Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-80
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Þrotabú
- Greiðsla
- Lán
- Riftun
- Ógjaldfærni
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. apríl 2025 leitar A faktoring ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. mars sama ár í máli nr. 904/2023: A faktoring ehf. gegn þrotabúi Fashion ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að tólf millifærslum af reikningi Fashion ehf. inn á reikning leyfisbeiðanda verði rift.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um að fallast á kröfu gagnaðila um riftun á öllum greiðslunum sem voru samtals 19.152.375 krónur og um greiðslu skaðabóta sömu fjárhæðar. Bú félagsins Fashion ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 9. janúar 2020 og fóru greiðslurnar fram á tímabilinu 26. júlí til 20. desember 2019. Frestdagur við skiptin var 3. október 2019. Fyrir lá að aðilar höfðu áður átt í viðskiptum þar sem leyfisbeiðandi keypti kröfur Fashion ehf. á hendur verkkaupum og fékk þær framseldar honum. Landsréttur taldi ljóst að fyrrgreindar greiðslur ættu ekki rætur að rekja til samskonar viðskipta. Þá var ekki fallist á að greiðslurnar fengju viðhlítandi stoð í samkomulagi aðila 8. júlí 2019 sem laut að fjármögnun á verksamningi við annað félag. Í dómi Landsréttar kom fram að átta af tólf millifærslum sem krafist var riftunar á hefðu farið fram eftir frestdag og hluti þeirra gerður af starfsmanni leyfisbeiðanda sem hafði heimild til úttekta af bankareikningi Fashion ehf. Landsréttur leit einnig til þess að leyfisbeiðandi hefði að miklu leyti fjármagnað rekstur Fashion ehf. og í reynd haft ráðstöfunarrétt yfir þeim tekjum sem bárust á reikning félagsins. Þá hefðu verið rík hagsmunatengsl milli félaganna auk þess sem hagsmunir eigenda Fashion ehf. hefðu verið samofnir hagsmunum leyfisbeiðanda. Samkvæmt því hefðu millifærslurnar farið fram við aðstæður sem hvorki gætu talist venjulegar né til þess fallnar að tryggja jafnræði kröfuhafa. Talið var að Fashion ehf. hefði verið ógjaldfært á þeim tíma sem um ræddi og leyfisbeiðandi hefði mátt vita af því. Lagt var til grundvallar að greiðslurnar sem hefðu verið leyfisbeiðanda einum til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa hefðu verið ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að leyfisbeiðandi hefði verið grandsamur um þær aðstæður sem leiddu til þess.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum þar sem kröfukaup eða „factoring“ sé tiltölulega nýtt réttarsvið í íslenskum rétti sem lítið hafi reynt á og ekki mikið komið til kasta Hæstaréttar. Í málinu reyni þannig meðal annars á skilgreiningu hugtaksins kröfukaup. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Einnig þurfi að fá úr því skorið hvort viðskiptahættir þeir sem tíðkanlegir séu í starfsemi hans og sambærilegra fyrirtækja almennt standist lagalega skoðun. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins fyrir Landsrétti og niðurstaða réttarins röng, meðal annars af þeim sökum. Þannig hafi ekki verið tekin efnisleg afstaða til málsástæðu hans er laut að því að fjármunir sem riftunarkrafan varði hafi runnið að miklu leyti aftur til gagnaðila og leyfisbeiðandi þannig ekki verið sá aðili sem raunverulega hafði hag af ráðstöfunum í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.