Hæstiréttur íslands
Mál nr. 383/2012
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Ómerking ummæla
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2013. |
|
Nr. 383/2012.
|
Björn Bjarnason (Jón Magnússon hrl.) gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni (Gestur Jónsson hrl.) |
Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla.
J höfðaði mál á hendur B og krafðist m.a. ómerkingar tiltekinna ummæla sem birtust um hann í bók B sem fjallaði um tiltekið dómsmál þar sem J var sakfelldur fyrir brot samkvæmt einum ákærulið. Eftir útgáfu bókarinnar hafði lögmaður J ritað bréf til B þar sem bent var á rangfærslur í bókinni að því er varðaði J og í kjölfarið birti B afsökunarbeiðni og leiðréttingu á heimasíðu sinni og í dagblaði auk þess sem texta bókarinnar var lítillega breytt í 2. prentun. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ummæli þau sem ómerkt hefðu verið í héraðsdómi hefðu verið röng og óviðurkvæmileg og hefðu eintök bókarinnar ekki verið innkölluð. Var niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummælanna því staðfest. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á kröfu J um miskabætur úr hendi B þar sem ekki yrði talið að ummælin, að teknu tilliti til leiðréttingar og opinberrar afsökunarbeiðni B og stöðu J og þátttöku hans í opinberri umræðu um málefnið, hefðu slík áhrif á persónu og æru J að fullnægt væri skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þá var ekki fallist á kröfu J um að B greiddi honum kostnað vegna birtingar dóms í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2012 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi ritaði bók, sem gefin var út á árinu 2011, er hann nefndi ,,Rosabaugur yfir Íslandi“ og fjallar samkvæmt lýsingu áfrýjanda um sögu svonefnds Baugsmáls. Málið hafi varðað rannsókn lögreglu á ætluðum brotum í starfsemi Baugs hf. og síðan ætluðum brotum fyrirsvarsmanna félagsins. Áfrýjandi rekur í bókinni aðdraganda málsins frá janúar 2002 og sögu þess fram á árið 2009. Áfrýjandi er lögfræðingur að mennt og var dóms- og kirkjumálaráðherra frá maí 2003 til 1. febrúar 2009 eða mest af þeim tíma sem hið svonefnda Baugsmál spannaði. Í aðfaraorðum bókarinnar kveður áfrýjandi að málið hafi byrjað sumarið 2002. Umfjöllun um málið í fjölmiðlum hafi verið harðvítug og fram hafi komið hatrammar árásir á stjórnmálamenn og ,,aðra sem Baugsmönnum voru ekki að skapi.“ Í bókinni sé leitast við að greina á hlutlægan hátt og draga að því loknu saman niðurstöður um aðferðir sem beitt hafi verið ,,til að móta almenningsálit í þágu Baugsmanna, vega að réttarvörslukerfinu og hafa áhrif á niðurstöðu dómara.“ Áfrýjandi kveður efnistök í bókinni ráðast af vitneskju hans og athugunum á fjölmiðlum á því tímabili, sem um ræðir. Stuðst sé við opinberar heimildir, dagblöð, bækur, útvarps- og sjónvarpsefni, umræður á Alþingi og það sem finna megi í öðrum opinberum heimildum og gögnum.
Alkunna er að fjölmiðlaumfjöllun um rannsóknir á ætluðum refsilagabrotum Baugs hf., síðar Baugs Group hf., og fyrirsvarsmanna félagsins og dómsmálum sem af þeim risu, var afar umfangsmikil. Hún var um sumt hatrömm og persónuleg og voru aðilar máls þessa áberandi í þeirri umræðu, áfrýjandi sem dóms- og kirkjumálaráðherra og stefndi sem helsti fyrirsvarsmaður hlutafélagsins. Tóku þeir báðir nokkurn þátt í hinni opinberu umræðu. Líta verður á bók áfrýjanda sem framlag hans til umræðu um málið.
Í bókinni birtust ummæli, sem stefndi telur ærumeiðandi fyrir sig. Lögmaður hans ritaði bréf til áfrýjanda 8. júní 2011 þar sem bent var á að á bls. 368 í bókinni segi svo: ,,Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna frá 28. júní um 19. [og seinasta] ákæruliðinn um fjárdrátt með þeim rökum að um greinargóða sundurliðun væri að ræða á einstökum kreditreikningum. Var [stefndi] því dæmdur fyrir fjárdrátt og í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi ...“ Þetta sé rangt þar eð stefndi hafi ekki verið ákærður í 19. lið ákærunnar. Þá segir: ,,[Stefndi] var ekki sakfelldur fyrir fjárdrátt. Gildir það jafnt um 19. lið ákærunnar og aðra þætti hennar.“
Í bréfinu segir einnig, að á sömu síðu bókarinnar sé sagt: ,, ... að því er varðaði ákæruliði 11-17 um meiriháttar bókhaldsbrot og rangfærslu staðfesti hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms frá 3. maí um sekt [stefnda] ...“ Hið rétta sé að stefndi hafi verið sýknaður af ákæruliðum 11, 12, 13, 14, 16 og 17. Sakfellingu héraðsdóms samkvæmt ákærulið 15 hafi verið breytt á þann veg að stefndi hafi einungis verið sakfelldur fyrir bókhaldsbrot en sýknaður af því að hafa sent Verðbréfaþingi Íslands ranga tilkynningu sem hann hafði verið sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Bókhaldsbrotið hafi verið það eina sem stefndi hafi verið sakfelldur fyrir í málinu.
Þá segir að stefndi telji rangfærslur um lyktir málsins mjög alvarlegar og fela í sér meiðyrði í sinn garð. Í bréfinu er skorað á áfrýjanda að ,,leiðrétta villurnar þegar í stað með áberandi hætti og biðja [stefnda] opinberalega afsökunar á rangfærslunum.“ Lögmaður stefnda krafðist þess jafnframt að óselt upplag bókarinnar yrði innkallað og bókinni ekki dreift frekar fyrr en leiðrétting hefði átt sér stað.
Áfrýjandi brást við bréfi þessu með því að birta tilkynningu í formi greinar í Morgunblaðinu 11. júní 2011. Þar segir meðal annars: ,,Við undirbúning 2. prentunar [bókarinnar] sá ég mér til leiðinda fáeinar villur, einkum stafa- eða frágangsvillur. Verst þótti mér að við lokafrágang bókarinnar, við heimildarvinnu um dóm hæstaréttar 5. júní 2008, urðu mér á þau leiðu mistök að segja [stefnda] sakfelldan fyrir fjárdrátt. Með því vakti alls ekki fyrir mér að gera á hlut hans og bið ég hann afsökunar á mistökunum. [Stefndi] hlaut dóm samkvæmt 15. ákærulið fyrir meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga en var sýknaður að öðru leyti af ákæruliðum 2 til 17. Hann hlaut engan dóm samkvæmt 19. ákærulið eins og skilja má af texta mínum á bls. 368. Þetta leiðrétti ég hér með og mun einnig gera í 2. prentun bókar minnar sem væntanleg er á markað innan skamms.“
Degi fyrr hafði áfrýjandi birt tilkynningu sama efnis á vefsíðu, sem hann heldur úti. Hann svaraði einnig lögmanni stefnda með bréfi 14. júní 2011 og vakti meðal annars athygli á afsökunarbeiðni sinni og leiðréttingu.
Í 2. prentun bókarinnar er texta á bls. 368 breytt lítillega, en eftir þá breytingu er fyrri textinn, sem stefndi taldi ærumeiðandi í sinn garð, svohljóðandi: ,,Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna frá 28. júní 2007 um 19. og seinasta ákæruliðinn um fjárdrátt með þeim rökum að um greinargóða sundurliðun væri að ræða á einstökum kreditreikningum. Var [stefndi] því dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi.“
Texta efst á sömu síðu var breytt og hljóðaði svo eftir það: ,,Rétturinn sakfelldi [stefnda] samkvæmt 15. ákærulið fyrir meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga en sýknaði hann að öðru leyti af ákæruliðum 2 til 17.“
Stefndi höfðaði mál þetta 20. september 2011 og krafðist ómerkingar ummæla sem tilgreind voru í þremur stafliðum. Þá krafðist hann þess að áfrýjanda yrði gerð refsing, hann dæmdur til greiðslu miskabóta og bóta vegna kostnaðar við að birta forsendur og niðurstöðu dóms í málinu í víðlesnu dagblaði.
Í héraðsdómi var hafnað kröfu um að ómerkja þau ummæli sem tilgreind voru í a lið kröfu stefnda, en fallist á kröfu um ómerkingu ummæla í b og c lið, auk þess sem dæmdar voru miskabætur og bætur vegna kostnaðar af birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu.
II
Í málinu er tekist á um mörk tjáningarfrelsis og æruverndar, en bæði þessi mannréttindi njóta verndar ákvæða í stjórnarskránni. Í 73. gr. er mælt fyrir um að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu, öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs, enda teljist þær skorður nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um vernd friðhelgi einkalífs manna og fellur æra og mannorð undir hugtakið einkalíf í þeirri grein. Í samræmi við efni 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar hafa verið lögfest ákvæði í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, sem fela í sér takmarkanir á því tjáningarfrelsi, sem greinin ella kveður á um.
Viðurkennt hefur verið að þeir sem þátt taka í opinberri umræðu um þjóðfélagsleg málefni sem hafa almenna þýðingu geti vænst þess að tjáningarfrelsi þeirra verði síður skert en ella væri. Að sama skapi hefur verið litið svo á að þeir sem eru í hringiðu stjórnmálaátaka eða umsvifamiklir og áberandi í viðskiptum geti þurft að sæta meiri skerðingu á æruvernd sinni en aðrir. Eins og áður greinir er bók áfrýjanda framlag til opinberrar umræðu um málefni sem telst mikilvægt að fram fari í lýðræðisþjóðfélagi. Stefndi tók sem fyrr segir þátt í hinni opinberu umræðu, hann var einn helsti fyrirsvarsmaður eins stærsta fyrirtækis landsins um skeið og átti ásamt viðskiptafélögum sínum ráðandi hluti í nokkrum öðrum stórum fyrirtækjum.
III
Ummæli þau, sem ómerkt voru með hinum áfrýjaða dómi og birtust í 1. prentun bókar áfrýjanda, ,,Rosabaugur yfir Íslandi“, voru röng. Þau voru líka óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Þessi eintök bókarinnar hafa ekki verið innkölluð. Er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu þeirra.
Eins og fyrr greinir varð áfrýjandi við kröfu stefnda um að leiðrétta hin röngu ummæli og biðjast opinberlega afsökunar. Afsökunarbeiðni áfrýjanda var bæði birt á vefsíðu hans og í grein í Morgunblaðinu. Afsökunarbeiðnin var opinber og henni var samkvæmt orðum sínum beint til stefnda. Sú leiðrétting, sem þar er að finna, tekur til hinna ærumeiðandi ummæla. Í 2. prentun bókarinnar hefur ekki að öllu leyti tekist hönduglega til um leiðréttingu þar sem enn kemur fram í textanum að Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðuna frá 28. júní 2007 um 19. og seinasta ákæruliðinn um fjárdrátt með þeim rökum að um greinargóða sundurliðun væri að ræða á einstökum kreditreikningum. Í framhaldinu segir: ,,Var [stefndi] því dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi.“
Í réttarframkvæmd hefur lengi verið litið svo á að leiðrétting rangra ummæla og afsökunarbeiðni þess, sem þau viðhafði, eigi að hafa réttaráhrif að því leyti að milda eða fella niður refsingu fyrir ummælin. Má til hliðsjónar um þetta vísa til dóma Hæstaréttar í máli nr. 163/1977 frá 21. febrúar 1978, sem birtur er í dómasafni á síðu 210 og í máli nr. 76/1988 frá 1. desember 1989 sem birtur er í dómasafni á síðu 1586. Á síðari árum hefur slík eftirfarandi háttsemi einnig verið talin eiga að hafa áhrif á bótaábyrgð þess sem ummælin viðhafði.
Þótt ónákvæmni gæti í leiðréttingu hinna ómerktu ummæla í 2. prentun bókarinnar ,,Rosabaugur yfir Íslandi“ verður að líta til þess að áfrýjandi varð við kröfu um að leiðrétta hin röngu ummæli og biðja stefnda opinberlega afsökunar á þeim bæði í dagblaði og á vefsíðu sinni. Verða ekki gerðar athugasemdir við síðarnefndu leiðréttingarnar. Verður að telja að hin ómerktu ummæli hafi upphaflega verið sett fram vegna mistaka áfrýjanda. Verður ekki talið að hin ómerktu ummæli, að teknu tilliti til leiðréttingar og opinberrar afsökunarbeiðni áfrýjanda og stöðu stefnda og þátttöku hans í opinberri umræðu um málefnið, hafi slík áhrif á persónu og æru stefnda að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma honum miskabætur úr hendi áfrýjanda. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeirri kröfu stefnda. Með tilliti til leiðréttingar ummælanna verður heldur ekki fallist á að beita eigi heimild 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og dæma stefnda bætur fyrir kostnað við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu.
Að teknu tilliti til krafna málsaðila í héraði og fyrir Hæstarétti og niðurstöðu máls þessa og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður hvorum málsaðila gert að bera sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla.
Áfrýjandi, Björn Bjarnason, skal að öðru leyti sýkn af kröfum stefnda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2012.
Mál þetta höfðaði Jón Ásgeir Jóhannesson, kt. [...], St. George 27, London, Englandi, með stefnu birtri 20. september 2011 á hendur Birni Bjarnasyni, kt. [...], Háuhlíð 14, Reykjavík. Málið var dómtekið 7. febrúar sl.
Stefnandi gerir þessar kröfur:
Að eftirfarandi ummæli í stafliðum a c úr bókinni Rosabaugur yfir Íslandi eftir stefnda, verði dæmd dauð og ómerk:
a. „Var frávísun 19. liðar, þar sem Jón Ásgeir var borinn sökum, einnig felld úr gildi“.
b. „Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna frá 28. júní um 19. ákæruliðinn um fjárdrátt með þeim rökum að um greinargóða sundurliðun væri að ræða á einstökum kreditreikningum. Var Jón Ásgeir því dæmdur fyrir fjárdrátt og í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi “
c. „ að því er varðaði ákæruliði 11-17 um meiriháttar bókhaldsbrot og rangfærslu staðfesti hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms frá 3. maí um sekt Jóns Ásgeirs “
Að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna ofangreindra ummæla og birtingar þeirra, samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefanda 1.000.000 króna í miskabætur skv. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur, til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í víðlesnu dagblaði.
Loks krefst stefnandi málskostnaðar.
Nánar segir í stefnu að ummælin í lið a) séu bæði í 1. og 2. prentun bókarinnar, en ummælin í liðum b) og c) séu í 1. prentun.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, auk álags á málskostnað samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Bókafélagið Ugla gaf út bókina Rosabaugur yfir Íslandi, eftir stefnda, í maí 2011. Hófst dreifing 1. prentunar 23. maí, en 2. prentunar nokkru síðar. Framangreindar málsgreinar koma fyrir í bókinni í umfjöllun stefnda um niðurstöðu svonefnds Baugsmáls.
Baugsmálið var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dags. 31. mars 2006. Málið var höfðað á hendur stefnanda, Jóni Ásgeiri, og tveimur öðrum mönnum. Ákæran skiptist í nítján liði. Átján fyrstu liðirnir vörðuðu stefnanda, ýmist einan eða ásamt öðrum meðákærðu, en í nítjánda liðnum var stefnandi ekki borinn sökum. Stefnandi var ákærður í þessum liðum fyrir brot gegn 247. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 145/1994 um bókhald. Þá var hann einnig ákærður fyrir brot gegn 248., til vara 249. gr. almennra hegningarlaga, en þeim ákærulið hafði verið vísað frá dómi, eins og segir hér á eftir.
Málið var endanlega dæmt í Hæstarétti 5. júní 2008. Áður hafði fengist þar niðurstaða um frávísun 1. ákæruliðar og aðalkröfu ákæruvalds í 10. ákærulið. Hins vegar hafði verið felld úr gildi sú niðurstaða héraðsdóms að vísa frá dómi m.a. 19. ákærulið, þar sem annar hinna meðákærðu var sakaður um fjárdrátt.
Í dómi Hæstaréttar var stefnandi sýknaður af ákæruliðum 2-9 og varakröfu í 10. ákærulið. Þá var hann sýknaður af ákæruliðum 11.-14. og 16.-18. Hann var hins vegar sakfelldur samkvæmt 15. ákærulið fyrir brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Var honum gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum, héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf þann 8. júní 2011. Þar eru tiltekin ummælin sem koma fram í b- og c- lið í stefnu. Er bent á að ummælin séu röng. Er skorað á stefnda „að leiðrétta villurnar þegar í stað með áberandi hætti og biðja [stefnanda] opinberlega afsökunar á rangfærslunum.“ Þá krafðist lögmaðurinn innköllunar bókarinnar og að henni yrði ekki dreift frekar fyrr en leiðrétt hefði verið.
Stutt grein eftir stefnda birtist í Morgunblaðinu 11. júní. Þar segir m.a.: „Við undirbúning 2. prentunar sá ég mér til leiðinda fáeinar villur, einkum stafa- og frágangsvillur. Verst þótti mér að við lokafrágang bókarinnar, við heimildavinnu um dóm hæstaréttar 5. júní 2008, urðu mér á þau leiðu mistök að segja [stefnanda] sakfelldan fyrir fjárdrátt. Með því vakti alls ekki fyrir mér að gera á hlut hans og bið ég hann afsökunar á mistökunum. Jón Ásgeir hlaut dóm samkvæmt 15. ákærulið fyrir meiri háttar bókhaldsbrot ... en var sýknaður að öðru leyti af ákæruliðum 2 til 17. Hann hlaut engan dóm samkvæmt 19. ákærulið eins og skilja má af texta mínum á bls. 368. Þetta leiðrétti ég hér með og mun einnig gera í 2. prentun ...“
Grein þessi birtist einnig á vefsíðu stefnda.
Stefndi skrifaði lögmanni stefnanda bréf þann 14. júlí og tók þar upp greinina er birst hafði í Morgunblaðinu. Þá er gerð athugasemd við ummæli ef höfð höfðu verið eftir stefnanda í vefmiðlum. Í lok bréfsins segir að varðandi innköllun bókarinnar verði menn að snúa sér til útgefandans.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa um ómerkingu ummæla er á því byggð að ummælin séu röng og meiðandi. Stefnandi vísar til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Stefnda hafi verið bent á rangfærslurnar og hann krafinn um afsökunarbeiðni og um að stöðva dreifingu bókarinnar. Afsökunarbeiðni hafi verið í skötulíki og stefndi hafi neitað að stöðva dreifingu. Smávægileg leiðrétting hafi komið fram í 2. prentun, en eftir standi að stefnandi hafi verið ákærður í 19. lið ákærunnar og að sakfellt hafi verið fyrir fjárdrátt samkvæmt þeim lið. Þá hafi stefndi ekki beðist afsökunar á þeirri staðhæfingu í 1. prentun að Hæstiréttur hafi staðfest sekt stefnanda í ákæruliðum 11-17.
Stefnandi byggir á því að afsökunarbeiðni stefnda leysi hann ekki undan refsingu eða því að ummælin verði ómerkt. Rangur áburður um að maður hafi verið sakfelldur í refsimáli sé refsiverður og sá sem slíkt beri út verði að þola ómerkingu ummæla sinna. Með þessu hafi stefndi brotið gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.
Með brotum gegn þessum ákvæðum hafi stefndi unnið sér til refsingar. Við mat á refsingu beri að líta til þess að stefndi sé lögfræðingur og hafi verið dómsmálaráðherra mestan hluta þess tíma er Baugsmálið var til rannsóknar og dómsmeðferðar. Þá hafi stefndi ekki svarað áskorun stefnanda nema að takmörkuðu leyti og leiðréttingar hans á texta bókarinnar hafi verið ófullkomnar. Fram komi í 2. prentun að stefnandi hafi verið ákærður fyrir fjárdrátt í 19. ákærulið og að Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms um fjárdrátt.
Kröfu um miskabætur byggir stefnandi á því að haldið sé fram villandi og röngum staðhæfingum um ákæru og dóm, en stefndi sé höfundur bókarinnar. Við ákvörðun bóta beri að líta til þess að ummælin séu í víðlesinni bók sem hafi verið ætlað að vera heimildarrit um dómsmál sem að verulegu leyti hafi snúist um persónu stefnanda. Vísar stefnandi hér til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.
Kröfu um tilgreinda fjárhæð til að greiða kostnað af birtingu dóms byggir stefnandi á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Skilyrði séu til að fallast á þessa kröfu verði stefndi dæmdur fyrir ærumeiðandi aðdróttun samkvæmt 235. gr.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í greinargerð stefnda er því lýst að hann hafi mátt þola margvísleg hnjóðsyrði af hálfu þeirra sem voru grunaðir í Baugsmálinu. Honum hafi verið borið á brýn að annarlegar hvatir hans lægju að baki rannsókninni og ákærum í málinu. Þá hafi verið unnið sérstaklega gegn sér í prófkjöri og kosningum. Hann hafi embættis síns vegna kostið að svara sem minnstu af því sem um hann hafi verið skrifað.
Vegna þess hvernig forsvarsmenn Baugs hefðu reynt að afflytja atriði varðandi Baugsmálið hafi hann ákveðið að taka saman sögu málsins út frá eigin reynslu og þekkingu á því. Hann hafi skrifað bók og farið skipulega yfir hvernig fjallað hafði verið um málið. Verkið hafi verið unnið eftir bestu samvisku. Stefndi segir að skömmu eftir útkomu bókarinnar hafi sér borist bréf frá lögmanni stefnanda. Þar hafi verið skorað á sig að leiðrétta villur og biðjast afsökunar. Þá hafi þess verið krafist að bókin yrði innkölluð. Loks hafi stefnandi áskilið sér rétt til að fylgja kröfum sínum eftir yrði ekki við þeim brugðist. Stefndi kveðst hafa brugðist strax við athugasemdum stefnanda. Þar sem 1. prentun hafi þá verið uppseld hjá útgefanda hafi leiðréttingar komið strax í 2. prentun, sem hafi komið út stuttu eftir að bréf lögmanns stefnanda barst.
Stefndi segir að höfðun þessa máls hafi komið sér á óvart, hann hafi brugðist við athugasemdum stefnanda á fullnægjandi hátt. Innköllun bókarinnar hafi ekki verið á sínu valdi.
Stefndi krefst sýknu vegna ummæla sem stefnandi tilgreinir í liðum b og c. Þau hafi verið dregin til baka og hann beðið stefnanda afsökunar á þeim. Enginn réttarágreiningur sé um þessi ummæli. Í bréfi lögmanns stefanda hafi verið áskilinn réttur til að fylgja kröfunum eftir, ef ekki yrði við þeim brugðist. Því sé mál þetta höfðað að tilefnislausu.
Þá hafi ummælin í a-lið verið dregin til baka. Því sé heldur ekki réttarágreiningur um þau. Þessi ummæli hafi ekki verið leiðrétt í 2. prentun þar sem þeirra hafi ekki verið getið í bréfi lögmanns stefnanda. Það leiði af yfirlýsingu hans að öllum megi vera ljóst að stefnandi hafi ekki verið ákærður samkvæmt 19. ákærulið. Því hafi ummælin í raun verið dregin til baka og beðist velvirðingar á þeim áður en stefna í þessu máli var gefin út.
Stefndi segir að ummælin séu ekki þess eðlis að þau meiði æru stefnanda eða geti orðið virðingu hans til hnekkis. Stefnandi hafi verið ákærður í sakamáli og dæmdur í Hæstarétti fyrir meiri háttar bókhaldsbrot, en sama refsing liggi við slíkum brotum og fjársvikum. Þá hafi það ekki sérstaka þýðingu hvort maður sé dæmdur samkvæmt ákærulið númer 1 eða 15. Aðalatriðið sé að viðkomandi var ákærður og fékk dóm. Dómsorðið sé það sem fyrst og fremst skipti máli. Þá sé í huga lesenda ekki mikill munur á bókhaldsbroti og fjárdrætti. Stefnandi geri hér úlfalda úr mýflugu, þótt sjálfsagt hafi verið að leiðrétta villuna og biðjast afsökunar á henni.
Stefndi segir að ummælin í a-lið, þar sem segir: „Var frávísun 19.liðar, þar sem Jón Ásgeir var borinn sökum felld úr gildi“, feli ekki í sér meiðandi ummæli í garð stefnanda. Vissulega sé það rangt að stefnandi hefði verið borinn sökum í 19. lið ákærunnar, en miðað við ummælin sem slík þá sé hvergi sagt að stefnandi hafi verið dæmdur samkvæmt 19. ákærulið. Þá sé þeim það ljóst sem lesi bókina í heild að stefnandi hafi ekki verið dæmdur samkvæmt þessum lið. Þá komi ótvírætt fram í 2. prentun að stefnandi hafi einungis verið dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot en ekki fjársvik.
Þá heldur stefndi því fram að af lestri bókarinnar í heild megi sjá hver niðurstaða varð í Baugsmálinu og óþarft sé að elta ólar við smávægilegar ritvillur. Kveðst hann byggja á því að jafnvel þótt hann hefði ekki leiðrétt eða beðist velvirðingar á þeim ummælum sem lögmaður stefnanda krafði að hann gerði svo og umstefndum ummælum á bls. 367 og 368 í bókinni, þá væri ekki hægt að dæma hann fyrir meiðandi eða lítilsvirðandi ummæli eða aðdróttanir í garð stefnanda. Dómurinn sé opinber og aðgengilegur fyrir þá sem vilja kynna sér hann. Þá hafi verið fjallað ítarlega um hann í fjölmiðlum. Frásögn bókarinnar breyti engu um æru eða æruleysi stefnanda í málinu.
Varðandi refsikröfu sérstaklega vísar stefndi til þess að hann hafi leiðrétt og beðist afsökunar á ummælunum. Ummælin sé ekki þess eðlis að þau geti verið meiðandi eða móðgandi þegar bókin sé skoðuð í heild. Af viðbrögðum sínum megi einnig sjá að honum sé umhugað um að halla ekki réttu máli, jafnvel varðandi aukaatriði. Þá segir stefndi að huglægum skilyrðum til að dæma refsingu sé ekki fullnægt. Vísar hann hér til 18. gr. almennra hegningarlaga. Ákveðin mistök hafi verið gerð, en þó minni háttar. Skilyrðum til sakfellingar samkvæmt 234 gr. almennra hegningarlaga sé ekki fullnægt.
Varðandi 235. gr. segir stefndi að engin aðdróttun hafi verið sett fram gagnvart stefnanda eða borin út.
Þá byggir stefndi á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi sínu. Hann hafi ekki farið út fyrir mörk þess í umfjöllun sinni um stefnanda.
Loks er varðandi refsikröfuna bent á að í stefnu sé vísað til 234. og 235. gr. án þess að geta þess hvaða ummæli geti fallið undir hvort ákvæði fyrir sig. Málatilbúnaður stefnanda sé því ekki nægilega glöggur.
Um miskabótakröfu stefnanda segir stefndi að meginatriðið sé að í bókinni sé réttilega greint frá því að stefnandi hafi hlotið refsidóm og tiltekna refsingu. Miski stefnanda vegna umfjöllunar í bókinni sé enginn.
Þó að fallist yrði á kröfu um ómerkingu ummæla myndi það ekki eiga að leiða til þess að miskabætur bæri að dæma. Þegar bókin sé lesin í heild komi glöggt fram hvað stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir.
Loks er mótmælt sérstaklega fjárhæð kröfu stefnanda, hún sé ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd.
Stefndi mótmælir kröfu um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar til að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins í útbreiddu dagblaði. Segir hann að ummælin hafi þegar verið leiðrétt í víðlesnu dagblaði og víðar. Þá hafi ekki verið gerð nein athugasemd við leiðréttingarnar. Kröfufjárhæðinni mótmælir stefndi sem allt of hárri. Ekki sé unnt að miða við gjaldskrá fyrir birtingu auglýsinga. Þá komi dómur í málinu til með að vera fréttaefni, þannig að fjölmiðlar muni fjalla um niðurstöðu dómsins þegar hún liggi fyrir.
Varðandi áðurnefnda málsástæðu um mörk tjáningarfrelsis vísar stefndi til 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu sýni að undanþágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi skuli túlka afar þröngt. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi þurfi að rökstyðja og réttlæta með sannfærandi hætti. Þannig megi ekki takmarka tjáningarfrelsi nema nauðsyn beri til. Orðið nauðsyn hafi hér verið skýrt af Mannréttindadómstólnum sem „knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn“.
Stefndi segir að hafa beri í huga að stefnandi sé þjóðfrægur maður sem hafi m.a. rekið helsta fjölmiðlaveldi á Íslandi. Um hann hafi mikið verið fjallað í fjölmiðlum. Þau atriði sem fram komi í bókinni séu vel þekkt úr þjóðfélagsumræðunni.
Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda, en einnig sérstaks álags á málskostnað samkvæmt 2. mgr., sbr. a-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Málið sé höfðað að ástæðulausu. Stefndi kveðst hafa brugðist strax við þeim kröfum sem lögmaður stefnanda setti fram. Enginn réttarágreiningur sé í málinu. Stefndi segir að með málshöfðuninni sé reynt að varpa rýrð á verk hans. Þá bendi margt til þess að um meinbægni sé að ræða af hálfu stefnanda.
Niðurstaða
Stefndi heldur því fram að enginn réttarágreiningur sé í máli þessu. Það er ekki alls kostar rétt. Ágreiningur er ekki með aðilum um atvik, þar á meðal að umrædd ummæli séu röng, að þau hafi verið leiðrétt og stefndi beðist afsökunar. Hins vegar deila aðilar um afleiðingar þessa og hvort taka beri til greina kröfur um ómerkingu ummæla, refsingu o.fl. Verður að dæma málið að efni til.
Í umræddri bók rekur stefndi sögu Baugsmálsins. Bókin hefur það yfirbragð að þar sé sagt frá staðreyndum, atvikum sem hafi gerst. Í því ljósi verður að meta allar villur í frásögninni. Stefndi getur ekki byggt á því sjónarmiði að hann hafi með bókinni verið að svara árásum á sig. Rangar fullyrðingar verða ekki réttlættar með því.
Ummælin í a-lið eru efnislega röng að því leyti að stefnandi var ekki borinn sökum í 19. lið ákærunnar. Hann var ákærður í öllum öðrum liðum. Er því ekki hægt að telja að í ummælum þessum, þótt röng séu, felist ærumeiðing eða aðdróttun svo að varði viðurlögum samkvæmt lögum.
Að stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir fjárdrátt er rangt. Ummælin í b-lið eru rétt að öðru leyti. Að lögum er munur á bókhaldsbroti, sem stefnandi var sakfelldur fyrir, og fjárdrætti. Almennir lesendur gera mun á þessu tvennu. Refsirammi 247. gr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga er hins vegar sá sami. Þó má ætla að í huga almennings sé fjárdráttur yfirleitt talinn vera alvarlegra brot en bókhaldsbrot. Þá felst í ummælunum sú fullyrðing að stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir fleiri brot en hann var í raun. Stefndi getur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað betur, en niðurstaða dómsins var hverjum manni skýr. Felst því í þessum orðum aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga.
Ummælin í c-lið eru villandi. Með þeim er gefið í skyn að stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir brot samkvæmt öllum þessum ákæruliðum, þegar hann var einungis sakfelldur fyrir brot samkvæmt einum liðnum fyrir meiri háttar bókhaldsbrot. Í ummælunum felst því ærumeiðing samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga.
Í hvorugu framangreindra tilvika getur stefndi borið fyrir ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála um tjáningarfrelsi.
Við ákvörðun viðurlaga verður að líta til þess að stefndi hefur leiðrétt ummælin á áberandi hátt og beðið stefnanda afsökunar á þeim. Það leiðir hins vegar ekki til þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma ummælin í b- og c-lið ómerk. Samkvæmt 2. mgr. ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda hæfilega fjárhæð, 200.000 krónur, til að kosta birtingu dóms þessa í opinberu blaði.
Þar sem stefndi hefur leiðrétt ummælin má hafa til hliðsjónar þau viðhorf sem liggja að baki 8. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Verður stefnda ekki ákveðin refsing.
Í ummælunum í b-lið felst ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda. Verður ekki hjá því komist að dæma stefnda til að greiða stefnanda miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Eru þær ákveðnar í ljósi aðstæðna 200.000 krónur. Ber sú fjárhæð dráttarvexti frá þeim degi er málið var höfðað. Ummælin í c-lið fela hins vegar ekki í sér ólögmæta meingerð í skilningi skaðabótalaga.
Loks verður að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðinn er 500.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Framangreind ummæli í liðum b og c eru ómerk.
Stefnda, Birni Bjarnasyni, verður ekki gerð refsing.
Stefndi greiði stefnanda, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, 400.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 200.000 krónum frá 20. september 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.