Hæstiréttur íslands
Mál nr. 523/2004
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Brot í opinberu starfi
- Sönnun
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 12. maí 2005. |
|
Nr. 523/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X(Karl G. Sigurbjörnsson hrl.) |
Fjárdráttur. Brot í opinberu starfi. Sönnun. Sýkna.
X var gefinn að sök fjárdráttur og brot í opinberu starfi með því að hafa í starfi sínu sem lögreglufulltrúi dregið sér haldlagt fé sem hann hafði fengið til varðveislu í kjölfar leitar og haldlagningar lögreglumanna hjá einum sakborningi. X hafði frá upphafi rannsóknar málsins staðfastlega neitað að hafa dregið sér umrætt fé. Hélt hann því fram að hann hefði sett hin haldlögðu gögn í pappaöskju á hillu í sameiginlegu rými en að einhver þeirra lögreglumanna sem fóru með rannsókn málsins hefðu gengið frá peningunum og komið þeim til gjaldkera. Í ljósi þess að engar reglur giltu um það hver skyldi sjá um að koma haldlögðum fjármunum í vörslur skrifstofustjóra sem sæi um að leggja þá inn á sérgreindan bankareikning og framburðar lögreglumanna fyrir dómi var talið ósannað að X hefði verið eða átt að vera ljóst að peningunum var ekki skilað til gjaldkera í framhaldi af haldlagningu þeirra. Sú vanræksla hans sem yfirmanns þeirra lögreglumanna sem stóðu að húsleitinni umrætt sinn um að ganga úr skugga um að búið væri að koma fjármununum til gjaldkera var ekki talin leiða til refsiábyrgðar. Þá var ekki talið eins og hér stóð á að skýringar X á þeim drætti sem urðu á afhendingu peninganna hefðu verið óeðlilegar, þrátt fyrir að hann hefði sýnt af sér nokkurt tómlæti í þeim efnum. Framburður yfirlögregluþjóns um að X hefði í samtölum viðurkennt með óbeinum hætti að hafa dregið sér peningana var gegn neitun X ekki talinn hafa sönnunargildi í málinu. Gegn neitun X var ákæruvaldið ekki talið hafa sannað sekt hans og var hann því sýknaður af kröfum þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og að málinu verði vísað heim í hérað, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa.
I.
Ákærði krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir, að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ræðst nauðsyn þessa úrræðis af aðstæðum hverju sinni. Eins og hér stendur á verður þessu mati héraðsdómara ekki haggað. Mat á sönnunarfærslu á hendur ákærða sætir hins vegar endurskoðun fyrir Hæstarétti, eftir því sem efni málsins gefur tilefni til, þar með talið hvort munnleg sönnunarfærsla, eins og héraðsdómari hefur metið hana, fái nægilega stoð í öðrum gögnum.
II.
Í máli þessu er ákærða gefinn að sök fjárdráttur og brot í opinberu starfi með því að hafa í starfi sínu sem lögreglufulltrúi í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík á tímabilinu 31. desember 2002 til 10. mars 2004 dregið sér haldlagt fé að fjárhæð 870.000 krónur sem hann hafi fengið til varðveislu í kjölfar leitar og haldlagningar lögreglumanna í sömu deild hjá einum sakborningi dagana 30. og 31. desember 2002.
Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins staðfastlega neitað að hafa dregið sér umrætt fé. Hann hefur kannast við að gögn málsins hafi legið á skrifborði hans þegar hann mætti til vinnu 31. desember 2002 og hann þá lesið skýrslu þeirra lögreglumanna sem stóðu að húsleitinni um nóttina en ekki kannað gögnin að öðru leyti. Hann hafi þó séð svarta öskju meðal þess haldlagða. Í framhaldinu hafi hann falið lögreglumanni sem var á vakt að taka skýrslu af sakborningnum en þá skýrslu kveðst hann hafa lesið þegar hann kom á ný til vinnu eftir áramótin. Hafi sá lögreglumaður sett málsgögnin í bakka á borðinu hjá ákærða eins og venja var. Hann hafi nokkrum dögum síðar sett hin haldlögðu gögn í pappaöskju á hillu í sameiginlegu rými í ávana- og fíkniefnadeildinni, en vegna skorts á geymslurými væri algengt að haldlögð gögn væru geymd hér og þar í deildinni á meðan rannsókn stæði yfir, meðal annars í læstum skúffum í borðum lögreglumanna. Í pappaöskjunni hafi meðal annars verið svört askja, sem hann hafi síðar fundið við leit 10. mars 2004 í geymslu, sem var á gangi fyrir framan ávana- og fíkniefnadeildina. Þá hafi hann fyrst séð að í svörtu öskjunni voru peningaseðlar, en ágreininglaust er að hluta þeirra hafði verið skipt út með nýjum seðlum, eins og rakið er í héraðsdómi.
Óumdeilt er að í kjölfar húsleitarinnar var ákærða tjáð að hald hafi verið lagt á talsverða fjármuni. Hann kveðst hins vegar ekki hafa gert sér grein fyrir fjárhæðinni fyrr en við undirbúning skýrslutöku af sakborningnum í september 2003. Ákærði heldur því fram að venjulega hafi einhver þeirra lögreglumanna sem fóru með rannsókn máls gengið frá haldlögðum peningum og komið þeim til gjaldkera. Hafi hann í samræmi við það talið að sú hefði verið raunin í þessu tilviki. Hann hafi þó ekki kannað það sérstaklega.
Í reglum lögreglunnar í Reykjavík um haldlagningu fjármuna frá 1998, sem óumdeilt er að fara átti eftir á þeim tíma sem haldið á fjármununum stóð, kemur fram að haldlagða peninga skuli afhenda skrifstofustjóra, sem sjái um að leggja þá inn á sérgreindan bankareikning. Þar er þess þó ekki sérstaklega getið hver skuli sjá um að koma slíkum fjármunum í vörslur skrifstofustjóra. Ríkislögreglustjóri hefur sett reglur með sambærilegu efni. Af framburði þeirra lögreglumanna sem komu fyrir dóm við meðferð málsins má ráða að engar reglur hafi verið um hver ætti að sjá um þetta, en oftast hafi það verið í verkahring þess lögreglumanns sem var skráður fyrir rannsókninni hverju sinni. Virðist viðkomandi lögreglumaður þá einatt hafa farið með haldlagða peninga beint til gjaldkera. Þegar framangreint er virt er ósannað að ákærða hafi verið eða átt að vera ljóst að peningunum var ekki skilað til gjaldkera í framhaldi af haldlagningu þeirra. Í málinu liggur fyrir að peningunum var ekki skilað til gjaldkera, sem ekki var við störf þegar lögreglumennirnir héldu rannsókn áfram næsta dag. Ákærði var einn af yfirmönnum þeirra lögreglumanna sem stóðu að húsleitinni umrætt sinn. Eins og hér stóð á og þar sem ljóst var að um talverða fjármuni var að ræða var honum rétt og skylt að ganga úr skugga um að búið væri að koma þeim til gjaldkera. Sú vanræksla leiðir þó ekki til refsiábyrðar.
Eins og fyrr segir heldur ákærði því fram að fjölmargir starfsmenn hafi haft aðgang að geymslunni, sem peningarnir fundust í, bæði starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar og aðrir utan hennar. Þessi framburður hans er í samræmi við vætti þeirra lögreglumanna sem komu fyrir dóm. Er því ljóst að fleiri en ákærði höfðu færi á að nálgast peningana eftir að hald var á þá lagt, bæði í rými ávana- og fíkniefnadeildarinnar og í umræddri geymslu.
Fullyrðingu eiganda peninganna um að hann hafi vorið 2003 haft samband við ákærða í þeim tilgangi að fá þá afhenta verður, gegn neitun ákærða, að telja ósannaða enda ekkert fram komið sem styður hana. Í málinu liggur fyrir að verið var að rannsaka tvö önnur mál á hendur umræddum sakborningi og eigandi peninganna hafði áður sætt rannsókn vegna gruns um fíkniefnabrot. Gekkst sá fyrrnefndi undir sátt 2. september 2004 vegna vörslu fíkniefna, sem fundust við húsleitina aðfaranótt 31. desember 2002. Verður ekki talið eins og hér stóð á að skýringar ákærða á þeim drætti sem varð á afhendingu peninganna hafi verið óeðlilegar, þrátt fyrir að hann hafi sýnt af sér nokkurt tómlæti í þeim efnum. Eins og fram kemur í héraðsdómi bar vitnið D yfirlögregluþjónn við rannsókn málsins og fyrir dómi að ákærði hefði í samtölum þeirra viðurkennt með óbeinum hætti að hafa dregið sér peningana. Framburður þessa vitnis var stöðugur en gegn neitun ákærða hefur hann ekki sönnunargildi í málinu þar sem orð stendur gegn orði. Þegar allt framangreint er virt þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist gegn neitun ákærða að sanna sekt hans, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvalds og allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 27. júlí 2004, á hendur X fyrir fjárdrátt og brot í opinberu starfi, með því að hafa í starfi sínu sem lögreglufulltrúi við ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, Hverfisgötu 113-115, á tímabilinu frá 31. desember 2002 til 10. mars 2004, dregið sér haldlagt fé, 870.000 krónur í 5.000 króna seðlum, er hann hafði fengið til varðveislu í kjölfar leitar og haldlagningar lögreglumanna í ávana- og fíkniefnadeild hjá einum sakborningi dagana 30. og 31. desember 2002. Ákærði skilaði fjármununum 10. mars 2004.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 247. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist, að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins.
Með bréfum 15. og 16. mars 2004 tilkynnti lögreglustjórinn í Reykjavík ríkissaksóknara um ætluð brot ákærða. Er lýst að til athugunar hafi verið innan embættisins meðferð haldlagðra fjármuna tengdum lögreglumálinu nr. 010-2002-38567, en á vegum ávana- og fíkniefnadeildar embættisins hafi, í desember 2002, m.a. verið lagt hald á 870.000 krónur í reiðufé. Eigandi fjárins hafi gert reka að því að fá haldi aflétt af fjármununum, en athugun af því tilefni hafi leitt í ljós að meðferð hinna haldlögðu fjármuna hafi ekki verið í samræmi við reglur. Um atvik málsins að öðru leyti er vísað til samantektar D yfirlögregluþjóns rannsóknardeildar. Að síðustu er gerð grein fyrir því að ákærði hafi 16. mars 2004 lagt fram beiðni um tafarlausa lausn úr starfi. Í greinargerð D er því lýst, að tiltekinn einstaklingur hafi gefið sig fram við D þar sem hann hafi ekki talið sig hafa fengið eðlilega fyrirgreiðslu er hann hafi leitað eftir því að fá afhenta fjármuni sem lögregla hafi lagt hald á. Við athugun hafi komið í ljós að er málið hafi komið upp hafi ekki verið útilokað að gerð yrði krafa um upptöku fjármunanna, en síðar hafi orðið ljóst að haldinu yrði aflétt og að fjármununum yrði skilað. Boðum um það hafi verið komið til yfirmanna ávana- og fíkniefnadeildar. Dregist hafi ótæpilega að skila fénu og hafi viðkomandi einstaklingur haft samband á ný við D í lok febrúar 2004. Fyrirmæli um skil á fénu hafi verið ítrekuð við yfirmenn ávana- og fíkniefnadeildar. Enn hafi viðkomandi einstaklingur haft samband 9. mars 2004, en hann hafi lýst því að hann hafi ekki enn fengið fjármunina afhenta. Hafi hann jafnframt borið að ákærði hafi ítrekað gefið loforð um að fénu yrði skilað, en ýmis atvik og óvænt hafi komið í veg fyrir það. D kvaðst hafa falið E, aðstoðaryfirlögregluþjóni í ávana- og fíkniefnadeild, að sjá til þess að haldi yrði án tafar aflétt af fjármununum. Ákærði hafi verið veikur þann dag. E hafi komist að raun um að hinir haldlögðu fjármunir hafi ekki verið meðhöndlaðir í samræmi við reglur er hafi gilt um meðferð haldlagðra fjármuna, þar sem enginn bankareikningur hafi fundist vegna málsins. Í samtali við ákærða næsta morgun hafi ákærði ekki getað skýrt það atriði og hafi hann lýst yfir að hann myndi mæta á lögreglustöðina vegna málsins. Það hafi hann ekki gert, auk þess sem hann hafi ekki svarað í síma. Seint að kvöldi 10. mars 2004 hafi ákærði mætt á lögreglustöðina og látið E vita að hinir haldlögðu fjármunir væru komnir fram. Eftir athugun D og E á hinum haldlögðu fjármunum hafi þótt ástæða til að ætla að þeir hafi ekki verið til staðar á lögreglustöðinni frá því hald hafi verið lagt á þá. Í lok samantektar D kveður hann ákærða, í samtali við sig 16. mars 2004, hafa staðfest að hann hafi á tímabili nýtt sér hluta af fjármununum, en skilað þeim aftur og því síðasta miðvikudaginn 10. mars 2004.
Meðfylgjandi samantekt D er minnisblað frá 11. mars 2004, er ritað hafa D og E. Þar kemur fram að 30. desember 2002 hafi, í málinu nr. 010-2002-38567, verið lagt hald á 870.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Þegar seðlar þeir, er ákærði hafi sagt að hann hafi fundið í geymslu á lögreglustöðinni hafi verið skoðaðir, hafi þeir reynst vera í tveimur útgáfum. Eldri gerðin hafi verið með hvítri jaðarrönd, en flestir seðlarnir hafi verið nýrrar gerðar, sem ekki hafi verið með jaðarrönd. Peningaseðlarnir hafi verið í tvennu lagi. Annars vegar hafi þeir verið í öskju, sem hafi verið merkt sem nr. 6 í haldlagningarskýrslu lögreglu. Í öskjunni hafi verið 785.000 krónur í 157 seðlum. Af þeim hafi 16 seðlar verið eldri gerðar en 141 seðill hafi verið af nýju útgáfunni. Hins vegar hafi þeir verið í plastpoka, sem hafi verið merktur sem nr. 7 í haldlagningarskýrslu lögreglu. Í pokanum hafi verið 85.000 krónur í 17 seðlum. Af þeim hafi 4 verið af eldri gerð, en 13 af nýju gerðinni. Í minnisblaðinu er rakið að á heimasíðu Seðlabanka Íslands hafi komið fram að ný útgáfa 5.000 króna seðla hafi verið sett í umferð 17. nóvember 2003. Hafi D haft samband við forstöðumann fjárhirslu Seðlabanka Íslands, en forstöðumaðurinn hafi staðfest að ný útgáfa seðlanna hafi ekki farið í dreifingu fyrr en í nóvember 2003. Útilokað hafi verið að hin nýja útgáfa hafi verið komin í umferð í desember 2002, þar sem þá hafi ekki enn verið búið að ákveða endanlegt útlit hennar.
Með vísan til 35. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, tók ríkissaksóknari yfir rannsókn málsins. Á vegum embættisins var tekin skýrsla af ákærða. Einnig voru teknar skýrslur af rannsóknarlögreglumönnunum F, H, G, I og J, sem og D yfirlögregluþjóni, E aðstoðaryfirlögregluþjóni, B löglærðum fulltrúa, C hæstaréttarlögmanni og loks A, er tilkall gerði til hinna haldlögðu fjármuna. Verður nú gerð grein fyrir framburðum ákærða og vitna.
Ákærði kvað lögreglumenn úr ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafa verið að störfum að kvöldi 30. desember 2002. Í tengslum við rannsókn á máli nr. 010-2002-38567 hafi farið fram húsleit að [...], þar sem hald hafi m.a. verið lagt á fjármuni er grunur hafi leikið á um að hafi tengst sölu á fíkniefnum. Ekki kvaðst ákærði hafa verið á vettvangi er ávana- og fíkniefnadeildin hafi lagt hald á fjármuni í málinu, en hann hafi rætt við F rannsóknarlögreglumann í síma það kvöld eða þá nótt vegna málsins. Í því símtali hafi fjárhæð þeirra fjármuna er lögregla hafi lagt hald á ekki verið nefnd sérstaklega. Málsgögn í málinu hafi hins vegar legið á borði ákærða er hann hafi komið á lögreglustöðina um hádegi á gamlársdag. Ekki kvaðst ákærði geta sagt til um hvaða lögreglumaður í ávana- og fíkniefnadeild hafi sett málsgögnin og hina haldlögðu muni á skrifborð sitt. Hafi hann þó gert ráð fyrir að það hafi verið einhver þeirra lögreglumanna er hafi sinnt götueftirliti á þeim tíma er peningarnir hafi verið haldlagðir. Rannsóknarlögreglumennirnir F, G, H og I hafi sinnt götueftirliti og verið í þeirri húsleit er hafi leitt af sér hina haldlögðu fjármuni Skýrslur málsins hafi verið í plastumslagi og hið haldlagða í þar til gerðum plastpokum, sem séu ætlaðir til geymslu haldlagðs varnings.
Ákærði kvaðst hafa lesið framburðarskýrslu hins grunaða á gamlársdag og í kjölfar þess sett málsgögnin í bakka á skrifborð sitt. Hafi hann leitað til K rannsóknarlögreglumanns um skýrslutöku af hinum grunaða. Haldlagða muni úr rannsókninni hafi hann sett í pappaöskju, en hann hafi ekki lesið yfir haldlagningarskýrslu í málinu. Ekki hafi hann veitt athygli peningaseðlum á meðal hins haldlagða. Eftir að hafa gengið frá hinu haldlagða í pappaöskju hafi hún verið á skrifborði ákærða í einhverja daga, eða þar til hann hafi fært öskjuna í hillu fyrir framan skrifstofu ákærða í ávana- og fíkniefnadeild. Það svæði sé sameiginlegt fyrir alla starfsmenn deildarinnar. Ekki geti ákærði gert grein fyrir hve lengi askjan hafi verið í hillunni, en hún hafi sennilega verið færð þegar almenn tiltekt hafi átt sér stað í deildinni í janúar eða febrúar 2003. Þá hafi askjan sennilega verið færð í geymsluherbergi frammi á gangi, en lykil að þeirri geymslu hafi sennilega allir starfsmenn deildarinnar. Tók ákærði fram, að þeir starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar, er hafi starfað í götueftirliti deildarinnar og verið að störfum að kvöldi 30. desember 2002, hafi sennilega ekki notað geymsluna vegna eðlis þeirra muna er þeir hafi lagt hald á, þar sem í tilvikum sem slíkum hafi annað hvort verið um að ræða verðlausa muni eða aðra hluti sem fljótlega sé eytt. Haldlögð fíkniefni fari þegar í skráningu og síðan geymslu í tilteknum læstum skápum sem tæknideild lögreglu hafi aðgang að. Ekki kvaðst ákærði geta fullyrt hvort hann hafi sjálfur farið með pappaöskjuna í geymsluna, en hann hafi tekið þátt í tiltektinni í janúar eða febrúar 2003.
Ákærði kvaðst lítil samskipti hafa átt við þá rannsóknarlögreglumenn er hafi tekið þátt í húsleitinni að [...]. Hafi hann vitað um handtöku tiltekins aðila og að honum hafi verið kunnugt um að sá einstaklingur hafi ekki heimilað húsleit hjá sér. Einn þeirra lögreglumanna er hafi unnið að málinu hafi leitað til ákærða með að fá ráðleggingar um framhald málsins. Ekki kvaðst ákærði muna eftir að hafa rætt við lögreglumennina á gamlársdag. Kvaðst hann hafa litið svo á að þeir lögreglumenn er hafi staðið að rannsókn málsins hafi ráðstafað haldlögðum fjármunum í samræmi við þær reglur er í gildi hafi verið. Hafi þeim borið að koma fjármununum til aðalféhirðis, svo fljótt sem kostur hafi verið. Ekki hafi verið óalgengt að lögreglumenn hafi geymt haldlagða fjármuni í skrifborðum sínum, ef hald hafi verið lagt á slíka hluti utan skrifstofutíma. Sá lögreglumaður sem sé skráður fyrir málinu hafi átt að sjá um að koma hinum haldlögðu fjármunum til aðalféhirðis næsta virka dag. Mál nr. 010-2002-3857 hafi farið í biðstöðu, þar sem til hafi staðið að sameina rannsókn málsins öðrum málum er hafi verið til meðferðar á hendur sama einstaklingi, en grunur hafi verið um innflutning og dreifingu á fíkniefnum. Hafi því verið ákveðið að enginn þeirra lögreglumanna er hafi sinnt götueftirlitinu að kvöldi 30. desember 2002 skyldi ljúka rannsókn málsins. Ekki kvaðst ákærði minnast þess að rætt hafi verið sérstaklega um að J rannsóknarlögreglumaður yrði sá lögreglumaður er tæki við rannsókn málsins. Í biðstöðu hafi málið verið fram á árið 2003. Sumarið 2003 hafi hinn grunaði farið að hringja og spyrjast fyrir um málið, en þá hafi ekkert verið farið að vinna í því. Hafi ákærði tekið skýrslu af hinum grunaða 12. september 2003, en þá hafi komið fram að A væri eigandi hinna haldlögðu fjármuna. Ekki hafi ákærði veitt athygli hvort aðalféhirðir hafi kvittað á haldlagningarskýrsluna í málinu um móttöku peninga, né á eigin skýrslu lögreglumanna.
Ákærði kvað hringt hafa verið úr afgreiðslu lögreglustjóraembættisins 6. janúar 2003 og tilkynnt að kona hafi viljað ræða við einhvern starfsmann ávana- og fíkniefnadeildar. Hafi ákærði talað við konuna, en hún hafi sagt honum að greiðslukort hennar hafi fundist við húsleit. Hafi ákærði í kjölfarið afhent konunni greiðslukortin, sem hafi verið ásamt öðrum munum úr haldlagningu í máli nr. 010-2002-385567. Kvaðst ákærði telja að pappaaskjan með hinum haldlögðu fjármunum hafi þá verið komin í hilluna fyrir framan skrifstofu ákærða. Ekki kvaðst ákærði hafa veitt athygli peningum í þeim plastpoka er greiðslukortin í málinu hafi legið í. Pappaöskjuna sjálfa hafi ákærði ekki opnað fyrr en að kvöldi 10. mars 2004. Ákærði kvaðst hafa verið í símasambandi við A. Samræður ákærða og A hafi snúist um fjármunina, m.a. hvernig A hafi eignast þá og með hvaða hætti hann gæti sýnt fram á eignarhald sitt á þeim. Hafi A síðar afhent ljósrit af skuldabréfi og bankayfirlit í þessum tilgangi. Jafnframt hafi A ætlað að mæta til skýrslutöku nokkrum vikum eftir 12. september, en A hafi þá verið að vinna við Kárahnjúka. Þeir hafi farið á mis í fyrstu. Öll þessi atriði hafi tekið margar vikur.
Ákærði kvað E, aðstoðaryfirlögregluþjón í ávana- og fíkniefnadeild, hafa hringt í sig 10. mars 2004, en þann dag hafi ákærði verið heima vegna veikinda. Hafi E greint frá því að A væri mættur á lögreglustöðina til að sækja hina haldlögðu fjármuni. Þeir hafi hins vegar ekki fundist er til hafi átt að taka. E hafi lýst því fyrir ákærða að aðalféhirðir embættisins hafi aldrei móttekið haldlagða fjármuni úr málinu. Það hafi komið ákærða á óvart og hafi hann lýst yfir að hann myndi mæta á lögreglustöðina um leið og hann ætti færi á. Hafi ákærði mætt á stöðina milli kl. 19.00 og 20.00 þetta sama kvöld. Þá hafi ákærði farið í geymsluna á ganginum í þeim tilgangi að leita að pappaöskjunni, en ákærða hafi þótt líklegasta skýringin á því að fjármunirnir hafi ekki fundist sú að þeir hafi farið í pappaöskjuna ásamt hinum haldlögðu munum. Plastkassa með gögnum úr málinu hafi ákærði fundið í hillu í geymslunni ásamt haldlögðum munum úr öðrum málum. Er hann hafi opnað kassann hafi neðst í honum verið hinir haldlögðu munir er hann hafi sett í pappaöskju og aðrir hlutir í plastpokum úr rannsókninni. Í pappaöskjunni hafi verið svört askja sem hafi innihaldið peninga. Efst í öskjunni hafi legið peningar í búnti er hafi verið teknir af hinum grunaða á vettvangi við húsleit. Ákærði hafi talið peningana og að því loknu gengið frá kassanum eins og hann hafi komið að honum. Því næst hafi hann hringt í E og upplýst hann um fund sinn. Að því loknu hafi ákærði sett hlutina alla inn á skrifborð á skrifstofu E, en að þeirri skrifstofu hafi ákærði haft lykil.
Ákærði kvað rangt er fram kæmi í samantekt D yfirlögregluþjóns frá 16. mars 2004, að ákærði hafi viðurkennt að hafa á tímabili nýtt sér hluta af hinum haldlögðu fjármunum. Um misskilning af hálfu D væri að ræða. Ákærði hafi sagt honum að hann hafi ekki tekið þessa peninga, en að D hafi staðhæft að öll spjót beindust að ákærða um það. Hafi ákærða verið kynnt að bæði gamlir og nýir peningar hafi komið upp úr öskjunni og að hinir nýju peningar hafi fyrst komið í umferð í nóvember 2003. Eftir það hafi ákærða orðið ljóst að hann nyti ekki lengur trausts yfirmanna sinna og hafi hann því ákveðið að biðjast lausnar úr starfi.
Rannsóknarlögreglumennirnir F, H, G og I komu fyrir dóminn, en rannsóknarlögreglumennirnir lögðu hald á fjármuni að fjárhæð 870.000 krónur, við húsleit að [...]. Framburðir rannsóknarlögreglumannanna eru að mestu samhljóða um atvik og verður því gerð grein fyrir þeim í einu lagi. Vitnin kváðu F hafa farið fyrir svonefndum ,,götuhópi” er E, aðstoðaryfirlögregluþjónn í ávana- og fíkniefnadeild, og ákærði, sem lögreglufulltrúi í sömu deild, hafi sett saman. Í þeim hópi hafi, auk F, verið rannsóknarlögreglumennirnir H, G og I. Eitt af þeim verkefnum er hópnum hafi verið falið hafi verið rannsókn á ætluðu fíkniefnabroti tiltekins einstaklings. Leit á heimili þessa einstaklings hafi farið fram að kvöldi 30. desember, að fengnum húsleitarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Leit hafi staðið á því heimili fram eftir nóttu, auk þess sem leitað hafi verið í bifreið þessa einstaklings. Fjármunir hafi fundist í kassa inni í svefnherbergi. Er hinn grunaði hafi verið inntur eftir uppruna þeirra, hafi hann lýst yfir að þeir væru sín eign. Auk þeirra fjármuna er hafi fundist í svefnherberginu, hafi fundist fjármunir á hinum grunaða sjálfum. Hafi þeir fjármunir verið settir í poka og merktir sem nr. 7 í haldlagningarskýrslu lögreglu. Kassi sá er hafi fundist í svefnherberginu hafi verið merktur sem nr. 6 í haldlagningarskýrslu. Sum vitnanna kváðu fjármunina fyrst hafa verið talda á staðnum að hinum grunaða viðstöddum, en önnur vitni héldu fram að þeir hafi einungis verið taldir niður á lögreglustöð, að þremur lögreglumönnum viðstöddum. Að talningu lokinni hafi upplýsingar um fjármunina verið færðar í haldlagningarskýrslu, ásamt upplýsingum um aðra muni er hafi verið haldlagðir í rannsókninni. Haldlagningarskýrslan hafi fylgt öðrum rannsóknargögnum í málinu. Ákveðið hafi verið að H myndi rita haldlagningarskýrsluna. Þar sem næsti dagur, gamlársdagur, hafi verið almennur frídagur, hafi verið ákveðið að varðveita peningana inni í ávana- og fíkniefnadeild. Til hafi staðið að G myndi sjá um og bera ábyrgð á áframhaldandi rannsókn málsins. Af þeim ástæðum hafi G læst fjármunina niður í skúffu á skrifborði sínu. Á gamlársdag hafi G mætt til vinnu til að leysa hinn grunaða úr fangageymslu, ásamt öðrum einstaklingi er einnig hafi verið handtekinn við húsleitina. Teknar hafi verið framburðarskýrslur af þessum einstaklingum og þeim sleppt að því loknu. Rannsóknarlögreglumennirnir hafi síðar fengið fyrirmæli frá ákærða um að þeim yrði ekki falið að sinna áframhaldandi rannsókn málsins, þar sem talið hafi verið að málið væri of umfangsmikið fyrir ,,götuhópinn” er hafi átt að sinna smærri málum. Af þeim ástæðum hafi G lagt gögn málsins á borð ákærða, en ákærði hafi, sem lögreglufulltrúi, tekið ákvarðanir um hver færi með rannsókn einstakra mála. G kvaðst þess fullviss að ákærða hafi verið kynnt staða málsins á gamlársdag eða næsta virka dag. Kvaðst vitnið hafa fregnað að rannsóknarlögreglumaðurinn J hafi átt að taka við rannsókn málsins. Af þeim ástæðum hafi vitnið skilað ákærða öllum gögnum málsins á fyrsta vinnudegi eftir áramótin 2002, eða í öllu falli á næsta degi þar á eftir. F kvaðst hafa rætt við ákærða, sem yfirmann sinn, í síma að kvöldi 30. desember eða aðfaranótt 31. desember, vegna ýmissa atriða tengdum rannsókn málsins. Í þeim símtölum hafi m.a. komið fram að fundist hafi nærri 900.000 krónur í peningum á vettvangi. Um óvenju háa fjárhæð hafi verið að ræða, en venja standi til að yfirmenn séu látnir vita um haldlagningu í slíkum tilvikum. Þá staðfesti vitnið að það hafi rætt við ákærða á fyrsta vinnudegi eftir áramót um rannsókn málsins, en þá hafi komið fram af hálfu ákærða að þeir rannsóknarlögreglumenn er hafi unnið að rannsókn málsins myndu ekki halda henni áfram.
D yfirlögregluþjónn kvað ákærða, sem lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild, hafa verið daglegan verkstjóra í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar. Hafi hann stýrt deildinni í samráði við aðstoðaryfirlögregluþjón. Hafi umboð ákærða til starfa því verið talsvert frá degi til dags. Hafi hann sjálfur átt færi á að rannsaka einstök mál, þó að slíkt hafi fremur heyrt til undantekninga. Hafi hann almennt úthlutað málum til lögreglumanna til rannsóknar. Vitnið kvað A hafa hringt í vitnið um miðjan október 2003. Hafi A kvartað yfir móttökum er hann hafi fengið og óljósum svörum frá ákærða tengdum haldlögðum fjármunum. Hafi vitnið kynnt sér málið með samtölum við E og B, löglærðan fulltrúa. Í þeim athugunum hafi vitnið fengið staðfest að embætti lögreglustjórans í Reykjavík hafi verið með haldlagða fjármuni, sem margt benti til að embættið yrði að skila, þar sem ekki hafi verið til staðar forsendur til að fara fram á upptöku fjármunanna fyrir dómi. Hafi vitnið staðfest við A að fjármunirnir væru til staðar hjá lögreglu og að málið yrði afgreitt á næstunni. A hafi hringt vegna málsins tvisvar til þrisvar sinnum fram að jólum 2003. Enn á ný hafi A haft samband 26. febrúar 2004, en þá hafi hann ekki enn fengið peningana í hendur. Hafi vitnið þá óskað eftir því við E, að málið yrði ekki dregið lengur. A hafi enn haft samband 9. mars 2004 og hafi vitnið átt langt samtal við hann í það skiptið. Í því samtali hafi A rakið samskipti sín og ákærða. Hafi vitninu fundist þau svör er ákærði hafi gefið A vera með nokkrum ólíkindablæ og í raun öll samskipti ákærða og A með þeim hætti er A hafi lýst þeim. Fram hafi komið að ákærði hafi ýmist verið veikur eða ekki til staðar er A hafi mælt sér mót við hann á lögreglustöðinni. Vitnið kvaðst hafa gefið E skýr fyrirmæli 9. mars 2004 um að málið yrði afgreitt umsvifalaust. Ákærði hafi þann dag verið fjarverandi vegna veikinda. Næsta dag, 10. mars 2004, hafi E uppgötvað að hinir haldlögðu fjármunir hafi ekki verið á bankareikningi, eins og vera skyldi samkvæmt þeim reglum er gilt hafi um meðferð haldlagðra fjármuna. Vitnið kvað E hafa upplýst sig að kvöldi miðvikudagsins 10. mars 2004 um að ákærði hafi fundið hina haldlögðu fjármuni í geymslu á lögreglustöðinni. Hafi vitnið gert E grein fyrir því að það vildi að ákærði kæmi á fund vitnisins í býtið næsta morgun. Hafi það gengið eftir, en þann fund hafi E verið viðstaddur. Fyrir fundinn hafi vitnið og E athugað innihald kassans, en í honum hafi verið svört askja með fjármunum og plastpoki með 5.000 króna seðlum. Í ljósi þess að hinir haldlögðu fjármunir hafi verið komnir fram kvaðst vitnið hafa álitið að málið væri þar með leyst. Kvaðst vitnið þá hafa veitt því athygli að seðlarnir hafi ekki allir verið sömu gerðar, en það hafi rekið minni til að ný útgáfa af 5.000 króna seðli hafi farið í umferð á síðari hluta árs 2003. Það hafi vitnið fengið staðfest með því að fara inn á heimasíðu Seðlabanka Íslands, en þar hafi komið fram að ný útgáfa af seðlum hafi farið í umferð 17. september 2003. Kvaðst vitnið hafa bent ákærða á þá staðreynd á fundinum að morgni 11. mars 2004. Hafi vitninu, E og ákærða verið ljóst að þeir seðlar, er ákærði hafi fundið, hafi ekki verið þeir sömu og lögregla hafi lagt hald á að kvöldi 30. desember 2002. Það hafi því legið fyrir að einhver hafi tekið þá peningaseðla og skilað aftur öðrum af nýju útgáfunni. Ákærði hafi neitað að hafa komið þar nærri, en vitnið kvaðst, í ljósi þeirrar upplýsinga er það hafi fengið frá A, hafa grunað ákærða um að hafa skipt um seðla. Af þeim ástæðum hafi vitnið tekið ákvörðun um að ákærði myndi ekki mæta til vinnu næstu daga og hafi ákærði fallist á það.
Vitnið kvaðst hafa átt samskipti við ákærða síðar þennan sama dag. Hafi vitnið metið það svo að allar líkur væru á að ákærði vissi meira um afdrif hinna haldlögðu fjármuna en ákærði vildi vera láta. Kvaðst vitnið hafa greint ákærða frá því að ákærða væri ekki trúað og hafi það lagt að honum að endurskoða afstöðu sína og skýra frá því er í raun og veru hafi átt sér stað. Að öðrum kosti væru allir lögreglumenn í ávana- og fíkniefnadeild undir grun um að hafa nýtt sér hina haldlögðu fjármuni. Hafi ákærði þá óskað eftir því að fá að hugsa málið betur. Hafi vitnið næst rætt við ákærða í síma 12. mars 2004. Í því samtali hafi málið verið rætt almennt án þess að einstök atriði hafi verið nefnd sérstaklega. Ákærði hafi innt vitnið eftir því hver staða ákærða væri og hafi vitnið lýst yfir að ákærði væri búinn að missa starf sitt sem lögreglumaður ef hann reyndist sannur að því að hafa nýtt sér fjármunina. Hafi ákærði lýst yfir að hann gerði sér grein fyrir því. Á góma hafi borið hugsanleg afsögn ákærða úr starfi. Áður en samtalinu hafi lokið hafi ákærði lýst yfir að hann vildi ræða málið frekar við vitnið og lýsa atburðum tengdum hinum haldlögðu fjármunum. Næst hafi vitnið átt samtal við ákærða mánudaginn 15. mars 2004 og hafi það samtal átt sér stað á skrifstofu vitnisins. Hafi vitnið þá verið búið að semja drög að uppsagnarbréfi fyrir ákærða, sem það hafi afhent honum. Í því samtali hafi ákærði greint vitninu frá því að hann hafi tekið hluta af hinum haldlögðu fjármunum. Hafi ákærði lýst því að hann hafi í september 2003 uppgötvað að hinir haldlögðu fjármunir hafi ekki verið lagðir inn á bankareikning, heldur hafi þeir verið í pappaöskju með gögnum úr málinu. Hafi ákærði tekið stóran hluta af hinum haldlögðu fjármunum og hafi ákærði og vitnið verið sammála að fjárhæðin hafi numið um 770.000 krónum. Sú niðurstaða hafi byggt á því að seðlar af nýju útgáfunni hafi numið þeirri fjárhæð. Hafi ákærði lýst því að honum hafi liðið afar illa frá þeim degi og áttað sig á því að hann yrði að skila fjármununum til baka. Vitnið hafi aftur hitt ákærða að morgni þriðjudagsins 16. mars 2004. Hafi vitnið þá tekið við uppsagnarbréfi úr hendi ákærða, en bréfið hafi ákærði orðað með nokkuð öðrum hætti en þau drög er vitnið hafi látið ákærða í té 15. mars.
Vitnið E, aðstoðaryfirlögregluþjónn í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, kom fyrir dóminn. Vitnið kvað tiltekin mál hafa verið til meðferðar hjá lögreglu, gagnvart þeim einstaklingi er húsleit hafi verið gerð hjá að kvöldi 30. desember 2002. Grunur hafi verið um að viðkomandi einstaklingur hafi tengst sölu á fíkniefnum og að þeir fjármunir er haldlagðir hafi verið 30. desember hafi verið ágóði af slíkri sölu. Það sem vakið hafi sérstaka athygli hafi verið fjárhæð þeirra fjármuna er lagt hafi verið hald á, en þeir hafi verið umtalsverðir. Síðar hafi komið í ljós að A hafi gert tilkall til þessara fjármuna. Vitnið kvaðst hafa rætt við A í síma fyrir jólin 2003. Vitnið hafi á ný rætt við A í síma 9. mars 2004, eftir að D yfirlögregluþjónn hafi vísað A til vitnisins. Í því símtali hafi A lýst því að hann væri orðinn langþreyttur á þeim drætti er orðið hafi á því að hann fengi hina haldlögðu fjármuni afhenta. Hafi vitnið lofað því að málið yrði afgreitt. Ákveðið hafi verið að A myndi koma á lögreglustöðina til að kvitta fyrir móttöku fjármunanna. Vitnið hafi haft samband við aðalféhirði embættisins 9. mars og leitað eftir hinum haldlögðu fjármunum. Aðalféhirðir hafi svarað því til að hann hafi aldrei fengið fjármuni úr hinu tiltekna máli í hendur. Hafi vitnið þá þegar haft samband við ákærða og leitað upplýsinga um hvar fjármunirnir væru niður komnir. Hafi ákærði þá lýst því að hann hafi talið peningana vera í vörslu aðalféhirðis. Svo hafi ekki verið og hafi vitnið gert ákærða grein fyrir því og að hann yrði að koma á lögreglustöðina þegar í stað til að skýra málið. Símtalið hafi átt sér stað undir hádegi og hafi ákærði sagt að hann væri á leið á stöðina. Ákærði hafi ekki verið mættur á lögreglustöðina um kl. 14.00 þennan dag og hafi vitnið þá hringt í hann aftur. Ákærði hafi þá upplýst um tilteknar tafir af sinni hálfu og að hann væri rétt ókominn á stöðina. Vitnið hafi í símtalinu innt ákærða eftir hvar gögn málsins væru niður komin, en vitnið hafi viljað líta á þau í millitíðinni. Hafi ákærði sagt að gögnin væru læst niður í skúffu á skrifstofu ákærða. Um kl. 16.00 þennan dag hafi ákærði enn verið ókominn og hafi vitnið hringt í hann í þriðja sinnið. Ákærði hafi gert grein fyrir tilteknum nýjum töfum af sinni hálfu og að hann kæmi á lögreglustöðina um leið og hann gæti. Vitnið hafi ekkert heyrt frá ákærða fyrr en um kl. 21.30 þetta kvöld, en þá hafi ákærði hringt í vitnið af lögreglustöðinni. Hafi ákærði þá gert grein fyrir því að fjármunirnir væru komnir í leitirnar og að hann hafi fundið þá í kassa í geymslu á lögreglustöðinni. Vitnið hafi innt ákærða eftir því um hve mikla fjármuni væri að ræða og hafi ákærði svarað því til að þeir næmu 870.000 krónum.
Vitnið kvaðst hafa hringt í D strax eftir samtalið og greint honum frá fundinum, jafnframt því að vitnið hafi upplýst D um að það hafi boðað ákærða á fund næsta morgun. Hafi vitnið jafnframt gert D grein fyrir því að það hafi verið óánægt með samskipti þess við ákærða þann dag og að því hafi fundist sem ákærði hafi ekki sagt rétt til um atvik að baki málinu. Er vitnið hafi mætt til vinnu næsta dag hafi kassi verið á skrifborði þess og í honum ýmsir munir. Þar á meðal hafi verið pappaaskja og í henni minnisbók og svört askja. Í svörtu öskjunni hafi verið 5.000 króna seðlar. Hafi vitnið talið seðlana og um leið áttað sig á því að megnið af þeim væri af nýrri gerð, er ekki hafi farið í umferð fyrr en eftir haldlagninguna 30. desember 2002. Eftir að hafa talið peninga í svörtu öskjunni hafi því orðið ljóst að í henni hafi verið 785.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Þar sem ákærði hafi kvöldið áður sagt að hann hafi fundið 870.000 krónur hafi vitnið leitað betur í stærri pappaöskjunni og þá fundið peningaseðla er hafi verið í litlum plastpoka. Í þeim poka hafi verið 85.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Megnið af þeim seðlum hafi einnig verið af nýrri gerð. Í beinu framhaldi hafi vitnið haft samband við D til að fá hann til að líta yfir þessi atriði með vitninu. Hafi D sannreynt hjá Seðlabanka Íslands hvenær ný útgáfa 5.000 króna seðla hafi farið í umferð, en D hafi fengið þær upplýsingar að það hafi verið í nóvember 2003. Af þeim ástæðum hafi legið ljóst fyrir að þeir peningaseðlar er hafi fundist hafi ekki verið þeir sömu og hafi verið haldlagðir í desember 2002. Vitnið og D hafi beðið eftir því að ákærði kæmi til vinnu þennan morgun og í kjölfarið átt fund með honum. Ákærði hafi þá verið beðinn um að gera grein fyrir fundi peninganna og verið bent á að hluti seðlanna væri af nýrri gerð er ekki hafi farið í umferð fyrr en í nóvember 2003. Hafi D lýst yfir að málið liti ekki vel út. Ákærði hafi tekið undir það en fullyrt að hann hafi ekki tekið peningana sjálfur. Fundi þeirra hafi lokið með því að D hafi gert ákærða grein fyrir því að ákærði færi í leyfi á meðan málið væri rannsakað. Á það hafi ákærði fallist.
Vitnið kvað því, um talsverðan tíma, hafa verið kunnugt um að A hafi gert tilkall til umræddra fjármuna. Hafi vitnið margítrekað við ákærða að ljúka málinu, en ákærði hafi jafnan komið með skýringar um að eitthvað lítið atriði stæði út af borðinu til að það væri unnt. Einnig hafi ákærði borið því við að erfitt væri að eiga við málið þar sem A væri við störf við Kárahnjúka og að ekki væri gott að ná í hann. Vitnið lýsti, með sama hætti og vitnið D, daglegum störfum ákærða sem lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar. Taldi vitnið ekkert óeðlilegt við það að máli nr. 010-2002-3857 hafi ekki verið úthlutað til þeirra lögreglumanna er hafi unnið að málinu í upphafi. Málið hafi verið umfangsmikið og hafi komið til álita að J rannsóknarlögreglumaður myndi fá það til meðferðar. Það hafi ekki orðið og hafi málið því áfram verði hjá ákærða. Reglum samkvæmt bæri að láta aðalféhirði embættis lögreglustjóra í té haldlagða fjármuni um leið og hald væri lagt á þá. Það væri í verkahring þess lögreglumanns er færi með rannsókn málsins. Mál nr. 010-2002-3857 hafi komið upp aðfaranótt gamlársdags 2002 og hafi það farið á borð ákærða þar sem þeir er hafi unnið að rannsókninni hafi ekki haldið því áfram. Hafi það verið í verkahring ákærða, eða þess er hann hefði falið áframhaldandi meðferð málsins, að annast það að haldlagt fé yrði fært aðalféhirði embættisins.
Vitnið J rannsóknarlögreglumaður staðfesti, að ákærði hafi í byrjun árs 2003 rætt við vitnið um að það myndi taka yfir rannsókn máls nr. 010-2002-3857. Vitnið hafi á þeim tíma verið bundið við önnur verkefni og því hafi ekkert orðið af því. Hins vegar hafi vitnið annast frágang og lok rannsóknar málsins eftir 10. mars 2004, eftir að grunsemdir hafi vaknað um meðferð haldlagðra fjármuna í því.
Vitnið B, löglærður fulltrúi embættis lögreglustjóra, staðfesti að það hefði átt tiltekin samskipti við ákærða vegna lögreglumáls nr. 010-2002-3857. Borist hafi bréf frá lögmanni þess aðila er húsleit hafi verið gerð hjá 30. desember 2002, þar sem farið hafi verið fram á skil á hinum haldlögðu fjármunum. Hafi vitnið farið með umrætt bréf til ákærða, sem lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild. Bréfinu hafi fylgt þau boð vitnisins að rannsókn málsins skyldi fram haldið til að afstöðu mætti taka til þess hvort krafist yrði upptöku fjármunanna, ellegar að þeim yrði skilað. Síðar Hafi A haft samband símleiðis og gert kröfu um afhendingu peninganna. Hafi vitnið þá einnig haft samband við ákærða og bent honum á að ræða milliliðalaust við A. Vitnið hafi síðan ekki vitað um afdrif málsins fyrr en í mars 2004. Vitninu hafi verið ljóst að eftir að rannsókn málsins hafi farið af stað hafi ákærði verið að bíða eftir gögnum í málinu, er hafi átt að sýna fram á uppruna fjárins. Jafnframt staðfesti vitnið að það hafi átt ýmis tölvupóstsamskipti vegna málsins, í tilefni afhendingu hinna haldlögðu fjármuna.
Vitnið C hæstaréttarlögmaður kvað A hafa snúið sér til vitnisins haustið 2003 og leitað eftir því að vitnið tæki að sér að annast innheimtu á haldlögðum fjármunum hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Hafi A lýst samskiptum sínum og ákærða og tilraunum til að fá haldlagt fé afhent. Þær tilraunir hafi, án árangurs, staðið yfir í einhverja mánuði. Í kjölfarið hafi vitnið haft símleiðis samband við ákærða, sem hafi sagt rannsókn málsins á lokastigi. Einungis hafi verið eftir að taka skýrslu af A. Hafi vitnið upplýst A um efni símtalsins. Nokkur tími hafi liðið og hafi A þá hringt að nýju og verið mjög ósáttur vegna dráttar á málinu. Hafi hann lýst árangurslausum tilraunum sínum við að ná af ákærða. Kvaðst vitnið fyrir tilviljun hafa hitt ákærða á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í desember 2003 og þá minnst á þetta tiltekna mál. Ákærði hafi þá lýst því að hann hafi ætlað að drífa í að ljúka málinu. A hafi enn haft samband 13. og 15. janúar 2004. Hafi hann þá verið mjög reiður vegna tafa í málinu. Vitnið kvaðst í desember 2003 hafa hringt í E, aðstoðaryfirlögregluþjón vegna málsins og einnig átt símtöl við hann í janúar og febrúar 2004. Einnig hafi vitnið hringt í B. Hafi bæði E og B gert grein fyrir því að þeir hafi rekið á eftir ákærða með að ljúka málinu. Vitnið upplýsti að í gögnum þess væri unnt að sannreyna að A hafi hringt í vitnið alls 20 sinnum í janúar til mars 2004 vegna málsins.
Vitnið A kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst fyrst hafa haft samband við ákærða í maí 2003 til að gera reka að því að fá haldlagða fjármuni til baka úr lögreglumáli nr. 010-2002-3857. Hafi ákærði óskað eftir því að vitnið kæmi seinna í skýrslutöku vegna málsins og hafi ákærði greint vitninu frá því að hann myndi hafa samband símleiðis til að gefa upp tíma fyrir skýrslutökuna. Vitnið hafi hringt aftur í júní eða júlí 2003 til að ítreka óskir um að fá að koma í skýrslutöku vegna málsins. Hafi ákærði þá gert grein fyrir því að hann væri upptekinn og hefði ekki tíma fyrir skýrslutökuna. Eftir það hafi vitnið hringt nokkuð oft í ákærða en ákærði jafnan borið því við að hann væri upptekinn. Skýrslutaka hafi loks farið fram í september eða október 2003. Hafi hún farið fram í gegnum síma en vitnið hafi á þeim tíma verið á vinnustað við Kárahnjúka. Kvaðst vitnið aldrei hafa fengið afrit af þeirri skýrslutöku. Vitnið kvaðst einnig hafa verið í tölvupóstsamskiptum við ákærða vegna málsins. Vitnið kvaðst í þrígang hafa farið á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að hitta ákærða. Hafi ákærði boðað vitnið á lögreglustöðina í öllum tilvikum. Í öll þau skipti hafi ákærði verið upptekinn. Haustið 2003 kvaðst vitnið síðan hafa haft samband við B. Hafi B upplýst að allt væri komið fram í málinu er skipti máli og einungis væri beðið eftir því að ákærði myndi ljúka málinu. Vitnið staðfesti að ákærði hafi fengið öll gögn er hann hafi þurft á að halda til að sýna fram á uppruna hinna haldlögðu fjármuna, með bréfi 24. febrúar 2003. Eftir það hafi engin gögn verið lögð fram í málinu af hálfu vitnisins. Ákærði hafi aftur óskað eftir sömu gögnum haustið 2003 og hafi vitnið sent gögnin á nýjan leik 12. desember 2003. Vitnið staðfesti að það hafi rætt við D yfirlögregluþjón og E aðstoðaryfirlögregluþjón vegna málsins.
Niðurstaða:
Í gögnum málsins kemur fram, að rannsóknarlögreglumennirnir F, H, G og I hafi unnið að rannsókn málsins nr. 010-2002-3857 að kvöldi 30. desember 2002. Stóð sú rannsókn fram eftir nóttu og var þar m.a. lagt hald á 870.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Frumskýrslu vegna málsins hefur ritað rannsóknarlögreglumaðurinn F. Er skráð að húsleit hafi hafist að [...] kl. 01.35 og að henni hafi lokið kl. 03.05. Á grundvelli rannsóknarinnar hefur H rannsóknarlögreglumaður ritað skýrslu um haldlagningu. Samkvæmt henni var lagt hald á muni í íbúð í kjallara að [...] og úr bifreiðinni [...]. Hinir haldlögðu munir hafa fengið hlaupandi númer frá 1 til 7. Samkvæmt skýrslunni hafa greiðslukort tiltekins einstaklings fengið númerin 1 og 2. Ávísun, piparúði og minnisbók eru skráð nr. 3 til 5. Í skýrslunni er svartur pappakassi merktur númer 6 og ritað að í honum hafi verið 785.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Er þess getið að fjárhæðin hafi verið talin af rannsóknarlögreglumönnum nr. 9726, 9805 og 9916. Loks er í haldlagningarskýrslu undir nr. 7 tilgreind fjárhæðin 85.000 krónur, sem einnig hafi verið í 5.000 króna seðlum. Þess er jafnframt getið við þennan lið að fjárhæðin hafi verið talin af sömu rannsóknarlögreglumönnum og áður. Í reit fyrir athugasemdir er bókað að fjárhæð undir tölulið nr. 7 hafi fundist í brjóstvasa í flíspeysu hins grunaða við handtöku. Þá er á meðal rannsóknargagna skýrsla, sem dagsett er 6. janúar 2003. Samkvæmt skýrslunni hefur ákærði afhent tilgreindum einstaklingi greiðslukort úr lögreglurannsókn nr. 010-2002-3857. Er um að ræða greiðslukort þau er færð voru sem nr. 1 og 2 í skýrslu um haldlagningu í máli nr. 010-2002-3857.
Tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík hefur 18. mars 2004 tekið ljósmyndir af seðlum, sem haldlagðir voru í máli nr. 010-2002-3857. Ljósmyndir þessar bera með sér að tvær mismunandi gerðir af seðlum hafi verið í öskju sem merkt hefur verið sem nr. 6 í haldlagningarskýrslu lögreglu. Samkvæmt skýrslu tæknideildar voru í öskjunni 785.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Af þeim voru 16 seðlar af eldri gerð, en 141 seðill af nýrri gerð seðla. Þá eru í skýrslunni ljósmyndir af plastpoka er merktur hefur verið nr. 7 í haldlagningarskýrslu. Er þess getið að í pokanum hafi verið 85.000 krónur í 5.000 króna seðlum. Af þeim hafi 4 verið eldri gerðar og 13 af nýrri útgáfu seðla. Samkvæmt minnisblaði D yfirlögregluþjóns, frá 11. mars 2004, hefur hann kynnt sér breytt útlit seðla á heimasíðu Seðlabanka Íslands og leitað til forstöðumanns fjárhirslu Seðlabanka Íslands með staðfestingu á útgáfu nýrra 5.000 króna seðla Seðlabanka Íslands. Samkvæmt minnisblaðinu hefur forstöðumaðurinn staðfest að hin nýja útgáfa hafi fyrst farið í dreifingu í nóvember 2003 og að útilokað sé að hún hafi verið komin í umferð í desember 2002, þar sem útlit hafi ekki endanlega verið ákveðið á þeim tíma. Þó svo ekki liggi fyrir önnur staðfesting á breyttu útliti seðla Seðlabanka Íslands en hér að framan greinir verður við það miðað, að slík breyting hafi verið gerð á útliti seðla Seðlabanka Íslands á árinu 2003. Er einnig til þess að líta að ákærði hefur ekki borið brigður á að svo sé.
Rannsóknarlögreglumennirnir F, H, G og I bera á einn veg um að ákærði hafi, sem lögreglufulltrúi í ávana- og fíkniefnadeild, haft vitneskju um lögregluaðgerðir þær er í hafi verið ráðist að [...]. Hefur vitnið F fullyrt, að það hafi rætt símleiðis við ákærða þetta kvöld og gert honum grein fyrir framvindu rannsóknar lögreglu. Þar hafi m.a. komið fram, að lögregla hafi lagt hald á umtalsverða fjármuni. Framburður þessa vitnis fær að sínu leyti stoð í framburði ákærða sjálfs, er hefur viðurkennt að hafa rætt við F í síma þetta kvöld í tengslum við rannsókn þessa tiltekna máls. Framburðir framangreindra rannsóknarlögreglumanna eru sömuleiðis á einn veg um að ákærði hafi tekið ákvörðun um að enginn þeirra myndi vinna áfram að rannsókn málsins og að hún yrði færð í hendur á öðrum rannsóknarlögreglumanni. Ber vitnið G, er til stóð að myndi hafa umsjón með rannsókn málsins, að það hafi annað hvort á fyrsta eða öðrum virkum degi á árinu 2003 afhent ákærða öll gögn málsins, þ.á m. hina haldlögðu fjármuni. Ákærði hefur staðfest þetta, en hefur haldið fram að honum hafi dulist að á meðal hinna haldlögðu muna hafi verið fjármunir.
Fáum dögum eftir lögregluaðgerðir að [...] voru ákærða afhent rannsóknargögn lögreglumáls nr. 010-2002-3857. Haldlagningarskýrsla bar þess augljós merki, að hald hafði verið lagt á 870.000 krónur að [...]. Þá er skýrt tekið fram í framburðarskýrslum er teknar voru af handteknum einstaklingum við húsleitina, að hald hafi verið lagt á 870.000 krónur að [...]. Þær framburðarskýrslur hefur ákærði viðurkennt að hafa lesið í upphafi árs 2003, eftir að rannsóknargögn málsins voru komin á hans borð. Verður því ekki við annað miðað, en að ákærða hafi í síðasta lagi þá verið kunnugt um að lögregla hafi lagt hald á 870.000 krónur við húsleit að [...]. Samkvæmt reglum ríkislögreglustjórans, um haldlagningu og meðferð sönnunargagna, sem þá voru í gildi og eru í samræmi við reglur lögreglustjórans í Reykjavík um haldlagningu fjármuna, skal haldlagða fjármuni, svo fljótt sem verða má, varðveita á sérstökum bankareikningi sem stofnaður er fyrir hvert mál á viðkomandi lögregluembætti. Skal kvittun fylgja málinu, þar sem tekið skal fram hvað um viðkomandi fjármuni hafi orðið. Hafa vitni borið að haldlagningarskýrsla beri ætíð áritun um afhendingu fjármuna til aðalféhirðis. Þar sem í rannsóknargögn málsins skorti að öllu leyti staðfestingu á varðveislu fjármunanna, gat ákærði ekki gengið þess dulinn, að aðalféhirði höfðu ekki verið afhentir haldlagðir fjármunir úr málinu, en um óvenju mikla fjármuni var að ræða. Þar sem ákærði, stöðu sinni samkvæmt, tók ákvörðun um framvindu rannsóknarinnar og ákvað að málið færi í biðstöðu, bar honum, í ljósi þeirrar vitneskju er hann þá bjó yfir, að ganga úr skugga um að varðveisla fjármunanna væri reglum samkvæmt. Þegar litið er til alls þess er hér að framan hefur verið rakið, óyggjandi sannana um að hinum haldlögðu fjármunum hafi verið skipt út, tilviljanakenndum fundi þeirra af hálfu ákærða að kvöldi 10. mars 2004, samskiptum ákærða og A og framburðar D yfirlögregluþjóns um samskipti sín og ákærða, er það niðurstaða dómsins, að ákærði hafi dregið sér þessa fjármuni í heild sinni. Samkvæmt því hefur ákærði, sem lögreglufulltrúi, gerst sekur um brot gegn þeim ákvæðum er í ákæru greinir.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum, svo kunnugt sé. Við ákvörðun hennar er til þess horft að brot ákærða eru alvarleg. Hefur hann verið sakfelldur fyrir að hafa dregið sér fjármuni er honum, í skjóli stöðu sinnar, var trúað fyrir. Fjárhæð þessara fjármuna er veruleg. Með vísan til þessa ríka trúnaðarbrots ákærða og brots á mikilsverðum starfsskyldum er það niðurstaða dómsins, að refsing ákærða sé hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Til álita kemur að skilorðsbinda refsingu ákærða að hluta. Í þeim efnum er til þess að líta að ákærði hefur skilað fjármunum samkvæmt ákæru til baka. Hefur hann ekki lengur lögreglustörf með höndum, sem hann hefur haft atvinnu af og sérstaklega menntað sig til. Brot ákærða hafa þannig þegar valdið honum talsverðri röskun. Að þessu gættu verður fullnustu 6 mánaða af refsivistinni frestað og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði, en frestað skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.