Hæstiréttur íslands

Mál nr. 525/2004


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Skjalafals
  • Fasteignasala


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. október 2005.

Nr. 525/2004.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Helga Magnúsi Hermannssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Fjárdráttur. Skjalafals. Fasteignasala.

H var ákærður fyrir fjárdrátt með því að hafa í starfi sínu sem fasteignasali í sex skipti dregið sér fjármuni, sem hann tók við hjá viðskiptavinum sínum vegna sölu á fasteignum, sem hann annaðist. Þá var hann enn fremur ákærður fyrir skjalafals. Fallið var frá ákæru fyrir einn ákærulið undir rekstri málsins í héraði. Þá var hann sýknaður af tveimur liðum í ákæru en sakfelldur fyrir brot samkvæmt öðrum ákæruliðum. Áfrýjun málsins varðaði einungis einn lið ákærunnar, sem H var sýknaður af í héraði, enda hafði H ekki áfrýjað dómnum fyrir sitt leyti. Þar var honum gefið að sök að hafa dregið sér andvirði húsbréfa, sem hann hafði tekið að sér að innleysa í tengslum við sölu á tiltekinni fasteign. Talið var að með umræddum ráðstöfunum hefði H slegið eign sinni á húsbréfin og ráðstafað þeim í eigin þágu en með því hefði hann gerst sekur um fjárdrátt. Var refsing ákærða fyrir þau fjögur brot, sem hann var sakfelldur fyrir, talin hæfileg 12 mánaða fangelsi en ekki þótti efni til að skilorðsbinda refsinguna. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. desember 2004 og krefst sakfellingar ákærða samkvæmt 5. lið í ákæru og staðfestingar á sakfellingu samkvæmt liðum 1 til 3 í ákæru jafnframt því að hann krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

I.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi er ákærði sakaður um fjárdrátt og skjalafals í starfi sínu sem löggiltur fasteignasali með því að hafa á tímabilinu frá mars 2001 til desember 2002 í 6 skipti dregið sér samtals 19.008.919 krónur af fjármunum, sem hann tók við hjá viðskiptavinum vegna sölu á fasteignum, sem ákærði annaðist og falsað jafnframt skjöl í því skyni að leyna fjárdrættinum. Undir meðferð málsins féll ákæruvaldið frá 6. lið ákærunnar og héraðsdómari sýknaði ákærða af sakargiftum samkvæmt 4. lið ákæru, og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu. Áfrýjun málsins varðar því ákæruliði 1 til 3 og ákærulið 5, sem kveða á um fjárdrátt að fjárhæð 11.950.292 krónur, auk skjalafals að því er varðar ákærulið 3.

Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti. Telur hann áfrýjun málsins eins og hún birtist í áfrýjunarstefnu skorta lagaheimild, þar sem vísað sé til 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála án frekari tilgreiningar. Óheimilt sé að áfrýja til endurskoðunar ákærulið 5, þar sem niðurstaða um sýknu ákærða af þeim lið sé byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Þá sé einnig óheimilt að áfrýja einstökum ákæruefnum og vísar ákærði um það til 147. gr., sbr. 153. gr. laga nr. 19/1991. Til vara krefst ákærði þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, það er ákæruliðum 1, 2, 3 og 5. Með áfrýjunarstefnunni hafi ákæruvaldið opnað allt málið til endurskoðunar, og því séu ákæruliðir 1 til 3, sem ákærði var sakfelldur fyrir í héraði, einnig til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Í áfrýjunarstefnu kemur skýrt fram í hvaða tilgangi málinu er áfrýjað. Áfrýjunarstefnan fullnægir skilyrðum 147. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Eins og að framan er lýst áfrýjaði ríkissaksóknari málinu samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994, til sakfellingar samkvæmt 5. ákærulið og staðfestingar á sakfellingu samkvæmt ákæruliðum 1 til 3, svo og til refsiþyngingar. Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti, eins og honum var heimilt samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1994. Kemur sýknukrafa hans ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laganna, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Þar sem ekki reynir á það ákvæði hér snýst málið einungis um 5. ákærulið svo og ákvörðun viðurlaga.

II.

Með vísan til framangreinds verður staðfest ákvæði héraðsdóms um sakfellingu ákærða að því er varðar ákæruliði 1 til 3.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi fjallar ákæruliður 5 um vanskil ákærða á að standa skil á andvirði húsbréfa, að fjárhæð 2.953.487 krónur, sem ákærði hafði tekið að sér að innleysa fyrir G vegna sölu á íbúð hans. G, sem var níræður að aldri, er kaupsamningur var gerður 3. september 2002, skrifaði sama dag undir umboð, sem ákærði útbjó, þess efnis, að hann veitti ákærða “fullt, ótakmarkað og óafturkræft” umboð til að móttaka og framselja húsbréfin og náði umboðið til þess að móttaka andvirði seldra bréfa. Ákærði framseldi stóran hluta húsbréfanna, að andvirði um 2.000.000 krónur, til nafngreindrar konu 11. september 2002 án þess að það væri í tengslum við sölu á íbúð G. Ákærði seldi það sem eftir var af bréfunum sama dag og var andvirði þeirra, 865.765 krónur, greitt inn á bankareikning ákærða. Samkvæmt bankayfirlitunum er ljóst, að ákærði notaði bankareikninginn til að greiða ýmsa neyslu hans sjálfs.

Samkvæmt framangreindu umboði átti ákærði að sjá um að eignaskiptasamningur yrði gerður og átti að greiða útlagðan kostnað vegna þess af andvirði seldra bréfa ásamt kostnaði ákærða vegna þess. Uppgjör átti síðan að fara fram við afsal eftir að eignaskiptasamningi hefði verið þinglýst. Fram er komið, að eignaskiptasamningurinn var ekki gerður fyrr en í lok ágúst 2004 og heldur ákærði því fram, að ekki hafi verið gengið eftir uppgjöri við hann. Tvö vitni báru fyrir dómi, að ítrekað hefði verið leitað eftir uppgjöri við ákærða. Ákærði bar fyrir dómi, að hann hefði húsbréfin í sínum vörslum, þrátt fyrir að hann hefði ráðstafað þeim tveimur árum áður. Fyrir málflutning í Hæstarétti var af hálfu ákærða lögð fram yfirlýsing frá dóttur G 10. október 2005, þar sem fram kom, að G hefði andast 16. maí 2005 og væri ákærði að fullu búinn að gera upp við hana, en hún væri einkaerfingi hans, og yrðu engir eftirmálar vegna þess dráttar, sem á því varð.

Eins og að framan greinir tók ákærði að sér að varðveita húsbréfin fyrir G heitinn og sjá um gerð eignaskiptasamnings, greiða kostnað við hann og skila síðan eftirstöðvunum. Ákærði framseldi hluta húsbréfanna og seldi afganginn 11. september 2002, átta dögum eftir undirritun umboðsins. Eignaskiptasamningur var ekki gerður fyrr en í lok ágúst 2004. Telja verður að með framangreindum ráðstöfunum hafi ákærði slegið eign sinni á húsbréfin og ráðstafað þeim í eigin þágu og hafi með því gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir fjögur brot, sem framin voru í mars og apríl 2001 og  maí og september 2002. Með brotunum gerðist hann sekur um fjárdrátt, að fjárhæð 11.950.292 krónur, auk skjalafalsbrota. Ákærði hefur nú endurgreitt þá fjármuni nema 2.685.291 krónu. Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög. Við ákvörðun refsingar ákærða verður það virt honum til refsiþyngingar, að brot hans voru stórfelld og framin í skjóli stöðu hans sem löggiltur fasteignasali, en viðskiptamenn hans áttu að geta treyst honum. Þegar allt framangreint er virt er refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði, og eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara yfir sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dómsorð:

Ákærði, Helgi Magnús Hermannsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað, 785.402 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur héraðsdómslögmanns, 311.250 krónur, og skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2004.

             Málið er höfðað með ákæru útgefinni  á hendur: 

,, Helga Magnúsi Hermannssyni, Laugavegi [...],

             Reykjavík, [...],

fyrir fjárdrátt og skjalafals í starfi sem löggildur fasteignasali á fasteignasölum sínun fasteignasölunni Óðal ehf., [...], og frá 19. mars 2001 fasteignasölunni Óðal & framtíðin, ehf. [...], Síðumúla 8, Reykjavík, með því að hafa, á tímabilinu frá mars 2001 til desember 2002 dregið sér í 6 skipti samtals 19.008.919 kr. af fjármunum, sem hann tók við hjá viðskiptavinum fasteignasölunnar vegna sölu á fasteignum, sem ákærði annaðist, og falsað jafnframt skjöl í því skyni að leyna fjárdrætti sínum svo sem rakið er:

1.

Í mars 2001 dregið sér 2.685.291 kr., sem ákærði tók við hjá [A] og [B], kaupendum íbúðar í [X], Mosfellsbæ, þann 13. sama mánaðar í samræmi við kaupsamning um íbúðina, dags. 6. febrúar sama ár, og ganga áttu til greiðslu á veðskuld vegna svonefnds viðbótarláns hjá Íbúðalánasjóði, sem hvíldi á íbúðinni.

M. 010-2003-22824.

2.

Í apríl 2001 dregið sér 2.112.002 kr. sem ákærði tók við 29. mars 2001 hjá [C], seljanda íbúðar að [Y] í Hveragerði, og ganga áttu til greiðslu á veðskuld, sem hvíldi á íbúðinni, eigi síðar en 24. apríl sama ár.

M. 033-2002-2719.

3.

Í maí 2002 dregið sér 4.199.512 kr., sem ákærði tók við hjá [D], seljanda íbúðar að [Z], Seltjarnarnesi, sem ákærði hafði milligöngu um að selja 30. apríl sama ár en fjármunirnir áttu að ganga til uppgreiðslu á veðskuld [D] við Samvinnulífeyrissjóðinn, Kringlunni 7, Reykjavík, sem hvíldi á íbúðinni.

Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa, með notkun falsaðra skjala sem ákærði áritaði sem löggildur fasteignasali, fengið nefnt veð Samvinnulífeyrissjóðsins flutt heimildarlaust á húsið nr. [...] við Laugaveg í Reykjavík, eign sambýliskonu ákærða, [E], í því skyni að leyna fjárdrætti sínum með því að framvísa til lífeyrissjóðsins um mánaðamótin apríl/maí tveimur skjölum fölsuðum með áritun á nafni nefndrar [D], - tilhæfulausu tilboði hennar um kaup á húsinu af [E], dagsettu 20. apríl 2002, og skjali um nýja veðsetningu og veðbandslausn nr. 9758 vegna veðflutningsins, dagsettu 10. maí sama ár, fölsuðu með áritun á nafni [D] sem lántakanda, sem jafnframt var framvísað til þinglýsingar hjá sýslu­mann­inum í Reykjavík sama dag.

Þá er ákærða gefið að sök að hafa í júlí í sama skyni framvísað hjá Íslandspósti hf. rangri tilkynningu, undirritaðri af ákærða, um tímabundinn flutning á póstfangi nefndrar [D] frá Laugavegi [...], Reykjavík, í pósthólf nr. [...] en í tilkynningunni er [D] ranglega tilgreind sem meðlimur fjölskyldu ásamt ákærða og nefndri [E] og í framhaldi af því sent Samvinnulífeyrissjóðnum falsaða beiðni í nafni [D], dagsetta 15. sama mánaðar, um að tilkynningar um afborganir af skuldabréfinu skyldu sendar í nefnt pósthólf en á beiðnina eru falsaðir upphafsstafir í nafni [D] “[...]”

M. 010-2003-588.

4.

Í júlí 2002 dregið sér af andvirði 3.104.523 kr., sem ákærði tók við 19. og 20. sama mánaðar í umboði [F], seljanda íbúðar að Laugarnesvegi [...], Reykjavík, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 5. maí 2002 og jafnframt kaupanda íbúðar að [Þ], Reykjavík, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 3. júní 2002 og ganga áttu að mestu til greiðslu viðbótarláns, sem hvíldi á [Þ].

 M. 010-2003-19697.

5.

Í september 2002 dregið sér andvirði húsbréfa 2.953.487 kr., sem ákærði hafði tekið að sér að innleysa fyrir [G], seljanda jarðhæðar við Æ, Reykjavík, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 3. sama mánaðar.

M. 010-2004-3829.

6.

Í september 2002 dregið sér 3.954.104 kr., sem hann tók við 3. sama mánaðar hjá [H], kaupanda íbúðar á [Ö], Seltjarnarnesi, og ganga áttu til greiðslu veðskuldar, sem hvíldi á íbúðinni samkvæmt kaupsamningi um fasteignina dagsettum 26. júní sama ár.

M.10-2003-1840.

Framangreind brot ákærða teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og notkun ákærða á fölsuðum skjölum samkvæmt 3. lið telst varða við 1. mgr. 155. gr. sömu laga.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu krefjast eftirgreindir þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:

[A], og [B], bóta að fjárhæð 2.685.293 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 13. mars 2001 til greiðsludags auk málskostnaðar að viðbættum virðisauka­skatti samtals að minnsta kosti 62.250 kr.

M. 010-2003-22824.

[C], 200.000 kr. í vexti og verðbætur af 2.112.987 kr. í 1 ár, 300.000 kr. í miskabætur og endurgreiðslu sölulauna 122.000 kr.

M. 033-2002-2719.

[I], fyrir hönd [G], 2.953.487 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 6. september 2002, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

M.10-2003-1840.”

 

             Undir aðalmeðferð málsins féll ákæruvaldið frá 6. lið ákærunnar.

             Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum liðum ákæru og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.

             Ákærði neitar sök. Hann kvað lýsinguna í inngangskafla ákærunnar rétta varðandi starf sitt sem löggiltur fasteignasali á fasteignasölunum Óðali ehf. og Óðali & framtíðinni ehf. á þeim tíma, sem í ákæru greinir.  Þá kvað ákærði rétt að hann hafi tekið við fjármunum, sem þar greinir, en ákærði neitar sök, bæði að því er varðar meintan fjárdrátt og skjalafals.

             Nú verða raktir málavextir við einstaka ákæruliði, framburður ákærða fyrir dómi og vitnisburður og niðurstaða viðkomandi ákæruliðar strax á eftir.

             Ákæruliður 1.

             Í kæru B og A, dags. 30 september 2003, á hendur ákærða fyrir auðgunarbrot er lýst kaupum þeirra á íbúðinni að X í Mosfellsbæ milli ákærða og Óðals fasteignasölu.  Kaupsamningur vegna kaupanna er dags. 6. febrúar 2001.  Í kærunni er vísað til kaupsamnings varðandi greiðslufyrirkomulag kaupverðs og þar segir að kaupandi eigi að greiða svonefnt viðbótarlán, sem vísað er til í ákærunni.  Kaupendur hafi millifært tilgreinda fjárhæð, sem er fjárhæðin sem lýst er í ákærunni, á reikning ákærða í þeirri trú að hann myndi annast afléttingu veðsins eins og til hafi staðið.  Í september 2003 hafi keupendum, kærendum í máli þessu, borist greiðsluáskorun frá Íbúðalánasjóði vegna lánsins.  Segir í kærunni að ákærði hafi ekki greitt lánið upp, heldur greitt af því framan af. 

             Ákærði neitar sök.  Hann kvað rétt að þeir fjármunir, sem lýst er í þessum ákærulið hafi verið lagðir inn á reikning fasteignasölunnar, sem hann hafði umráð yfir.  Ekki hafi enn verið gengið frá afsali vegna kaupanna, sem hér um ræðir, og hafi viðbótarlánið því ekki verið greitt upp.  Ákærði vísaði í þessu sambandi til ákvæðis í kaupsamningi, þar sem segir að kaupendur skuli greiða lánið, sem hér um ræðir, upp ,,fyrir afsal”.  Þá vísaði ákærði til þess að ekki hafi komið til afsalsgerðar af ástæðum, sér óviðkomandi.  Aðspurður hvort eitthvað hafi verið því til fyrirstöðu að greiða lánið strax upp óháð drættinum, sem var á gerð afsals og þá eftir atvikum eftir að lögð hafi verið fram kæra á hendur ákærða, ítrekaði ákærði þá afstöðu sína, að hann hafi litið svo á að hann ætti að greiða ,,við afsal” og það að ekki hafi verið greitt sé vegna deilna um eignaskiptayfirlýsingu og ekki hafi verið unnt að ganga frá afsali vegna afstöðu þeirra A og B.  Ákærði kvaðst hafa greitt af lánunum í upphafi til að það færi ekki í vanskil.  Síðan hafi staðið til af sinni hálfu að gera lánið upp við afsal, eins og ákærði bar.  Hann hafi talið að málið leystist á fáum vikum eða mánuðum.  Er ákærði var spurður að því hvort hann ætti að ákveða hvenær viðbótarlánið væri greitt kvaðst ákærði hafa ákveðið að hafa þennan háttinn á og greiða við afsal eftir samráð við seljanda eignarinnar.  Þetta hafi verið gert vegna þess að þetta var það eina sem hægt var að hafa sem þvingun til kaupenda að ganga frá því sem búið hafi verið að semja um, en kaupendur hafi neitað að undirrita eignaskiptasamninginn. 

             Vitnið B lýsti því er hún og A eiginmaður hennar greiddu 2.685.293 krónur inn á reikning Óðals fasteignasölu hinn 13. mars 2001, en ákærði hafi sagt að þetta yrði að gera til að unnt væri að greiða upp viðbótarlánið, sem lýst er í þessum ákærulið og ákærði hefði greint svo frá að greiða hefði átt upp lánið fyrir 1. mars 2001.  Fjárhæðin, sem lögð var inn á reikning fasteingasölunnar, hafi verið sú fjárhæð sem viðbótarlánið stóð í og ákærði hafi átt að greiða.  Daginn eftir, þ.e. 14. mars, hafi ákærði greint frá því að hann væri búinn að greiða lánið upp.  B lýsti því er hún fór á fund ákærða eftir að henni barst greiðsluáskorun frá Íbúðalánasjóði, sem dags. er 15. september 2003.  Ákærði hafi þá greint sér frá því að hann hafi greitt lánið upp og um einhvern misskilning hafi verið að ræða.  Hún kvað ekki hafa verið um annað rætt, en að ákærði ætti að annast uppgreiðslu lánsins, sem hér um ræðir.  Fram kom hjá B að eignaskiptasamningur hafi ekki verið undirritaður vegna húsnæðisins, sem hér um ræðir, og skýrði hún hvers vegna.  Fyrir liggur að ekki er unnt að þinglýsa afsali fyrr en eignaskiptasamningi hafi verið þinglýst.

             Vitnið J greindi frá ástæðum þess að gerð eignaskiptayfirlýsingar tafðist fyrir X.  J staðfesti að ákærði hefði greint sér frá því að það að greiða lánið, sem hér um ræðir, ekki upp hafi verið einhvers konar þvingunaraðgerð af hans hálfu í garð A og B til að fá þau til að skrifa undir eignaskiptasamninginn.  Þessar upplýsingar kvaðst J hafa fengið hjá ákærða eftir að hafa leitað til hans er hótunarmiðar tóku að berast frá Íbúðalánasjóði.  Ákærði hafi sagt að hann ætlaði að halda peningunum þar til A og B undirrituðu eignaskiptayfirlýsinguna.

             Vitnið K lýsti samstarfi þeirra ákærða við rekstur fasteignasölu þeirrar, sem hér um ræðir.  Vitnisburður hans varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn hér.

             Niðurstaða ákæruliðar 1.

             Fjárhæðin sem hér um ræðir var lögð inn á reikning fasteignasölunnar, sem ákærði hafði umráð yfir eins og rakið var.  Með framburði ákærða og vitnisburði B og með öðrum gögnum málsins er sannað að nota átti fjárhæðina til að greiða veðskuld eins og lýst er í þessum ákærulið.  Ákærði hefur borið að ekki sé enn kominn sá tími, sem honum beri að greiða upp lánið, þar sem ekki hafi enn verið gefið út afsal vegna kaupanna, sem hér um ræðir, en samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins skuli kaupendur greiða lánið upp eigi síðar en við afsal og í niðurlagi kaupsamningsins segir að kaupendur skuli greiða lánið upp fyrir afsal.

             Gerð eignaskiptayfirlýsingar er kaupendum óviðkomandi, enda segir í kaupsamningnum að seljendur skuli kosta gerð hennar og þinglýsa.  Fjárhæðin, sem hér um ræðir, var lögð inn á reikning fasteignarsölunnar hinn 13. mars 2001, eða fyrir rúmlega 3 og ½ ári.  Kaupendum íbúðarinnar, sem hér um ræðir, barst greiðsluáskorun í september 2003 vegna lánsins, sem átti að vera búið að greiða upp.  Ráða má af fjárhæðinni, sem lögð var inn á reikning fasteignasölunnar, að hún var því sem næst sú fjárhæð, sem viðbótarlánið stóð í á þeim  tíma og hlaut ákærða að vera ljóst að til þess var ætlast af honum að hann greiddi lánið upp þegar í stað.  Engar þær ástæður sem ákærði hefur borið fyrir sig  heimiluðu honum að halda greiðslunni eins og hann gerði.  Þá liggur fyrir að lánið fór í vanskil. 

             Að öllu þessu virtu er sannað með því sem nú hefur verið rakið, en gegn neitun ákærða, að hann dró sér þá fjármuni sem hér um ræðir. 

             Ákærði  hefur með háttsemi sinni bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart kröfuhöfunum, sem lýst er í ákærunni og er hann dæmdur til að greiða þeim 2.685.293 krónur auk dráttarvaxta frá  11. mars 2004 til greiðsludags.  Upphafstími vaxta er dagurinn er mánuður var liðinn frá því að ákærða var birt bótakrafan.  Þá greiði ákærði sömu aðilum 50.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.

             Ákæruliður 2.

             Misritun er í þessum ákærulið, þar sem segir að greiða eigi skuldina eigi síðar en 24. apríl, en þar á samkvæmt kaupsamningnum sem vísað er til, að standa 20. apríl.  Þetta kemur ekki að sök eins og hér stendur á.

             Hinn 30. júní 2002 lagði C fram kæru á hendur ákærða fyrir fjárdrátt vegna viðskipta, sem lýst er í þessum ákærulið.  Segir meðal annars í kærunni að ákærði hafi tekið við fjármunum, sem í ákæru greinir og þá hafi átt að nota til að greiða upp lánið, sem lýst er eigi síðar en 20. apríl 2001.  Ákærði hafi greitt lánið upp í tvennu lagi 8. apríl 2002 og 2. maí sama árs.  Ákærði kvað viðskiptum rétt lýst í þessum ákærulið, utan að hann neitar sök.  Ákærði kvaðst hafa greint C frá því, er hún hafði símsamband við ákærða vegna málsins, að hann myndi greiða lánið upp um leið og hann þinglýsti afsali og ætti leið austur fyrir fjall.  Ákærði kvaðst hafa greitt lánið upp í tvennu lagi,  8. apríl 2002 og 2. maí sama árs, eftir að hafa fengið bréf frá lögmanni C.  Ákærði kvað ekki hafa verið um neina eina sérstaka ástæðu fyrir því að hann greiddi þetta ekki fyrr.

             Vitnið C kvað ákærða hafa tekið að sér að selja húsbréf og átti andvirði húsbréfanna að nota til að greiða upp lán, sem hvíldi á Y.  Um þetta hafi verið samið í kaupsamningi.  Ákærði hafi ekki greitt lánið fyrr en löngu síðar.  Hún lýsti samskiptum við ákærða og að hún hafi meðal annars sýnt honum greiðsluseðla, sem bárust vegna lánsins, sem átti að vera búið að greiða upp og aflétta af eigninni.  Hún kvaðst hafa komist að því við gerð skattskýrslu um áramótin 2002 að enn var  greitt af láni þessu í bankanum þótt hún hafi ekki gert það.  C kvað ákærða ekki hafa orðað það við sig við afsalsgerðina að hann myndi greiða lánið, sem hér um ræðir, upp næst er hann ætti leið austur fyrir fjall, eins og ákærði bar.  C lýsti óþægindum, sem hún varð fyrir af þessum sökum, hún kvaðst hafa hringt mjög mörg símtöl, hafa haft samband við lögmann og tekið sér frí úr vinnunni til að sinna þessu máli.  Hún hafi ekki orðið fyrir beinum fjárútlátum.

             Vitnið L kvaðst hafa verið stödd á skrifstofu ákærða 15. ágúst 2001, á þeim tíma er afsalsfundur hafi staðið yfir vegna Y.  Kvaðst hún hafa rekist á skjöl vegna fasteignaviðskiptanna og þar rekist á misræmi milli afsals og kaupsamnings og fært það í tal við ákærða, sem hafi greint svo frá að hann hafi skýrt þetta fyrir aðilum málsins.

             Niðurstaða ákæruliðar 2.

             Með framburði ákærða og með öðrum gögnum málsins er sannað að ákærði tók við fjárhæðinni, sem hér um ræðir,  í því skyni að greiða upp veðskuldina, sem lýst er í ákærunni.  Samkvæmt kaupsamningi um þessi fasteignaviðskipti átti að greiða veðskuldina upp eigi síðar en 20. apríl 2001.  Ákærði greiddi lánið í tvennu lagi, 8. apríl 2002 og 2. maí sama árs, eða rúmi einu ári síðar og eftir að C hafði leitað sér lögmannsaðstoðar eins og rakið var.  Þessi dráttur á greiðslunni þykir einn og sér sanna, gegn neitun ákærða, að hann dró sér fjármunina, sem hér um ræðir.  Greiðsla í tvennu lagi rúmu ári síðar leysir ákærða ekki undan sök, enda ekkert það fram komið að mati dómsins, sem sanni að ákærði hafi með samkomulagi við C fengið frest á greiðslunni.

             C krefst bóta eins og rakið er í ákærunni.  Hún varð ekki fyrir neinum beinum fjárútlátum. Þá hefur hún ekki rennt haldbærum stoðum undir einstaka liði kröfugerðar sinnar að öðru leyti og ber samkvæmt því að vísa öllum kröfuliðunum frá dómi.

             Ákæruliður 3.

             Hinn 6. janúar 2003 lagði D fram kæru á hendur ákærða fyrir auðgunarbrot.  Þar er því lýst er ákærði hafi tekið að sér að selja Z og að þá fjármuni, sem í þessum ákærulið greinir, hafi ákærði átt að nota til að greiða veðskuld D við Samvinnulífeyrissjóðinn eins og lýst er í ákærunni.  D  lýsti því er hún hafði samband við annan fasteignasala til að láta hann fara yfir viðskiptin við ákærða, en þetta hafi hún gert eftir að hafa uppgötvað að ákærði hafði að henni forspurðri látið færa póstfang hennar á pósthólf í eigu ákærða.  Í kærunni er lýst gagnaöflun meðan á gerð kæruskýrslunnar stóð.  Segir í skýrslunni að samkvæmt upplýsingum frá Samvinnulífeyrissjóðnum hafi lánið, sem hér um ræðir, verið fært af Z yfir á Laugaveg [...], en þetta hafi verið gert á grundvelli kauptilboðs D í síðast greindu eignina.  D kvað þessi skjöl sér óviðkomandi og nafnritun sína þar falsaða á kauptiboðið.  Hið sama kvað D eiga við um skjal, sem barst frá sýslumanninum í Reykjavík um veðflutninginn. 

             Ákærði kvað viðskiptunum, sem hér um ræðir, rétt lýst í ákærunni, en ákærði neitar sök.  Hann kvað lánið ekki hafa verið greitt upp, heldur flutt yfir á aðra fasteign með samþykki D og allt sem gert hafi verið í þessu skyni og viðskiptin, sem lýst er í þessum ákærulið, hafi átt sér stað með samþykki og vitneskju D.  Ákærði kvaðst hafa spurt D að því hvort henni væri sama um að lánið yrði flutt, eins og hér er lýst, og að þetta hafi verið gert í því skyni að spara lántökukostnað.  Fram hafi komið hjá D að henni væri sama um þetta svo fremi að þetta snerti hana ekki fjárhagslega. Ákærði kvað þetta samkomulag ekki hafa verið skriflegt, en eftir á að hyggja hefði verið rétt að hafa þetta skriflegt að mati ákærða.  Fyrir liggur að Samvinnulífeyrissjóðurinn heimilaði ekki skuldskeytinguna, sem hér um ræðir, og kvaðst ákærði eftir að það var ljóst hafa gert ráðstafanir til að endurfjármagna lánið, sem hér um ræðir.  Þá neitaði ákærði að hafa framvísað rangri tilkynningu til Íslandspósts, eins og lýst er. Ákærði kvaðst hafa átt von á því að innheimtuseðlar á nafni D myndu berast í tvö eða þrjú skipti og hann hafi því kannað hvaða ráðstafanir ættu að gera vegna bréfa, sem stíluð væru á D, en væru merkt pósthólfi nr. [...].  Ákærði kvað starfsmenn póstsins þá hafa afhent sér skjal, sem ákærði fyllti út, en þar er um að ræða tilkynningu um tímabundna breytingu á póstfanginu vegna tímabilsins 9/7 2002 til 9/12 sama árs.  Ákærði kvað tilkynninguna sem send var Samvinnulífeyrissjóðnum og lýst er í ákærunni, hafa verið gerða með samþykki D.  Hann mundi ekki hvenær tilkynningin var gerð og hafi ákærði ritað undir hana þá liggi fyrir að það hafi verið gert með samþykki D og vísaði ákærði í skjöl málsins þar um.

             Vitnið D kvað ekki hafa verið samið um annað við fasteignakaupin, sem hér um ræðir, en að ákærði greiddi upp lánið við Samvinnulífeyrissjóðinn.  Það hafi ákærði ekki gert heldur fært lánið á fasteign eiginkonu sinnar og kvaðst D enn vera skuldari þess láns, þar sem Samvinnulífeyrissjóðurinn hafi ekki samþykkt skuldskeytinguna.

             Meðal gagna málsins eru tvö skjöl undirrituð af D.  Fyrra skjalið er yfirlit, sem dags. er 27. maí 2003 og er skjalið vottað af Friðjóni Erni Friðjónssyni hæstaréttarlögmanni.  Skjalið hljóðar svo:

,,Ég undirrituð, [D], [...] lýsi því yfir i tenglsum við yfirlýsingu um skuldskeytingu og staðfesting veðflutnings dags. 27. maí 2003 undirr. af [E], en veðflutningurinn stafar af eign minni á [Z], Seltjarnarnesi:

Ég hefi farið yfir minnispunkta mína varðandi þetta mál og sé nú, að ég mun hafa heimilað Helga M. Hermannssyni [...] að rita nafn mitt hér um.

Með tilvísun til þess, að Helgi mun hafa haft heimildir til nafnritunar minnar, verður kæra á hendur honum til lögreglu afturkölluð.“

 

             Hitt skjalið er stílað á lögreglustjótrann í Reykjavík og er dags. 7. júní 2003 það hljóðar svo:

             ,,Efni:  Afturköllun kæru.

             Ég undirrituð, [D], [...] afturkalla hér með kæru á hendur Helga M. Hermannssyni, [...] frá því í janúar 2003.“

 

                         D kvað tilkomu þessara skjala þá, að Friðjón Örn hafi kallað sig á sinn fund og greint frá því að E, sambýliskona ákærða, neiti að heimila þennan veðflutning nema hún félli frá kæru á hendur ákærða.  Lögmaður hennar hafi ráðlagt henni í þessu ljósi að falla frá kærunni, þar sem henni yrði borgið fjárhagslega vegna þessa máls.  D kvaðst í þessu ljósi hafa undirritað yfirlýsinguna og fallið frá kærunni ósátt.  Ítrekað aðspurð kvað D allar ráðstafanir ákærða, sem lýst er í þessum ákærulið hafa verið gerðar án sinnar heimildar.  D kvaðst ekki hafa ritað nafn undir kauptilboð, sem í ákærunni er sagt dags. 20. apríl 2002, en er í raun dags. 29. sama mánaðar og heldur ekki undir skjal, sem ber heitið ný veðsetning og veðbandslausn, þar sem lýst er veðflutningum  að Z yfir á Laugavegi [...].  Hún hafi aldrei rætt um Laugaveg [...] við ákærða.  D kvaðst aldrei hafa heimilað ákærða að tilkynna tímabundinn flutning á póstfangi eins og lýst er í ákærunni.

             Vitnið Friðjón Örn Friðjónsson hæstaréttarlögmaður lýsti því er D leitaði til hans vegna þessa máls.  Hann kvað hafa verið mikilvægt fyrir D að fá upplýsingar um það hvort veðflutningurinn af Z yfir á Laugaveg [...] væri heimilaður af þinglýstum eiganda.  Komið hafi í ljós að til að samþykkja veðflutninginn hafi sambýliskona ákærða viljað að D afturkallaði kæru sína á hendur ákærða.  Friðjón Örn kvað ljóst að samkomulagið hafi gengið út á það að fá yfirlýsingu um skuldskeytingu og staðfestingu á veðflutningnum.  Á móti hafi verið óskað eftir því að fallið yrði frá kæru á hendur ákærða.  D hafi samþykkt þetta.  Þá hafi borist frá þáverandi lögmanni ákærða yfirlýsing sú sem áður er rakin og hafi D undirritað hana og Friðjón Örn vottað.  Hann lýst því að hann hafi ráðlagt D með fjárhagslega hagsmuni hennar í huga og hann hafi á þessum tíma talið að þeim væri best borgið með því að fá veðflutninginn í gegn, þar sem hann hafi talið ólíklegt að fasteignasalinn, sem í hlut átti, væri borgunarmaður.

             Niðurstaða ákæruliðar 3.

             Með framburði ákærða og vitnisburði D og með öðrum gögnum málsins er sannað að ákærði tók við fjármununum, sem hér um ræðir og samkvæmt kaupsamningi dagsettum 30. apríl 2002, átti að nota fjárhæðina til að greiða upp veðskuld D við Samvinnulífeyrissjóðinn sem fyrst og eigi síðar en 10. maí 2002, eins og segir í kaupsamningnum. 

             D komst síðar að því að ákærði brást skyldum sínum og greiddi ekki lánið upp.  Hún leitaði þá til lögmanns og er vísað til vitnisburðar D og Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns um tilkomu yfirlýsingarinnar, sem  rakin var og afturköllun kærunnar.  Allt var það gert í því skyni að freista þess að D yrði borgið fjárhagslega vegna þessara viðskipta við ákærða.  D hefur neitað því að hafa vitað um gerninga þá, sem lýst er í síðari hluta þessa ákæruliðar og varða fasteignina Laugaveg [...] og allar ráðstafanir ákærða þar að lútandi.  Ákærði hefur borið að allar þær ráðstafanir sínar hafi verið gerðar með samþykki D.  Hið tilhæfulausa kauptilboð D í Laugavegi [...], sem lýst er í þessum ákærulið, er dagsett  29. apríl 2002, eða daginn áður en kaupsamningurinn um fasteignina að Z.  Hafi raunverulega verið samið við D um þær ráðstafanir, sem lýst er í síðari hluta þessa ákæruliðar, og varða fasteignina Laugaveg [...], á þann hátt sem ákærði hefur haldið fram, verður að álíta að gerðt hafi verið um þetta skriflegt samkomulag, sem ekki var gert.  Að virtum aðdraganda yfirlýsingarinnar, sem rakin var, og afturköllunar kæru og eins og vitnin D og Friðjón Örn Friðjónsson báru um þetta og að virtum ótrúverðugum framburði ákærða um ætluð samskipti hans og D varðandi Laugavegi [...], en mjög dregur úr trúverðugleika framburðar ákærða, að hann sem löggiltur fasteignasali hafi ekki séð til þess að samkomulagið, sem hann kvaðst hafa gert fyrir D væri skriflegt, er það mat dómsins að sannað sé, með því sem nú hefur verið rakið, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um alla þá háttsemi, sem í þessum ákærulið greinir. 

             Ákæruliður 4.

             Hinn 18. ágúst 2003 lagði F fram kæru á hendur ákærða.  Lýsir F í kærunni fasteignaviðskiptum sem lýst er í þessum ákærulið og að ákærði hafi tekið að sér að greiða viðbótarlán, sem hvíldi á Þ.  Þetta hafi ákærði ekki gert og er kæran lögð fram vegna þessa.  Í þessum ákærulið er misritun, sem ekki kemur að sök, en kaupsamningurinn sem hér um ræðir, er dags. 6. maí   2002, en ekki 5. sama mánaðar. 

             Ákærði kvað viðskiptunum í þessum ákærulið rétt lýst, utan að hann neitar sök.  Ákærði kvað hafa verið munnlegt samkomulag milli þeirra F vegna annarra viðskipta um að peningarnir, sem hér um ræðir, yrðu notaðir á annan hátt en til greiðslu lánsins, sem í þessum ákærulið greinir.  Það hafi því verið samkvæmt beiðni F að lánið var ekki gert upp strax, heldur yrði greitt af láninu uns það yrði greitt upp síðar.  Ákærði kvað þetta mál að fullu uppgert milli þeirra F og það sem fram kom í kæru F til lögreglu sé ekki rétt.

             Vitnið F kvað ákærða hafa tekið við fjármununum, sem hér um ræðir, vegna fasteignaviðskiptanna sem lýst er í þessum ákærulið.  Dregist hafi á langinn að ákærði gerði upp eins og hann átti að gera og lýst er í ákærunni og hafi F því lagt fram kæru í ágúst 2003.  F kvað í fyrstu að samkomulag milli þeirra ákærða hafi komist á áður en hann lagði fram kæruna, sem hann hafi gert eftir að ágreiningur hafi risið milli þeirra ákærða.  Síðar greindi F svo frá að er hann lagði fram kæruna hafi ekkert samkomulag verið á milli þeirra ákærða um samstarf.  Það hafi komið til síðar.  F kvað nú engan ágreining milli þeirra ákærða.  F lýsti því að hann hafi haft hug á því að draga kæru sína til baka, en lögreglan hafi greint sér frá því að það væri of seint.  F kvaðst greiða af láninu, sem hér um ræðir, og einnig hafi N greitt af því, svo og ákærði.

             Vitnið N seldi F íbúðina að Þ, eins og lýst er í þessum ákærulið.  Hún kvað hafa verið greitt af viðbótarláninu, sem hvíldi á Þ og taldi hún að eftirstöðvar væru nú um ein milljón króna.  Hún kvað þetta einkum hafa haft þau áhrif að ekki hafi verið unnt að skipta um eigandanafn á íbúðinni og hún kvað F kaupanda vera kunningja sinn og hafi hún upplýsingar frá honum, en hún hafi ekki rætt við ákærða vegna þessa máls.  Greiðsluseðlum sem henni berist komi hún til F, sem annist greiðslu þeirra.

             Niðurstaða ákæruliðar 4.

             Sannað er með framburði ákærða og með vitnisburði F, að ákærði tók við fjármununum sem hér um ræðir 19. og 20. júní 2002.  F lagði fram kæru á hendur ákærða, þar sem ákærði hefði ekki greitt viðbótarlán, sem hvíldi á Þ. 

             Fyrir dómi greindi F svo frá að áður en hann lagði kæruna fram hafi þeir ákærði samið um það að þessir fjármunir yrðu notaðir í annað en áður hefði verið samið um og lýsti F öðrum viðskiptum þeirra ákærða.  F kvaðst hafa lagt fram kæru þar sem til ósættis hafi komið milli þeirra ákærða, en síðar hafi gróið um heilt.  Síðar greindi F svo frá að samkomulagið milli þeirra ákærða um ráðstöfun greiðslnanna hafi komið til eftir að kæran hefði verið lögð fram. 

             Meðal gagna málsins er yfirlýsing undirrituð af F, kaupanda Þ, og N seljanda.  Þar kemur meðal annars fram að ákærði og F hafi á þeim tíma, er kaupsamningurinn um Þ var gerður, átt í samningaviðræðum vegna annarra viðskipta, sem lutu að rekstri líkamsræktarstöðvar.  Það segir í yfirlýsingunni:  ,,Sú deila sem upp kom vegna uppgjörs láns á [Þ] tengdist framangreindum hugmyndum um samstarf F og Helga og hefur sú deila verið að fullu frágengin og öll mál okkar á milli uppgerð. Þrátt fyrir að F  hafi leitað til lögreglu, þegar upp kom ágreiningur um frágang þessa máls, þá var ekki ætlun okkar að leggja fram kæru á hendur Helga..”

             Vitnin F og N staðfestu yfirlýsinguna fyrir dómi. 

             Þótt vitnisburður F sé nokkuð á reiki er það álit dómsins að vitnisburður hans og vitnisburður N styðji framburð ákærða um að samkomulag hafi verið komið á milli ákærða og F um það að ákærði ráðstafaði fjármununum, sem í þessum ákærulið greinir á annan hátt en þann að greiða viðbótarlánið, sem hvíldi á Þ og lýst er í ákærunni.  Samkvæmt þessu ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

             Ákæruliður 5.

         Hinn 19. febrúar sl. lagði I fram kæru á hendur ákærða samkvæmt umboði frá G.  Kærð voru vanskil ákærða á að standa skil á andvirði húsbréfa, sem lýst er í þessum ákærulið.  Ákærði kvað viðskiptin hafa farið fram eins og lýst er í þessum ákærulið og að hann hafi tekið við fjármunum, sem þar greinir, samkvæmt umboði frá G.  Umboðið sem hér um ræðir er svohljóðandi:

,,Undirritaður, [G], gef hér með Helga Magnúsi Hermannssyni, [...] fullt, ótakmarkað og óafturkræft umboð til þess að móttaka og framselja fasteignaveðbréf/húsbréf vegna sölu á íbúð minni að [Æ], Reykjavík.  Jafnframt nær umboð þetta til þess að móttaka andvirði seldra bréf.

Helgi hefur tekið að sér að fá aðila til þess að gera eignaskiptasamning og mun annast um það fyrir mína hönd.  Útlagðan kostnað vegna þessa skal greiða af andvirði seldra bréfa ásamt kostnað Helga vegna vinnu fyrir mína hönd.  Uppgjör vegna þessa skal fara fram við afsal sem fram fer að því loknu að eignasksiptasamning hefur verið þinglýst.“

         Ákærði lýsti vinnu sinni við að fá eignaskiptasamning gerðan og þá hafi reynst nauðsynlegt að teikna húsið upp og hafi verið haft samband við arkitekt í því skyni.  Ákærði hafi annast þetta samkvæmt samningnum og uppgjör farið fram að þessu loknu eins og samningurinn kveði á um.  Ákærði kvaðst ekki hafa vitað af ákærunni á hendur sér fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglunni 28. apríl sl.  Hann kvað hvorki G né aðila, sem komu fram fyrir hans hönd, hafa spurt um framvindu málsins og hvorki hafi verið farið fram á að ákærði afhenti fjármunina, sem hér um ræðir í heild, né að hluta.  Hann kvað uppgjör því fara fram eins og kveðið sé á um í umboðinu, sem rakið var að ofan.

         Vitnið, G, lýsti samskiptum við ákærða.  Hann kvaðst ekki hafa skrifað undir umboðið, sem lýst er að ofan.  Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð G frekar.

         Vitnið, I, móðurbróðir G, lýsti erindisrekstri sínum fyrir G.  I kvað engan vafa leika á því að G hafi ritað nafn sitt undir umboðið, sem áður var vikið að, þótt vitnið sé ekki viss um að G hafi gert sér grein fyrir efni skjalsins, sem hann undirritaði.  I kvað G hafa reiknað með því að fjármunir skiluðu sér til hans upp úr áramótunum 2002 – 2003, en endanlegt uppgjör gæti varla dregist lengur.  I kvað gerð eignaskiptasamnings og gerð teikninga af húsinu, sem hér um ræðir, hafa dregist, en upp úr miðju síðasta ári hafi sér fundist þetta orðið dularfullt svo hann hringdi í ákærða og spurði hvort ekki væri unnt að ganga frá stærstum hluta uppgjörsins við G.  Sér hafi skilist á ákærða að einhverju þyrfti að breyta og hann hafi ekki gengið frekar eftir þessu við ákærða, en beðið hann um að ræða við G í því skyni að róa hann.

         Vitnið O lýsti vinnu sinni við að teikna upp fasteignina, sem hér um ræðir í þessum ákærulið, en þetta hafi hann gert að beiðni ákærða.  Verkinu hafi lokið í byrjun þessa árs. 

         Vitnið P lýsti því er G kom að máli við hana vegna þessara  fasteignaviðskipta.  Hún kvaðst álíta að G hafi ekki skilið viðskiptin vel, en honum hafi fundist ganga illa að gera upp.  Hún hafi að beiðni G hringt í ákærða og spurt hverju það sætti að svona illa gengi að gera málið upp.  Hún kvaðst hafa fært í tal við hann hvort ekki væri unnt að gera upp við G að mestu leyti, en halda eftir peningum sem þyrfti vegna kostnaðar við gerð teikninga og eignaskiptasamnings.  Kvaðst hún hafa fengið staðfest að þessum þætti hefði ekki verið lokið.  Kvaðst hún tæpast hafa skilið það sem ákærði svaraði þessu, en hann hafi meðal annars sagt að G græddi á því að hann geymdi fyrir hann húsbréfin sem hækkuðu í verði.

         Niðurstaða ákæruliðar 5.

         Hér að ofan er lýst ráðstöfunum sem ákærði hefur gert fyrir G vegna sölu Æ.  Samkvæmt umboði, sem vottað er af tveimur vottum, og telja verður með vísan til vitnisburðar I, að G hafi undirritað þrátt fyrir vitnisburð hans um annað, er ljóst að ákærði hafði heimild G til að leysa þessa fjármuni til sín og samkvæmt sama umboði skal uppgjör fara fram eins og þar er lýst. 

         Samkvæmt framburði ákærða hefur afsalsgerð ekki farið fram og er tími uppgjörs við G samkvæmt umboðinu því ekki kominn, en gerð teikninga fyrir Æ lauk fyrr á þessu ári samkvæmt vitnisburði sem rakinn var. 

         Samkvæmt vitnisburði I virðist ekki hafa verið gengið hart fram í því við ákærða að uppgjör við G færi fram að mestu leyti, þótt hluta fjárins yrði haldið eftir til greiðslu kostnaðar.  Ákærði hefur borið að ekki hafi verið leitað eftir því við sig. 

         Að öllu þessu virtu og með vísan til umboðsins, sem rakið var, er það álit dómsins að ósannað sé að ákærði hafi dregið sér fjármuni þá sem hér um ræðir og ber samkvæmt því að sýkna hann. 

         Eftir þessum úrslitum ber að vísa skaðabótakröfu G frá dómi.

 

         Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni en ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög.

         Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.

         Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 9 mánuði. Nokkur tími er frá framningu brotanna. Þykir eftir atvikum rétt að fresta fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

         Ákærði greiði helming sakarkostnaðar á móti helmingi, sem greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn tilgreindan hluta af 250.000 króna málsvarnarlaunum til Sigríðar Rutar Júlíusdóttur héraðsdómslögmanns.

         Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

         Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

         Ákærði, Helgi Magnús Hermannsson, sæti fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

         Ákærði greiði A og B 2.685.293 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. mars 2004 til greiðsludags.

         Ákærði greiði sömu aðilum 50.000 krónur í lögmannskostnað við að halda kröfunni fram.

         Skaðabótakröfum C og G er vísað frá dómi.

         Ákærði greiði helming sakarkostnaðar á móti helmingi, sem greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn tilgreindan hluta af 250.000 króna málsvarnarlaunum til Sigríðar Rutar Júlíusdóttur héraðsdómslögmanns.