Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2013
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Fasteignasala
- Fyrirtækjakaup
- Samruni
- Endurskoðandi
- Skaðabætur
- Eigin sök
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2013. |
|
Nr. 302/2013.
|
Eyvindur Jóhannsson (Kristján Stefánsson hrl. Stefán Karl Kristjánsson hdl.) gegn KPMG ehf. KPMG lausnum ehf. KPMG FS ehf. Einari Sveinbjörnssyni og Benedikt Kjartani Magnússyni (Sigurður G.Guðjónsson hrl. Tómas Hrafn Sveinsson hdl.) og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og (Kristín Edwald hrl.) Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Einkahlutafélag. Fasteignasala. Fyrirtækjakaup. Samruni. Endurskoðandi. Skaðabætur. Eigin sök.
E seldi F ehf. tvö einkahlutafélög, V ehf. og S ehf., á árinu 2007. F ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta á árinu 2010, greiddi kaupverðið einungis að hluta og lýsti E fjórum kröfum í þrotabú félagsins, en E naut engra trygginga fyrir greiðslu kaupverðsins úr hendi F ehf. E krafði jafnframt K ehf., KL ehf., KF ehf., ES og B um skaðabætur vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna aðkomu þeirra að sölunni og nam samanlagðri fjárhæð krafna hans í þrotabú F ehf. Deildu aðilar m.a. um það hvort K ehf., KF ehf. og B hefðu haft milligöngu um söluna í skilningi laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og hvort þeim hefði þannig borið að gæta jafnframt að hagsmunum E í viðskiptunum. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að í verkefnistillögu um kaupin, sem B hefði undirritað af hálfu K ehf., hefði komið fram að vinna K ehf., fyrir hönd kaupanda, hefði falist í því að meta félögin til verðs, koma á samningi um kaupin og annast skjalagerð um þau. Hefði það gengið eftir auk þess sem K ehf. hefði tekið að sér samkvæmt sérstöku samkomulagi að varðveita skjöl bæði í þágu seljanda og kaupanda. Hefðu verkefni þessi verið slík að þau yrði að telja til milligöngu um kaup á atvinnufyrirtækjum í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2004. Samkvæmt 15. gr. laganna hefði K ehf. því borið að liðsinna og gæta hagsmuna bæði seljanda og kaupanda. Undan þeirri skyldu yrði hvorki vikist þótt F ehf. hefði einn leitað eftir þjónustu þeirra né með því að vísa til þess að E hefði notið ráðgjafar annars manns. Hefðu K ehf. og B vanrækt að gæta hagsmuna E, m.a. með því að gera honum ekki skýra grein fyrir þeirri áhættu sem í viðskiptunum hefði falist þar sem F ehf. var veittur gjaldfrestur á meira en helmingi kaupverðs án þess að settar hefðu verið fullnægjandi tryggingar fyrir efndum. B hefði jafnframt verið kunnugt um það að veittar hefðu verið tryggingar til banka fyrir láni sem F ehf. tók til að greiða kaupverð félaganna og yrði ekki séð að F ehf. hefði nokkuð átt sem staðið hefði getað til fullnustu á kröfum E ef á það myndi reyna. Yrði tjón E því nægilega rakið til þessarar vanrækslu. Þá taldi Hæstiréttur að yfirlýsing ES í skýrslu endurskoðanda um samrunaáætlun vegna samruna F ehf. og V ehf. þess efnis að ekki yrði séð að sameining félaganna kæmi til með að rýra verulega möguleika lánardrottna á fullnustu krafna í hvoru félagi um sig, hefði ekki fengið staðist. Vegna þessarar vangæslu hefði E farið á mis við að njóta réttar samkvæmt 101. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög til að fá tryggingar fyrir þeim fjárhæðum sem hann átti ógreiddar frá F ehf. af kaupverðinu. Voru K ehf., KF ehf., B og ES taldir bera skaðabótaábyrgð á tjóni E, en hann var þó látinn bera þriðjung af tjóni sínu sjálfur þar sem hann hafði bæði talsverða reynslu af viðskiptum og látið undir höfuð leggjast að gera eðlilegar og nauðsynlegar ráðstafanir til að gæta hagsmuna sinna í viðskiptunum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2013. Hann krefst þess að stefndu verði gert óskipt að greiða sér 213.315.879 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. apríl 2010 til 15. janúar 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Réttargæslustefndu gera engar kröfur fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins stofnaði áfrýjandi ásamt öðrum á árinu 1995 félag með heitinu Vinnulyftur ehf., en að auki stóð hann 2001 einn að stofnun annars félags, Smiðsbúðar 12 ehf. Fyrrnefnda félagið mun einkum hafa fengist við innflutning, sölu og útleigu á vinnupöllum, vinnulyftum og öðrum vinnuvélum, en það síðarnefnda virðist hafa verið stofnað um eignarhald að fasteign að Smiðsbúð 12 í Garðabæ, þar sem starfsemi þess fyrrnefnda fór fram. Í ársbyrjun 2007 mun áfrýjandi hafa átt allt hlutafé í þessum tveimur félögum, sem nam 500.000 krónum í hvoru, en fyrir liggur að á fyrri hluta þess árs hafi fleiri en einn sýnt því áhuga að kaupa þau. Meðal þeirra voru Eiður Ingi Sigurðarson og Gestur Már Þráinsson, sem á þeim tíma munu hafa átt félagið Smíðanda ehf. Stefndi KPMG ehf. gerði 18. apríl 2007 skjal með fyrirsögninni: „Verkefnistillaga um þjónustu vegna kaupa á Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf.“, sem var beint til Smíðanda ehf. og undirritað sama dag af Eiði og Gesti ásamt stefnda Benedikt Kjartani Magnússyni af hálfu hins stefnda félags. Í skjali þessu kom fram að tillagan, sem það snerist um, væri reist á upplýsingum, sem hafi komið fram á fundi stefnda KPMG ehf. með Eiði og Gesti 10. sama mánaðar, en þar hafi einnig verið staddur „fyrirhugaður samstarfsaðili þeirra í verkefninu“ að nafni Elías Ívarsson, sem eftir öðrum gögnum málsins var á þeim tíma starfsmaður Vinnulyfta ehf. og hæstráðandi í fyrirtækinu að baki áfrýjanda. Samkvæmt skjalinu hafði Smíðandi ehf. hug á að kaupa Vinnulyftur ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. til að „reka áfram leigu og sölu á vinnulyftum og tengdum búnaði.“ Stefndi KPMG ehf. hafi „þegar sett sig í samband við eiganda“, sem hafi samþykkt að starfsmenn þessa stefnda fengju ársreikninga og önnur nauðsynleg gögn „til að gera tilboð í félögin.“ Væri markmið vinnu þessa stefnda að „ná samningum um kaup og fjármögnun“ á félögunum tveimur og hefði Smíðandi ehf. hug á að ráða þennan stefnda „sem ráðgefandi aðila við kaupin, fjármögnun þeirra, áreiðanleikakönnun og frágang viðskipta.“ Verkinu yrði skipt í fjóra áfanga, þar sem sá fyrsti væri „frumskoðun, fjárhagsleg uppbygging og skilgreining samningsramma“, en undir hann ætti meðal annars að heyra verðmat á félögunum, mat á áætlunum þeirra og greiðslugetu, gerð hugmynda „að uppbyggingu fjármögnunar“ og skilgreining á svonefndum samningsramma, þar á meðal hámarksverði og leiðum við frágang kaupanna. Í öðrum áfanga yrðu formlegar viðræður við seljanda og „kynning til fjármálafyrirtækja og fjárfesta“, þar sem stefndi KPMG ehf. kæmi fram fyrir hönd kaupanda í „formlegum samningum“ við seljanda og myndi meðal annars veita kaupanda ráð um við hvaða fjármálafyrirtæki mætti ræða og sitja fundi með þeim. Þessum áfanga lyki þegar drög að kaupsamningi, kauptilboð eða viljayfirlýsing um kaupin hefði verið undirrituð af kaupanda og seljanda. Í þriðja áfanga myndi þessi stefndi veita kaupandanum ráðgjöf um og aðstoð við gerð samninga við svonefnda fjármögnunaraðila og lyki áfanganum þegar kaupin teldust að fullu fjármögnuð. Í fjórða áfanganum yrði síðan gerð áreiðanleikakönnun og gengið frá samningum um kaupin. Í skjalinu var getið um fjóra menn, sem kæmu „að verkefninu fyrir hönd KPMG“, og var tekið fram að stefndi Benedikt myndi leiða það. Einnig voru ákvæði um „þóknun KPMG“, sem yrði árangurstengd og næmi 10.000.000 krónum miðað við heildarkaupverð að fjárhæð 500.000.000 krónur, sem tæki mið af eigin fé félaganna „að viðbættum vaxtaberandi skuldum“, en til viðbótar ætti að greiða 250.000 krónur „fyrir hverjar 10 m.kr. sem kaupverð lækkar frá ofangreindu viðmiðunarverði.“
Í málinu liggja fyrir tölvubréf, sem gengu 15., 16. og 21. maí 2007 milli starfsmanns stefnda KPMG ehf. og Jóns Sævars Þorbergssonar viðskiptafræðings, sem mun hafa annast bókhald og reikningsskil fyrir Vinnulyftur ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. á þeim tíma, en af bréfunum verður ráðið að Jón hafi áður sent þessum stefnda gögn varðandi fjárhag félaganna. Um þær mundir virðist Jón einnig hafa átt í samskiptum við annan mann, sem stóð síðan ásamt öðrum að tilboði í Vinnulyftur ehf. 25. sama mánaðar, en því var ekki tekið.
Stefndi KPMG FS ehf., sem þá hét CF Fyrirtækjasala ehf., stofnaði 27. mars 2007 félagið FS21 ehf. og voru stefndi Benedikt og Ágúst Þórhallsson kjörnir í stjórn þess. Fyrir liggur í málinu að Ágúst hafði réttindi til að vera héraðsdómslögmaður og hafði jafnframt aflað sér löggildingar sem fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali á grundvelli 6. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, en í umsókn hans um síðarnefndu starfsréttindin 12. október 2006 var þess getið að starfstöð hans væri hjá CF Fyrirtækjasölu ehf. Í skýrslu, sem Ágúst gaf fyrir héraðsdómi, kom fram að hann hafi á þeim tíma, sem atvik málsins gerðust, verið starfsmaður stefnda KPMG ehf. og átt meiri hluta í stefnda KPMG FS ehf. Síðarnefnda félagið hafi stofnað „nokkur FS félög“ og hafi FS21 ehf. verið eitt af þeim. Stefndi Benedikt lýsti því svo í skýrslu sinni fyrir dómi að FS21 ehf. væri „eitt af þessum skúffufélögum sem KPMG er með á reiðu þegar menn vilja grípa í þau og þurfa þau fljótt.“ Stefndi KPMG FS ehf. gerði 22. maí 2007 kaupsamning við áðurnefnda Eið Inga Sigurðarson, Gest Má Þráinsson og Elías Ívarsson um alla hluti í FS21 ehf., sem voru að nafnverði 500.000 krónur, og gaf um leið út afsal til þeirra fyrir hlutunum. Sama dag héldu kaupendurnir hluthafafund í FS21 ehf. og veittu þar samkvæmt fundargerð „fyrirtækjasviði KPMG Benedikt K. Magnússyni heimild til þess að koma fram fyrir hönd félagsins og gera tilboð í allt hlutafé í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. fyrir samtals allt að 475 m.kr. að frádregnum vaxtaberandi skuldum félaganna.“ Í fundargerðinni var þess jafnframt getið að „eigendur félagsins bera fulla ábyrgð á þeim skuldbindingum sem félagið tekur á sig og þessar aðgerðir kunna að leiða af sér“, svo og að „starfsmenn KPMG munu koma fram fyrir hönd félagsins og munu sitja í stjórn félagsins allt þar til útséð verður með tilraunir til að kaupa félagið.“
Stefndi Benedikt undirritaði 22. maí 2007 tilboð fyrir hönd FS21 ehf. til áfrýjanda um kaup á öllu hlutafé í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. og sagði í upphafi tilboðsins að það væri gert „í framhaldi af viðræðum undanfarna daga“. Boðnar voru 425.000.000 krónur fyrir hlutina „að frádregnum vaxtaberandi skuldum og skuldum við eigendur þann 31.12.2006“, en þær væru samtals 22.588.167 krónur hjá Vinnulyftum ehf. og 30.393.316 krónur hjá Smiðsbúð 12 ehf. Af kaupverðinu yrðu 250.000.000 krónur greiddar við undirritun kaupsamnings, 75.000.000 krónur með verðtryggðu skuldabréfi til þriggja ára, sem bæri 7% ársvexti, og 100.000.000 krónur með peningum 31. mars 2008. Tilboðið væri gert með ýmsum nánar tilgreindum fyrirvörum, þar á meðal um „breytingar sem kunna að koma í ljós við áreiðanleikakönnun“, svo og að áfrýjandi bæri ábyrgð á ófyrirséðum kröfum, sem ættu rætur að rekja til þess tíma þegar hann hafi rekið félögin. Þá var einnig tekið fram að kaupverðið tæki mið af drögum að ársreikningum félaganna fyrir 2006 og ábyrgðist áfrýjandi að engar óeðlilegar breytingar hafi orðið á efnahag þeirra eða rekstri, sem hafi rýrt verðmæti þeirra umfram það sem telja yrði hluta af venjubundinni starfsemi. Arðgreiðslur fyrir árið 2006 og aðrar úttektir áfrýjanda 2007 kæmu til lækkunar á kaupverði, en miðað yrði við „að þessi einkakostnaður liggi fyrir 1. ágúst 2007 og komi til lækkunar á kaupverði og greiðslu þann 31. mars 2008.“ Jafnframt var gerður áskilnaður um að áfrýjandi veitti tilboðsgjafa „heimild til að ræða við Elías Ívarsson sem er lykilstarfsmaður hjá Vinnulyftum ehf. til að fá fullvissu um að hann muni áfram starfa hjá félaginu.“ Þá var áskilið að áfrýjandi léti af störfum hjá félögunum strax eftir gerð kaupsamnings og tæki á sig skuldbindingu um að standa ekki í samkeppni við tilboðsgjafa næstu fimm árin, en fyrir hvert einstakt brot gegn þessu bæri honum að greiða tilboðsgjafa skaðabætur, sem næmu fjórðungi af kaupverðinu. Frestur til að svara tilboðinu átti að renna út á hádegi 23. maí 2007.
Óumdeilt er í málinu að áfrýjandi hafnaði framangreindu tilboði, en eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hafa áfrýjandi og stefndi Benedikt lýst atvikum í því sambandi með ólíkum hætti. Fyrir liggur að í framhaldi af þessu gerði stefndi Benedikt áfrýjanda nýtt tilboð fyrir hönd FS21 ehf. og var það einnig dagsett 22. maí 2007, en fyrir dómi kvað þessi stefndi dagsetninguna hafa verið ranga og hafi nýja tilboðið verið gert 23. eða 24. sama mánaðar. Um þau efnisatriði, sem áður var getið, var nýja tilboðið á sama veg og það fyrra að frátöldum ákvæðum um kaupverð, sem átti að verða 455.000.000 krónur og greiðast þannig að inntar yrðu af hendi 260.000.000 krónur við undirritun kaupsamnings, 90.000.000 krónur með skuldabréfi og 105.000.000 krónur með peningum 31. mars 2008. Þá hafði jafnframt verið bætt við nýju ákvæði í tengslum við kaupverðið, sem hljóðaði svo: „Forsenda fyrir kaupunum er að leigutekjur og söluhagnaður (saman nefnt „heildartekjur“) hafi vaxið um 7% á fyrstu sex mánuðum ársins frá sama tíma á síðasta ári. Reynast heildartekjur lægri lækkar kaupverð krónu á móti krónu og kemur til lækkunar á greiðslu 31. mars 2008.“ Nýja tilboðið átti að standa til hádegis 25. maí 2007, en þeim fresti var svo breytt með áritun á tilboðið í miðnætti 26. sama mánaðar. Ágreiningslaust er að áfrýjandi samþykkti tilboðið innan þess frests.
Af gögnum málsins verður ráðið að eftir samþykki tilboðsins hafi farið í hönd vinna við áreiðanleikakönnun vegna kaupanna, sem PricewaterhouseCoopers ehf. annaðist, en fyrrnefndur Jón Sævar Þorbergsson virðist hafa komið fram af hálfu áfrýjanda í þessu sambandi gagnvart því félagi og stefnda KPMG ehf. með því að veita upplýsingar og láta af hendi gögn. Drög að niðurstöðum könnunarinnar munu hafa legið fyrir 9. júlí 2007. Í tölvubréfi, sem stefndi Benedikt sendi Jóni þann dag, var greint frá því að í drögunum væri að finna ýmsar athugasemdir um að fullnægjandi gögn hafi ekki borist, en tekið var fram að „við teljum mjög mikilvægt að það verði gengið frá kaupsamningi, afhendingu og greiðslu á næstu dögum“ og yrðu því líklega settar „einhverjar viðbótarábyrgðir eða þess háttar í kaupsamning til að hægt sé að ganga frá málinu hið fyrsta.“ Þess var þó getið að strax þyrfti að skýra ástæður þess að tékkareikningur væri „neikvæður um 25 m.kr.“ Í óundirrituðu bréfi, sem stefndi KPMG ehf. sendi áfrýjanda sama dag, var tekið fram að félagið hafi „veitt FS21 ehf. ... ráðgjöf um fyrirhuguð kaup á öllu hlutafé“ í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. og yrði að benda áfrýjanda á að uppvíst hafi orðið um „ólögmæta úttekt“ hans úr rekstri félaganna, sem næmi um 20.000.000 krónum. Áfrýjandi hafi borið fyrir sig að samþykkta kauptilboðið kvæði á um heimild hans til slíkra ráðstafana, þar sem úttektir sem þessar kæmu til frádráttar greiðslu af kaupverði 31. mars 2008. Stefndi KPMG ehf. teldi úttektina undir engum kringumstæðum geta talist þátt í daglegum rekstri félaganna, hún hefði í för með sér verulega breytingu á efnahag þeirra og væri að auki refsiverð eftir 126. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Kaupandinn krefðist þess því að áfrýjandi endurgreiddi þessa fjárhæð eða hún kæmi til frádráttar fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi þeirra.
Fyrirtækjaskrá barst 9. júlí 2007 tilkynning, sem dagsett var 5. júní sama ár, um að Eiður Ingi Sigurðarson, Gestur Már Þráinsson og Elías Ívarsson hafi tekið sæti í nýrri stjórn FS21 ehf. og færi hver þeirra um sig með prókúruumboð fyrir félagið, en Elías væri framkvæmdastjóri þess. Óumdeilt virðist vera í málinu að áfrýjanda hafi fyrst orðið kunnugt um að þessir þrír menn stæðu að kaupunum þegar fundur var haldinn 11. júlí 2007 til að rita undir kaupsamning og önnur skjöl vegna þeirra. Samkvæmt skýrslu stefnda Benedikts fyrir héraðsdómi veitti hann ásamt öðrum starfsmönnum stefnda KPMG ehf. kaupandanum aðstoð við samningsgerð um öflun lána vegna kaupanna hjá Glitni banka hf. og hafi henni verið lokið þegar kom að undirritun kaupsamningsins. Hann kvað bankann hafa krafist þess að fá tryggingu fyrir lánum með veði „í tækjum og fasteignum“ og fyndist honum „mjög líklegt“ að bankinn hafi krafist þar fyrsta veðréttar.
Kaupsamningurinn milli áfrýjanda og FS21 ehf. 11. júlí 2007 var undirritaður á starfstöð stefnda KPMG ehf. Í honum kom fram að hann væri um alla hluti í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. og væri kaupverð þeirra 453.893.997 krónur „að frádregnum vaxtaberandi skuldum og skuldum við eigendur þann 31.12.2006.“ Af samningnum verður ráðið að lækkun kaupverðsins frá því, sem ráðgert var í samþykktu tilboði, verði rakin til þess að ótilgreindar breytingar hafi orðið „á eigin fé“, sem næmu 901.809 krónum, og kæmu jafnframt til frádráttar án frekari skýringa 204.194 krónur út af „bifreið fastanr. XI 400“. Kaupverðið ætti að inna af hendi í fyrsta lagi með 258.893.997 krónum „innan 3ja virkra daga frá undirritun kaupsamnings“, í öðru lagi með „óverðtryggðu skuldabréfi til 3 ára“ að fjárhæð 90.000.000 krónur, sem bæri 10,5% ársvexti og yrði afhent við undirritun samningsins, og í þriðja lagi með peningagreiðslu 31. mars 2008 að fjárhæð 105.000.000 krónur. Þrátt fyrir áðurgreind ákvæði um greiðslu á 258.893.997 krónum sagði í kaupsamningnum að sá hluti verðsins ætti að greiðast að fullu við undirritun hans og yrði „ráðstöfun kaupverðs“ að því leyti með þeim hætti að til frádráttar kæmi „niðurgreiðsla vaxtaberandi skulda“ annars vegar Vinnulyfta ehf., 22.628.279 krónur, og hins vegar Smiðsbúðar 12 ehf., 30.393.316 krónur, og endurgreiðsla „vegna hluta úttektar seljanda hjá hinu selda“ að fjárhæð 20.000.000 krónur. Samkvæmt því yrði mismunurinn, 185.872.402 krónur, lagður inn á bankareikning áfrýjanda. Um kaupverðið að öðru leyti var tekið fram á sama hátt og í kauptilboðinu að áfrýjandi ábyrgðist að leigutekjur og söluhagnaður hafi aukist um 7% á fyrstu sex mánuðum ársins 2007 í samanburði við sama tíma 2006, en reyndust þær tekjur lægri myndi kaupverðið lækka um „krónu á móti krónu“ og kæmi sú lækkun til frádráttar greiðslu 31. mars 2008. Þá var vísað til þess að kaupverðið tæki mið af ársreikningum félaganna fyrir 2006 og bæri áfrýjandi ábyrgð á að engar óeðlilegar breytingar hefðu orðið á efnahag félaganna eða rekstri eftir það. Arðgreiðslur fyrir 2006 og „önnur úttekt eigenda á árinu 2007“ kæmi til lækkunar á kaupverðinu, en miðað skyldi við „að þessi einkakostnaður liggi fyrir 30. september 2007 og komi til lækkunar á ... greiðslu þann 31. mars 2008.“ Að auki var mælt svo fyrir að áfrýjandi ábyrgðist að ekki væri fyrir að fara öðrum samningsbundnum skuldbindingum félaganna eða ósamningsbundnum kröfum á hendur þeim, þar á meðal um skaðabætur eða vegna rangra skattskila, en kæmi slíkt fram ætti kaupandi endurkröfu á hendur áfrýjanda. Jafnframt sagði að við áreiðanleikakönnun hafi ekki fengist öll gögn, sem óskað hafi verið eftir, og áskildi kaupandi sér rétt til að gera athugasemdir ef slík gögn leiddu í ljós atriði, sem hefðu veruleg áhrif á verðmæti félaganna eða aðrar forsendur kaupanna. Þá hafi sú könnun leitt í ljós að „yfirfærsluverð vegna fasteignarinnar að Smiðsbúð 12 virðist ekki hafa verið í samræmi við markaðsverð“ og kynnu því skattyfirvöld að gera breytingar á opinberum gjöldum, en til að tryggja kaupanda fyrir slíku gæfi áfrýjandi út tryggingarbréf fyrir 30.000.000 krónum með veði í tiltekinni fasteign sinni, sem standa ætti til þriggja ára. Samkvæmt kaupsamningnum átti að afhenda hina seldu hluti með skráningu þeirra á nafn kaupanda í hlutaskrá um leið og fyrsta greiðsla kaupverðsins væri innt af hendi, en kaupandi tæki frá þeim tíma við stjórn og rekstri félaganna. Loks voru sams konar ákvæði í kaupsamningnum og fram komu í tilboði um bann við því að áfrýjandi hæfi samkeppni við kaupanda.
Samhliða því að framangreindur kaupsamningur var undirritaður gaf FS21 ehf. út skuldabréf til áfrýjanda að fjárhæð 90.000.000 krónur og sagði við fyrirsögn þess að það væri óverðtryggt með föstum vöxtum. Í bréfinu var kveðið á um að skuldin ætti að greiðast í einu lagi 1. ágúst 2010 og bæri hún 10,5% ársvexti frá útgáfudegi, en þeir yrðu greiddir 1. ágúst ár hvert. Áfrýjandi gaf einnig út tryggingarbréf með veðrétti í fasteign fyrir 30.000.000 krónum í samræmi við áðurgreint ákvæði í kaupsamningnum og var fjárhæð bréfsins bundin við vísitölu neysluverðs. Loks undirrituðu áfrýjandi, fyrrnefndir stjórnarmenn í FS21 ehf. og stefndi Benedikt af hálfu stefnda KPMG ehf. samkomulag, þar sem sagði meðal annars: „KPMG hf. tekur að sér að geyma þau skjöl þ.m.t. kaupsamning milli aðila þar til gengið hefur verið frá nauðsynlegum skjölum milli kaupanda og fjármögnunaraðila og vaxtaberandi skuldir félaganna gerðar upp ásamt hluta eigin úttektar seljanda og greiðsla hefur borist seljanda í samræmi við lið 2.2. í kaupsamningi milli aðila. Þegar slíkar greiðslur hafa farið fram eru aðilum kaupanna afhent þau skjöl sem KPMG hf. hefur tekið til geymslu við undirritun samkomulags þessa.“
Óumdeilt er að áfrýjandi fékk greiddar þær 185.872.402 krónur, sem mælt var fyrir um í kaupsamningnum samkvæmt áðursögðu, svo og að hlutir í félögunum tveimur hafi verið skráðir á nafn kaupanda í hlutaskrám þeirra, en í tilkynningum 12. júlí 2007, sem bárust fyrirtækjaskrá degi síðar, kom fram að Eiður Ingi Sigurðarson, Gestur Már Þráinsson og Elías Ívarsson hafi 11. sama mánaðar verið kjörnir í nýjar stjórnir Vinnulyfta ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf. Þá undirritaði áfrýjandi 10. ágúst 2007 yfirlýsingu um staðfestingu á því að „KPMG“ hafi afhent honum eintak af kaupsamningnum frá 11. júlí sama ár, skuldabréfið að fjárhæð 90.000.000 krónur og hlutaskrár í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf., sem jafnframt væru dagsettar þann dag.
Stjórnir Vinnulyfta ehf. og FS21 ehf., sem voru skipaðar sömu mönnum eins og áður var getið, undirrituðu 23. nóvember 2007 áætlun um samruna félaganna. Þar kom fram að stjórnirnar væru sammála um að sameina félögin „undir kennitölu Vinnulyfta ehf.“ eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 138/1994 og ættu samþykktir Vinnulyfta ehf. að gilda óbreyttar um sameinaða félagið. Yrði samruninn miðaður við 1. september 2007 og tæki Vinnulyftur ehf. við öllum rekstri, réttindum og skyldum FS21 ehf. frá þeim tíma. Þá sagði jafnframt að FS21 ehf. væri eigandi allra hluta í Vinnulyftum ehf. og væri því um að ræða „öfugan samruna“ með því að síðarnefnda félagið yfirtæki „allt hlutafé móðurfélags síns“. Þyrfti því ekki að ákveða endurgjald fyrir hlutina í FS21 ehf. og félli hlutafé í því félagi niður við samrunann, en hlutafé sameinaða félagsins yrði óbreytt eða 500.000 krónur. Í greinargerð stjórnanna, sem fylgdi samrunaáætluninni, komu sömu efnisatriði fram ásamt því að tilgangur með samrunanum væri „að einfalda rekstur samstæðunnar og minnka rekstrarkostnað.“ Þá fylgdi einnig skýrsla matsmanns vegna samruna félaganna, þar sem sömu atriði voru enn tiltekin ásamt eftirfarandi yfirlýsingu: „Ekki verður séð að sameining félaganna komi til með að rýra verulega möguleika lánardrottna á fullnustu krafna í hverju félagi um sig.“ Undir skýrsluna ritaði stefndi Einar Sveinbjörnsson af hálfu stefnda KPMG ehf. Gögn þessi bárust fyrirtækjaskrá 29. nóvember 2007 og birti hún auglýsingu um samrunann í Lögbirtingablaði 5. desember sama ár. Í henni var þess meðal annars getið að borist hafi samrunaáætlun ásamt fylgiskjölum, þar með talin yfirlýsing matsmanns samkvæmt 4. mgr. 97. gr. laga nr. 138/1994 um „að samruninn rýri ekki möguleika lánardrottna á fullnustu í hinum einstöku félögum.“
Hluthafafundir voru haldnir 7. janúar 2008 í FS21 ehf. og Vinnulyftum ehf., þar sem samruni félaganna var samþykktur af öllum hluthöfum. Stefndi KPMG ehf. sendi fyrirtækjaskrá gögn um þetta ásamt bréfi 18. sama mánaðar, þar sem fram kom að samruni félaganna hafi endanlega verið staðfestur og væri því óskað eftir að FS21 ehf. yrði afmáð úr fyrirtækjaskrá. Með þessu bréfi fylgdi jafnframt samrunaefnahagsreikningur sameinaða félagsins, sem miðaður var við 31. ágúst 2007. Í yfirliti þar um fastafjármuni félaganna kom fram að slíkar eignir FS21 ehf. hafi verið fólgnar í hlutum í Smiðsbúð 12 ehf. og Vinnulyftum ehf. og væri andvirði þeirra fyrrnefndu 226.242.918 krónur og þeirra síðarnefndu 174.629.484 krónur eða samtals 400.872.402 krónur. Fastafjármunir Vinnulyfta ehf. hafi verið áhöld og tæki að verðmæti 119.727.912 krónur. Í svonefndum jöfnunarfærslum vegna samrunans var andvirði áhalda og tækja hækkað um 33.030.815 krónur, þannig að til sameinaða félagsins gengu þessir munir með bókfærðu verði 152.758.727 krónur. Í jöfnunarfærslunum var jafnframt bætt við nýjum lið, sem nefndist viðskiptavild og var að fjárhæð 10.000.000 krónur, og færðist hún inn í efnahag sameinaða félagsins. Þangað gekk jafnframt óbreytt andvirði eignarhluta í Smiðsbúð 12 ehf., en verðmæti eignarhluta FS21 ehf. í Vinnulyftum ehf. var á hinn bóginn afmáð með jöfnunarfærslunum. Þannig taldist andvirði fastafjármuna sameinaða félagsins alls 389.001.645 krónur. Veltufjármunir FS21 ehf. töldust samkvæmt yfirlitinu eingöngu hafa verið viðskiptakröfur á hendur Vinnulyftum ehf. að fjárhæð 57.767.850 krónur, en þeirri fjárhæð var eytt með jöfnunarfærslu og gengu því engir veltufjármunir frá FS21 ehf. til sameinaða félagsins. Slíkir fjármunir Vinnulyfta ehf. voru þar taldir hafa verið vörubirgðir að andvirði 13.051.373 krónur, viðskiptakröfur að fjárhæð 77.806.683 krónur, aðrar skammtímakröfur að fjárhæð 34.356.096 krónur og 24.982.331 króna í handbæru fé eða alls 150.196.483 krónur. Með jöfnunarfærslum voru viðskiptakröfur Vinnulyfta ehf. lækkaðar um 3.268.443 krónur og aðrar skammtímakröfur um 20.000.000 krónur og mismunurinn svo færður inn í efnahagsreikning sameinaða félagsins, en vörubirgðir og handbært fé fluttust með óbreyttum fjárhæðum yfir í þann efnahagsreikning og voru veltufjármunir því taldir þar að andvirði samtals 126.928.040 krónur. Heildareignir sameinaða félagsins töldust þannig 515.929.685 krónur. Í yfirliti um skuldir í samrunaefnahagsreikningnum kom fram að langtímaskuldir FS21 ehf. hafi verið við lánastofnanir að fjárhæð 190.859.554 krónur, en langtímaskuldir Vinnulyfta ehf. tekjuskattskuldbinding að fjárhæð 16.471.236 krónur. Báðar þessar fjárhæðir fluttust óbreyttar yfir í efnahagsreikning sameinaða félagsins og töldust þannig langtímaskuldir þess samtals 207.330.790 krónur. Skammtímaskuldir FS21 ehf. voru sagðar hafa verið við lánastofnanir að fjárhæð 4.642.719 krónur, 147.687.204 krónur vegna afborgana á næsta ári af langtímaskuldum, skuldir „vegna fjárfestinga“ 135.000.000 krónur og aðrar skammtímaskuldir 6.559.335 krónur. Allar þessar skammtímaskuldir, alls 293.889.258 krónur, fluttust óbreyttar yfir í efnahagsreikning sameinaða félagsins. Skammtímaskuldir Vinnulyfta ehf. voru taldar hafa verið við lánastofnanir að fjárhæð 797 krónur, við lánardrottna 38.231.967 krónur og við móðurfélagið FS21 ehf. 81.036.293 krónur, sem átti þó ekki samsvörun í fyrrgreindri talningu eigna þess, svo og aðrar skammtímaskuldir að fjárhæð 2.585.433 krónur. Að frátalinni skuld við FS21 ehf., sem var eytt með jöfnunarfærslum, fluttust allar þessar skammtímaskuldir Vinnulyfta ehf. óbreyttar í efnahagsreikning sameinaða félagsins, sem stóð þannig í slíkum skuldum að fjárhæð samtals 334.707.455 krónur. Skuldir þess félags námu þannig samtals 542.038.245 krónum. Loks kom fram í yfirliti yfir eigið fé að hlutafé í hvoru félaganna FS21 ehf. og Vinnulyfta ehf. hafi verið 500.000 krónur, en með jöfnunarfærslu var hlutafé fyrrnefnda félagsins eytt út og taldist því hlutafé sameinaða félagsins samkvæmt stofnefnahagsreikningi þess 500.000 krónur. Vinnulyftur ehf. höfðu átt í lögbundnum varasjóði 125.000 krónur og stóð sú fjárhæð óbreytt í efnahagsreikningi sameinaða félagsins. Ójafnað eigið fé FS21 ehf. hafði verið neikvætt um 26.608.560 krónur, en Vinnulyfta ehf. jákvætt um 130.973.669 krónur. Síðarnefndu fjárhæðinni var eytt með jöfnunarfærslu, en sú fyrrnefnda færð í stofnefnahagsreikning sameinaða félagsins að viðbættum 125.000 krónum, sem ráðstafað var í lögbundinn varasjóð. Þannig var ójafnað eigið fé sameinaða félagsins neikvætt um 26.733.560 krónur, en að teknu tilliti til hlutafjár og lögbundins varasjóðs var eigið fé þess neikvætt um 26.108.560 krónur.
Vinnulyftur ehf. gaf út 19. febrúar 2008 tryggingarbréf til Glitnis banka hf. fyrir skuld, sem var tilgreind með nánar tilteknum fjárhæðum í svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum og sögð hafa 11. sama mánaðar numið jafngildi 150.000.000 króna. Til tryggingar þeirri skuld setti félagið að veði með 1. veðrétti fasteignina Smiðsbúð 12 ásamt öllum rekstrartækjum og undirrituðu stjórnarmenn Vinnulyfta ehf. tryggingarbréfið fyrir hönd félagsins „sem útgefanda og þingl. eiganda“, en sömu menn undirrituðu jafnframt bréfið fyrir hönd Smiðsbúðar 12 ehf. „sem kaupsamningshafa“. Þá mun Glitnir banki hf. hafa keypt tæki af Vinnulyftum ehf. 22. febrúar 2008 fyrir samtals 196.300.000 krónur, en leigt félaginu þau aftur með þremur fjármögnunarleigusamningum. Af þessu kaupverði munu 58.890.000 krónur hafa verið færðar sem fyrirframgreidd leiga samkvæmt samningunum þremur, en um ráðstöfun eftirstöðva kaupverðsins liggur ekkert fyrir í málinu. Loks gaf Vinnulyftur ehf. út annað tryggingarbréf 17. mars 2008 til Glitnis banka hf. fyrir skuld, sem nam nánar tilteknum fjárhæðum í sömu gjaldmiðlum og getið var í tryggingarbréfinu frá 19. febrúar sama ár, en hún var sögð hafa verið jafnvirði 75.000.000 króna 7. mars 2008. Með bréfinu var bankanum sett að veði fasteignin Smiðsbúð 12 með 2. veðrétti að baki veðskuldinni, sem getið var hér að framan. Þetta tryggingarbréf var undirritað á sama hátt og það fyrrnefnda að gættu því að vegna Smiðsbúðar 12 ehf. var sagt að bréfið væri undirritað „sem þingl. eigandi“.
Meðal gagna málsins er óundirritað skjal frá 30. mars 2008 með fyrirsögninni: „Vinnulyftur ehf. Samantekt einkakostnaðar og annarra atriða tengt kaupsamningi“. Þar var vísað til þess að samkvæmt samningi FS21 ehf. við áfrýjanda um kaup á öllum hlutum í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. ætti „svokallaður einkakostnaður“ hans að dragast frá greiðslu kaupverðs. Mikil vinna hafi farið í að fá botn í bókhald félaganna, en í ljós hafi komið að einkakostnaður áfrýjanda, sem ekki hafi verið kunnugt um við gerð kaupsamnings, hafi numið samtals 36.733.407 krónum. Sú fjárhæð var sundurliðuð með takmörkuðum skýringum í níu liði ásamt tveimur frádráttarliðum. Sagt var að áfrýjandi hafi ekki samþykkt einn tiltekinn lið og annan aðeins að hluta, en auk frádráttar vegna þessa á samtals 947.502 krónum var greint frá „innborgun sonar Eyvindar þann 26. febrúar 2007“ að fjárhæð 8.709.132 krónur, sem einnig var dregin frá, og stóðu þá eftir af einkakostnaðinum 27.076.773 krónur. Við þetta var síðan bætt 37.608.689 krónum, sem voru sagðar vera „lækkun kaupverðs vegna lægri sölu“ samkvæmt tiltekinni grein í kaupsamningnum frá 11. júlí 2007. Sundurliðun á þeirri lækkun kom fram í öðru óundirrituðu skjali, sem var dagsett 22. janúar 2008, en þar var vísað til þess að áfrýjandi hafi ábyrgst í kaupsamningnum að heildartekjur Vinnulyfta ehf. hefðu hækkað um 7% á fyrstu sex mánuðum ársins 2007 í samanburði við sama tímabil 2006 að viðlögðu því að kaupverð samkvæmt samningnum myndi lækka um þá fjárhæð, sem þar kynni að skorta á. Velta félagsins frá janúar til júní 2006 hafi numið 97.679.242 krónum, en með 7% hækkun hafi sú fjárhæð samsvarað 104.516.789 krónum. Velta fyrstu sex mánaða ársins 2007 hafi aðeins orðið 66.908.100 krónur og ætti því kaupverðið að lækka sem svaraði mismuninum á þessum tveimur fjárhæðum eða um 37.608.689 krónur. Samkvæmt skjalinu frá 30. mars 2008 áttu þannig samtals 64.685.462 krónur að dragast frá lokagreiðslu kaupverðsins að fjárhæð 105.000.000 krónur, sem skyldi innt af hendi 31. sama mánaðar, þannig að eftir stæðu 40.314.538 krónur. Í málinu liggja engin frekari gögn fyrir um fjárhæðirnar, sem hér um ræðir.
Óumdeilt er að áfrýjandi fékk greiddar 40.314.538 krónur í samræmi við framangreinda útreikninga. Ágreiningur virðist hafa staðið um þetta uppgjör, enda fól hann lögmanni að innheimta fjárhæð, sem hann taldi standa eftir af lokagreiðslu kaupverðsins. Í innheimtubréfi lögmannsins 2. apríl 2008 til FS21 ehf. krafðist hann greiðslu á 105.000.000 krónum að frádreginni innborgun að fjárhæð 40.314.538 krónur og 27.076.773 krónum vegna „einkakostn. o.fl. skv. yfirliti“, en að viðbættum dráttarvöxtum. Ekki verður séð af gögnum málsins að brugðist hafi verið við þessu bréfi og er ágreiningslaust að frekari greiðslur voru ekki inntar af hendi af umsömdu kaupverði. Þá liggur fyrir í málinu að vextir voru ekki greiddir af skuldabréfinu, sem gefið var út til áfrýjanda 11. júlí 2007, en hann höfðaði tvö mál gegn Vinnulyftum ehf. með stefnum 1. október 2009, annars vegar til heimtu vaxta frá útgáfudegi skuldabréfsins til gjalddaga 1. ágúst 2008, 9.993.700 krónum, og hins vegar vaxta frá síðastgreindum degi til næsta gjalddaga 1. ágúst 2009, 9.450.000 krónum, í báðum tilvikum að viðbættum dráttarvöxtum. Þessar stefnur voru áritaðar um aðfararhæfi 2. desember 2009 og málskostnaður í hvoru máli ákveðinn 522.500 krónur. Áfrýjandi fékk gert fjárnám fyrir þessum kröfum 21. desember 2009 í nánar tilteknum bifreiðum, tækjum og kröfuréttindum í eigu Vinnulyfta ehf., svo og í hlutum félagsins í Smiðsbúð 12 ehf. Áfrýjandi leitaði nauðungarsölu á grundvelli þessa fjárnáms 13. janúar 2010, en af henni virðist ekki hafa orðið.
Eiður Ingi Sigurðarson krafðist þess 13. apríl 2010 sem formaður stjórnar Vinnulyfta ehf. að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var sú krafa tekin til greina næsta dag. Við gjaldþrotaskiptin lýsti áfrýjandi fjórum kröfum. Sú fyrsta var reist á skuldabréfinu frá 11. júlí 2007 og var höfuðstóll hennar 90.000.000 krónur, en fram kom í kröfulýsingunni að skuldin hafi verið gjaldfelld 1. ágúst 2009 vegna vanskila, sem hafi orðið á greiðslu vaxta á gjalddaga þann dag. Að meðtöldum dráttarvöxtum til 13. apríl 2010 og innheimtukostnaði næmi þessi krafa samtals 104.971.077 krónum. Önnur krafan var reist á áðurnefndri stefnu, sem árituð var um aðfararhæfi vegna kröfu um vexti af skuldabréfinu á gjalddaga 1. ágúst 2008, en að viðbættum málskostnaði, dráttarvöxtum til 13. apríl 2010 og kostnaði af fullnustugerðum var krafan sögð vera að fjárhæð samtals 14.786.589 krónur. Þriðja krafan studdist við stefnuna, sem árituð hafði verið um aðfararhæfi kröfu um vexti af skuldabréfinu á gjalddaga 1. ágúst 2009, en með málskostnaði, dráttarvöxtum og kostnaði af fullnustugerðum nam fjárhæð hennar alls 11.449.924 krónum. Fjórða krafan var um þá fjárhæð, sem áfrýjandi taldi standa eftir af lokagreiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum og var á gjalddaga 31. mars 2008. Höfuðstóll kröfunnar var 105.000.000 krónur. Frá honum var dregin innborgun á 40.314.538 krónum 1. apríl 2008, svo og 13.336.847 krónur, sem væru „lækkun vegna einkareiknings“, en við bættust dráttarvextir til 13. apríl 2010, 27.559.674 krónur, og 3.200.000 krónur í innheimtukostnað. Krafan nam þannig 82.108.289 krónum. Á skiptafundi í þrotabúi Vinnulyfta ehf. 10. ágúst 2012 voru þessar fjórar kröfur samþykktar að fullu sem almennar kröfur. Samkvæmt fundargerðum frá skiptafundum í þrotabúinu og skýrslu, sem skiptastjóri gaf fyrir dómi við aðalmeðferð þessa máls, átti búið óveðsett tæki, sem seld voru fyrir 14.581.000 krónur, og útistandandi kröfur að fjárhæð 9.722.412 krónur, sem að verulegu leyti voru taldar tapaðar. Að auki átti búið kröfur á hendur hluthöfum og taldi jafnframt að tilteknar ráðstafanir félagsins væru riftanlegar, en dómsáttir munu síðan hafa verið gerðar um kröfur, sem búið hafði uppi af því tilefni. Skipastjórinn kvað hluti þrotabúsins í Smiðsbúð 12 ehf. ekkert verðgildi hafa haft, enda hafi eina eign þess félags verið fasteign, sem hrökk ekki fyrir áhvílandi veðskuldum, og hafi veðhafinn leyst það til sín. Skiptum hafi ekki enn verið lokið, en vonir stæðu til að eitthvað myndi greiðast upp í almennar kröfur, sem námu samtals 1.113.492.555 krónum.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 14. desember 2011 og krefst hann þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér skaðabætur, sem svari samanlagðri fjárhæð krafnanna sem hann lýsti samkvæmt framansögðu við gjaldþrotaskipti á búi Vinnulyfta ehf.
II
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2004 er þeim einum, sem fengið hafa löggildingu eftir 6. gr. laganna til að annast sölu fasteigna, skipa og fyrirtækja, heimilt að hafa milligöngu um kaup, sölu eða skipti á atvinnufyrirtækjum eða eignarhlutum í þeim, hvort heldur sé um að ræða fyrirtæki í eigu einstaklinga eða félaga, annarra en hlutafélaga. Með kaupsamningnum 11. júlí 2007 seldi áfrýjandi alla hluti í einkahlutafélögunum Vinnulyftum og Smiðsbúð 12, sem voru atvinnufyrirtæki í skilningi þessa lagaákvæðis, en hvorki var hér um að ræða hlutafélög né tilheyrðu eignarhlutirnir slíku félagi. Milligöngu um þessi kaup mátti því ekki hafa annar en sá, sem fengið hafði löggildingu af þeim toga sem að framan er getið.
Þótt ekki komi berum orðum fram í lögum nr. 99/2004 hvað felist nánar í þeirri milligöngu um kaup, sölu eða skipti, sem um ræðir í fyrrnefndri 1. mgr. 1. gr. þeirra, verður að líta svo á að milligangan felist einkum í aðgerðum, sem fjallað er um í ákvæðum II. kafla laganna. Svo sem rakið er í lögskýringargögnum um 1. gr. frumvarps, sem varð að lögum nr. 99/2004, felst þannig þessi milliganga meðal annars í undirbúningi viðskipta með fasteign, skip eða fyrirtæki, svo sem kynningu á eigninni, ráðgjöf, samningsgerð og skjalagerð. Í áðurnefndri verkefnistillögu 18. apríl 2007, sem stefndi Benedikt undirritaði af hálfu stefnda KPMG ehf. ásamt forráðamönnum Smíðanda ehf., kom fram að markmið vinnu fyrrnefnda félagsins væri að ná samningum um „kaup og fjármögnun á Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf.“ og fælist þessi vinna meðal annars í því að meta félögin tvö til verðs, koma á samningi um kaupin og annast skjalagerð um þau. Af gögnum málsins er ljóst að þetta gekk eftir, auk þess sem stefndi KPMG ehf. tók að sér samkvæmt áðurgreindu samkomulagi 11. júlí 2007 að varðveita skjöl bæði í þágu seljanda og kaupanda, þar á meðal skuldabréfið sem FS21 ehf. gaf út þann dag til áfrýjanda til greiðslu á hluta kaupverðs, uns nánar tilteknar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að efna gagnkvæmar skuldbindingar þeirra. Þessi viðfangsefni voru öll slík að þau verður að telja til milligöngu um kaup á atvinnufyrirtækjum í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2004. Samkvæmt 15. gr. sömu laga hvílir skylda á þeim, sem hefur slíka milligöngu, til að liðsinna bæði seljanda og kaupanda og gæta réttmætra hagsmuna þeirra. Stefndu stoðar ekki gagnstætt þessu að bera fyrir sig að kaupandinn FS21 ehf. hafi einn leitað eftir þjónustu þeirra og þeir einungis gætt hagsmuna hans, enda væri hlutverk sem þetta lögum samkvæmt ósamrýmanlegt skyldum þess, sem slíka milligöngu hefur. Undan framangreindum skyldum varð heldur ekki vikist með því að vísa til þess að áfrýjandi hafi notið ráðgjafar annars manns, svo sem stefndu hafa jafnframt borið fyrir sig.
Í áðurnefndri 15. gr. laga nr. 99/2004 er mælt svo fyrir að fasteignasali skuli í hvívetna leysa af hendi störf sín svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða og liðsinna bæði seljanda og kaupanda ásamt því að gæta réttmætra hagsmuna þeirra og þess að hvorugum séu settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna skal öll skjalagerð og samningsgerð fasteignasala vera vönduð og svo úr garði gerð að hagsmunir bæði seljanda og kaupanda séu tryggðir og réttarstaða hvors um sig glögg. Þessar reglur gilda jafnframt um þá, sem annast sölu fyrirtækja, sbr. 4. mgr. 1. gr. sömu laga. Í kaupsamningi áfrýjanda við FS21 ehf. 11. júlí 2007 var kaupverð allra hluta í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. ákveðið samtals 453.893.997 krónur, en að teknu tilliti til frádráttarliða, sem áður var getið, nam greiðslan, sem kaupandinn innti af hendi í tengslum við undirritun kaupsamningsins, 185.872.402 krónum. Að öðru leyti átti kaupverðið að greiðast annars vegar með skuldabréfi að fjárhæð 90.000.000 krónur og hins vegar í peningum 105.000.000 krónur 31. mars 2008. Að því er skuldabréfið varðar er þess að gæta að í báðum kauptilboðunum, sem FS21 ehf. beindi til áfrýjanda, var sem áður segir ráðgert að það yrði til þriggja ára, verðtryggt og bæri 7% ársvexti. Í skýrslu fyrir héraðsdómi sagði stefndi Benedikt að vegna mistaka hafi verið gengið út frá því í tilboði að skuldabréfið yrði verðtryggt, en þegar komið hafi í ljós að óheimilt væri að láta slíkan skilmála gilda um skuldbindingu til svo skamms tíma hafi þetta verið leiðrétt þegar kom að frágangi. Á líkan hátt bar Jón Sævar Þorbergsson fyrir héraðsdómi, þar sem hann kvaðst jafnframt hafa bent á þetta. Í gögnum málsins virðist ekki vera að finna frekari skýringar á því að þegar til kom var ekki kveðið á um verðtryggingu kröfunnar samkvæmt skuldabréfinu, sem FS21 ehf. gaf út til áfrýjanda 11. júlí 2007. Samkvæmt skuldabréfinu voru ársvextir af skuldinni á hinn bóginn hækkaðir í 10,5% úr 7%, sem um ræddi í kauptilboði, en í málatilbúnaði stefndu hefur ekki verið skýrt hvort þessari hækkun vaxta hafi einni verið ætlað að vega upp á móti brottfalli umsaminnar verðtryggingar eða hvernig áfrýjanda kunni að hafa verið leiðbeint um þetta. Skuldabréfið, sem átti eins og áður segir að vera til þriggja ára eftir hljóðan bæði kauptilboðsins og kaupsamningsins, reyndist vera með þeim skilmála að allur höfuðstóll skuldarinnar myndi greiðast í einu lagi að þeim tíma liðnum. Stefndu hafa ekki borið því við að slíkur skilmáli um eingreiðslu skuldarinnar hafi verið í samræmi við venjur á þessum tíma um skilning á orðalagi eins og viðhaft var í kauptilboðinu og kaupsamningnum. Í þessum efnum verður þó öllu öðru fremur að líta til þess að samkvæmt framansögðu var veittur gjaldfrestur á meira en helmingi eiginlegs kaupverðs, annars vegar í rúmlega átta mánuði þar til 105.000.000 krónur yrðu inntar af hendi og hins vegar í þrjú ár þar til höfuðstóll skuldabréfsins, 90.000.000 krónur, yrði greiddur í einu lagi. Á sama tíma og þess var krafist af áfrýjanda við gerð kaupsamningsins að hann veitti kaupandanum fasteignaveð til tryggingar hugsanlegri kröfu að fjárhæð allt að 30.000.000 krónur vegna breytinga, sem kynnu að verða gerðar á næstu þremur árum á álagningu opinberra gjalda fyrri ára, voru engar tryggingar settar fyrir efndum á skuldbindingum kaupandans um greiðslur til áfrýjanda. Sem fyrr segir bar stefndi Benedikt fyrir dómi að við gerð kaupsamningsins hafi verið lokið samningum við Glitni banka hf. um lánveitingar til að standa straum af greiðslum kaupandans til áfrýjanda samkvæmt kaupsamningnum og hafi bankinn krafist trygginga fyrir þeim lánum með veði í fasteign og lausafjármunum Vinnulyfta ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf., að því er stefndi taldi með 1. veðrétti. Að veittum slíkum tryggingum til bankans verður ekki séð að FS21 ehf. hafi nokkuð átt, sem hefði getað staðið til fullnustu á kröfum áfrýjanda ef á það myndi reyna. Eins og hér var ástatt hafði ekki aðeins verið raskað mjög jafnvægi milli skyldna seljanda og kaupanda, heldur var jafnframt brýn ástæða til að gera áfrýjanda skýra grein fyrir þeirri stórfelldu áhættu, sem hann bar af viðskiptunum, og ráða honum eindregið frá því að ganga til þeirra án þess að viðhlítandi trygging yrði sett fyrir greiðslu kaupverðsins, þar á meðal skuldabréfsins. Í málatilbúnaði stefndu er því ekki borið við að þessari skyldu, sem leiddi af 15. gr. laga nr. 99/2004, hafi í nokkru verið sinnt. Þegar til kom olli þessi vanræksla því að áfrýjandi naut engra trygginga fyrir þeim hluta greiðslu af kaupverði, sem var á gjalddaga 31. mars 2008 og kaupandinn ákvað að standa ekki skil á, og heldur ekki fyrir greiðslu vaxta af skuldabréfinu, sem voru á gjalddaga 1. ágúst 2008 og sama dag 2009, eða höfuðstóls þess og vaxta sama dag á árinu 2010. Tjónið, sem áfrýjandi leitar skaðabóta fyrir, verður því nægilega rakið til þessarar vanrækslu.
Samkvæmt 27. gr. laga nr. 99/2004 ber fasteignasali ábyrgð á tjóni, sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum af ásetningi eða gáleysi. Hvorki var þess gætt í kauptilboðum FS21 ehf. til áfrýjanda, kaupsamningi þeirra 11. júlí 2007 né skuldabréfinu, sem félagið gaf út til hans þann dag, að geta þess hver samið hafi þessi skjöl, sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga, og voru þau heldur ekki rituð á bréfsefni tiltekins manns eða félags. Samkvæmt skýrslu stefnda Benedikts fyrir héraðsdómi var hann starfsmaður stefnda KPMG ehf. á þeim tíma, sem fyrrgreind atvik gerðust, og kvað hann jafnframt það félag hafa verið þann „sem gerir þennan samning“. Í framburði áðurnefnds Ágústs Þórhallssonar fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi komið „voða lítið að þessu máli“, en hann hafi á þessum tíma þegið laun frá stefnda KPMG ehf., sem „sá um þetta mál“, og hafi það verið „algjörlega ótengt“ stefnda KPMG FS ehf. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki horft að stefndi Benedikt bar fyrir dómi að stefndi KPMG FS ehf. hafi fengið „fasteignasöluleyfi til að annast ... sölu á félögum þegar svo bar við.“ Í verkefnistillögunni, sem undirrituð var 18. apríl 2007 af hálfu stefnda KPMG ehf. og Smíðanda ehf., var rætt um að hún væri gerð vegna „fyrirtækjasviðs KPMG“, en einnig að Ágúst Þórhallsson, lögfræðingur á því sviði, myndi „aðstoða við samningsgerð og önnur lagaleg atriði.“ Ágúst hafði sem áður segir fengið löggildingu til starfa samkvæmt 6. gr. laga nr. 99/2004 og sagði í umsókn hans um þau réttindi að starfstöð hans væri hjá félaginu, sem nú ber heiti stefnda KPMG FS ehf. Sá stefndi gaf einnig út reikning á hendur FS21 ehf. 25. júlí 2007 fyrir „ráðgj. v kaupa Vinnulyftur/Smiðsbúð“ og virðist þar hafa verið um að ræða þóknun vegna verksins, sem málið varðar, eða eftir atvikum hluta hennar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2004 var Ágústi Þórhallssyni og starfsmönnum hans eða stefnda KPMG FS ehf. heimilt í skjóli löggildingar hans að hafa meðal annars milligöngu um kaup, sölu eða skipti á atvinnufyrirtækjum eða eignarhluta í þeim, en slíkrar heimildar naut hvorki stefndi Benedikt né stefndi KPMG ehf. Hafi þeir síðarnefndu, annar eða báðir, í raun annast það verk, sem hér um ræðir, svo sem haldið hefur verið að nokkru fram í málinu samkvæmt áðursögðu, brast þá heimild til þess, en skaðabótaábyrgð þeirra getur þó ekki orðið á annan veg af þeim sökum en ef réttilega hefði verið staðið að málum. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til annars en að fella skaðabótaábyrgð vegna þessa tjóns áfrýjanda óskipt á stefndu Benedikt, KPMG ehf. og KPMG FS ehf.
III
Eins og áður greinir bárust fyrirtækjaskrá 29. nóvember 2007 gögn um fyrirhugaðan samruna einkahlutafélaganna Vinnulyfta og FS21 eftir að stjórnir félaganna höfðu undirritað samrunaáætlun 23. sama mánaðar. Í henni var sem fyrr segir lýst ráðagerð um að samruninn, sem var miðaður við 1. september 2007, yrði framkvæmdur á þann hátt að Vinnulyftur ehf. yfirtæki allt hlutafé móðurfélags síns, FS21 ehf., og yrði því um að ræða „öfugan samruna“. Skýrsla endurskoðanda um samrunaáætlunina samkvæmt 97. gr. laga nr. 138/1994 var gerð í einu lagi vegna beggja félaganna. Stefndi Einar stóð sem áður greinir að henni í nafni stefnda KPMG ehf. og lýsti þar yfir því áliti að ekki yrði séð að sameining félaganna kæmi til með að „rýra verulega möguleika lánardrottna á fullnustu krafna í hverju félagi um sig.“ Um þessa yfirlýsingu er þess að gæta að samkvæmt 4. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar, eins og hún hljóðaði á þessum tíma, skyldi endurskoðandi láta uppi álit um að hve miklu leyti samruni kynni að rýra möguleika lánardrottna á fullnustu. Samkvæmt samrunaefnahagsreikningi, sem áður var lýst, leiddi sameining FS21 ehf. við Vinnulyftur ehf. til þess að skammtímaskuldir félagsins urðu samtals 334.707.455 krónur, en veltufjármunir aðeins 126.928.040 krónur. Langtímaskuldir urðu á hinn bóginn samtals 207.330.790 krónur á móti fastafjármunum, sem urðu alls 389.001.645 krónur, en þar af var þó viðskiptavild að andvirði 10.000.000 krónur, sem ekki verður séð hvaða forsendur gátu staðið til, og eignarhlutur í Smiðsbúð 12 ehf. að verðmæti 226.242.918 krónur, sem ekki er skýrt frekar í málinu hvernig fundið hafi verið. Fyrir sameininguna var eigið fé Vinnulyfta ehf. 131.598.669 krónur, en eftir hana var það neikvætt um 26.108.560 krónur. Fram hjá því verður heldur ekki horft að í nóvember 2007 bjó stefndi KPMG ehf. vegna þjónustu fyrr á því ári við kaupanda Vinnulyfta ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf. yfir vitneskju um að Glitnir banki hf. hafi áskilið sér að fá veðréttindi í öllum eignum þessara tveggja félaga, sem máli skiptu, til tryggingar lánum, sem hann veitti vegna kaupanna. Að þessu öllu virtu gat með engu móti staðist að sameiningin skerti ekki möguleika lánardrottna félaganna, einkum Vinnulyfta ehf. en þó einnig FS21 ehf., á að fá fullnustu krafna sinna og var sú skerðing að auki stórfelld.
Hefði stefndi Einar gefið efnislega rétta yfirlýsingu um þetta hefði komið fram í auglýsingu, sem birt var um fyrirhugaðan samruna í Lögbirtingablaði 5. desember 2007, að endurskoðandi teldi hann kunna að rýra möguleika lánardrottna á fullnustu, sbr. þágildandi 2. mgr. 98. gr. laga nr. 138/1994, og hefði um leið borið að vekja athygli á rétti þeirra samkvæmt 97. gr. og 101. gr. sömu laga. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði hefði áfrýjandi þá notið réttar eins og aðrir lánardrottnar félaganna til að krefjast innan mánaðar frá ákvörðun um samruna greiðslu gjaldfallinna krafna á hendur félögunum og tryggingar fyrir ógjaldföllnum kröfum. Með þeirri vangæslu stefnda Einars, sem að framan greinir, fór áfrýjandi á mis við að fá tryggingar fyrir þeim verulegu fjárhæðum, sem hann átti ógreiddar frá FS21 ehf. af kaupverði hlutanna í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. og áður hefur verið getið. Á þessu ber stefndi Einar skaðabótaábyrgð og jafnframt stefndi KPMG ehf. sem vinnuveitandi hans. Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki þörf á að taka afstöðu til málsástæðna áfrýjanda, sem lúta að því að þeir sömu beri skaðabótaábyrgð gagnvart sér sökum þess að samruni af þeim toga, sem hér fór fram, sé andstæður ákvæðum 79. gr. laga nr. 138/1994.
IV
Samkvæmt því, sem að framan greinir, teljast stefndu KPMG ehf., KPMG FS ehf. og Benedikt bera skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda, sem rakið verður til þess að honum hafi ekki verið settar tryggingar fyrir greiðslu þeirra fjárhæða, sem FS21 ehf. hafði skuldbundið sig til að greiða honum annars vegar 31. mars 2008 samkvæmt kaupsamningi um hlutina í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. og hins vegar 1. ágúst 2008 og sömu daga árin 2009 og 2010 á gjalddögum samkvæmt skuldabréfi útgefnu 11. júlí 2007. Stefndu KPMG ehf. og Einar teljast jafnframt bera skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjanda vegna tjóns, sem rakið verður til þess að hann hafi í desember 2007 farið á mis við réttindi til að krefjast við sameiningu FS21 ehf. og Vinnulyfta ehf. trygginga fyrir ógjaldföllnum kröfum sínum á hendur FS21 ehf., en þetta voru sömu kröfur og getið var hér á undan. Tekur því skaðabótaábyrgð allra þessara stefndu til sama tjóns áfrýjanda, þótt hún stafi af tvennum orsökum. Í málinu hefur áfrýjandi á hinn bóginn ekki fært haldbær rök fyrir því að stefndi KPMG Lausnir ehf. geti vegna þessara ástæðna eða annarra borið skaðabótaskyldu gagnvart sér og verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu þessa stefnda.
Svo sem fram er komið er fjárhæð dómkröfu áfrýjanda fengin með því að lagðar eru saman fjárhæðir fjögurra krafna hans, sem viðurkenndar hafa verið við gjaldþrotaskipti á búi Vinnulyfta ehf. og eiga allar rætur að rekja til vanefnda á áðurnefndum skuldbindingum FS21 ehf. við hann. Með því að skaðabótaskylda stefndu gagnvart áfrýjanda er samkvæmt áðursögðu leidd af því að þeir hafi valdið því að hann hafi ekki fengið tryggingar fyrir kröfum sínum á hendur FS21 ehf. verður við ákvörðun bóta að miða að því að gera hann eins settan og ef tryggingar hefðu í raun verið veittar og nýst honum til að fá fullnustu á kröfum sínum. Af þeirri ástæðu tekur skaðabótaábyrgð stefndu ekki aðeins til höfuðstóls krafna áfrýjanda, heldur jafnframt vaxta af þeim og kostnaðar, sem hann hefur haft af innheimtu gagnvart Vinnulyftum ehf. og síðar þrotabúi þess félags. Að þessu gættu verður í fyrsta lagi að líta svo á að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni, sem svari til þeirrar fjárhæðar sem hann hefði að réttu lagi átt að fá greitt úr hendi FS21 ehf. 31. mars 2008 samkvæmt kaupsamningi þeirra. Höfuðstóll þeirrar greiðslu átti að nema 105.000.000 krónum og er óumdeilt að áfrýjandi hafi degi eftir gjalddaga fengið 40.314.538 krónur af þeirri fjárhæð. Eins og áður greinir taldi félagið sig hafa með þessu staðið full skil á því, sem áfrýjandi hafi átt tilkall til, enda hafi því verið heimilt að draga frá þessari skuld annars vegar svonefndan einkakostnað hans að fjárhæð 27.076.773 krónur og hins vegar 37.608.689 krónur vegna lækkunar á kaupverði hlutanna í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. sökum þess að velta fyrrnefnda félagsins hafi ekki náð því marki, sem áfrýjandi hafi ábyrgst í kaupsamningi þeirra. Til þess verður að líta að í fyrrnefndu innheimtubréfi, sem lögmaður áfrýjanda beindi til FS21 ehf. 2. apríl 2008, var viðurkennt að 27.076.773 krónur ættu að dragast frá kröfu hans vegna einkakostnaðar og hafði það einnig verið gert í skriflegu umboði, sem áfrýjandi veitti lögmanninum sama dag. Verður ekki séð á hvaða grunni hann gæti nú talist óbundinn af þeirri viðurkenningu. Fyrir frádrætti á 37.608.689 krónum frá kaupsamningsgreiðslunni hafa á hinn bóginn gegn andmælum áfrýjanda ekki verið færð fram viðhlítandi gögn og verður að líta svo á að sú fjárhæð standi ógreidd af því, sem FS21 ehf. bar að inna af hendi 31. mars 2008. Við þá fjárhæð verða að leggjast 19.072.070 krónur í dráttarvexti, sem áfrýjandi hefur krafist frá gjalddaga til 13. apríl 2010, en til kröfuliðar vegna kostnaðar af innheimtu er ekki unnt að taka afstöðu, enda liggur ekkert fyrir um hvernig hann sé fundinn eða að áfrýjandi hafi orðið að greiða hann. Í öðru lagi hefur áfrýjandi orðið fyrir tjóni sem svarar umsömdum vöxtum af skuldabréfinu, sem FS21 ehf. gaf út til hans 11. júlí 2007 og voru á gjalddaga 1. ágúst 2008, en ekki er deilt um að fjárhæð þeirra hafi numið 9.993.700 krónum. Í kröfulýsingu áfrýjanda í þrotabú Vinnulyfta ehf., sem að þessu lýtur, hafa verið lagðir við þá fjárhæð dráttarvextir frá 1. ágúst 2008 til 13. apríl 2010, sem voru þar sagðir nema 4.003.682 krónum, málskostnaður samkvæmt áritaðri stefnu, 522.500 krónur, kostnaður af beiðni um fjárnám, 13.927 krónur, og gjald í ríkissjóð vegna fjárnámsgerðar, 12.700 krónur. Ekki eru efni til annars en að taka þessa liði alla til greina, en fyrir öðrum kostnaði af fullnustugerðum, sem þar er krafist, eru engin haldbær gögn. Í þriðja lagi hefur áfrýjandi orðið fyrir tjóni, sem nemur vöxtum af sama skuldabréfi vegna tímabilsins frá 1. ágúst 2008 til sama dags 2009, en fjárhæð þeirra er 9.450.000 krónur. Í kröfulýsingu áfrýjanda, sem snýr að þessu, hafa verið lagðir við þá fjárhæð dráttarvextir frá 1. ágúst 2009 til 13. apríl 2010, 1.188.337 krónur, málskostnaður samkvæmt áritaðri stefnu, 522.500 krónur, kostnaður af beiðni um fjárnám, 13.927 krónur, og gjald í ríkissjóð vegna fjárnámsgerðar, 12.700 krónur. Ekki eru efni til annars en að taka þessa liði alla til greina, en fyrir öðrum kostnaði af fullnustugerðum, sem þar er gerð krafa um, liggja ekki fyrir haldbær gögn. Loks hefur áfrýjandi orðið fyrir tjóni sem svarar til höfuðstóls skuldabréfsins, sem greiða átti í einu lagi með 90.000.000 krónum 1. ágúst 2010, en því hefur ekki verið andmælt að hann hafi gjaldfellt þessa kröfu 1. ágúst 2009 vegna vanskila, sem þá hafi orðið á greiðslu vaxta. Samkvæmt kröfulýsingu áfrýjanda í þrotabú Vinnulyfta ehf., sem varðar þessa skuld, nema dráttarvextir frá síðastnefndum degi til 13. apríl 2010 af þessari skuld 11.317.500 krónum og verður sá kröfuliður tekinn til greina, en að öðru leyti krafðist áfrýjandi þar innheimtukostnaðar, sem viðhlítandi skýringar hafa ekki verið færðar fyrir. Að þessu öllu athuguðu er tjón áfrýjanda samtals 183.732.232 krónur.
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá því að áfrýjandi hafi í aðilaskýrslu sinni lýst því að hann hafi ráðfært sig við eiginkonu sína áður en hann samþykkti tilboðið frá FS21 ehf. í alla hluti í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. 26. maí 2007, en hvorki hafi hann við það tækifæri né annað leitað ráðgjafar hjá lögmanni eða fasteignasala í tengslum við þessi viðskipti. Af lýsingu fyrrnefnds Jóns Sævars Þorbergssonar í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi verður ekki annað ráðið en að áfrýjandi hafi lítið leitað eftir ráðgjöf hans varðandi viðskiptin, en hann kvaðst skorta „þekkingu og reynslu“ til að gegna slíku hlutverki. Að þessu virtu verður ekki annað séð en að áfrýjandi hafi látið undir höfuð leggjast að gera eðlilegar og nauðsynlegar ráðstafanir til að gæta hagsmuna sinna, jafnvel þótt hann hafi að eigin sögn talið sér fært að leggja traust á starfsmenn stefnda KPMG ehf. í þessum efnum. Áfrýjandi hefur frá árinu 1995 staðið fyrir atvinnurekstri og hefur aflað sér reynslu af viðskiptum. Sú reynsla leiðir til þess að gera mátti ríkar kröfur til meiri aðgæslu en hann sýndi í þeim viðskiptum, sem málið varðar. Er óhjákvæmilegt samkvæmt framansögðu að áfrýjandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur og er hæfilegt að sá hluti nemi þriðjungi. Samkvæmt þessu verður stefndu KPMG ehf., KPMG FS ehf., Einari Sveinbjörnssyni og Benedikt Kjartani Magnússyni í sameiningu gert að greiða áfrýjanda 122.488.155 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum málsins verða sömu stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem segir í dómsorði, en málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda KPMG Lausna ehf. verður látinn falla niður á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda KPMG Lausna ehf. af kröfu áfrýjanda, Eyvindar Jóhannssonar, en málskostnaður milli þeirra í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Stefndu KPMG ehf., KPMG FS ehf., Einar Sveinbjörnsson og Benedikt Kjartan Magnússon greiði óskipt áfrýjanda 122.488.155 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. apríl 2010 til 15. janúar 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og samtals 4.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. janúar sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 14. desember 2011 og þingfestri 15. sama mánaðar.
Stefnandi er Eyvindur Jóhannsson, Hæðarbyggð 24, Garðabæ.
Stefndu eru KPMG ehf., Borgartúni 27, Reykjavík, KPMG lausnir ehf., Borgartúni 27, Reykjavík, KPMG FS ehf., Borgartúni 27, Reykjavík, Benedikt Kjartan Magnússon, Aratúni 6, Garðabæ, og Einar Sveinbjörnsson, Íragerði 6, Stokkseyri. Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 213.315.879 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. apríl 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar, stefnanda að skaðlausu, samkvæmt málskostnaðarreikningi. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og því er þess krafist að málkostnaður beri virðisaukaskatt.
Stefndi, KPMG ehf., gerir þær dómkröfur að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi, KPMG Lausnir ehf., gerir þær dómkröfur að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi, KPMG FS ehf., gerir þær dómkröfur að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi, Benedikt Kjartan Magnússon, gerir þær kröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað auk virðisaukaskatts.
Stefndi, Einar Sveinbjörnsson, gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað auk virðisaukaskatts.
Af hálfu réttargæslustefndu eru engar kröfur gerðar í málinu.
I.
Helstu málavextir eru þeir að stefnandi var eigandi að 100% hlut í félögunum Vinnulyftur ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. en stefnandi stofnaði Vinnulyftur ehf. 28. desember 1995 og Smiðsbúð 12 ehf. hinn 17. desember 2001.
Samkvæmt samþykktum Vinnulyftna ehf. var tilgangur þess heildsala, smásala og umboðssala kaupa og sala fasteigna ásamt rekstri fasteigna. Að auki kaup og sala á byggingarvörum, rekstur vinnuvéla, útleiga á vinnulyftum, vinnupöllum og öðrum vinnuvélum, svo og sala á slíkum tækjum og búnaði, auk almennrar verktakastarfsemi. Einnig stundaði félagið lánastarfsemi ásamt skyldri starfsemi. Er því lýst í stefnu að fyrirtækið hafi verið vel tækjum búið samkvæmt upplýsingum ársreikningaskrár, sem unnin hafi verið eftir sölu félagsins af stefndu. Stefndi, Einar Sveinbjörnsson, hafi áritað ársreikninginn. Varanlegir rekstrarfjármunir hafi verið áætlaðir 131.899.175 krónur og skammtímakröfur og handbært fé 20.853.846 krónur.
Smiðsbúð 12 ehf. hafði sama skráða tilgang og Vinnulyftur ehf. og átti félagið fasteignina Smiðsbúð 12 í Garðabæ þar sem Vinnulyftur ehf. voru með höfuðstöðvar sínar. Stefnandi kveður fasteignina að Smiðsbúð hafa verið veðbandalausa við sölu félagsins.
Stefnandi kveður stefnda, KPMG ehf., með stefnda Benedikt í forsvari, hafa átt frumkvæði að því að koma félögum stefnanda í verð. Hafi stefnanda verið sagt að FS21 ehf. hygðist gera kauptilboð í félögin. Ekki hafi verið greint frá því hverjir stæðu að baki FS21 ehf. að öðru leyti en því að um væri að ræða fjársterka aðila. Samkvæmt framlagðri stofnfundargerð, dagsettri 27. mars 2007, var CF-fyrirtækjasala ehf., nú stefndi KPMG FS ehf., stofnandi félagsins. Stefnandi bendir á í stefnu að stefndi, KPMG FS ehf., hafi verið stofnaður af stefnda, KPMG Lausnum ehf., en síðarnefnt félag hafi verið stofnað af starfsmönnum stefnda, KPMG ehf. Stefndu, KMPG FS ehf. og KPMG Lausnir ehf., séu að fullu í eigu stefnda, KPMG ehf. Stefndi Benedikt, stjórnarmaður í stefnda, KPMG ehf., hafi verið stjórnarmaður og prókúruhafi í FS21 ehf. og hafi hann átt frumkvæði að því að nálgast stefnanda og átt í mestum samskiptum við hann vegna kaupanna.
Hinn 18. apríl 2007 undirrituðu stefndi Benedikt, forstöðumaður fyrirtækjasviðs stefnda, KPMG ehf., og Smíðandi ehf. skjal sem ber heitið ,,Verkefnistillaga um þjónustu vegna kaupa á Vinnulyftum ehf., og Smiðsbúð 12 ehf.“ Skjal þetta er samningur um kaup Smíðanda ehf. á ráðgjafarþjónustu stefnda, KPMG ehf., vegna fyrirhugaðra kaupa á hlutum í tveimur einkahlutafélögum stefnanda, Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf.
Samkvæmt samningum átti stefndi, KPMG ehf., að veita forsvarsmönnum Smíðanda ehf. aðstoð við verðmat félaganna, vinna tilboð í hlutafé þeirra og koma fram gagnvart seljanda. Verkefninu var skipt í fjóra áfanga og þá var tilgreindur sá hópur ráðgjafa, sem að verkinu kæmi á vegum stefnda, KPMG ehf., og einnig tiltekið hvaða þóknun verkkaupa bæri að greiða fyrir þjónustuna.
Eins og fram kemur í samningnum áttu forsvarsmenn verkkaupa, Eiður Ingi Sigurðarson og Gestur Már Þráinsson, fund með KPMG hinn 10. apríl 2008. Segir í samningnum að á þeim fundi hafi einnig verið fyrirhugaður samstarfsaðili þeirra í verkefninu, Elías Ívarsson, sem á þeim tíma var starfsmaður Vinnulyftna ehf., og var hann kynntur sem fyrirhugaður samstarfsaðili Eiðs Inga og Gests Más. Í greinargerð stefndu kemur fram að stefndi, KPMG ehf., hafi eftir fundinn haft samband við stefnanda og fengið leyfi hans til að fá ársreikninga og önnur nauðsynleg gögn hjá Jóni S. Þorbergssyni viðskiptafræðingi, sem sá um bókhald fyrir félög stefnanda. Í málinu liggja frammi útprentanir af tölvupóstum starfsmanna stefnda, KPMG ehf., og Jóns S. Þorbergssonar vegna þessar samskipta.
Í málinu liggja frammi tvö tilboð í allt hlutafé Vinnulyftna ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf. og eru þau bæði dagsett 22. maí 2007. Tilboðsgjafi í báðum tilboðunum er FS21 ehf. og ritar stefndi Benedikt undir tilboðin fyrir hönd hans á grundvelli umboðs frá 22. maí 2007. Óumdeilt er að stefnandi tók ekki fyrra tilboðinu innan tilboðsfrestsins, sem var til kl. 12:00 miðvikudaginn 23. maí 2007. Tilboðsfjárhæð var 425.000.000 króna. Á seinna tilboðinu, sem er að fjárhæð 455.000.000 króna, er handritað að tilboðsfrestur sé til föstudagsins 25. maí kl. 12:00 en sú dagsetning er síðan leiðrétt og nýr frestur tiltekinn til laugardagsins 26. maí kl. 24:00. Er þetta tilboð samþykkt með undirritun stefnanda.
Með kaupsamningi, dagsettum 22. maí 2007, keyptu Eiður Ingi Sigurðarson, Elías Ívarsson og Gestur Már Þráinsson félagið FS21 ehf. af CF-fyrirtækjasölu ehf., nú stefndi, KPMG FS ehf. Stefndi, KPMG FS ehf., var á þessum tíma undir stjórn Ágústs Þórhallssonar lögmanns. Tilgangur CF-fyrirtækjasölu ehf. var að sögn stefndu einkum sá, að stofna og eiga á lager félög með takmarkaðri ábyrgð, sem selja mætti þriðja manni fyrir þann rekstur sem hann hygðist stunda. Félagið var með starfsábyrgðartryggingu fasteignasala hjá réttargæslustefnda,Tryggingamiðstöðinni hf., til 31. desember 2009.
Kaupandi lét gera svokallaða áreiðanleikakönnun á hinum seldu félögum. Um þann þátt sá endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. en kaupandi átti á sama tíma í viðræðum við Glitni banka hf. um fjármögnun kaupanna.
Gengið var frá kaupsamningi milli FS21 ehf. og stefnanda um kaup þess fyrrnefnda á Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. á fundi 11. júlí 2007 í húsakynnum stefnda, KPMG ehf. Óumdeilt er í málinu að á fundinum var farið yfir efni kaupsamningsins og fylgiskjala og að fundinn sátu fulltrúar kaupanda og ráðgjafar þeirra, auk stefnanda og Jóns S. Þorbergssonar. Sama dag var gengið frá samkomulagi um varðveislu stefnda, KPMG ehf., á skjölum þeim, sem vörðuðu kaupin, og átti sú varðveisla að standa þar til gengið hefði verið frá skjölum milli FS21 ehf. og þess aðila sem lánaði fé til kaupanna, FS21 ehf. hefði greitt kaupverðið í samræmi við lið 2.2 í kaupsamningnum, gert upp vaxtaberandi skuldir og gengið hefði verið frá skuld stefnanda við félögin vegna úttektar hans úr rekstrinum.
Í 3. lið fyrirvara í kauptilboðunum áskildi tilboðsgjafi, FS21 ehf., sér rétt til að ræða við Elías Ívarsson, starfsmann Vinnulyftna ehf. til sjö ára, um áframhaldandi störf hjá félaginu. Stefnandi lýsir atvikum þannig að fyrst við kaupsamningsgerðina hafi komið í ljós að Elías var einn þriggja, sem stefndi, KPMG ehf., hefði unnið fyrir, með og að yfirtökunni en stefnandi hefði ekki áður verið upplýstur um það. Í stefnu er því lýst að hinn 9. júlí 2007 hafi ríkisskattstjóri veitt skjallegum gögnum viðtöku um breytta stjórn, framkvæmdarstjórn, firmaritun og prókúru FS21 ehf. en stefnandi hafi fyrst við kaupsamningsgerðina fengið að vita um það, að við félaginu hefðu tekið þeir Eiður Ingi Sigurðsson, Gestur Már Þráinsson og Elías Ívarsson.
Óumdeilt er að stefndi, KPMG ehf., gegndi áfram starfi endurskoðanda fyrir FS21 ehf. og tók jafnframt við starfi endurskoðanda fyrir Vinnulyftur ehf. og Smiðsbúð 12 ehf.
Kaupverðið var 453.983.977 krónur samtals fyrir allt hlutafé í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf., að frádregnum vaxtaberandi skuldum og skuldum við eigendur hinn 31. desember 2006. Til lækkunar á kaupverði skyldi koma:
|
a) Breytingar til lækkunar á eigin fé |
kr. 901.809 |
|
b) Bifreið fastanr. XI-400 |
kr. 204.194 |
|
|
|
Er jafnframt handritað í kaupsamninginn: „Búið að taka 20.000.000,-“.
Kaupverðið skyldi greiðast með eftirfarandi hætti:
|
a) Við innan 3ja virkra daga frá undirritun kaupsamnings |
kr. 258.893.997 |
|
b) Með óverðtryggðu skuldabréfi til 3 ára sem ber 10,5% vexti |
kr. 90.000.000 |
|
c) Með greiðslu í reiðufé hinn 31. mars 2008 |
kr. 105.000.000 |
|
Samtals |
kr. 453.893.997 |
Af a-lið hér að ofan hafi átt að koma frádráttur vegna niðurgreiðslu á vaxtaberandi skuldum fyrirtækjanna og vegna úttektar stefnanda. Hafi átt að greiða 185.872.402 krónur inn á reikning stefnanda. Skuldabréfið samkvæmt b-lið átti að afhenda við undirritun kaupsamnings. Í 4. kafla kaupsamningsins er að finna yfirlýsingar seljanda og kaupanda um frádrætti og önnur atriði varðandi fjárhagslegt uppgjör samkvæmt samningnum.
Í málinu liggur frammi framangreint skuldabréf að fjárhæð 90.000.000 króna, útgefið 11. júlí 2007 af FS21 ehf. til stefnanda. Lánið bar FS21 ehf. að endurgreiða með einni afborgun hinn 1. ágúst 2010 en lánið bar 10,5% fasta vexti frá 11. júlí 2007 og skyldu þeir greiðast eftir á einu sinni á ári, hinn 1. ágúst ár hvert. Óumdeilt er að skuldabréfið var óstimplað.
Hinn 23. nóvember 2007 var unnin samrunaáætlun fyrir FS21 ehf. og Vinnulyftur ehf. Samruninn var tilkynntur til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra með bréfi 29. nóvember 2007. Tilkynning um samruna félaganna var gefin út 4. desember 2007 og birtist auglýsing um hann í Lögbirtingarblaðinu 5. desember 2007.
FS21 ehf. greiddi fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi. Af umsaminni 105.000.000 króna greiðslu greiddi félagið stefnanda 40.314.538 krónur hinn 31. mars 2008. Frá greiðslunni höfðu þá verið dregnar 27.076.773 krónur sem kaupandi kvað vera vegna einkakostnaðar samkvæmt gr. 4.5 í kaupsamningnum og 37.608.689 krónur á grundvelli gr. 4.4. og 4.11. Í gr. 4.4. er ákvæði um að seljandi ábyrgist að leigutekjur og söluhagnaður hafi vaxið um 7% á fyrstu sex mánuðum ársins 2007 frá sama tíma á árinu 2006. Er síðan mælt fyrir um að reynist þessar heildartekjur lægri, lækki kaupverð krónu á móti krónu og komi til lækkunar á greiðslu 31. mars 2008. Í gr. 4.11. er fjallað um áreiðanleikakönnunina og kemur þar fram að kaupandi áskilji sér fullan rétt til þess að koma með athugasemdir ef gögn, sem óskað var eftir en ekki útveguð, eða nýjar upplýsingar koma fram sem hafa veruleg áhrif á verðmæti félagsins eða annað, sem máli skiptir varðandi forsendur kaupanna.
Lögmaður stefnanda mótmælti uppgjöri FS21 ehf. sem röngu með bréfi 2. apríl 2008 og hefur síðan reynt innheimtu kröfu sinnar með ýmsum hætti. Þá hefur stefnandi óskað eftir aðkomu stefnda, KPMG ehf., að málinu. Bú Vinnulyftna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 14. apríl 2010. Hefur stefnandi lýst kröfum sínum í þrotabúið með fjórum kröfulýsingum að fjárhæð samtals 213.315.879 krónur sem er stefnufjárhæðin. Hefur skiptastjóri þrotabúsins samþykkt kröfur stefnanda.
II.
Stefnandi vísar til þess að stefndu hafi allir gegnt afgerandi hlutverki við kaup og sölu félaganna Vinnulyftna ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf. Starfsmenn stefnda, KPMG ehf., hafi átt frumkvæði að viðskiptunum og notað m.a. til þess félög sín þar sem stefndu, Benedikt og Einar, hafi verið lykilstarfsmenn. Hafi stefndu, Benedikt og Einar, komið fram í nafni stefnda, KPMG ehf. Stefndu hafi annast viðskiptin og útbúið öll skjöl vegna þeirra. Við sölu fyrirtækja gildi lög nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, og með vísan til ákvæða 27. gr. laganna beri fasteignasali ábyrgð á tjóni, sem hann eða starfsmenn hans valdi í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Um sakarmat og sönnun gildi reglur skaðabótaréttar.
Við viðskiptin hafi hagsmunir stefnanda verið settir í hættu og það hafi leitt til verulegs fjártjóns fyrir hann. Ljóst sé að framganga stefnda, KPMG ehf., og starfsmanna hans hafi brotið gegn ákvæðum 14. gr. og 15. gr. framangreindra laga, sem ætlað sé að tryggja sjálfstæði og óhlutdrægni fasteignasala. Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laganna meini fasteignasala að hafa milligöngu um kaup eða sölu fasteignar, þ.m.t. fyrirtækis, búi hann eða starfsmenn hans yfir sérstökum upplýsingum sem hafi þýðingu við söluna og aðrir hafa ekki aðgang að. Stefndi, KPMG ehf., hafi vitað um hina raunverulegu kaupendur en lagt fram tilboð fyrir hönd félags sem kaupendum hafi verið ætlað að yfirtaka. Stefndi, KPMG ehf., hafi ekki upplýst stefnanda um það að lykilstarfsmaður hans til sjö ára ynni að yfirtökunni með stefnda. Þá hafi stefndi, KPMG ehf., vitað um það hvaða skilyrðum lán til FS21 væru bundin, enda hafi framkvæmd sölunnar tekið mið af því að hagsmunir Glitnis yrðu fyrst og fremst tryggðir á kostnað hagsmuna stefnanda. Fram að undirritun kaupsamnings hafi hagsmunir stefnda, KPMG ehf., verið beinir í gegnum félag í eigu hans, FS21.
Þá sé enn fremur lögð sú skylda á fasteignasala, sbr. ákvæði 3. mgr. 14. gr., að upplýsa um aðra hagsmuni sem hann kunni að hafa annarra en greiðslu þóknunar og útlagðs kostnaðar. Ljóst sé að stefndi, KPMG ehf., hafi haft margvíslegra annarra hagsmuna að gæta en að tryggja sem lægst kaupverð. Þá hafi stefndi, KPMG ehf., strax við kaupin orðið að endurskoðanda hinna keyptu félaga og unnið að samrunaáætlun fyrir félögin FS21 og Vinnulyftur. Megi því vera ljóst að hagsmunir stefnda, KPMG ehf., hafi verið aðrir og meiri en hefðbundins fyrirtækjasala.
Stefndi, KPMG ehf., hafi ekki gætt að hlutlægnisskyldum sínum og ekki starfað svo sem góðar viðskiptavenjur bjóði. Hann hafi ekki liðsinnt bæði kaupanda og seljanda og gætt hagsmuna þeirra beggja, svo sem honum hafi borið að gera samkvæmt 15. gr. fyrrgreindra laga. Ljóst sé að hagsmunir stefnanda hafi verið fyrir borð bornir og að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni.
Þá hafi kaupsamningurinn brotið gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Vinnulyftur og Smiðsbúð 12 hafi fjármagnað kaup þriðja aðila, þ.e. FS21, við kaupin í sjálfum sér en ákvæði 2. mgr. 79. gr. laganna leggi fortakslaust bann við slíku. Með þessu hafi ákvæði framangreindra laga verið sniðgengin og brotin og þannig hafi stefndi, KPMG ehf., brotið gegn starfsskyldum sínum sem fasteignasali og gegn góðum viðskiptavenjum.
Með samruna Vinnulyftna ehf. og FS21 ehf. hafi verið brotið gegn ákvæðum XIV. kafla laga nr. 138/1994. Kaupferli félaganna hafi ekki verið lokið á þessum tíma og skyldur stefndu hafi ekki verið fallnar niður gagnvart stefnanda. Þá beri stefndu, Einar Sveinbjörnsson og KPMG ehf., jafnframt ábyrgð eftir þágildandi lögum um endurskoðendur nr. 18/1997. Sú ábyrgð byggi einnig á sakarábyrgð og því sé sérstakrar umfjöllunar ekki þörf. Ekki hafi verið getið mikilvægra upplýsinga í efnahags- og rekstrarsamrunareikningi, sem stefndi Einar hafi unnið fyrir stefnda, KPMG ehf. Stefndi Einar hafi unnið samrunaáætlun fyrir bæði félögin, FS21 ehf. og Vinnulyftur ehf., þrátt fyrir að ákvæði XIV. kafla laga nr. 138/1994 áskilji að tveir eða fleiri vinni áætlanir. Þannig hafi hann unnið að þeirri niðurstöðu að samruninn kæmi ekki til með að rýra verulega möguleika lánardrottna á fullnustu krafna í hverju félagi um sig. Vegna þessa hafi stefnandi orðið af möguleikum sem framangreind lög um einkahlutafélög veiti lánardrottnum samrunafélaga á því að tryggja kröfur sínar eða stöðva samruna. Með þessu hafi stefndu brotið gegn lögunum og góðum viðskiptavenjum og starfsháttum sem fyrirtækjasali.
Komist dómur að þeirri niðurstöðu að lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004 eigi ekki við í málinu, byggir stefnandi kröfur sínar á sakarreglu skaðabótaréttar. Þá vísar stefnandi enn fremur sérstaklega til svokallaðrar sérfræðiábyrgðar. Eftir þeirri ábyrgð séu gerðar strangari kröfur til hinna huglægu og hlutlægu þátta og sé gerð meiri krafa um aðgæslu og vandvirkni en almennt leiði af sakarreglunni og til þess hvað hafi mátt sjá fyrir um afleiðingar háttsemi. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi látið sér í léttu rúmi liggja hverjar endanlegar efndir kynnu að verða af kaupsamningi fyrir stefnanda, eins og ráðið verði af efni hans. Stefndu hafi engan reka gert að því að tryggja hagsmuni stefnanda, hvort heldur fyrir undirritun kaupsamnings eða eftir hana. Með aðkomu sinni að veðsetningu Smiðsbúðar 12 ehf. og samruna Vinnulyftna ehf. og FS21 ehf. hafi stefndu gengið beinlínis í berhögg við hagsmuni stefnanda af fullnustu samnings sem stefndu höfðu sjálfir útbúið. Þegar ábyrgð stefndu sé metin, verði að horfa til þess aðstöðumunar sem sé á aðilum og þeirrar miklu sérfræðiþekkingar sem framkvæmdin útheimti.
Stefnandi telur að stefndu hafi á öllum stigum kaupferlisins bakað sér bótaskyldu. Stefnandi hafi ekki hreyft athugasemdum við verðmatið á félögum sínum, enda hafi hann treyst á faglega þjónustu stefnda, KPMG ehf. Verðmatið hafi þó auðsjáanlega verið unnið af tilboðsgjafa, þar eð FS21 ehf. hafi í raun verið í eigu stefnda, KPMG ehf.
Þrátt fyrir að stefnandi hefði látið frá sér fyrirtæki í öflugum rekstri, án nokkurra trygginga fyrir efndum á samningi, hafi hann gengist undir ríkar skyldur til tryggingar efndum gagnvart viðsemjendum sínum. Þannig hafi stefnandi m.a. að þurft að gangast undir samkeppnisbann. Enn fremur hafi stefnandi og eiginkona hans þurft að gefa tryggingarréttindi í fasteign sinni, þar sem þau héldu heimili, fyrir allt að 30.000.000 króna „til tryggingar vegna hugsanlegra krafna frá skattyfirvöldum auk álags sem upp kunna að koma og rekja má til rekstrar félaganna fyrir dagsetningu þess tryggingarbréfs“, eins og segi í kaupsamningnum. Að auki hafi stefnandi þurft að taka á sig ótakmarkaða persónulega ábyrgð fyrir hugsanlegum skuldum. Hvergi í kaupsamningnum sé hins vegar getið um persónulegar ábyrgðir fyrirsvarsmanna og eigenda FS21 ehf. eða um aðrar tryggingar fyrir efndum á kaupum.
Stefnanda hafi enn fremur verið gert að undirrita samkomulag við stefnda, KPMG ehf., samhliða undirritun kaupsamningsins, þar sem stefndi, KPMG ehf., hélt eftir skjölum stefnanda á meðan gengið yrði frá samningnum Þetta hafi verið hlutaskrár í hinum seldu fyrirtækjum, eintak stefnanda af kaupsamningi, skuldabréfið, sem FS21 ehf. gaf út til handa stefnanda og samkomulagið um geymslu gagnanna. Hafi stefnandi fengið þessi gögn afhent 10. ágúst 2007. Í samkomulaginu komi fram að breytingar yrðu gerðar á prókúrurétti Vinnulyftna ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf. áður en kaupverð yrði greitt.
Þá hafi stefndu frá upphafi leynt stefnanda mikilsverðum upplýsingum, unnið með lykilstarfsmönnum stefnanda á bak við hann, verið ófaglegir og óvandvirkir, virt að vettugi ákvæði laga og þá sérstaklega einkahlutafélagalaga og beinlínis unnið gegn hagsmunum hans eftir undirritun kaupsamnings. Þannig hafi stefnandi t.a.m. verið sviptur réttarstöðu lánardrottna samkvæmt 101. gr. laga nr. 138/1994 á grundvelli rangra upplýsinga og ófaglegrar niðurstöðu matsgerðar og efnahagssamrunareiknings stefnda Einars. Stefnandi telur stefndu hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart honum og vitað að hann treysti leiðsögn þeirra við hagsmunagæslu fyrir sína hönd. Hafi traustið verið misnotað og hafi stefnandi orðið fyrir verulegu tjóni af þeim sökum. Rökin fyrir hertu sakarmati og sérfræðiábyrgð fái meðal annars stoð í ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga um endurskoðendur nr. 18/1997 og í 15. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004.
Ábyrgð stefndu, KPMG ehf., KPMG FS ehf. og KPMG Lausna ehf., byggist á vinnuveitendaábyrgð. Aðild að þessum gerningum sé flókin vegna þess að stefndi, KPMG ehf., hafi komið á fót flóknu eignarhaldsneti utan um starfsemi sína og ekki gætt þess í skjalavinnslu sinni að merkja skjöl tryggilega.
Stefndi, KPMG FS ehf., hafi verið stofnað af stefnda, KPMG Lausnum ehf., sem aftur hafi verið í eigu stefnda, KPMG ehf. FS21 ehf. hafi verið stofnað af stefnda, KPMG FS ehf. Stefndi Benedikt sé stjórnarmaður í stefnda, KPMG ehf., stefnda KPMG FS ehf., stefnda KPMG Lausnum ehf. og FS21 ehf. en þar hafi hann jafnframt verið prókúruhafi.
Stefndu þurfi að bera hallann af hvaða óvissu, sem kunni að vera fyrir hendi í þessu máli, og ljóst sé að starfsmenn þeirra allra, sem og aðkoma þeirra í gegnum eignarhaldsnet sitt, hafi verið til þess fallin að gera málið flóknara en þyrfti og því sé þess krafist að þeim verði öllum gert að greiða stefnanda skaðabætur in solidum. Þá sé aðild stefnda, KPMG ehf., nauðsynleg þar eð hann sé endanlega ábyrgur fyrir starfsháttum félaga í sinni eigu og sem hafi í eðli sínu verið ósjálfstæðar einingar hans eða skúffufyrirtæki. Stefndu, Einar og Benedikt, séu persónulega ábyrgir, enda sé vinnuveitendaábyrgð ekki ætlað að leysa starfsmenn undan ábyrgð á skaðaverkum sínum. Stefndi Einar hafi unnið samrunaefnahagsreikning sem löggiltur endurskoðandi en í reikningnum sé farið efnislega rangt með staðreyndir sem varði hagsmuni stefnanda miklu. Þar sé ekki bókfært skuldabréfið, sem gefið hafi verið út stefnanda til handa, undir liðnum langtímaskuldir, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá sé ómögulegt að greina að tekið hafi verið tillit til greiðslu til stefnanda að fjárhæð 105.000.000 króna undir liðnum skammtímaskuldir.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sé stefnt til réttargæslu á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/2004 en stefndi, KPMG ehf., sé með ábyrgðartryggingu sína hjá félaginu en hann hafi neitað að upplýsa stefnanda um hvar hann væri ábyrgðartryggður.
Tryggingamiðstöðinni hf. sé stefnt til réttargæslu á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/2004 stefndi, KPMG FS ehf., sé með ábyrgðartryggingu sína hjá félaginu.
Stefnandi kveður dómkröfu sína byggjast á lýstum kröfum sínum í þrotabú Vinnulyftna/FS21 ehf. sem samþykktar hafi verið af skiptastjóra og sundurliðist krafan þannig:
|
Krafa A: |
kr. 104.971.077 |
|
Krafa B: |
kr. 14.786.589 |
|
Krafa C: |
kr. 11.449.924 |
|
Krafa D: |
kr. 82.108.289 |
|
Samtals: |
kr. 213.315.879 |
Þá sé krafist dráttarvaxta frá úrskurðardegi um gjaldþrot frá 14. apríl 2010 til greiðsludags.
Enn fremur gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefndu in solidum að skaðlausu og samkvæmt hagsmunatengdum reikningi. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og beri samkvæmt lögum um virðisaukaskatt að gera kröfu um virðisaukaskatt úr hendi stefndu.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar, laga um ársreikninga nr. 3/2006, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og til 2. félagsréttartilskipunar EBE (77/91/EBE).
III.
Stefndi, KPMG ehf., byggir sýknukröfu sína á því, að hvorki félagið né starfsmenn þess, sem það beri húsbóndaábyrgð á, hafi haft milligöngu um sölu á hlutum stefnanda í einkahlutafélögunum, Vinnulyftum og Smiðsbúð, til FS21 hinn 11. júlí 2007 í skilningi laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004. Ekkert samningssamband hafi verið milli stefnanda annars vegar og stefnda, KPMG ehf., eða starfsmanna, sem félagið beri húsbóndaábyrgð á, hins vegar. Stefndi, KPMG ehf., og starfsmenn hans hafi verið að vinna fyrir kaupanda hlutanna, FS21. Það hafi stefnandi vitað eða mátt vita þar sem það hafi m.a. komið fram í gögnum sem honum hafi verið afhent. Allir hafi starfsmennirnir verið á launaskrá hjá stefnda, KPMG ehf., og hafi FS21 greitt stefnda, KPMG ehf., þóknun fyrir ráðgjöfina. Á stefnda, KPMG ehf., og starfsmönnum félagsins hafi því engin skylda hvílt til að gæta hagsmuna stefnanda varðandi söluna. Stefnandi hafi heldur ekki sannað eða gert sennilegt að stefndi, KPMG ehf., eða starfsmenn félagsins hafi af ásetningi eða gáleysi skert hagsmuni hans. Stefnandi hafi notið liðsinnis viðskiptafræðingsins, Jóns S. Þorbergssonar, og verði að ætla að hann hafi verið fullfær um að gæta hagsmuna stefnanda og þekkt þekkingarleg takmörk sín. Jóni S. Þorbergssyni hafi borið að gera stefnanda grein fyrir því, ef hann hefði talið að þörf væri frekari ráðgjafar en hans við samningsgerðina. Bótaskylda stefnda, KPMG ehf., eða starfsmanna félagsins verði því hvorki reist á 27. gr. laga nr. 99/2004 né öðrum ákvæðum þeirra. Lög nr. 99/2004 eigi ekki við atvik máls þessa.
Stefndi, KPMG ehf., hafni því að hann eða starfsmenn, sem hann beri húsbóndaábyrgð á, hafi í störfum sínum fyrir FS21 bakað stefnanda tjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi. Engin orsakatengsl séu milli ráðgjafar stefndu við FS21 og tjóns stefnanda.
Stefnanda og FS21 ehf. hafi verið frjálst að semja með þeim hætti sem gert hafi verið 11. júlí 2007. Kaupsamningurinn hafi verið afrakstur vinnu og ákvarðana beggja samningsaðila, sem hafi notið aðstoðar ráðgjafa sinna. Hafi kaupandi notið ráðgjafar stefnda, KPMG ehf., og seljandinn hafi notið aðstoðar Jóns S. Þorbergssonar viðskiptafræðings. Ráðgjafa stefnanda hafi þó ekki alltaf tekist að útvega þau gögn, sem ráðgjafi kaupanda hafi viljað sjá og fá áður en frá kaupsamningi yrði gengið. Endurspeglist þetta m.a. í grein 4.11. í kaupsamningnum.
Stefnandi hafi fengið kaupsamningsgreiðsluna greidda. Hann hafi fengið greiðslu 31. mars 2008 greidda á gjalddaga og hafi sú greiðsla numið 40.314.538 krónum, að frádregnum einkakostnaði hans að fjárhæð 27.076.773 krónur og leiðréttu kaupverði samkvæmt ákvæðum í kaupsamningi. Hafi stefnandi ekki viljað sætta sig við leiðréttingu kaupverðsins og hafi komið upp ágreiningur milli kaupanda og stefnanda um, hvort honum hafi borið hærri greiðsla 31. mars 2008. Stefnandi hafi hins vegar hvorki sýnt fram á það með efnisrökum eða gögnum að hann ætti rétt til hærri greiðslu en hann fékk. Þá hafi stefnandi heldur ekkert hirt um að reyna innheimtu meintra eftirstöðva hjá kaupanda, heldur staðið í öðru og óskyldu þrasi og bréfaskriftum við kaupendur, auk þess sem lögmaður hans hafi krafið stefnda, KPMG ehf., um upplýsingar, sem lögmaðurinn hefði allt eins geta fengið hjá stefnanda sjálfum. Aðgerðarleysi stefnanda og lögmanns hans virðist því helst hafa bakað honum tjóni að þessu leyti, hafi stefnandi átt einhvern rétt til frekari greiðslna 31. mars 2008. Kröfulýsing í þrotabú FS21 ehf. sé hvorki grundvöllur undir bótaskyldu stefnda, KPMG ehf., eða starfsmanna, sem hann ber húsbóndaábyrgð á, né fjárhæð skaðabótakröfu.
Stefndi, KPMG ehf., byggir á því að ekkert í samningum FS21 ehf. og stefnanda hafi bannað samruna félagsins við Vinnulyftur ehf. Samruni félaganna hafi ekki verið í andstöðu við 2. mgr. 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Fullyrðing í stefnu um að svo sé, án þess að færa nokkur efnisleg rök fyrir staðhæfingunni, feli ekki í sér sönnun um brot, ólögmæta og saknæma háttsemi. Hvergi í stefnu eða framlögðum gögnum sé gerð tilraun til þess af hálfu stefnanda að sanna að samruninn hafi dregið úr getu hins sameinaða félags til að efna kaupin. Hafa verði hugfast, að hinn 31. mars 2008 hafði FS21 ehf. greitt allt kaupverðið, að frátöldu eftirstöðvaskuldabréfinu að fjárhæð 90.000.000 króna.
Hvorki stefndi, KPMG ehf., né nokkur starfsmaður hans, sem kom að gerð nauðsynlegra samrunagagna FS21 ehf. og Vinnulyftna ehf., hafi bakað stefnanda tjón með þeim störfum sínum. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við samruna félaganna, hvorki þegar hann var auglýstur í Lögbirtingarblaðinu, né í apríl 2008 þegar stefnandi krafðist 31.977.575 króna, auk dráttarvaxta að fjárhæð 5.773.729 króna, sem hann hafði reiknað frá kaupsamningsdegi 11. júlí 2007, þótt krafan hafi fyrst verið á gjalddaga 31. mars 2008. Dráttarvaxtakrafa þessi sé fráleit.
Kaupendur og stefnandi hafi í frjálsum samningi sín á milli ákveðið að eftirstöðvaskuldabréf að fjárhæð 90.000.000 króna skyldi vera eingreiðsluskuldabréf, án veðtrygginga, með gjalddaga 1. ágúst 2010, og að vexti skyldi greiða 1. ágúst ár hvert fram að gjalddaga þess. Stefnda, KPMG ehf., sé með öllu ókunnugt um, hvort umsamdir vextir hafi verið greiddir 1. ágúst 2008. Í kröfulýsingu sé skuldabréfið sagt hafa verið gjaldfellt 1. ágúst 2009. Höfundur skuldabréfs, sem efnislega er í samræmi við það sem fyrirskrifað sé, t.d. í kaupsamningi, eins og reyndin hafi verið hjá FS21 og stefnanda, verði ekki gerður ábyrgur, þótt skuldari geti ekki greitt skuldbréfið þegar á reyni. Ábyrgð höfundar væri þá hlutlæg en almennri hlutlægri bótareglu sé ekki til að dreifa í íslenskum rétti. Stefnandi hafi ekki sannað að FS21 hefði ekki getað greitt af skuldabréfinu, hefðu forsendur kaupanna, verðlagning hlutanna, fjármögnun kaupanna og önnur atriði gengið eftir.
Stefndi, KPMG ehf., bendir á að forsvarsmenn FS21, sem voru í samningssambandi við stefnda, hafi við gjaldþrot FS21 14. apríl 2010 lýst ástæðum gjaldþrotsins. Í þeirra huga hafi gjaldþrotið ekki átt rót sína í saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda, KPMG ehf., eða starfsmanna sem stefndi beri húsbóndaábyrgð á, heldur hruni íslensks viðskiptalífs á árinu 2008 með tilheyrandi stökkbreytingu gengistryggðra lána FS21, sem tekin hefðu verið hjá Glitni banka hf. vegna kaupanna. Andvirði þeirra hefði allt runnið til stefnanda sem liður í efndum á kaupsamningnum frá 11. júlí 2007.
Ætla megi að í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lána og endurútreikning vaxta á greidda gjalddaga sé hins vegar að koma í ljós að FS21 hafi ekki átt við þann fjárhagsvanda að glíma, sem talið hafi verið í apríl 2010 þegar stjórn félagsins ákvað að gefa það upp til gjaldþrotaskipta vegna þrýstings frá Íslandsbanka hf., sem tekið hafði við lánasamningum Glitnis banka hf., við greiðsluþrot hans í byrjun október 2008. Þegar FS21 hafi orðið gjaldþrota, hefði stefnandi ekki gert neinn reka að því að tryggja hagsmuni sína gagnvart félaginu. Hefði hann þó notið lögmannsþjónustu vegna meintra vanefnda FS21 allt frá 2. apríl 2008. Meint tjón stefnanda megi því kannski helst rekja til athafnaleysis stefnanda sjálfs og lögmanns hans.
Stefndi, KPMG Lausnir ehf., byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekkert komið að samningum FS21 og stefnanda. Hann geti því ekki átt aðild að máli þessu og beri því að sýkna hann á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefndi, KPMG FS ehf., byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekkert komið að samningum FS21 og stefnanda. Hann geti því ekki á aðild að máli þessu og beri því að sýkna hann á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefndi, Benedikt Kjartan Magnússon, kveðst hafa starfað fyrir meðstefnda, KPMG ehf., og leitt vinnu félagsins í þágu FS21. Stefndi, KPMG ehf., beri húsbóndaábyrgð á störfum hans og byggir stefndi sýknukröfu sína á sömu málsástæðum og stefndi, KPMG ehf.
Stefndi, Einar Sveinbjörnsson, kveðst vera endurskoðandi hjá stefnda, KPMG ehf., og falli undir starfsábyrgðartryggingu félagsins, sem því hafi verið skylt að hafa, sbr. 10. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, sem verið hafi í gildi til 1. janúar 2009. Stefndi Einar verði ekki persónulega krafinn um greiðslu skaðabóta vegna starfa sinna sem endurskoðandi hjá stefnda, KPMG ehf., nema sannað sé að hann hafi í störfum sínum valdið tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, sbr. 3. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á því sé ekki byggt í stefnu. Í störfum sínum hjá stefnda, KPMG ehf., hafi stefndi enga þjónustu veitt stefnanda. Ekkert í störfum stefnda sem endurskoðanda hjá stefnda, KPMG ehf., hafi valdið stefnanda tjóni.
Stefndu benda á að samrunaefnahagsreikningur Vinnulyftna ehf. og FS21 ehf., sem stefnandi hafi lagt fram, geymi allar upplýsingar um skuldir félaganna, eins og fram komi í framlagðri yfirlýsingu stefnda Einars frá 28. janúar 2012. Stefnandi hafi ekki sannað með matsgerð að samrunaefnahagsreikningi Vinnulyftna ehf. og FS21 ehf. hafi verið áfátt og leitt til tjóns fyrir stefnanda.
Stefndu mótmæla fjárhæð bótakröfu stefnanda sem ósannaðri. Ósamþykktar kröfulýsingar í þrotabú kaupanda séu ekki sönnunargögn um tjón stefnanda. Auk þess geymi skaðabótakrafan bæði dráttarvexti og innheimtukostnað en ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi greitt lögmanni sínum innheimtukostnaðinn. Þá virðist stefnandi hafa lækkað um helming frádrátt samkvæmt grein 4.5 í kaupsamningi sem lögmaður hans hefði samþykkt í apríl 2008.
Stefndu mótmæla upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda, enda sé hann ekki í samræmi við 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Með stefnu í máli þessu, sem þingfest hafi verið hinn 15. desember 2011, hafi stefnandi fyrst lagt fram gögn til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta og því geti skaðabótakrafan fyrst borið dráttarvexti einum mánuði þaðan í frá. Verði stefndu taldir bótaskyldir, sé þess krafist að bætur beri dráttarvexti frá dómsuppsögu, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Með vísan til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé gerð krafa um að stefnda Benedikt verði ekki gert að greiða neinar bætur, komist rétturinn að því að hann hafi bakað stefnanda tjón.
Sýknukröfur eru byggðar á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004, óskráðum og skráðum reglum skaðabótaréttar utan samninga, 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur um málskostnað eru byggðar á ákvæðum 129. og 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfur um virðisaukaskatt á málskostnað eru byggðar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
IV.
Af hálfu réttargæslustefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., eru engar kröfur gerðar en hann styður kröfur og málflutning stefnda, KPMG ehf.
Í greinargerð sinni lýsir réttargæslustefndi því að stefndi, KPMG ehf., hafi verið með lögboðna starfsábyrgðartryggingu endurskoðanda í gildi hjá félaginu frá 27. janúar 1998. Gildi vátryggingaskilmálar réttargæslustefnda um starfsábyrgðartryggingar endurskoðenda um vátrygginguna, Vátryggingarfjárhæðin sé 50.000.000 krónur í hverju einstöku tjóni og hámarksbætur á vátryggingartímabilinu séu 50.000.000 króna. Réttargæslustefndi kveður stefnda, Einar Sveinbjörnsson, vera vátryggðan samkvæmt framangreindri vátryggingu í samræmi við þá skilmála sem um hana gildi. Stefndu, KPMG Lausnir ehf. og KPMG FS ehf., séu hins vegar ekki og hafi aldrei verið með vátryggingar í gildi hjá réttargæslustefnda. Þá hafi stefndi, KPMG ehf., ekki verið með starfsábyrgðartryggingu fasteignasala hjá réttargæslustefnda.
V.
Af hálfu réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., eru engar kröfur gerðar á hendur stefnanda.
Í greinargerð réttargæslustefnda kemur fram að stefndi, KPMG FS ehf., hafi haft í gildi starfábyrgðartryggingu fasteignasala hjá réttargæslustefnda frá 1. janúar 2006 til ársloka 2009. Einn starfsmaður (fasteignasali), Ágúst Þórhallsson, hafi verið vátryggður og hafi hámarksbætur vegna hvers einstaks tjónstilviks numið 9.010.000 krónum á síðasta vátryggingartímabili, sem vátryggingin var í gildi, þ.e. tímabilið 1. janúar 2009 til 31. desember 2009. Stefndu í máli þessu hafi ekki haft aðrar vátryggingar (ábyrgðartryggingar) hjá félaginu, sem komið geti til skoðunar vegna dómkröfu stefnanda í máli þessu.
Samkvæmt gr. 6.1 í vátryggingarskilmálum þeim, sem giltu um fyrrgreinda starfsábyrgðartryggingu, hafi vátryggingin tekið til skaðabótakröfu gegn vátryggingartaka sem stofnað var til á vátryggingartímanum. Skaðabótakrafa taldist hafa stofnast, sbr. gr. 6.2, við það tímamark að hið fyrra af eftirfarandi tilvikum hafði borið að höndum:
a. að þriðji maður gerði skriflega skaðabótakröfu á hendur vátryggingartaka,
b. að vátryggingartaka varð fyrst kunnugt um að þriðji maður hafði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, sem gat fallið undir vátrygginguna og kunni að verða rakið til vátryggingartaka eða starfsmanna hans eða að bein hætta var á að slíkt tjón yrði.
Þá hafi verið tekið fram í gr. 6.3 í skilmálunum að vátryggingin tæki ekki til tjóns vegna skaðabótakröfu sem stofnast hafði gegn vátryggingartaka á vátryggingartímanum, hefði krafan ekki verið tilkynnt félaginu í síðasta lagi tólf mánuðum eftir lok vátryggingarinnar.
Réttargæslustefnda hafi ekki verið tilkynnt um skaðabótakröfu þá, sem höfð sé uppi í dómsmáli þessu á hendur vátryggingartakanum, stefnda KPMG FS ehf., áður en tólf mánuðir voru liðnir frá lokum vátryggingarinnar, heldur hafi það fyrst gerst við höfðun dómsmálsins. Þá verði ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda og gögnum málsins að öðru leyti en að stefndi, KPMG ehf., hafi annast sölu fyrirtækjanna Vinnulyftna ehf. og Smiðsbúðar 12 ehf. þegar stefnandi seldi fyrirtækin til FS21 ehf. á árinu 2007, auk þess sem stefndi, KPMG ehf., hefði haft faglega umsjón með sameiningu fyrirtækjanna Vinnulyftna ehf. og FS21 ehf. í kjölfarið. Ekki verði heldur séð að sá, sem vátryggður var samkvæmt ábyrgðartryggingunni, Ágúst Þórhallsson, hafi léð atbeina sinn við umrædda fyrirtækjasölu eða fyrirtækjasamruna. Í ljósi þessa sé engum vafa undirorpið að ekki geti komið til greiðslu bóta úr starfsábyrgðartryggingu þeirri, sem stefndi, KPMG FS ehf., hafi haft hjá réttargæslustefnda vegna þeirrar skaðabótakröfu sem stefnandi hefur uppi í máli þessu.
VI.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi málsins og stefndi, Benedikt Kjartan Magnússon, viðskiptamaður og forstöðumaður fyrirtækjasviðs stefnda, KPMG ehf., og vitnin, Jón Sævar Þorbergsson viðskiptafræðingur, Ágúst Þórhallsson hdl., og Ásbjörn Jónsson hrl., skiptastjóri þrotabús Vinnulyftna og Smiðsbúðar 12. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.
Stefnandi gerir í máli þessu skaðabótakröfur á hendur stefndu og byggir á því að stefndu hafi annast viðskiptin og útbúið öll skjöl vegna þeirra. Vísar stefnandi í fyrsta lagi til þess að lög nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, eigi hér við og einkum ákvæði 27. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að fasteignasali beri ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Byggir stefnandi á því að við þessi viðskipti hafi hagsmunir stefnanda verið settir í hættu og það hafi leitt til verulegs fjártjóns fyrir stefnanda. Hafi hin stefndu félög og starfsmenn þeirra brotið gegn ákvæðum 14. og 15. gr. sömu laga. Þessu hafa stefndu mótmælt og byggja sýknukröfu sína á því að hvorki stefndi, KPMG ehf., né starfsmenn hans sem hann beri húsbóndaábyrgð á, hafi haft milligöngu um umrædda sölu á hlutum stefnanda í einkahlutafélögunum Vinnulyftum og Smiðsbúð 12 í skilningi laga nr. 99/2004 og að ekkert samningssamband hafi verið milli stefnanda og þeirra. Hafi stefndi, KPMG ehf., og starfsmenn hans unnið við ráðgjöf fyrir kaupanda hlutanna, FS21 ehf.
Stefnandi og stefndi Benedikt lýstu atvikum við tilboðsgerð FS21 ehf. í fyrirtæki stefnanda með ólíkum hætti í skýrslum sínum hér fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Stefnandi kvað stefnda Benedikt hafa komið heim til sín á föstudegi um hvítasunnuhelgina 2007 og sagst vera frá stefnda, KPMG ehf., og spurt hvort hann vildi selja fyrirtæki sín. Þegar stefnandi hefði sagst ekki myndu selja þau fyrir það verð sem boðið væri, hefði stefndi Benedikt dregið fram annað tilboð sem hefði gilt til kvölds sama dag. Hann kvaðst hafa ráðfært sig við eiginkonu sína en síðan hringt í Benedikt og sagst ætla að taka tilboðinu og hefði Benedikt hvatt hann til þess. Kvaðst stefnandi síðan hafi undirritað tilboðið sama kvöld.
Benedikt kvaðst hins vegar líklegast að hann hefði sent stefnanda tilboðin tvö í tölvupósti en gat ekki fullyrt hvernig það fór fram. Fullyrti hann þó að hann hefði ekki bankað upp á hjá stefnanda með tvö tilboð á föstudegi, eins og stefnandi lýsir því. Jón S. Þorbergsson hefði haft samband við starfsmann stefnda, KPMG ehf., eftir að fyrra tilboðið hefði verið gert og upplýst um að það væri of lágt. Þá hefði stefndi haft samband við umbjóðendur sína og í kjölfarið gert nýtt tilboð og hefði það verið á miðvikudegi eða fimmtudegi. Því tilboði hefði ekki verið svarað á föstudegi og hefði tilboðsfresturinn því runnið út. Á laugardeginum hefði stefndi fengið símtal frá stefnanda þar sem hann hefði spurt að því, hvort hann gæti enn tekið tilboðinu. Stefndi kvaðst þá hafa farið til stefnanda og stefnandi skrifað undir tilboðið. Það væri skýringin á því að á tilboðið hafi verið handritað að tilboðsfresturinn hefði verið framlengdur.
Gögn málsins bera með sér að fyrra tilboðið er dagsett 22. maí og gilti til 23. maí kl. 12:00. Seinna tilboðið er dagsett 22. maí, sem stefndi Benedikt segir að sé líklega handvömm, og ber með sér að upphaflegum gildistíma hafi fyrst verið breytt í föstudaginn 25. maí kl. 12:00 og síðan hafi tilboðsfrestur verið framlengdur til laugardagsins 26. maí kl. 24:00. Þar sem frásögn stefnda Benedikts er í samræmi við gögn málsins verður að miða við þá atvikalýsingu að þessu leyti.
Stefnandi kvaðst á þessum tíma hafa treyst stefnda, KPMG ehf., til þess að sjá um sína hagsmuni í þessum viðskiptum, enda hefði Benedikt kynnt sig sem starfsmann stefnda, KPMG ehf., þegar hann kom með kauptilboðið og kvaðst stefnandi hvorki hafa ráðfært sig við lögmann né fasteignasala áður en hann samþykkti kauptilboðið. Hins vegar kom fram hjá stefnanda að hann hefði litið svo á að stefndu, KPMG ehf. og Benedikt, hefðu fyrst og fremst verið að vinna fyrir FS21 ehf. við tilboðsgerðina.
Í málinu liggur frammi skjal, dagsett 18. apríl 2007, sem merkt er sem trúnaðarmál. Skjalið er stílað á Smíðanda ehf./NewCo, Eið Inga Sigurðarson og Gest Má Þráinsson sem óumdeilt er að keyptu síðar, ásamt Elíasi Ívarssyni, fyrrverandi starfsmanni stefnanda, fyrirtækið FS21 ehf. af stefnda, KPMG ehf., og sem gerði síðar kauptilboð í umrædd félög stefnanda og varð kaupsamningshafi samkvæmt umræddum kaupsamningi frá 11. júlí 2007. Í skjalinu segir um efni þess í fyrirsögn að um sé að ræða verkefnistillögu um þjónustu vegna kaupa á Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. Segir í síðan í kafla um hlutverk stefnda sem fjármálaráðgjafa að aðkoma hans felist í fyrsta áfanga í frumskoðun, fjárhagslegri uppbyggingu og skilgreiningu samningsramma. Annar áfangi er sagður lúta að formlegum viðræðum við seljanda og kynning til fjármálafyrirtækja og fjárfesta en þriðji áfangi felist í samningum við fjármögnunaraðila og fjárfesta. Fjórði áfangi felist í framkvæmd áreiðanleikakönnunar og uppsetningar samninga vegna yfirtöku. Loks er gert ráð fyrir að af hálfu stefnda muni vinna við verkefnið tilgreindir menn sem myndi ráðgjafahóp, þ. á m. stefndi Benedikt og Ágúst Þórhallsson hdl. Við skýrslutökur við aðalmeðferð málsins báru þeir báðir á þann veg að aðkoma stefnda, KPMG ehf., hefði eingöngu verið ráðgjöf við FS21 ehf. vegna umræddra viðskipta og kvaðst vitnið Ágúst ekki hafa komið að sölunni sem fasteignasali, auk þess sem hann hefði verið í fríi frá störfum þegar gengið var frá samningum. Kannaðist vitnið hvorki við að hafa samið umrædd kauptilboð né kaupsamning. Samkvæmt tölvupósti frá starfsmanni sýslumannsins í Hafnarfirði var Ágúst Þórhallsson hdl. sá eini af starfsmönnum hinna stefndu félaga, sem hefði fengið löggildingu til fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.
Í framlögðum drögum að bréfi stefnda, KPMG ehf., til stefnanda dagsettum 9. júlí 2007, er tekið fram að stefndi hafi veitt FS21 ráðgjöf um fyrirhuguð kaup á öllu hlutafé stefnanda í umræddum félögum.
Að öllu framangreindu virtu verður að telja ósannað að stefndi, KPMG ehf., eða starfsmenn hans hafi komið að þessum viðskiptum sem löggiltur fasteignasali þannig að ákvæði laga nr. 99/2004 eigi við um ætlaða skaðabótaábyrgð þeirra í máli þessu. Verður málsástæðum stefnanda, sem byggja á þessari forsendu, því hafnað.
Stefnandi byggir jafnframt á því að með umræddum kaupsamningi hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Hafi Vinnulyftur ehf. og Smiðsbúð 12 ehf. fjármagnað kaup þriðja aðila, þ.e. FS21 ehf., við kaupin í sjálfum sér og hafi þannig verið brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 79. gr. laganna. Stefnandi hefur ekki fært fyrir því haldbær rök í stefnu, að umræddur kaupsamningur hafi samkvæmt efni sínu brotið gegn ákvæðum laga nr. 138/1994 þannig að það skapaði stefndu skaðabótaábyrgð, hvorki að því er varðar tilvísun stefnanda til 2. mgr. 79. gr. laganna né ákvæða XIV. kafla þeirra. Verður niðurstaða máls þessa því ekki á þessari málsástæðu byggð.
Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á sakarreglu skaðabótaréttar og vísar jafnframt til svo kallaðrar sérfræðiábyrgðar.
Óumdeilt að enginn þeirra, sem stefnt er í máli þessu, var ráðinn af stefnanda til að vinna við ráðgjöf eða til að aðstoða hann með öðrum hætti við umrædd viðskipti. Eins og áður er rakið, kvaðst stefnandi í skýrslu sinni hér fyrir dóminum hafa litið svo á að stefndu, KPMG ehf. og Benedikt, hefðu fyrst og fremst verið að vinna fyrir FS21 ehf. við tilboðsgerðina. Þá kom fram hjá stefnanda að hann hefði ekki verið í neinu sambandi við stefndu frá samþykkt tilboðsins og fram að kaupsamningsgerð. Virðist því sem stefnandi hafi, á þeim tíma sem unnið var að gerð kauptilboða og kaupsamnings, mátt gera sér grein fyrir því að stefndu bæri ekki sérstök skylda til að gæta hagsmuna hans, hvorki við samningsgerðina né síðar. Breytir engu um þá niðurstöðu, þótt stefndu hafi sérþekkingu á sviði endurskoðunar og bókhalds.
Stefnandi kvaðst við aðalmeðferð málsins hafa ákveðið að ganga til kaupsamningsgerðar við FS21 ehf. á grundvelli kauptilboðs sem hann kannast við að hafa yfirfarið og undirritað. Bæði stefnandi og vitni hafa lýst því að á fundi til undirritunar kaupsamningsins 11. júlí 2007 hafi verið farið yfir efni kaupsamningsins og skjöl honum tengd. Óumdeilt er að Jón S. Þorbergsson viðskiptafræðingur mætti með stefnanda til fundarins og hafði áður unnið að því að afla gagna frá fyrirtækjum stefnanda fyrir stefnda, KPMG ehf., og fleiri vegna vinnu við gerð áreiðanleikakönnunar við undirbúning umræddrar sölu fyrirtækjanna. Í framburði stefnanda og vætti framangreinds Jón S. Þorbergssonar kom hins vegar fram að hinn síðarnefndi hefði ekki komið að umræddum viðskiptum sem sérfróður ráðgjafi stefnanda, enda hefði hann ekki sérfræðiþekkingu til þess, heldur einvörðungu sem kunningi stefnanda og bókari. Allt að einu verður það ekki virt stefndu til sakar þótt stefnandi hafi kosið að leita sér ekki frekari ráðgjafar í umræddum viðskiptum. Þá er í ljós leitt að stefnandi gerði ekki fyrirvara við eignarhald Elíasar Ívarssonar, fyrrum starfsmanns síns, á FS21 ehf. við tilboðs- eða kaupsamningsgerðina og hafði ekki gert það að forsendu fyrir sölunni að upplýst væri hverjir stæðu að fyrirtækinu. Þá liggur fyrir að stefnandi gekk ekki frá kaupsamningsgerðinni þótt þá kæmi í ljós að Elías ætti þar aðkomu að málum og undirritaði kaupsamninginn fyrir hönd kaupanda. Að þessu virtu þykja engin rök til þess að það verði virt stefndu til sakar þótt stefnandi hafi ekki verið upplýstur sérstaklega um þessi atriði við umrædda samningsgerð.
Stefnandi hefur ekki í málatilbúnaði sínum sýnt fram á orsakatengsl milli ráðgjafar stefndu við FS21 ehf. og ætlaðs tjóns stefnanda. Hvorki verður ráðið af framlögðum gögnum né vætti vitna og framburði stefnanda hér fyrir dóminum, að stefndu hafi í umræddum viðskiptum leynt stefnanda mikilsverðum upplýsingum, unnið með lykilstarfsmönnum stefnanda að baki honum, verið ófaglegir og óvandvirkir, virt að vettugi ákvæði laga, né unnið beinlínis gegn hagsmunum stefnanda eftir undirritun kaupsamnings svo valdið hafi stefnanda tjóni, svo sem stefnandi heldur fram í stefnu. Verður því að telja ósannað að stefndu, KPMG ehf. og Benedikt, hafi með ólögmætri og saknæmri háttsemi valdið stefnanda tjóni. Þá hefur stefnandi hvorki fært fyrir því haldbær rök né fært sönnur á, að vinna stefnda Einars við samrunaáætlun FS21 ehf. og Vinnulyftna ehf. hafi bakað stefnanda tjón það, sem hann kveðst hafa orðið fyrir og krafist bóta vegna í máli þessu.
Bæði stefndi Benedikt og vitnið Ágúst Þórhallsson báru um það í skýrslum sínum að stefndi, KPMG ehf., hefði komið að umræddum viðskiptum stefnanda og FS21 ehf. sem ráðgjafi þess síðarnefnda. Engin gögn liggja hins vegar fyrir um aðkomu stefndu, KPMG lausna ehf. og KPMG FS ehf., að þeim viðskiptum, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, og hefur stefnandi ekki stutt málatilbúnað sinn um aðild þeirra fullnægjandi rökum. Án nánari skýringa, nægir hér ekki að vísa til þess að um flókin eignatengsl hinna stefndu fyrirtækja sé að ræða. Verður því að fallast á sýknukröfu þessara stefndu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Að öllu framansögðu virtu er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að stefndu hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem bakað hafi stefnanda tjón með þeim hætti sem hann byggir á í máli þessu. Þá hefur stefnandi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að orsakasamband sé milli þess tjóns, sem hann kveður sig hafa orðið fyrir, og háttsemi stefndu. Verður því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af skaðabótakröfu stefnanda í málinu.
Eftir niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða stefndu hverjum um sig 150.000 krónur í málskostnað.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndu, KPMG ehf., KPMG lausnir ehf., KPMG FS ehf., Benedikt Kjartan Magnússon, og Einar Sveinbjörnsson, eru sýknir af kröfum stefnanda, Eyvindar Jóhannssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda, KPMG ehf., 150.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, KPMG lausnum ehf., 150.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, KPMG FS ehf., 150.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, Benedikt Kjartani Magnússyni, 150.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, Einari Sveinbjörnssyni, 150.000 krónur í málskostnað.