Hæstiréttur íslands

Mál nr. 429/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


Þriðjudaginn 15. júlí 2014.

Nr. 429/2014.

Ákæruvaldið

(Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Grímur Sigurðsson hrl.)

Y

(Reimar Pétursson hrl.)

Z og

(Karl Axelsson hrl.)

Þ

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X o.fl. um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við rekstur máls ákæruvalds á hendur þeim vegna ætlaðra brota gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við sakamál sóknaraðila á hendur þeim. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Varnaraðilar krefjast þess að krafa þeirra um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Með ákæru 22. mars 2013 höfðaði sóknaraðili sakamál á hendur varnaraðilum fyrir brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og almennum hegningarlögum með því að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember sama ár haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands. Jafnframt var varnaraðilum gefið að sök að hafa staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi, hvort tveggja með nánar tilgreindum hætti sem lýst var í ákærunni. Þar kom meðal annars fram að varnaraðilar hafi allir átt þátt í að skipuleggja og hrinda í framkvæmd fjármagnsflutningum á íslenskum krónum til landsins vegna gjaldeyrisviðskipta, en starfsemin hafi verið rekin í nafni sænska félagsins A sem varnaraðilar hafi ráðið yfir. Verknaðarlýsing ákærunnar og heimfærsla brotsins til refsiheimilda er í heild sinni tekin upp í hinum kærða úrskurði.

Við þingfestingu málsins 26. apríl 2013 mótmæltu varnaraðilar því að sóknaraðila yrði heimilað að leggja fram nánar tilgreind skjöl svo og að leiða tiltekið vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Með dómi Hæstaréttar 8. október 2013 í máli nr. 408/2013 var sóknaraðila synjað um að leggja fram hluta af þessum gögnum og að leiða vitnið fyrir dóminn. Að þeim dómi gengnum kröfðust varnaraðilar þess að málinu yrði vísað frá dómi og féllst héraðsdómur á þá kröfu með úrskurði 14. mars 2014. Með dómi réttarins 4. apríl sama ár í máli nr. 206/2014 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Þegar málið var næst tekið fyrir í héraði 5. maí 2014 féll sóknaraðili frá heimfærslu háttsemi varnaraðila samkvæmt ákæru til reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál og síðari reglna um sama efni nr. 880/2009. Eftir stendur að þau brot sem varnaraðilum eru gefin að sök eru talin varða við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 1. mgr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. tölulið 16. gr. laga nr. 87/1992. Í sama þinghaldi lögðu varnaraðilar fram sameiginlega kröfu um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins en þeirri beiðni var sem áður segir hafnað með hinum kærða úrskurði.

II

Í 1. gr. laga nr. 21/1994 segir að sé mál rekið fyrir héraðsdómstóli, þar sem taka þurfi afstöðu til skýringar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum eða viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, sé dómara heimilt í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnum eftirlitsstofnunar og dómstóls að kveða upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en því er ráðið til lykta. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum nr. 21/1994 kom fram að á þetta gæti reynt bæði við rekstur einkamála og sakamála, auk þess sem vafaatriði gætu verið fyrir hendi hvort heldur við rekstur máls fyrir héraðsdómi, Hæstarétti eða sérdómstóli.

Í hinum kærða úrskurði eru teknar orðrétt upp þær spurningar sem varnaraðilar krefjast að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um. Annars vegar lúta þær að því í A. og E. lið hvort það samræmist tilgreindum ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að binda gjaldeyrisviðskipti milli ríkja sem eiga aðild að samningnum því skilyrði að aflað sé fyrirfram leyfis stjórnvalda fyrir þeirri starfsemi. Hins vegar lúta spurningarnar í B., C. og D. lið að því hvort nánar tiltekin atvik geti haft þýðingu í því sambandi.

Eins og áður greinir er varnaraðilum gefið að sök brot gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 en þar segir að öðrum en Seðlabanka Íslands sé óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema að hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá seðlabankanum. Í málinu liggur fyrir að varnaraðilar höfðu ekki slíka heimild frá seðlabankanum á því tímabili sem ákæra á hendur þeim tekur til. Þá mun starfsemi á vegum sænska félagsins A, sem varnaraðilar réðu yfir, ekki hafa verið tilkynnt til fjármálaeftirlitsins í því landi í samræmi við sænsk lög.

Þær spurningar sem varnaraðilar krefjast ráðgefandi álits um varða ekki beitingu 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 í ljósi túlkunar á EES-samningnum heldur hvort ákvæðið sé samrýmanlegt honum. Þótt í ákvæðinu sé ráðgert að heimild til gjaldeyrisviðskipta verði studd við alþjóðlega samninga verður slík heimild ekki leidd af EES-samningnum. Svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum gætu því ekki haft áhrif við úrlausn sakamálsins á hendur varnaraðilum, enda fer um refsiábyrgð þeirra að íslenskum lögum. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. júní 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. maí 2014, er höfðað með ákæru útgefinni  af sérstökum saksóknara 22. mars 2013, á hendur X, kt. [...], [...], [...], Y, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], og Þ, kt. [...], [...], „fyrir brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og almennum hegningarlögum með því að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands og um leið staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagns­hreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármála­fyrirtækjum hér á landi, hvort tveggja með þeim hætti sem hér er nánar lýst:

Háttsemi ákærðu fólst í milligöngu um gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur gegn erlendum gjaldeyri og fjármagnsflutningum á íslenskum krónum til Íslands tengdum þeim gjaldeyrisviðskiptum. Ákærðu áttu allir þátt í að skipuleggja og hrinda í framkvæmd þeirri starfsemi og var hún rekin í nafni sænska félagsins A sem ákærðu réðu yfir.

Ákærðu sömdu við mótaðila í gjaldeyrisviðskiptum hverju sinni um að ákærðu skiptu erlendum gjaldeyri í eigu mótaðila í íslenskar krónur sem ákærðu skyldu greiða inn á bankareikning mótaðila á Íslandi. Jafnframt sömdu ákærðu og mótaðilinn um kjör í slíkum gjaldeyrisviðskiptum, það er sölugengi á íslenskum krónum af hálfu ákærðu gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri af hálfu mótaðila. Tóku þau kjör mið af svonefndu aflandsgengi íslensku krónunnar á hverjum tíma sem ávallt var lægra en skráð gengi íslensku krónunnar á opinberum gjaldeyrismarkaði á Íslandi.

Ákærðu létu mótaðila greiða erlenda gjaldeyrinn inn á gjaldeyrisreikning A hjá B í Svíþjóð fyrir viðkomandi mynt. Á framangreindu tímabili tóku ákærðu við samtals 771 innborgun frá samtals 84 mótaðilum í gjaldeyrisviðskiptum. Nánar tiltekið var um að ræða 59 innborganir í bandaríkjadölum, samtals að fjárhæð 10.766.999 bandaríkjadalir, 243 innborganir í sterlingspundum, samtals að fjárhæð 14.529.032 sterlingspund, 412 innborganir í evrum, samtals að fjárhæð 35.467.568 evrur, 2 innborganir í kanadadölum, samtals að fjárhæð 1.032.000 kanadadalir, 9 innborganir í norskum krónum, samtals að fjárhæð 55.000.113 norskar krónur, 8 innborganir í sænskum krónum, samtals að fjárhæð 862.301 sænsk króna og 38 innborganir í dönskum krónum, samtals að fjárhæð 17.747.690 danskar krónur.

Með hinum erlenda gjaldeyri sem ákærðu söfnuðu þannig inn á fyrrgreinda gjaldeyrisreikninga A keyptu þeir reglulega íslenskar krónur af erlendum fjármálafyrirtækjum, frá tugum og upp í hundruð milljónir króna hverju sinni, að langstærstum hluta af SkB og bandaríska fjárfestinga­sjóðnum C. Samhliða slíkum magnkaupum á íslenskum krónum gáfu ákærðu erlendu fjármálafyrirtækjunum fyrirmæli um að flytja íslensku krónurnar til Íslands, nánar tiltekið í tilviki B inn á bankareikning A nr. [...] hjá D hf. en í tilviki C inn á bankareikning A nr. [...] hjá E hf. Hver og ein slík fjármagnshreyfing sem ákærðu létu framkvæma erlendis frá inn á bankareikning A á Íslandi leiddi af sér úttekt af bankareikningi í íslenskum krónum, svonefndum VOSTRO-reikningi, sem erlenda fjármálafyrirtækið er framkvæmdi peningasendinguna átti hjá fjármálafyrirtæki á Íslandi. B átti slíkan reikning hjá D hf. og C hjá E hf.

Eftir að íslensku krónurnar höfðu borist inn á bankareikninga A hjá D hf. og E hf. gerðu ákærðu upp hver einstök gjaldeyrisviðskipti við mótaðila sína með því að millifæra í alls 748 skipti inn á bankareikninga þeirra á Íslandi fjárhæð eða fjárhæðir í íslenskum krónum sem svöruðu til tiltekinnar innborgunar eða innborgana mótaðila í erlendum gjaldeyri hverju sinni. Samtals námu þær útgreiðslur ákærðu 14.345.875.280 krónum á framangreindu tímabili og voru útgreiðslur til hvers og eins af hinum 84 mótaðilum á bilinu 1 til 105 talsins. Ákærðu framkvæmdu í langflestum tilvikum slíkar útgreiðslur með því að millifæra fyrst af bankareikningi A hjá D hf. yfir á bankareikning A hjá E hf. en greiða þaðan út til mótaðila.

Endurgjald ákærðu af milligöngu sinni um gjaldeyrisviðskiptin fólst í gengismuninum milli annars vegar sölugengis á íslenskum krónum til mótaðila í einstökum gjaldeyrisviðskiptum og hins vegar hagstæðara kaupgengis á íslenskum krónum sem ákærðu nutu í færri og stærri magnkaupum á íslenskum krónum af erlendum fjármálafyrirtækjum. Meðaltal þess gengismunar í öllum framangreindum gjaldeyrisviðskiptum ákærðu var að minnsta kosti 4,3 prósent og heildarágóði ákærðu samkvæmt því að minnsta kosti rúmar 656 milljónir króna.

Framangreind brot ákærðu teljast varða við eftirfarandi refsiákvæði:

Milliganga ákærðu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án leyfis Seðlabanka Íslands eða lögmætrar heimildar varðar á tímabilinu 25. mars 2009 til og með 13. júlí 2009 við 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 1. mgr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en frá og með 14. júlí 2009 til og með 2. nóvember 2009 við 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. tölulið 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 73/2009.

Ólögmæt gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi, sem ákærðu stóðu fyrir, vörðuðu á tímabilinu 25. mars 2009 til og með 30. október 2009 við 4. mgr. 1. gr., sbr. 13. gr., reglna um gjaldeyrismál nr. 1130/2008, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, en á tímabilinu 31. október 2009 til og með 2. nóvember 2009 við 2. og 3. gr., sbr. 16. gr., reglna um gjaldeyrismál nr. 880/2009, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Sama háttsemi varðar nú við 13. gr. b og 13. gr. c laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 4. tölulið 16. gr. sömu laga, sbr. b- og c-lið 3. gr. og 5. gr. laga nr. 127/2011“.

Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku á tilteknum eignum ákærðu með vísan til 2. mgr. 16. gr. a í lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 134/2008, og 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Þá eru í ákæru raktar þær röksemdir sem málsóknin er byggð á, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en ekki er ástæða til að rekja þær í þessum þætti málsins.

I

Við fyrirtöku málsins, þann 5. maí 2014, lagði ákæruvaldið fram bókun þar sem fram kemur ákæruvaldið falli frá heimfærslu á háttsemi ákærðu í ákæru til reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál. Ástæða þess væri sú að fram hefði komið að ekki lægi fyrir lögáskilið samþykki ráðherra til staðfestingar nefndum reglum og því verði að leggja til grundvallar að þær reglur séu ekki viðhlítandi refsiheimild í sakamáli, sbr. 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Í sömu fyrirtöku kom fram að ákæruvaldið félli frá heimfærslu í ákæru, til reglna nr. 880/2009 um gjaldeyrismál á sömu forsendum.

II

Við fyrirtöku málsins þann 5. maí 2014, lögðu ákærðu fram beiðni þess efnis að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi álitaefni:

A.      Er það samrýmanlegt 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE að samningsríki geri milligöngu lögaðila, sem er stofnaður í öðru samningsríki, um lögmæt gjaldeyrisviðskipti með gjaldmiðil fyrra samningsríkisins milli aðila í öðrum ríkjum, háðan því skilyrði að fyrirfram sé aflað leyfis stjórnvalda í fyrra samningsríkinu? Ef svo er, felast í tilvitnuðum EES-reglum einhverjar kröfur um hvenær fyrra ríkinu er skylt að veita slíkt leyfi?

B.      Hefur þýðingu fyrir spurningu A, ef framkvæmdarstjórn erlenda aðilans, sem hefur milligöngu, fer raunverulega fram innan ríkisins? Ef svo er, felast í tilvitnuðum EES reglum kröfur um hvernig meta skuli raunverulega staðsetningu framkvæmdarstjórnar í þessu sambandi?

C.      Hefur þýðingu fyrir spurningu A, að viðskiptin sem milliganga er höfð um eru að hluta gerð upp með millifærslu í fjármálafyrirtæki innan ríkisins? Ef svo er, hefur þýðingu fyrir spurningu A að millifærsla í fjármálafyrirtæki innan ríkisins fer fram í gjaldmiðli ríkisins en ekki erlendum gjaldmiðli?

D.      Hefur þýðingu fyrir spurningu A, að innlendir aðilar hafa veitt þeim aðila, sem fer með milligönguna, þjónustu í þágu viðskiptanna?

E.       Ef 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EB eiga ekki við í málinu er óskað eftir svari við sömu spurningu nema þá hvað varðar 36. gr., 31. gr., eða 4. gr. EES-samningsins að breyttu breytanda.

Í bókun ákærðu kom fram að þeir mótmæli því að þeir hafi haft „milligöngu“ og að þau viðskipti sem ákært sé fyrir teljist „gjaldeyrisviðskipti“ hér á landi. Þeirri ásökun hafi aldrei verið hreyft að starfsemi sænska lögaðilans A sem hafi átt aðild að viðskiptunum hafi verið ólögleg. Þannig hafi Stockholms Tingsrätt neitað aðstoð við rannsókn málsins og hafnað kyrrsetningu. Þá telja ákærðu að 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrisviðskipti geti ekki átt við í málinu. Fram komi í greinargerð með þeirri grein að með alþjóðlegum samningum sé fyrst og fremst verið að vísa til samnings um evrópskt efnahagssvæði. Orðalag 1. mgr. 8. gr. vísi þannig beint til EES-samningsins og telja ákærðu ljóst að löggjafinn hafi ekki síst átt við ákvæði 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE.

Ákærðu byggja aðallega á því að í orðalaginu felist að löggjafinn hafi ekki ætlað að krafa ákvæðisins um leyfi frá Seðlabanka Íslands ætti við um lögaðila frá öðrum samningsríkjum EES. Fallist héraðsdómur á þetta sé ástæðulaust að óska álits EFTA-dómsstólsins, slíkur lagaskilningur leiði beint til sýknu. Til vara byggja ákærðu á því að í orðalaginu felist að löggjafinn hafi aðeins ætlað kröfu ákvæðisins um leyfi ætti við, ef slíkt samrýmdist 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipunar nr. 88/361/EBE. Auk orðalags 1. mgr. 8. gr. laga 87/1992 um gjaldeyrisviðskipti og ummæla í greinargerð, styðji þetta sjónarmið við ákvæði 3. gr. laga nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið.

Telja ákærðu sýnt af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins að skilyrði sem þetta standist ekki þær reglur EES-samningsins sem spurningar þeirri lúti að. Vísa þeir því til stuðnings meðal annars til dóma Evrópudómstólsins í málunum C-358/93 og C-416/93, Bordessa o.fl. (1995) ECR I-361 og til mála C-163/94, C-165/94 og C-250/94, Sans de Lera o.fl. (1995) ECR I-4830. Þá telja ákærðu einnig skipta máli að samkvæmt texta 8. gr. laga nr. 87/1992, hafi Seðlabanki Íslands óhefta heimild til að synja um leyfi og að fyrirsjáanleika skorti um við hvaða aðstæður sé skylt að gefa leyfið út. Í ákvæðum 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrisviðskipti, felist því aðgangshindrun, sem meðal annars sé andstæð þeim reglum EES-samningsins sem spurningar ákærðu lúti að.

Ákærðu telja að niðurstaða EFTA-dómstólsins í máli E-3/11, Sigmarsson (2011) EFTA Ct. Pep. 430, skipti engu fyrir úrlausnina hér. Viðskiptin sem A hafði milligöngu um hafi ekki verið andstæð þeim hömlum sem Ísland hafi lagt á fjármagnsflutninga með heimild í 43. gr. EES-samningsins. Fjármagnsflutningar tengdir viðskiptum verði því taldir hafa verið í samræmi við reglur EES réttar í skilningi 2. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 88/361/EBE. Umræddar hömlur Íslands á fjármagnsflutningum skipti því engu fyrir úrlausn málsins.

Fram kom hjá ákærðu að EES-samningurinn hafi lagagildi hér á landi samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993. Samkvæmt 1. gr. EES-samningsins sé markmið hans að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði eða EES. Í því skyni hafi EFTA-ríkin skuldbundið sig í 2. mgr. 108. gr. samningsins til að koma á fót EFTA-dómstólnum. Hafi hann verið stofnaður með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnum eftirlitsstofnunar og dómstóls. Í aðfararorðum þess samnings sé vísað til þess markmiðs að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu EES-samningsins. Með það í huga hafi meðal annars verið ákveðið í 1. mgr. 34. gr. að EFTA-dómstólinn hefði lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum. Þá hafi verið ákveðið í 2. mgr. að dómstólar EFTA-ríkjanna gætu farið fram á slíkt ef þeir álitu það nauðsynlegt til að geta kveðið upp dóm. Ákvæði 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningi um evrópska efnahagssvæðið fæli í sér heimild fyrir héraðsdóm til þess að afla álits hvort sem aðili gerði kröfu um það eða ekki. Þetta ákvæði yrði túlkað til samræmis við EES-samninginn og markmið hans um einsleitni sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 og að skýra yrði íslensk lög og reglur til samræmis við EES-samninginn í þeim tilgangi að ná fram einsleitum markmiðum.

Að mati ákærðu stangist lögskýring ákæruvaldsins á lögskýringar þeirra sjálfra, á þann hátt að það væri íþyngjandi fyrir fjórfrelsið að leggja lögskýringu ákæruvaldsins til grundvallar og vísuðu verjendur í því sambandi til 1., 4., 31., 36. og 40. gr. EES-samningsins og dómaframkvæmda Evrópudómstólsins. Vegna þessa sé dómara skylt að afla slíks mats ef það geti haft þýðingu við úrslit málsins samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands.

III

Ákæruvaldið krefst þess að kröfu ákærðu um að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði hafnað. Að mati ákæruvaldsins eru það einkum þrjú atriði sem eiga að ráða því hvort dómstóll fallist á beiðni þess efnis eða hafni þeim:

  1. Sakarefni málsins þarf að varða með beinum og raunhæfum hætti til skýringar á EES-samningnum og tengdum reglum. EES-reglan þarf að skipta raunverulegu máli fyrir sakarefni málsins. Atvik máls þurfa að gera það óhjákvæmilegt að beita þurfi EES-reglu í málinu eða íslenskri landsreglu með túlkun í ljósi EES-reglunnar um þau og þetta megi leiða beint af 1. mgr. 1. gr. EES-laganna.
  2. Álitsbeiðnin þarf að taka mið af hlutverkaskiptingu milli EFTA-dómstólsins og landsréttar. Það eru íslenskir dómstólar sem fara með sönnunarfærslu um staðreyndir máls um skýringu innlends réttar og beitingu EES-samningsins að íslenskum lögum. Ef reyni á túlkun EES-samningsins við dómsmál hér á Íslandi, þá sé hægt að fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins. Það eru síðan íslenskir dómsstólar sem beiti þessari skýringu á landsrétti og leysa þar með úr viðkomandi réttarágreiningi í samræmi við fengnar skýringar EFTA-dómsstólsins, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. janúar 2000 í máli nr. 497/1999.
  3. Það komi bara til greina að óska eftir áliti EFTA-dómsstólsins ef íslenskur dómstóll telji það nauðsynlegt til þess að geta kveðið upp dóm í málinu. Með öðrum orðum þá þurfi skýring á EES-reglum að vera óhjákvæmileg til þess að unnt sé að leggja dóm á málið.

Það var mat ákæruvaldsins að beiðni verjenda standist ekkert af þessum skilyrðum fyrir því að ráðgefandi áliti verði beint til EFTA-dómsstólsins. Þessu til viðbótar kom fram hjá ákæruvaldinu að framsetning og orðalag í beiðninni væri verulega óljós og villandi og uppfyllti ekki í kröfur í því sambandi.

Ákæruvaldið benti á að mál þetta snúist um 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Óumdeilt sé að ákærðu höfðu ekki leyfi Seðlabankans til að hafa slíkrar milligöngu sem sú lagagrein kveði á um. Ákærðu skírskoti til alþjóðasamninga sem Ísland sé aðili að og vísi til frumvarps með nefndum lögum þar sem vísað sé til EES-samningsins og þar með eigi þetta undir EES-reglu um frjálsa flutninga fjármagns. Að mati ákæruvaldsins sé þetta ekki rétt. Í þessu felist engin sérstök og bein regla um frelsi til þess að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti sem ekki megi binda neinum skilyrðum eða leyfum að hálfu aðildarríkjanna. Ákvæði 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka og tilskipun nr. 88/361/EB feli allar í sér hina almennu meginreglu um frjálsa fjármagnsflutninga en það væru takmörk þar sem aðildarríkjum væri heimilt að grípa inn í og setja reglur í þessu sambandi. Aðalreglan væri sú að ríkin verði að hafa sömu reglur. Eitt ríki megi ekki ganga lengra í að takmarka þessar reglur en önnur, út á það gangi meginreglan. Það væri hins vegar langt í frá að þessar EES-reglur kvæðu sem slíkar á um óhefta fjármagnsflutninga án nokkurra afskipta aðildarríkjanna. 40. gr. EES-samningsins fæli ekki í sér neina heimild til einstaklinga eða lögaðila með staðfesti í einu aðildarríkjanna að stunda hvaða viðskipti eða þjónustu sem er á evrópsku yfirráðasvæði. Og á sviði fjármálaþjónustu sérstaklega þá girti þetta ákvæði alls ekki fyrir það að þessi heimild væri bundin skilyrðum, t.d. um starfsleyfi eða skráningu enda virtist ríkjunum nokkurn vegin í sjálfsvald sett hvoru kerfinu þau fylgdu. 40. gr. EES-samningsins feli í sér, að slík lögmæt skráning eða leyfi í einu ríki, nægði að meginreglu fyrir hin ríkin líka. Ekki væri þörf að fá einnig leyfi í hinu ríkinu. Þetta væri hinn svokallaði Evrópupassi sem svo væri kallaður. Starfsleyfi heimaríkisins væri nægur en stundum þurfti þó að tilkynna starfsemina til hins ríkisins. Gildandi meginregla um þetta komi fram í tilskipun nr. 2007/64/EB um greiðslustofnanir. Hún hafi verið fullgild með ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 114/2008. Þetta regluverk hafi þannig verið gildandi þegar atvik málsins gerðust. Á Íslandi voru og eru í gildi ákvæði laga 8. gr. um gjaldeyrismál sem uppfylltu þetta meginmarkmið tilskipunarinnar og þurfti því ekki að breyta því neitt. Tilvísun 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 til alþjóðasamninga þýddi aðeins það, að íslenskum stjórnvöldum væri óheimilt að banna aðila sem fengið hefði slíka skráningu í einhverju landi sem ætti aðild að samningnum, að stunda sömu starfssemi hér á landi. A hafi ekki haft neina heimild í Svíþjóð til þess að reka svona starfsemi og því hafi það enga þýðingu í málinu að fá álit EFTA-dómstólsins. Ákærðu sjálfir höfðu heldur enga slíka heimild. Strax af þessari ástæðu gætu EES-reglurnar enga raunhæfa þýðingu haft í málinu.

Fram kom í máli ákæruvaldsins að orðalag og framsetning beiðni um ráðgefandi álit mætti ekki vera með þeim hætti að úrslausnir um þær færu í bága við skilyrði um lögsögu og hlutverkaskiptingu dómstólsins. Spurningin þyrfti að endurspegla túlkunina á landsréttinum sem verið væri að velta fyrir sér, því það mætti EFTA-dómstóllinn ekki gera. EFTA-dómstóllinn mætti heldur ekki dæma um sönnunaratriði í málinu. Það þyrfti að lýsa staðreyndum eða atvikum máls sem væru forsenda spurningarinnar. Og þá þyrfti að túlka landsréttinn rétt og lýsa staðreyndum eða atvikum rétt og með hlutlægum hætti. Lýsingarnar gætu ekki verið rangar eða umdeilanlegar eða sveigðar að málsstað álitsbeiðanda. Slíkar spurningar væru ótækar til álitsgjafar EFTA-dómsstólsins því þær fælu í raun í sér beiðni um túlkun landsréttar eða afstöðu til sönnunaratriða í málinu.

Spurning A er að mati ákæruvaldsins bæði óskýr og loðin. Það sé ekki hægt að greina af henni, annars vegar lýsingu af réttarreglu landsréttar, þ.e. 8. gr. laga um gjaldeyrismál og hins vegar lýsingar af atvikum í málinu. Þessu sé blandað saman. Að auki þá felur lýsingin á atvikum í sér fyrirframgefnar forsendur sem slegið væri sem föstum og þessar forsendur væru hluti af vörnum ákærðu í málinu. Að mati ákæruvaldsins væru þær í fyrsta lagi rangar og í öðru lagi heyrðu skýrlega undir heimfærslu undir landsregluna og þar með til sönnunarfærslu í þessu sakamáli. EFTA-dómstóllinn hafi enga lögsögu til þess að fjalla um slíkt, það ætti undir íslenska dómstóla. Hér gilti einu hvort spurt væri beint um þetta eða óbeint með því að gera ráð fyrir þessu sem einhverskonar staðreyndum í spurningunni. Átti ákæruvaldið einkum við eftirfarandi forsendur:

Spurning A slær því föstu að sakarefni málsins varði milligöngu lögaðila. Svo sé ekki. Í málinu eru ákærðu, ákærðir persónulega fyrir þátt sinn í broti gegn ákvæðum  8. gr. laga um gjaldeyrismál en ekki lögaðilinn A. Það væri síðan sönnunar og heimfærsluatriði í málinu hvort háttsemin verði talin slík milliganga. Spurningin slái því einnig föstu að viðskiptin hafi farið fram milli aðila í öðrum ríkjum. Saksókn í þessu máli byggi einmitt á því að þeir hafi brotið gegn 8. gr. laga um gjaldeyrisviðskipti með því að hafa gerst sekir um milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Þetta væri hugtaksatriði í verknaðarlýsingu brotsins. Þetta heimfærsluatriði væri sérstaklega rökstutt í ákærunni. Það væri því ljóst að ákærðu dragi þetta sérstaklega í efa og þetta sé því sönnunaratriði um heimfærslu sem varði hina innlendu réttarreglu sem á reyni í málinu. EFTA-dómstóllinn hafi ekki lögsögu til þess að leysa úr slíku heldur íslenskir dómstólar og EFTA-dómstóllinn hafi heldur ekki heimild til þess að svara þessari spurningu þar sem þessu er varpað fram eins og hverri annarri staðreynd. Í raun og veru sé verið að varpa fram spurningu sem ómögulegt er annað en að svara með „nei“ og þannig sé verið að biðja um einhvers konar sýknu og það stríði gróflega gegn fyrrnefndum skilyrðum um álitsbeiðnir til EFTA-dómstólsins og lögsögu hans.

IV

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, getur dómari, í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um skýringu EES-réttar. Hér er um heimild dómara að ræða en ekki skyldu. Dómara ber þó að gæta að því að túlkun EES-reglna sé samræmd milli ríkja svo markmið um einsleitni sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 náist og álit EFTA-dómstólsins geti haft þýðingu í málinu.

Í spurningu A, er spurt hvor það sé samrýmanlegt ákvæðum 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE að fyrirfram sé aflað leyfis aðildarríkis fyrir milligöngu með gjaldeyri og ef svo sé, hvenær sé þá skylt að veita slík leyfi.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál er það Seðlabanki Íslands sem hefur heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Öðrum aðilum er óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum. Í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að Seðlabankinn setji nánari reglur um skilyrði til gjaldeyrisviðskipta sem gilda fyrir þá aðila sem nefndir eru í 2. málsl. 1. mgr. Ákærðu í máli þessu er gert það að sök að hafa brotið gegn fyrrgreindum ákvæðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

Það álitaefni ákærðu sem fram kemur í fyrri hluta spurningar A, um það hvort aðildarríki geti fyrirfram krafist þess að aflað sé leyfis fyrir milligöngu um gjaldeyri, er að mati dómsins spurning um það hvort ákvæði 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, um skilyrði fyrir leyfi frá seðlabanka til gjaldeyrisviðskipta fari í bága við 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE um frjálsan flutning fjármagns, þó ekki sé vísað til nefndrar 8. gr. laga nr. 87/1992 í spurningu A. Í máli ákærðu kom fram að orðalag í greinargerð með 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldeyrismál vísi beint til EES-samningsins og að löggjafinn hafi ekki síst átt við ákvæði 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE í því sambandi.

Nefnd 8. gr. laga nr. 87/1992 er ekki efnislega skýrð í spurningu A eða hver sé túlkun landsréttar á henni. Þá er í nefndri 8. gr. laga nr. 87/1992 eða greinargerð með henni ekki vísað beint til 40. gr. EES-samningsins. 40. gr. EES-samningsins á því ekki beint við í þessu máli þó svo greinin eigi almennt við um frjálsa fjármagnsflutninga. Spurning ákærðu er því ekki um vafa um efnislega túlkun á ákvæðum 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE, heldur því hvort nefnd ákvæði eigi við í þessu sakamáli og hvort þau samrýmist ákvæðum 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Þetta sjónarmið kemur skýrlega fram í spurningu E, þar sem óskað er svara hjá EFTA-dómstólnum um önnur ákvæði EES samningsins ef nefnd ákvæði 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE eigi ekki við í málinu. Í ljósi þessa verður ekki séð óhjákvæmilegt sé að beita þurfi nefndri EES-reglu í málinu eða að svör EFTA-dómstólsins við þessari spurningu sem ákærðu vilja fá svarað geti haft þýðingu við úrlausn þess refsimáls sem hér liggur fyrir.

Í seinni spurningu A, er spurt hvort í nefndum ákvæðum 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE felist kröfur um hvenær sé skylt að veita slík leyfi. Að mati dómsins er spurningin almenns eðlis um það hvert skuli vera efnisinntak laga og reglna hér á landi um slík leyfi. Spurning ákærðu snýr því ekki að vafa á túlkun EES-samningsins, heldur því hvort íslensk lög og reglur um þetta efni samrýmist EES-rétti. Ekki verður séð hvernig þessi spurning tengist því máli sem hér um ræðir enda hefur ekki komið fram að ákærðum hafi verið hafnað að fá slíkt leyfi eða að ákærðu hafi yfirleitt reynt að verða sér út um leyfi skv. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Spurning þessi hefur því ekki þýðingu fyrir úrslit þessa máls.

Í spurningum B-D er spurt, hvort það hafi þýðingu í því refsimáli sem hér um ræðir, hvort milligangan hafi farið fram innan ríkisins eða að innlendir aðilar hafi veitt þá þjónustu sem um ræðir. Í máli Hæstaréttar nr. 497/1999 kom fram; „Það leiðir af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, að hlutverk EFTA-dómstólsins er að skýra EES-samninginn. Íslenskir dómstólar fara hins vegar með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu EES-samningsins að íslenskum lögum. Að þessu virtu verður ekki litið svo á að það hafi þýðingu fyrir úrslit málsins að spurningar í liðum 2 og 3 verði bornar upp við EFTA-dómstólinn”. Nefnd spurning í lið 3 í nefndum dómi Hæstaréttar var um túlkun á 40. gr. EES-samningsins og því hvort það hefði þýðingu að aðilar væru innlendir eða erlendir. Í því máli sem hér liggur fyrir, verður á sama hátt ekki talið að það hafi þýðingu fyrir úrslit málsins, að spurningar í liðum B-D verði bornar upp við að EFTA-dómstólinn um það hvort milligangan hafi farið fram innan ríkisins eða að innlendir aðilar hafi veitt þá þjónustu sem hér um ræðir, enda heyrir það undir sönnunarmat dómara og ákvörðunar hans um heimfærslu á háttsemi ákærðu til þeirra ákvæða sem í ákæru greinir.

Í spurningu E, er óskað eftir því að EFTA-dómstóllinn svari því hvort ákvæði 36. gr., 31. gr. eða 4. gr. í EES-samningnum eigi við eða ekki í máli því sem hér er til meðferðar ef 40. gr. EES-samningsins, XII. viðauka hans og tilskipun nr. 88/361/EBE eigi ekki við. Hér er að mati dómsins ekki verið að leita eftir því að fá skýringu á ákvæðum EES-samningsins, heldur því hvort nefnd ákvæði EES-samningsins eigi við í því tiltekna refsimáli sem hér er til meðferðar. Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat dómsins að íslenskir dómstólar fari með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu EES-samningsins að íslenskum lögum.

Samkvæmt því sem að framan greinir, verður ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem ákærðu vilja fá svarað, geti haft þýðingu við úrlausn máls þessa og verður heldur ekki séð að dómari þessa máls geti breytt orðalagi og/eða framsetningu spurninganna. Brestur því skilyrði samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 til að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu við spurningunum ákærðu.

Samkvæmt öllu framansögðu er beiðni ákærðu um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins við spurningum þeirra hafnað.

Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu ákærðu X, Y. Z og Þ, um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, er hafnað.