Hæstiréttur íslands

Mál nr. 776/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. desember 2009.

Nr. 776/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. og d. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en ákvæði úrskurðarins um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar voru felld úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 26. janúar 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en að því frágengnu verði varnaraðili einungis látinn sæta farbanni. Fallist Hæstiréttur ekki á kröfuna um að hafna gæsluvarðhaldi gerir varnaraðili sjálfstætt kröfu um að ákvæði hins kærða úrskurðar um tilhögun gæsluvarðhalds verði felld úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila.

Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið færð fram viðhlítandi rök fyrir nauðsyn þess að varnaraðili sæti í gæsluvarðhaldinu takmörkunum samkvæmt c. og. d. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Verður sá hluti hins kærða úrskurðar sem að þessu lýtur því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila, X.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar varnaraðila eru felld úr gildi.   

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2009.

Rikissaksóknari hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans þó eigi lengur en til þriðjudagsins 26. janúar 2010, kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara segir, að með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 29. desember 2009, hafi verið höfðað sakamál á hendur X og fleiri mönnum. Sé ákærðu gefið að sök mansal gagnvart stúlkunni A, 19 ára litháískum ríkisborgara, sem beitt hafi verið ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og ótilhlýðilegri aðferð áður en og þegar hún var send til Íslands, sem og í meðförum ákærðu hér á landi, sem tóku við stúlkunni, fluttu hana og hýstu í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega. Sé brot ákærðu aðallega heimfært til 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. gr. laga nr. 40/2003, en til vara við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi ríkissaksóknari til meðferðar þrjú önnur mál (nr. [...], [...] og [...]) er varða ætluð brot ákærða. Sé þar um að ræða hilmingu, líkamsárásir og hótanir. Sé ákvörðunar um saksókn í þeim málum að vænta innan skamms.

Þá kemur fram í greinargerð ríkissaksóknara að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 14. október sl. Málið sé mjög umfangsmikið og hafi rannsókn þess teygt anga sína víða. Liggi fyrir rökstuddur grunur um að ákærði tengist glæpasamtökum í Litháen, en ákærði sé ríkisborgari þar í landi. Vísist nánar um það til hættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Telji greiningardeildin enn fremur að að vitnum í málinu, þ. á. m. brotaþola stafi veruleg hætta af kærða verði hann látinn laus. Þá sé vísað til þess að ákærði sé erlendur ríkisborgari og þykji hætta vera á því að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn.

Með vísan til framangreinds, gagna málsins, b- og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og dóms Hæstaréttar nr. 693/2009 í máli ákærða sé þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.

Af hálfu ákærða er kröfu um gæsluvarðhald mótmælt og þess aðallega krafist að kröfunni verði hafnað en til vara að ákærða verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðahalds og til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður mun skemmri tími en krafist sé.

Ákærði hefur samkvæmt framansögðu ásamt fleiri mönnum verið ákærður fyrir mansal gagnvart stúlkunni A, 19 ára litháískum ríkisborgara. Slíkt brot getur varðað allt að 8 ára fangelsi samkvæmt 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga. Samkvæmt gögnum málsins er ákærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot það sem honum er gefið að sök. Ákærði er erlendur ríkisborgari og verður því að telja hættu á því að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn áður en mál hans er til lykta leitt. Þá verður að líta til þess að í málinu hefur verið lagt fram hættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem m. a. kemur fram að vitnum þ. a. m. brotaþola stefi hætta af ákærða. Er á það  fallist að vitnunum stafi veruleg hætta af ákærða verði hann látinn laus. Með vísan til framangreinds og b- og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu ríkissaksóknara, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 26. janúar 2010, kl. 16.00.

Tilhögun gæsluvarðhaldsvistar ákærða er með takmörkunum skv. c- og d-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.