Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 5

 

Mánudaginn 5. maí 2008.

Nr. 244/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. maí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

           

Úrskurður  Héraðsdóms Reykja­víkur 1. maí 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. maí nk. kl. 16:00. 

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í gær hafi lögreglu borist upplýsingar um að nýlega hefðu komið til landsins 2 menn frá Rúmeniu, kærði og A, sem sérhæfðu sig í  þjófnaði úr stöðumælum.  Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hafi gefið lögreglu þær upplýsingar að menn þessir hefðu haft meðferðis ýmis verkfæri er þeir komu til landsins.

Í framhaldi af þessu hafi lögreglumenn fylgst með ferðum ofannefndra manna um götur í Reykjavík. Milli kl. 13 og 15 hafi mennirnir farið inn í margar verslanir við Laugaveg.  Lögreglumenn hafi fengið þær upplýsingar hjá starfsfólki allra verslananna að mennirnir hefðu skipt smámynt, aðallega 50 og 100 kr. mynt, í seðla í verslununum, 2.000 – 4.000 kr. í hverri verslun. Samkvæmt upplýsingum starfsfólks hafi þeir skipt smámynt  alls að fjárhæð  um 62.000 kr.

Í gærkvöldi hafi lögreglumenn fylgst með því að mennirnir hafi gengið að Garðastræti að stöðumælakassa við hús nr. 41. Hafi lögreglumenn orðið vitni að því að mennirnir hafi beygt sig undir kassann og átt e-ð við hann að neðanverðu. Hafi mynt runnið niður af kassanum. Hafi lögreglumenn gefið sig fram við mennina. Hafi annar maðurinn, A, verið að tína mynt upp af götunni en kærði hafi hlaupið á brott en verið handtekinn skömmu síðar við Þjóðarbókhlöðuna, sunnan Hringbrautar, kl. 23.37.  Hafi hann misst myntina á hlaupunum sem síðar hafi reynst nema um 34.000 kr.  Hafi A reynst hafa í fórum sínum uppgjörsmiða úr stöðumælakassanum við Garðastræti sem hafi sýnt að fjárhæðin sem þeir hafi tekið út kassanum var 31.580.

Í húsleit, sem framkvæmd hafi verið á dvalarstað kærða og A hafi meðal annars fundist verkfæri, slípirokkur, skurðarskífur, lítill slaghamar og meitill, 19.280 kr. í mynt og 67.500 kr. í 1.000 og 500 kr. seðlum og stafræn myndavél, en í henni hafi verið margar myndir sem teknar höfðu verið af stöðumælum víðsvegar um Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði sé nýbúið að brjótast inn í 4 aðra stöðumælakassa í miðborginni með því að bora gat á lok neðan á kössunum.

Í yfirheyrslum hjá lögreglu í dag hafi A viðurkennt að hafa staðið að innbrotinu í kassann í Garðastræti. Hafi kærði ekki komið þar nærri og ekkert af þessu vitað. Hann hafi framkvæmt verknaðinn fyrir mann í Rúmeníu.  Hann hafi ekki kannast við að hafa brotist inn í fleiri stöðumælakassa.

Kærði hafi neitað að tjá sig um sakargiftir.

Rannsókn málsins þessa sé á frumstigi. Eftir sé af hálfu Bílastæðasjóðs að kanna hvort brotnir hafi verið upp fleiri stöðumælar og/eða stöðumælakassar og kanna uppgjör í því skyni að kanna hvort brotist hafi verið inn í fleiri kassa bera saman ákomur á kössum við verkfærin sem fundust hjá kærða og A.  Þá sé eftir að kanna betur vegabréf kærða og fá nánari upplýsingar um fjárhag hans og hugsanleg bankaviðskipti hér á landi.

Kærði sé undir rökstuddum grun um brot sem geta varðað við 244. gr. almennra hegningarlaga br. 19/1940 og verði að telja verulega hættu á að hann muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

Með vísan til fyrirliggjandi gagna þykir vera kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu verði sök sönnuð. Þar sem rannsókn málsins er á byrjunarstigi er hætta á að kærði geti torveldað hana fari hann frjáls ferða sinna með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka.  Þykir því rétt með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að taka til greina kröfu lögreglustjóra og úrskurða kærða í gæsluvarðhald.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. maí 2008 kl. 16:00.