Hæstiréttur íslands

Mál nr. 441/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 13

 

Miðvikudaginn 13. ágúst 2008.

Nr. 441/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, að X, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtu­dagsins 14. ágúst næstkomandi kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að aðfaranótt föstudagsins 1. ágúst sl. hafi lögreglu borist tilkynning um líkamsárás á Hverfisgötu í Reykjavík, en talið væri að hníf hefði verið beitt við árásina. Þegar lögregla hafi komið á vettvang, hafi verið þar maður með áverka undir herðablaði og á handlegg, og hann sagt eitthvert fólk hafa ráðist á sig. Hafi verið töluvert blóð á vettvangi og legið blóðslóð frá ætluðum árásarstað að þeim stað, þar sem brotaþoli málsins hafi fundist. Brotaþoli hafi verið fluttur á slysadeild, þar sem gert hafi verið að sárum hans, en hann hafi reynst vera með stungusár milli 9. og 10. rifbeins vinstra megin, sár á brjóstvegg og loftbrjóst, auk sárs á vinstri handlegg. Vitni á vettvangi hafi talið sig hafa séð tvo menn ganga í skrokk á brotaþola við A, m.a. barið og sparkað í hann, og þann þriðja, sem hann taldi vera í félagi með hinum tveimur og hafi hann gefið lýsingu á nokkrum árásarmannanna.

   Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavélum við A, sem lögregla hafi undir höndum, megi sjá hvar hópur þriggja manna og einnar stúlku gangi norður Ingólfs­strætið og beygi um hornið vestur Hverfisgötu. Skömmu síðar sjáist á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél, sem snúi að Hverfisgötu, hvar annar sakborningur málsins sé í átökum og virðist sem hann haldi á áhaldi, sem grunur leiki á að sé hnífur.

   Hinn 5. ágúst hafi verið leitað að frekari myndskeiðum hjá Stjórnarráðinu til að kanna, hvort frekari myndir væri að finna af ætluðum gerendum. Á myndskeiði því, sem lögregla hafi nú undir höndum, megi greina þrjá menn á hlaupum norður Lækjargötu og hverfi þeir svo sjónum, þar sem þeir hlaupi, að því er virðist, austur Hverfisgötu. Á myndskeiðinu þyki lögregla greina, að fatnaður síðasta mannsins í hópnum sé hinn sami og greina megi á ofangreindu myndskeiði, og talið sé að sé fatnaður kærða. Sá fatnaður hafi nú verið haldlagður, en hann hafi fundist á heimili kærða, og verið sé að kanna, hvort finna megi ummerki á fatnaðinum, s.s. blóðbletti.

   Tekin hafi verið stutt skýrsla af brotaþola málsins, þar sem hann hafi legið á sjúkrahúsi. Hafi hann greint frá því að hann hafi lent í átökum við hóp af Íslendingum, sem hann gruni, að hafi verið þrír. Hann muni þó ekki nákvæmlega eftir málavöxtum og viti ekki hvernig hann var skorinn.

  Annar sakborningur málsins hafi játað í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa hlaupið eftir manni norður Lækjargötu og þaðan austur Hverfisötu, þar sem hann hafi lagt til mannsins með hnífi. Hann hafi þó ekki getað gefið nákvæma lýsingu á atvikum, s.s. hvort hann hafi verið einn að verki eða hvort annar maður, hafi tekið þátt í árásinni, en vitni hafi greint lögreglu svo frá, að tveir menn hafi gengið í skrokk á brotaþola málsins. Þá hafi kærði og aðrir sakborningar í málinu orðið uppvísir að því að hafa sammælst um að gefa ranga skýrslu hjá lögreglu. Þá hafi hnífur sá, sem beitt hafi við árásina, ekki fundist, en við skýrslutöku fyrr í dag hafi lögregla fengið frekari upplýsingar sem talið sé að geti leitt til fundarstaðar hans.

   Brot það, sem til rannsóknar sé, þyki sérstaklega alvarlegt og sé talið geta varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brotið sé talið sérstaklega alvarlegt, þegar litið sé til þess, að beitt hafi verið hættulegu vopni í árásinni. Að mati lögreglu þyki því verknaðaraðferð og afleiðingar árásarinnar gera það að verkum, að brotið geti átt undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en ekki liggi fyrir að svo stöddu, hverjar endanlegar afleiðingar árásarinnar séu.

  Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í ofangreindri árás, en eftir sé að upplýsa nægilega um þátt kærða í árásinni. Rannsókn málsins standi nú yfir. Krefjist rannsóknarhagsmunir þess, að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, einkum í því ljósi, að sakborningar málsins virðist hafa sammælst um sögu sína hjá lögreglu, auk þess sem eftir sé að upplýsa, hvort tveir eða einn maður hafi átt þátt í ofangreindri árás. Þá hafi ungri stúlku, sem í hópnum var, verið sleppt, þegar farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir henni, hinn 6. ágúst sl. Þyki lögreglu ástæða til að ætla, að, gangi kærði laus, geti hann torvelt rannsókn málsins, til að mynda með því að skjóta undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða aðra sakborninga málsins. Því þyki brýnt, að lögregla fái svigrúm til að sinna rannsókninni.

Lögreglan bendir á það að Hæstiréttur hafi þegar tekið afstöðu til þess, hvort skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé uppfyllt, hvað kröfu um gæsluvarðhald yfir kærða á grundvelli rannsóknarhagsmuni varði, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 434/2008 frá 8. ágúst sl. Sé það mat lögreglu, að sömu rannsóknarhagsmunir séu enn til staðar og hafi verið þá. Með vísan til framangreindra atriða, framlagðra ganga og dóms Hæstaréttar í máli  nr. 434/2008 frá 8. ágúst sl., sé talið, að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 séu uppfyllt, og þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Af rannsóknargögnum sést að kærði var á vettvangi þegar umrætt brot var framið. Rannsókn málsins er ekki að fullu lokið og atvik um margt óljós. Þó kemur fram á myndum úr eftirlitsmyndavélum að a.m.k. tveir úr þeim hópi sem kærði var í, eltu þriðja mann sem hljóp upp Hverfisgötu. Einnig sést einn úr ofangreindum hópi í átökum. Þá ber vitni að það hafi séð þrjá menn ganga í skrokk á brotaþola. Með hliðsjón af þessu þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi átt þátt í líkamsárás 1. ágúst sl. Með hliðsjón af rökstuðningi lögreglustjóra og að öðru leyti með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 434/2008 þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt og er fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S KU R Ð A R O R Ð

                Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtu­dagsins 14. ágúst nk. kl. 16.00.