Hæstiréttur íslands

Mál nr. 375/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Skiptastjóri


Miðvikudaginn 24. ágúst 2011.

Nr. 375/2011.

Sigurður Kristján Hjaltested

Karl Lárus Hjaltested

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Sigríður Hjaltested og

Markús Ívar Hjaltested

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur

Þorsteini Hjaltested

Vilborgu Björk Hjaltested

Marteini Þ. Hjaltested og

Sigurði Kristjáni Hjaltested

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Skiptastjóri.

S lést árið 1966 og skipti á dánarbúi hans hófust árið 1967. Í málinu deildu erfingjar S um það hvort opinberum skiptum á dánarbúi S hafi verið lokið með lögformlegum hætti. Erfingjarnir SKH, KLH, SH og MÍH kröfðust þess að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi S, sem lést árið 1966. Í héraði var kröfu sóknaraðila hafnað með vísan til þess að þeim hefði ekki tekist sönnun um það að skiptum á dánarbúi S væri ólokið. Hæstiréttur féllst hins vegar á með sóknaraðilum að ekki hefði verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúi S, sem hófust árið 1967, hefði verið lokið með formlegum hætti svo sem skylt var að lögum. Var krafa um skipun skiptastjóra til að ljúka skiptum því tekin til greina. Var það ekki talið hafa þýðingu í þessu sambandi þótt jörðin V væri ekki lengur meðal eigna búsins, en elsta syni S var afhent jörðin á skiptafundi árið 1968.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjaness 8. júní 2011 en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að skipaður yrði skiptastjóri til þess að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested sem lést 13. nóvember 1966. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum á dánarbúinu. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Fallist verður á með sóknaraðilum að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested, sem hófust í skiptarétti Kópavogs 25. nóvember 1967, hafi verið lokið með formlegum hætti svo sem skylt var að lögum. Leiðir þetta til þess að taka ber kröfu þeirra um skipun skiptastjóra til að ljúka skiptunum til greina. Skiptir í því efni ekki máli þótt fyrir liggi að jörðin Vatnsendi er ekki lengur meðal eigna búsins, þar sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, elsta syni Sigurðar Kristjáns Hjaltested, var afhent jörðin á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar 7. maí 1968 svo sem fram kemur og staðfest er í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969, sem birtur er á blaðsíðu 780 í dómasafni réttarins það ár.

Samkvæmt þessu verður krafa sóknaraðila tekin til greina en rétt þykir að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Lagt er fyrir Héraðsdóm Reykjaness að skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested sem andaðist 13. nóvember 1966.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2011.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness með beiðni móttekinni 8. febrúar 2011 um skipun á nýjum skiptastjóra til þess að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested sem lést 13. nóvember 1966 síðast til heimilis á Vatnsenda í Kópavogi.

Varnaraðilar  krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og þeim verði in solidum gert að greiða varnaraðilum málskostnað að skaðlausu.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested fæddur 11. júní 1916 og búsettur að Vatnsenda í Kópavogi þegar hann lést árið 1966, en þá jörð hafði hann eignast samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 eftir að sá síðarnefndi lést 31. október 1940. Til arfs eftir Sigurð stóðu eftirlifandi maki hans, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, tveir synir þeirra, sóknaraðilarnir Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, fæddir 1962 og 1963, og þrjú börn Sigurðar af fyrri hjúskap, Magnús Hjaltested, fæddur 1941, Markús Ívar Hjaltested, fæddur 1944, og sóknaraðilinn Sigríður Hjaltested, fædd 1951. Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested mun hafa látist á árinu 2004, en Magnús Hjaltested 1999. Eftirlifandi maki Magnúsar er varnaraðilinn Kristrún Ólöf Jónsdóttir og eru aðrir varnaraðilar börn þeirra.

Fyrir liggur í málinu að aðgerðir við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hófust fyrir skiptarétti Kópavogs 25. febrúar 1967 eftir fyrirmælum þágildandi laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum, félagsbúum o.fl.

Ráða má af gögnum málsins um framvindu þeirra opinberu skipta allt til miðs árs 1969 að í tengslum við þau hafi meðal annars verið rekin nokkur ágreiningsmál fyrir dómstólum, einkum að því er varðaði jörðina Vatnsenda. Á grundvelli dóma Hæstaréttar í tveimur af þeim málum, annars vegar frá 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og hins vegar frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, skyldi jörðin koma í hlut Magnúsar Hjaltested við skiptin, en samkvæmt framlögðu veðbókarvottorði frá árinu 1976 var hann á þeim tíma þinglýstur eigandi hennar á grundvelli heimildarbréfs frá 30. maí 1969.

Sóknaraðilar lögðu 23. desember 2008 beiðni fyrir Héraðsdóm Reykjaness um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta, en til þeirrar kröfu var tekin afstaða með úrskurði. Þessum úrskurði var skotið til Hæstaréttar. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila var þessi krafa reist á því að nánar tilgreindar athuganir þeirra hafi „ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta en jafnframt að skiptum hafi ekki lokið.“ Segir Hæstiréttur í niðurstöðu sinni í dómi nr. 599/2009.  ,,Án tillits til þess hvort þessi ályktun sóknaraðila geti talist á rökum reist er óhjákvæmilegt að gæta að því að sé rétt með farið að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi aldrei verið lokið leiðir af sjálfu að þau stæðu enn yfir, sbr. og 148. gr. laga nr. 20/1991. Við svo búið væri útilokað að taka dánarbúið með dómsúrlausn aftur til opinberra skipta. Þegar af þeirri ástæðu var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

II.

Málsástæður og lýsing sóknaraðila á málsatvikum:

Beiðni sú sem nú er tekist á um er að sögn sóknaraðila sett fram í framhaldi af lyktum hæstaréttarmálsins nr. 599/2009 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 13. nóvember 2009. Í því máli telja þeir að kröfu sóknaraðila um að taka dánarbúið til opinberra skipta hafi verið hafnað á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir annað en að skipti stæðu enn yfir. Þar er vísað til þess að skipaður skiptaráðandi, Unnsteinn Beck hrl. hafi annast skipti á búinu sem skipaður setu skiptaráðandi. Fyrir liggur að engin gögn sanna að skiptum hafi lokið, Unnsteinn Beck hrl er látinn (lést 29. ágúst, 2004) og því er nauðsynlegt fyrir sóknaraðila að fá skipaðan skiptastjóra til að ljúka skiptum á dánarbúinu. Við rökum Hæstaréttar eru sóknaraðilar að bregðast og setja því fram dómkröfuna í þeirri mynd sem að framan greinir.

Eftir uppsögu hæstaréttardómsins hafa sóknaraðilar aflað margra gagna og staðfestinga um hugsanleg skiptalok í dánarbúi Sigurðar K. Hjaltested, sem tóku langan tíma, en ekkert hefur komið fram um að skiptum hafi lokið, þrátt fyrir verulega vinnu við gagnaleit.

Sóknaraðilar sendu erindi til dómsmálaráðuneytisins þann 14. janúar s.l. ( fylgiskjal 3) um að staðfesta hvort og þá hvernig skiptalok urðu við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested. Svar ráðuneytisins er dagsett 13. maí 2010  (fylgiskjal 4) á þá leið að engin gögn eru í ráðuneytinu um skiptalok í einstökum dánarbúum og telur ráðuneytið sér ekki heimilt að staðfesta neitt varðandi hugsanleg skiptalok dánarbúsins.

Þá óskuðu sóknaraðilarnir Karl og Sigurður eftir upplýsingum frá Þjóðskjalasafni Íslands um gögn dánarbúa og fyrirkomulag dánarbússkipta. Tvö svarbréf eru, annars vegar 12. febrúar 2008 ( fylgiskjal 5) og bréf dagsett 1. júní 2010 ( fylgiskjal 6) og er ítarlegt um þær skiptaskýrslur, skiptabækur og erfðafjárskýrslur frá Reykjavík og Kópavogi sem flett var upp fyrir árin 1967 til 1970 og öskjur frá dómsmálaráðuneytinu yfir tímabilið 1968-1979.

Niðurstaða Þjóðskjalasafnsins er að „Ítarlegar athuganir hafa því ekki leitt í ljós skjöl er sýna að skiptum vegna dánarbús Sigurðar Hjaltested sé lokið“

Sóknaraðilar hafa um langan tíma leitað upplýsinga um skipti á dánarbúi föður þeirra í því skyni að fá staðfestingu á því hvaða eignum var skipt og hvernig skiptin fóru fram. Þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni og fyrirspurnir hjá sýslumönnum í Kópavogi, og Reykjavík og Þjóðskjalasafninu samkvæmt  framansögðu hefur viðleitni þeirra ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta en jafnframt að skiptum hafi ekki lokið.

Ekki þykir ástæða til þess að rekja bollaleggingar sóknaraðila um efnisniðurstöður í deilum málsaðila sem rekin hafa verið fyrir dómstólum.

Sóknaraðilar telja að ekki eigi að byggja á líkindum um skiptalok og að öll fyrirliggjandi gögn leiði til sömu niðurstöðu að skiptum hafi ekki lokið undir stjórn Unnsteins Beck hrl.

III.

Um málavexti vísa varnaraðilar til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 599/2009 sem kveðinn var upp þann 13. nóvember 2009 og úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 29. september 2009 sem var staðfestur með greindum dómi Hæstaréttar.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Í beiðni sóknaraðila frá 3. febrúar 2011, tjá þeir hana setta fram sem viðbrögð við tilvitnuðum dómi Hæstaréttar. Segja þeir að með dómnum hafi kröfu þeirra um að taka dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til opinberra skipta verið hafnað á þeirri forsendu að ekki lægi annað fyrir en að skipti stæðu enn yfir. Hér fari sóknaraðilar ekki rétt með því svo sem skýrt kemur fram í næst síðustu málsgrein tilvitnaðs dóms Hæstaréttar var krafa  þeirra sjálfra á því reist að nánar tilgreindar eigin athuganir þeirra hafi „ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta en jafnframt að skiptum hafi ekki lokið“  Hæstiréttur segir síðan: „Án tillits til þess hvort þessi ályktun sóknaraðila geti talist á rökum reist er óhjákvæmilegt að gæta að því að sé rétt með farið að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi aldrei verið lokið leiðir af sjálfu sér að þau stæðu enn yfir, sbr. og 148. gr. laga nr. 20/1991. Við svo búið væri útilokað að taka dánarbúið með dómsúrlausn aftur til opinberra skipta. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.“

Í forsendum úrskurðar héraðsdóms var fallist á með varnaraðilum að líkur stæðu til að  skiptum hefði lokið fyrir löngu.  

Dómkröfur sóknaraðila nú lúta að því að skipaður verði „nýr skiptastjóri“ og vísa þeir í því sambandi til  4. mgr. 46. gr. skiptalaga um andlát skiptastjóra og að Unnsteinn Beck hafi látist á árinu 2004. Enn er réttu máli hallað því dánarbúið var aldrei undir stjórn skiptastjóra. Unnsteinn Beck hrl. stýrði búinu sem dómari skv. þágildandi réttarskipan. Honum var veitt lausn frá embætti 1. desember 1979 og hóf hann þá rekstur málflutningsskrifstofu í Reykjavík.

Í 148. gr. skiptalaga greinir hvernig búum sem stýrt var af dómurum við réttarfarsbreytinguna 1. júlí 1992 skyldi komið undir stjórn skiptastjóra. Málatilbúnaður sóknaraðila fær ekki staðist í ljósi þeirra fyrirmæla, sbr. vísan Hæstaréttar til ákvæða greinarinnar og þess að sóknaraðilum tjói hvorki að rangfæra eða snúa út úr forsendum Hæstaréttar né að rangfæra staðreyndir um stöðu  skiptaráðanda skv. eldri réttarskipan.  

Skiptum hafi í reynd löngu verið lokið við réttarfarsbreytinguna svo sem fyrr greinir.

IV.

Dómarinn er þeirrar skoðunar að ekki verði lesið út úr forsendum dóms Hæstaréttar nr. 599/2009, eins og sóknaraðilar gera, að byggt sé á því að kröfu sóknaraðila um að taka dánarbúið til opinberra skipta hafi verið hafnað og á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir annað en að skipti stæðu enn yfir. Rétturinn segi aftur á móti að málatilbúnaður sóknaraðila sé með þeim hætti að byggt sé á því að búið hafi verið tekið til opinberra skipta og að skiptum hafi ekki lokið og því verði án tillits til þess hvort þessi ályktun sóknaraðila sé á rökum reist sé óhjákvæmilegt að gæta að því að sé rétt farið með að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi aldrei verið lokið leiði af sjálfu sé að þau stæðu enn yfir. Af þessum sökum væri útilokað að taka dánarbúið til opinberra skipta með dómsúrlausn. Hér slær Hæstiréttur engu föstu um það að skiptum búsins hafi verið ólokið á þeim tíma.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 29. september 2009 sem vitnað er til segir í forsendum dómara ,,verður talið að eignaskipti hafi farið fram á dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested á árunum 1967 og 1968.“

Þá verða ákvæði 1. mgr. 148. gr. laga nr. 20/1991 ekki skilin á annan veg að þau bú sem voru til opinberra skipta þann 1. júní 1992 og ekki þótti víst að skiptum yrði lokið fyrir gildistöku laganna þá hafi skiptaráðanda sem fór með skiptin verið skylt að boða til skiptafundar fyrir 1. júní 1992 til þess að taka ákvörðun um framhald skiptanna. Hlýtur sönnun fyrir því að eftir þessu hafi verið farið að falla í skaut sóknaraðila í þessu máli. Sama má segja um stöðu sóknaraðila gagnvart ákvæðum 3. mgr. 148. gr. laga 20/1991.

Sóknaraðilar hafa lagt mikla áherslu á að þeim hafi ekki tekist að fá fram nein gögn er sýni með formlegum hætti að skiptum hins umþrætta bús sé lokið og þar af leiðandi hljóti þeim að vera ólokið. Að mati dómsins duga þessar röksemdir ekki gegn þeim röksemdum sem að ofan greinir fyrir því að skiptunum hljóti að vera lokið þó ekki sé dregið í efa að sóknaraðilar hafi lagt sig alla fram í þeirri viðleitni sinni að sannreyna formleg skiptalok. Þá verður ekki framhjá því litið án þess að tínd séu til sérstök atvik að gögn málsins benda til að farið hafi verið með eignir, sem tilheyrðu búinu, eins og td. við þinglýsingu og sölu Þorsteins Hjaltested, barnabarns Sigurðar Kristjáns Hjaltested til Kópavogsbæjar á hluta lands sem var eigu búsins, eins og skiptum væri lokið.

Verður því að telja að sóknaraðilum hafi ekki tekist að leiða í ljós að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested sé enn ólokið.

Að þessu virtu verður ekki fallsit á kröfur sóknaraðila í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu verða sóknaraðilar úrskurðaðir til þess að greiða varnaraðilum málskostnað in solidum, sem þykir hæfilega ákveðinn 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigurðar Kristjáns Hjaltested, Karls Lárusar Hjaltested, Sigríðar Hjaltested og Markúsar Ívars Hjaltested, um að skipaður verði nýr skiptastjóri til þess að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested sem lést 13. nóvember 1966.

Sóknaraðilar greiði in solidum varnaraðilum, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, Þorsteini Hjaltested, Vilborgu Hjaltested, Marteini Hjaltested og Sigurði K. Hjaltested, 376.500 krónur í málskostnað.