Hæstiréttur íslands

Mál nr. 340/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Kæra
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. júní 2008.

Nr. 340/2008.

A

(sjálfur)

gegn

B og

C

(enginn)

Kærumál. Dánarbússkipti. Kæra. Kröfugerð. Frávísum máls frá Hæstarétti.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um arfstilkall þeirra við opinber skipti á dánarbúi D. Í kæru A til Hæstaréttar var ekki greint frá dómkröfum A fyrir Hæstarétti eða ástæðum, sem kæra var reist á, eins og borið hefði að gera samkvæmt b. og c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem áttu við eftir 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Héraðsdómari kom því á framfæri við A að kæra væri ekki réttilega úr garði gerð, sbr. 2. mgr. 146. gr. laga nr. 19/1991 en þrátt fyrir það var ekki bætt úr annmörkunum. Var því óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kærum 4. og 12. júní 2008, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2008, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um arfstilkall þeirra við opinber skipti á dánarbúi D. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem að framan greinir hefur sóknaraðili tvívegis lýst yfir kæru á úrskurði héraðsdóms, annars vegar með símskeyti 4. júní 2008 og hins vegar í bréfi 12. sama mánaðar. Í hvorugt skiptið var greint frá dómkröfum sóknaraðila fyrir Hæstarétti eða ástæðum, sem kæra er reist á, eins og borið hefði að gera samkvæmt b. og c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér eiga við eftir 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Af bréfi sóknaraðila 12. júní 2008 verður þó ráðið að héraðsdómari hafi í framhaldi af símskeytinu 4. sama mánaðar komið á framfæri að kæra væri þar ekki réttilega úr garði gerð, sbr. 2. mgr. 146. gr. laga nr. 91/1991. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar eru hvorki gerðar kröfur, sem varða hinn kærða úrskurð, né færð fram rök fyrir breytingu á niðurstöðu hans. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.