Hæstiréttur íslands
Mál nr. 518/2006
Lykilorð
- Eftirlaun
- Samningur
- Kaupréttur
- Hlutabréf
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2007. |
|
Nr. 518/2006. |
Sigurður Helgason(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn FL-Group hf. (Jakob R. Möller hrl.) |
Eftirlaun. Samningur. Kaupréttur. Hlutabréf.
S krafðist viðurkenningar á því að kaupréttarsamningar væru hluti af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna F sem hæst laun hefðu í skilningi eftirlaunasamnings S og F frá 13. janúar 1977. Þegar litið var til þess að kaupréttur þeirra átta stjórnenda F, sem til viðmiðunar voru í eftirlaunasamningnum, var hluti af starfskjörum þeirra, þess að tilgangur viðmiðunarákvæðisins í bókuninni 13. janúar 1977 hlaut að hafa verið sá að tryggja S, við ófyrirséðar breytingar á aðstæðum, sömu raunhækkun á eftirlaunum og verða kynnu á launum æðstu stjórnenda F og þess að aðilar túlkuðu samninginn þannig sjálfir í upphafi árs 2004 að undir hann féllu ábatagreiðslur er miðuðust við væntanlegar hækkanir á gengi bréfa í stefnda, var fallist á með S að verðmæti kaupréttarsamnings starfsmannanna átta skyldu taldir með við útreikning viðmiðunar fyrir eftirlaun S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. október 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði að kaupréttarsamningar séu hluti af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna stefnda sem hæst launa hafa í skilningi eftirlaunasamnings áfrýjanda og stefnda frá 13. janúar 1977. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi var um árabil forstjóri og síðan stjórnarformaður Flugleiða hf. Á stjórnarfundi félagsins 13. janúar 1977 var gerð bókun um eftirlaun hans og ekkjulífeyri hans vegna. Aðilar eru sammála um að með þessari bókun hafi verið færður í letur og samþykktur samningur sem komist hafði á milli áfrýjanda og stjórnar félagsins. Þessi bókun er nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi, en meginefni hennar varðandi eftirlaun áfrýjanda er á þá leið að samkvæmt a) lið skuli eftirlaunin nema 70% af forstjóralaunum hans frá þriðja ári eftir starfslok og til æviloka. Samkvæmt c) lið bókunarinnar skyldu viðmiðunarlaunin aldrei vera lægri en laun áfrýjanda þegar hann hætti störfum „að viðbættum vísitöluhækkunum, þannig að launin haldi ávallt verðgildi sínu.“ Þá skyldi við starfslok áfrýjanda reikna út hlutfall milli launa hans annars vegar og hins vegar meðaltals „á útreiknuðum launum þeirra 8 starfsmanna Flugleiða hf. sem hæst laun hafa“ að forstjóra og stjórnarformanni undanskildum. Skyldi miða eftirlaun áfrýjanda við sama hlutfall ofan á útreiknuð meðallaun þessara áttmenninga ef vísitölutryggð forstjóralaun reyndust lægri. Áfrýjandi lét af störfum 1990. Voru laun hans þá 77.04% hærri en meðaltal útreiknaðra launa þeirra átta starfsmanna sem hæst höfðu launin. Hafa eftirlaun áfrýjanda frá upphafi verið ákveðin á þessum grundvelli.
Á árinu 2003 óskaði áfrýjandi eftir því að grundvöllur eftirlaunaútreiknings hans yrði kannaður meðal annars vegna breytts fyrirkomulags á laungreiðslum hjá stefnda „þ.e. afkomutengd laun, kaupréttur starfsmanna, etc.“ Á þessum tíma hafði orðið skipulagsbreyting hjá stefnda og dótturfélög verið mynduð um tiltekna þætti rekstrarins. Framkvæmdastjórar dótturfélaganna höfðu ekki verið í átta manna viðmiðunarhópnum. Með bréfi 3. október 2003 féllst stefndi á að endurskoða viðmiðunargrunninn þannig að laun átta hæst launuðu starfsmanna samstæðunnar yrðu tekin til viðmiðunar eftirlaunum áfrýjanda. Því var hins vegar hafnað að taka „bónusgreiðslur“ þessara áttmenninga inn í viðmiðunina. Þann 5. janúar 2004 undirrituðu aðilar samkomulag um uppgjör eftirlauna áfrýjanda. Samkvæmt því greiddi stefndi áfrýjanda samtals 25.000.000 krónur til viðbótar áður greiddum eftirlaunum vegna áranna 1998 til 2003. Eru aðilar sammála um að innfalið í þessari greiðslu hafi verið 60% af þeim ábatagreiðslum sem áttmenningarnir í viðmiðunarhópnum nutu árið 2002. Þann 11. febrúar 2004 undirrituðu aðilar síðan viðauka við samkomulagið frá 5. janúar sama ár. Samkvæmt því skyldi til viðbótar því sem áður hafði verið samið um greiða áfrýjanda 40% hlut af ábatagreiðslum vegna ársins 2002 sem kæmi til útborgunar í mars 2005. Ekki nýtur í málinu glöggra upplýsinga um þessar ábatagreiðslur en þó er fram komið að þær skyldu miðast við hækkun sem verða kynni á meðalgengi hlutabréfa Flugleiða hf. frá janúar 2003 til janúar 2005.
Af gögnum málsins verður ráðið að frá árinu 2003 hafi stefndi veitt nánar tilgreindum stjórnendum félagsins kauprétt að hlutabréfum í félaginu. Snýst ágreiningur aðila um það eitt hvort verðmæti þessara kaupréttarsamninga skuli teljast til launa þeirra átta hæst launuðu starfsmanna stefnda sem til viðmiðunar eru við ákvörðun eftirlauna áfrýjanda.
II.
Í fyrrgreindri bókun er það meðaltal útreiknaðra launa átta hæst launuðu starfsmanna stefnda sem skal vera til viðmiðunar við ákvörðun eftirlauna áfrýjanda. Ekki er nánari skýringu að finna í bókuninni hvað átt sé við með launum í þessu sambandi. Aðilar eru sammála um að á árinu 1977, þegar sá samningur var gerður sem hér er til umfjöllunar, hafi árangurstengd laun ekki tíðkast hjá stjórnendum stefnda. Ólíklegt er því að samningsaðilar hafi haft greiðslur af því tagi sérstaklega í huga við gerð eftirlaunasamningsins. Þegar samningurinn var gerður var áfrýjandi á sextugsaldri og því ljóst að ákvæði hans var gætu gilt um langan tíma. Ákvæði c) liðar bókunarinnar hafa augljóslega þann tilgang að tryggja verðmæti eftirlaunanna um ókomin ár við breytilegar aðstæður sem ekki voru fyrirsjáanlegar við samningsgerðina. Fyrra ákvæðið um vísitöluhækkun forstjóralaunanna er hreint verðtryggingarákvæði, sem tryggja á raungildi launanna, en síðara ákvæðinu um viðmiðun við átta hæst launuðu starfsmenn stefnda hlýtur á hinn bóginn að vera ætlað að tryggja áfrýjanda sömu raunhækkanir á eftirlaunum sínum og verða kynnu á launum yfirmanna félagsins. Af því sem að framan er rakið er ljóst að í ársbyrjun 2004 varð samkomulag með aðilum um að við ákvörðun viðmiðunarlauna áttmenninganna fyrir árið 2002 skyldi taka að fullu tillit til ábatagreiðslna sem þeir höfðu notið vegna þess árs. Þær ábatagreiðslur miðuðust við væntanlegar breytingar á meðalgengi hlutabréfa félagsins næstu tvö árin. Þær voru því um margt eðlislíkar þeim ávinningi sem fylgt getur kauprétti á hlutabréfum.
Þegar litið er til þess að kaupréttur þeirra átta stjórnenda stefnda, sem til viðmiðunar eru, er hluti af starfskjörum þeirra, þess að tilgangur viðmiðunarákvæðisins í bókuninni hlýtur að hafa verið sá að tryggja áfrýjanda, við ófyrirséðar breytingar á aðstæðum, sömu raunhækkun á eftirlaunum og verða kynnu á launum æðstu stjórnenda stefnda og þess að aðilar túlkuðu samninginn þannig sjálfir í upphafi árs 2004 að undir hann féllu ábatagreiðslur er miðuðust við væntanlegar hækkanir á gengi bréfa í stefnda, verður að fallast á það með áfrýjanda að verðmæti kaupréttarsamninga starfsmannanna átta skuli talið með við útreikning viðmiðunar fyrir eftirlaun áfrýjanda. Viðurkenningarkrafa hans verður því tekin til greina.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að kaupréttarsamningar séu hluti af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna stefnda, FL-Group hf., sem hæst laun hafa í skilningi eftirlaunasamnings áfrýjanda, Sigurðar Helgasonar, og stefnda frá 13. janúar 1977.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2006.
I
Mál þetta sem dómtekið var 19. júní 2006 var höfðað 7. janúar 2006. Stefnandi er Sigurður Helgason, Skildinganesi 52, Reykjavík, en stefndi er FL Group hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að kaupréttarsamningar teljist hluti af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna stefnda sem hæst laun hafa í skilningi eftirlaunasamnings stefnanda og stefnda frá 13. janúar 1977.
Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi hafi frá 1. janúar 2003 verið skylt að reikna verðmæti kaupréttarsamninga þeirra átta starfsmanna stefnda sem hæst laun hafa og eftirlaun stefnanda byggjast á, inn í meðaltal á útreiknuðum launum þeirra, samkvæmt samningi stefnanda og stefnda frá 13. janúar 1977.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
II
Stefnandi var um langt árabil forstjóri og síðar stjórnarformaður stefnda, sem áður hét Flugleiðir hf., eftir sameiningu Loftleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. árið 1975. Lét stefnandi af störfum um mitt ár 1990.
Hinn 13. janúar 1977 var haldinn 47. stjórnarfundur í Flugleiðum hf. þar sem samþykktar voru eftirfarandi tillögur varðandi eftirlaun og ekkjulífeyri stefnanda:
a) Eftirlaun hans skuli vera 90% af forstjóralaunum hans, (sbr. þó 3. gr.) fyrsta árið eftir að hann hætti störfum, 80% af slíkum launum annað árið en þriðja árið og til æviloka skuli þau nema 70% af forstjóralaunum hans. Í b) lið er fjallað um ekkjulífeyri vegna stefnanda. Í c) lið segir að þau laun sem miða skuli greiðslu eftirlauna eða ekkjulífeyri við skuli aldrei vera lægri en þau laun sem stefnandi hafði er hann hætti störfum eða félli frá að viðbættum vísitöluhækkunum, þannig að launin haldi ávallt verðgildi sínu. Reynist þau laun lægri en útreiknuð laun sem byggist á sama hlutfalli og verði milli stefnanda þegar hann hættir störfum og meðaltals á útreiknuðum launum þeirra 8 starfsmanna Flugleiða hf. sem hæst laun hafi (hér sé ekki átt við stjórnarformann, forstjóra, né þá sem taki laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga, svo sem flugliða, heldur þá sem gegni störfum framkvæmdastjóra og forstöðumanna, hliðstætt því sem eigi við í skipulagi Flugleiða hf. eins og það sé þegar bókunin sé gerð) þá skuli styðjast við þann útreikning og miða greiðslur eftirlauna eða ekkjulífeyris við það hlutfall.
Þegar stefnandi lét af störfum hjá stefnda árið 1990 voru laun hans 77,04% hærri en meðaltal launa 8 tekjuhæstu starfsmanna stefnda og hefur frá starfslokum hans verið miðað við þá reiknireglu að eftirlaun hans eru 77,04% hærri en meðaltal launa 8 tekjuhæstu starfsmanna stefnda.
Eftir að Flugleiðir hf. var skráð opinberri skráningu á verðbréfamarkað voru ákveðnar upplýsingar, meðal annars um launakjör æðstu starfsmanna félagsins, gerðar opinberar. Stefnandi ritaði endurskoðanda stefnda bréf hinn 26. mars 2003 og forstjóra félagsins hinn 24. apríl 2003 og óskaði eftir upplýsingum um útreikning á eftirlaunum hans árið 2002. Forstjóri stefnda svaraði fyrirspurn stefnanda með bréfi 3. október 2003. Í bréfi hans kemur meðal annars fram að við útreikning á meðaltali 8 hæstu starfsmanna hafi hvorki verið tekið tillit til afkomutengdra launagreiðslna né kaupréttar starfsmanna. Þá kemur þar fram að þeir starfsmenn sem voru í viðmiðunarhópnum og starfi hjá dótturfélögum stefnda hafi verið teknir úr hópnum þegar þeir hafi horfið til nýrra starfa og hafi viðmiðunarlaunin frá 1. janúar 2000 og til ársloka 2002 verið þannig reiknuð. Eftir á að hyggja þætti stefnda þetta ósanngjarnt og hafi hann því ákveðið að reikna nýjan átta manna meðaltalsgrunn fyrir árin 2000-2002 þar sem 8 hæst launuðu starfsmenn samstæðunnar í heild séu teknir inn í útreikninginn en án sérstakra bónusgreiðslna. Þá kemur og fram í bréfi þessu að við nánari skoðun á árunum 1999 til og með 2002 hafi komið í ljós skekkjur í útreikningnum sem hafi nú verið leiðréttar.
Í kjölfar þessa bréfs voru gerð drög að samkomulagi til að leiðrétta eftirlaun stefnanda og eru þau dagsett 19. desember 2003. Þessi drög voru ekki undirrituð í því formi heldur var gert nýtt samkomulag og viðauki við það svipaðs efnis og umrædd drög gerðu ráð fyrir en fjárhæð sú sem stefndi greiddi stefnanda á grundvelli samkomulagsins var 5.000.000 króna hærri en gert var ráð fyrir í drögunum.
Í fyrrgreindu samkomulagi, sem stefndi undirritaði 5. janúar 2004, kemur fram að aðilar geri með sér samkomulag um uppgjör á eftirlaunum vegna liðins tíma. Hafi komið í ljós að eftirlaunagreiðslur til stefnanda hafi verið lægri á árunum 1998 til 2003 en samningur aðila hafi gert ráð fyrir. Hin vangreiddu eftirlaun nemi 14.517.000 krónum og sé samkomulag um að stefndi greiði stefnanda 25.000.000 króna, þ.e. hin vangreiddu eftirlaun að viðbættum vöxtum til ársloka 2003. Kemur fram í þessu samkomulagi að báðir aðilar hafi yfirfarið fyrirliggjandi útreikninga og séu sammála um að þetta sé fullnaðargreiðsla frá stefnda til stefnanda vegna liðins tíma, þ.e. frá því að eftirlaunasamningur tók gildi og til ársloka 2003. Samkvæmt gögnum málsins var innifalin í greiðslu samkvæmt samkomulagi þessu greiðsla á 60% ábatahlutar vegna ársins 2002.
Af hálfu stefnda var svo undirritaður hinn 11. febrúar 2004 viðauki við framangreint samkomulag frá 5. janúar 2004. Þar segir að til viðbótar þeim greiðslum sem getið sé um á fyrrgreindu samkomulagi frá 5. janúar 2004 sé hér með staðfest að „Flugleiðum ber að greiða Sigurði Helgasyni 40% hlut af ábatagreiðslu vegna ársins 2002. Þessi greiðsla kemur til útborgunar í marsmánuði 2005 eftir sömu reglum og gilda um meðferð þessara greiðslna hjá yfirmönnum Flugleiða.“
Stefnandi kveður að stefndi hafi á árinu 2003 hætt að greiða starfsmönnum sínum ábatagreiðslur en hafi í staðinn tekið upp kaupréttarsamninga. Stefnandi taldi sig eiga rétt á að umræddir kaupréttarsamningar væru metnir inn í laun þau sem eftirlaun hans reiknuðust út frá og óskaði eftir því bréflega til stefnda að það yrði tekið til greina. Hafnaði stefndi þessum óskum stefnanda með bréfi 26. september 2005.
Snýst meginágreiningur aðila um það hvort kaupréttur, hinna átta starfsmanna stefnda sem hæst laun hafa, á hlutabréfum í félaginu, teljist hluti af launum þeim sem eftirlaun stefnanda taka mið af.
III
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um að taka beri mið af verðmæti kaupréttarsamninga þeirra átta starfsmanna stefnda, sem eftirlaun hans miðist við, á eftirfarandi sjónarmiðum:
Í fyrsta lagi sé hugtakanotkun í samkomulagi stefnanda og stefnda frá árinu 1977 skýr. Þar segi að viðmiðunarlaunin, sem eftirlaun hans skulu reiknuð af, sé meðaltal af „útreiknuðum launum“ þeirra átta starfsmanna stefnda sem hæst laun hafi.
Hugtakið „laun“ í skilningi vinnuréttar sé endurgjald fyrir vinnu, sama í hvaða formi það sé greitt. Verðmæti kaupréttarsamninga sé því ótvírætt „laun“ í skilningi vinnuréttar, enda óumdeilt í málinu að verðmæti kaupréttarsamninga sé endurgjald fyrir vinnu þeirra átta starfsmanna stefnda sem eftirlaun stefnanda miðist við.
Í þessu ljósi og með almennri orðskýringu, sem telja verði nærtækustu túlkunina á samningnum, verði ekkí annað séð en með hugtakinu „laun“ í samkomulagi stefnanda og stefnda sé átt við allar þær samningsbundnu greiðslur sem fyrirtækið greiði þeim átta starfsmönnum fyrirtækisins, sem hæst laun hafi, í skiptum fyrir vinnuframlag þeirra í þágu félagsins.
Að taka það sérstaklega fram að átt sé við „útreiknuð“ laun bendi enn fremur til þess að þeir sem samkomulagið gerðu hafi áttað sig á því að upp gætu komið tilvik þar sem reikna þyrfti sérstaklega út laun þessara átta starfsmanna. Inn í þann útreikning þurfi að taka allt endurgjald fyrir vinnuframlag þessara átta starfsmanna, sama hvaða nafni það nefnist.
Telur stefnandi að það hefði þurft að taka sérstaklega fram í samkomulaginu ef ætlunin hafi verið að undanskilja tilteknar greiðslur við útreikning á viðmiðunarlaununum. Hafi það staðið stefnda næst að hafa frumkvæði að þess háttar samningsákvæði ef ætlunin hafi verið að ákveðnar tegundir launagreiðslna skyldu ekki falla undir launahugtak samningsins. Það hafi því enga stoð í samkomulaginu að verðmæti í formi kaupréttarsamninga verði ekki talið með við útreikning á viðmiðunarlaunum. Þvert á móti leiði það beint af samkomulaginu að telja beri verðmæti kaupréttarsamninga með við útreikninginn. Samkvæmt almennri orðskýringu og með stoð í launahugtaki vinnuréttarins falli verðmæti kaupréttarsamninga ótvírætt undir launahugtak samkomulags aðila.
Í öðru lagi styðji meðferð hins opinbera, löggjafans, dómstóla og skattyfirvalda, á kaupréttarsamningum framangreinda niðurstöðu. Eftir að kaupréttarsamningar hafi orðið snar þáttur í launagreiðslum æðstu stjórnenda fyrirtækja hér á landi hafi verið sett sérstök ákvæði um skattalega meðferð slíkra greiðslna.
Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/2003 teljist hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður, sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs, til tekna, og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær séu. Sé þar sérstaklega átt við endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem innt sé af hendi fyrir annan aðila. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra segi um tekjuhugtakið að allur viðurgjörningur launagreiðanda við starfsmenn í öðru en reiðufé sé lagður að jöfnu við laun til þeirra og beri að telja til tekna. Með viðurgjörningi við starfsmenn sé átt við fríðindi tengd starfinu, sem þeir njóti án þess að greiða fyrir það fullt verð, hvort sem um sé að ræða að launþeginn fái eitthvað til eignar, afnota, láns eða neyslu.
Með lögum nr. 86/2000 og 149/2000 hafi verið sett sérákvæði um skattalega meðferð kaupréttarsamninga í þágildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um reglur laganna og skattalega meðferð kaupréttarsamninga segi að í lögum þessum sé meðal annars fjallað um skattalega meðferð þess er hlutafélög selji starfsmönnum sínum hlutabréf á lægra verði en gangverði eða veiti þeim rétt til slíkra kaupa. Staðfest sé sem meginregla sú regla er gilt hafi, að í slíkum tilvikum beri að líta á mismun gangverðs og söluverðs sem starfstengda launagreiðslu sem sæti sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur.
Ákvæði um skattalega meðferð kaupréttarsamninga sé nú í 9. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/2003. Þar segi að tekjur samkvæmt 1. tl. a-liðar 7. gr., vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hafi öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, sbr. þó 10. gr., skuli ákveðnar eins og kveðið sé á um í þessari grein. Til skattskyldra tekna teljist mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur sé nýttur.
Hafi öll tvímæli um meðferð kaupréttarsamninga í skattalegu tilliti verið tekin af með tveimur dómum Hæstaréttar í málunum nr. 26/2002 og 144/2003. Bæði málin hafi fjallað um skattalega meðferð á söluhagnaði sem myndaðist vegna kaupa starfsmanna ríkisbankanna á bréfum í bönkunum á sérstökum starfsmannakjörum. Skattyfirvöld hafi talið söluhagnaðinn til tekna og skattlagt sem slíkan. Í báðum dómum hafi verið staðfest að söluhagnaðurinn væri skattskyld hlunnindi sem rétt hafi verið að skattleggja sem tekjur. Í máli nr. 144/2003 hafi viðkomandi starfsmaður ekki innleyst söluhagnað kaupréttarins.
Af framansögðu telur stefnandi ljóst að söluhagnaður, sem myndist við að fyrirtæki bjóði starfsmönnum sínum kaup á hlutabréfum í félaginu samkvæmt kauprétti, teljist til tekna í skilningi skattalaga. Telji löggjafinn og dómstólar söluhagnað kaupréttarsamninga ótvírætt hluta af launum starfsmanna. Hið sama eigi við um samning stefnanda og stefnda, þ.e. að líta beri á söluhagnað kaupréttarsamninga sem hluta af launum starfsmanna. Að minnsta kosti standi það stefnda nær að sanna að kaupréttarsamningar eigi ekki að hljóta sömu meðferð við framkvæmd á samkomulagi stefnda og stefnanda og þeir hljóti hjá löggjafanum, skattyfirvöldum og dómstólum.
Í þriðja lagi felist í kaupréttarsamningum að starfsmönnum fyrirtækis sé gert kleift að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á fyrir fram ákveðnum kjörum. Verð hlutabréfanna sé yfirleitt ákvarðað lægra en markaðsvirði þeirra þegar samningurinn er gerður. Öll hækkun á verðgildi hlutabréfa fyrirtækisins skili sér því beint til starfsmannanna á meðan kaupréttarsamningurinn sé í gildi. Með sama hætti hagnist starfsmennirnir ekki ef illa gangi og hlutabréf fyrirtækisins lækki í verði, þó iðulega tíðkist að verja starfsmenn fyrir þess háttar sveiflum með sölurétti eða annars konar tryggingu gegn tapi. Kaupréttarsamningar séu því ein tegund ábatagreiðslna, verðmæti þeirra ráðist alfarið af gengi fyrirtækisins.
Starfsmenn stefnda hafi fengið greiddar ábatagreiðslur árið 2002. Í febrúar árið 2004 hafi eftirlaun stefnanda verið leiðrétt þannig að tekið hafi verið mið af ábatagreiðslunum við útreikning eftirlauna hans fyrir árið 2002. Samkomulag um það hafi verið undirritað hinn 11. febrúar 2004. Umræddar ábatagreiðslur starfsmanna stefnda hafi verið tengdar beint við gengi félagsins á markaði. Komi það meðal annars fram í tölvupósti Einars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra stefnda, til stefnanda, 24. júlí 2004 þar sem segi að þessi 40% ábatagreiðsla sem stefnandi vísi til verði greidd út í byrjun árs 2005. Hún sé frá ársbyrjun 2003 og hækki milli þessara tveggja ára um sem nemi hækkun hlutabréfaverðs á tímabilinu. Miðað sé við meðalgengi janúar 2003 og janúar 2005.
Augljóst sé því að ábatagreiðslur og kaupréttarsamningar séu nákvæmlega sama fyrirbærið, þ.e. kjarabót til starfsmanna stefnda sem taki mið af því hvernig gengi félagsins sé á markaði.
Að mati stefnanda sé fyrir hendi skýrt fordæmi um meðferð ábatagreiðslna við útreikning á eftirlaunum stefnanda. Stefndi hafi viðurkennt með samkomulagi frá 11. febrúar 2004 að ábatagreiðslur beri að reikna inn í viðmiðunarlaun sem eftirlaun stefnanda miðist við.
Á árinu 2003 hafi kaupréttarsamningar verið teknir upp í stað ábatagreiðslna hjá stefnda. Þar sem kaupréttarsamningar séu ein tegund ábatagreiðslna verði að telja skylt að fara með greiðslur samkvæmt þeim með nákvæmlega sama hætti og aðrar ábatagreiðslur. Því verði að reikna hagnað af kaupréttarsamningum þeirra átta starfsmanna stefnda sem eftirlaun stefnanda miðist við inn í viðmiðunarfjárhæðina sem eftirlaun stefnanda byggist á. Með samkomulagi sínu við stefnanda frá 11. febrúar 2004 hafi stefndi viðurkennt það. Í því sambandi sé rétt að ítreka að í samkomulaginu segi orðrétt: „Flugleiðum ber að greiða Sigurði Helgasyni 40% af ábatagreiðslu vegna ársins 2002.“ Stefndi hafi því með ótvíræðum hætti viðurkennt skyldu sína til að greiða stefnanda eftirlaun sem byggð séu á ábatagreiðslum.
Í fjórða og síðasta lagi sé rétt að árétta að samningur stefnanda og stefnda sé afskaplega skýr að því leyti að hann fjalli um eftirlaun. Stefnandi eigi rétt á eftirlaununum óháð og án persónulegs vinnuframlags. Eftirlaunin skuli taka mið af launum átta tekjuhæstu starfsmanna stefnda. Það leiði af sjálfu sér að þessir átta starfsmenn stefnda inni af hendi vinnu í þágu stefnda og fái í staðinn greidd laun, hvort sem sé í formi mánaðarlauna, ábatagreiðslna eða kaupréttarsamninga. Stefnandi njóti réttar til greiðslu eftirlauna úr hendi stefnda á grundvelli framangreinds samkomulags en ekki á grundvelli vinnuframlags.
Stefndi geti ekki nú, tæpum 30 árum eftir gerð samkomulagsins, haldið því fram að hann þurfi ekki að standa við það þar sem ekki komi til vinnuframlag stefnanda á móti eftirlaunagreiðslunum.
Krafa stefnanda sé sett fram sem viðurkenningarkrafa samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kveður hann ástæðu þess að ekki sé gerð fjárkrafa í málinu vera þríþætta:
Í fyrsta lagi sé verulega dýrt og flókið að reikna út fjárkröfu stefnanda. Þyrfti að kosta til þess matsgerð dómkvaddra matsmanna. Sé því skynsamlegt að leita fyrst úrlausnar um tilvist og efni réttinda stefnanda áður en fjárkrafa á grundvelli þeirra sé reiknuð út.
Í öðru lagi þyrfti útreikningurinn að byggja á viðkvæmum persónuupplýsingum sem stefnandi hafi ekki undir höndum. Helgist það af því að fjárkrafa stefnanda sé byggð á launum átta starfsmanna stefnda. Stefnandi hafi eðli málsins samkvæmt ekki upplýsingar um launatekjur þeirra og honum því ómögulegt að reikna fjárkröfuna út.
Í þriðja lagi sé réttarsamband stefnanda og stefnda í eðli sínu ótímabundið. Þess vegna nái krafa stefnanda frá árinu 2003 en hafi ekki endapunkt.
Stefnandi krefjist viðurkenningar á framangreindum rétti sínum frá og með 1. janúar 2003. Stefndi hafi viðurkennt með samkomulagi sínu við stefnanda frá 11. febrúar 2004 að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun byggð á ábatagreiðslum ársins 2002. Með sama hætti beri stefnda að greiða stefnanda eftirlaun byggð á kaupréttarsamningum eftir að þeir hafi verið teknir upp í stað ábatagreiðslnanna. Þar sem búið sé að leiðrétta eftirlaun stefnanda árið 2002 með tilliti til ábatagreiðslna, sé þess krafist að eftirlaun stefnanda verði leiðrétt frá 1. janúar 2003.
Að öðru leyti byggi stefnandi kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
IV
Stefndi gerir athugasemdir við kröfugerð stefnanda. Sýnist honum að á kröfugerðinni séu verulegir annmarkar sem gætu átt að valda frávísun málsins. Megi þar einkum benda á að í fyrstu málsgrein dómkröfunnar sé þess krafist að kaupréttarsamningar teljist hluti af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna stefnda sem hæst laun hafi í skilningi eftirlaunasamnings stefnanda og stefnda frá 13. janúar 1977.
Af kröfugerð þessari einni saman verði hvorki ráðið hverjir þeir átta starfsmenn séu né hver þau tengsl þeirra séu við málið, að þeir geti verið óstefndir aðilar þess. Þá sé þess hvergi getið í stefnu eða öðrum gögnum hverjir þeir menn séu sem miða eigi við eða hvaða störfum þeir gegni hjá stefnda. Því hljóti að vera verulegum vanda bundið að skrifa þannig dómsorð að engum vafa valdi við hvað eða hverja sé átt. Þá sé málið að ýmsu öðru leyti vanreifað og vandséð að sérstök heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til þess að leita viðurkenningardóms leyfi það að krafa um viðurkenningardóm sé reifuð mun minna en þyrfti ef leitað væri aðfararhæfs dóms.
Í staflið c) í ákvörðun 47. stjórnarfundar stefnda sé sérstakt öryggisákvæði þess efnis, að reynist eftirlaun stefnanda, hækkuð samkvæmt vísitölu, lægri en útreiknuð laun sem byggist á sama hlutfalli á milli launa stefnanda þegar hann láti af störfum/falli frá og meðaltals á útreiknuðum launum átta launahæstu starfsmanna Flugleiða hf., eftir nánari skilgreiningu, skuli styðjast við þann útreikning og miða greiðslur eftirlauna/ekkjulífeyris við það hlutfall.
Stefnandi hafi því notið tvöfaldrar verðmætistryggingar eftirlauna sinna. Í fyrsta lagi skuli viðmiðunarlaun aldrei vera lægri en þau laun sem hann hafi notið við starfslok að viðbættum vísitöluhækkunum, og í öðru lagi sé trygging fyrir því að viðmiðunarlaun eftirlauna hans séu að minnsta kosti jafnmiklu hærri og þau hafi verið við starfslok, samanborið við laun átta launahæstu starfsmanna stefnda. Hafi eftirlaun hans ávallt miðast við útreiknuð laun átta launahæstu starfsmanna stefnda.
Stefndi telur að til þess að ákveða niðurstöðu þessa máls þurfi að taka afstöðu til þess, hvert sé innihald hugtaksins laun, eins og það orð komi fram í ákvörðun 47. stjórnarfundar Flugleiða hf. Eins og fram sé komið sé enginn vafi á því að þessi ákvörðun hafi endurspeglað í reynd samninga á milli stefnanda og annarra fulltrúa félagsins, sbr. meðal annars bréf stefnanda til forstjóra stefnda 20. maí 2005.
Launahugtakið geti verið margþætt, laun geti verið greidd í peningum eða í fríðu, þ.e. í einhverskonar viðurgerningi, og megi til dæmis nefna að hluti launa kunni að vera greiddur með fæði, húsnæði, afnotum af bíl, afnotum af tækjum eða búnaði. Megininntak launahugtaksins sé að það sé endurgjald fyrir vinnu hvort sem greitt er í peningum eða fríðu. Líta megi á eftirlaunasamning þann sem stefnandi og stefndi hafi með sér sem endurgjald fyrir vinnuframlag stefnanda á þeim tíma, þegar hann starfaði fyrir félagið.
Þótt öll laun, í hverju sem þau séu greidd, séu í skattalegu tilliti tekjur, sé ekki þar með sagt að allar tekjur séu jafnframt laun samkvæmt vinnurétti. Megi sem dæmi taka, að enginn vafi sé á að samningsbundnar greiðslur frá vinnuveitanda til launþega vegna mældra afkasta séu tekjur í skattalegu tilliti og falli undir tekjuhugtak 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignarskatt. Vafasamt sé þó að slíkar greiðslur yrðu taldar til viðmiðunarlauna annars manns sem að öðru leyti ætti að njóta sömu launa. Í 7. gr. laga nr. 90/2003 sé tekjuhugtakið skilgreint sem hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast. Í A-lið 7. gr. sé nánar skilgreint, að til tekna teljist: Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt sé af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljist til dæmis hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega séu gefnar sem kaupauki.
Af upptalningu A-liðar sjáist, að tekjuhugtakið sé mun víðfeðmara en launahugtakið, eins og það hafi verið skilgreint að framan sem endurgjald fyrir vinnu. Gjalda verði því varhug við að nota dóma sem fjalli um skattalega framkvæmd sem vísbendingu um hvað teljist til launa í skilningi vinnuréttar. Á sama hátt verði að gjalda varhug við þeirri rökvillu að telja að vegna þess að öll laun feli í sér greiðslu, feli allar greiðslur vinnuveitanda til starfsmanns í sér laun.
Þegar ákvörðun 47. stjórnarfundar hafi verið tekin í ársbyrjun 1977 hafi kaupréttur á hlutabréfum ekki verið notaður almennt á Íslandi. Enginn skipulagður markaður hafi þá verið með hluta- eða skuldabréf og því ekki líklegt, að kveðið væri á um kauprétt hlutabréfa félags í ráðningarkjörum. Ábatagreiðslur (bónusar) hafi þá þegar verið mjög vel þekktar sem hluti af kjörum, enda höfðu ábatatengdar greiðslur verið hluti af atvinnulífi í margar aldir og sé nærtækasta dæmið hlutaskipti á fiskiskipum. Á þessum tíma muni ábatatengdar greiðslur ekki hafa tíðkast hjá Flugleiðum hf. á sama hátt og hjá sumum öðrum stórum fyrirtækjum hérlendis og í því alþjóðlega umhverfi, sem Flugleiðir hf. störfuðu í. Þar sem ákvörðun 47. stjórnarfundar hafi verið samkomulag hafi það ekki staðið félaginu nær en stefnanda að taka eitthvað sérstakt fram um að tiltekin tegund greiðslu félli ekki undir launahugtak samkomulagsins. Þvert á móti verði að telja, að stefnandi, sem hafði sérstakan hag af því, að sem flestar tegundir greiðslna féllu undir samkomulagið, hefði átt að sjá til þess að sérstaklega væri kveðið á um það.
Eins og áður segi hafi ákvörðun 47. stjórnarfundar ekki verið einhliða ákvörðun félagsins heldur hafi hún byggst á samkomulagi á milli fulltrúa stjórnar og þeirra manna, sem hlut áttu. Sé að minnsta kosti óljóst að stefnandi hafi samkvæmt ákvörðun stjórnarfundarins í raun átt rétt á þeirri ábatagreiðslu sem greidd hafi verið. Þessi ábatahluti hafi þó verið greiddur samkvæmt sérstöku samkomulagi. Telji stefndi að líta beri á þá ábatagreiðslu sem örlætisgerning af hálfu stefnda og verði greiðsla hans ekki túlkuð þannig að hún hafi byggst á skyldu, hvað þá að greiðsla ábata vegna ársins 2002 þýði að stefndi hafi skuldbundið sig til þess að veita stefnanda, sem látið hafi af störfum á árinu 1990, rétt til kaupa á hlutabréfum frá og með árinu 2003 á sama hátt og starfsmönnum, sem þá hafi verið og verði við störf.
Hafa verði í huga að ábatagreiðslur séu almennt ákveðnar sem hlutfall af sérstökum rekstrarárangri sem einstakur starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi náð. Sýnist óhætt að álykta að ábatagreiðslur hafi verið sérstök umbun til stjórnenda vegna þess ávinnings sem félagið taldi stafa af persónulegu framlagi þeirra til rekstrarafkomu félagsins. Á þessum tíma hafi félagið ekki notið slíks persónulegs framlags frá stefnanda og sé því að minnsta kosti hæpið að telja að hann hafi átt lagalega kröfu til greiðslu af þessu tagi, jafnvel þótt í samkomulagi um þá greiðslu sé sagt að staðfest sé að Flugleiðum beri að greiða hana.
Engar líkur hafi verið leiddar að því, að launakjör átta launahæstu stjórnenda Flugleiða hf. hafi verið skert eða þeim haldið lægri á þeim grundvelli, að þeir nytu ábatagreiðslna, eða ættu eftir árið 2002 rétt á kaupum á tilteknum fjölda hluta í félaginu á tilteknu gengi. Ljóst sé að ávinningur af ábatagreiðslu eða kaupréttarsamningum sé skattskyldur sem tekjur samkvæmt lögum nr. 90/2003, en slíkar greiðslur verði ekki laun vegna þess eins.
Í gögnum málsins séu engar vísbendingar um að ábatagreiðslur til stjórnenda hafi ekki verið í samræmi við fyrir fram ákveðna mælikvarða um afköst eða rekstrarárangur og heldur ekki að kaupréttur á hlutum í félaginu hafi ekki verið ákveðinn til þess að tengja hagsmuni félags og stjórnenda. Ef hlutabréf hækkuðu í verði högnuðust stjórnendur á því. Hvorugt þessara viðmiða eigi við um stefnanda. Á þeim tíma sem ábatagreiðslur hafi verið greiddar verði ekki séð að stefnandi hafi haft áhrif á rekstrarafkomu félagsins eða að hann hafi í störfum fyrir félagið haft áhrif á gengi hlutabréfa þess. Þar sem laun þessara átta stjórnenda hafi ekki skerst í tengslum við rétt til kaupa á hlutabréfum hafi eftirlaun hans ekki skerst að neinu leyti, þótt skattskyldar tekjur tiltekins hóps starfsmanna stefnda hafi hækkað meira en eftirlaun hans og laun þeirra.
Kaupréttarsamningur sé ekki sama eðlis og ábatagreiðslur. Óháð því hvort kaupréttarsamningar hafi verið teknir upp í stað ábatagreiðslna verði ekki séð að stefnandi eigi lagalega kröfu til þess að umbun til viðmiðunarhóps, sem byggð sé á mati á persónulegu framlagi þeirra til rekstrarafkomu félagsins eða stöðu þess á hlutabréfamarkaði verði notuð sem viðmið um eftirlaun hans. Þar sem kaupréttarsamningur sé ekki sama eðlis og ábatagreiðsla og hæpið sé að stefnandi hafi átt lagalega kröfu til ábatagreiðslu, verði ekki talið að ábatagreiðslan hafi skapað honum rétt til kaupréttarsamnings.
Hin almenna túlkunarregla vinnuréttar sé að samninga, þar á meðal ráðningarsamninga, beri fyrst og fremst að túlka eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt því yrði niðurstaða þessa máls einfaldlega fengin, í samningi stefnanda og stefnda. Í ákvörðun 47. stjórnarfundar stefnda sé skýrt kveðið á um hvernig eftirlaun stefnanda skuli reiknuð. Til þeirra eftirlauna eigi stefnandi fullan rétt en ekki annarra. Til þess að stefnandi ætti rétt á einhverri annars konar viðmiðun en fram komi í samkomulaginu hefði þurft að verða einhvers konar umbylting á launagreiðslum til átta launahæstu starfsmanna félagsins, sem mynduðu samanburðargrundvöll við eftirlaun stefnanda sem alvarlega skertu rétt hans. Engin slík breyting hafi átt sér stað. Þvert á móti hafi laun þessara manna hækkað meira en starfslokalaun stefnanda sjálfs hækkuð samkvæmt launavísitölu.
Krafa stefnda um málskostnað sé reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr., laga nr. 91/1991.
V
Eins og rakið hefur verið bendir stefndi á að verulegir annmarkar kunni að vera á kröfugerð stefnanda sem gætu átt að leiða til frávísunar málsins án þess þó að stefndi geri slíka kröfu. Í þessu sambandi bendir stefndi einkum á að í kröfugerð stefnanda sé vísað til átta starfsmanna sem hæst laun hafi hjá stefnda án þess að ráðið verði af kröfugerð hverjir þessir átta starfsmenn séu eða hver tengsl þeirra séu við málið. Verði því ekki ráðið af kröfugerðinni hvort þessir átta starfsmenn geti verið óstefndir aðilar málsins.
Óumdeilt er að frá því að stefnandi hætti störfum hjá stefnda hefur verið miðað við þá reiknireglu að eftirlaun hans hafa verið sem nemur 77,04% hærri fjárhæð en meðaltal launa átta tekjuhæstu starfsmanna stefnda í samræmi við ákvæði í eftirlaunasamningi aðila. Í eftirlaunasamningnum er í engu getið hverjir umræddir átta starfsmenn séu enda kann það að vera breytilegt frá einum tíma til annars hverjir átta starfsmenn stefnda hafi hæstu launin. Niðurstaða í máli þessu varðar ekki á nokkurn hátt hina átta starfsmenn sem hæst laun hafa á hverjum tíma hjá stefnda heldur eru laun þeirra aðeins grundvöllur að útreikningi eftirlauna stefnanda og hafa þeir enga hagsmuni af úrlausn þessa máls og reynir því ekki á aðild þeirra samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili, ef hann hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Gildir þetta án tillits til þess hvort honum væri þess í stað unnt að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Dómkrafa stefnanda varðar viðurkenningu á tilteknum réttindum og er engum vafa undirorpið hvaða réttindi hann þannig telur sig eiga á hendur stefnda. Þykir kröfugerð hans því fullnægja d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð.
Ágreiningur í máli þessu lýtur að því fyrst og fremst hvað felist í orðalaginu „útreiknuðum launum“ þeirra átta starfsmanna stefnda sem eftirlaun stefnanda miðast við, sbr. eftirlaunasamning aðila. Ekki er deilt um það við laun hverra eigi að miða heldur hvort inn í laun þeirra skuli reikna verðmæti kaupréttarsamninga. Heldur stefnandi því fram að slíkir kaupréttarsamningar séu hluti af útreiknuðum launum og ef undanskilja hefði átt slíkar greiðslur hefði þurft að taka það sérstaklega fram í samkomulagi aðila frá 1977. Telur stefnandi að verðmæti kaupréttarsamninga falli ótvírætt undir launahugtak samkomulags aðila.
Svokallaðir kaupréttarsamningar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri á íslenskum vinnu- og fjármálamarkaði og voru lög um skattalega meðferð þeirra fyrst sett á árinu 2000. Slíkir samningar stóðu tilteknum starfsmönnum stefnda til boða á árinu 2003. Þegar eftirlaunasamningur aðila var gerður á árinu 1977 þekktust slíkir samningar varla og því kom ekki til álita að geta um það í samningi aðila hvernig með slíka samninga skyldi fara varðandi eftirlaun stefnanda. Verður því ekki af orðalagi samnings aðila dregin nein ályktun um hvort umræddir kaupréttarsamningar séu laun í skilningi hans.
Í 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt segir að skattskyldar tekjur teljist með þeim undantekningum og takmörkunum sem síðar greini, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Er svo nánar tilgreint í stafliðum A, B og C hvaða tekjur séu skattskyldar. Í A-lið ákvæðisins tölulið 1 segir að til skattskyldra tekna teljist endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljist til dæmis hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki.
Þá er sérákvæði um skattalega meðferð kaupréttarsamninga í 9. gr. laganna og kemur þar fram að til skattskyldra tekna teljist mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur.
Af framangreindri upptalningu er ljóst að til skattskyldra tekna telst endurgjald fyrir hvers konar vinnu sem innt er af hendi fyrir annan aðila og falla eftirlaun meðal annars þar undir. Þá er ljóst af framangreindri upptalningu að það er mun fleira en laun sem telst til skattskyldra tekna og er tekjuhugtakið því mun víðtækara en launahugtakið. Þótt ekki leiki vafi á því að söluhagnaður, sem myndast við að fyrirtæki bjóði starfsmönnum sínum kaup á hlutabréfum í félaginu samkvæmt kauprétti, sé skattskyldar tekjur, leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að þær tekjur séu laun. Tilvísun stefnanda til dóma, þar sem tekin hafi verið af öll tvímæli um meðferð kaupréttarsamninga í skattalegu tilliti, sýna ekki fram á annað en að umræddar tekjur séu skattskyldar, en renna ekki stoðum undir að þar með séu verðmæti kaupréttarsamninganna hluti af þeim launum sem eftirlaun stefnanda miðast við samkvæmt samningi aðila.
Stefnandi heldur því fram að kaupréttarsamningar séu ein tegund svokallaðra ábatagreiðslna þar sem verðmæti þeirra ráðist alfarið af gengi fyrirtækisins. Á árinu 2002 voru starfsmönnum stefnda greiddar ábatagreiðslur og ákvað stefndi að stefnandi ætti að njóta góðs af því og með samkomulagi aðila voru eftirlaun hans leiðrétt af þeim sökum vegna ársins 2002. Telur stefnandi að með því samkomulagi hafi stefndi viðurkennt að ábatagreiðslur beri að reikna inn í viðmiðunarlaun þau sem eftirlaun stefnanda taka mið af. Þar sem ábatagreiðslur og kaupréttarsamningar séu sama fyrirbærið hafi stefndi með framangreindu samkomulagi um ábatagreiðslu viðurkennt að reikna beri hagnað af kaupréttarsamningum hinna átta starfsmanna stefnda sem eftirlaun stefnanda byggi á.
Ábatagreiðslur eða bónusgreiðslur eru greiðslur sem greiðast til viðbótar við umsamin laun vegna afkasta eða árangurs einstaks starfsmanns eða hóps starfsmanna. Kaupréttur starfsmanna að hlutabréfum í félagi felst hins vegar í því að rétthafinn öðlast rétt til að kaupa tiltekin hlutabréf á fyrirfram ákveðnu og föstu gengi á tilteknum tíma eða tímabili. Eins og felst í orðinu sjálfu er rétthafinn ekki skuldbundinn til kaupanna heldur hefur hann rétt til þess ef hann getur fjármagnað kaupin. Kaupréttur felur því ekki í sér greiðslu til starfsmannsins heldur aðeins réttindi sem hann sjálfur velur hvort hann nýtir sér. Nýti hann sér kaupréttinn og hagnist við sölu hlutabréfanna er sá hagnaður skattskyldur.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að um er að ræða tvo allsendis ólíka kosti og breytir þar engu þótt verðmæti hvors um sig sé reiknað út frá verðmæti hlutafjár. Fólst því engin viðurkenning á því af hálfu stefnda, þegar hann ákvað að reikna ábatagreiðslur vegna ársins 2002 inn í viðmiðunarlaun þau sem eftirlaun stefnanda miðast við, að það sama gilti um kaupréttinn. Þá verður ekki af gögnum málsins séð að hægt sé að draga víðtækari ályktun af framangreindri ákvörðun en að hún hafi aðeins tekið til ábatagreiðslna vegna ársins 2002. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið og kröfugerð stefnanda þykja ekki efni til að fjalla frekar um ábatagreiðslur stefnda.
Megin inntak launahugtaksins eins og það hefur verið skilgreint í vinnurétti er að um sé að ræða endurgjald fyrir vinnu í hvaða formi sem er. Samkvæmt orðanna hljóðan felur réttur til þess að kaupa hlutafé ekki í sér annað en rétt sem rétthafinn ræður hvort hann nýtir sér. Verður rétti sem þessum á engan hátt jafnað við endurgjald fyrir vinnuframlag og því veður hann á engan hátt talinn felast í útreiknuðum launum samkvæmt eftirlaunasamningi aðila. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að fella niður málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Grímur Sigurðsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Arnar Þór Jónsson hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, FL Group hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Helgasonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.