Hæstiréttur íslands
Mál nr. 125/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 8. apríl 2003. |
|
Nr. 125/2003. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn Pétri Þór Gunnarssyni (Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.) |
Kærumál. Vitni. Vitnaspurningar.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að ákæruvaldinu væri heimilt að spyrja nafngreint vitni að því hvort það áliti að tilteknar myndir, sem P var sakaður um að hafa falsað eða látið falsa, gætu verið eftir föður vitnisins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2003, þar sem sóknaraðila var heimilað að spyrja nafngreint vitni að því hvort það áliti að tilteknar myndir, sem varnaraðili hefur verið sakaður um að hafa falsað eða látið falsa, geti verið eftir föður vitnisins, Jón Stefánsson listmálara. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri í því skyni að fá úrskurð héraðsdóms felldan úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2003.
Mál þetta var höfðað með ákæruskjali, dagsettu 3. janúar sl. og aðalmeðferð í því hófst hinn 1. þessa mánaðar. Er fyrirhugað að henni ljúki nk. föstudag. Vitnið Bryndís Jónsdóttir Stefánssonar, listmálara, kom fyrir dóm í málinu sl. miðvikudag þar sem henni voru sýndar fimm myndir sem merktar eru föður hennar og ákæruvaldið telur vera falsaðar, sbr. ákæruliði 9 (rannsóknartilvik 97), 18 (rannsóknartilvik 25), 24 (rannsóknartilvik 28), 26 (rannsóknartilvik 36) og 32 (rannsóknartilvik 113). Eru þær á meðal fjölda myndverka sem ákærði Pétur Þór er sakaður um að hafa falsað eða látið falsa og selja með svikum til margra aðila, bæði hér á landi og í Danmörku. Vitnið var spurð að því hvort hún hefði nokkru sinni séð þessar myndir meðal verka föður hennar og neitaði hún því. Hefur ákæruvaldið krafist þess að fá að spyrja hana hvort hún telji þessar myndir geta verið eftir föður hennar, en fram hefur komið hjá henni að hún hafi nokkra yfirsýn yfir list föður síns. Vitnið var spurð um þetta og lét uppi álit á því þegar hún gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu. Af hálfu ákærða Péturs Þórs er því mótmælt að þetta álitaefni verði borið undir vitnið, enda sé hún ekki sérfróð um list og ekki verið leitað til hennar sem kunnáttumanns við lögreglurannsóknina, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1990. Dómarar málsins ákváðu að leyfa það að vitnið yrði spurt um þetta. Var þess krafist af hálfu ákærða að kveðinn yrði upp úrskurður um þetta.
Ætla má að vitnið hafi, vegna aðstöðu sinnar, öðlast nokkra þekkingu á verkum Jóns Stefánssonar. Þykir rétt að fá það fyrir dóminn til þess að láta í ljósi álit á því hvort myndirnar sem um ræðir geti verið eftir hann og til þess einnig að aðilum og dómurunum gefist kostur á því að spyrja vitnið á hverju það byggi álit sitt. Ber því að heimila ákæruvaldinu að bera þessi atriði undir vitnið.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Ákæruvaldinu er heimilt að spyrja vitnið, Bryndísi Jónsdóttur, að því hvort hún álíti að tilteknar myndir sem ákært er út af í málinu geti verið eftir föður hennar, Jón Stefánsson listmálara.