Hæstiréttur íslands
Mál nr. 226/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Gæsluvarðhald
|
|
Miðvikudaginn 13. maí 2009. |
|
Nr. 226/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Karl Ingi Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhald.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. maí 2009. Talið var að L hefði haft ráðrúm til að ljúka rannsókn á þeim þáttum málsins, sem talið væri að X gæti haft áhrif á. Því var talið rétt að beita heimild í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 og ákveða að X skyldi í stað gæsluvarðhalds bönnuð för frá Íslandi þann tíma sem gæsluvarðhaldi væri ætlað að gilda samkvæmt hinum kærða úrskurði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. maí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem kom til landsins sem ferðamaður. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur verið tekin skýrsla af honum um atvik í tengslum við brot það sem hann er grunaður um að hafa framið. Skýrsla hefur einnig verið tekin af þeim samferðamanni hans sem haft hafði kynmök við kæranda á undan honum. Samkvæmt gögnum málsins eins og þau liggja fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili haft nægan tíma til að ljúka rannsókn á þeim þáttum málsins, sem talið verður að varnaraðili geti haft áhrif á, svo sem að samprófa hann við nefndan samferðamann hans. Við þessar aðstæður verður talið rétt að beita heimild í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 og ákveða að varnaraðila skuli í stað gæsluvarðhalds bönnuð för frá Íslandi þann tíma sem gæsluvarðhaldi var ætlað að gilda samkvæmt hinum kærða úrskurði.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 15. maí 2009 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi föstudagsins 15. maí 2009 kl. 16 og jafnframt að hann sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að kl. 1.24 í nótt hafi lögreglu borist beiðni um aðstoð vegna stúlku, sem hafi verið grátandi í anddyri Z, [...] Reykjavík. er lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi þeir hitt fyrir stúlku í anddyri hótelsins sem hafi grátið mikið.
Hún hafi skýrt svo frá hjá lögreglu að hún hafi verið að skemmta sér á skemmtistað við hlið hótelsins kvöldið áður með vinkonu sinni. Þar hafi hún hitt tvo menn, A og annan sem hún hafi ekki getað nafngreint og þrjár konur. Hafi og fengið sér pizzu um kl. 22:30. Hún hafi drukkið með þeim nokkuð magn áfengis og þegar liðið hafi á kvöldið hafi hún og A farið að kyssast og í framhaldi af því ákveðið að fara upp á hótelherbergi sem var á 3. hæð hótelsins. Áður en þau hafi farið upp hafi félagi A rétt honum herbergislykil. Hafi þau haft kynmök þar og hafi A orðið sáðfall til hennar. A hafi sagt að hann væri orðinn svangur og ætlaði að fá sér að borða. Hann kæmi aftur og yrði fljótur. Hafi hún sent hún móður sinni símskilaboð, sem hafi borist um kl. 1:00, og sofnaði síðan.
Hafi hún vaknað einhverri stundu síðar við það að maður hafi verið að kyssa hana á hálsinn. Dimmt hafi verið í hótelherberginu. Hafi hún legið á hliðinni með bakið í manninn. Hafi hann haft við hana samfarir og hafi hún haldið að honum hafi orðið sáðfall. Um það leiti hafi hún séð framan í manninn. Hafi henni brugðið mjög þar sem hún hafi haldið að hún væri að hafa samfarir við A en hafi þá fyrst áttað sig á því að um annan mann hafi verið að ræða, félaga A, “sem kynnti sig ekki”. Hún hafi verið mjög æst og öskrað og farið í skelfingu inn á baðherbergi, læst að sér og hringt í vinkonu sína.. Eftir nokkra stund hafi hún orðið vör við að herbergið hafi verið mannlaust.
Stúlkan hafi talið að þetta hafi verið samantekin ráð hjá A og félaga hans, A hafi veitt félaga sínum kynferðislegan aðgang að henni og lagt fram kæru á hendur báðum mönnum.
Herbergið á 3-ju hæð hafi reynst vera númer [...] og muni X hafa pantað það um kl. 0.30 sömu nótt í ljós hafi komið að grunuðu X og A hafi báðir gist í herbergjum á fjórðu hæð hótelsins.
Kærði X hafi með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag verið gert að sæta líkamsleit og líkamsrannsókn.
Kærði A hafi skýrt svo frá hjá lögreglu að hann og X væru í hópi fólks frá Bandaríkjunum sem gistu á Z Hafi hann, vinkona hans B og A slegist í hóp með tveimur stúlkum sem hann hafi teldi vera íslenskar. Um miðnættið hafi einn úr hópi ferðamanna farið að sofa í herbergi A og því hafi A beðið X að útvega annað herbergi svo hann gæti farið með aðra stúlkuna þangað. Hafi X sagt að vinkona stúlkunnar hafi gefið í skyn fyrr um kvöldið að stúlkan sem fylgdi A vildi hafa mök við hann og A samtímis.
Hafi hann látið A hafa lykilinn að herberginu og farið í sitt hótelherbergi. Hann hafi kannski haldið að stúlkan vildi einnig hafa mök við sig síðar. Um 20-30 mínútum eftir að hann hafi yfirgaf A á barnum hafi A komið í herbergið til hans afhent honum lykilinn og sagt að stúlkan vildi að hann kæmi til hennar á herbergið. Hafi hann túlkað það þannig að hún vildi eiga við hann mök þar. Hafi stúlkan verið í rúminu en hann hafi ekki vitað hvort hún hafi verið klædd eða ekki. Þau hafi heilsast og byrjað að kyssast. Hafi hann farið úr fötunum og þau hafi byrjað samfarir. Hafi hún legið á bakinu og hann ofan á. hafi samfarirnar staðið í 5 10 mínútur. Hafi þau legið í rúminu á eftir og faðmast og kysst. Hún hafi farið á salernið en hann klætt sig og farið.
A hafi skýrt svo frá hjá lögreglu að hann hafi verið á hótelbarnum ásamt fleira fólki . Ein stúlkan í ferðahóp þeirra X hafi farið með honum upp í herbergi A nr. 404 og lagst þar fyrir. Hafi þeir X síðan snætt pizzu á hótelinu líklega um miðnættið. Hann hafi síðan hitt aðra stúlkuna, sem hann hafi áður verið að spjalla við. Hún hafi látið vel að honum og spurt hann hvort hann væri til í að fara að sofa eða skemmta sér. Hafi X boðist til að panta fyrir hann annað herbergi á hótelinu þar sem X hafi vitað að stúlkunni í herbergi A. Hafi hann samþykkt það. Hafi hann farið upp á herbergið ásamt stúlkunni þar sem þau hafi haft samfarir í um 15 til 20 mínútur. Hann síðan orðið svangur og farið í burtu og skilið stúlkuna eftir í herberginu. Hafi stúlkan verið vakandi og verið að hringja í síma eða senda símskilaboð. Hann hafi sagt við hana að hann ætlaði að ná sér í mat og myndi koma til baka. Hann kvaðst ekki hafa læst herberginu. Aðspurður hvers vegna ekki kvaðst hann hafa talið að herbergið læstist um leið og hurðin lokaðist en hann hafi í raun ekki hugsað út í það að dyrnar voru ólæstar.
Hann hafi farið til félaga síns X. Eftir um 2 mínúta viðdvöl hans í herbergi X hafi X farið á brott úr herberginu. Inntur eftir því um hvað þeir hafi rætt hafi hann svarað því til að þeir hefðu rætt um næsta dag. Hafi X sagt sér að hann væri búinn að taka svefnpillur. Aðspurður um hvort þeir hafi rætt um stúlkuna sagði hann að hugsanlega hafi hann sagt X frá því að hann hefði haft samfarir við stúlkuna. Hann kvaðst síðan hafa lokið við leifar af pizzunni. Aðspurður neitaði A því að hafa átt þátt í að skipuleggja nauðgun.
Kærði X sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem varði óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu ef hann telst sannaður skv. dómi. Málið sé ekki að fullu rannsakað. Eftir sé að yfirheyra vitnið C, sem hafi verið í förum með kæranda og kærðu greinda nótt.
Þá sé eftir að samprófa kærðu, en framburður þeirra sé ekki samhljóða um mikilvæg sönnunaratriði. Telja verði að kærði nái að spilla sakargögnum gangi hann laus á meðan rannsókn stendur. Hins vegar sé málið þannig vaxið að líklegt sé að rannsókn þess megi ljúka á næstu dögum.
Fulltrúi lögreglustjóra vísar um grundvöll gæsluvarðhalds til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn málsins bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka gangi hann laus. Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. maí 2009 kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.