Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2003
Lykilorð
- Landamerki
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2003. |
|
Nr. 271/2003. |
Ólafur Sigurgeir Hólm Guðbjartsson (Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Birni Björnssyni (enginn) |
Landamerki. Skriflegur málflutningur.
B og Ó, sem áttu samliggjandi landareignir, deildu um nánar afmarkaða spildu á mörkum eignanna. Á grundvelli framlagðra gagna þótti sýnt að fyrri eigandi landareignar Ó hafði skilið spilduna frá eign sinni með sölu til fyrri eiganda landareignar B. Var því viðurkennt að hið umþrætta landsvæði tilheyrði B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2003. Hann krefst þess, að viðurkennt verði með dómi að hann sé eigandi að 869 fermetra landspildu á mörkum jarðar áfrýjanda, Sjávarhóla, og aðliggjandi landspildu stefnda, og skuli spilda þessi afmarkast af línum sem dregnar séu milli hnitapunkta, sem getið er í dómsorði héraðsdóms. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Reykjavíkurborg til réttargæslu í málinu.
Málið hefur verið flutt skriflega samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að fallist verður á kröfu áfrýjanda um að honum verði ekki gert að greiða réttargæslustefnda málskostnað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að málskostnaður fellur niður milli áfrýjanda, Ólafs Sigurgeirs Hólm Guðbjartssonar, og réttargæslustefnda, Reykjavíkurborgar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 14. f.m. er höfðað með stefnu útgefinni 28. ágúst 2002 og var málið þingfest þann 3. september 2002.
Stefnandi málsins er Björn Björnsson, kt. 260148-3039, Horni, Kjalarnesi, Reykjavík.
Stefndi er Ólafur Sigurgeir Hólm Guðbjartsson, Sjávarhólum, Kjalarnesi, Reykjavík.
Þá hefur borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, kt. 311254-4809 fyrir hönd Reykjavíkurborgar, verið stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi, að landsvæði á mörkum jarða málsaðila, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
Punktur/hnit X Y
009) 684 591.790 419 462.907
007) 684 587.478 419 441.457
221) 683 725.909 418 623.833
222) 683 746.368 418 578.210
og er 869 ferm. að stærð sé eign stefnanda.
Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær, að kröfu stefnanda verði hafnað, og að umrædd spilda verði viðurkennd eign stefnda.
Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Á hendur réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur í máli þessu að öðru leyti en að réttargæslustefndi krefst málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Málavextir:
Með kaupsamningi dagsettum 11. október 1968 seldi Haraldur Jósefsson, Sjávarhólum, Kjalarnesi, Birni R. Einarssyni tvær lóðarspildur úr landi Sjávarhóla á Kjalarnesi. Í samningnum er hinu selda lýst svo: „Hið selda er tvær lóðarspildur, sem merktar eru nr. 3 og 3 a og strikaðar með rauðu á viðfestum uppdrætti gerðum af Pétri Hjálmssyni í mælikvarðanum 1:2000 í júlí-september 1968 og er uppdrátturinn áritaður merkinu a. Stærri spildan er norðan við þjóðveginn og ca. 6 hektarar að stærð. Um hana eru grafnir tveir skurðir langs með þjóðveginum og tveir skurðir, sem stefna þvert á þjóðveginn. Minni spildan er sunnan þjóðvegarins ca. 0,93 hektarar að stærð og meðfram henni að austan er skurður.”
Kaupsamningi þessum ásamt uppdrættinum og afsali dagsettu 28. nóvember 1968 var þinglýst þann 6. desember 1968 og merkt Litra T6 nr. 362.
Með makaskiptasamningi dagsettum 13. febrúar 1985 eignaðist stefnandi máls þessa „spildu nr. 1 úr Sjávarhólalandi, sem nú er þinglýst eign Björns R. Einarssonar, en á henni stendur húsið Horn, sem er eign Björns Björnssonar. Spilda Björns R. Einarssonar ca. 0,93 ha., sem liggur sunnan gamla þjóðvegarins, fylgir ekki í skiptunum.”
Makaskiptasamningi þessum var þinglýst þann 10. apríl 1985 og merktur sem skjal 4291/1985, hjá sýslumanninum í Gullbringu og Kjósarsýslu.
Óumdeilt er, að spilda þessi, sem stefnandi eignaðist í þessum skiptum er sú, sem á uppdrætti Péturs Hjálmssonar er merkt nr. 3 og á uppdrætti Þorgeirs Guðmundssonar er merkt nr. 1.
Eftir því, sem segir í stefnu, var árið 1987 skipt úr landi Sjávarhóla spildu ca. 6 ha. sem Helgi Haraldsson eignaðist. Var Þorgeir Guðmundsson, verkfræðingur, þáverandi byggingarfulltrúi á Kjalarnesi, fenginn til þess að gera uppdrátt af þessu landi. Samkvæmt uppdrætti hans, sem dagsettur er 18. nóvember 1987, liggur umrædd spilda, sem auðkennd er með nr. 1a, samsíða spildu nr. 1 í eigu stefnanda. Í eignarskiptasamningi eigenda Sjávarhóla, dags. 23. nóvember 1987, segir, að jörðin sé í óskiptri sameign þar greindra eigenda „að frátaldri 6 hektara spildu sem merkt er 1A og strikuð er með rauðu á viðfestum uppdrætti Þorgeirs Guðmundssonar, dags. 18. nóvember 1987, sem skal vera séreign Helga.”
Eignarskiptasamningur þessi ásamt viðfestum uppdrætti Þorgeirs Guðmundssonar var afhentur til þinglýsingar 22. janúar 1988 og innfærður og merktur nr. 561/1988 þann 25. janúar 1988.
Með uppboðsafsali dagsettu 6. júní 1996, var Landsbanka Íslands afsalað fasteigninni Smábýli 1A, 6 hektara spildu úr Sjávarhólum, þinglýstri eign Helga Haraldssonar, „með öllum sama rétti og fyrri eigandi átti.”
Með afsali dagsettu 3. júlí 1966 (á augljóslega að vera 1996), afsalar Landsbanki Íslands stefnda Ólafi Guðbjartssyni, fasteigninni Smábýli 1A 6 hektara spildu úr Sjávarhólum, Kjalarnesi. Í afsalinu segir: „Eigninni er afsalað kvaða og veðbandalausri og að öðru leyti í því ástandi sem eignin var í þegar Landsbanki Íslands eignaðist hana á nauðungarsölu þann 15. apríl sl. sem afsalshafi hefur kynnt sér og sættir sig við að öllu leyti.”
Þorgeir Guðmundsson, verkfræðingur, fyrrum byggingafulltrúi á Kjalarnesi, kom fyrir dóm og sagði, að hann hefði við gerð uppdráttarins 1987 farið eftir skurðum og girðingum um landið og stuðst við frásögn landeiganda um merki á milli landspildnanna. Hann minntist þess ekki að hafa séð uppdrátt Péturs Hjálmssonar af landinu.
Upp hefur komið ágreiningur milli málsaðila, hvort landskiki sá, sem afmarkast af þeim hnitum, sem tilgreind eru í stefnu tilheyri stefnda eða stefnanda.
Stefnandi hefur haldið því fram, að samkvæmt eignarheimild hans, sé hin umdeilda landsspilda innan þeirra landamerkja hans, en stefndi hefur vísað til uppdráttar Þorgeirs Guðmundssonar og talið að samkvæmt honum tilheyrði skikinn honum.
Fram hefur verið lagður í málinu uppdráttur Þorgeirs Guðmundssonar, þar sem hann setur inn mismun á ofangreindum tveimur uppdráttum, og setur inn á uppdráttinn hnit fyrir þann skika, sem ber á milli uppdrátta Péturs Hjálmssonar frá 1968 og Þorgeirs Guðmundssonar frá 1987.
Málsástæður stefnanda:
Kröfu sína um viðurkenningardóm byggir stefnandi á því, að hann hafi öðlast eignarrétt sinn á hinu umdeilda landssvæði í makaskiptum við Björn R. Einarsson, sem keypt hafði það af Haraldi Jósefssyni eiganda Sjávarhóla árið 1985. Í kaupsamningi þeirra Haraldar og Björns R. Einarssonar, sé vísað um mörk hins selda lands til uppdráttar Péturs Hjálmssonar, sem var svo þinglýst, sem hluta af kaupsamningnum.
Þegar skipt var úr Sjávarhólalandi spildu þeirri sem hefur sameiginleg mörk við land stefnanda hafi Þorgeiri Guðmundssyni orðið á mistök og dregið mörkin þannig, að eiganda Sjávarhóla hafi verið eignað land, sem áður hafði verið selt Birni R. Einarssyni, en hann síðan stefnanda. Hafi hvorki Helgi Haraldsson né aðrir, sem öðlast hafi spilduna frá honum getað byggt rétt á þessari skiptingu landsins, enda landið annars manns eign.
Stefnandi byggir á því, að sannað sé með þinglýstum gögnum, að Björn R. Einarsson, hafi eignast hið umdeilda land með kaupsamningi um lóðarspildur úr Sjávarhólalandi, eins og þeim er þar lýst og samkvæmt uppdrætti, sem fylgdi kaupsamningnum og þinglýst var með honum þann 6. desember 1968, en stefndi síðan eignast það frá Birni R. Einarssyni með öllum sömu réttindum og hann átti.
Stefnandi byggir kröfu sýna á þeirri grundvallarreglu eignarréttar, að sá sem kaupir land og fær því afsalað, teljist eigandi þess og að fyrri eiganda eða öðrum sé óheimilt að ráðstafa því, enda bresti hann eignarheimild til þess.
Málsástæður stefnda:
Stefndi, sem nú á jörðina Sjávarhóla og þar á meðal spildu þá, sem nefnd er á uppdrætti 1A, hefur nú sameinað hana jörðinni að nýju, eftir að hann eignaðist hvorttveggja, jörðina og spilduna.
Stefndi byggir á því, að stefnandi leiði rétt sinn frá afsali 1968 , en þar sé landi hans lýst sem spildu, sem sé norðan við þjóðveginn og er ca. 6 hektarar að stærð. Um hana séu grafnir tveir skurðir langs með þjóðveginum og tveir skurðir sem stefni þvert á þjóðveginn. Samkvæmt þessu eigi stefnandi land, sem afmarkað sé af tveimur skurðum í norðurstefnu frá gamla þjóðvegi, en þrætulandið sé vestan við vestari skurðinn. Landstærðin sé ca. 6 hektarar. Á dskj. nr. 19, fasteignabók sýslumanns, sé land stefnanda sagt 6 hektarar. Á teikningum á dskj. nr. 17 og 20 sé landið sagt 60193 fm. sem sé sama stærð og fram komi á matsvottorði Fasteignamats ríkisins. Þrætulandið sé 869 fermetrar og ekki liggi fyrir gögn um að stefnandi hafi greitt fasteignagjöld fyrir stærra land. Sömuleiðis liggi ekki fyrir gögn um að land stefnanda hafi nokkurn tíma verið 61.062 ferm. Verði að leggja sönnunarbyrði um þetta á stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn með heimildarskjölum fyrir spildunni, og hljóti spildan því að vera eign stefnda, sem eigi sjálfa jörðina.
Niðurstaða:
Ekki er ágreiningur um það í málinu, að land það, sem um er deilt í máli þessu afmarkast af línum á milli hnita þeirra, sem tilgreind eru í dómkröfu stefnanda.
Á árinu 1968, þegar þáverandi eigandi Sjávarhóla, Haraldur Jósefsson, seldi Birni R. Einarssyni, spildur úr landi jarðarinnar, var um þau kaup gerður kaupsamningur. Í kaupsamningi þessum er hinu selda lýst svo að um væri að ræða „tvær lóðarspildur, sem merktar eru nr. 3 og 3 a og strikaðar með rauðu á viðfestum uppdrætti gerðum af Pétri Hjálmssyni í mælikvarðanum 1:2000 í júlí-sept. 1968 og er uppdrátturinn áritaður markinu A. Stærri spildan er norðan við þjóðveginn og ca. 6 hektarar að stærð. Um hana eru grafnir tveir skurðir langs með þjóðveginum og tveir skurðir, sem stefna þvert á þjóðveginn.” Kaupsamningi þessum ásamt uppdrætti var þinglýst og hafa verið lögð fram staðfest ljósrit þessara skjala í málinu.
Það er niðurstaða hinna sérfróðu meðdómenda, að ekki leiki vafi á, að eftir lýsingu í kaupsamningi og uppdrætti þessum og með hliðsjón af loftmyndum, sem lagðar hafa verið fram í málinu, sé hið umþrætta land innan marka þeirrar spildu, sem seld var Birni R. Einarssyni.
Stefnandi keypti þessa stærri spildu af Birni R. Einarssyni og rekur eignarhald sitt til makaskiptasamningsdags. 13. febrúar 1985.
Með því, að réttur eigandi jarðarinnar Sjávarhóla seldi sannanlega landspildu þessa frá jörðinni með þeim mörkum, sem lýst er í ofangreindum kaupsamningi og sýnd eru á uppdrættinum, geta síðari eigendur jarðarinnar ekki ráðstafað þessari eign, eða gert tilkall til hennar eftir gögnum sem síðar eru til komin en þær heimildir, sem stefnandi rekur rétt sinn til.
Hafa þá mörk þau, sem sýnd eru á uppdrætti þeim, sem fylgdi eignarskiptasamningi sameigenda jarðarinnar frá 1987 enga þýðingu að þessu leyti.
Ber samkvæmt þessu að taka til greina dómkröfu stefnanda og viðurkenna með dómi, að landssvæði, sem afmarkast af hnitum þeim, sem greind eru í dómkröfum hans, sé eign stefnanda, Björns Björnssonar.
Stefndi greiði stefnanda, Birni Björnssyni, kr. 210.000 í málskostnað.
Stefndi greiði réttargæslustefnda, Reykjavíkurborg, kr. 60.000 í málskostnað.
Dóm þennan kveða upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, ásamt meðdómendunum, Ragnari Ingimarssyni, verkfræðingi, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi.
Dómsorð:
Viðurkennt er að landssvæði á mörkum Sjávarhóla og Horns á Kjalarnesi, sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
Punktur/hnit X Y
009) 684 591.790 419 462.907
007) 684 587.478 419 441.457
221) 683 725.909 418 623.833
222) 683 746.368 418 578.210
og er 869 ferm. að stærð sé eign stefnanda, Börns Björnssonar.
Stefndi, Ólafur Sigurgeir Hólm Guðbjartsson, greiði stefnanda Birni Björnssyni, kr. 210.000 í málskostnað.
Stefndi greiði réttargæslustefnda, Reykjavíkurborg, kr. 60.000 í málskostnað.