Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-28
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Veiðiréttur
- Veiðifélag
- Atkvæðisréttur
- Lax- og silungsveiði
- Viðurkenningarmál
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 8. mars 2023 leitar Heiðardalur ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2023 í máli nr. E-2577/2022: Heiðardalur ehf. gegn Búð ehf. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar.
3. Mál þetta lýtur kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á því að ekkert atkvæði fylgi jörðinni Hvarfsdal í Dalabyggð, í Veiðifélagi Búðardalsár.
4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Óumdeilt væri að jörðinni Hvarfsdal fylgdi veiðiréttur í Búðardalsá sem næmi tæplega 20% af veiðirétti í ánni samkvæmt arðskrá Veiðifélags Búðardalsár staðfestri af Fiskistofu. Við mat á því hvort jörðin ætti atkvæðisrétt í veiðifélaginu yrði að líta til þess hvort hún fullnægði skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976. Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fæli ekki í sér áskilnað um skráningu jarðar í jarða- og lögbýlaskrá heldur því að jörðin hafi í reynd fullnægt skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku jarðalaga nr. 65/1976, sbr. ábúðarlög nr. 64/1976. Ekki yrði ráðið af lögskýringargögnum að ætlun löggjafans hafi verið að svipta eigendur jarða atkvæðisrétti í veiðifélögum með afturvirkum hætti eða veikja stöðu eyðijarða frá því sem áður var með setningu laga nr. 61/2006.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni og að niðurstaða þess geti augljóslega haft fordæmisgildi og almenna þýðingu um beitingu réttarreglna á þessu sviði. Hann vísar einnig til þess að í héraðsdómi sé ekki tekið tillit til fyrirliggjandi gagna og einungis vísað til strangra sönnunarkrafna. Héraðsdómur sé auk þess bersýnilega rangur og haldinn réttarfarslegum annmörkum. Þá telur leyfisbeiðandi að úrlausnarefnið hafi verulega samfélagslega þýðingu. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að með niðurstöðu sinni hafi héraðsdómur endurvakið atkvæðisrétt jarða sem árum saman hafi ekki verið talinn fylgja þeim.
6. Í 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 134/2022, segir að heimilt sé að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar. Slíkt leyfi skal ekki veitt nema niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá skal slíkt leyfi ekki veitt ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi eða enn er deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.
7. Ágreiningur aðila lýtur að atkvæðisrétti nánar tiltekinnar jarðar í veiðifélagi en leyfisbeiðandi hefur auk þess meðal annars teflt því fram að réttarfarslegur ágalli kunni að vera á dómi héraðsdóms. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða verulega samfélagslega þýðingu í skilningi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 þannig að rétt sé að fallast á áfrýjun málsins beint til Hæstaréttar. Beiðninni er því hafnað.