Hæstiréttur íslands
Mál nr. 221/2017
Lykilorð
- Þjónustukaup
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og landsréttardómararnir Jón Finnbjörnsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.077.483 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 20. júlí 2012 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 2. mars 2016 að fjárhæð 59.742 krónur og 14. sama mánaðar að fjárhæð 69.699 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi veitti stefndi áfrýjanda ýmsa þjónustu um langt árabil og sá meðal annars um hýsingu á tölvupósti fyrir hann frá árinu 2006, en um þá þjónustu hafði ekki verið gerður formlegur samningur. Á árinu 2009 hóf áfrýjandi að hýsa tölvupóst sinn sjálfur. Stefndi krafði þó áfrýjanda áfram mánaðarlega um endurgjald fyrir þessa þjónustu þar til áfrýjandi gerði í fyrsta sinn athugasemd vegna innheimtunnar í febrúar 2016.
Í skýrslugjöf við aðalmeðferð málsins í héraði lýsti fyrrverandi viðskiptastjóri hjá stefnda samskiptum sínum á árinu 2011 við viðskiptafræðing, sem starfaði þá hjá áfrýjanda við bókhald og fjármál. Kvað hann það hafa verið skilning sinn í lok þeirra samskipta að áfrýjandi hafi sagt fyrrgreindri þjónustu upp og hafi þá aðeins staðið eftir að afhenda áfrýjanda afrit af gögnum hans í vörslum stefnda, sem hafi svo verið gert í desember 2011. Upplýsingar um þetta hafi átt að berast viðskiptaráðgjafa, sem kæmi þeim síðan til bakvinnslu stefnda til þess að hætt yrði að innheimta greiðslu fyrir þjónustuna. Fyrir dómi kvað áðurnefndur starfsmaður áfrýjanda sér hafa verið ljóst að stefndi hafi á þessum tíma krafist greiðslu fyrir þjónustuna, sem áfrýjandi hafi þó ekki nýtt sér, en starfsmaðurinn sagðist hafa látið af störfum hjá áfrýjanda í apríl 2012. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi sagt upp hýsingarþjónustu á tölvupósti hjá stefnda á árinu 2011 en fyrir mistök hafi stefndi áfram innheimt endurgjald fyrir hana og áfrýjandi greitt.
Eins og réttilega kemur fram í forsendum hins áfrýjaða dóms er það meginregla í íslenskum rétti að sá sem greitt hefur umfram skyldu á kröfu um að fá það endurgreitt sem hann ofgreiddi en frá þeirri meginreglu eru þó undantekningar.
Áfrýjandi sýndi af sér verulegt aðgerðaleysi með því að fylgja ekki eftir gagnvart stefnda að hann hætti að krefjast greiðslu fyrir hýsinguna, en að því verður þó að gæta að starfsmaður áfrýjanda sem hafði einkum átti í samskiptum við stefnda hætti sem áður segir störfum skömmu eftir að þjónustunni var sagt upp. Stefndi aftur á móti gerði sem fyrr segir þau mistök að fylgja ekki réttilega eftir uppsögn áfrýjanda á þjónustunni og krefja hann þess í stað áfram um greiðslu, en stefnda mátti vera ljóst að eftir þetta hafi áfrýjandi ekki nýtt sér þjónustuna. Báðir málsaðilar sýndu þannig af sér verulegt hirðuleysi í lögskiptum sín á milli sem leiddi til þess að stefndi fékk með óréttmætum hætti mánaðarlegar greiðslur frá áfrýjanda. Ekki verður séð að stefndi hafi mátt hafa réttmæta ástæðu til að ætla að hann gæti haldið umræddum greiðslum og endurgreiðsla þeirra getur ekki talist sérlega bagaleg fyrir hann. Að þessu öllu virtu er eðlilegra að stefndi axli frekar en áfrýjandi afleiðingar af hinu gagnkvæma hirðuleysi. Verður stefnda því gert að endurgreiða áfrýjanda hið ofgreidda í samræmi við kröfu hans, sem ekki er tölulegur ágreiningur um, en þó þannig að áðurgreindar innborganir stefnda í mars 2016 verða látnar koma til lækkunar á höfuðstól kröfu áfrýjanda. Er þá litið til þess að innborganirnar voru inntar af hendi fyrir 28. maí 2016, þegar liðinn var mánuður frá því að áfrýjandi krafði stefnda sannarlega um endurgreiðslu, en frá þeim degi verða áfrýjanda dæmdir dráttarvextir eins og í dómsorði greinir.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Síminn hf., greiði áfrýjanda, Inter Medica ehf., 948.042 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2016 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2017
I
Mál þetta, sem var dómtekið 19. desember sl., er höfðað 20. júní 2016 af Inter Medica ehf., Skemmuvegi 6 í Kópavogi, gegn Símanum hf., Ármúla 25 í Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.077.483 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 24.316 krónum frá 20.7.2012 til 20.8.2012, af 48.632 krónum frá 20.8.2012 til 20.9.2012, af kr. 72.948 krónum frá 20.9.2012 til 20.10.2012, af kr. 97.264 krónum frá 20.10.2012 til 20.11.2012, af 121.589 krónum frá 20.11.2012 til 20.12.2012, af 145.896 krónum frá 20.12.2012 til 20.1.2013, af 170.212 krónum frá 20.1.2013 til 20.2.2013, af 194.528 krónum frá 20.2.2013 til 20.3.2013, af 218.844 krónum frá 20.3.2013 til 20.4.2013, af 243.260 krónum frá 20.4.2013 til 20.5.2013, af 267.476 krónum frá 20.5.2013 til 20.6.2013, af 291.792 krónum frá 20.6.2013 til 20.07.2013, af 316.108 krónum frá 20.7.2013 til 20.8.2013, af 340.424 krónum frá 20.8.2013 til 20.9.2013, af 364.740 krónum frá 20.9.2013 til 20.10.2013, af 389.056 krónum frá 20.10.2013 til 20.11.2013, af 413.372 krónum frá 20.11.2013 til 20.12.2013, af 437.688 krónum frá 20.12.2013 til 20.1.2014, af 462.004 krónum frá 20.1.2014 til 20.2.2014, af 486.320 krónum frá 20.2.2014 til 20.3.2014, af 510.636 krónum frá 20.3.2014 til 20.4.2014, af 534.952 krónum frá 20.4.2014 til 20.5.2014, af 559.268 krónum frá 20.5.2014 til 20.6.2014, af 583.584 krónum frá 20.6.2014 til 20.7.2014, af 607.900 krónum frá 20.7.2014 til 20.8.2014, af 632.216 krónum frá 20.8.2014 til 20.9.2014, af 656.532 krónum frá 20.9.2014 til 20.10.2014, af 680.848 krónum frá 20.10.2014 til 20.11.2014, af 705.164 krónum frá 20.11.2014 til 20.12.2014, af 729.480 krónum frá 20.12.2014 til 20.1.2015, af 753.796 krónum frá 20.1.2015 til 20.2.2015, af 777.813 krónum frá 20.2.2015 til 20.3.2015, af 801.830 krónum frá 20.3.2015 til 20.4.2015, af 825.847 krónum frá 20.4.2015 til 20.5.2015, af 849.864 krónum frá 20.5.2015 til 20.6.2015, af 873.881 krónu frá 20.6.2015 til 20.7.2015, af 897.898 krónum frá 20.7.2015 til 20.8.2015, af 921.915 krónum frá 20.8.2015 til 20.9.2015, af 945.932 krónum frá 20.9.2015 til 20.10.2015, af 969.949 krónum frá 20.10.2015 til 20.11.2015, af 993.966 krónum frá 20.11.2015 til 20.12.2015, af 1.017.983 krónum frá 20.12.2015 til 20.1.2016, af 1.042.000 krónum frá 20.1.2016 til 20.2.2016, af 1.066.017 krónum frá 20.2.2016 til 20.3.2016 og af 1.077.483 krónum frá 20.3.2016 til greiðsludags. Allt að frádregnum innborgunum 2. mars 2016, 59.742 krónur, og 14. mars 2016, 69.699 krónur, sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Í öndverðu krafðist stefndi að málinu yrði vísað frá dómi, en hann féll frá þeirri kröfu í þinghaldi eftir að kröfugerð stefnanda hafði verið breytt.
II
Stefndi er fyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu. Stefnandi er þjónustufyrirtæki sem selur tæknivörur fyrir stofnanir og fyrirtæki sem veita heilbrigðisþjónustu. Í málflutningsskjölum kemur fram að stefndi hafi frá árinu 2006 veitt stefnanda ýmiss konar fjarskiptaþjónustu, þ. á m. þjónustu tengda hýsingu á tölvupósti fyrirtækisins. Ágreiningslaust er að í júní 2009 hafi stefnandi flutt allan tölvupóst fyrirtækisins úr pósthýsingu hjá stefnda yfir á eigin netþjón. Í stefnu er því haldið fram að samtímis hafi stefnandi sagt upp samningi um þessa þjónustu. Stefndi mótmælir því að honum hafi borist slík uppsögn og kveður engin gögn styðja það að hún hafi farið fram, hvorki þá né síðar. Stefnandi mun hafa greitt fyrir pósthýsingu samkvæmt reikningum stefnda allt til mars 2016. Með málshöfðun sinni fer stefnandi fram á endurgreiðslu gjalda fyrir þessa þjónustu frá júní 2012 til mars 2016.
Nokkur gögn liggja fyrir í málinu um samskipti aðila um framangreinda þjónustu. Í tölvuskeyti Lilju Pálsdóttur, sem þá var starfsmaður stefnanda, dags. 2. ágúst 2011, minnir hún þáverandi viðskiptastjóra hjá stefnda, Óttar Örn Guðlaugsson, á að hann hafi ætlað að senda stefnanda breyttan þjónustusamning. Í kjölfarið nefnir hún að stefnandi sé „t.d. enn að borga 21.300 kr. á mánuði fyrir tölvupóst-þjónustu þrátt fyrir að við hýsum póstinn sjálf hérna (við töluðum um að þú myndir segja upp þessari þjónustu á fundinum 18/4)“.
Með tölvuskeyti Óttars Arnar til framkvæmdastjóra stefnanda, Kristjáns Zophoníassonar, og Lilju, dags. 14. september 2011, gerði stefndi stefnanda tilboð um nýjan þjónustusamning þar sem einstakir þjónustuliðir voru tilgreindir. Þar var ekki gert ráð fyrir að stefndi myndi veita stefnanda neina þjónustu er tengdist hýsingu á tölvupósti. Í tölvupóstinum er þó vikið að því að athuga þurfi „með póst sem virðist hýstur“ hjá stefnda auk þess sem „gamall fyrirtækjapóstur“ sé „inni samtals 6 netföng“. Síðan segir orðrétt: „Til þess að tryggja að þau gögn sem nú eru í hýsingu hjá Símanum glatist ekki þá væri best að tölvumaður ykkar staðfesti við ykkur að hann hafi tekið afrit af honum. Því við uppsögn þá er þessum tölvupósti eytt og er ekki afturkræfur. Samtals sparnaður við þetta er kr. 21.300,- á mánuði.“
Í málinu liggur fyrir reikningur frá stefnda vegna útseldrar vinnu sérfræðings sem fram fór 2. desember 2011. Á reikningnum er verkinu lýst með eftirfarandi hætti: „Exportaði öllum pósti undir léninu medica.is samkv. beiðni frá Kristjáni.“
Stefnandi mun hafa haldið áfram að greiða fyrir hýsingu á tölvupósti samkvæmt reikningum frá stefnda allt fram á árið 2016. Annars vegar er þar um að ræða mánaðargjald sem ber yfirskriftina „VIST / Þjónusta vegna 20100151“ og hins vegar er liður sem bar yfirskriftina „Annað / Stækkun á pósthólfi 1500MB / Stækkun á pósthólfi 3500MB / Viðbótarnetfang Fyrirtækjapóstur“.
Af hálfu stefnanda var óskað eftir skýringum á ofangreindum liðum í reikningum stefnda í febrúar 2016. Í svari stefnda, dags. 25. febrúar 2016, kemur fram ekkert sé „á bakvið þetta ... [e]nginn póstur, dns þjónusta eða neitt“. Þá segir þar að stefnandi sé „ekki með nein netföng virk“ hjá stefnda og að lénið medica.is sé „í hýsingu hjá hysingar.is samkvæmt ISNIC.is“. Síðan segir orðrétt: „Samkvæmt þessu eruð þið að borga fyrir eitthvað síðan 2009 sem þið eruð ekki að nota.“ Var stefnanda að lokum bent á að hafa samband við viðskiptastjóra ef óskað væri eftir „uppsögn á þessari þjónustu“.
Í kjölfar þessa mun innheimtu fyrir umrædda þjónustu hafa verið hætt auk þess sem stefnandi leitaði leiðréttingar á reikningum aftur í tímann. Með tölvuskeyti starfsmanns stefnda 29. febrúar 2016 var tilkynnt að fallist hefði verið á leiðréttingu sex mánuði aftur í tímann að fjárhæð 59.472 krónur. Þar kom einnig fram að ástæða leiðréttingar væru „mistök í skráningum á uppsögn á stækkun á pósthólfi“. Með tölvuskeyti 6. apríl 2016 var stefnanda tilkynnt að stefndi hefði fallist á að endurgreiða yfir 12 mánuði aftur í tímann og væri „þegar búið að afgreiða“ þá leiðréttingu af hálfu stefnda.
Með bréfi 28. apríl 2016 fór lögmaður stefnanda fram á að stefndi endurgreiddi stefnanda það sem félagið hafði ofgreitt frá 2009, samtals 1.905.513 krónur. Af bréfinu mátti ráða að stefnandi teldi tilboð stefnda um leiðrétting á ofgreiðslu í eitt ár ekki vera fullnægjandi og ekki í samræmi við þá liði sem innheimt hefði verið fyrir. Með bréfi, dags. 26. maí 2016, hafnaði stefndi kröfunni þar sem ekki lægi fyrir að stefnandi hefði ofgreitt fyrir þjónustuna, enda hefði félagið aldrei sagt henni upp.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að hann hafi greitt of háa fjárhæð miðað við veitta þjónustu allt frá árinu 2009 og eigi endurkröfurétt á stefnda vegna þessa. Stefnandi telur að hann hafi greitt of mikið, eða með öðrum orðum að stefndi hafi ofrukkað stefnanda fyrir veitta þjónustu. Kveður hann kröfuna byggja á meginreglu íslensks réttar um að sá sem inni af hendi greiðslu án eða umfram skyldu geti endurkrafið móttakanda greiðslunnar.
Stefnandi bendir á að það liggi fyrir að krafan sé vegna greiðslu fyrir þjónustu sem hafi sannarlega ekki verið innt af hendi. Stefndi hafi viðurkennt þann skilning í tölvupósti til stefnanda, að ekkert hafi verið á bak við umræddan kostnaðarlið, og stefnandi því verið að greiða fyrir eitthvað sem hann hafi ekki verið að nýta frá árinu 2009.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi móttekið uppsögn á umræddum þjónustuþáttum þegar á árinu 2009, þegar stefnandi hafi flutt hýsingu yfir á eigin netþjón. Stefnda hafi því ekki getað dulist að stefnandi væri að hætta með þjónustu vegna hýsingar og ætlaði sér ekki lengur að greiða fyrir hana. Í því sambandi bendir stefnandi sérstaklega á að 2. desember 2011 hafi sérfræðingur unnið á vegum stefnda við það að „exporta öllum pósti undir léninu medica.is“.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vitað eða mátt vita að stefnandi hafi greitt fyrir þjónustu sem stefndi hafi ekki veitt honum frá árinu 2009. Stefndi hafi því verið í vondri trú þegar hann hafi tekið á móti greiðslum og því verði að fallast á endurgreiðslukröfu hans í málinu.
Stefnandi byggir einnig á því að það standi stefnda nær að bera ábyrgð á því að stefnandi greiddi umfram skyldu þar sem stefndi beri ábyrgð á þeim „mistökum“ sem leiddu til greiðslunnar. Í því sambandi bendir stefnandi á að stefndi hafi verið í yfirburðastöðu til að hafa yfirsýn yfir þá þjónustu sem hann veitti og innheimti fyrir. Þannig hafi stefndi verið í betri aðstöðu til að leggja mat á tilvist kröfu sinnar og efni hennar en stefnandi. Þá verði einnig að líta til reynslu og þekkingar stefnda sem og þess að hann hafi sérfræðinga á þessu sviði í sinni þjónustu. Stefndi sé með sérhæfða starfsmenn sem hafi veitt stefnanda tilboð í þá þjónustu sem hann hafi þurft. Bendir stefnandi á að starfsmaður stefnda hafi gert stefnanda nýtt tilboð 14. september 2011, eftir að hafa farið yfir málefni stefnanda, án þess að geta nokkuð um að stefnandi væri að greiða fyrir þjónustu sem hann hafi hætt að nýta á árinu 2009. Starfsmenn stefnda hefðu því átt að koma auga á að stefnandi væri að greiða fyrir þjónustu sem hann nýtti ekki, og að um misstök hafi verið að ræða. Að sama skapi sé erfitt fyrir stefnanda að vita nákvæmlega hvað sé á bak við hvern og einn þjónustulið. Stefnandi hafi greitt reikninga stefnda í góðri trú og staðið í þeirri meiningu að hann væri aðeins að greiða fyrir veitta þjónustu og að starfsmenn stefnda störfuðu að heilindum gagnvart sér. Þá hafi starfsmaður stefnda viðurkennt í tölvupósti til stefnanda að um mistök hafi verið að ræða í skráningum á uppsögn á stækkun á pósthólfi.
Að lokum reisir stefnandi dómkröfur sínar á því að augljós sanngirnisrök mæli með því að stefndi endurgreiði stefnanda umkrafða fjárhæð. Óumdeilt sé í málinu að ekkert hafi verið á bak við umræddan þjónustulið og hafi stefndi því verið að innheimta fyrir þjónustu sem hann hafi aldrei veitt. Byggir stefnandi á því að rétt skuli vera rétt, og óeðlilegt sé að stefndi eigi að hagnast á þessum „mistökum“, eins og hann orði það sjálfur í tölvupóstsamskiptum. Þá bendir stefnandi á að hann hafi haft uppi kröfu á hendur stefnda um leið og honum hafi orðið ljóst að hann hefði greitt umfram skyldu. Samskipti milli aðila sem liggi fyrir í málinu sýni að enginn ástæðulaus dráttur hafi orðið af hálfu stefnanda frá því að hann fékk vitneskju þar að lútandi og þar til hann hafði uppi endurkröfu í málinu.
Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að aðstæður séu með þeim hætti að fallast beri á kröfu hans um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefndi hafi beinlínis viðurkennt að hafa innheimt greiðslur frá stefnanda fyrir þjónustu sem sannarlega ekkert hafi verið að baki. Stefndi hafi sent út greiðsluseðla og krafið um greiðslurnar, en útilokað hafi verið fyrir stefnanda að átta sig á því, enda sé sundurliðunin flókin og illskiljanleg fyrir utanaðkomandi aðila. Sérfræðingur á vegum stefnda hafi aðstoðað stefnanda við að koma gögnum yfir á sinn eigin netþjón og hafi stefnda því ekki getað dulist að stefnandi ætlaði ekki að nýta þjónustu stefnda áfram. Þá hafi sérfræðingur á vegum stefnda verið fenginn til þess að taka út viðskipti stefnanda við stefnda og hafi gert nýtt tilboð í viðskiptin á árinu 2011. Þar sé ekkert minnst á að stefnandi sé enn að greiða fyrir hýsingu og þjónustu sem hann sé ekki að nýta. Stefndi hafi því vitað að stefnandi hafi verið að greiða fyrir þjónustu sem hann hafi ekki verið að nýta frá árinu 2009. Stefndi hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda hvað varðar vitneskju um ofgreiðslurnar og í mun betri aðstöðu en stefnandi til þess að leggja mat á tilvist og efni kröfu sinnar. Þá mæli augljós sanngirnisrök með því að stefndi endurgreiði stefnanda umkrafða fjárhæð. Óumdeilt sé í málinu að ekkert hafi verið að baki umræddum þjónustulið og stefndi því verið að innheimta fyrir þjónustu sem hann hafi aldrei veitt. Í því sambandi megi benda á að stefndi hafi ekki orðið fyrir neinum beinum kostnaði við það að „veita þjónustuna“ sem varði ofgreiðsluna.
Til stuðnings kröfugerð sinni bendir stefnandi á að sú meginregla gildi í íslenskum rétti að sá sem inni af hendi greiðslu án skyldu eða umfram hana geti endurkrafið móttakanda hennar. Rök hafi verið færð fyrir því að stefnandi eigi rétt til endurgreiðslunnar með hliðsjón af þeim atriðum sem talin hafi verið að hafi þýðingu við matið.
Í stefnu er krafa stefnanda nákvæmlega sundurliðuð. Bendir stefnandi á að um hver mánaðamót hafi stefnandi ofgreitt ákveðna fjárhæð. Í stefnunni er gerð grein fyrir samtölu ofgreiðslu í hverjum mánuði allt frá árinu 2009, sem og reikningsnúmeri og útgáfudegi reiknings í lok hvers mánaðar. Stefnandi kveður ofgreiðsluna bera dráttarvexti frá greiðsludegi og því sé nauðsynlegt að sundurliða fjárhæð hennar í hverjum mánuði. Bendir stefnandi á að þeir þjónustuliðir sem ofgreiðslan varði séu undir heitunum „VIST 1“, „Stækkun á pósthólfi 1500MB“, „Stækkun á pósthólfi 3500MB“ og „Viðbótarnetfang Fyrirtækjapóstur“. Sundurliðun í stefnu tekur mið af upphaflegri kröfugerð, en hún var lækkuð undir rekstri málsins að teknu tilliti til sjónarmiða um fyrningu.
Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi telur sig eiga rétt á dráttarvöxtum frá gjalddaga hvers reiknings. Gjalddagi hvers reiknings hafi verið 20 dögum eftir útgáfudag, en reikningarnir hafi verið gefnir út síðasta dag hvers mánaðar. Því fari höfuðstóll fjárhæðinnar (ofgreiðslunnar) sem dráttarvaxta sé krafist af stighækkandi eftir því sem fleiri reikningar hafi verið greiddir (mánaðarlega).
Um lagarök vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sérstaklega 1. og 2. mgr. 6. gr. Enn fremur vísar stefnandi til 12. gr. sömu laga varðandi höfuðstólsfærslu vaxta. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Að lokum kveður stefnandi að málskostnaðarkrafa hans eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi aldrei sagt upp þjónustu fyrir hýsingu tölvupósts og því sé enginn grundvöllur fyrir endurgreiðslukröfu stefnanda. Skylda til endurgreiðslu ofgreidds fjár geti eðli máls samkvæmt einungis stofnast þegar skuldari hafi greitt umfram skyldu sína. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda því stefnandi sé sannarlega skuldbundinn til þess að greiða fyrir umrædda þjónustu. Uppsögn sé ákvöð sem bindi móttakanda þegar hún er komin til hans. Þar sem stefnda hafi aldrei borist uppsögn á þjónustu vegna hýsingar á tölvupósti sé stefnandi enn þá skuldbundinn til þess að greiða stefnda fyrir þá þjónustu.
Stefndi bendir á að stefnanda hafi ekki getað dulist að hann væri að greiða fyrir þjónustu stefnda er laut að hýsingu tölvupósts þar sem honum hafa borist áttatíu og sex sundurliðaðir reikningar frá stefnda. Allir útsendir reikningar stefnda séu sundurliðaðir á skýran og aðgengilegan hátt. Hver reikningur sé settur upp með þeim hætti að móttakandi hans geti auðveldlega gert sér grein fyrir þeirri þjónustu sem innheimtan lýtur að. Í reikningunum komi skýrt fram fram að innheimt sé vegna þjónustuliðanna „VIST 1“, „Stækkun á pósthólfi 1500MB“, „Stækkun á pósthólfi 3500MB“ auk 6 viðbótarnetfanga á fyrirtækjapósti. Einnig sé tekið fram á öllum reikningum frá stefnda að viðskiptamenn geti fylgst með sundurliðun, áskriftum o.fl. á þjónustuvef stefnda. Stefndi kveður fullyrðingu stefnanda því ranga að stefndi hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda til að fylgjast með þeirri þjónustu sem greitt hafi verið fyrir. Þvert á móti hafi enginn verið í betri stöðu til að hafa yfirsýn yfir skuldbindingar stefnanda en stefnandi sjálfur. Stefnandi hafi verið í viðskiptum við stefnda frá árinu 2006 og honum hafi því átt að vera vel kunnugt um uppsetningu reikninga frá stefnda og þá þjónustu sem hann sé skráður fyrir hjá stefnda.
Stefndi vísar til þess að þó að stefnandi haldi því fram að hann hafi sagt upp þjónustu fyrir pósthýsingu árið 2009 hafi hann á tæpum sjö árum greitt mánaðarlega reikninga frá stefnda athugasemdalaust. Það sé ekki á ábyrgð stefnda að stefnandi hafi ekki kynnt sér efni þeirra reikninga sem honum bárust. Hafi stefnandi haft eitthvað við reikningana að athuga hefði hann hvenær sem er getað gert stefnda grein fyrir því. Ekkert í samskiptum stefnda og stefnanda á þessu tímabili hafi þó gefið til kynna að stefnandi vildi segja þjónustunni upp, hvorki uppsögn né athugasemd við reikninga. Stefndi hafi því í góðri trú tekið við greiðslu fyrir veitta þjónustu frá því að pósthýsingin var fyrst sett upp í kerfum stefnda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að það sé ekki á ábyrgð stefnda að stefnandi hafi ekki nýtt sér pósthýsinguna sem hann hafi verið skráður fyrir. Lítil eða engin notkun á pósthýsingu jafngildi ekki uppsögn á þjónustunni frekar en afritun gagna sem þar hafa verið geymd. Stefnandi hafi val um það hvernig hann kjósi að hýsa fyrirtækjapóst sinn, hvort sem það er á kerfum stefnda eða annars staðar. Segi hann hins vegar ekki upp þjónustu stefnda sé stefndi enn þá skuldbundinn til þess að veita þjónustuna. Þá skuldbindingu hafi stefndi efnt. Það standi stefnanda nær að bera ábyrgð á því að hann hafi greitt fyrir hýsingu tölvupósts og gagna sem hafi verið í takmarkaðri notkun. Hýsingu tölvupósts og gagna á kerfum stefnda fylgi ákveðin yfirbygging eða „strúktúr“ sem sé settur upp til þess að halda utan um póstsendingar, aðgengi og geymslu gagna. Slíkan „strúktúr“ megi svo stækka með því að bæta við gagnamagni líkt og stefnandi hafi kosið að gera á meðan tölvupósturinn hafi verið hýstur hjá stefnda. Þegar stefnandi hafi fært tölvupóst sinn yfir á eigin póstþjón hafi „strúktúrinn“ og eldri gögn orðið eftir á kerfum stefnda. Hann hafi því ekki verið tekinn niður þar sem hýsingunni hafi ekki verið sagt upp.
Af framangreindu telur stefndi ljóst að stefnandi hafi aldrei sagt upp þjónustunni og því geti ekki verið um neina endurkröfu að ræða. Megininntak reglunnar um endurheimt ofgreidds fjár sé að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu þegar hann hafi greitt umfram skyldu. Ekki geti verið um endurkröfu að ræða þegar greiðsluskylda sé til staðar. Reglan sé einnig háð margvíslegum skilyrðum og undantekningum. Í íslenskum og norrænum rétti hafi verið gengið út frá því að greiðsla þurfi að vera bundin fyrirvara svo að endurheimta hennar komi til greina, einkum þegar greiðslurnar hafi tíðkast um langt skeið án efasemda. Í ljósi þess að stefndi hafi átt lögvarða kröfu á hendur stefnanda, sem greiddi athugasemdalaust frá upphafi viðskiptasambands aðila, komi endurheimta á grundvelli reglunnar ekki til greina.
Enn fremur byggir stefndi sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé fallin niður sökum tómlætis, ef hún hefur einhvern tíma stofnast á annað borð. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar, sem meðal annars búi að baki ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, geti samningsaðili glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annað meint réttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum er ekki hreyft af slíku tilefni án ástæðulauss dráttar. Stefnandi kveðst hafa sagt upp þjónustu stefnda árið 2009 en virðist ekki hafa hreyft frekari athugasemdum fyrr en í aðdraganda þessarar málshöfðunar.
Stefndi byggir einnig á því að stefnanda skorti lagaheimild til þess að krefjast dráttarvaxta með þeim hætti sem gert sé í stefnu. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2008 hafi stefnandi fyrst getað krafist dráttarvaxta mánuði eftir að hann sannarlega hafi krafist greiðslu. Það hafi ekki verið gert fyrr en með bréfi, dags. 28. apríl 2016, og því komi fyrst til greina að krefjast dráttarvaxta frá og með 28. maí 2016. Stefndi mótmælir því kröfu stefnda um greiðslu vaxta fyrir það tímamark.
Stefndi telur því að sýkna beri hann, enda hafi hann í góðri trú tekið við greiðslum vegna lögvarinnar kröfu sinnar sem sé hluti af viðvarandi viðskiptasambandi aðila. Stefndi kveður varakröfu sína um verulega lækkun stefnufjárhæðar styðjast við sömu málsástæður og sýknukrafan byggist á.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, og laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi einnig til meginreglna laga um meðferð einkamála um sönnun og sönnunarbyrði.
IV
Árið 2006 samdi stefnandi við stefnda um fjarskiptaþjónustu af ýmsum toga. Ágreiningslaust er að hluti þeirrar þjónustu fólst í hýsingu á tölvupósti stefnanda. Hvorki hefur verið lagður fram skriflegur samningur aðila um þessa þjónustu né skilmálar sem um hana kunna að hafa gilt. Ekkert liggur því fyrir um hvort stefnandi hafi skuldbundið sig til þess að tilkynna stefnda með tilteknum, formlegum hætti um það ef hann óskaði ekki lengur eftir þjónustunni, eða að stefndi áskildi sér ákveðinn frest til að bregðast við slíkri tilkynningu.
Fyrir liggur að stefnandi hóf árið 2009 að hýsa sjálfur tölvupóst fyrirtækisins á eigin netþjóni. Stefnandi heldur því fram að hann hafi í kjölfarið sagt upp allri þjónustu stefnda í tengslum við hýsingu tölvupósts. Engin gögn hafa verið lögð fram um að stefnandi hafi tilkynnt stefnda um lok þessarar þjónustu árið 2009. Hefur stefnandi ekki fært sönnur á staðhæfingar sínar um að slík tilkynning hafi borist stefnda á því ári.
Eins og rakið hefur verið var þáverandi starfsmaður stefnanda, Lilja Pálsdóttir, í sumarlok 2011 í samskiptum við þáverandi viðskiptastjóra hjá stefnda, Óttar Örn Guðlaugsson, um nýjan þjónustusamning. Í þessum samskiptum víkur starfsmaður stefnanda að því að stefnandi sé enn þá að greiða stefnda fyrir hýsingu á tölvupósti þó að stefnandi væri farinn að hýsa hann sjálfur. Í tölvuskeyti starfsmannsins 2. ágúst 2011 vísar hann til þess að á fundi 18. apríl hafi komið til tals að starfsmaður stefnda myndi „segja upp þessari þjónustu“.
Ekki liggja fyrir önnur gögn um viðbrögð stefnda við þessu erindi en tölvuskeyti viðskiptastjórans 2. september sama ár. Efni þess er lýst í kafla II. Af þessum samskiptum starfsmanna aðila virðist mega ráða að yfirlýsing stefnanda, um að hann vildi að stefndi hætti að veita honum þjónustu er tengdist hýsingu á tölvupósti, hafi á þessum tíma verið komin til vitundar stefnda. Í tölvuskeyti sölustjóra stefnda var þó settur sá fyrirvari að vissara væri fyrir stefnanda, áður en uppsögnin kæmi til framkvæmda, að ganga úr skugga um að afrit hefði verið tekið af tölvupóstum, sem væri enn þá í hýsingu hjá stefnda, þar sem þessum gögnum yrði eytt í framhaldinu.
Við aðalmeðferð málsins gáfu Lilja og Óttarr Örn skýrslu fyrir dómi. Staðfestu þau bæði efni þeirra samskipta sem að framan greinir. Kvaðst starfsmaður stefnanda ítrekað hafa reynt að segja þessari þjónustu upp en án árangurs. Reikningar hafi hins vegar verið greiddir þar sem ella hefði verið lokað fyrir aðra þjónustu stefnda við stefnanda.
Í skýrslu fyrrum viðskiptastjóra stefnda, Óttars Arnar, kom fram að allur gangur hefði verið á því þegar hann starfaði hjá stefnda hvernig staðið hefði verið að uppsögn á þjónustu stefnda við viðskiptavini sína. Oftast hefði það þó verið gert með tölvuskeyti til viðskiptastjóra eða annars tengiliðar sem síðan hefði framsent málið til viðskiptaráðgjafa og þaðan til „bakvinnslu“ hjá stefnda þar sem viðkomandi gjaldaliðir hefðu verið teknir út. Aðspurður kvaðst hann hafa litið svo á að með framangreindum samskiptum árið 2011 hefði stefnandi sagt upp allri þjónustu er tengdist hýsingu tölvupósts, enda hefði tilboð um nýjan þjónustusamning, sem fylgdi tölvuskeytinu 14. september 2011, ekki gert ráð fyrir slíkri þjónustu. Fullyrti hann raunar að uppsögn hefði borist stefnda með tölvupósti á árinu 2011. Jafnframt kom fram í máli hans að þegar stefnandi þurfti að greiða fyrir vinnu tæknimanns við að taka gögn í eigu stefnanda út af „serverum“ stefnda, sbr. reikning 2. desember 2011, hefði verið lögð „mikil áhersla á“ að verið væri „að eyða þjónustunni“. Kom honum á óvart að stefndi hafi haldið áfram að innheimta fyrir þjónustuna.
Þegar litið er til framangreindra gagna um samskipti aðila í sumarlok 2011, þar sem meðal annars er gengið út frá því að segja skyldi upp umræddri þjónustu, og að teknu tilliti til þess sem fram kom við skýrslugjöf vitna við aðalmeðferð málsins þykir sannað að stefnandi hafi á árinu 2011 tilkynnt stefnda um uppsögn á allri þjónustu stefnda er tengdist hýsingu á tölvupósti stefnanda. Þá verður að ganga út frá því að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að stefndi hætti að veita stefnanda slíka þjónustu, í samræmi við viljayfirlýsingu hans, eftir að tæknimaður á vegum stefnda hafði fært öll gögn stefnanda úr tölvukerfi stefnda á haustmánuðum eða í byrjun vetrar 2011. Svör starfsmanna stefnda við fyrirspurn stefnanda í febrúar 2016, sem vikið er að í kafla II, benda til þess að engin gögn í eigu stefnanda hafi orðið eftir í kerfum stefnda eftir þá aðgerð. Hefur stefndi ekki sýnt fram á hið gagnstæða. Í ljósi atvika verður að ganga út frá því að það hafi alfarið verið á ábyrgð stefnda að grípa í kjölfarið til ráðstafana til að þjónustan stæði stefnanda ekki lengur til boða og hætta innheimtu mánaðarlegra gjalda fyrir hana.
Eins og áður er rakið hélt stefndi eftir sem áður áfram að innheimta fyrir umrædda þjónustu allt til ársins 2016. Stefnandi greiddi reikninga stefnda þar sem þessir þjónustuliðir voru tilgreindir. Með því greiddi stefnandi stefnda um árabil umfram skyldu fyrir hýsingu á gögnum sem ekki voru lengur til staðar í kerfum stefnda eftir að stefnandi hafði sagt upp þjónustunni.
Það er meginregla í íslenskum kröfurétti að sá sem greitt hefur umfram skyldu á almennt kröfu um að fá það endurgreitt sem hann ofgreiddi. Á þeirri meginreglu eru þó ákveðnar undantekningar. Getur tómlæti greiðanda við að hafa uppi kröfu, eftir að honum mátti vera ljóst að greitt hafi verið umfram skyldu, meðal annars leitt til þess að krafa um endurgreiðslu verði ekki tekin til greina. Stefndi bar því meðal annars við í greinargerð að tómlæti stefnanda við að hafa uppi kröfu um endurgreiðslu ætti að leiða til sýknu stefnda. Koma röksemdir sem snúa að þessari málsástæðu, þar á meðal um þýðingu fyrirvaralausrar greiðslu stefnanda, til álita við úrlausn málsins. Stoðar stefnanda ekki að bera fyrir sig að þær röksemdir séu of seint fram komnar.
Í fyrrgreindu tölvuskeyti þáverandi starfsmanns stefnanda, Lilju Pálsdóttur, 2. ágúst 2011 er sérstaklega bent á að stefnandi greiddi enn þá 21.300 krónur á mánuði fyrir hýsingu á tölvupósti þó að fyrirtækið hýsti póstinn sinn sjálft. Aðspurð fyrir dómi kvað hún reikninga stefnda hafa verið skýra um að þessir þjónustuliðir væru hluti af því sem stefnandi greiddi stefnda mánaðarlega. Samskipti aðila á síðari hluta ársins 2011 miðuðu sérstaklega að því að fella niður greiðslu fyrir umrædda þjónustu. Í þessu ljósi telur dómurinn að stefnanda hafi mátt vera ljóst strax í upphafi árs 2012 að greiðsla fyrir þessa þjónustu væri umfram skyldu. Þrátt fyrir það innti stefnandi áfram mánaðarlega af hendi endurgjald fyrir hana án þess að upplýst sé að athugasemdir hafi verið gerðar við innheimtuna, eða að stefnandi gerði fyrirvara um greiðsluskyldu sína, fyrr en í febrúar 2016, eða í rúm fjögur ár.
Eins og mál þetta liggur fyrir verður að ganga út frá því að það hafi verið mistök af hálfu stefnda að gera ekki undir lok árs 2011 nauðsynlegar ráðstafanir til þess að innheimtu endurgjalds fyrir hýsingu á tölvupósti stefnda yrði hætt. Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur verið um vitneskju stefnanda um greiðslur sínar og veitta þjónustu verður hins vegar að líta svo á að hann hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að fylgja því eftir að innheimtunni yrði hætt og hafa uppi kröfu um endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Að mati dómsins leiðir þetta tómlæti til þess að stefnandi getur ekki nú mörgum árum síðar haft uppi slíka kröfu gagnvart stefnanda. Þau sjónarmið sem stefnandi teflir fram til stuðnings endurgreiðslukröfu sinni, m.a. um vonda trú stefnda og að það hafi staðið honum nær að bera ábyrgð á að stefnandi greiddi umfram skyldu, geta að mati dómsins ekki hnekkt framangreindri niðurstöðu. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eins og atvikum er háttað og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir dómi.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Síminn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Inter Medica ehf.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.