Hæstiréttur íslands

Mál nr. 237/2000


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamsáverkar
  • Skilorð
  • Ökuréttarsvipting


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. nóvember 2000.

Nr. 237/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Kim Björgvin Stefánssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

                                                   

Bifreiðir. Líkamsáverkar. Skilorð. Ökuréttarsvipting.

K lenti í árekstri er hann ók bifreið sinni fram úr annarri bifreið yfir óbrotna línu skömmu áður en komið var að blindhæð. Áreksturinn leiddi til líkamsáverka á farþegum í bifreið K. Fyrir héraðsdómi viðurkenndi K þau brot, sem hann var ákærður fyrir, og lauk héraðsdómari málinu eftir 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu og viðurlög og taldi síðbúnar athugasemdir K um annmarka á rannsókn málsins engu breyta um að sök hans hafi verið nægilega sönnuð, meðal annars með skýlausri játningu hans fyrir héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing, sem ákærða var gerð með héraðsdómi, verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að viðurlög verði milduð.

I.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa síðdegis laugardaginn 10. júlí 1999 ekið fólksbifreið sinni á för vestur eftir Þjórsárdalsvegi í Gnúpverjahreppi yfir óbrotna línu á miðju vegarins til að fara fram úr vöruflutningabifreið skömmu áður en komið var að blindhæð og valdið þannig árekstri við jeppabifreið, sem kom úr gagnstæðri átt á veginum. Við áreksturinn urðu tveir farþegar í bifreið ákærða fyrir nánar tilgreindum áverkum, en annar þeirra hlaut meðal annars rifbeinsbrot. Er þessi háttsemi ákærða talin varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo og nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerðar nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 348/1998.

Í frumskýrslu lögreglunnar um þennan atburð var haft eftir ákærða að hann hafi „ekið suður Þjórsárdalsveg og verið að taka fram úr flutningabílnum og farið yfir á vinstri vegarhelming en þá lent á bifreiðinni LR-412 sem kom úr gagnstæðri átt.” Lét lögreglumaður, sem gerði skýrsluna, þess getið þar að á miðju vegarins væri óbrotin lína í akstursstefnu ákærða. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglunni 11. nóvember 1999. Hann kvað fyrrgreinda lýsingu atvika í frumskýrslu lögreglunnar rétta, en lýsti þeim síðan aftur á sama veg og áður. Sérstaklega aðspurður um hvort hann hefði ekki gert sér grein fyrir merkingum á miðju vegarins sagði ákærði: „Ég hugsaði ekki um það. Ég var búinn að fara þessa leið marg oft og hugsaði aldrei um vegmerkingarnar.” Lögreglan tók jafnframt um líkt leyti skýrslur af einum farþega í bifreið ákærða og ökumanni hinnar bifreiðarinnar, en virðist að svo búnu hafa lokið rannsókn málsins.

Við þingfestingu málsins í héraði 27. apríl 2000 mætti ákærði og óskaði ekki eftir að sér yrði skipaður verjandi. Um afstöðu hans til sakargifta var eftirfarandi fært í þingbók: „Ákærði viðurkennir að hafa ekið fólksbifreiðinni LG 031 á þann hátt og með þeim afleiðingum sem getið er í ákæru og gögnum málsins.” Lauk héraðsdómari málinu eftir 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með hinum áfrýjaða dómi.

II.

Fyrir Hæstarétti heldur ákærði fram að ekki hafi verið færð lögfull sönnun fyrir sakargiftum í ákæru. Þannig styðji ekkert í gögnum málsins þá fullyrðingu í ákæru að hann hafi ekið yfir óbrotna línu á miðju Þjórsárdalsvegar, enda liggi ekkert fyrir um hversu langt eða lengi hann hafi ekið við hlið vöruflutningabifreiðarinnar eða hversu langt sé frá árekstursstað að brotinni línu í akstursstefnu hans. Í málinu séu engir uppdrættir af vettvangi og aðeins fyrir hendi fátæklegar ljósmyndir. Allar upplýsingar vanti um lengd vöruflutningabifreiðarinnar og ökuhraða hennar umrætt sinn. Þá hafi lögreglan ekki tekið skýrslu af ökumanni hennar og heldur ekki af öllum farþegum í bifreiðunum, sem lentu í árekstrinum. Játningu ákærða verði og að skoða í ljósi aldurs hans og þess að hann naut ekki liðsinnis verjanda í héraði.

Þótt fallast megi á með ákærða að rannsókn lögreglunnar á málinu sé um sumt ófullkomin, verður ekki horft fram hjá því að hann sagði sjálfur lögreglunni tvívegis frá atvikum á þann hátt að ekki var gefið tilefni til ítarlegri aðgerða hennar en áður greinir. Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði og við þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, þar á meðal að hann hafi ekið yfir óbrotna línu á miðju vegar í nánd við blindhæð. Með þeirri afstöðu gaf ákærði ekkert tilefni til nánari gagnaöflunar ákæruvaldsins fyrir héraðsdómi. Geta síðbúnar athugasemdir ákærða um annmarka á rannsókn málsins engu breytt um að sök hans hafi verið nægilega sönnuð, þar á meðal með skýlausri játningu hans fyrir dómi.

Samkvæmt framangreindu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða. Viðurlög eru þar hæfilega ákveðin. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kim Björgvin Stefánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. maí 2000.

Mál þetta, sem tekið var til dóms á þingfestingardegi þess hinn 27. mars sl., er höfðað með svofelldri ákæru Sýslumannsins á Selfossi, dagsettri, 13. mars sl., á hendur Kim Björgvin Stefánssyni, kt. 291079-4749, Háholti 35, Akranesi „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, síðdegis laugardaginn 10. júlí 1999, ekið fólksbifreiðinni LG-031 vestur Þjórsárdalsveg í Gnúpverjahreppi fram úr vöruflutningabifreið, skammt vestan við blindhæð, sem þar er á veginum, án nægilegrar aðgæslu miðað við aðstæður.  Við þennan framúrakstur fór ákærði yfir heila óbrotna línu er bannar framúrakstur og yfir á rangan vegarhelming, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreið hans og bifreiðinni LR 412 sem ekið var austur Þjórsárdalsveg.  Stuttu eftir að ákærði og farþegar í bifreið hans voru komnir úr bifreiðinni, kviknaði í bifreiðinni.  Við áreksturinn rifbrotnaði Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, kt. 300380-5579, farþegi í bifreiðinni LG 301.  Einnig hlaut Haukur Vatnar Viðarsson, kt. 081176-4349, farþegi í bifreiðinni LG 031, mar sérstaklega yfir kvið- og brjóstvegg.

Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 2. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 84. gr. og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 289, 1995 um umferðarmerki og notkun þeirra, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 384/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 44, 1993 og lög nr. 57, 1997.”.

Með skýlausri játningu ákærða, sem samræmist gögnum málsins, er sannað að hann hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og réttilega er heimfærð til lagaákvæða.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Við ákvörðun refsingar er sérstaklega litið til þess að ákærði er ungur að árum og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingum.  Hins vegar varð ákærði valdur að hörðum árekstri, er leiddi til nokkurs tjóns, er hann með vítaverðum akstri sínum virti að vettugi bann við framúrakstri, en bifreið ákærða nálgaðist blindhæð sem var skammt frá árekstursstað.  Samkvæmt framanrituðu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í einn mánuð, en rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Þá skal ákærði einnig greiða 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi 20 daga.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, skal ákærði sviptur ökurétti.  Með hliðsjón af framansögðu og dómum Hæstaréttar Íslands frá 20. desember 1994 í máli nr. 361/1994 og frá 21. október 1999 í máli nr. 266/1999, þykir rétt að svipting ökuréttar ákærða skuli vara í tvö ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Ákærði, Kim Björgvin Stefánsson, sæti fangelsi einn mánuð, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi 20 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.