Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-162
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fjármálafyrirtæki
- Gengistrygging
- Lánssamningur
- Málflutningsyfirlýsing
- Málsástæða
- Réttaráhrif dóms
- Vextir
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 9. maí 2019 leitar Innnes ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 806/2018: Innnes ehf. gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur í málinu lýtur að uppgjöri þriggja lána sem leyfisbeiðandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. á árunum 2006 og 2007 en kröfur vegna þeirra komust í eigu gagnaðila í október 2008. Er deilt um hvort tvö þessara lána hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá greinir aðilana á um hvort gagnaðila beri vegna þriðja lánsins að standa leyfisbeiðanda skil á almennum vöxtum af óverðtryggðum útlánum af inneign hans sem myndast hafi við endurútreikning lánsins í desember 2011 allt frá janúar 2009, en óumdeilt er að það lán hafi verið í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af endurgreiðslukröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann til þess að aðilarnir hafi áður deilt um uppgjör annars láns sem leyfisbeiðandi hafi tekið hjá Landsbanka Íslands hf. á árinu 2006 en sá ágreiningur hafi verið til lykta leiddur með dómi Hæstaréttar 2. febrúar 2017 í máli nr. 242/2016. Hafi aðilarnir gert samkomulag um að niðurstaðan í því máli yrði lögð til grundvallar fyrir önnur lán leyfisbeiðanda hjá gagnaðila um það hvort miðað yrði við samningsvexti við endurútreikning á lánum í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Við munnlegan flutning þess máls fyrir Hæstarétti hafi gagnaðili andmælt útreikningum leyfisbeiðanda vegna þeirra þriggja lána sem mál þetta varðar en Hæstiréttur talið þær málsástæður of seint fram komnar. Telur leyfisbeiðandi að gagnaðili hafi fyrirgert rétti til að andmæla kröfum sínum vegna umræddra lána þar sem slík andmæli hafi ekki verið höfð uppi í máli nr. 242/2016, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi dómur Hæstaréttar í því máli fullt sönnunargildi um málsatvik að þessu leyti, sbr. 4. mgr. 116. gr. sömu laga. Mál þetta geti þannig haft fordæmisgildi um skýringu framangreindra lagaákvæða og það álitaefni hvort athafnir, athafnaleysi og yfirlýsingar aðila í einu máli geti bundið hendur hans í öðru máli.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.