Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Eignarréttur
- Sértökuréttur
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2014. |
|
Nr. 72/2014.
|
Glitnir hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) gegn LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Eignarréttur. Sértökuréttur. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um rétthæð þriggja krafna sem G hf. lýsti við slit L hf. G hf. reisti kröfur sínar á sex greiðslum, sem samkvæmt svonefndum SWIFT tilkynningum áttu að berast honum frá L hf. tilgreinda daga og skiluðu sér ekki, en G hf. átti samkvæmt tilkynningunum að greiða fjárhæðirnar áfram á reikninga viðskiptavina sinna. G hf. hafði í öllum tilvikum brugðist við tilkynningunum með því að fylgja eftir greiðslufyrirmælum L hf. án þess að gæta að því hvort greiðslur hefðu borist sér. G hf. krafðist þess að kröfunum yrði ásamt dráttarvöxtum skipað í réttindaröð við slit L hf. samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en ella eftir 110. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að svo virtist sem fé, sem svaraði til fyrrgreindra sex greiðslna, hefði legið eftir á reikningum L hf. við erlenda greiðslumiðlunarbanka, sem ekki hefðu veitt atbeina til að koma því til skila eftir fyrirmælum hans. Kröfur G hf. lytu annars vegar að fjórum greiðslum sem viðskiptamenn L hf. hefðu óskað eftir að millifærðar yrðu af gjaldeyrisreikningum sínum hjá honum yfir á sams konar reikninga hjá G hf. Talið var að þegar L hf. hófst handa við að fylgja eftir þessum óskum, með því að taka fjárhæðirnar af reikningum hinna fjögurra viðskiptamanna, hefðu liðið undir lok kröfuréttindi viðskiptamannanna til innstæðufjár og stofnast til eignarréttar þeirra yfir peningum í vörslum L hf. Sá eignarréttur hefði ekki raskast af því að L hf. hefði í framhaldinu leitast við að stýra fénu gegnum innlánsreikninga hjá milliliðum til reikninga viðskiptamannanna hjá G hf., en leggja yrði til grundvallar að féð væri enn í vörslum L hf. Með því að standa viðskiptamönnunum skil á fénu var G hf. talinn hafa leyst til sín tilkall þeirra til eignanna og var því uppfylltur áskilnaður fyrir réttarstöðu kröfu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um að G hf. nyti eignarréttar yfir fé í vörslum L hf. Hæstiréttur vísaði til þess að kröfur G hf. lytu hins vegar að tveimur greiðslum sem komist hefðu í hendur L hf. frá tveimur erlendum félögum, að því er virtist til að gera upp skuldir þeirra við tvö íslensk félög, en féð hefði átt að leggja á reikninga síðargreindu félaganna hjá G hf. Líta yrði svo á að L hf. hefði tekið við greiðslunum í umboði íslensku félaganna, sem notið hefðu beins eignarréttar yfir fénu. Sá eignarréttur hefði, á sama hátt og áður var rakið varðandi fyrrgreindar fjórar greiðslur, í engu raskast við ráðstafanir L hf. til að koma fénu á áfangastað hjá G hf. Voru því skilyrði fyrir réttarstöðu kröfu G hf. eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 vegna þessara greiðslna að þessu leyti einnig talin uppfyllt. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt dómvenju yrðu peningar að vera sérgreindir í vörslum þrotamanns við upphaf gjaldþrotaskipta, hefði hann þá undir höndum á því tímamarki, til þess að fá notið stöðu í réttindaröð samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði. Fyrstnefndu fjórar greiðslurnar voru ekki taldar uppfylla þetta skilyrði, enda hafði L hf. fengið peningana í hendur áður en Fjármálaeftirlitið neytti heimildar 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gagnvart honum og ekkert lá fyrir í málinu um að féð hefði verið sérgreint í vörslum hans. Skilyrði 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 voru heldur ekki talin uppfyllt hvað þessar kröfur varðaði. Var afstaða slitastjórnar til krafnanna, þess efnis að þeim yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, því látin standa óhögguð. Á hinn bóginn hafði féð samkvæmt tveimur síðustu greiðslunum komist í vörslur L hf. eftir að hann komst í aðstöðu sem gagnvart skilyrðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 mætti jafna til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011. Gæti meðferð fjárins í vörslum L hf. því engu breytt um stöðu þessara krafna í réttindaröð og var því viðurkennt að þær nyti stöðu eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Hafnað var kröfu G hf. um dráttarvexti af fénu eða skaðabætur sem svöruðu til slíkra vaxta með vísan til þess að ekki gæti komið til álita að eign í merkingu síðastgreinds lagaákvæðis bæri slíka vexti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi um rétthæð krafna, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfum sínum að fjárhæð 16.114.743 bandaríkjadalir, 26.956 sterlingspund og 20.000 evrur verði skipað í réttindaröð við slitin samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 „ásamt skaðabótum að fjárhæð sem nemi dráttarvöxtum“ samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 16.096.329 bandaríkjadölum og 26.956 sterlingspundum frá 7. október 2008 til 8. sama mánaðar, en frá þeim degi til greiðsludags af fyrstgreindum þremur fjárhæðum. Til vara krefst hann þess að sömu kröfum hans með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 7. október 2008 til greiðsludags verði skipað í réttindaröð við slitin samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, en að því frágengnu standi dráttarvextir til 22. apríl 2009 á þeim stað í réttindaröð með höfuðstól krafnanna, allt með nánar tilteknum fjárhæðum. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili þess að sér verði dæmdur hærri málskostnaður í héraði en ákveðinn var í hinum kærða úrskurði, svo og að varnaraðila verði gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 27. janúar 2014. Hann krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
I
Varnaraðili, sem þá bar heitið Landsbanki Íslands hf., færði 3. október 2008 af gjaldeyrisreikningi viðskiptamanns síns, Stafa lífeyrissjóðs, samtals 10.931.329,10 bandaríkjadali. Sama dag sendi varnaraðili svonefnda SWIFT tilkynningu til greiðslumiðlunarbanka síns í Bandaríkjunum um greiðslu þessarar fjárhæðar til hans, sem þeim banka bæri að greiða 7. sama mánaðar áfram til greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila, sem þá bar heitið Glitnir banki hf. Við sama tímamark sendi varnaraðili aðra SWIFT tilkynningu, nú til sóknaraðila, þar sem upplýst var að greiðslan myndi berast greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila frá greiðslumiðlunarbanka varnaraðila 7. október 2008 og tilgreint að hana bæri að greiða áfram á gjaldeyrisreikning Stafa lífeyrissjóðs hjá sóknaraðila. Samkvæmt kvittun sóknaraðila til Stafa lífeyrissjóðs, sem dagsett var 7. október 2008, var fjárhæðin lögð inn á reikning hans hjá sóknaraðila og var tekið þar fram að þetta hafi „verið afgreitt eftir þínum fyrirmælum“.
Varnaraðili gaf sambærileg greiðslufyrirmæli við þau, sem að ofan greinir, vegna þriggja annarra viðskiptamanna. Þannig voru 3. október 2008 færðir af gjaldeyrisreikningum Saga Capital hf. og Íslenskrar erfðagreiningar ehf. hjá varnaraðila 3.395.007,11 og 1.770.000 bandaríkjadalir, en af sams konar reikningi Djelloul Seghier 6. sama mánaðar 20.000 evrur. Varnaraðili sendi tveimur greiðslumiðlunarbönkum sínum í Bandaríkjunum SWIFT tilkynningar 3. október 2008 um greiðslu 3.395.000 og 1.770.000 bandaríkjadala til þeirra og greiðslumiðlunarbanka sínum í Þýskalandi 6. sama mánaðar tilkynningu um greiðslu 20.000 evra til hans, en þessum bönkum bæri 7. og 8. sama mánaðar að greiða sömu fjárhæðir áfram til tiltekinna greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila. Samhliða þessu var sóknaraðila með SWIFT tilkynningum gert viðvart um að greiðslurnar myndu berast greiðslumiðlunarbönkum hans síðastgreinda daga og tilgreint að fjárhæðirnar bæri að greiða áfram á reikninga viðskiptamannanna hjá sóknaraðila. Þá liggja fyrir kvittanir sóknaraðila til þessara þriggja viðskiptamanna um að greiðslurnar hafi verið lagðar inn á reikninga þeirra hjá honum, í fyrstnefndu tilvikunum tveimur 7. október 2008 en í því þriðja 8. sama mánaðar.
Alþingi samþykkti 6. október 2008 frumvarp, sem varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis, víkja stjórn þess frá og setja yfir það skilanefnd. Fjármálaeftirlitið beitti þessum heimildum 7. október 2008 gagnvart báðum aðilum málsins.
Sama dag, 7. október 2008, sendi varnaraðili klukkan 13.16 SWIFT tilkynningu til greiðslumiðlunarbanka síns í Bretlandi um að greiða ætti samdægurs 26.956,26 sterlingspund af reikningi varnaraðila til greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila. Fyrir Hæstarétti liggur yfirlit um hreyfingar á reikningi varnaraðila hjá greiðslumiðlunarbankanum þennan dag, en samkvæmt því höfðu 26.959,41 sterlingspund verið lögð inn á reikninginn 7. október 2008. Við sama tímamark sendi varnaraðili SWIFT tilkynningu til sóknaraðila, þar sem upplýst var að greiðsla fyrir Atlantic Fresh Ltd. með fyrrgreindri fjárhæð myndi berast greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila frá greiðslumiðlunarbanka varnaraðila 7. október 2008. Ætti sóknaraðili að greiða fjárhæðina áfram á reikning Útgerðarfélagsins Glófaxa ehf. hjá sér. Í málinu liggur fyrir kvittun sóknaraðila til þessa viðskiptamanns um að síðastgreindan dag hafi 26.956,26 sterlingspund verið lögð inn á reikning hans hjá sóknaraðila, en það var sú fjárhæð, sem samkvæmt kvittuninni stóð eftir að frádregnum kostnaði og þóknun.
Varnaraðili sendi síðan 8. október 2008 klukkan 8.31 SWIFT tilkynningu til greiðslumiðlunarbanka síns í Bandaríkjunum um að greiða 18.413,46 bandaríkjadali af reikningi varnaraðila hjá greiðslumiðlunarbankanum til greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila. Samkvæmt yfirliti um hreyfingar á reikningi varnaraðila hjá greiðslumiðlunarbankanum höfðu 18.418,97 bandaríkjadalir verið lagðir inn á hann 7. október 2008. Þá sendi varnaraðili jafnframt SWIFT tilkynningu til sóknaraðila 8. sama mánaðar, þar sem upplýst var að greiðsla fyrir Metropolitan Poultry and Seafood Co. að fjárhæð 18.430,97 bandaríkjadalir myndi berast greiðslumiðlunarbanka sóknaraðila frá greiðslumiðlunarbanka varnaraðila og tilgreint að hana bæri að greiða áfram á reikning Mjólkursamsölunnar ehf. hjá sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir kvittun sóknaraðila 8. október 2008 til þessa viðskiptamanns síns um að 18.413,46 bandaríkjadalir hafi verið lagðir inn á reikning hans, en það var sú fjárhæð, sem stóð eftir að frádregnum kostnaði og þóknun.
Óumdeilt er í málinu að greiðslur, sem áttu að berast til sóknaraðila samkvæmt fyrrgreindum SWIFT tilkynningum frá varnaraðila, skiluðu sér ekki. Virðist sem fé, sem svaraði til greiðslnanna, hafi legið eftir á reikningum varnaraðila við erlenda greiðslumiðlunarbanka, sem ekki hafi veitt atbeina til að koma því til skila eftir fyrirmælum hans. Sóknaraðili brást á hinn bóginn í öllum tilvikum við tilkynningum varnaraðila með því að fylgja eftir greiðslufyrirmælum án þess að gæta að því hvort greiðslur hafi borist sér.
Á grundvelli laga nr. 44/2009, þar sem breytt var ákvæðum laga nr. 161/2002, voru sóknaraðili og varnaraðili teknir til slita og miðaðist upphaf þeirra við 22. apríl 2009 þegar fyrrnefndu lögin öðluðust gildi. Við slit varnaraðila lýsti sóknaraðili þremur kröfum vegna þeirra sex greiðslna, sem áður er getið. Í fyrsta lagi var um að ræða kröfu að fjárhæð 16.114.743 bandaríkjadalir vegna fjár, sem sóknaraðili hafði lagt á innlánsreikninga Stafa lífeyrissjóðs, Saga Capital hf., Íslenskrar erfðagreiningar ehf. og Mjólkursamsölunnar ehf. hjá sér. Í öðru lagi kröfu að fjárhæð 26.956 sterlingspund vegna fjárins, sem sóknaraðili lagði á reikning Útgerðarfélagsins Glófaxa ehf., og í þriðja lagi kröfu að fjárhæð 20.000 evrur vegna innborgunarinnar á reikning Djelloul Seghier. Í öllum tilvikum krafðist sóknaraðili dráttarvaxta af fyrrgreindum fjárhæðum frá þeim dögum, sem hann lagði fé á reikningana, til 22. apríl 2009. Þá krafðist hann þess að kröfurnar nytu rétthæðar við slit varnaraðila aðallega samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara samkvæmt 110. gr. sömu laga, en að því frágengnu samkvæmt 112. gr. laganna. Ágreiningur reis um þessar þrjár kröfur, en svo fór að varnaraðili viðurkenndi fjárhæð höfuðstóls þeirra með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ekki tókst að jafna þennan ágreining og var honum beint til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 28. janúar 2013.
II
Kröfurnar, sem deila aðila snýr að, lúta annars vegar að fjórum greiðslum, sem viðskiptamenn varnaraðila, Stafir lífeyrissjóður, Saga Capital hf., Íslensk erfðagreining ehf. og Djelloul Seghier, óskuðu eftir að millifærðar yrðu af gjaldeyrisreikningum sínum hjá honum yfir á sams konar reikninga þeirra hjá sóknaraðila. Fyrir liggur í málinu að varnaraðili hófst handa við að fylgja eftir þessum óskum með því að taka fjárhæðirnar, sem þær vörðuðu, af reikningum þessara viðskiptamanna. Með þeirri aðgerð liðu undir lok kröfuréttindi til innstæðufjár, sem viðskiptamennirnir nutu á hendur varnaraðila. Á sama hátt og ef þeir hefðu sjálfir tekið innstæðuféð af reikningum sínum með reiðufé, sem háð væri eignarrétti þeirra, stofnaðist þá þegar til slíks réttar þeirra yfir peningum í vörslum varnaraðila. Sá eignarréttur raskaðist ekki af því að varnaraðili hafi í framhaldi af þessu leitast við að stýra fénu gegnum innlánsreikninga hjá milliliðum á leið þess til reikninga viðskiptamannanna hjá sóknaraðila, þar sem eignarréttur þeirra yfir fénu hefði að lokum tekið á nýjan leik á sig mynd kröfuréttinda, en í það sinn á hendur sóknaraðila. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að þetta fé sé enn í vörslum varnaraðila. Sóknaraðili hefur í reynd leyst til sín tilkall viðskiptamannanna til þessara eigna með því að standa skil á fénu með innborgun á innlánsreikninga þeirra hjá sér. Þessu til samræmis verður að líta svo á að fullnægt sé að þessu leyti því skilyrði fyrir réttarstöðu kröfu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 að sóknaraðili njóti eignarréttar yfir fé í vörslum varnaraðila, sem þessu svarar.
Ágreiningur aðilanna snýr hins vegar að tveimur greiðslum, sem komust í hendur varnaraðila frá tveimur erlendum félögum, Atlantic Fresh Ltd. og Metropolitan Poultry and Seafood Co., að því er virðist til að gera upp skuldir þeirra við Útgerðarfélagið Glófaxa ehf. og Mjólkursamsöluna ehf., en þetta fé átti að leggja á reikninga síðargreindu félaganna hjá sóknaraðila. Ekki liggur annað fyrir en að erlendu félögin hafi beint þessum greiðslum í þennan farveg eftir fyrirmælum íslensku félaganna tveggja til að efna kröfur, sem þau síðarnefndu áttu á hendur þeim. Því til samræmis verður að líta svo á að varnaraðili hafi tekið við greiðslunum í umboði íslensku félaganna, sem hafi notið beins eignarréttar yfir fénu. Á sama hátt og áður greinir hefði þessi eignarréttur í engu raskast við ráðstafanir, sem varnaraðili hefði gripið til í því augnmiði að koma fénu á áfangastað með því að leggja það á reikninga íslensku félaganna tveggja hjá sóknaraðila. Sóknaraðili verður einnig að teljast hafa leyst til sín tilkall þessara félaga og njóta á þeim grunni eignarréttar yfir fénu, sem enn er í vörslum varnaraðila.
Til þess að tilkall til peninga fái notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 nægir ekki það eitt að sá, sem krefst þeirra, sýni fram á beinan eignarrétt sinn yfir þeim, heldur ber samkvæmt dómvenju jafnframt að fullnægja því skilyrði að peningar hafi verið sérgreindir í vörslum þrotamanns við upphaf gjaldþrotaskipta, hafi hann þegar haft þá undir höndum á því tímamarki. Varnaraðili hafði fengið í hendur áðurnefnda peningaeign Stafa lífeyrissjóðs, Saga Capital hf., Íslenskrar erfðagreiningar ehf. og Djelloul Seghier áður en Fjármálaeftirlitið neytti heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 gagnvart honum. Ekkert liggur fyrir um að þetta fé hafi upp frá því á nokkurn hátt verið sérgreint í raun í vörslum varnaraðila, en í þeim efnum getur engu skipt hvernig hagað hafi verið færslu um tilvist þessa fjár í bókum hans. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki uppfyllt skilyrði til að sóknaraðili njóti réttarstöðu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 fyrir kröfu sinni að þessu leyti. Varnaraðili beindi sem áður greinir tilmælum til sóknaraðila 3. og 6. október 2008 um að greiða tilteknar fjárhæðir inn á reikninga áðurnefndra fjögurra viðskiptamanna þeirra. Á þeim tíma var varnaraðili ekki í slíkri aðstöðu að jafna megi til þess að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og getur því heldur ekki komið til álita að kröfur sóknaraðila njóti að þessu leyti við slit varnaraðila stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Fé, sem samkvæmt áðursögðu tilheyrði Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. og Mjólkursamsölunni ehf., komst í vörslur varnaraðila 7. október 2008 og liggur ekki annað fyrir en að það hafi gerst eftir þá stund þess dags sem Fjármálaeftirlitið setti yfir hann skilanefnd. Í fyrri dómum Hæstaréttar hefur því verið slegið föstu að varnaraðili hafi frá þeim tíma verið í aðstöðu, sem gagnvart skilyrðum fyrir réttarstöðu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 megi leggja að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, sbr. meðal annars dóm 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011. Getur því engu breytt um stöðu krafna sóknaraðila, sem eiga rætur að rekja til þessa, í réttindaröð hvort peningarnir, sem þær beinast að, hafi verið sérgreindir í vörslum varnaraðila. Verður því viðurkennt að kröfur sóknaraðila um 26.956 sterlingspund og 18.413,46 bandaríkjadali njóti stöðu eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.
Að því er varðar kröfu sóknaraðila um dráttarvexti af fé, sem hann nýtur tilkalls til eftir síðastnefndu lagaákvæði, verður að gæta að því að slíkir vextir falla einungis á peningakröfur á sviði fjármunaréttar, en af þeim sökum getur ekki komið til álita að eign í merkingu 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 beri slíka vexti. Krafa um skaðabætur, sem svari til dráttarvaxta af peningaeign, getur með engu móti heldur átt undir það lagaákvæði. Samkvæmt því geta kröfur sóknaraðila, sem eftir áðursögðu verða látnar njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, ekki borið vexti.
Um þá fjóra liði í kröfum sóknaraðila, sem eftir framansögðu fá ekki notið stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, er til þess að líta að slitastjórn varnaraðila hefur viðurkennt fjárhæð þeirra og skipað þeim í réttindaröð eftir 113. gr. sömu laga. Af fyrrgreindum niðurstöðum leiðir að sú afstaða varnaraðila á að standa óhögguð, en ekki eru efni til að mæla sérstaklega fyrir um þau málalok í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málins er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Við slit varnaraðila, LBI hf., eru viðurkenndar kröfur sóknaraðila, Glitnis hf., að fjárhæð 26.956 sterlingspund og 18.413,46 bandaríkjadalir með stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2014.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slit varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 14. janúar 2013, sem móttekið var af héraðsdómi 16. sama mánaðar. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málið var tekið til úrskurðar miðvikudaginn 11. desember sl.
Sóknaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík, en varnaraðili er LBI hf., Austurstræti 16, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess bæði í aðal- og varakröfu að kröfur hans, auðkenndar í kröfuskrá varnaraðila nr. 935 að höfuðstólsfjárhæð 16.114.743 bandaríkjadalir, nr. 982 að höfuðstólsfjárhæð 26.956 sterlingspund og nr. 984 að höfuðstólsfjárhæð 20.000 evrur verði viðurkenndar við slitameðferð varnaraðila.
Þá krefst hann aðallega viðurkenningar á skaðabótakröfu að fjárhæð sem nemi dráttarvöxtum af 16.096.329 bandaríkjadölum og af 26.956 sterlingspundum frá 7. til 8. október 2008 en frá þeim degi til greiðsludags af heildarfjárhæð fyrrgreindra krafna, en til vara krefst hann viðurkenningar á skaðabótum að fjárhæð 2.229.189 bandaríkjadalir, 3.729 sterlingspund og 2.752 evrur. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa standi utan skuldaraðar sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Til vara krefst sóknaraðili að viðurkenndar verði við slitameðferð varnaraðila, auk þeirra höfuðstólsfjárhæða sem að framan eru greindar, kröfur hans til dráttarvaxta af þeim fjárhæðum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 7. til 8. október 2008 af hinum tilgreindu fjárhæðum í bandaríkjadölum og sterlingspundum, en frá þeim degi af heildarfjárhæð krafna til greiðsludags, en til vara að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga til 22. apríl 2009, að fjárhæð 2.229.189 bandaríkjadalir, 3.729 sterlingspund og 2.752 evrur. Sóknaraðili krefst þess að framangreind varakrafa hans njóti stöðu í skuldaröð sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili krefst og málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
Slitastjórn varnaraðila hefur viðurkennt höfuðstól krafna varnaraðila sem almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og umreiknað þær í íslenskar krónur miðað við gengi gjaldmiðla 22. apríl 2009. Ekki er ágreiningur um fjárhæðir að þessu leyti. Snýst ágreiningur aðila því um það í fyrsta lagi hvort framangreindar kröfur skuli standa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 eða njóta stöðu sem forgangskröfur með vísan til 3. tl. 110. gr. sömu laga. Þá er og deilt um rétt sóknaraðila til dráttarvaxta eða skaðabóta sem nemi fjárhæð dráttarvaxta eins og nánar er lýst hér síðar.
I
Óumdeilt er milli málsaðila að Landsbanki Íslands hf. sendi Glitni banka hf. sex SWIFT skeyti með beiðni um að leggja samtals 16.114.743 bandaríkjadali, 26.956 sterlingspund og 20.000 evrur inn á nánar tilgreinda bankareikninga í Glitni banka hf. 7. og 8. október 2008. Þrjú skeytanna voru send þann 3., eitt þann 6., eitt þann 7. og loks eitt þann 8. október 2008. Í umræddum skeytum kom jafnframt fram að nánar greindar fjárhæðir myndu berast á greiðsludegi frá erlendum greiðslumiðlunarbönkum Landsbanka Íslands hf. inn á greiðslumiðlunarreikning Glitnis banka hf. Var hér um að ræða í fjórum tilvikum að eigendur fjármuna erlendis höfðu óskað atbeina Landsbanka Íslands hf. við að flytja þá fjármuni inn á bankareikninga í sinni eigu hjá Glitni banka hf. á Íslandi en í tveimur tilvikum var um að ræða erlenda greiðendur sem óskuðu eftir að Landsbanki Íslands hf. miðlaði greiðslum inn á bankreikninga í eigu íslenskra aðila hjá Glitni banka hf. á Íslandi. SWIFT er heiti á alþjóðlegu samskiptakerfi fjármálafyrirtækja sem er meðal annars notað til að koma á framfæri fyrirmælum um greiðslur. Liggja fyrir í máli þessu afrit umræddra SWIFT skeyta og er ekki ágreiningur milli aðila um efni þeirra. Sjá nánar í eftirfarandi töflu:
|
Swift auðkenni |
Auðkenni greiðslu frá sóknaraðila |
Greiðandi erlendis |
Viðtakandi á Íslandi |
Dags. SWIFT skeytis |
Dags. millifærslu |
Höfuðstóll |
|
CT0000786025001 |
CI0510303133 |
Stafir lífeyrissjóður |
Stafir lífeyrissjóður |
03.10.2008 |
07.10. 2008 |
10.931.329 USD |
|
CT0000786118001 |
CI0510303143 |
Saga Capital |
Saga Capital |
03.10.2008 |
07.10. 2008 |
3.395.000 USD |
|
CT0000786397001 |
CI0510303190 |
Íslensk erfðagreining |
Íslensk erfðagreining |
03.10.2008 |
07.10.2008 |
1.770.000 USD |
|
CT0000787240001 |
CI0510303432 |
Djelloul Seghir |
Djelloul Seghir |
06.10.2008 |
08.10. 2008 |
20.000 EUR |
|
CI0000376006001 |
CI0510303600 |
Atlantic Fresh Ltd. |
Útgerðarfélagið Glófaxi |
07.10.2008 |
07.10.2008 |
26.956 GBP |
|
CI0000376028001 |
CI0510303687 |
Metropolitan Poultry |
Mjólkursamsalan |
08.10.2008 |
08.10. 2008 |
18.413 USD |
Fyrir liggur í málinu að Glitnir banki hf. lagði fármuni inn á bankareikninga viðskiptamanna í samræmi við framangreind fyrirmæli. Á hinn bóginn er óumdeilt að greiðslur bárust ekki frá hinum erlendu greiðslumiðlunarbönkum inn á greiðslumiðlunarreikning Glitnis banka hf.
Fjármálaeftirlitið beitti 7. október 2008 heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. og skipaði skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var Nýi Landsbanki Íslands hf. stofnaður og fékk framseldar til sín innlendar innstæður varnaraðila, sem og helstu eignar hans. Tók hann við starfsemi varnaraðila sem tengdist hinum framseldu eignum frá og með þeim degi klukkan 09:00, þ.m.t. aðild varnaraðila að hverskonar greiðslukerfum.
Í greinargerð varnaraðila er til þess vísað að í riti Seðlabanka Íslands um Fjármálastöðugleika árið 2009 komi m.a. fram umfjöllun um erlenda greiðslumiðlun. Greini þar að við hrun bankanna í byrjun október hafi erlendir bankareikningar þeirra lokast og þar með möguleikar á að miðla greiðslum til og frá Íslandi. Þá hafi skapast óvissa og vantraust sem leitt hafi til þess að erlendir bankar hafi ekki viljað senda greiðslur til Íslands af ótta við að þær yrðu kyrrsettar. Erlendir bankar hafi fryst erlenda reikninga íslensku viðskiptabankanna, m.a. vegna tilrauna til að beita skuldajöfnuði. Þeir erlendu bankar sem íslensku bankarnir hafi átt reikninga hjá hafi einnig átt kröfur á íslensku bankana og hafi neitað að sleppa fjármunum fyrr en búið væri að uppfylla þær kröfur. Seðlabankinn hafi gripið til aðgerða vegna þessa ástands og hafi miðlað greiðslum fyrir íslensku bankana og viðskiptavini þeirra í gegnum erlenda bankareikninga sína. Vegna tregðu ýmissa erlendra banka til að senda greiðslur til Íslands af ótta við að þær bærust ekki réttum viðtakanda hafi Seðlabankinn gefið út yfirlýsingu 16. október 2008 þar sem hann hafi ábyrgst að greiðslur um reikninga hans bærust réttum viðtakendum. Kveður varnaraðili í greinargerð sinni að vegna framangreindrar stöðu í erlendri greiðslumiðlun hafi engar af þeim greiðslum sem um ræðir í máli þessu borist til sóknaraðila frá erlendum greiðslumiðlunarbönkum varnaraðila dagana 7. og 8. október 2008. Sóknaraðili hafi hins vegar greitt umræddar fjárhæðir inn á reikninga viðkomandi aðila í samræmi við greiðslufyrirmæli sem gefin höfðu verið með þeim SWIFT skeytum sem fyrr eru rakin.
Lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tóku gildi 22. apríl 2009. Markar gildistökudagur laganna upphagsdag slitameðferðar varnaraðila og var honum, í samræmi við ákvæði laganna, skipuð slitastjórn 29. apríl 2009. Sinnti slitastjórn öllum öðrum verkefnum en þeim sem skilanefnd hafði verið sérstaklega falin samkvæmt lögum nr. 161/2002. Við árslok 2011 færðust verkefni skilanefndar einnig á hendur slitastjórnar, sbr. lög nr. 78/2011. Samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002, eins og þeim var breytt með lögum nr. 44/2009, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfum þeim sem deilt er um í máli þessu, innan kröfulýsingarfrests, með þremur kröfulýsingum, sem fengu númerin 935, 982 og 984 á kröfuskrá varnaraðila. Var lýst í einni kröfulýsingu samtölu krafna í bandaríkjadölum, í annarri kröfu í sterlingspundum og í þeirri þriðju í evrum. Þykir rétt að gera hér nokkra grein fyrir efni og framsetningu kröfulýsinga. Í kröfulýsingu vegna kröfu nr. 935 kemur fram að lýst er kröfu að höfuðstól 16.114.743 bandaríkjadalir auk dráttarvaxta til 22. apríl 2009 að fjárhæð 2.229.189 bandaríkjadalir. Vegna kröfulýsingar um kröfu 982 eru samsvarandi fjárhæðir 26.956 sterlingspund að höfuðstól en dráttarvextir til 22. apríl 2009 að fjárhæð 3.729 sterlingspund. Kröfulýsing vegna kröfu nr. 984 tilgreinir höfuðstól að fjárhæð 20.000 evrur auk dráttarvaxta til 22. apríl 2009 að fjárhæð 2.752 evrur. Kröfulýsingarnar eru allar settar fram með sama hætti og þess krafist aðallega að kröfurnar njóti stöðu sértökurafna samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara að þær teljist búskröfur samkvæmt 110. gr. sömu laga en að því frágengnu að þær teljist forgangskröfur sem innstæður, sbr. 112. gr. sömu laga. Kemur þá fram í kröfulýsingum að þess sé krafist að afstaða verði tekin til krafnanna. Þá segir: „Þá er krafist áfallandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af höfuðstól skuldarinnar frá og með úrskurðardegi. Dráttarvaxtakröfunni er lýst sem eftirstæðri kröfu skv. 114. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.“ Hinn tilvitnaði texti er sá sami í öllum kröfulýsingum.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði í upphafi alfarið kröfum varnaraðila, en sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu. Á jöfnunarfundi 26. nóvember 2012 tilkynnti slitastjórn varnaraðila um breytta afstöðu til krafna sóknaraðila og lýsti því að höfuðstóll krafnanna væri viðurkenndur sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og voru fjárhæðir færðar til íslenskra króna miðað við úrskurðardag. Bókað var um að kröfum um dráttarvexti væri hafnað vegna vanreifunar. Sóknaraðili dró ekki úr kröfum sínum og náðist ekki að jafna ágreining aðila á umræddum fundi og því ákveðið að vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Eins og fyrr segir barst málið héraðsdómi 16. janúar 2013.
Við munnlegan málflutning féll sóknaraðili frá þrautavarakröfu, um að krafa hans ætti að njóta stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sem hann hafði uppi í kröfulýsingu og greinargerð.
II
Í greinargerð kveður sóknaraðili að hann krefjist þess aðallega að krafa hans njóti rétthæðar sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Það sé viðurkennt lögskýringarsjónarmið að umrætt lagaákvæði eigi einnig við um kröfu á grundvelli sértökuréttar þegar tilkall sé gert til ákveðinnar peningaupphæðar, en ekki eingöngu þegar krafist sé sértöku hluta eða muna við gjaldþrotaskipti.
Af 109. gr. laga nr. 21/1991 megi ráða að sett séu tvö skilyrði fyrir því að fjárkrafa njóti sértökuréttar við gjaldþrotaskipti. Féð þurfi að vera sérgreint í vörslum þrotabús og sá sem krefjist fjármunanna þurfi að geta sannað eignarrétt sinn á þeim. Í tilviki sóknaraðila sé vafalítið að hann sé eigandi hinna sérgreindu fjármuna en sé ekki lánardrottinn í skilningi laga nr. 21/1991 og sé það óumdeilt. Þá sé um að ræða peningainneign í eigu sóknaraðila, sem varnaraðili hafi haft í vörslum sínum, en varnaraðila hafi borið að halda þessum fjármunum aðgreindum með vísan til loforðs sem fram komi í SWIFT skeytum. Þar sem fjármununum hafi ekki verið komið til skila til sóknaraðila hljóti varnaraðili að hafa haldið fjármununum sérgreindum í reikningshaldi bankans líkt og gera beri með vörslufé, einkum í ljósi þess að hann hafi óskað eftir því við sóknaraðila að hann innti af hendi greiðslur til réttra viðtakenda greiðslnanna og hafi tilgreint í skeytum sínum að hann myndi leggja fjármunina inn á reikning sóknaraðila sem síðar hafi komið í ljós að hann hafi ekki gert.
Þó svo að varnaraðili hafi ekki haldið fjármunum sóknaraðila aðgreindum eins og honum hafi borið þá hafi sá áskilnaður ekki verið gerður þegar peningar hafi ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en eftir upphaf skipta, sbr. dóma Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011 (Landsbanki Íslands hf. gegn Landsvaka hf.) og nr. 226/1987 (Leasing Partners International gegn þb. Hafskips hf.), sem birtur sé í dómasafni réttarins 1988 á blaðsíðu 358. Enda væri þá skiptastjóra eða slitastjórn í sjálfsvald sett að ráða skipun kröfu til peninga í réttindaröð með ákvörðun sinni um að láta þá renna saman við annað fé í þrotabúinu án þess að sérgreina fjármunina, sbr. að nokkru 2. mgr. 109. gr. og 2. mgr. 123. gr. laga nr. 21/1991.
Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila að morgni og fyrir opnun markaða 7. október 2008 og hafi vikið stjórn hans frá. Um leið hafi það sett skilanefnd yfir varnaraðila, sem samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi farið með allar heimildir félagsstjórnar og öll málefni varnaraðila, þar á meðal að hafa umsjón með eignum og annast rekstur hans. Öll málefni varnaraðila hafi þannig verið sett undir skilanefnd, sem skipuð hafi verið í skjóli opinbers valds og hafi hlotið samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila varnaraðila. Að því virtu, svo og með vísan til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 441/2011, sem og til dóms réttarins 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 (Landsbanki Íslands hf. gegn Landsbankanum hf.) telji sóknaraðili að líta verði svo á að á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varði tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda á peningum í vörslum hans. Sóknaraðili hafi greitt umræddar greiðslur 7. og 8. október 2008 vegna greiðslufyrirmæla varnaraðila, eða eftir að skilanefnd hafi verið sett yfir varnaraðila. Skipti því ekki máli fyrir stöðu krafna sóknaraðila í réttindaröð hvort peningarnir, sem krafan beinist að, séu sérgreindir í vörslum varnaraðila.
Sóknaraðili telji því að öll skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt um sönnun eignarhalds og um vörslur og sérgreiningu eigna sóknaraðila hjá varnaraðila.
Verði ekki fallist á að krafa sóknaraðila njóti stöðu sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 krefst sóknaraðili þess til vara að kröfur hans njóti rétthæðar sem búskröfur samkvæmt 3. tl. 110. gr. sömu laga. Vísar sóknaraðili til sömu röksemda og hér eru fyrr raktar um þýðingu þess að skilanefnd hafi verið sett yfir varnaraðila fyrir opnun markaða 7. október 2008 og að líta verði svo á, m.a. með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 441/2011 og 112/2012, að á tímabilinu frá og með 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem jafna megi til þess að gjaldþrotaskipti væru hafin á búi hans m.a. við mat á því tímamarki sem miða skuli við gagnvart 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Byggir varnaraðili á því að fyrir liggi að greiðslur varnaraðila til sóknaraðila hafi verið inntar af hendi eftir að skilanefnd hafi verið skipuð yfir varnaraðila. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar hafi varnaraðila borið að endurgreiða þá fjárhæð sem sóknaraðili hafi greitt að beiðni hans. Þannig hafi stofnast kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila eftir það tímamark er 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 miði við og teljist krafan því búskrafa.
Sóknaraðili krefst þess að fá greiddar kröfur sínar eins og þeim hafi verið lýst þ.e.a.s. í þeim gjaldmiðlum sem þær hafi verið greiddar í. Fram komi í 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 að kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðli skuli færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður hafi gengið um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta að því leyti sem þeim sé ekki fullnægt samkvæmt 109. til 111. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu sé ljóst að kröfur sem flokkist undir rétthæð samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum skuli greiðast í þeim gjaldmiðlum sem þær hafi verið inntar af hendi í.
Sóknaraðili kveðst í aðalkröfu krefjast skaðabóta sem nemi dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er greiðslufyrirmæli hafi verið gefin til greiðsludags sértökukrafna. Sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni sem nemi ígildi dráttarvaxta þar sem að afhending fjármunanna hafi ekki farið fram. Til vara krefjist sóknaraðili skaðabóta að fjárhæð 2.220.189 bandaríkjadala, 3.729 sterlingspuna og 2.752 evra.
Sóknaraðili kveðst í varakröfu krefjast dráttarvaxta fyrir 22. apríl 2009 að fjárhæð 2.229.189 bandaríkjadalir, 2.752 evrur og 3.725 sterlingspund. Sóknaraðili haldi því fram að kröfur hans um dráttarvexti eigi fullan rétt á sér og þær beri að viðurkenna, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafist sé dráttarvaxta frá þeim degi er greiðslufyrirmæli hafi verið gefin enda hafi varnaraðila borið að endurgreiða sóknaraðila fjármunina þann sama dag. Þá krefjist sóknaraðili dráttarvaxta frá 22. apríl 2009 til greiðsludags. Þar sem þess sé krafist að krafan teljist búskrafa eigi sóknaraðili rétt á dráttarvöxtum af henni eftir úrskurðardag og að sú dráttarvaxtakrafa sé með sömu rétthæða og höfuðstóll krafnanna.
Sóknaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og meginreglna gjaldþrota- og samningaréttar. Auk þess sé vísað til meginreglna kröfuréttarins. Kröfu um málskostnað styðji sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988.
III
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að slitastjórn hans hafi viðurkennt höfuðstól krafna sóknaraðila sem almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Snúi ágreiningur aðila því aðeins að rétthæð umræddra krafna sem og að vaxtakröfum sóknaraðila.
Varnaraðili kveðst byggja á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 fyrir afhendingu fjármuna utan skuldaraðar og beri því að hafna aðalkröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði skuli afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sanni eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skuli með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið eigi ekki tilkall til. Í lagagreininni sé þannig rætt um kröfur þriðja manns til afhendingar eignar eða annarra verðmæta í vörslum þrotabús á grundvelli eignarréttar hans að þeim.
Í fyrsta lagi byggi varnaraðili á að sóknaraðili eigi ekki eignarrétt í ákveðnum peningafjárhæðum í vörslu slitabús varnaraðila. Sé vakin athygli á að kröfur sóknaraðila séu byggðar á greiðslufyrirmælum frá varnaraðila. Kröfur sóknaraðila byggist því á kröfurétti sem stofnast hafi vegna greiðsluloforða varnaraðila en ekki á eignarrétti.
Varnaraðili kveðst vísa til þess að í SWIFT skeytum sem geymi umrædd greiðslufyrirmæli komi fram að greiðslur að nánar tilgreindum fjárhæðum muni berast frá greiðslumiðlunarbönkum varnaraðila erlendis inn á greiðslumiðlunarreikninga sóknaraðila í erlendum myntum 7. og 8. október 2008. Þá komi fram upplýsingar um hver sé sendandi greiðslunnar og viðtakandi hennar á Íslandi.
Kveðst varnaraðili vísa til þess að aðkoma sóknaraðila að málinu hafi verið liður í hefðbundinni greiðslumiðlun. Ekki sé unnt að fallast á að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila á grundvelli slíkrar greiðslumiðlunar geti talist til eignarréttar sóknaraðila á ákveðnum peningafjárhæðum í vörslum slitabús varnaraðila í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991.
Þannig hafi endanlegir viðtakendur greiðslna á Íslandi verið eigendur þeirra fjármuna sem málsaðilum hafi verið falið að miðla til þeirra. Það að varnaraðili hafi ekki getað efnt þau greiðsluloforð sem verið hafi að finna í SWIFT skeytum varnaraðila til sóknaraðila á tímabilinu 3. til 8. október 2008 vegna þeirra atvika sem átt hafi sér stað í erlendri greiðslumiðlun á Íslandi í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið hafi beitt heimild stjórnvalda til að taka yfir starfsemi varnaraðila 7. október 2008 og koma á laggirnar nýjum banka, breyti engu í því efni.
Eignarréttur yfir þeim fjármunum sem aðilum hafi verið falið að miðla til viðtakenda á Íslandi hafi þannig eftir sem áður verið hjá hinum endanlegu viðtakendum.
Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að það hafi verið á ábyrgð og áhættu sóknaraðila að leggja fjármuni inn á reikninga viðtakenda og rétthafa greiðslnanna samkvæmt greiðslufyrirmælum varnaraðila án þess að gaumgæfa hvort greiðslur hefðu skilað sér frá greiðslumiðlunarbönkum varnaraðila 7. og 8. október 2008. Vegna starfsemi sinnar á fjármálamarkaði hafi sóknaraðila ekki getað dulist eftir inngrip Fjármálaeftirlitsins í starfsemi Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 að veruleg hætta væri á að varnaraðili gæti ekki efnt skyldur sínar samkvæmt greiðslufyrirmælunum dagana 7. og 8. október 2008. Verði sóknaraðili að bera hallann af því að hafa ekki sinnt aðgæsluskyldu að þessu leyti áður en hann hafi framkvæmt greiðslur tilgreinda daga á eigin kostnað til viðtakenda og rétthafa fjármuna á Íslandi.
Vísi varnaraðili til þess að samkvæmt almennum meginreglum kröfuréttar hafi sóknaraðili öðlast kröfuréttindi á hendur varnaraðila á grundvelli þeirra loforða sem sé að finna í fyrrnefndum SWIFT skeytum, þ.e. kröfuréttindi sem svari til þeirra fjárhæða sem varnaraðili hafi tilkynnt að yrðu lagðar inn á greiðslumiðlunarreikninga sóknaraðila 7. og 8. október 2008. Byggi varnaraðili á að eftir standi kröfuréttindi sóknaraðila á hendur varnaraðila sem njóti stöðu almennrar kröfu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 eins og varnaraðili hafi viðurkennt við slitameðferðina.
Í samræmi við framangreint telji varnaraðili mikilvægt að greint sé á milli eignarréttar á kröfu annars vegar og eignarréttar á ákveðnum peningafjárhæðum í vörslu slitabús hins vegar. Varnaraðili mótmæli því þannig að sóknaraðili eigi eignarrétt að fé í höndum varnaraðila í formi peninga sem sannanlega tilheyri sóknaraðila eða á annan hliðstæðan hátt. Fái það raunar stoð í öllum málatilbúnaði sóknaraðila enda sé í öllum tilvikum gerð krafa um afhendingu kröfu utan skuldaraðar en ekki krafa um afhendingu ákveðinna peningaseðla. Varnaraðili mótmæli því að í eignarrétti á kröfu felist réttur til greiðslu ákveðinna peningaseðla utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Væri fallist á slíkan málatilbúnað hefði það þær afleiðingar í för með sér að allar samþykktar kröfur við búskipti teldust til sértökukrafna í skilningi ákvæðisins.
Í ljósi alls þess sem að framan greini mótmæli varnaraðili því að sóknaraðili eigi eignarrétt í ákveðnum peningafjárhæðum í vörslum varnaraðila.
Í öðru lagi kveðst varnaraðili vísa til þess að sóknaraðili eigi ekki eignarrétt í sérgreindum peningum í vörslu varnaraðila. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til þess að ekki hafi verið gerður áskilnaður um sérgreiningu fjármuna í þeim tilvikum þegar peningar hafi ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en við upphaf skipta, sbr. dóm Hæstaréttar frá 28. nóvember 2011 í máli réttarins nr. 441/2011. Í tilgreindum dómi hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hafi á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 verið í aðstöðu sem leggja mætti að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varði tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda til peninga í vörslum hans. Í ljósi þessa gæti það engu breytt um stöðu kröfunnar í réttindaröð hvort peningarnir sem krafan beindist að hafi verið sérgreindir í vörslum búsins.
Varnaraðili mótmæli því að það hafi einhverja þýðingu varðandi kröfu sóknaraðila um rétthæð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 hvort sóknaraðili hafi greitt umræddar greiðslur 7. og 8. október 2008 vegna greiðslufyrirmæla varnaraðila, þ.e. eftir að skilanefnd hafi verið sett yfir varnaraðila. Vísi varnaraðili til þess að varðandi skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 um sérgreiningu fjármuna hafi það eitt þýðingu hvenær hinir umþrættu fjármunir hafi komist í vörslur Landsbanka Íslands hf. Eins og að framan greini hafi Landsbanki Íslands hf. sent SWIFT skeyti til Glitnis banka hf. 3. október 2008 með greiðslufyrirmælum vegna Stafa lífeyrissjóðs, Saga Capital og Íslenskrar erfðagreiningar, samtals að fjárhæð 16.096.329 bandaríkjadalir og þann 6. október 2008 með greiðslufyrirmælum vegna Djelloul Seghier, að fjárhæð 20.000 evrur. Hafi hinar umþrættu fjárhæðir þá þegar verið komnar í vörslur Landsbanka Íslands hf. og því áður en skilanefnd hafi verið sett yfir hann.
Hafi sóknaraðila með engu móti tekist að sýna fram á að framangreint fé í hans eigu sé sérgreint í fórum varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili engin gögn laga fram er sýnt geti fram á að 109. gr. laga nr. 21/1991 eigi hér við.
Varðandi SWIFT skeyti sem Landsbanki Íslands hf. hafi sent Glitni banka hf. 7. október 2008 með greiðslufyrirmælum vegna Atlantic Fresh Ltd. og Útgerðarfélagsins Glófaxa að fjárhæð 26.956 sterlingspund og þann 8. október 2008 vegna Metropolitan Poultry og Mjólkursamsölunnar ehf., að fjárhæð 18.413 bandaríkjadalir, þá vísi varnaraðili til þess að sóknaraðili eigi ekki eignarrétt í þeim fjármunum sem varnaraðili hafi falið honum að miðla áfram til viðtakenda á Íslandi, sbr. það sem hér sé að framan rakið. Þá telji varnaraðili að atvik í dómi Hæstaréttar frá 28. nóvember 2011 varðandi skilyrði um sérgreiningu fjármuna hafi verið sérstaks eðlis sem eigi ekki við varðandi sakarefni þessa máls. Sé á það bent að dómaframkvæmd sé ekki á einn veg hvað varði sérgreiningarskilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 18. janúar 2011 í máli réttarins nr. 650/2010.
Með hliðsjón af því sem að framan greini sé því haldið fram að umkrafðar peningafjárhæðir séu ekki sérgreindar í slitabúi varnaraðila, sem leiði til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu kröfu sóknaraðila utan skuldaraðar, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Varðandi skilyrði fyrir afhendingu eignar eða annarra réttinda utan skuldaraðar vísi varnaraðili að öðru leyti til þess að sönnunarbyrði fyrir því að sóknaraðili eigi eignarrétt í peningaseðlum í vörslu varnaraðila hvíli á sóknaraðila sjálfum. Byggi varnaraðili á að sóknaraðila hafi ekki lánast sú sönnunarfærsla. Sóknaraðili hafi þannig engin gögn lagt fram er sýnt geti fram á að 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 eigi við í þessu tilviki.
Með vísan til meginreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við þá sameiginlegu fullnustugerð sem felist í gjaldþrotaskiptum og slitameðferðum byggi varnaraðili á að ríkar kröfur um sönnun beri að gera til þeirra sem krefjist afhendingar eignar eða annarra réttinda utan skuldaraðar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Leggi varnaraðili áherslu á að síðastnefnt lagaákvæði feli í sér veigamikla undantekningu frá framangreindri meginreglu um jafnræði kröfuhafa. Af því leiði að ákvæðið verði ekki skýrt með rýmkandi lögskýringu.
Varnaraðili mótmæli sem ósönnuðum öllum málsástæðum sóknaraðila fyrir greiðslu krafnanna utan skuldaraðar. Með vísan til þess sem að framan sé rakið telji varnaraðili að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um afhendingu fjármuna utan skuldaraðar. Í ljósi þess að sóknaraðili eigi ekki sérgreindan eignarrétt í ákveðnum peningafjárhæðum í vörslu varnaraðila, sem og með hliðsjón af fyrrnefndri meginreglu um jafnræði kröfuhafa, sé þess krafist að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili byggi á að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og beri því að hafna varakröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði teljist til búskrafna kröfur sem orðið hafi til á hendur þrotabúi eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið baki öðrum.
Málatilbúnaður sóknaraðila hafi verið reistur á því að greiðslufyrirmæli varnaraðila til sóknaraðila hafi verið gefin eftir að skilanefnd hafi verið skipuð yfir varnaraðila, þ.e. 7. október 2008 og að á tímabilinu frá þeim degi til 22. apríl 2009 hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans við mat á því tímamarki sem miðað sé við í 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dóm Hæstaréttar frá 22. mars 2012 í máli réttarins nr. 112/2012.
Sóknaraðili hafi nú fallið frá umræddri fullyrðingu enda liggi fyrir að Landsbanki Íslands hf. hafi sent SWIFT skeyti til Glitnis banka hf. 3. október 2008 með greiðslufyrirmælum vegna Stafa lífeyrissjóðs, Saga Capital og Íslenskrar erfðagreiningar, samtals að fjárhæð 16.096.329 bandaríkjadalir og 6. sama mánaðar með greiðslufyrirmælum vegna Djelloul Seghier að fjárhæð 20.000 evrur. Hafi greiðslufyrirmæli þessi því verið gefin fyrir skipun skilanefndar.
Kveðst varnaraðili byggja á því að skilanefnd Landsbanka Íslands hf. ekkert haft með framangreind greiðslufyrirmæli að gera. Verði þau eða kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila á grundvelli þeirra þannig hvorki raktar til samninga skiptastjóra eða til ætlaðs tjóns sem bú varnaraðila eigi að hafa bakað sóknaraðila í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Varðandi SWIFT skeyti sem Landsbanki Íslands hf. hafi sent Glitni banka hf. 7. október 2008 með greiðslufyrirmælum vegna Atlantic Fresh Ltd. og Útgerðarfélagsins Glófaxa að fjárhæð 26.956 sterlingspund og 8. sama mánaðar vegna Metropolitan Poultry og Mjólkursamsölunnar ehf., að fjárhæð 18.413 bandaríkjadalir, þá byggi varnaraðili á að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 þótt þau hafi verið gefin eftir skipan skilanefndar. Vísi varnaraðili til þess að lög nr. 21/1991 hafi ekki tekið gildi í tilfelli varnaraðila fyrr en með gildistöku laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, þ.e. 22. apríl 2009.
Úrskurðardagur í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið 22. apríl 2009, sbr. 2. tl. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 44/2009. Vísi varnaraðili til þess að tilgreindar endurgreiðslukröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila hafi stofnast fyrir það tímamark, þ.e. 7. og 8. október 2008. Í ljósi þess að þá hafi ekki verið kveðinn upp úrskurður um töku búsins til gjaldþrotaskipta í skilningi tilgreinds töluliðar, í tilfelli varnaraðila til slitameðferðar, sé því mótmælt að kröfurnar geti notið rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Þá byggi varnaraðili á að framangreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 112/2012 sé ekki fordæmisgefandi vegna þess sakarefnis sem uppi sé í máli þessu. Varnaraðili telji að atvik í nefndum dómi Hæstaréttar hafi verið sérstaks eðlis og eigi ekki við varðandi sakarefni þessa máls og milli málsaðila sem báðir séu fjármálafyrirtæki undir slitum samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 21/1991.
Krafa sóknaraðila eigi hvorki rætur að rekja til samninga skiptastjóra, þ.e. slitastjórnar eða eftir atvikum skilanefndar eins og sóknaraðili túlki 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, né mistaka starfsmanna varnaraðila. Bú varnaraðila hafi ekki bakað sóknaraðila tjón. Sé á því byggt að það hafi verið á ábyrgð og áhættu sóknaraðila að leggja fjármuni inn á reikninga viðtakenda og rétthafa greiðslnanna samkvæmt greiðslufyrirmælum varnaraðila án þess að gaumgæfa hvort greiðslur hafi skilað sér frá greiðslumiðlunarbönkum varnaraðila 7. og 8. október 2008.
Vegna starfsemi sinnar á fjármálamarkaði hafi sóknaraðila ekki getað dulist eftir inngrip Fjármálaeftirlitsins í starfsemi Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 að veruleg hætta væri á að varnaraðili gæti ekki efnt skyldur sínar samkvæmt greiðslufyrirmælum dagana 7. og 8. október 2008. Vísi varnaraðili í því samhengi jafnframt til þeirrar stöðu sem verið hafi uppi í erlendri greiðslumiðlun í október 2008. Verði sóknaraðili að bera hallan af því að hafa ekki sinnt aðgæsluskyldu að þessu leyti áður en hann hafi framkvæmt greiðslur tilgreinda daga á eigin kostnað til viðtakenda og rétthafa fjármuna á Íslandi.
Varnaraðili mótmæli öllum málsástæðum sóknaraðila fyrir varakröfu um rétthæð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Sé því gerð krafa um að varakröfu sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili kveðst krefjast þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila um skaðabætur í aðalkröfu sem nemi dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og kröfum sóknaraðila um dráttarvexti skv. sömu lagagrein í varakröfu frá þeim degi er greiðslufyrirmæli hafi verið gefin til greiðsludags.
Vísi varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi haft uppi kröfur um dráttarvexti í kröfulýsingum sínum. Í þeim hafi dráttarvaxtakröfum verið lýst sem eftirstæðum kröfum skv. 114. gr. laga nr. 21/1991. Sé á því byggt að sóknaraðili sé bundinn við þá lýsingu krafnanna en með vísan til 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 hafi ekki verið tekin afstaða til lýstra eftirstæðra krafna við slit varnaraðila enda megi telja fullvíst að ekki geti komið til greiðslu slíkra krafna við slitin. Með vísan til 2. mgr. 117. gr. og 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 sé gerð krafa um að kröfu sóknaraðila um skaðabætur í aðalkröfu og kröfu sóknaraðila um dráttarvexti í varakröfu verði hafnað enda séu þær of seint fram komnar.
Verði ekki fallist á að tilgreindar kröfur sóknaraðila séu of seint fram komnar byggi varnaraðili á að enga lagastoð sé að finna fyrir kröfugerð sóknaraðila um skaðabætur í aðalkröfu og að krafan sé að öðru leyti vanreifuð. Þá sé vísað til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2001 gildi þau lög aðeins um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og taki því ekki til kröfu um afhendingu á eign. Mótmæli varnaraðili því að hinir ætluðu fjármunir sóknaraðila hafi borið dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 hjá slitabúi varnaraðila eins og kröfugerð sóknaraðila byggi á. Þá mótmæli varnaraðili því sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni sem nemi ígildi dráttarvaxta þar sem afhending fjármuna hafi ekki farið fram. Að öðru leyti leyfi varnaraðili sér að vísa til umfjöllunar að framan um aðalkröfu sóknaraðila samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé varakröfu sóknaraðila um dráttarvexti mótmælt. Byggi varnaraðili á því að ekki séu uppfyllt skilyrði laga nr. 38/2001 fyrir kröfu sóknaraðila um dráttarvexti. Sé að öðru leyti vísað til málsástæðna varnaraðila vegna varakröfu hér að framan.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísi varnaraðili til almennra meginreglna gjaldþrota-, samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
IV
Í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 greinir að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sanni eignarrétt sinn að þeim. Þá greinir ennfremur að öðrum rétthöfum skuli með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið eigi ekki tilkall til.
Í máli þessu liggur fyrir og er óumdeilt að varnaraðili fékk fyrirmæli frá eigendum þeirra fjármuna sem um ræðir um að ráðstafa þeim inn á bankareikninga á Íslandi. Er því meðal annars lýst í greinargerð varnaraðila að hann telji að umræddir aðilar hafi verið eigendur þessara fjármuna. Varnaraðili óskaði eftir því við sóknaraðila að hann miðlaði greiðslunum inn á reikninga hjá sóknaraðila á Íslandi en samhliða áttu fjármunirnir að berast frá greiðslumiðlunarbanka varnaraðila inn á reikning í eigu sóknaraðila. Varnaraðili hefur lýst því að umræddar greiðslur hafi ekki verið inntar af hendi frá greiðslumiðlunarbanka hans til sóknaraðila, þrátt fyrir að varnaraðili hafi gefið fyrirmæli um slíkt. Varnaraðili hefur á hinn bóginn ekki upplýst um hvað orðið hafi um nefndar greiðslur. Aftur á móti liggur fyrir að sóknaraðili innti greiðslurnar af hendi til viðtakenda á Íslandi í samræmi við greiðslufyrirmæli varnaraðila.
Af hálfu sóknaraðila er til þess vísað að hann telji vafalítið að hann sé eigandi þeirra fjármuna í vörslum varnaraðila sem hann hafi átt að fá til sín samkvæmt þeim greiðslumiðlunarfyrirmælum sem varnaraðili sendi. Kveður sóknaraðili raunar í greinargerð sinni að framangreint sé í raun óumdeilt. Við munnlegan málflutning mótmælti varnaraðili þessu sérstaklega og taldi þvert á móti að þetta gæti ekki talist vafalítið og þaðan af síður óumdeilt. Sóknaraðili byggir á því í málinu að við þá millifærslu fjármuna sem átt hafi sér stað hafi varnaraðila borið að halda fjármunum í eigu viðkomandi viðskiptavina aðgreindum í bókhaldi sínu. Hafi varnaraðili enda enga tilraun gert til að sýna fram á að umræddir fjármunir séu ekki aðgreindir í vörslum hans á þann hátt að fullnægt sé skilyrðum sérgreiningar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili byggir einkum á því að sóknaraðila hafi ekki tekist sönnun þess að umræddir fjármunir séu sérgreindir í vörslum varnaraðila.
Það er mat dómsins að þegar á grundvelli þeirra röksemda aðila sem að framan eru raktar verði að telja sýnt að varnaraðili hafi móttekið greiðslur sem hann hafi átt að miðla til viðtakenda á Íslandi. Varnaraðili innti af hendi greiðslurnar til endanlegra viðtakenda en fékk á hinn bóginn ekki þá peningasendingu sem varnaraðili hafði lofað honum. Liggur því fyrir að í vörslum varnaraðila eru fjármunir sem hann á ekki tilkall til enda hafa eigendur þeirra fengið þá afhenta fyrir atbeina sóknaraðila. Verður þegar af þessari ástæðu fallist á að sóknaraðili teljist nú eigandi umræddra peninga í vörslum varnaraðila. Óumdeilt er að varnaraðili fékk umráð fjármunanna til flutnings þeirra til Íslands. Verður ekki lögð á sóknaraðila sönnunarbyrði þess hvað varð um fjármunina og hvar þeir eru nú niðurkomnir eins og varnaraðili gerir kröfu um. Lá það varnaraðila nær að tryggja sér sönnun um þetta atriði og hefur hann enga tilraun gert til að sýna fram á hvað um fjármunina varð. Verður þegar af þeirri ástæðu að fallast á með sóknaraðila að leggja verði til grundvallar að varnaraðili hafi gætt þeirrar skyldu sinnar við meðferð á fé þessu að halda því aðskildu í bókhaldi sínu og að það sé nú í vörslum hans. Taka skal fram að ekki er unnt að fallast á sjónarmið sem koma fram í greinargerð varnaraðila sem lúta að því að sérgreining fjármuna feli í sér kröfu um að viðkomandi fjárhæð liggi fyrir í tilgreindum peningaseðlum. Verður í þessu sambandi að líta til þess hvernig fjármunir eru færðir í bókum varnaraðila. Er það því mat dómsins að eins og mál þetta liggur hér fyrir verði að telja að sóknaraðili hafi sýnt nægilega fram á eignarrétt sinn að umræddum fjármunum og eins hafi hann fært að því fullnægjandi líkur að fjármunirnir hljóti að vera sérgreindir í vörslum varnaraðila þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um það atriði.
Ítarlega er gerð grein fyrir málatilbúnaði aðila hér að framan. Verður ekki séð að málsástæður þær og röksemdir sem varnaraðili hefur þar teflt fram og ekki hefur verið fjallað um sérstaklega hér á undan geti breytt þeirri niðurstöðu sem rökstudd er hér næst á undan. Er því þegar af þeim ástæðum sem raktar hafa verið fallist á að hinar umdeildu fjárkröfur sóknaraðila skuli teljast kröfur utan skuldaraðar við slitameðferð varnaraðila, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Að auki gerir sóknaraðili kröfur um skaðabætur sem nemi dráttarvöxtum frá nánar tilgreindum dagsetningum til greiðsludags. Fallist er á með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann hafi orðið fyrir tjóni sem reikna megi út með umræddri aðferð. Verður hér að miða við að tilvísun til dráttarvaxta í kröfu sóknaraðila eigi við um vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtrygging enda til þess lagaákvæðis vísað í kröfulýsingu. Í 1. gr. nefndra laga kemur fram að lögin taki til vaxta af peningakröfum á sviði fjármunaréttar, en hér hefur verið fallist á að sóknaraðili eigi eignarrétt að tilgreindum peningaupphæðum. Verður þegar af þessum ástæðum að hafna kröfu hans um skaðabætur á þessum forsendum, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2013 í máli nr. 17/2013. Eiga hér við sömu sjónarmið um varakröfu sem sóknaraðili setur fram við aðalkröfu sína, enda um að ræða kröfu um fjárhæðir sem nema að sögn sóknaraðila uppreiknuðum dráttarvöxtum frá þeim degi sem greiðslu bar að inna af hendi til 22. apríl 2009, sbr. kröfulýsingar sóknaraðila. Með vísan til þess sem að framan greinir er hafnað framangreindum kröfum sóknaraðila um dráttarvexti eða skaðabætur sem nemi fjárhæð dráttarvaxta.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Viðurkennt er að við slitameðferð varnaraðila, LBI hf., skuli framangreindar kröfur sóknaraðila, Glitnis hf., að fjárhæð 16.114.743 bandaríkjadalir, 26.956 sterlingspund og 20.000 evrur njóta stöðu sem sértökukröfur samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 313.750 krónur í málskostnað.
Öðrum framangreindum kröfum sóknaraðila er hafnað.