Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2010. |
|
Nr. 371/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Marek Bogdan(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) (Lilja Jónasdóttir hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur. Sératkvæði.
M var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa slegið sköfu í andlit samstarfsmanns síns Y er þeir voru við malbikunarstörf. Við höggið féll Y aftur fyrir sig og hafnaði á vörubifreið með þeim afleiðingum að hann hlaut vægan heilahristing, bólgnaði hægra megin í andliti, m.a. á vörum, hlaut verulegar bólgur á nefi og sár hægra megin við það. Við ákvörðun refsingar þótti rétt að líta til þess að M hefði brugðið við það þegar Y sletti heitu malbiki á hann, þótt atvikið yrði ekki réttlætt með vísan til 4. tl. 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. almennra hegningarlaga. Var M dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hann var dæmdur til að greiða Y 250.000 krónur í miskabætur og 223.582 kr. í annan kostnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða verði staðfest en refsing hans þyngd.
Y krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 973.582 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júlí 2008 til 25. apríl 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og lögmannskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins. Til vara krefst hann sýknu, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Hann krefst aðallega sýknu af skaðabótakröfu, en til vara að hún verði lækkuð.
Kröfu um ómerkingu héraðsdóms byggir ákærði á því að ekki hafi verið tekin vitnaskýrsla fyrir dómi af öllum þeim sem upplýsingar hafi haft um atvikið. Vísar hann til verkstjóra sem sá atvikið og lögregla ræddi við. Einnig að fleiri hafi verið á staðnum en um sé getið í málsgögnum og nafngreinir hann einn mann í því sambandi.
Við meðferð málsins í héraði kom hvorki fram krafa af hálfu ákærða um að þessi vitni yrðu leidd fyrir dóminn né hafði hann frumkvæði að því. Héraðsdómur byggir niðurstöðu sína á mati á framburði brotaþola og annars vitnis og að hluta til á framburði ákærða sjálfs. Engir þeir meinbugir eru á meðferð málsins í héraði er leitt geti til ómerkingar dómsins og er kröfu ákærða þar að lútandi hafnað.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Að því leyti sem þar er vikið frá orðalagi ákærunnar er um að ræða leiðréttingu sem heimil er samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ákærði og brotaþoli unnu saman við að dreifa malbiki þegar atvikið átti sér stað. Stutt var á milli þeirra og upplýst er að báðir héldu um sköft verkfæra sinna. Ákærði játar að hafa lyft að brotaþola áhaldi því sem hann var að vinna með og valdið þeim áverkum sem brotaþoli hlaut. Hafi það gerst með þeim hætti að hann hafi ýtt eða slegið með verkfæri sínu í átt til brotaþola, höggið lent á hendi hins síðarnefnda sem við það hafi rekið verkfæri sitt í andlit sjálfs sín. Ákærði telur að um óviljaverk hafi verið að ræða. Þegar það er virt að höggið var það þungt að brotaþoli féll við og vankaðist, hlaut talsverða áverka í andliti og heilahristing, þá þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að viðbrögð ákærða hafi verið langt umfram tilefni og verður að meta honum til sakar að sveifla þungu áhaldi að andliti mannsins. Við ákvörðun refsingar þykir mega líta til þess að honum hafi brugðið við að fá á sig slettu af heitu malbiki þó að atvikið verði ekki réttlætt með vísan til 4. tölulið 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og refsingu ákærða sem og sakarkostnað.
Læknisvottorð staðfesta að brotaþoli var frá vinnu í rúma viku vegna afleiðinga árásarinnar, leitaði ítrekað til læknis á næstu mánuðum á eftir og þurfti að undirgangast smávægilega aðgerð. Þykja miskabætur því hæfilega ákveðnar 250.000 krónur, en niðurstaða héraðsdóms um bætur vegna útlagðs kostnaðar og þóknun lögmanns brotaþola verður staðfest. Ákærði verður því dæmdur til að greiða brotaþola samtals 473.582 krónur. Vegna vanreifunar vaxtakröfu í ákæru og mótmæla ákærða verða almennir vextir ekki dæmdir en ákvörðun héraðsdóms um dráttarvexti staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun lögmanns brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Marek Bogdan, og sakarkostnað.
Ákærði greiði Y 473.582 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. apríl 2009 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 387.453 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur og þóknun lögmanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Lilju Jónasdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa einu sinni slegið skóflu í andlit kæranda þar sem þeir voru saman við vinnu. Í ákæru er háttsemi ákærða heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til þess að sakfellt verði þarf ákæruvaldið að sanna að ákærði hafi slegið kæranda af ásetningi.
Ákærði hefur staðfastlega neitað sök. Fram er komið að kærandi mokaði í átt að ákærða malbiki úr rennu frá vörubifreið en ákærði dreifði úr því með sköfu, en ekki skóflu eins og kærandi hefur haldið fram og miðað er við í ákæru. Ekki verður vefengd sú niðurstaða héraðsdóms að kærandi hafi slett malbiki á læri ákærða. Miða verður við að malbikið hafi verið „sjóðandi heitt“ eins og kærandi lýsir en það mun hafa verið kynnt upp með eldi og gasi áður en það fór í niður rennuna. Ekki er ljóst hvort ákærði og kærandi stóðu hlið við hlið við vinnu sína eða andspænis hvor öðrum. Á hinn bóginn kváðu bæði kærandi og ákærði fyrir dómi að stutt hafi verið á milli þeirra og nefndi kærandi 70 cm í því sambandi. Eðli málsins samkvæmt má ætla að þeir hafi bograð nokkuð við vinnuna. Verður ekki vefengdur framburður ákærða að honum hafi verið mjög brugðið við að fá sjóðandi heitt malbikið á læri sér. Í framangreindu ljósi er ekki órökréttur framburður ákærða um að nánast ósjálfráð viðbrögð hans hafi leitt til þess að skafa sú sem hann hélt á rakst með afli í andlit kæranda.
Héraðsdómur kemst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi viljandi slegið sköfunni í andlit kæranda. Eins og þar er nánar rakið vísar dómurinn um það til framburðar kæranda og einnig vitnisins B, sem sat í bifreið skammt frá, meðal annars með eftirfarandi orðum: „Þá var það mat vitnisins B, að ákærði hefði gert þetta viljandi, enda hefði hann virst mjög æstur eftir að hann fékk á sig malbiksslettuna. Þótt ljóst sé að ákærða hafi brugðið við að fá malbiksslettu á sig umrætt sinn, verður með vísan til framangreinds vættis að telja þungt högg ákærða ekki verða skilgreint sem óviljandi viðbrögð við slettunni en fram er komið að ákærði leitaði ekki læknis vegna hennar.“
Eftir að áðurnefnt vitni hafði lýst því fyrir héraðsdómi að ákærði hafi „rekið sköfuna beint upp í andlitð á“ kæranda spurði sækjandi vitnið svofelldrar spurningar: „Skynjaðir þú þetta sem viljaverk?“ Svar vitnisins var: „Já, hann virtist vera mjög æstur og mér skildist að eitthvað hafði gengið á á undan, eitthvað þras og rifrildi en ég svo sem veit ekkert, ég var náttúrulega ekki á staðnum og veit ekkert um hvað það snérist.“ Þessi forsenda ályktunar vitnisins samræmist hvorki framburði ákærða né kæranda en þeir voru báðir sérstaklega spurðir um samskipti sín áður en atvikið varð. Til að mynda sagði kærandi um þetta: „Nei, mér fannst hann mjög fínn þangað til að þetta gerðist. Við vorum mjög góðir félagar í vinnunnni.“
Mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar vitnis kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála nema hlutaðeigandi vitni hafi gefið skýrslu fyrir Hæstarétti. Að framan er bent á atriði sem gefa ástæðu til að ætla að niðurstaða héraðsdóms um sönnunarmat kunni að vera röng svo einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Ég er þó sammála niðurstöðu meirihluta dómenda að ekki sé þörf á að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar í héraði samkvæmt ákvæðinu. Hef ég þá einkum í huga að sakfelling ákærða verður ekki reist á „mati“ vitnisins B, eins og héraðsdómur orðar það, sem auk þess er grundvallað á rangri ályktun vitnisins um samskipti kæranda og ákærða áður en atvikið varð. Þá eru að framan nefnd önnur atriði sem telja verður ákærða mjög í hag um sönnun huglægrar afstöðu hans til þess verknaðar sem um ræðir. Með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 er varhugavert, gegn staðfastri neitun ákærða, að telja sannað að ákærði hafi haft ásetning til að valda kæranda líkamstjóni. Því ber að sýkna hann af sakargiftum ákærunnar, vísa skaðabótakröfu frá héraðsdómi og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 20. maí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 28. apríl 2009, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 17. febrúar 2009, gegn Marek Bogdan, kt. 021069-4269, Snælandi 6, Reykjavík, „fyrir líkamsárás, með því að hafa föstudaginn 18. júlí 2008, við gatnamót við Suðurbraut í Hafnarfirði þar sem hann var við malbikunarvinnu, slegið skóflu í andlit samstarfsmanns síns Y, kt. [...], sem við það féll aftur fyrir sig og hafnaði á vörubifreið, með þeim afleiðingum að hann hlaut vægan heilahristing, bólgnaði hægra megin í andliti, m.a. á vörum, hlaut verulegar bólgur á nefi og sár hægra megin við það en auk þess tognaði hann í baki.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar“.
Í ákæru er lýst kröfu Y um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 973.582 kr. Við upphaf aðalmeðferðar málsins var leiðrétt tilgreining vaxta- og dráttarvaxtakröfu í ákæru til samræmis við framlagða bótakröfu. Verjandi ákærða mótmælti þessu og krafðist þess að ekki yrðu dæmdir vextir og dráttarvextir fyrr en frá uppsögu dóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að bótakrafa verði lækkuð verulega. Verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
I.
Samkvæmt frumskýrslu málsins kom Y á lögreglustöðina í Breiðholti föstudaginn 18. júlí 2008 og kærði líkamsárás sem hann varð fyrir kl. 10:40 þann sama dag. Hann lýsti atvikum þannig að hann hefði verið við malbikunarvinnu hjá Aflverki við að moka malbiki, sem kom úr rennu frá malbikunarbifreið. Þetta hafi verið á umferðareyju. Hefði slest malbik á skó vinnufélaga hans, ákærða í máli þessu, en það hefði verið óviljandi. Ákærði hefði verið í þykkum vinnuskóm með stáltá og hefði hann sparkað malbikinu af skónum, snúið sér svo við og barið kæranda með malarskóflu sem hann hélt á. Höggið hefði komið í andlit kæranda og hann við það fallið á vinnuvél og þaðan í götuna. Hann hefði vankast og næst munað eftir sér í bifreið hjá verkstjóranum, sem hefði sagt að kærandi hefði verið utan við sig í um það bil 5 mínútur eftir höggið.
Kærandi kvað ákærða ekkert hafa sagt við sig þegar malbikið slettist á skó hans og þá hefðu þeir ekki átt í neinum deilum áður en þetta gerðist, en þeir hefðu unnið saman frá því í byrjun júní. Kærandi kvaðst hafa farið á heilsugæsluna í Hafnarfirði vegna áverka sinna. Kvaðst hann finna fyrir ógleði, höfuðverk og verk í hálsi auk þess sem hann svimaði og fyndi til sljóleika.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Gunnars Þórs Jónssonar læknis, dagsett 14. ágúst 2008. Þar kemur fram að kærandi hafi komið á heilsugæsluna á Sólvangi að morgni 18. júlí 2008 í fylgd verkstjóra síns hjá Aflverki. Hann hafi sagt svo frá að hann hefði fyrr um morguninn unnið við malbikunarframkvæmdir í Hafnarfirði þegar vinnufélagi hans hefði slegið hann í andlitið með járnskóflu. Kærandi hefði við þetta hrasað aftur á bak og lent á vörubifreið fyrir aftan hann og svo dottið í götuna og vankast. Hefði hann sagst hafa munað eftir öllu fram að högginu en verið óviss um nokkrar mínútur þar á eftir. Kærandi hefði við læknisskoðun klukkustund síðar verið skýr og áttaður, staðið stöðugur og taugaskoðun verið í lagi. Hann hafi verið mjög bólginn hægra megin í andliti, sprungnar og bólgnar varir, með sár hægra megin á nefi og mjög bólginn yfir nefið, bæði hægra og vinstra megin, og mjög aumur þar við þreifingu. Miðsnesið virðist þó liggja rétt, þ.e. í miðlínu. Þá hefðu verið eymsli og bólga vinstra megin á hnakka en ekki grunur um brot þar. Sár kæranda hafi verið hreinsuð og búið um þau og þá hefði honum verið ráðlagt að vera frá vinnu í að minnsta kosti viku og forðast athafnir, sem gætu valdið hættu á höfuðhöggi að nýju, næstu tvær vikurnar.
Segir í vottorðinu að kærandi hafi komið aftur til skoðunar 23. sama mánaðar og þá hefði bólgan verið gengin vel niður í andlitið, nefið virtist vera rétt og þannig ekki skekkst eða brotnað illa við höggið, þótt bólga hefði verið á hægri nösinni. Bólga á vörum hefði verið enn til staðar en mjög skánandi. Er því lýst að kærandi hefði fundið til ógleði og verkja í höfði síðustu 2-3 daga en reiknað væri með vinnufærni að nýju innan1-2 daga.
Einnig liggur frammi læknisvottorð Bjargar Þ. Magnúsdóttur, læknis á heilsugæslunni í efra Breiðholti, dagsett 28. október 2008. Þar kemur fram að kærandi hafi fyrst leitað á heilsugæsluna 3. september sama ár vegna afleiðinga árásar sem hann varð fyrir í júlí þegar ráðist hefði verið á hann með handskóflu. Hefði hann fengið áverka í andlit og tognun á hálsi og leitað læknis vegna þessa strax. Hefði kærandi sagst finna til í baki sem hann rekti til árásarinnar en hann hefði ekki fundið fyrir vandamálum í baki fyrir atburðinn. Hann ynni erfiðisvinnu og fyndi til verkja í mjóbaki sem leiði upp milli herðablaðanna. Hefði hann fyrst fundið fyrir þessu síðustu vikuna í júlí og hefðu verkirnir ekkert lagast. Verkirnir tengdust áreynslu á bak við vinnu og hefðu verið staðbundnir án útleiðslu. Við skoðun hefði verið „dálítil flötun á lordosunni í mjóbaki“. Þá er því lýst að þreifieymsli hefðu verið yfir hryggjartindum fyrir miðjum brjósthrygg en góð hreyfigeta þótt kærandi lýsti verkjum við hreyfingu. Segir í vottorðinu að einkennin gætu samrýmst tognun á baki. Hann hafi við komu á heilsugæsluna 8. október sama ár vegna annars en talað um bakverkina, sem hann hafi fundið fyrir frá árásinni. Loks kemur fram í vottorðinu að samkvæmt sjúkraskrá kæranda eigi hann ekki fyrri sögu um bakverki.
Að beiðni lögmanns bótakrefjanda, kæranda í máli þessu, gaf Björg Þ. Magnúsdóttir læknir út annað læknisvottorð, dagsett 2. janúar 2009. Þar kemur fram að kærandi hafi leitað á heilsugæslustöðina í efra Breiðholti 13. nóvember 2008 vegna vökvafylltrar blöðru innan á neðri vör sem hafi verið tæplega 0,5 cm að lengd. Síðan segir í samantektarkafla vottorðsins: „Y varð fyrir líkamsárás síðastliðið sumar eða í júlí 2008 þegar ráðist var á hann með handskóflu. Fékk áverka í andliti og einnig virðist hann hafa fengið hnykk á háls og bak. Einkenni og skoðun í september samrýmast tognun í baki. Í kjölfar árásarinnar fékk hann blöðru innanvert á neðri vör sem virðist hafa lokað útfærslugangi munnvatnskirtils og því hlóðst vökvi frá kirtlinum upp og þurfti að tæma endurtekið. Blaðran var fjarlægð með lítilli aðgerð í nóvember 2008. Einnig eru talsverðar líkur á að Y hafi nefbrotnað í árásinni og ekki gróið rétt saman. Örlitla skekkju má sjá yfir til hægri en aðallega hefur hægri nösin verið stífluð síðan og við skoðun er hún talsvert þrengri en sú vinstri. Hægt er að rétta nefið og opna upp hægri nös en óvíst með árangur. Liggur ekki á að framkvæma það og ekki nauðsynlegt“.
Loks liggur frammi í málinu áverkavottorð Ólafs Guðmundssonar sérfræðings á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi dagsett 22. janúar 2008 þar sem því er lýst að bótakrefjanda hafi verið vísað á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar vegna fyrirferðar á innanverðri neðri vör. Er það niðurstaða læknisins að mjög líklegt sé að slímblaðra á neðri vör hafi myndast við áverkann, sem bótakrefjandi lýsti að hann hefði orðið fyrir þegar vinnufélagi hans barði hann með heitri skóflu í hægri hluta andlitsins, en hægt hefði verið að gera einfalda aðgerð til að fjarlægja blöðruna. Hins vegar væri ekki hægt að fullyrða að nefskekkjan væri vegna þess áverka.
II.
Ákærði hefur fyrir dóminum neitað sakargiftum. Lýsti hann málsatvikum þannig að þeir kærandi hefðu umrætt sinn verið að vinna á Suðurbraut í Hafnarfirði. Kærandi hefði staðið skammt frá ákærða og haldið á skóflu og mokað malbiki. Ákærði hefði verið að jafna út malbikinu og hefði kærandi hent malbiki á ákærða. Kvað ákærði sér hafa brugðið við þetta og lyft upp sköfunni, sem hann hélt um með báðum höndum, og ýtt henni upp. Hann kvaðst hafa slegið til kæranda, sem hefði haldið höndum sínum upp til að skýla sér, og hefði kærandi síðan við þetta sjálfur slegið í eigið andlit. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði þó ekki hafa séð neitt fara í andlitið á kæranda. Ákærði kvað högg sitt ekki hafa verið fast enda hefðu þetta verið ósjálfráð viðbrögð hans og óviljandi. Aðspurður um viðbrögð kæranda við högginu, kvað ákærði hann ekki hafa dottið og þá hefðu hvorki sést áverkar né blóð á andliti kæranda. Kærandi hefði hins vegar ekki haldið áfram að vinna eftir þetta, heldur farið í burtu með A verkstjóra. Ákærði kvaðst hafa beðið ákærða afsökunar og sagt honum að þetta hefði verið óviljandi.
Ákærði kvaðst hafa fengið heita malbiksslettuna á lærið og hefði verið um að ræða það magn sem rúmist í einni skóflu. Af læri hans hefði malbikið síðan dottið niður á skó hans. Kvaðst ákærði hafa haldið áfram að vinna og ekki leitað læknis vegna þessa.
Vitnið Y, kærandi og brotaþoli í máli þessu, kvaðst hafa verið að vinna við malbikun umrætt sinn og staðið skammt fyrir aftan ákærða þegar umrætt atvik gerðist. Lýsti hann atvikum þannig, að þegar hann hefði verið að færa til malbik með malbikunarskóflu úr hrúgu við hægri hlið sína, hefði malbikið óvart dreifst yfir skó ákærða. Þegar vitnið hefði síðan snúið sér aftur að malbikshrúgunni, hefði ákærði, sem var einnig með malbikunarskóflu í hendi, dustað af sér malbikið, snúið sér við og stungið skóflunni aftur fyrir sig og í andlit vitnisins. Taldi vitnið að ákærði hefði rekið skófluna í sig viljandi þar sem ákærði hefði haldið að vitnið hefði slett viljandi á hann malbikinu. Högg ákærða hefði verið frekar þungt og kvaðst vitnið við það hafa misst jafnvægið, kastast aftur á bak utan í malbikunarbíl, sem var staðsettur rétt fyrir aftan vitnið, og þaðan hefði hann dottið í jörðina. Kvaðst vitnið hafa dottið út í þrjár til fjórar mínútur og þá hefði blætt mikið úr nefi hans. A verkstjóri og B hefðu komið þar að og þá hefði ákærði sagst hafa gert þetta óviljandi. Hefði A síðan farið með vitnið á slysadeild í Hafnarfirði þar sem vitnið hefði rætt við lækni en hann hefði síðan mætt aftur til vinnu rúmri viku síðar. Vitnið kvaðst við högg ákærða hafa fengið áverka við munnvik og í nefi og tognun sem leiddi niður í bak. Hefði þurft að gera aðgerð á vör hans vegna stíflu í munnvatnskirtli en hefði náð sér að fullu eftir aðgerðina. Vitnið kvað þá ákærða ekki hafa rætt saman eftir þetta og kvaðst vitnið hafa talið sér ógnað með því að vinna í návist ákærða. Hefði hann þess vegna óskað eftir því að þurfa ekki að vinna nálægt ákærða eftir þetta.
Aðspurður kvað vitnið þá lýsingu ákærða ranga, að áhald ákærða hefði farið í handlegg vitnisins og við það hefði skófla vitnisins sjálfs lent í andliti vitnisins.
Vitnið B kvaðst hafa setið inni í bifreið ásamt A verkstjóra í um það bil 10 metra fjarlægð frá þeim stað þar sem þeir ákærði og kærandi voru við vinnu sína umrætt sinn. Í upphafi skýrslutökunnar kvað vitnið þá ákærða og kæranda hafa staðið hlið við hlið en síðar lýsti hann því að kærandi hefði verið að moka malbikinu í áttina að ákærða en ákærði hefði snúið að vitninu og rakað malbikinu til sín og dreift úr því. Kvaðst vitnið hafa séð vel það, sem gerðist, og lýsti atvikum þannig, að kærandi hefði virst kasta örlitlu af malbiki á skó ákærða sem hefði brugðist mjög illa við því og rekið sköfuna með miklu afli í andlit kæranda þannig að það blæddi mjög mikið úr honum. Kærandi hefði við höggið hnigið niður og vankast verulega. Vitnið kvaðst hvorki hafa séð sköfu ákærða fara í hönd kæranda né skóflu kæranda fara í andlit kæranda. Vitnið kvaðst hafa skynjað þetta sem viljaverk ákærða enda hefði ákærði virst vera mjög æstur. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt að þeir hefðu verið að þrasa hvor við annan áður en til þessa kom. Hefði ákærða virst vera mjög brugðið þegar hann sá að mikið blæddi úr kæranda og menn flykktust þarna að.
Vitnið kvaðst hvorki hafa þekkt ákærða né kæranda áður en til þessa kom, enda hefði hann eingöngu verið staddur þarna umrætt sinn vegna verks sem hann hefði unnið að fyrir verktakann. Aðspurður kvað vitnið þá lýsingu ákærða vel geta staðist, að ákærði hefði fengið malbiksslettuna bæði á buxur sínar og skó.
III.
Óumdeilt er að þeir ákærði og kærandi unnu við malbikum umrætt sinn og stóðu við vinnu sína nálægt hvor öðrum. Kærandi mokaði malbiki úr malbikunarrennu en ákærði dreifði úr malbikinu. Framburður ákærða um að hann hafi haldið á malbikunarsköfu en ekki skóflu fær stuðning í vætti vitnisins B og verður að miða við það og telja sannað að um sköfu hafi verið að ræða. Þá er sannað með vætti ákærða og beggja vitnanna, að kærandi sletti malbiki á ákærða og þykir verða að miða við þá lýsingu ákærða að malbikið hafi slest á læri hans og síðan runnið niður á skó en sú lýsing fær að vissu leyti stuðning í vætti vitnisins B.
Ekki þykir skipta sköpum við mat á trúverðugleika vættis kæranda þótt hann hafi lýst staðsetningu þeirra ákærða umrætt sinn með öðrum hætti en vitnið B að því leyti hvort þeir ákærði stóðu hlið við hlið, eins og kærandi hefur lýst, eða hvort þeir stóðu andspænis hvor öðrum eins og fram kom hjá B þegar hann var spurður sérstaklega um það atriði hér fyrir dóminum. Er þá til þess litið að kærandi lýsti því, að hann hefði við vinnu sína snúið sér fram og til baka þegar hann mokaði malbikinu og þá sagði vitnið B svo frá í sjálfstæðri frásögn sinni í upphafi skýrslu sinnar fyrir dómi, að þeir ákærði og kærandi hefðu staðið hlið við hlið umrætt sinn.
Ákærði hefur borið á þann veg að honum hafi brugðið við malbiksslettuna og því lyft malbikssköfunni og ýtt henni upp og slegið til kæranda en þar sem kærandi hefði haldið höndum sínum upp til að skýla sér, hefði kærandi við högg ákærða, sjálfur slegið í andlit sitt. Hafi þetta verið ósjálfráð viðbrögð af hálfu ákærða og óviljaverk Kærandi hefur á hinn bóginn sagt að ákærði hafi viljandi stungið skóflunni aftur fyrir sig í andlit kæranda og að höggið hafi verið frekari þungt. Fær lýsing kæranda að þessu leyti stuðning í vætti vitnisins B, sem sá atvik mjög vel úr lítilli fjarlægð, en hann lýsti því að ákærði hefði rekið malbikssköfuna af miklu afli í andlit kæranda. Þykir verða að miða við þá lýsingu. Þá var það mat vitnisins B, að ákærði hefði gert þetta viljandi, enda hefði hann virst mjög æstur eftir að hann fékk á sig malbiksslettuna. Þótt ljóst sé að ákærða hafi brugðið við að fá malbiksslettu á sig umrætt sinn, verður með vísan til framangreinds vættis að telja þungt högg ákærða ekki verða skilgreint sem óviljandi viðbrögð við slettunni en fram er komið að ákærði leitaði ekki læknis vegna hennar. Er það því niðurstaða dómsins að ákærði hafi af ásetningi slegið malbikssköfu í andlit kæranda. Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni og verður hann sakfelldur eins og krafist er.
Í læknisvottorði Gunnars Þórs Jónsonar, sem gefið var út í framhaldi af komu kæranda á slysadeild rétt eftir að umrædd atvik urðu, segir að kærandi hafi verið mjög bólginn yfir nefið, bæði hægra og vinstra megin, með sprungnar og bólgnar varir, sár hægra megin á nefi og mjög aumur þar við þreifingu. Eftir þessari lýsingu verður að telja sannað að ákærði hafi með líkamsárás sinni umrætt sinn valdið kæranda þeim áverkum, sem lýst er í ákæru, að undanskilinni tognun í baki. Ekki er í framangreindu vottorði Gunnars Þórs læknis minnst á tognunina og virðist sem kærandi hafi ekki kvartað yfir verkjum í baki fyrr en í september 2008. Verður því, gegn mótmælum ákærða, að telja ósannað að tognun í baki séu afleiðingar framangreindrar líkamsárásar ákærða.
Refsing.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Ekki þykja efni til að beita ákvæðum 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar til alls framanritaðs er litið verður refsing ákærða talin hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Með hliðsjón af því að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Bótakrafa.
Af hálfu Y hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 973.582 krónur auk vaxta samkvæmt IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 18. júlí 2008 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá því að mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða til greiðsludags. Krafan er sundurliðuð þannig:
|
1. |
Miskabætur skv. 26. gr. skbl. |
kr.750.000 |
|
2. |
Útlagður kostnaður |
kr. 73.582 |
|
3. |
Lögmannsaðstoð m. vsk |
kr.150.000 |
|
|
Samtals |
kr.973.582
|
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás og ber honum að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt a-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar litið er til þeirra afleiðinga, sem samkvæmt áðurgreindu telst sannað að ákærði hafi valdið brotaþola, verða bæturnar taldar hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Krafa um útlagðan kostnað er studd fullnægjandi gögnum og er hún tekin til greina eins og hún er fram sett. Bætur vegna lögmannsaðstoðar eru ákveðnar 150.000 krónur eins og krafist er. Samtals ber ákærða því að greiða brotaþola 323.582 krónur í skaðabætur.
Tilgreiningu bótakröfunnar í ákæru er ábótavant að því er varðar tilgreiningu á upphafstíma vaxta samkvæmt IV. kafla vaxtalaga. Sækjandi óskaði eftir því við aðalmeðferð málsins að krafan yrði leiðrétt að þessu leyti til samræmis við framlagða bótakröfu brotaþola. Af hálfu ákærða var þess hins vegar krafist, að ekki yrðu dæmdir vextir og dráttarvextir af bótakröfunni fyrr en frá uppsögu dóms. Þótt tilgreining bótakröfu í ákæru hafi verið ábótavant, eins og lýst er hér að framan, þykir ekki um að ræða slíkan ágalla að það komi í veg fyrir að upphafstími vaxta verði ákvarðaður samkvæmt fyrirmælum 8. gr. vaxtalaga, til samræmis við framlagða bótakröfu. Bera því tildæmdar bætur vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. júlí 2008 þar til mánuður var liðinn frá þeim tíma, er bótakrafan var kynnt ákærða, en krafan var kynnt honum í þinghaldi 25. mars sl. Bera því bæturnar dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 25. apríl sl. til greiðsludags.
Með vísan til ákvæða 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, 228.745 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar B. Ólafssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 210.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður J. Hjaltested, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Marek Bogdan, sæti fangelsi í 2 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Y 323.582 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júlí 2008 til 25. apríl 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 228.745 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar B. Ólafssonar hrl., 210.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.