Hæstiréttur íslands

Mál nr. 428/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Mánudaginn 5. júlí 2010.

Nr. 428/2010.

A

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

gegn

B

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu 16. júní 2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þóknun skipaðs verjanda hans greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2010.

                Með beiðni, dagsettri 27. þ.m. hefur A, kt. [...],[...], farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, 16. þ.m., um það að hann skuli vistast nauðugur á sjúkrahúsi, en sóknaraðili var færður nauðugur á sjúkrahús 16. þ.m. Ákvörðun ráðuneytisins var byggð á vottorði Birnu G. Þórðardóttur geðlæknis, þar sem segir að sóknaraðili sé haldinn aðsóknargeðsjúkdómi. Hafi hann verið greinilegar ranghugmyndir þegar hann var lagður inn og ekki virst gera mun á veruleika og ímyndun. Þá segir þar ennfremur að hann geti hugsanlega verið hættulegur sjálfum sér. Hann hafi greinst með ranghugmyndir árið 2001. Hafi hann m.a. rifið úr sér tennur þar sem hann áleit að hlerunarbúnaður væri í þeim.

                Tóma Zoëga geðlæknir, sem stundað hefur sóknaraðila eftir að hann var lagður inn 16. þ.m., hefur komið fyrir dóm. Hann kveðst þekkja til sjúkdóms sóknaraðila í stórum dráttum frá fyrri tíð. Sóknaraðili fá slæmar aðsóknarranghugmyndir og telji menn ofsækja sig, eitra fyrir sér og annað slíkt. Þá hafi hann dregið úr sér tvær tennur fyrir nokkrum árum með naglbít, þar sem hann áleit vera hlerunarbúnaði í þeim. Þegar hann hafi komið inn á deildina hafi hann haldið sig afsíðis og setið í trúarstellingu á gólfinu. Hann hafi verið viðskotaillur með köflum, hrækt á hjúkrunarfræðing og hent matarbökkum í gólfið. Hafi verið nauðsynlegt að sprauta hann, nauðugan í fyrstu, með geðlyfi þar sem hann hafi ekki fengist til þess að taka töflur. Síðustu 4 – 5 dagana hafi heilsa hans batnað að mun og hafi hann meira innsæi í veikindi sín en fyrr. Sé þó rétt að hann dveljist enn í nokkra daga á spítalanum svo hægt sé að halda áfram meðferð meðan á vistunartímanum stendur. Aðspurður segir hann það ekki útilokað að sóknaraðili gæti séð um sig sjálfur ef hann færi nú af sjúkrahúsinu en það sé ekki líklegt.

                Af því sem rakið hefur verið er ljóst að sóknaraðili er haldinn alvarlegur geðsjúkdómi og geðlæknir álítur rétt að vista hann nauðugan á sjúkrahúsi svo hann fái nauðsynlega meðferð við sjúkdóminum. Ber því að ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.

                Málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanna aðilanna, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. og Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., 65.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, 16. júní 2010, um það að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistast á sjúkrahúsi.

                Þóknun til talsmanna aðilanna, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. og Huldu Rúriksdóttur hrl., 65.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.