- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Sakarskipting
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 22. maí 2003. |
Nr. 20/2003. |
Þórsnes ehf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Birnu Sævarsdóttur (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.
B rann til er hún var við vinnu sína í fiskvinnsluhúsi R ehf. Bar slysið að með þeim hætti að B gekk yfir gólf í fiskvinnsluhúsinu til að sækja eyrnahlífar, sem hún notaði við vinnu sína, þegar hún rann til í slorbleytu þannig að hún ökklabrotnaði. Í máli sem B höfðaði af þessu tilefni á hendur Þ ehf., sem R ehf. hafði sameinast, var talið sannað með vætti starfsfólks að R ehf. hafi engar reglur sett um að það mætti ekki fara óhindrað milli vinnusvæða, eftir að það var komið til vinnu sinnar. Var venjulegt að starfsfólk færi þá leið sem B fór þegar hún slasaðist. Var Þ ehf. látið bera hallann af því að vettvangur slyssins var ekki rannsakaður, en R ehf. lét hjá líða að tilkynna slysið í tæka tíð. Var talið að nauðsynlegt hafi verið að sjá til þess að gólfið væri hreinsað í hvert sinn er á það lak slor eða slepja, en ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi verið gert. Var það metið R ehf. til gáleysis. Aftur á móti var B látin bera 1/3 hluta tjóns síns þar sem hún hafi ekki gengið eins gætilega um gólf og ástæða var til.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Haraldur Henrysson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi sækir stefnda með máli þessu skaðabætur úr hendi áfrýjanda vegna slyss, sem hún varð fyrir 25. maí 1998 við vinnu sína í fiskvinnsluhúsi Rækjuness ehf., en það félag hefur síðan verið sameinað áfrýjanda. Fyrir Hæstarétti eru aðilarnir sammála um að leggja til grundvallar niðurstöðu héraðsdómara um fjárhæð einstakra liða í skaðabótakröfu stefndu og heildarútreikning kröfunnar, en deila á hinn bóginn um sök á slysinu. Að þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, en um fjárhæð málskostnaðar og gjafsóknarkostnað stefndu, sem greiðist allur úr ríkisjóði, fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þórsnes ehf., greiði í ríkissjóð 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Birnu Sævarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. desember 2002.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 18. júní 2002 og þingfest sama dag. Það var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 27. nóvember sl.
Stefnandi máls er Birna Sævarsdóttir, kt. 070862-3019, Lágholti 13 Stykkishólmi. Upphaflega var stefnt Rækjunesi ehf., kt. 670274-1289, Reitavegi 12 Stykkishólmi, en undir rekstri máls var upplýst að það félag hefði hinn 27. mars 2001 verið sameinað Þórsnesi ehf., kt. 420369-0859, Reitavegi 14 Stykkishólmi, sem er stefndi í þessu máli. Til réttargæslu er stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3 Reykjavík.
Dómkröfur
Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefnda Þórsnes ehf. greiði henni kr. 5.478.024 með 2% ársvöxtum frá tjónsdegi til 1. ágúst 2000, en með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/197 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnandi gerir engar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Dómkröfur stefnda, Þórsness ehf., eru þær aðallega að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og því tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Réttargæslustefndi gerir engar kröfur.
Atvik máls
Stefnandi var starfsmaður stefnda, nánar tiltekið Rækjuness ehf., þegar hún slasaðist í vinnunni að morgni 25. maí 1998. Slysið var ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins þegar í stað, og voru aðstæður á slysstað ekki rannsakaðar. Það var heldur ekki tilkynnt lögreglu, en fyrir liggur skýrsla sem stefnandi gaf fyrir lögreglu um slysið 11. nóvember 1999. Skýrslan var tekin að beiðni lögmanns stefnanda. Í henni segir að slysið hafi orðið kl. 08:20 um morguninn. Þetta er þar haft eftir stefnanda: ,,Birna segist hafa mætt í skelvinnslu í Rækjunes kl. 08:00 þennan umrædda dag. Hún segist hafa farið að færibandinu og hafi unnið þar nokkra stund þegar hún fór fram til þess að sækja útvarpið sitt. Birna segist hafa gengið fram hjá ,,Sjokkernum" [þ.e. suðupottinum. Aths. dómara] og hafi verið mikil bleyta fyrir framan hann. Hún segist hafa sótt útvarpið [Útvarpsviðtækið var í eyrnahlífum hennar.Aths. dómara] fram í fatahengi og á leið sinni til baka fram hjá ,,sjokkernum" hafi hún stigið í bleytuna og hafi hún verið búin að ganga nokkur skref þegar hún rann til og datt í slorbleytunni. Birna segir að þegar hún lenti hafi hægri fóturinn bögglast undir sér." Stefnandi lýsir síðan afleiðingum fallsins. Hún segist hafa legið í bleytunni, og nokkrir vinnufélagar hennar hafi komið að henni. Einn þeirra hafi skorið stígvélið utan af hægri fæti. ,, Þá kom í ljós hvers kyns meiðslin voru; allur fóturinn fyrir neðan ökkla lá út til hægri og ökklaliðurinn stóð út í loftið."
Í atvikalýsingu stefnu segir að stefnandi hafi verið flutt á sjúkrahúsið í Stykkishólmi til skoðunar. Þar hafi komið í ljós eftir röntgenmyndatöku að hægri ökkli hafi verið fjórbrotinn, liðbönd slitin og fóturinn úr liði. Stefnandi hafi síðan verið flutt á Sjúkrahús Reykjavíkur þar sem gert hafi verið að fætinum.
Fyrir liggur skýrsla starfsmanns Vinnueftirlits ríkisins um aðstæður á slysstað, dags. 19. janúar 2000. Hann kveðst hafa farið á staðinn þann dag að beiðni lögmanns stefnanda. Þar segir fyrst að Vinnueftirlitinu hafi borist lögregluskýrsla um slysið 15. desember 1999. Slysið hafi ekki verið tilkynnt þegar það átti sér stað, en skrifleg tilkynning um slysið, dags. slysdaginn, hafi borist Vinnueftirlitinu [Upplýst er í málinu að móttökudagur var 2. júní 1998]. Í skýrslunni segir að aðstæður á slysstað hafi verið breyttar, ástand gólfa, hálka og fleira sem máli skiptir. Þetta segir í skýrslunni: ,,Aðstæður: Gólfin eru máluð rauð og blá og á starfsfólk sem vinnur á bláu svæði ekki að fara yfir á rautt svæði. Á bláum svæðum er soðin afurð og óunnin á rauðum svæðum. Gólf eru máluð og lítils háttar hrjúf. Slasaða hafði á fótunum svokölluð frystihússtígvél sem eru hvít með hálkuverjandi sóla. Orsök slyssins má rekja til hálku sem skapaðist vegna bleytu og leðju sem lekur úr skelkössunum."
Vinnustaðurinn
Dómari skoðaði vettvang fyrir aðalmeðferð ásamt stefnanda, lögmönnum aðila, Jóhannesi Smára Guðbjartssyni, sem var verkstjóri við skelvinnsluna þegar slysið varð, og fleirum. Vinnsluhúsið er nú nokkuð breytt og þar er nú engin vinnsla. Allgóðar myndir af húsi innanverðu liggja frammi í málinu. Húsið liggur nokkurn veginn frá norðri til suðurs. Í suðurhluta, í sal í miðju húsi, var móttaka fyrir skelina. Gólf var þar rauðmálað. Skelkörum var þar staflað upp á gólf, við austurvegg og fram á gólfið eftir atvikum. Við vesturvegg var suðupotturinn, og þar var síló, sem skelin var sett í úr körunum, áður en hún fór í pottinn. Starfsmenn gengu inn í húsið um dyr á austurvegg (við götu). Þeim megin uppi á lofti voru skrifstofur og kaffistofa starfsfólk. Starfsmenn gengu gegnum gang, en úr honum lágu leiðir í tvær áttir. Önnur lá inn í móttöku. Á hurð á dyrum þangað [merkt E á mynd á dskj. nr. 30] var fest blað með þessari áletruninni: ,,Óviðkomandi bannaður aðgangur. Aðeins fyrir starfsfólk í móttöku og við hreinsivélar". Úr ganginum voru aðrar dyr sem lágu til búningsherbergis (líka nefnt fataskiptaherbergi) við austurvegg húss (götumegin). Á hurð í þeim dyrum var blað með þessari áletrun: ,,Óviðkomandi bannaður aðgangur. Aðeins fyrir starfsfólk við tínsluband og pökkun". Starfsfólk sem vann við tínsluband (líka kallað bitaband) fór um búningsklefann, síðan úr honum þvert yfir miðsalinn í húsinu, þar sem gólf var blátt á litinn, yfir í salinn þar sem tínslubandið var í norðvesturhorni hússins. Inni í þeim sal var gólf grátt á lit. Sömu leið fór það til baka í kaffi eða pásu og skipti þá um fatnað, a.m.k. skófatnað, í búningsherberginu. Salur fyrir hreinsivélar og svokallað ruslaband var við vesturvegg húss til hliðar við móttöku og norðan við sal með tínslubandi. Fyrir kom að stúlkur við tínsluband voru kallaðar til að vinna við ruslabandið, og gengu þær þá af bláu gólfi yfir rautt gólf fram hjá suðupotti og sílói yfir í sal hreinsivéla. Upplýst er einnig (sbr. síðar) að iðulega gengu starfsstúlkur frá tínslubandi á ská yfir miðsalinn af bláu gólfi yfir á rautt gólf móttöku að dyrum inn í móttöku [dyrum merktum E á dskj. 30]. Gerðist það einkum þegar þær þurftu að kalla á verkstjóri, þegar hann var uppi á lofti, eða þegar þær voru kallaðar í síma. Gengu þær þá um það svæði þar sem skelkörum var staflað.
Í stefnu segir að lögmaður stefnanda hafi beint bótakröfu að réttargæslustefnda. Í svari hans, dags. 1. september 2000, hafi bótakröfu verið hafnað, og virðist sem sú afstaða sé á því byggð að slysið hafi að öllu leyti verið á ábyrgð stefnanda vegna eigin sakar hennar og að stefndi hafi sinnt skyldum sínum að öllu leyti. Lögmaður stefnanda hafi ítrekað bótakröfuna, og réttargæslustefndi hafi hafnað henni á ný með bréfi, dags. 6. desember 2000.
Í greinargerð stefnda kemur fram að réttargæslustefndi hafi greitt stefnanda kr. 258.900 úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu og einnig hafi hún fengið greiddar kr. 321.507 í örorkubætur vegna slyssins frá Tryggingastofnun ríkisins.
Matsgerð lækna
Að beiðni réttargæslustefnda og lögmanns stefnanda unnu Atli Þór Ólafsson dr. med. og Ragnar Jónsson læknir matsgerð um líkamstjón stefnanda á grundvelli skaðabótalaga. Hún liggur frammi í málinu, dags. 10. apríl 2000. Niðurstaða þeirra er sú að stefnandi hafi orðið fyrir ,,eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:
1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:
Fjórir mánuðir 100%
Þrír mánuðir 75%
Í janúar 1999 100%
2. Þjáningabætur skv. 3. grein:
Rúmliggjandi, ekkert
Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, frá 25.05.1999 til 01.02.1999 [svo].
3. Varanlegur miski skv. 4. grein: 10%
4. Varanleg örorka skv. 5. grein: 25%
5. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 10%"
Málsástæður stefnanda
Stefnandi telur að orsök slyss hennar megi fyrst og fremst rekja til vanbúnaðar á gólfi. Það hafi verið hált og blautt þegar slysið varð. Stefnandi telur ósannað að öryggisreglur, sem stefndi heldur fram að hafi átt að gilda á vinnustaðnum, hafi verið kynntar henni. Þá er því mótmælt sem ósönnuðu að óheimilt hafi verið að fara af bláu svæði yfir á rautt svæði. Stefndi hafi ekki gert stefnanda grein fyrir hvað mismunandi litir ættu að merkja. Þá sé það ósannað að innra eftirlit fyrirtækisins hafi tekið til þess að fylgja því eftir gagnvart starfsmönnum að ganga ekki annars staðar en á bláu svæði. Þvert á móti hafi starfsfólk auk almennings gengið óhindrað gegnum móttöku inn að tínslubandi og um allt vinnusvæðið, þar sem ekki hafi verið til staðar skilti sem bannaði aðgang. Það að óviðkomandi sé bannaður aðgangur hafi því enga aðra merkingu en að banna þeim sem ekki eru starfsmenn umgengni ,,um það svæði".
Er slysið varð hafi stefnandi verið að ganga um svæði sem verið hafi hluti af vinnustað hennar. Um sé að ræða eðlilega og venjubundna gönguferð innan vinnustaðarins til þess að ná í útvarp og öryggishlífar [Svo í stefnu. Eyrnahlífar sagði stefnandi fyrir dómi]. Stefnandi telji ekki unnt að koma við skiptingu á vinnusvæðum eins og haldið sé fram af stefnda, þar sem nauðsynlegt sé að komast milli vinnusvæða til þess að nálgast ýmsa hluti og sækja aðföng til vinnunnar. Nauðsynlegt sé að ganga yfir allar litamerkingar á vinnusvæðinu til þess að komast leiðar sinnar innan vinnustaðarins.
Þá segir stefnandi að sönnunarbyrði um að tjónið verði rakið til gáleysis stefnanda hvíli á stefnda, þar sem hann hafi brotið skýrar lagaskyldur um tilkynningu slyssins bæði til lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins. Snúa beri sönnunarbyrði við, þ.e. stefnda beri að sanna að hann beri ekki sök á slysinu í umrætt sinn vegna ótvíræðra lagaskyldna sem á honum hvíli, einkum vegna eftirfarandi ákvæða:
Í 4. mgr. 6. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða segi að gólf og gólfefni í vinnurými skuli vera þannig að það hæfi því starfi sem þar er unnið með tilliti til slits, burðarþols og hreinsunar. Þessa hafi ekki verið gætt, þar sem slor hafi verið látið liggja óhreinsað á gólfi hússins.
Í 5. mgr. 6. gr. segi m.a. að gera skuli ráðstafanir til þess að draga úr hálku þar sem þess gerist þörf. Þessa hafi ekki verið gætt.
Innanhúsvinnustaður sé skilgreindur sem allar vistarverur starfsfólks, gangar, svalir og stigar sem eru í tengslum við vinnustaðinn auka vinnustaðarins sjálfs, sbr. 2. mgr. 37. gr. Með öðrum orðum sé meginreglan sú að vinnustaðurinn verði ekki afmarkaður við tiltekin litamerkt svæði.
Þá skuli umferðarleiðir útbúnar þannig að fótgangendur megi nota þær vandkvæðalaust með fullu öryggi á þann hátt sem tilgangur þeirra segi til um þannig að starfsmönnum sem eru við vinnu í grennd við þær stafi ekki hætta af, sbr. 1. mgr. 39. gr. reglnanna. Þessa hafi ekki verið gætt. Ekki hafi verið hirt um að hafa gólf hrein eða gera ráðstafanir í útbúnaði gólfa sem fyrirbyggði að unnt væri að renna til á því.
Afgirða skuli hættusvæði ef starfsmenn geta hrasað á þeim, sbr. 4. og 5. mgr. 39. gr. reglnanna. Þessa hafi ekki verið gætt, ef ætlun stefnda hafi verið að hafa slorið liggjandi á gólfinu.
Ljóst sé af þessari upptalningu að höfuðskyldan hvíli á atvinnurekanda að koma í veg fyrir með viðeigandi ráðstöfunum að slys eins og það sem stefnandi lenti í geti átt sér stað.
Ekki verði annað ályktað miðað við aðstæður á vinnustað stefnda er slysið varð en að framangreind lagaákvæði hafi verið brotin, og því verði að leggja alla sök á stefnda. Ef talið verður að stefnandi eigi að bera ábyrgð að hluta til á eigin líkamstjóni, þá er því haldið fram að hún sé minniháttar en höfuðsökin liggi hjá stefnda. Stefnandi hafi ekki sýnt af sér óaðgæslu er hún gekk um vinnusvæðið. Hún hafi verið í svokölluðum frystihúsastígvélum með hálkuverjandi sóla og verið klædd í viðeigandi öryggisbúnað.
Um lagarök segir stefnandi að öryggisreglur hafi það að markmiði að draga úr slysum og gera þann aðila ábyrgan sem hefur fjárhagslega ábyrgð á vinnustaðnum. Sá sem beri áhættu af atvinnurekstri og njóti ágóðans verði einnig að sæta ábyrgð sem felist í því að greiða bætur fyrir það tjón sem hlýst beinlínis af ótryggum vinnustað, enda geti hann keypt sér tryggingu til þess að mæta þeirri áhættu og beri reyndar skylda til þess.
Þá segir stefnandi að öfug sönnunarbyrði í þeim tilvikum að slys eru ekki tilkynnt miði að því að auka nákvæmni slysarannsóknar með tilliti til sakar, auka varnaðaráhrif slíkra rannsókna. Slíkt sé í samræmi við tilgang lagaákvæða um hollustu, öryggi og aðbúnað á vinnustöðum. Markmið laganna sé að unnt sé að mæla slysatíðni og gera ráðstafanir og kröfur í ljósi slyss með það fyrir augum að fækka slysum. Markmiðið sé einnig að lögreglu sé gert viðvart þegar alvarlegt slys ber að höndum með tilliti til hugsanlegrar höfðunar refsimáls. Brot á reglugerð um tilkynningu vinnuslys séu refsiverð sem og gróf brot á öryggisreglum.
Eðlilegt sé að sá sem beri ábyrgð á tilkynningu vinnuslyss hagnist ekki af því að slysavettvangur spillist þar sem slys sé ekki tilkynnt í tíma á meðan unnt er að rannsaka slysavettvang og meta orsakir slyssins út frá honum. Áhættan sem tekin sé með tilliti til varnaðaráhrifa rannsóknar og úrbóta í ljósi hennar mæli einnig með því að tjónvaldi verði gert að sanna að slysið verði ekki rakið til atvika sem hann beri ábyrgð á eða, í það minnsta, að vægari kröfur verði gerðar til tjónþola um að hann sanni sök atvinnurekanda.
Lög sem stefnandi vísar til: Stefnandi byggir á hinni almennu sakarreglu íslensks réttar, á 1., 2., 3., 4., 5., 6., 7., 9., 15. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. breytingalög nr. 42/1996, og á 1., 12., 41. og 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum. Um sakarábyrgð stefnda vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 1. gr., 1., 2., 3., og 4. mgr. 3. gr., 2., 5. og 6. mgr. 6. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. og 1. og 5. mgr. 39. gr. og d-liðar 3. mgr. 41. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr 91/1991. Kröfu um vexti byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga, á 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og á 12. og 15. gr. sömu laga og á 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988. Stefnandi kveðst vera ekki virðisaukaskattskyldur.
Tjónsútreikningur stefnanda
Hann lítur svo út í endanlegri gerð:
1. |
Tekjutap vegna tímabundinnar 100% í 2 mánuði og 75% í 3 mánuði |
kr. |
242.934 |
2. |
Þjáningarbætur pr. dag 1730/930 kr. |
kr. |
229.710 |
3. |
Varanlegur miski, 5.331.000 kr. (miðað við 100% |
kr. |
533.100 |
4. |
Varanleg örorka skv. 5. og 6. gr. |
kr. |
4.609.234 |
5. |
Frádráttur vegna aldurs skv. 9. gr. |
kr. |
-462.921 |
6. |
Útlagður kostnaður tjónþola |
kr. |
200.000 |
7. |
Frádregið, áður greitt af tryggingafélagi |
kr. |
-261.555 |
8. |
Dagpeningar Tryggingastofnunar |
kr. |
-346.114 |
9. |
Útlagður kostn. greiddur af Tryggingast. |
kr. |
-12.206 |
|
Samtals krafa |
kr. |
5.478.024 |
Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila um liði nr. 2, 3, 5, 7, 8 og 9 hér að ofan, en ágreiningur er um liði 1, 4 og 6. Verður nú gerð grein fyrir í hverju sá ágreiningur felst:
1. liður: Ekki er ágreiningur um forsendur útreiknings þessa liðar, þ.e. að leggja til grundvallar atvinnutekjur stefnanda næstliðinna 12 mánaða fyrir slysið. Á þeim tíma fékk stefnandi alls greiddar 672.311 krónur fyrir vinnuframlag sitt. Voru mánaðarlaun hennar því að meðaltali 56.026 krónur. Samkvæmt fyrr nefndri álitsgerð lækna var tekjutap stefnanda algert í fjóra mánuði og í janúar 1999 en 75% í þrjá mánuði. Varð stefnandi því alls af tekjum í 7,25 mánuði. Miðað við mánaðarlaun stefnanda nam tekjutap hennar vegna tímabundinnar örorku því 406.188 krónum (7,25 * 50.026). Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda laun á þessu tímabili, sem aðilar eru sammála um að draga eigi frá nefndri fjárhæð, en þeir eru ekki sammála um frádráttarfjárhæðina. Frádráttarliðirnir eru þessir:
1. 110.767 krónur fyrir tímabilið 25.05.1998-26.07.1998.
2. 45.324 krónur fyrir tímabilið 21.09.1998-04.10.1998.
3. 16.143 krónur fyrir tímabilið 05.10.1998-18.10.1998.
Um þessa frádráttarliði eru aðilar sammála, en þó er sá hængur á að stefnandi hefur 1. liðinn, svo sem hér er skráð, kr. 101.767, en stefndi hefur hann kr. 110.767, og á sú tala sér stoð í málskjali, og virðist hér hafa orðið ásláttarvilla hjá lögmanni stefnanda. Í málinu liggur frammi launaseðill frá stefnda til stefnanda, dags. 06.09.98, laun alls skv. honum kr. 65.478. Á seðilinn er skráð að hann sé fyrir launatímabilið 24.09 - 06.09. Við aðalmeðferð var bókað að ágreiningur aðila um 1. tölulið í tjónsútreikningnum lægi í því að stefnandi telur ósannað að hún hafi fengið laun sem launaseðillinn greinir á því tímabili sem þar greinir. Stefndi telur að augljóslega sé villa í skráningu launatímabils, sem eigi að vera 24.08. - 06.09. Þannig telur stefndi að fjárhæð 1. töluliðar tjónsútreiknings eigi að vera kr. 168.476 .
4. liður: Við aðalmeðferð var þetta fært til bókar: ,,Stefnandi hefur nú lækkað kröfur sínar fyrir 4. lið í sundurliðun um dómkröfur, þ.e. í krónur 4.609.234. Sú kröfufjárhæð er reiknuð út frá viðmiðunarárslaunum kr. 1.746.872, sbr. dómskjal nr. 53, II 1, sbr. dómskjal nr. 41. Stefndi hefur fyrir sitt leyti reiknað út þessa tölu og telur að hún eigi að vera kr. 1.291.279, sbr. dómskjal nr. 52. Ágreiningurinn liggur í því að aðilar eru ósammála um hvaða viðmiðunarlaun leggja skal til grundvallar. Stefnandi leggur til grundvallar meðallaun fiskvinnslufólks utan höfuðborgarsvæðisins á fyrsta ársfjórðungi 1997, uppfærð með launavísitölu ársins 1998. Stefndi leggur til grundvallar heildaratvinnutekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slys, þ.e. síðustu 12 mánuði fyrir slys, að teknu tilliti til starfshlutfalls stefnanda."
6. liður: Um þennan lið vísar stefnandi til upplýsinga Brynjólfs Jónssonar sérfræðings á Bæklunarskurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, sem fram koma í bréfi hans til lögmanns stefnanda, dags. 17.10.2002, en úr því má lesa að stefnandi hafi þurft að fara 8 sinnum til Reykjavíkur til meðferðar og aðgerða vegna slyssins. Stefndi mótmælir þessum lið.
Við aðalmeðferð var ennfremur bókuð í þingbók sú athugasemd að kröfuliður nr. 5 eigi að vera 10 % af lið nr. 4 að frádreginni verðlagshækkun.
Málsástæður stefnda
Sýknukrafa stefnda er á því byggð, að skilyrði skorti til að leggja á hann skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda, sem alfarið megi rekja til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Þessu til stuðnings er bent á eftirfarandi:
Skortur eða vangæsla á tilkynningu í tæka tíð um vinnuslys til lögreglu eða vinnueftirlits sé ekki sjálfstæður grundvöllur skaðabótaskyldu, sbr. t.d. H 1994:1995 og H 1996:4219. Verði sönnunarbyrði því hvorki snúið við né skaðabótaskylda byggð á því einu, að tilkynningu um slysið hafi verið áfátt.
Stefndi segist ekki vefengja frásögn stefnanda í framburðarskýrslu um það hvernig slys hennar bar að höndum og segir engan ágreining vera um atvik að slysinu, þ.e. að stefnandi hafi á bakaleið fram hjá “sjokkernum” (suðupottinum) stigið í bleytuna þar fyrir framan og runnið til og dottið, þegar hún var búin að ganga nokkur skref. Því séu ekki skilyrði til að snúa við sönnunarbyrði í málinu eða létta sönnunarskyldunni af stefnanda um meinta sök stefnda á slysinu, hvað sem tilkynningarskyldunni líði.
Ósannað er, að stefndi hafi vanrækt eðlilega og venjulega hreingerningu gólfsins framan við “sjokkerinn” (suðupottinn) og að slysið sé að rekja til þess. Ekkert bendi heldur til þess, að gólfið sem slíkt hafi verið ólöglegt eða þannig úr garði gert og útbúið að háski stafaði af. Hins vegar sé ávallt bleyta framan við “sjokkerinn” (suðupottinn) af eðlilegum ástæðum, þegar vinnslan er í gangi og þá ekki hægt að hafa gólfin þar þurr og hálkulaus. Hvort tveggja sé að bleyta leki frá skelkössunum og einnig komi bleyta frá “sjokkernum” meðan á vinnslunni stendur. Bleyta, slor og hálka á gólfum fiskvinnsluhúsa meðan á móttöku fisks og á fiskvinnslunni stendur sé venjulegur og eðlilegur hluti vinnuumhverfis þar rétt eins og í lestum og á þilförum fiskiskipa, á fiskibryggjum, frystihúsagólfum, eða annars staðar þar sem sjávarfang kemur til vinnslu. Það sé með öllu ósaknæmt og ekki brot á neinum ákvæðum reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, sem stefnandi vitni til, né öðrum laga eða reglugerðarákvæðum. Útilokað sé að fyrirbyggja bleytu, slor og hálku á þessum stöðum og að starfsfólk geti ekki runnið þar til í bleytunni, ef það gætir sín ekki. Er starfsfólk af þessum ástæðum gjarnan í svonefndum frystihúsastígvélum með hálkuverjandi sóla eins og stefnandi hafi verið í þegar slysið varð. Sé þannig ekkert við stefnda að sakast um slys stefnanda.
Hins vegar eigi stefnandi sjálf sökina á slysinu, en hún hafi farið án fyrirmæla og gegn reglum, sem merktar voru á hurðirnar, inn á vinnusvæði sem hún hafi alls ekki átt að ganga um, farið þar fram hjá “sjokkernum” þar sem bleytan blasti við og aftur til baka yfir sömu bleytuna. Stefnandi hafi því hlotið að vita mætavel að þarna var blautt og hált og borið að gæta sín þar sérstaklega (auk þess að hún hafi ekki átt að vera þarna), en það hafi hún ekki gert og því hafi farið sem fór. Sé ekki öðru um að kenna en óhlýðni og gáleysi stefnanda sjálfrar og óhappatilviljun. Stefnandi hafi sér ekkert til afsökunar, en hún hafi verið 36 ára að aldri á slysdegi, þaulvön fiskvinnslu og hafi starfað undanfarin ár við skelfiskvinnslu í fiskvinnsluhúsi stefnda í Stykkishólmi og verið þar öllum hnútum kunnug, þ.á m. bleytumynduninni framan við “sjokkerinn” og reglunni um að starfsmenn við tínslubandið, sem hún tilheyrði, hafi ekki átt að fara inn á svæðið, þar sem “sjokkerinn” var. Séu þannig ekki efni til annars en að stefnandi verði sjálf látin bera allt tjón sitt.
Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa stefnda reist á því að skipta beri sök í málinu og stórlækka stefnukröfur. Er á því byggt að stefnandi eigi í öllu falli meginsökina á slysi sínu og lækka beri bætur í takt við það. Vísast um eigin sök stefnanda til röksemda með aðalkröfu.
Kröfu um dráttarvexti er mótmælir stefndi frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Skýrslur fyrir dómi gáfu stefnandi og 6 vitni: Jóhannes Smári Guðbjartsson, sem var verkstjóri stefnda, þegar slys varð; Guðmundur Kristinsson eiginmaður stefnanda og fjórar starfsstúlkur stefnda: Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigurlaug Guðný Þórarinsdóttir, Helga Guðmundsdóttir og Árdís Lára Gísladóttir.
Stefnandi kvaðst hafa unnið nokkur ár við skelvinnslu þegar slysið varð. Hún hefði komið til vinnu kl. 8 að morgni slysdags. Hún fór til vinnu við tínsluband. Hún kvaðst hafa tekið eftir því að eyrnahlífar hennar (með útvarpsviðtæki í) voru ekki í skápnum hennar. Hún kvaðst hafa leitað þeirra í svuntugeymslu og síðan í öðru afdrepi fyrri vinnufatnað í vinnslusal, en þar hefðu þær ekki verið. Þá hefði hún farið að leita þeirra í fatahengi í gangi þar sem gengið var inn í móttöku. Hún hefði gengið þangað beinustu leið úr vinnslusal, þar sem tínsluband var, yfir blátt gólf og rautt gólf móttöku. Þar hefði hún fundið eyrnahlífarnar. Skelkör hefðu verið upp við austurvegg í móttöku og líka hefðu verið kör nær suðupottinum (,,sjokkernum"). Greið leið hefði verið þar á milli. Hún kvaðst hafa farið þessa leið af því að hún hefði verið styst og venjulegt að fara hana. Önnur leið hefði verið að fara þvert yfir bláa gólfið og um búningsherbergið. Hún hefði verið lengri og tafsamari, því að þá hefði hún þurft klæða sig úr vinnufatnaði, því að ekki hefði mátt fara í honum þar í gegn.
Stefnandi kvaðst hafa á bakaleiðinni dottið í móttökunni. Þar hefði verið blautt gólf með slorbleytu. Hún hefði stigið á slorblett og runnið til í slorinu. Slorbleytan hefði komið úr skelkörunum. Aðspurð sagði hún að ekki hefðu verið venjulegt að þarna væri slor, ,,að mér vitandi", sagði hún, en það hefði þó alltaf komið fyrir. Hún hefði metið það þannig að hún gæti gengið þarna eins og venjulega. Hún hefði ekki velt því sérstaklega fyrir sér að þarna væri slor, það hefði ekki verið á hverjum degi. Hún hefði oft gengið þarna um og aldrei dottið áður. Hún kvaðst eins og aðrar starfsstúlkur þarna hafa verið í hvítum stígvélum með hálkuvörn í sóla. Atvinnurekandinn hefði skaffað þeim þau.
Stefnandi var spurð hvað stefndi hefði getað gert til að draga úr slysahættu þarna í móttökunni. Hún svaraði að hann hefði getað látið spúla gólf. Það færi eftir aðstæðum hve oft þyrfti að gera það. Slorbleyta frá skelkörum færi eftir því hvernig skelin væri og eftir því hve lengi hún hefði staðið í körunum.
Um ferðir starfsfólks um vinnslusali sagði stefnandi að það hefði gengið þar sem því datt í hug. Enginn hefði gert við það athugasemd, hvorki verkstjóri né eigendur. Hún neitaði því að verkstjóri hefði brýnt fyrir starfsfólki að fara ekki milli litasvæða. Ekkert skilti hefði bannað fólki að fara milli þeirra innan frá. Hún kannaðist þó við skiltin á hurðum að móttöku og búningsherbergi, sem lýst er í atvikalýsingu hér að framan. Þau skilti, sagði stefnandi, að hefðu fyrst og fremst verið fyrir utanaðkomandi, óviðkomandi fólk af götunni. Eftir slysið hefði eitt skilti verið sett á útidyrahurð með áletruninni Óviðkomandi bannaður aðgangur. Hún sagði nánar um þetta atriði að starfsstúlkur hefðu iðulega farið þessa leið sem hún fór, ef síminn hefði hringt ,,hjá okkur" og kalla hefði þurft á verkstjóra og hann þá verið upp á lofti. Þá hefði verið farin stysta leið að dyrum inn í móttöku [merktum E á dskj. nr. 30] og kallað upp á loftið, og eins ef skel hefði klárast. Þá sagði stefnandi að stundum hefði verið kallað í starfsstúlkur við tínsluband að koma yfir í salinn, þar sem hreinsivélar voru og ruslaband, til að vinna þar. Þá hefðu þær þurft að fara af bláu gólfi yfir á rautt og fram hjá suðupottinum. Við þetta bætti stefnandi því að starfsfólk hefði getað fengið keypt hjá stefnda franskar kartöflur og grænmeti sem fyrirtækið hefði unnið. Þær vörur hefðu verið settar á borð í móttökunni sunnan við skelkörin og þangað hefði starfsfólk sótt þær.
Stefnandi sagði að vinnslutímabil skelfisks hefði verið um hálft ár, frá ágúst fram í janúar eða febrúar. Á þeim tíma hefði hún jafnan unnið sem samsvaraði dagvinnutíma, þ.e. frá kl. 6 á morgnana til kl. 12 á hádegi. Fyrstu tveir tímarnir hefðu verið í næturvinnu og jafngilt fjórum dagvinnutímum. Utan skelvinnslutímabils hefði starfsfólki veri frjálst að því að sækja vinnu hjá stefnda. Þá hefði hún stundum unnið hjá stefnda og þá frá 8-12 á morgnana.
Stefnandi sagði að eiginmaður hennar hefði ávallt ekið henni þegar hún hefði farið suður til aðgerðar vegna slyssins eða í endurhæfingu. Hann hefði tekið sér frí úr vinnu til þess. Ef hún hefði átt að koma til viðtals að morgni hefðu þau farið kvöldið áður og gist fyrir sunnan.
Vitnið Jóhannes Smári Guðbjartsson var verkstjóri stefnda þegar slysið varð og kvaðst hafa verið það um nokkurn tíma fyrir slys. Hann upplýsti að skel til vinnslu hefði komið í körum úr skipi. Körunum hefði verið ekið inn í móttöku á lyftara. Þar hefði verið sett í þau 10-15 ° heitt vatn og körin látin standa með því yfir nótt. Að morgni hefði síðan hafist á þeim vinnsla.
Vitnið sagði að alltaf hefði verið blautt gólf í móttöku og stundum hefði verið þar slor. Ef körin hefðu staðið opin hefði alltaf verið að síga bleyta úr þeim, og hún hefði verið slepjuleg. Gólfin í móttöku væru sleipari en við tínslubandið. Jóhannes Smári sagði aðspurður að gólfin hefðu verið spúluð, yfirleitt reglulega. Um leið og sturtað hefði verið úr hverju kari í sílóið þá hefði alltaf verið bleyta á gólfinu í kring. Lyftaramaður hefði séð um þetta. Hann var þá spurður hvort gólfið hefði verið spúlað áður stefnandi féll á því. ,,Það var alla vega blautt," sagði vitnið.
Vitnið Jóhannes Smári var beðinn að skýra mismunandi liti á gólfum. Hann greindi svo frá að eftirlitsmaður hefði komið frá Fiskistofu og sett út á sprungur í gólfi, þar sem bláa gólfið er. Stefndi hefði þá fengið fyrirtæki að sunnar, Gólflagnir, til að taka gólfið í gegn. ,,Við völdum bláan lit á gólfefni." Árið eftir hefði aftur verið sett út á gólf, nú inni í vinnslusal þar sem tínslubandið var. Stefndi hefði ætlað að fá bláan lit þar líka, en hann hefði þá ekki verið til og hefði þá verið valinn ljósgrár litur. Vitnið sagði að rauður litur hefði verið valinn á móttöku ,,vegna þess að við vorum með stálkör, og það sást minnst á rauða litnum ef körin rispuðu gólfið". Gólfið í móttöku hefði verið málað rautt út af körunum og lyftaranum.
Út frá skiltum á hurðum, sbr. atvikalýsingu, var Jóhannes Smári spurður um ástæðu þess að öðrum en þeim sem unnu í móttöku hefði verið bannað að fara þangað inn. Hann sagði að lyftari hefði verið mikið á ferðinni á þessu svæði, og af honum hefði stafað slysahætta. Í öðru lagið hefði verið þarna óunnið hráefni, ósoðin vara. Þess vegna hefði sérstakt fólk unnið við það og við hreinsivélar. Þetta hefði verið hreinlætisspursmál.
Vitnið sagði að stefnandi hefði starfað inni á tínslubandi, en stundum hefði hún verið kölluð í önnur störf, m.a. til að vinna við ruslabandið. Hann sagði að hún hefði ekki átt að fara yfir gólfið í móttöku þegar hún hefði farið að ná í eyrnahlífarnar. Rétt hefði verið að hún hefði farið um búningsklefann, en þá hefði hún þurft að fara úr stígvélum og í inniskó. Þegar starfsfólk hefði farið í pásu hefði það farið rétta leið um búningsklefa og þaðan upp á loft í kaffistofu. Ef kallað hefði verið á fólk úr einu starfi í annað milli vinnusvæða, hefði það verið á sína ábyrgð. Hann hefði stundum kallað í fólk til að fara milli svæða. Hann var spurður hvort farið hefði verið eftir þeim reglum sem skráðar hefðu verið á skilti á hurðum. ,,Já, að mestu leyti held ég," svaraði vitnið, en sjálfsagt hefði þetta eitthvað verið brotið. Hann bætti við að verkstjórinn hefði þurft að fara um allt, annað hefði ekki verið fræðilegur möguleiki. Hann sagði aðspurður að komið hefði fyrir að hann hefði áminnt fólk um að fara að reglum, en hann kvaðst ekki muna eftir að hafa áminnt stefnanda um það.
Jóhannes Smári var spurður um grænmetisvörur sem stefnandi sagði að settar hefðu verið á gólf í móttöku og starfsfólk mátt sækja þangað. Hann sagði að það hefði getað borist að hvenær sem var, og þá hefði þurft að setja það á brettum á gólf. Annars kvaðst hann ekki muna um þetta, en verið gæti að bíll hefði komið með þessa vöru og lyftari sett hana á gólf í móttöku á brettum.
Vitnið Guðmundur Kristinsson, eiginmaður stefnanda, kvaðst hafa ekið henni til Reykjavíkur í öll skiptin sem hún hefði þurft að fara suður vega afleiðinga slyssins. Hver ferð hefði tekið allan daginn og lengri tíma ef hún hefði átt tíma að morgni, þá hefðu þau farið kvöldið áður og gist yfir nótt. Hann hefði misst af tekjum vegna þessa. Hann væri stálsmíðameistari, hefði verið verkstjóri á góðum launum, unnið 10 tíma á dag. Hann hefði þurft að taka sér frí úr vinnu í þessar ferðir.
Framburður vitnanna Ingibjargar Sigurðardóttur, Sigurlaugar Guðnýjar Þórarinsdóttur, Helgu Guðmundsdóttur og Árdísar Láru Gísladóttur var í meginatriðum mjög á sama veg. Þær höfðu allar verið starfsstúlkur hjá stefnda, mislengi, en a.m.k. þrjár hinar fyrsttöldu mörg ár.
Frammi liggur í málinu skrifleg yfirlýsing, dags. 22.09.2000, svohljóðandi:
,,Við undirritaðar starfsstúlkur í Rækjunesi Stykkishólmi staðfestum hér með að okkur hafi ekki verið kynntar öryggisreglur í fyrirtækinu, né litamerkingar á gólfum, okkur hefur ekki verið sagt hvað litir á gólfum merkja, né að ekki megi labba í vissum litum. Engum reglum hefur verið fylgt í umgengni um blá - rauð - eða grá gólf í Rækjunesi og hefur starfsfólk auk almennings getað gengið óhindrað gegnum móttöku inn á tínslubandi og um allt vinnusvæðið, þar sem ekki hafa verið nein skilti sem banna aðgang. Virðingarfyllt." Undir þessa yfirlýsingu hafa 7 stúlkur ritað nöfn sín, þeirra á meðal vitnin fjögur, Ingibjörg, Sigurlaug, Helga og Árdís. Allar staðfestu þær skjalið og undirskrift sína.
Ingibjörg Sigurðardóttir kvaðst ekki hafa unnið í Rækjunesi þegar slysið varð, en annars hefði hún unnið þar annað slagið í 20 ár. Hún sagði það venjulegt að bleyta hefði verið á gólfi í móttöku og að það hefði verið hált; það hefði verið hálla en við tínslubandið. Menn hefðu þurft að gæta sín betur þar en annars staðar. Hún var spurð hvort gólfið hefði verið hreinsað reglulega. Hún svaraði að það hefði verið spúlað eftir daginn og svo kannski eitthvað yfir daginn. Hún kvaðst stundum hafa verið kölluð frá tínslubandi til að vinna við ruslabandið og þá hefði hún gengið um móttökuna. Engar reglur hefðu verið um það hvernig hefði átt að ganga um svæðið. Allir hefðu gengið þarna um, starfsfólk og utanaðkomandi menn.
Sigurlaug Guðný Þórarinsdóttir hafði unnið í Rækjunesi í nokkur ár áður en slysið varð, en vann þar þó ekki þá. Hún sagðist oftast hafa farið leiðina um búningsherbergið að tínslubandinu og frá því, nema hún þyrfti að hlaupa í síma, þá hefði hún farið stystu leið gegnum móttöku. Það hefði hún líka gert ef hún þurfti að kalla í verkstjóra og hann var ekki í salnum. Hún hefði líka farið um móttöku ef hún var kölluð að ruslabandinu. Hún kvaðst ekki hafa verið að spá í hálku. Gólfið í móttöku hefði verið spúlað af og til, a.m.k. eftir vinnslu.
Helga Guðmundsdóttir vann í Rækjunesi þegar slysið varð. Hún hafði unnið þar óslitið frá 1982. Hún sagði: ,,Við gengum um allt fyrirtækið óhindrað." Eftir að fólk hefði verið komið inn í [vinnslu]sal hefði ekkert hindrað það í að fara milli vinnusvæða. Þeir sem unnið hefðu við tínslubandið hefðu stundum verið kallaðir yfir að ruslabandinu. Þá hefði verið gengin beinasta leið, en ekki farið um búningsherbergi (fataskiptaherbergi). Ekki hefði verið bannað að fara milli svæða. Fólk hefði getað komið utan af götu inn í salina, alveg inn að verkstjórabúri í sal þar sem tínsluband var. Það hefði getað komið inn á tveimur stöðum. Þar hefði ekkert skilti verið. Skilti hefði verið sett á útihurð eftir slys með áletruninni Óviðkomandi bannaður aðgangur.
Helga sagði að gólfið í móttöku hefði getað verið sleipt, sleipara þar en annars staðar. Það hefði ekki endilega sést hvort þar hefði verið slorbleyta. Það hefði lekið úr körunum yfir nóttina. Starfsmaður sem fyrstur kom til vinnu á morgnana hefði séð um körin og að losa úr þeim í síló. Hún kvaðst ekki þora að fara með það hvort hann hefði alltaf byrjað á því að þvo gólfið á morgnana, en einhvern tíma morgunsins hefði verið spúlað.
Árdís Lára Gísladóttir var að vinna í Rækjunesi þegar stefnandi slasaðist. Hún sagði að þá hefði verið slor á gólfi í móttöku eins og oft hefði verið. Þar hefði verið subbulegra en annars staðar. Þrif á gólfi þar hefðu verið tilviljanakennd. Hún kvaðst oft hafa gengið um móttöku þegar hún hefði farið yfir á ruslabandið. Komið hefði fyrir að hún hefði einnig farið að dyrum þar sem gengið er inn í móttöku (dyrum E á dskj. 30), en yfirleitt hefði hún þó farið leiðina gegnum fataskiptaherbergið. Hún hefði farið þá leið til að kalla á verkstjóra eða til að fara í síma. Hún kvaðst ekki muna til að talað hefði verið um að ekki mætti ganga um þetta svæði. Utanaðkomandi fólk hefði getað komið inn á vinnusvæðin, t.d. inn um dyr móttöku. Þetta hefði gerst annað slagið. Hún sagðist ekki muna eftir neinum merkingum.
Forsendur og niðurstöður
Með framburði stefnanda og vætti fjögurra vitna er sannað að starfsfólki í fyrirtæki stefnda voru engar reglur settar um að það mætti ekki fara óhindrað milli vinnusvæða, eftir að það var komið til vinnu sinnar. Venjulegt var að starfsfólk færi þá leið sem stefnandi fór þegar hún slasaðist. Telur dómari og sannað að starfsfólki hafi ekki verið kynnt að litir á gólfi hefðu einhverja sérstaka merkingu með tilliti til umgengni. Ekki er annað fram komið en að starfsfólk hafi hlítt þeim fyrirmælum sem hengd voru upp á hurðir tvær í dyrum þeim sem það gekk um annars vegar inn í móttöku og hins vegar inn í búnings- eða fatatskiptaherbergi að þaðan áfram inn í pökkun eða sal tínslubands, en eftir að inni í vinnusali kom hafi þessi fyrirmæli ekki gilt.
Slys stefnanda var alvarlegt, og mátti fyrirsvarsmönnum stefnda vera það ljóst þegar á stað og stundu slyss. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir í 2. mgr. 81. gr.: ,,Komi fyrir eitrun eða slys á vinnustað, skal atvinnurekandi eða fulltrúi hans á vinnustað tilkynna það lögreglustjóra og Vinnueftirliti ríkisins svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en innan sólarhrings." Með stoð í þessum lögum, sbr. 1. mgr. 80. gr., voru settar reglur um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989. Í 1. mgr. 1. gr. þeirra er tilkynningaskyldan áréttuð og vísað til 3. mgr. 1. mgr. reglnana, en þar segir: ,,Slys eða eitrun eru tilkynningaskyld skv. 1. mgr. ef ætla má að áverkinn sem af þeim hlýst geti valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, svo sem ef slasaði missir útlim eð hluta af útlim, beinbrotnar . . ."
Brot stefnda á lagareglunni um tilkynningaskyldu leiddi til þess að vettvangur slyss var ekki rannsakaður. Þótt ekki sé ágreiningur um það með aðilum máls að slys stefnanda hafi borið til með þeim hætti að hún hafi runnið til í slorbleytu eða slepjubleytu frá skelkörum, þá er þó sitthvað óljóst um aðstæður á slysstað. Ekki er t.d. vitað hve mikið slor eða slepjubleyta var á gólfi móttöku. Ekki er heldur í ljós leitt hvernig þrifum á gólfi þessu var almennt háttað og ekki upplýst hvort það hafði verið spúlað um morguninn áður en stefnandi gekk þar um, en að mati dómara hefði þess verið þörf þar sem bleyta lak úr körum yfir nóttina og venjulegt var að fólk gengi þarna um, sbr. 6. gr. reglna nr. 581/1995, einkum 5. mgr., sbr 38. og 43. gr. laga nr. 46/1980. Er óhjákvæmilegt að stefndi beri halla af því að hann fór ekki að lögum að þessu leyti.
Það er álit dómara að leggja beri til grundvallar niðurstöðu í þessu máli að slys stefnanda hafi orsakast af því að gólfi móttöku, þar sem stefnandi gekk um, hafi verið hált af slor- eða slepjubleytu svo að gangandi fólki stafaði hætta af. Er reyndar ekki ágreiningur um að þessi sé orsök slyssins. Þá ber við það að miða, svo sem þegar er fram komið, að venjulegt hafi verið að starfsfólk gengi um slysstaðinn og af hálfu stefnda hafi ekki verið settar reglur eða gerðar ráðstafanir til að hindra þá umferð. Að þessu gefnu þykir dómara sýnt að nauðsynlegt hefði verið að sjá til þess að gólfið væri hreinsað (spúlað) í hvert sinn er á það lak slor eða slepja. Ekki síst var þessa þörf að morgni dags, eftir að lekið hafði úr körum yfir nóttina. Ekki hefur verið sýnt fram á að það hafi verið gert. Verður að meta stefnda það til gáleysis og fella á hann sök á slysi stefnanda.
Stefnandi var þaulvanur starfsmaður við skelvinnslu stefnda, 35 ára gömul. Hún þekkt mjög vel allar aðstæður á vinnustað sínum. M.a. var henni kunnugt að slor-bleyta gat runnið úr körunum í móttökunni. Mátti hún vita að þar gat verið hálla en annars staðar í vinnslusölum stefnda. Lítur dómari svo á að orsök slyssins megi að hluta rekja til þess að hún hafi ekki gengið eins gætilega um gólf móttökunnar og hún hafði ástæðu til. Verður því stefnanda gert að bera tjón sitt að hluta, og þykir dómara eftir atvikum rétt að hún beri 1/3 hluta þess.
Um útreikning tjóns
Svo sem fyrr segir er ekki tölulegur ágreiningur milli aðila um liði nr. 2, 3, 5, 7, 8 og 9 í tjónsútreikningi stefnanda, en ágreiningur er um liði 1, 4 og 6.
1. liður: Ágreiningur um þennan lið tjónsútreiknings stendur um launaseðil sem á er skráð að sé fyrir launatímabilið 24.09 - 06.09. Stefndi telur að augljóslega sé villa í skráningu launatímabils, sem eigi að vera 24.08. - 06.09. Á þetta fellst dómari. Samkvæmt því fellst hann á að þessi liður eigi að vera kr. 168.476 eins og stefndi heldur fram. Sjá á bls. 8 hér að framan.
4. liður: Ágreiningur aðila um þennan lið liggur í því að þeir eru ósammála um hvaða viðmiðunarlaun leggja skal til grundvallar. Stefndi leggur til grundvallar heildaratvinnutekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slys, þ.e. síðustu 12 mánuði fyrir slys, að teknu tilliti til starfshlutfalls stefnanda. Styður hann aðferð sína við 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og hún var á slysdegi, en þar segir að árslaun teljist vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Stefnandi leggur hins vegar til grundvallar meðallaun fiskvinnslufólks utan höfuðborgarsvæðisins á fyrsta ársfjórðungi 1997, uppfærð með launavísitölu ársins 1998. Í málflutningi kom fram að lögmaður stefnanda studdi þessa aðferð við 2. mgr. 7. skaðabótalaga á tjónsdegi, en þar segir að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir, t.d. breytingar á atvinnuhögum. Dómari lítur svo á að af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að undantekningarregla 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi hér við. Í bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 9. október 2002, er nákvæmur útreikningur á þessum lið tjónsútreiknings. Þar segir að á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjónið varð hafi stefnandi unnið alls 983 vinnustundir og fengið fyrir þær greiddar 672.311 kr. Hún hafi því fengið að meðaltali greiddar 683,94 krónur á unna vinnustund. Um þessar tölur er ekki ágreiningur. Með bréfinu fylgir yfirlit um greiðslur til stefnanda á nefndu tímabili. Síðan segir í bréfinu:
,,Ljóst er að stefnandi vann ekki fullt starf á framangreindu tímabili. Alls munu að jafnaði vera 2080 vinnudagar [Svo. Eiga augljóslega að vera vinnustundir. Aths. dómara] í árinu. Frá því dagast sumarleyfisdagar, þ.e. 24 að lágmarki, alls 192 stundir, sbr. ákvæði laga nr. 30/1987 um orlof. Meðalfjöldi vinnustunda í fullu starfi er því 1.888 vinnustundir. Áréttað skal að stefnandi fékk síðan sérstaklega greitt fyrir orlof, eins og fram kemur í yfirlitinu, og eru þær greiðslur inni á meðalgreiðslum fyrir vinnustund.
Ef útreikningar á bótum vegna varanlegrar örorku eru leiðréttir með tilliti til þess að meðalfjöldi vinnustunda í fullu starfi sé 1.888 stundir og meðaltekjur á unna vinnustund 683,97 krónur má sjá að heildaratvinnutekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slysið hefðu verið 1.291.279 krónur, hefði stefnandi unnið fullt starf.
[. . .]
Ef miðað er við að heildaratvinnutekjur stefnanda á næstliðnu ári fyrir slysið hafi verið 1.291.279 krónur, yrði bótakrafa vegna varanlegrar örorku, eins og hér segir:
Heildarvinnulaun |
1.291.279 |
6% framlag í lífsj. |
77.477 |
Samtals |
1.368.756 |
Tíföld árslaun |
13.687.557 |
25% af þeirri fjárh. |
3.421.889 |
lækkun skv. 9. gr. skbl. 10% |
342.189 |
Samtals |
3.079.700 |
Verðlagshækkun skv. 2. mgr. 15. gr. |
|
4.379/3.615 x 3.131.889 |
650.869 |
Samtals krafa vegna varanl. örorku |
3.730.569" |
Dómari fellst á aðferð stefnda og útreikning um þennan lið.
6. liður: Stefnandi gerir kröfur um kr. 200.000 í þessum lið. Þá fjárhæð hefur hún ekki rökstutt með öðru en því að hún hafi farið 8 ferðir til Reykjavíkur vegna aðgerða eftir slysið og til endurhæfingar. Í öll skiptin hafi eiginmaður hennar ekið henni og hafi þurft að fara úr vinnu vegna þessa. Ef á það er litið að frá Stykkishólmi til Reykjavíkur eru um 175 km og stefnandi hefur því í þessum 8 ferðum þurft að aka samtals um 2.800 km, þá virðist dómara að krafa stefnanda í þessum lið megi teljast hófleg.
Niðurstaða dómara verður sú að tjón stefnanda beri að meta á kr. 3.779.059 (168.476+229.710+533.100+3.730.569-462.921+200.000-261.555-346.114-12.206). Af þeirri fjárhæð ber stefnda að greiða stefnanda 2/3 hluta, eða kr. 2.519.373.
Vexti er rétt að stefndi greiði stefnanda. Stefnandi krefst 2% vaxta frá tjónsdegi, og verða honum dæmdir þeir fram að þeim degi er dráttarvextir taka við. Dráttarvaxta krefst stefnandi frá 1. ágúst 2000. Er svo að sjá að það tímamark sé miðað við þann dag er skaðabótakröfu var beint að tryggingafélagi stefnanda, réttargæslustefnda. Ekki liggur þó fyrir hvenær það var nákvæmlega, en fyrir liggur að réttargæslustefndi hafnaði kröfu lögmanns stefnanda um skaðabætur með bréfi, dags. 1. september 2000. Þykir dómara rétt að dæmd fjárhæð beri dráttarvexti frá þeim degi, sbr. 2. mgr. 14. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Verða stefnanda dæmdir dráttarvextir skv. III. kafla þeirra laga til 1. júlí 2001, en frá þeim degi skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaður
Eftir atvikum máls er rétt að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, og skal hann vera 500.000 krónur, virðisaukaskattur af þóknun lögmanns innifalinn, og rennur í ríkissjóð.
Stefnandi hefur gjafsókn. Gjafsóknarkostnaður hans er þóknun lögmanns hans, kr. 500.000, virðisaukaskattur innifalinn. Gjafsóknarkostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.
Magnús Ingi Erlendsson hdl. sótt málið fyrir stefnanda, en Þórólfur Jónsson hdl. f.h. Hákonar Árnasonar hrl. hélt uppi vörn fyrir stefnda.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Þórsnes ehf., greiði stefnanda, Birnu Sævarsdóttur, kr. 2.519.373 með 2% ársvöxtum frá 25. maí 1998 til 1. september 2000, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað, virðisaukaskattur af lögmannsþóknun innifalinn, og rennur í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 500.000, greiðist úr ríkissjóði.