, eða sú aðgerð hennar að taka undir sig innstæður á reikningi sínum, verði skuldbindandi fyrir félagið, byggir stefnandi á því að stefndu beri að endurgreiða stefnanda fjármuni sem samsvara hinum ólögmætu arðgreiðslum, sbr. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994.
Um kröfu stefnanda á hendur stefnda Pétri Þór. Krafa stefnanda á hendur stefnda Pétri Þór er byggð á því að hann beri ábyrgð á endurgreiðslu stefndu Önnu Brynju gagnvart stefnanda samkvæmt 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Stefndi hafi á þeim tíma sem úttektirnar áttu sér stað verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og því ljóst að hann hafi borið ábyrgð á úttektunum stöðu sinnar vegna, þær hefðu ekki verið mögulegar án hans samþykkis. Einnig liggi fyrir yfirlýsing stefndu Önnu Brynju frá 16. maí 2011 til skiptastjóra þess efnis að stefndi hafi alfarið séð um og framkvæmt allar millifærslur á reikninga á hennar nafni og alfarið séð um allar fjárreiður félagsins. Stefnandi telur því liggja fyrir í málinu að stefndi Pétur Þór hafi verið sá sem framkvæmdi eða lét framkvæma þær aðgerðir sem fólust í því að fjármunir félagsins, um 400 milljónir króna, voru á árinu 2008 afhentir stefndu Önnu Brynju. Stefndi beri því ábyrgð á því að fé þetta skili sér aftur til félagsins í samræmi við ákvæði 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Um fyrningu aðalkröfu. Við munnlegan málflutning var því hafnað af hálfu stefnanda að aðaldómkrafa í stefnu væri fyrnd. Stefnandi kveður endurgreiðslukröfu ólögmætra lána úr hendi stefndu Önnu Brynju fyrnast á 10 árum, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007. Þá fari um fyrningu kröfu á hendur stefnda Pétri Þór eftir 7. gr. laga sömu laga.
Um varakröfu stefnanda. Verði ekki fallist á með stefnanda að ákvarðanir um arðgreiðslu á árinu 2009 hafi verið ólögmætar og óskuldbindandi, byggir stefnandi á því að arðgreiðslurnar séu riftanlegar með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991. Varakrafa stefnanda byggir á þeirri forsendu að ekki reyni á ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti vegna ólögmætra arðgreiðslna nema ákvæði einkahlutafélagalaga um endurgreiðsluskyldu eigi ekki við. Stefnandi kveður framsetningu varakröfu taka mið af þeirri dómvenju að kröfur um riftun og endurgreiðslu samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1992 séu tvíþættar, þ.e að kveðið sé hvort tveggja á um riftun og endurgreiðslukröfur sem leiða af riftun í dómsorði.
Stefnandi kveður fjárkröfu í varakröfu byggja á því að komi til þess að á varakröfu hans reyni, geti endurgreiðslukrafa hans verið samsett annars vegar af fjárkröfu eins og krafist er í aðalkröfu og hins vegar af fjárkröfu sem verði til vegna riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991. Fjárhæð kröfu stefnanda verði því sú sama en grundvöllur hennar í því tilviki mismunandi.
Stefnandi telur ákvæði 131. og 141. gr., sbr. 136. gr. laga nr. 21/1991, eiga við um arðgreiðslurnar. Byggt er á því að arðgreiðslurnar hafi átt sér stað 21. ágúst 2009, þegar félagið stóð skil á fjármagnstekjuskatti vegna þeirra og því hafi ráðstafanirnar átt sér stað innan við sex mánuði frá frestdegi sem hafi verið 12. nóvember 2009. Stefnandi telur tilgang arðgreiðslnanna hafa verið að ívilna stefndu Önnu Brynju með því að leysa hana undan skuldum við félagið, enda hafi hún á þessum tíma tekið allt handbært fé félagsins til eigin nota. Þannig blasi við að ráðstafanirnar hafi rýrt eignir félagsins og leitt til samsvarandi eignaaukningar hjá stefndu enda hafi hún losnað undan því að endurgreiða félaginu skuld sína. Augljóst sé að gjafatilgangur hafi búið að baki ráðstöfununum enda engar viðskiptalegar forsendur fyrir því að „tæma félag“ með arðgreiðslum til nákomins aðila rétt fyrir gjaldþrot þess. Beri því að líta á arðgreiðslur sem gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991.
Þar sem ljóst hafi verið að félagið væri orðið ógjaldfært, hafi það falið í sér ótilhlýðilega ráðstöfun á fjármunum þess að greiða út arð til stefndu Önnu Brynju, sem með þeim hætti hafi nýtt sér stöðu sína innan félagsins til eigin hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Vísar stefnandi til 141. gr. laga nr. 21/1991 í því sambandi.
Verði ekki fallist á með stefnanda að allar ráðstafanirnar hafi átt sér stað þegar minna en sex mánuðir voru til frestdags telur hann óumdeilanlegt að ráðstafanirnar hafi átt sér stað innan 24 mánaða frá frestdegi og séu því riftanlegar, enda hafi stefnda verið nákomin félaginu í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur einsýnt að félagið hafi verið ógjaldfært eftir úttektir stefndu Önnu Brynju á fjármunum á árinu 2008. Félagið hafi þá ekki átt aðrar eignir en hlutdeild í félögnum Spori ehf. og Sporbaugi ehf., en þau hafi í desember 2008 verið komin í slík fjárhagsvandræði að stefnt hafi í gjaldþrot þeirra, sem varð raunin ári síðar. Þann 31. desember 2008 hafi verið í félaginu verðlaus hlutabréf, krafa á hendur stefndu Önnu Brynju og rétt rúmar 10 milljónir króna í handbæru fé á móti skuldum þess sem hafi numið samtals 314.721.962 krónum, þar af skammtímaskuldum að fjárhæð 106.337.249 krónur. Félagið hafi verið eignalaust eftir hinar umdeildu arðgreiðslur og ekki haft neinn rekstur með höndum. Því hafi verið fyrirsjáanlegt í upphafi árs 2009 að Seven Miles ehf. gæti ekki staðið í skilum við kröfuhafa svo sem raunin varð 5. janúar 2009. Fyrir liggi að félagið hafi verið komið í vanskil 5. janúar 2009 samkvæmt lánssamningi frá 30. ágúst 2004 að fjárhæð allt að 83,5 milljónir króna. Þá bendir stefnandi á að á hluthafafundi 4. janúar 2009 hafi verið bókað að viðræður stæðu yfir við kröfuhafa félagsins og því hafi hluthöfum verið ljóst að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá komi fram í gögnum málsins að 18. febrúar 2009 hafi verið á gjalddaga lán að fjárhæð allt að 20 milljónum króna, í ýmsum myntum, sem félagið hafi ekki getað staðið skil á.
Varðandi ársreikning Seven Miles ehf. áréttar stefnandi að almennt verði mat skuldara á eigin eignum ekki lagt til grundvallar þegar eignastaða hans er metin. Ársreikningurinn hafi verið saminn af stefndu og ekki verið endurskoðaður. Stefnandi telur sig jafnframt geta sýnt fram á að í ársreikningnum hafi verið beitt blekkingum um verðmæti eignarhluta félagsins í Thor Trading Company ehf. sem hafi verið verðlaus en bókfærður á 190 milljónir króna. Sama eigi við um hlutabréf í Spori ehf., sem hafi á þessum tíma verið verðlaus en bókfærð á 44,8 milljónir króna. Auk þess bendir stefnandi á að handbært fé hafi verið fært í ársreikningi árið 2008 sem 328 milljónir króna en ekkert raunverulegt handbært fé hafi verið til staðar í félaginu, aðeins krafa á hendur stefndu Önnu Brynju, sem ranglega hafi verið færð í ársreikningi sem handbært fé. Stefnandi telur ljóst að sú sterka staða sem ársreikningar félagsins gáfu í skyn hafi ekki endurspeglað raunverulega stöðu félagsins á þessum tíma og því hafi hann ekki gefið rétta mynd af fjárhag þess.
Stefnandi kveður fjárhæð í varakröfu þannig fundna að miðað sé við að arðgreiðsla að fjárhæð 100.000.000 króna til stefndu Önnu Brynju teljist hafa verið lögmæt, en að riftun hennar verði staðfest með dómi. Í því tilviki beri stefndu að greiða stefnanda 203.143.294 krónur á þeim grundvelli málsástæðna sem aðalkrafa stefnanda er reist á, en 100.000.000 króna vegna riftunar arðgreiðslu. Hvað varakröfu á hendur stefnda Pétri varðar nemi hún 100.000.000 króna lægri fjárhæð en varakrafa á hendur stefndu Önnu Brynju þar sem á því sé byggt að eingöngu geti komið til ábyrgðar hans ef stefnda verður dæmd til greiðsluskyldu á grundvelli laga um einkahlutafélög.
Í varakröfu á hendur stefnda Pétri Þór er á því byggt að ábyrgð hans takmarkist við þá fjárhæð sem stefndu Önnu Brynju verði gert að greiða stefnanda samkvæmt 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, en að stefndi Pétur Þór beri ekki ábyrgð á endurgreiðslum sem verða viðurkenndar á hendur stefndu Önnu Brynju vegna riftunar á arðgreiðslum með heimild í XX. kafla laga nr. 21/1991.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, einkum 73. gr., 76. gr. og 79. gr. Varðandi stefnda Pétur er sérstaklega vísað til 5. mgr. 79. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar og laga nr. 7/1936, um ógilda löggerninga og málamyndagerninga. Varðandi varakröfu sína vísar stefnandi til XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 131. gr., 136,. gr., 141. gr. og 142. gr. Um dráttarvexti er vísað til 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 og III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um kröfu um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu byggja í fyrsta lagi á því að aðalkrafa stefnanda feli í sér skaðabótakröfu og sé því fyrnd samkvæmt 2. gr., 3. gr. og 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna þau af þeirri kröfu.
Með málshöfðun stefnanda í fyrra máli gegn stefndu Önnu Brynju hafi verið slitið fyrningu gagnvart þeim kröfum sem hafðar voru uppi í því máli, þ.e. riftunar- og endurgreiðslukröfu stefnanda vegna meintra ólögmætra arðgreiðslna. Sú málshöfðun hafi hins vegar ekki rofið fyrningarfrest vegna skaðabótakrafna stefnanda vegna meintra ólögmætra lánveitinga líkt og aðalkrafan í þessu máli byggi á. Dómkrafan í hinu fyrra máli hafi verið af öðrum toga en aðalkrafa í máli þessu, hvað varðar fjárhæð og sakargrundvöll. Því verði að líta svo á að fyrningu þeirrar kröfu sem felst í aðalkröfu stefnanda hafi fyrst verið slitið með málshöfðun 16. júní 2015, sbr. 15. gr. laga nr. 150/2007. Aðalkrafa stefnanda sé skaðabótakrafa vegna meintra ólögmætra og ógreiddra lánveitinga til stefndu Önnu Brynju og því fyrnist sú krafa á fjórum árum samkvæmt 3. gr. og 9. gr. laga nr. 150/2007. Upphaf fyrningarfrests verði að teljast vera í síðasta lagi hinn 31. desember 2008 þegar síðustu meintu ólögmætu lánveitingarnar áttu sér stað, sbr. 2. gr. laganna. Í allra síðasta lagi skuli miða við það tímamark þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 16. nóvember 2009 og skiptastjóri fékk bókhaldsupplýsingar félagsins í sínar hendur. Því sé ljóst að fyrningarfrestur stefnanda til að hafa uppi skaðabótakröfu vegna meintra ólögmætra lánveitinga til stefndu Önnu Brynju hafi runnið út í síðasta lagi 16. nóvember 2013. Telur stefnandi allar kröfur á þeim grundvelli vera fyrndar eftir það tímamark. Það eigi jafnframt við um kröfur stefnanda á hendur Önnu Brynju samkvæmt 2. tölulið í varakröfu, enda virðist þar vera um að ræða sömu fjárkröfu á hendur henni og aðalkrafa lýtur að.
Þá beri að sýkna stefnda Pétur Þór þegar af þeirri ástæðu að allar kröfur á hendur honum séu fyrndar. Aðalkrafa málsins gagnvart stefnda Pétri Þór sé að viðurkennt verði að hann beri einfalda ábyrgð á greiðslu þeirrar skuldar sem stefnda Anna Brynja verður dæmd til að greiða. Þá verði að skilja varakröfu stefnanda á hendur stefnda Pétri Þór þannig að hún byggist á sama grunni og aðalkrafan á hendur honum. Það hafi fyrst verið með málshöfðun 16. júní 2015 sem þessum kröfum á hendur stefnda Pétri Þór var komið á framfæri, a.m.k. um sex og hálfu ári eftir hin meintu bótaskyldu atvik. Um sé að ræða kröfur um viðurkenningu á skaðabótaskyldu/greiðsluskyldu að tiltekinni fjárhæð og því fari um fyrningarfrest eftir 3. gr. eða 9. gr. laga nr. 150/2007. Með vísan til 2., 3. og 9. gr. laga nr. 150/2007 og þess sem að framan er rakið, beri að telja upphaf fyrningarfrests dómkrafna á hendur stefnda Pétri Þór í allra síðasta lagi frá 16. nóvember 2009 þegar skiptastjóri fékk bókhaldsupplýsingar félagsins í sínar hendur. Lögboðnum fjögurra ára fyrningafresti á hendur stefnda Pétri Þór hafi því lokið í síðasta lagi 16. nóvember 2013. Allar dómkröfur stefnanda á hendur stefnda séu því fyrndar. Jafnframt er á því byggt að rjúfa þurfi fyrningu sérstaklega gagnvart hverjum og einum skuldara ef þeir eru fleiri en einn, sbr. 19. gr. laga nr. 150/2007. Stefnda Pétri Þór hafi hvorki verið stefnt til réttargæslu né til að þola dóm í hinu fyrra máli og því sé enn frekar ljóst að allar kröfur á hendur honum séu fyrndar.
Stefndu byggja sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnandi eigi enga fjárkröfu á hendur stefndu þar sem viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju hafi verið greidd að fullu, auk þess sem skilyrði skaðabóta séu ekki uppfyllt í málinu. Stefndu byggja á því að skuld stefndu Önnu Brynju hafi verið viðskiptalán í skilningi lokamálsliðar 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, en slík lán séu heimil til hluthafa. Enda þótt talið verði að viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju hafi ekki verið viðskiptalán, sé ljóst að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna skuldarinnar og geti þar af leiðandi ekki átt bótakröfu, sbr. 5. mgr. 79. gr. laganna og meginreglu skaðabótaréttar. Stefnda Anna Brynja hafi að fullu endurgreitt félaginu viðskiptaskuld sína.
Greiðslur til félagsins sem vistaðar voru tímabundið á bankareikningum skráðum á nafni stefndu Önnu Brynju. Stefndu byggja á því að heimilt hafi verið að lækka viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju með þeim greiðslum sem áttu sér stað og fram koma á yfirliti í stefnu 3. október, 22. október og 31. desember 2008, að fjárhæð 49.699.20 krónur inn á reikning nr. 1135-38-717002, 106.811.239 krónur inn á sama reikning og 95.969.020 krónur inn á reikning merktan Iceb. 26-68789. Hér hafi vissulega verið um að ræða greiðslur inn á bankareikninga sem voru skráðir á nafn stefndu Önnu Brynju en þeir hafi hins vegar verið skráðir sem eign félagsins og færðir sem slíkir í bókhaldi þess og ársreikningi. Ekkert í lögum banni þetta fyrirkomulag og hafi þetta verið gert í samráði við löggiltan endurskoðanda félagsins. Þetta hafi verið gert vegna óvissu um innstæðutryggingar lögaðila hjá fjármálastofnunum síðla árs 2008 og 2009. Talið hafi verið varlegra að vista þessa fjármuni á bankareikningum í nafni stefndu Önnu Brynju fremur en á innstæðureikningi félagsins þar sem meiri líkur hafi verið taldar á því að innstæður á nafni einstaklinga nytu fullrar tryggingaverndar ef til greiðsluþrots fjármálastofnana kæmi. Þessir fjármunir hafi eftir sem áður verið taldir til eigna félagsins og hafi verið gert ráð fyrir þeim í ársreikningi ársins 2008. Raunveruleg greiðsla skuldar hafi átt sér stað með þessum hætti. Greiðslurnar hafi ekki rýrt eignir félagsins heldur þvert á móti styrkt fjárhagsstöðu þess, enda liggi fyrir að þessir fjármunir hafi verið notaðir til að greiða skuldbindingar félagsins í formi arðgreiðslna.
Skuldskeyting hinn 31. desember 2008 („Úttekið Pétur“). Á því er byggt að heimilt hafi verið að lækka viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju með þeirri skuldskeytingu og greiðslum sem dagsettar eru hinn 31. desember 2008 með skýringunni „Úttekið Pétur“ þar sem stefndi Pétur Þór hafi yfirtekið 189.702.400 krónur af viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju, enda hafi viðskiptaskuldin öll fengist greidd samdægurs. Endurgreiðslan hafi farið fram með tvennum hætti; annars vegar með greiðslu samdægurs frá stefnda Pétri, 179.215.486 krónur, inn á reikning í nafni stefndu Önnu Brynju en í eigu félagsins hjá Sparisjóði Kópavogs nr. 26-628, og hins vegar með því að 9.191.841 króna voru aftur færðar yfir á viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju.
Arðgreiðslur til stefndu Önnu Brynju. Stefndu hafna því að arðgreiðslur til stefndu Önnu Brynju, dagsettar 4. janúar 2009 og 30. júní 2009, hafi verið ólögmætar. Vísa stefndu í því sambandi til gagna sem liggja fyrir í málinu um fjárhagsstöðu félagsins í árslok 2008 og fram eftir ári 2009. Ársreikningar áranna 2007 og 2008 séu skýrir um hver heimild til arðgreiðslna hafi verið. Fyrri arðgreiðslan hafi verið ákveðin á hluthafafundi og greidd stefndu Önnu Brynju sem hluthafa 4. janúar 2009. Sú arðgreiðsla hafi verið að fjárhæð 200.000.000 króna og komi fram í fundargerð að hún hafi verið ákveðin til viðbótar fyrri arðsúthlutun sem ákveðin var í september 2008. Arðgreiðslan hafi verið ákveðin á grundvelli nýjasta ársreiknings, þ.e. vegna ársins 2007, líkt og 74. gr. laga nr. 138/1994 geri ráð fyrir. Með hliðsjón af niðurstöðum hans hafi arðgreiðslan rúmast innan heimilda, enda hafi áður verið bókað á hluthafafundi að arðgreiðslur vegna ársins 2007 gætu numið allt að 310 milljónum króna. Stjórn félagsins hafi samþykkt að arðurinn yrði greiddur með þeim hætti að stefnda Anna Brynja yfirtæki hluta innstæðna á bankareikningum félagsins sem voru skráðir á nafn hennar hjá BYR en í eigu félagsins, eins og að framan er rakið. Þannig hafi fjármunirnir á umræddum bankareikningum sannarlega verið notaðir til að greiða skuldbindingar félagsins.
Hvað arðgreiðslu frá 30. júní 2009 að fjárhæð 100 milljónir króna varðar, er á því byggt að á aðalfundi félagsins sem haldinn hafi verið á þeim degi hafi verið lagður fram ársreikningur fyrir rekstrarárið 2008 og hafi rekstrarhagnaður ársins verið 94.170.161 króna og eigið fé sem óráðstafað var hafi numið 315 milljónum króna í árslok 2008. Í fundargerð komi fram að ársreikningurinn hafi verið samþykktur einróma. Á þessum fundi hafi verið samþykkt að greiða út arð vegna rekstrarársins 2008 að fjárhæð 100 milljónir króna, til viðbótar arðgreiðslunni sem fór fram 4. janúar 2009, en sú greiðsla hafi farið fram á grundvelli ársreiknings fyrir árið 2007. Þessi arðgreiðsla hafi rúmast innan heimilda 74. gr. laga nr. 138/1994, að teknu tilliti til hagnaðar ársins 2008 og yfirfærðs hagnaðar ársins 2007. Arðgreiðslan hafi aftur farið fram með þeim hætti að stefnda Anna Brynja yfirtók innstæðu á bankareikningi félagsins sem skráður var í hennar nafni en var talin til eigna félagsins.
Krafist er sýknu af 1. tölulið varakröfu stefnanda um riftun arðgreiðslna til stefndu Önnu Brynju, enda hafi verið um lögmætar arðgreiðslur að ræða og eigi ákvæði 131. gr. og 141. gr. sbr. 136. laga nr. 21/1991 því ekki við um þær. Því er sérstaklega andmælt að líta eigi svo á að greiðslurnar hafi átt sér stað 21. ágúst 2009 vegna þess að þá hafi verið staðið skil á fjármagnstekjuskatti vegna þeirra. Stefndu telja engin rök standa til annars en að miða við þær dagsetningar sem bækur félagsins tilgreina, þ.e. 4. janúar og 30. júní 2009. Þá er því alfarið hafnað að um „gjöf“ í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 geti verið að ræða, enda sé þetta lögmæt samþykkt arðgreiðsla í samræmi við 74. og 76. gr. laga nr. 138/1994. Heimilt hafi verið að láta arðgreiðsluna fara fram með þeim hætti að stefnda Anna Brynja yfirtæki bankainnstæður í eigu félagsins líkt og bókað er í fundargerðum. Þannig sé ljóst að þessar innstæður, sem stefnandi haldi fram að hafi ekki tilheyrt félaginu, hafi sannanlega verið notaðar til að greiða skuldbindingar þess.
Því er sérstaklega hafnað að félagið hafi orðið ógjaldfært vegna þessara arðgreiðslna. Hvað fyrri arðgreiðsluna 4. janúar 2009 varðar, er vísað til þess að í ársbyrjun 2009 hafi félagið átt handbært fé sem var ríflega 221 milljón króna umfram það sem félagið átti að greiða lánardrottnum sínum á því ári. Þess utan hafi félagið átt útistandandi kröfur samkvæmt ársreikningi 2008 að fjárhæð um 40,5 milljónir króna. Þannig hafi félagið átt um 261,5 milljónir króna umfram það sem það átti að greiða lánardrottnum sínum á árinu 2009. Augljóst sé að félagið hafi hvorki verið ógjaldfært fyrir né eftir þessa arðgreiðslu. Hvað síðari arðgreiðsluna varðar, að fjárhæð 100 milljónir króna, er vísað til þess að óráðstafað eigið fé í árslok 2008 hafi numið um 315 milljónum króna. Að teknu tilliti til 200 milljóna króna arðgreiðslunnar, hafi verið eftir um 115 milljónir króna af óráðstöfuðu eigin fé, sem heimilt hafi verið að úthluta sem arði. Þá beri að hafa hugfast að um 64 milljónir króna voru eftir á bankareikningi félagsins þegar það var úrskurðað gjaldþota í nóvember 2009, þrátt fyrir arðgreiðslurnar.
Því er jafnframt hafnað að skilyrði séu fyrir því að beita 141. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi ekki verið um „ótilhlýðilega“ ráðstöfun að ræða heldur lögmæta arðgreiðslu. Stefnda Anna Brynja geti ekki talist kröfuhafi félagsins í skilningi ákvæðisins, félagið hafi hvorki verið ógjaldfært fyrir arðgreiðslurnar né eftir þær, og stefnda Anna Brynja hafi ekki vitað eða mátt vita um meinta ógjaldfærni og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin teldist ótilhlýðileg.
Loks hafna stefndu alfarið umfjöllun stefnanda um að ársreikningar félagsins fyrir árin 2007 og 2008 hafi verið rangir.
Þess er krafist að stefnda Anna Brynja verði sýknuð af 2. tölulið varakröfu stefnanda. Stefnandi eigi enga fjárkröfu á hendur stefndu, enda sé búið að endurgreiða viðskiptaskuld hennar við félagið að fullu, og um gildar arðgreiðslur hafi verið að ræða sem geti ekki réttlætt bótakröfu eða endurgreiðslukröfu. Þá beri að meta stefndu í hag að þessi kröfuliður sé óskýr. Ekki fáist séð hvers vegna stefnda eigi að endurgreiða stefnanda umkrafða fjárhæð, 303.143.294 krónur, og því síður hvaða tengsl sú fjárhæð hafi við þær arðgreiðslur sem krafist sé riftunar á.
Krafa um sýknu af kröfu stefnanda á hendur stefnda Pétri Þór samkvæmt 3. tölulið varakröfu, er reist á grundvelli fyrningar, sem að framan greinir. Að auki eigi stefnandi enga fjárkröfu á hendur stefndu, enda búið að endurgreiða viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju við félagið að fullu. Engin ólögmæt háttsemi hafi verið viðhöfð né nokkru fjártjóni stefnanda fyrir að fara. Loks hafi verið um gildar arðgreiðslur að ræða til stefndu Önnu Brynju, sem geti ekki réttlætt bótakröfu eða endurgreiðslukröfu, svo sem rakið hafi verið.
Um kröfu sína um álag á málskostnaðarkröfu og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu réttarfarssektar vísa stefndu til 2. mgr. 131. gr. og 135. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndu telja mál þetta höfðað að þarflausu og að haldið sé á lofti kröfum sem séu í engu samræmi við hagsmuni eina kröfuhafa þrotabúsins. Þrátt fyrir að sex ár séu liðin frá því að stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota þurfi stefndu enn að taka til varna í dómsmáli þar sem þau séu krafin um greiðslu meira en 303 milljóna króna, þegar fyrir liggi að útistandandi kröfur þrotabúsins nemi eingöngu um 23 milljónum króna, að viðbættum eftirstæðum kröfum.
Um lagarök vísa stefndu til ákvæða laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, til meginreglna samninga- og kröfuréttar og til meginreglna skaðabótaréttar. Þá er vísað til ákvæða laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, einkum XII. kafla laganna, og til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Um kröfu um málskostnað, álag á málskostnað og réttarfarssekt er vísað til 130. gr., 131. gr. og 135. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í máli þessu reisir stefnandi kröfur sínar aðallega á því að ýmsar greiðslur Seven Miles ehf. til stefndu Önnu Brynju á tímabilinu frá janúar til desember 2008 hafi falið í sér ólögmætar úttektir fjármuna eða ólögmætar lánveitingar til hennar, samkvæmt ákvæðum 77. gr. og 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í stefnu er að finna yfirlit um færslur á viðskiptareikningi stefndu Önnu Brynju hjá félaginu. Telur stefnandi að skuld hennar við félagið hafi numið 303.143.294 krónum 31. desember 2008, sem henni beri að endurgreiða, sbr. 4. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994. Þá beri stefndi Pétur Þór ábyrgð á endurgreiðslu hinna ólögmætu lána, sbr. 5. mgr. 79. gr. laganna. Varakrafa stefnanda lýtur að riftun tveggja arðgreiðslna á árinu 2009 á grundvelli ákvæða laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.
Stefndu hafna því að um ólögmætar lánveitingar samkvæmt lögum um einkahlutafélög hafi verið að ræða, eða að fullnægt sé skilyrðum riftunar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Þau andmæla að öðru leyti útreikningum sem stefnandi byggir dómkröfur sínar á og telja að með þeim hafi ekki verið tekið tillit til lögmætra greiðslna inn á viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju, sem þau telja að fullu greidda. Þá byggja stefndu á því að aðalkröfur stefnanda og 3. töluliður varakröfu séu fyrndar.
Verður fyrst vikið að álitaefnum er lúta að fyrningu í málinu. Eins og að framan greinir byggir stefnandi málatilbúnað sinn, hvað aðalkröfu málsins varðar, á því að úttektir stefndu af reikningi félagsins hafi verið lán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Um fyrningu kröfunnar gildir því 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, þar sem kemur fram að kröfur sem byggi á peningalánum fyrnist á 10 árum. Miðað við að endurgreiðslukrafa samkvæmt 1. mgr. 77. gr. og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 stofnist þegar greiðsla til hluthafa hefur verið innt af hendi og að fyrstu úttektirnar, sem um er deilt í málinu, voru í janúar 2008, er tíu ára fyrningarfrestur ekki liðinn. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 150/2007 gildir hið sama um kröfu stefnanda á hendur stefnda Pétri Þór á grundvelli 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 er einkahlutafélagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Ákvæðið tekur þó ekki til venjulegra viðskiptalána, sbr. lokamálslið sömu málsgreinar. Sem að framan er rakið er að finna í bókum Seven Miles ehf. árið 2008 ýmsar færslur merktar „Úttekið Anna Brynja“, „Anna Brynja/Úttekið“, „Anna Brynja/Millif.“, „Útborgun“ og „Sumarhús Skorradal á Önnu Brynju“. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að um hafi verið að ræða lánveitingar til stefndu í skilningi 1. málsliðar 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Þá verður ekki séð að um viðskiptalán hafi verið að ræða í skilningi laganna, enda liggja engir skriflegir samningar fyrir um úttektirnar og kom jafnframt fram hjá stefnda Pétri við meðferð málsins fyrir dómi, að engin viðskipti hefðu verið að baki þeim. Samkvæmt framangreindu bar stefndu því að endurgreiða þá fjármuni sem félagið hafði greitt henni, sbr. 4. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 77. gr. laga nr. 138/1994. Stefnandi krefst ekki endurgreiðslu hverrar úttektar, heldur hefur verið tekið tillit til ýmissa innborgana á viðskiptareikning stefndu Önnu Brynju. Þá telur stefnandi að færa eigi til skuldar á viðskiptareikningnum tilteknar færslur vegna innborgana á bankareikninga skráða á nafn hennar. Nemur endurgreiðslukrafa stefnanda á hendur stefndu Önnu Brynju nettó niðurstöðu á viðskiptareikningi hennar, samkvæmt útreikningum stefnanda, eða 303.143.294 krónum.
Verður nú vikið að framangreindum færslum vegna innborgana á bankareikninga skráða á nafn stefndu Önnu Brynju. Eins og rakið hefur verið voru, auk framangreindra úttekta, í þrígang færðir fjármunir af reikningi félagsins inn á bankareikninga sem skráðir voru á nafn stefndu, sem stefnandi telur hafa verið lánveitingar til hennar Nánar tiltekið var um að ræða greiðslur 3. október 2008, 49.699.200 krónur inn á reikning í Byr Sparisjóði nr. 1135-38-717002, 22. október 2008, 106.811.239 krónur inn á sama reikning, og 31. desember 2008, 95.969.020 krónur inn á reikning í Icebank nr. 26-68789. Kemur þetta fram á yfirliti sem liggur fyrir vegna reikningsins í Byr og millifærslukvittun vegna innborgunar á reikninginn í Icebank. Af hálfu stefndu hafa þessar ráðstafanir verið skýrðar með því að um fjármuni félagsins hafi verið að ræða, sem vistaðir hafi verið tímabundið á bankareikningum skráðum á nafn stefndu Önnu Brynju. Þetta hafi verið gert þar sem á þessum tíma hafi óvissa ríkt um innstæðutryggingar lögaðila hjá fjármálastofnunum og hafi þótt meiri líkur á að innstæður á nafni einstaklinga nytu ríkari tryggingaverndar. Í málinu liggja fyrir fundargerðir hluthafafunda félagsins, dagsettar 9. janúar og 30. júní 2009, þar sem fram kemur að innstæður félagsins hafi verið fluttar yfir á bankareikninga í BYR á nafni stefndu Önnu Brynju á árinu 2008. Hið sama kemur fram í greinargerð Dofra Péturssonar endurskoðanda félagsins til skiptastjóra, dagsettri 28. apríl 2011, sem liggur fyrir í málinu. Þá kemur fram í gögnum málsins að fjármunirnir voru eftir sem áður taldir eign félagsins í bókum þess og ársreikningi. Samkvæmt framangreindu þykir skýringum stefndu að þessu leyti ekki hafa verið hnekkt. Er því hafnað málsástæðu stefnanda um að ráðstafanirnar hafi falið í sér lán til stefndu Önnu Brynju í skilningi laga nr. 138/1994 og verður talið að heimilt hafi verið að lækka skuld samkvæmt viðskiptareikningi hennar sem framangreindum fjárhæðum nemur.
Samkvæmt yfirliti um fjárhagshreyfingar Seven Miles ehf. áttu sér jafnframt stað skuldaraskipti að hluta viðskiptaskuldar stefndu Önnu Brynju 31. desember 2008 með því að stefndi Pétur Þór yfirtók hluta hennar með tveimur færslum að fjárhæð 140.000.000 króna og 49.702.400 krónur. Voru framangreindar fjárhæðir færðar sem skuld á viðskiptareikningi hans en skuld Önnu Brynju í bókum félagsins var lækkuð að sama skapi. Sama dag voru færðar 179.215.486 krónur inn á bankareikning skráðan á nafn stefndu Önnu Brynju í Sparisjóði Kópavogs nr. 26-628 og lækkaði skuld á viðskiptareikningi stefnda Péturs Þórs sem því nam. Loks voru 9.191.841 króna færðar aftur yfir á viðskiptareikning stefndu Önnu Brynju. Stefndu hafa gefið sömu skýringar og fyrr á greiðslum inn á framangreindan bankareikning á nafni Önnu Brynju. Með vísan til gagna sem fyrr hafa verið rakin verður við það miðað að innstæða á reikningnum hafi verið eign félagsins, þótt hann væri skráður á nafn stefndu Önnu Brynju. Er því fallist á það með stefndu að heimilt hafi verið að lækka skuld stefndu samkvæmt viðskiptareikningi hennar um 180.510.559 krónur eins og gert var. Eins og fram kemur í stefnu námu innstæður á bankareikningum skráðum á nafn stefndu Önnu Brynju, sem í bókhaldi Seven Miles ehf. voru færðar sem eign félagsins, eftir þetta samtals 316.831.128 krónum.
Af hálfu stefndu er á því byggt að viðskiptaskuld stefndu Önnu Brynju hafi loks verið gerð upp með skuldajöfnun við félagið vegna tveggja arðgreiðslna, 4. janúar og 30. júní 2009, samtals að fjárhæð 300.000.000 króna, sem fram fóru með þeim hætti að stefnda tók yfir hluta framangreindra innstæðna á bankareikningum skráðum á nafn hennar, sem hafi verið í eigu félagsins. Stefnandi telur hins vegar að ekki hafi verið um lögmætar arðgreiðslur að ræða og geti þær því ekki komið til lækkunar viðskiptaskuldar stefndu.
Í málinu liggur fyrir fundargerð aðalfundar Seven Miles ehf. 24. september 2008, þar sem samþykktur var ársreikningur félagsins vegna ársins 2007. Í fundargerðinni er vitnað til bókunar á fundi í apríl sama ár þar sem fram hafi komið að arðgreiðslur á árinu gætu numið allt að 310 milljónum króna. Þrátt fyrir það leggi stjórn félagsins til að arðgreiðslur verði aðeins 100 milljónir króna, enda ljóst að blikur séu á lofti á fjármálamarkaði. Samkvæmt bókum félagsins fékk stefnda Anna Brynja greiddan 100 milljóna króna arð 31. desember 2008. Ekki er deilt um lögmæti þeirrar ráðstöfunar í málinu.
Þá liggur fyrir fundargerð hluthafafundar, dagsett 4. janúar 2009, þar sem eftirfarandi er bókað: Tillaga um að greiða út viðbótar arð að fjárhæð kr. 200.000.000 á grundvelli heimildar skv. ársreikningi 2007 var samþykkt. Samþykkt var að Anna Brynja yfirtæki hluta innistæðna á þeim bankareikningum félagsins, sem eru á hennar nafni, en um er að ræða bankareikninga í BYR. Innistæðurnar voru fluttar á reikninga í BYR á hennar nafni á árinu 2008. Í fundargerð hluthafafundar, dagsettrar 30. júní 2009, kemur síðan eftirfarandi fram: Pétur lagði fram ársreikning félagsins 2008. Hagnaður af rekstri félagsins á árinu nam 94,2 m.kr. ... Eiginfjárstaða félagsins væri afar sterk, en eigið fé nam ríflega 315 m.kr. í árslok. ... Þá samþykkti fundurinn að greiða út arð að fjárhæð 100 m.kr., til viðbótar þeim arði sem ákveðið var að greiða á fundi 4. janúar 2009, sem líkt og áður skyldi eingöngu greiðast til Önnu Brynju, sem er eigandi alls hlutafjár í B-flokki, í samræmi við samkomulag milli hluthafa. Arðurinn skyldi greiðast með þeim hætti að Anna Brynja yfirtæki innistæður á þeim bankareikningum félagsins, sem eru á hennar nafni, en um er að ræða bankareikninga í BYR. Innistæðurnar voru fluttar á reikninga í BYR á hennar nafni á árinu 2008. Þetta var gert vegna óvissu á fjármálamörkuðum á þeim tíma. Loks kemur fram að ársreikningur vegna ársins 2008 hafi verið samþykktur á fundinum.
Samkvæmt ársreikningi vegna ársins 2007 var óráðstafað eigið fé félagsins 320.231.714 krónur. Í ársreikningi vegna ársins 2008 kemur fram að óráðstafað eigið fé félagsins hafi numið 314.401.874 krónum í árslok. Samkvæmt framangreindu rúmuðust arðgreiðslur sem stefndu Önnu Brynju voru greiddar vegna áranna 2007 og 2008 innan heimilda sem í 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 greinir. Ársreikningarnir voru staðfestir af löggiltum endurskoðanda. Í málinu liggur jafnframt fyrir bréf Dofra Péturssonar endurskoðanda til lögmanns stefndu, dagsett 12. mars 2014, þar sem hann staðfesti að hann teldi báða ársreikninga gefa skýra og glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé hjá félaginu miðað við árslok. Dofri gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og áréttaði álit sitt að þessu leyti. Kom jafnframt fram hjá honum að hann hefði yfirfarið skjöl sem lágu til grundvallar sölu Seven Miles ehf. á hlutafé í Sporbaugi og teldi hann söluverð ekki hafa verið ofmetið, en miðað hefði verið við verð samkvæmt síðustu viðskiptum með bréfin. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að stefnda Anna Brynja hafi ekki átt lögmæta kröfu um arð sem nýttur var til skuldajöfnunar á viðskiptareikningi hennar. Af því leiðir að hafnað er kröfu stefnanda um að stefndu Önnu Brynju verði gert að endurgreiða fjármuni sem fjárhæð hinna umdeildu arðgreiðslna nemur, sbr. 1. mgr. 77. gr. og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
Samkvæmt yfirliti í stefnu kom fram í bókhaldi Seven Miles ehf. að félagið skuldaði stefndu Önnu Brynju 10.351.624 krónur í lok árs 2008, en stefnandi telur hana hafa skuldað félaginu 3.143.294 krónur umfram arðgreiðslur. Samkvæmt því, og með vísan til alls framangreinds, verða stefndu sýknuð af aðaldómkröfum stefnanda í málinu. Þá verður stefndi Pétur Þór jafnframt sýknaður af viðurkenningarkröfu samkvæmt 3. tölulið varakröfu stefnanda.
Varakrafa stefnanda, sem eftir stendur, er tvíþætt og beinist gegn stefndu Önnu Brynju. Fyrri liður kröfunnar lýtur að því að rift verði með dómi framangreindum arðgreiðslum til stefndu, að fjárhæð 200.000.000 króna samkvæmt fundargerð hluthafafundar Seven Miles ehf., dagsettri 4. janúar 2009, og að fjárhæð 100.000.000 króna samkvæmt fundargerð hluthafafundar, dagsettri 30. júní 2009, á grundvelli 131. gr. og 141. gr., sbr. 136. gr. laga nr. 21/1991. Í síðari lið er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda 303.143.294 krónur auk dráttarvaxta.
Fallast verður á það með stefndu að framsetning varakröfu í stefnu sé ekki svo skýr sem skyldi. Á það einkum við um fjárkröfu samkvæmt 2. tölulið varakröfunnar, sem stefnandi kveður byggða á því að á hana geti reynt að hluta til samhliða aðalkröfunni ef önnur hinna umdeildu arðgreiðslna yrði talin ólögmæt en ekki hin. Af niðurstöðu dómsins um sýknu af aðalkröfu leiðir hins vegar að einvörðungu getur reynt á endurgreiðslukröfu samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti við úrlausn varakröfunnar. Endurgreiðslukrafa samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 getur því ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur andvirði arðgreiðslnanna, sem riftunarkrafa lýtur að, þ.e. 300.000.000 króna.
Eins og að framan er rakið fóru arðgreiðslurnar sem um ræðir fram með þeim hætti að stefnda Anna Brynja tók yfir hluta innstæðna á þremur bankareikningum sem skráðir voru á hennar nafni, en lagt hefur verið til grundvallar að um hafi verið að ræða fjármuni í eigu félagsins, eins og fram kemur í bókum þess og ársreikningi.
Bú Seven Miles ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 16. nóvember 2009, en frestdagur við skiptin var 12. nóvember 2009. Stefndi byggir á því að arðgreiðslurnar sem um ræðir hafi átt sér stað 21. ágúst 2009 þegar félagið stóð skil á fjármagnstekjuskatti vegna þeirra, og þar með innan sex mánaða frá frestdegi, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá er á því byggt að um gjafagerninga hafi verið að ræða, sem jafnframt hafi falið í sér ótilhlýðilegar ráðstafanir þar sem félagið hafi verið ógjaldfært þegar þær fóru fram, sbr. 131. gr. og 141. gr. laganna.
Eins og rakið hefur verið liggja fyrir í málinu fundargerðir hluthafafunda Seven Miles ehf., dagsettar 4. janúar og 30. júní 2009, þar sem bókað er um samþykkt hinna umdeildu arðgreiðslna. Þá liggur fyrir greinargerð Dofra Péturssonar, löggilts endurskoðanda, til skiptastjóra þrotabúsins, dagsett 28. apríl 2011, um hreyfingar á viðskiptareikningi stefndu Önnu Brynju, þar sem kemur fram að arðgreiðslurnar hafi farið fram á þeim dögum sem þær voru samþykktar. Samkvæmt framangreindu verður við það miðað að greiðslurnar hafi farið fram í framhaldi af samþykkt þeirra á hluthafafundum 4. janúar og 30. júní 2009. Því hafi síðari arðgreiðslan farið fram innan sex mánaða frests samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, en ekki sú fyrri. Í samræmi við niðurstöðu dómsins um aðalkröfu stefnanda verður jafnframt við það miðað að arðgreiðslurnar hafi rúmast innan heimilda samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 og að stefnda Anna Brynja hafi átt lögmæta kröfu um að fá greiddan arð frá félaginu. Byggir sú niðurstaða einkum á ársreikningum félagsins vegna áranna 2007 og 2008, sem staðfestir hafa verið af löggiltum endurskoðanda, svo sem rakið hefur verið. Í vitnisburði Dofra Péturssonar endurskoðanda við meðferð málsins fyrir dómi áréttaði hann jafnframt það álit sitt að félagið hefði verið gjaldfært fyrir og eftir að arðgreiðslurnar fóru fram. Þá verður til þess litið að samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra þrotabúsins frá 14. maí 2014 er aðeins ein krafa eftir á kröfuskrá, þ.e. krafa SPB hf., og nema eftirstöðvar hennar rúmum 23 milljónum króna.
Samkvæmt öllu framangreindu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að arðgreiðslurnar hafi falið í sér gjafagerning eða ótilhlýðilega ráðstöfun í skilningi 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá þykja stefndu hafa leitt að því nægilegum líkum að skilyrði riftunar um ógjaldfærni samkvæmt sömu lagaákvæðum hafi ekki verið uppfyllt. Verður stefnda Anna Brynja því sýknuð af varakröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem með hliðsjón af umfangi málsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts þykir hæfilega ákveðinn 3.000.000 króna. Ekki þykja efni til að dæma stefnanda til greiðslu álags eða réttarfarssektar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 131. gr. og 135. gr. laga nr. 91/1991.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndu, Anna Brynja Ísaksdóttir og Pétur Þór Halldórsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Þrotabús Seven Miles ehf.
Stefnandi greiði stefndu 3.000.000 króna í málskostnað.