Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 7. febrúar 2005. |
|
Nr. 45/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Skilyrðum var talið fullnægt til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. júní 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. janúar 2005 var varnaraðili dæmdur til að sæta fangelsi í sjö ár og sex mánuði meðal annars vegna tilraunar til manndráps auk líkamsárása. Með tilkynningu til ríkissaksóknara 31. janúar 2005 lýsti varnaraðili yfir áfrýjun dómsins. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2005.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með skírskotun til 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram.
Dómþoli var með dómi Héraðsdóms Reykjaness dæmdur þann 18. janúar sl. í sjö ára og sex mánaða fangelsi vegna brota á 211. gr., 217., og 1. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómþoli hefur nú lýst yfir áfrýjun dómsins frá 18. janúar sl.
Dómþoli hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 2. september 2004, síðast samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum 24. f.m. þar sem honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. þ.m. Er þess nú krafist að dómþola verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til endanlegur dómur gengur í málinu í Hæstarétti, þó aldrei lengur en til föstudagsins 24. júní 2005 kl. 16:00.
Dómþoli mótmælti gæsluvarðhaldskröfunni.
Með tilkynningu til ríkissaksóknara hefur dómþoli lýst yfir áfrýjun dómsins. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt til þess að dómþoli sæti gæsluvarðhaldi skv. 106. gr. laganna meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi, en yfirlýsing dómþola um áfrýjun héraðsdóms bindur ein sér ekki enda á gæsluvarðhald yfir honum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 254/2000.
Ber því að fallast á kröfu ríkissaksóknara og verður dómþola gert að sæta gæsluvarðhaldi þó aldrei lengur en til föstudagsins 24. júní 2005, kl. 16.00.
ÚRSKURÐARORÐ:
Dómþoli, X, sæti gæsluvarðhaldi þó aldrei lengur en til föstudagsins 24. júní 2005 kl. 16.00
Sveinn Sigurkarlsson