Hæstiréttur íslands
Mál nr. 85/2000
Lykilorð
- Húsbrot
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 18. maí 2000. |
|
Nr. 85/2000. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Gunnari Ólafi Gunnarssyni og (Guðni Á. Haraldsson hrl.) Jóni Bjarna Jónssyni(Magnús Thoroddsen hrl.) |
Húsbrot. Líkamsárás.
G og J voru sakfelldir fyrir brot gegn 231. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að ryðjast í heimildarleysi inn í sumarhús og ráðast þar að húsráðanda. Niðurstaða héraðsdóms um fangelsisrefsingu G og J og skilorðsbindingu hluta hennar var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærðu krefjast þess aðallega að ákvörðun refsingar verði frestað, en til vara að refsing verði milduð og að öllu leyti skilorðsbundin.
Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa aðfaranótt 20. júní 1999 ruðst í heimildarleysi inn í sumarbústað við Laugarvatn og ráðist þar á húsráðandann og veitt honum áverka, eins og nánar er lýst í ákæru. Eru málavextir ítarlega raktir í héraðsdómi. Lýtur áfrýjun ákærðu eingöngu að ákvörðun refsingar fyrir þá háttsemi, sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraðsdómi.
Aðför ákærðu var ruddaleg og tilefnislaus. Verður við ákvörðun refsingar meðal annars litið til þess að brotin voru framin af tveim mönnum saman og að beitt var ofbeldi, sem ákærðu létu ekki af fyrr en húsráðanda barst hjálp úr nærliggjandi sumarbústað. Er ljóst að ákærði Gunnar hafði sig meira í frammi við aðförina en ákærði Jón Bjarni. Sá fyrrnefndi hefur hins vegar greitt þeim, sem ráðist var á, skaðabætur og með því sýnt vilja til að bæta fyrir brot sín. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærðu og að skilorðsbinda skuli hluta hennar. Verða ákvæði hans um sakarkostnað og málsvarnarlaun jafnframt staðfest, en ákærðu skulu greiða kostnað af áfrýjun málsins eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði Gunnar Ólafur Gunnarsson greiði málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur og ákærði Jón Bjarni Jónsson greiði málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Magnúsar Thoroddsen hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur. Annan kostnað af áfrýjun málsins greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. janúar 2000.
I.
Mál þetta, sem þingfest var hinn 14. desember sl., en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 3. þessa mánaðar, er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 12. nóvember sl., gegn Gunnari Ólafi Gunnarssyni, kt. 080573-3919, Melási 3, Garðabæ og Jóni Bjarna Jónssyni, kt. 250772-4409, Einigrund 14, Akranesi. Ákærðu er gefið að sök „húsbrot og líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 20. júní 1999, í sameiningu ruðst í heimildarleysi inn í sumarhús í eigu vélstjóra í Flataskógi við Laugarvatn í Laugardalshreppi, sem hjónin Sigurður Björn Guðmundsson og Kristín Guðmundsdóttir höfðu afnot af, og fyrir að hafa, eftir að inn í húsið kom, ráðist í sameiningu að húsráðanda, Sigurði Birni Guðmundssyni, kt. 270561-7649, slegið hann með krepptum hnefum í andlitið og eftir að Sigurður Björn féll í gólfið, látið högg dynja á honum með þeim afleiðingum að Sigurður Björn fékk glóðarauga á hægra auga, mar í kringum augað sem náði lítillega upp á enni, bólgu fyrir neðan auga og blæðingu undir slímhúð um nánast allt augað.
Telst þetta varða við 231. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 30, 1998 og lög nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Í málinu gerir Hörður F. Harðarson, hdl., f.h. Sigurðar Björns Guðmundssonar, kt. 270561-7649, kröfu um að ákærðu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 307.217.”.
Við flutning málsins krafðist sækjandi þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærða Gunnars Ólafs er þess krafist að ákærði verði einungis dæmdur til vægustu skilorðsbundinnar refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins.
Af hálfu ákærða Jóns Bjarna er þess krafist aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Til vara er þess krafist að ákærði verði einungis dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast leyfa. Þá krefst verjandi ákærða Jóns Bjarna málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins.
Við meðferð málsins greiddi ákærði Gunnar Ólafur framkomna skaðabótakröfu með 100.000 krónum, auk 40.000 króna í lögmannsþóknun. Var um fullnaðargreiðslu að ræða og verður því ekki dæmt um skaðabótakröfuna.
II.
Ákærðu og vitnum ber ekki saman um málavexti að öðru leyti en því að aðfaranótt sunnudagsins 20. júní hittu ákærðu Sigurð Björn Guðmundsson og eiginkonu hans Kristínu Guðmundsdóttur fyrir utan sumarbústað þeirra hjóna, sem þau höfðu í leigu frá Vélstjórafélagi Íslands í Flataskógi við Laugarvatn. Ekki ber þeim saman um hvort komið hafi þá til deilna eða átaka, en Kristín fór fljótlega inn í sumarbústaðinn og Sigurður Björn skömmu síðar. Í framhaldi af því fóru ákærðu inn í sumarbústaðinn þar sem að til átaka kom. Ákærðu og vitnum ber ekki saman um atburðarrás inni í sumarbústaðnum, þ. e. hvort ákærðu hafi ruðst heimildarlaust inn í bústaðinn, þeim báðum verið vísað út og hvort báðir ákærðu eða einungis annar hafi ráðist þar að Sigurði Birni. Ákærðu þekktu ekki þau hjón. Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, undirritaðri af Ingvari Guðmundssyni, lögreglumanni, hringdi Aron Hauksson, sem dvaldi í einum af sumarbústöðum við Laugarvatn, klukkan 05:11, greinda nótt og tilkynnti að annar ákærðu hafi „barið að dyrum hjá sér og krafist inngöngu og heimtað einhver vopn til að ræða betur við Sigurð. Aron kvaðst ekki hafa opnað fyrir kærða en tilkynnt atburðinn til lögreglu”, eins og bókað var í lögregluskýrsluna. Í framhaldi af tilkynningunni, eða klukkan 5:35, kom lögregla á vettvang og handtók ákærða Gunnar Ólaf og færði hann í fangageymslur lögreglunnar á Selfossi, en ákærði Jón Bjarni fékk hins vegar að fara í sitt sumarhús við Laugarvatn.
Ákærði Gunnar Ólafur var yfirheyrður af lögreglu daginn eftir og á næstu dögum vitni, en ákærði Jón Bjarni var ekki yfirheyrður hjá lögreglu fyrr en mánuði síðar. Áðurnefndur Aron gaf hins vegar ekki skýrslu fyrir dómi, en í gögnum málsins er lögregluskýrsla, undirrituð af Jóni Hlöðver Hrafnssyni, rannsóknarlögreglumanni, þar sem áþekk lýsing og áður er rakin úr frumskýrslu lögreglu er höfð eftir Aron eftir samtal lögreglumannsins við Aron í gegnum síma.
Ákærði Gunnar Ólafur kvað þá ákærðu hafa hitt Sigurð Björn og Kristínu, er verið hafi að koma frá hótelinu á Laugarvatni. Þau hafi öll verið undir áhrifum áfengis og tekið tal saman, en nokkru síðar hafi Kristín yfirgefið þá þrjá og farið í sumarhúsið. Skömmu síðar hafi meðákærði og Sigurður Björn lent í átökum. Ákærði Gunnar Ólafur kvaðst hafa reynt að skilja þá að en fengið við það högg á hálsinn. Ákærði Gunnar Ólafur kvaðst því hafa reiðst, ráðist að Sigurði Birni og veitt honum áverka. Síðar hafi Sigurður Björn farið inn í sumarhús sitt, en þeir ákærðu fylgt í kjölfarið. Viðurkenndi ákærði Gunnar Ólafur að hafa ruðst í heimildarleysi inn í sumarhúsið, ráðist þar að Sigurði Birni og slegið hann tvisvar sinnum í andlitið. Við það hafi þeir Sigurður Björn fallið í gólfið og þá hafi stympingar orðið á milli þeirra, þ. e. „ég hélt í hann og hann í mig”, eins og ákærði komst að orði. Hins vegar kvaðst ákærði Gunnar Ólafur ekki minnast þess að meðákærði hafi tekið þátt í árásinni, eða stympingunum, heldur hafi meðákærði staðið álengdar. Ákærði Gunnar Ólafur kvað það geta verið að Sigurður Björn hafi fengið þá áverka sem um ræðir í ákæru af sínum völdum. Ákærði Gunnar Ólafur kvaðst hins vegar ekki halda að meðákærði hafi veitt Sigurði Birni þá áverka sem um ræðir, enda hafi átök þeirra fyrir utan sumarhúsið ekki verið þess eðlis. Þrátt fyrir það ítrekaði ákærði Gunnar Ólafur sérstaklega að átökin fyrir utan sumarhúsið hafi verið meiri en í húsinu sjálfu.
Hjá lögreglu var m. a. bókað eftir ákærða Gunnari Ólafi að meðákærða Jóni Bjarna og Sigurði Birni hafi lent saman fyrir utan bústaðinn, en hann skilið þá að. Þeim hafi lent saman á ný fyrir utan sumarbústaðinn og Sigurður Björn og Kristín hafi í óleyfi tekið annan hundinn með sér inn í sumarbústaðinn, meðan ákærði hafi verið að róa meðákærða eftir átök hans við Sigurð Björn. Hafi hann farið að sumarbústað Sigurðar Björns og hitt Sigurð Björn fyrir utan bústaðinn og beðið hann um að sleppa hundinum út úr bústaðnum, en Sigurður Björn þá hótað að limlesta hundinn. Ákærði hafi því gengið framhjá Sigurði Birni, brotið rúðu við inngang að bústaðnum, farið inn og náð í hundinn. Þá hafi Sigurður Björn gengið að sér og átök orðið milli þeirra tveggja.
Þá kom fram að ákærði Gunnar Ólafur er nú í svokölluðum meðferðar- og stuðningsviðtölum hjá sálfræðingi, en hann hefur sótt slíka þjónustu allt frá hausti 1998.
Ákærði Jón Bjarni kvaðst ekki muna vel eftir atvikum. Hann sagði þá ákærðu hafa verið að spjalla við Sigurð Björn og Kristínu fyrir utan sumarhúsið. Öll fjögur hafi þau verið mikið undir áhrifum áfengis. Hann og Sigurður Björn hafi að vísu þrætt eitthvað um bónda nokkurn austur í Jökuldal, sem ákærði Jón Bjarni hafi verið í sveit hjá fyrrum. Þetta hafi verið „fyllerísrugl” og ekki hafi komið til átaka milli þeirra. Eftir að þau hjón hafi farið inn í sumarhúsið hafi þeir ákærðu einnig farið þangað inn í þeim tilgangi að spjalla við húsráðendur. Ákærði Jón Bjarni kvaðst ekki hafa ruðst inn í húsið óboðinn og heldur ekki minnast þess að meðákærði hafi gert það. Kvaðst ákærði ekki muna betur en að húsráðendur hafi boðið þeim ákærðu inn og hann sest í sófa þar inni og spjallað við Sigurð Björn. Ákærði Jón Bjarni kvaðst ekki muna eftir því að þau hjón hafi vísað þeim ákærðu út úr bústaðnum og kvaðst ekki hafa tekið þátt í átökum inni í sumarbústaðnum.
Hjá lögreglu var m. a. bókað eftir ákærða Jóni Bjarna að þeir Sigurður Björn hafi verið að deila um bónda nokkurn fyrir austan. Þá hafi þeir ýtt hvor við öðrum en meðákærði skilið þá að. Þvínæst hafi hann farið í annan bústað þarna í grenndinni og meðákærði komið þangað skömmu síðar og sagt að hann hefði lent í átökum við Sigurð Björn. Í framhaldi af því hafi þeir tveir farið og reynt að ná hundunum úr vörslum Sigurðar Björns sem að sögn meðákærða hafi haft hundana inni í bústað sínum. Hins vegar hafi Sigurður Björn ekki orðið við óskum þeirra um að opna bústaðinn og hafi meðákærði því tryllst og brotið rúðu á sumarbústaðnum. Aðspurður um það hvort hann hafi ráðist á Sigurð Björn í bústað hans, kvaðst hann „ekki muna eftir því að hafa ráðist á hann, kveðst bara hafa lent í smá stympingum við hann”, eins og bókað var í lögregluskýrslu.
Vitnið Sigurður Björn Guðmundsson kvað sig og Kristínu Guðmundsdóttur, eiginkonu sína hafa, eftir að hafa verið í heitum pottum við Laugarvatn, verið að fara í bústað er þau höfðu á leigu er þau hafi hitt ákærðu fyrir utan bústaðinn. Ákærðu hafi verið með hunda meðferðis. Þau hafi spjallað lítillega við ákærðu og meðal annars það borið á góma að elsti sonur þeirra hjóna þeirra sé með ofnæmi fyrir hundum. Ákærðu hafi verið mikið drukknir og töluvert æstir. Vegna þess hafi þau hjónin skömmu síðar farið inn í bústað í því skyni að fara að sofa. Eftir að inn var komið hafi ákærði Gunnar Ólafur bankað á útidyr sumarbústaðarins, en Kristín hafi opnað dyrnar og hafi ákærði Gunnar Ólafur þá ruðst óboðinn inn í bústaðinn með hundana. Hafi ákærði Gunnar Ólafur sagst ætla að sýna fram á að drengurinn væri ekki með ofnæmi fyrir hundum og gert sig líklegan til að fara með hundana inn í herbergi þar sem sváfu þrjú börn þeirra hjóna. Vitnið kvaðst hafa staðið upp úr sófa sem hann sat í, gengið í veg fyrir ákærða Gunnar Ólaf og bannað honum að gera það en þá hafi ákærði skellt sér niður, tekið sig hálstaki, haldið sér í þeim tökum og „lamið” sig. Vitnið kvaðst hafa reynt að verja sig eftir bestu getu og ekki geta lýst átökunum í smáatriðum. Sér hafi fundist sem ákærði Jón Bjarni hafi einnig tekið þátt í árásinni í kjölfar árásar ákærða Gunnars Ólafs, en ekki kvaðst vitnið geta sagt til um hvenær nákvæmlega í atburðarásinni ákærði Jón Bjarni kom inn í húsið. Vitnið kvaðst raunar ekki geta tiltekið nánar um þátt hvors ákærða um sig, en kvaðst telja að hann hafi ekki verið með fullri meðvitund um skeið, auk þess sem hann hafi haft fullt í fangi með að reyna að verjast árásinni. Aðspurður nánar kvað hann jafnvel vera mögulegt að ákærði Jón Bjarni hafi einungis staðið álengdar meðan á árásinni stóð. Þó hafi sér fundist sem báðir ákærðu hafi tekið þátt í árásinni, enda kvaðst hann minnast þess að ákærði Jón Bjarni hafi verið „þarna í þvögunni”, eins og vitnið komst að orði og nefndi að ákærði Jón Bjarni hafi hrint Kristínu til. Kristín hafi hlaupið eftir hjálp og hafi ákærðu verið „dröslað einhvern veginn út”, eins og vitnið komst að orði. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis greint sinn, en þó ekki mikið. Eftir að ákærðu hafi yfirgefið bústaðinn hafi þeir verið með læti fyrir utan og brotið eina rúðu, en annar ákærðu hefði verið blóðugur á fæti. Vitnið kvaðst fullviss um að þau hjón hafi skorað á ákærðu að fara út úr bústaðnum, en þeir ekki hlýtt.
Vitnið Kristín Guðmundsdóttir kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis greint sinn, en ekki mikið. Sagði hún þau hjónin hafa verið á leið í sumarbústaðinn eftir að hafa verið í gufubaði við Laugarvatn er ákærðu hafi kallað til þeirra og komið hlaupandi til þeirra. Ákærðu hafi verið með tvo hunda meðferðis og farið að tala um eiginleika þeirra. Þau hjón hafi gefið sig lítillega á tal við ákærðu, meðal annars klappað hundunum og sagt að sonur þeirra væri með ofnæmi fyrir hundum, en þvínæst farið inn í sumarbústaðinn. Sér hafi í raun ekki litist á ákærðu þar sem ákærði Gunnar Ólafur hafi „verið dálítið illur” og slegið bjórflösku úr hendi sér. Þegar inn var komið hafi hún dregið gardínur fyrir alla glugga, en eigi að síður hafi ákærðu bankað á útidyrnar. Vitnið kvaðst hafa ætlað að segja við þá að þau hjónin væru að fara að sofa er ákærðu báðir hafi ruðst inn í húsið með hundana meðferðis. Hafi annar ákærðu ætlað með hundana í svefnherbergið þar sem þrjú börn þeirra hjóna hafi sofið, þrátt fyrir að vitnið hafi fyrr sagt ákærðu að eitt barnanna væri með ofnæmi. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærðu að yfirgefa bústaðinn og kallað í Sigurð Björn sér til hjálpar og er hann hafi ætlað að standa upp úr sófa hafi báðir ákærðu ráðist á hann, þannig að hann hafi fallið í gólfið. Hafi ákærðu báðir lagst ofan á Sigurð Björn og báðir slegið hann mörg högg með krepptum hnefum, en Sigurður Björn reynt að verjast eftir bestu getu. Vitnið kvaðst hafa reynt að ná ákærða Jóni Bjarna frá Sigurði Birni, en ákærði Jón Bjarni hrint henni harkalega þannig að hún hafi fallið á gólfið. Vitnið kvaðst þá hafa hlaupið út og kallað á hjálp án árangurs og því bankað upp hjá Rannveigu Svanhvíti Þorvarðardóttur, mágkonu sinni, sem sofið hafi í næsta bústað við. Hafi Rannveig Svanhvít komið með sér til baka í bústaðinn. Þá hafi árásin enn staðið yfir. Rannveig Svanhvít hafi skammað ákærðu ákaflega og hafi þá ákærði Jón Bjarni hætt árásinni og farið út úr bústaðnum. Hins vegar hafi þær Rannveig Svanhvít náð að grípa í fætur ákærða Gunnars Ólafs og draga hann af Sigurði Birni og einhvern veginn út úr bústaðnum og læst dyrum. Vitnið kvað börn þeirra hjóna hafi vaknað við árásina og verið dauðhrædd. Vitnið kvað ákærða Gunnar Ólaf hafa síðar brotið rúðu á bústaðnum. Vitnið nefndi að sér hefði fundist óeðlilegt að lögregla skyldi ekki handtaka báða ákærðu, en henni hefði verið órótt að vita um annan þeirra í sumarbústaðahverfinu.
Eftir að hafa skoðað skýrslu þá er hún gaf hjá lögreglu leiðrétti vitnið þann framburð sinn að hún hefði vakið mágkonu sína, en kvað það rétt vera sem fram kemur í lögregluskýrslu að hún hafi sent son sinn til hennar eftir hjálp. Hins vegar ítrekaði vitnið að hún væri þess fullviss að ákærðu báðir hefðu ruðst inn í sumarbústaðinn og ráðist á Sigurð Björn og „lamið á honum báðir”, eins og vitnið komst að orði. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort annar ákærðu hafi haft sig meira í frammi heldur en hinn.
Hjónin þvertóku bæði fyrir að til átaka hafi komið milli Sigurðar Björns og ákærða Jóns Bjarna er þau hittust fyrst fyrir utan bústaðinn.
Vitnið Rannveig Svanhvít Þorvarðardóttir kvaðst hafa vaknað við að Guðmundur Björn, 15 ára gamall sonur Kristínar og Sigurðar Björns, bankaði upp á bústaðinn hjá sér, er var við hlið bústaðar Kristínar og Sigurðar Björns. Hún hafi verið sofandi ásamt tveimur ungum drengjum inni. Hafi Guðmundur Björn sagt: „Þú verður að koma það er verið að drepa hann pabba.”. Vitnið kvaðst hafa flýtt sér á vettvang og ekki einu sinni gefið sér tóm til að setja á sig gleraugu sem hún noti ætíð, en hún sjái frekar illa. Þegar inn var komið hafi vitnið séð báða ákærðu vera „ofan á” Sigurði Birni. Ákærði Gunnar Ólafur hafi legið ofan á Sigurði Birni, en ákærði Jón Bjarni ofan á þeim tveimur. Ekki kvaðst vitnið geta fullyrt með óyggjandi hætti að ákærði Jón Bjarni hafi slegið Sigurð Björn hnefahögg, en hann hafi „haldið utan um þvöguna”, eins og vitnið komst að orði. Sér hafi sýnst sem ákærðu hafi verið að „berja” Sigurð Björn, að minnsta kosti hafi þeir legið á honum „og hendurnar gengið undir”, eins og vitnið komst að orði. Sigurður Björn hafi verið að reyna að losa sig, en Sigurður Björn hafi verið bjargarlítill og sér hafi virst sem hann væri að kafna, hann hafi verið afar rauður í andliti og „augun staðið út úr tóftunum”, eins og vitnið komst að orði. Vitnið kvaðst hafa kippt í hálsmál á skyrtu eða peysu ákærða Jóns Bjarna og öskrað í eyra hans hvort hann ætlaði „að drepa” Sigurð Börn. Ákærða Jóni Bjarna hafi brugðið við og losað nokkuð tökin, en þó ekki sleppt og hafi sér og Kristínu tekist að drösla ákærða Jóni Bjarna út um opnar svaladyrnar á bústaðnum. Ákærði Gunnar Ólafur hafi hins vegar ekki hætt árásinni, en þeim Kristínu hafi þó tekist að drösla honum af Sigurði Birni og út úr bústaðnum, en ákærðu hefðu haft á orði að það væru hundar í bústaðnum. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hunda inni í bústaðnum. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis er atvik gerðust, en hafa þó kvöldið áður drukkið 2-3 bjóra. Kristín hafi ekki verið mikið undir áhrifum áfengis en vitnið kvaðst vita að hún hefði neytt áfengs bjórs fyrr um kvöldið. Kristín hafi grátið ákaflega og margbeðið ákærðu um „að láta Bjössa vera”, eins og vitnið komst að orði. Hins vegar hafi ákærðu virst afar mikið drukknir, ákærði Gunnar Ólafur þó sýnu meira og hafi ákærði Gunnar Ólafur verið með froðu í munnvikunum og sagt einungis „helvítis tussan þín”. Eftir að þeim hafi tekist að koma ákærðu út úr bústaðnum hafi komið að ung stúlka sem líklega hafi þekkt ákærðu, en hún hafi beðið þá um að koma með sér að ósk vitnisins, en þeir hafi ekki farið að ráðum stúlkunnar. Vegna afskipta sinna af ákærðu greint sinn þurfi vitnið að ganga reglulega til sjúkraþjálfara.
Vitnin Ingvar Guðmundsson og Sveinn Ægir Árnason, lögreglumenn, kváðust hafa komið á vettvang eftir atvik. Fram kom hjá þeim að þeir hefðu hitt báða ákærðu við sumarhúsið.
Vitnið Ingvar, sem var sumarafleysingamaður í lögreglunni, kvað sér hafa skilist af vitnum á vettvangi að ákærði Gunnar Ólafur hafi aðallega haft sig í frammi. Ákærðu báðir hafi verið rólegir en verulega ölvaðir og ákærði Jón Bjarni svo ölvaður að erfitt hafi verið að skilja hann. Sama hvað vitnið hefði spurt ákærða Jón Bjarna um hafi hann alltaf verið að tala um að þeir ákærðu væru að leita að tveimur hundum. Sér hafi skilist að ákærði Jón Bjarni hafi sagt að þeir ákærðu hefðu talið að hundarnir hefðu farið inn í bústað þeirra hjóna. Vitnið kvaðst hafa talað við Sigurð Björn, Kristínu og Rannveigu Svanhvíti. Þau tvö fyrstnefndu hafi verið ölvuð, en þó ekki mikið. Hins vegar hafi þau öll verið æst og taugaveikluð og sést hafi áverkar, skrámur og mar, á andliti Sigurðar Björns. Vitnið kvað þau þrjú þó hafa getað gefið nokkuð skýra mynd af atvikum og hann dregið þá ályktun að báðir ákærðu hefðu tekið þátt í árás á Sigurð Björn, en ákærði Gunnar Ólafur hafi haft sig mun meira í frammi í árásinni. Þá hafi ákærði Gunnar Ólafur verið með skurð á hægri fæti og því þurft aðhlynningu. Í framhaldi af þessu hafi lögreglumaðurinn Sveinn Ægir tekið ákvörðun um að handtaka ákærða Gunnar Ólaf.
Vitnið Sveinn Ægir kvað ákærða Gunnar Ólaf hafa verið mjög ölvaðan, lítið klæddan og ekki í skóm, en með áverka á fæti. Ákærði Gunnar Ólafur hafi verið æstur og ruglað. Ákærði Jón Bjarni hafi einnig verið ölvaður og ruglingslegur í tali, en þó hafi hann ekki verið æstur. Sigurður Björn og Kristín hafi einnig verið undir áhrifum áfengis, en ekki líkt því eins mikið og ákærðu. Vitnið kvaðst ekki muna hvort Rannveig Svanhvít hafi verið undir áhrifum áfengis. Sigurður Björn hafi verið með töluverða áverka og bólgur í andliti. Sigurður Björn hafi verið „mjög ringlaður”, en Kristín afar hrædd og hafi það tekið vitnið nokkra stund að róa hana og fá upplýsingar um atvik. Vitnið kvaðst einnig hafa rætt við Rannveigu Svanhvíti, en þó mjög stuttlega. Vitnið kvaðst hafa dregið þá ályktun á vettvangi að báðir ákærðu hafi verið aðilar að líkamsárás á Sigurð Björn, en ákærði Gunnar Ólafur gengið harðar fram. Af þeirri ástæðu og vegna þess að ákærði Gunnar Ólafur hafi verið slasaður, æstur og nánast óviðræðuhæfur vegna ölvunar, svo og vegna þess að þeir lögreglumenn voru einungis tveir á einni bifreið, hafi hann tekið þá ákvörðun að handtaka einungis ákærða Gunnar Ólaf og færa hann á lögreglustöð á Selfoss. Þegar á Selfoss var komið hafi þeir fengið lækni til að athuga áverka ákærða Gunnars Ólafs.
Í framhaldi af skýrslu Sigurðar Björns, kvað ákærði Gunnar Ólafur það líklega vera rétt að þeir ákærðu hafi ætlað að sýna þeim hjónum hunda sína. Þá kvað hann það vera rétt að hann hafi sparkað í gegnum rúðu á sumarbústaðnum, en ákærði kvaðst hafa verið óánægður með að finna ekki hunda sína, sem voru af terrier- og labradortegundum. Ákærði Gunnar Ólafur kvað átökin hafa byrjað fyrir utan húsið og borist þangað inn og út aftur, en fullyrti að meðákærði hafi yfirgefið vettvang töluvert á undan sér. Enn síðar kvaðst ákærði Gunnar Ólafur vilja leiðrétta að það hefði sennilega ekki komið til átaka milli meðákærða og Sigurðar Björns fyrir utan bústaðinn, heldur hafi þeir lent í orðaskaki og komið hafi til „hnippinga, en ekki kýlinga”, eftir að kona Sigurðar Björns hafi farið inn í bústaðinn.
Ákærði Jón Bjarni nefndi eftir að Sigurður Björn hafði gefið framburðarskýrslu fyrir dóminum að hann minntist þess ekki að hafa verið vísað út úr sumarhúsinu, en þar sem hann hafi yfirgefið húsið á undan meðákærða og farið í sumarhús sitt, geti hann ekki borið um öll málsatvik. Ákærði Jón Bjarni kvaðst einnig telja að þeir ákærðu hefðu farið inn í sumarhúsið til að sýna hundana. Ákærði Jón Bjarni kvað það geta verið rétt að það hafi komið til þrætu milli hans og Sigurðar Björns fyrir utan sumarbústaðinn, en telja að það hefði þó gerst inni í bústaðnum. Nánar aðspurður um hvort til hnippinga hafi komið sagði ákærði: „Ég man það nú ekki alveg sko, það var bara svona, man ekki hvort við rifum í hvorn annan eða eitthvað svoleiðis.”.
Í gögnum málsins liggur frammi læknabréf, varðandi Sigurð Björn. Bréfið er dagsett 25. júní 1999 og undirritað af Þórði Ægi Bjarnasyni, lækni. Þar segir m. a.: „Kom á heilsugæslustöð 21.06.1999. Var, að sögn, í sumarbústað á Laugarvatni, aðfararnótt 20/6 þegar ráðist var á hann, hann kýldur og tekinn hálstaki. Lögregla var kölluð til og er nánari lýsingu á atvikinu að finna í lögregluskýrslu.
Læknisskoðun leiðir í ljós glóðarauga á hægra auga. Mar er kring um augað og nær lítillega upp á enni. Bólga er neðan við augað. Blætt hefur undir slímhúð um nánast allt augað. Brot á augnumgjörð þreifast ekki. Sjón, svörun sjáaldurs og augnhreyfingar eru eðlilegar. Það er mar á vinstri öxl og eymsli í vöðvum í hálsi og herðum.”.
III.
Niðurstöður
Eins og rakið hefur verið er framburður ákærðu, sérstaklega ákærða Jóns Bjarna, nokkuð misvísandi og þeim ber ekki að öllu leyti saman um málsatvik, sérstaklega um atvik fyrir utan sumarhúsið. Þá er framburður ákærðu hjá lögreglu um málsatvik með nokkrum öðrum hætti. Er reyndar lítt trúverðugur sá framburður ákærðu að eftir deilur og hnippingar fyrir utan sumarhúsið hafi Kristín og Sigurður Björn heimilað ákærðu inngöngu í sumarhúsið, eins og ákærðu halda fram fyrir dómi og þá með hunda meðferðis, þó einn sonur þeirra hjóna hefði ofnæmi fyrir hundum. Hins vegar er ágætt samræmi um atvik í framburði vitnanna Sigurðar Björns, Kristínar og Rannveigar Svanhvítar, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi og fær sá framburður nokkra stoð í framburði lögreglumannanna um ástand ákærðu og aðstæður á vettvangi. Þó ekki verði fullyrt nákvæmlega um þátt hvors ákærðu um sig í árásinni eða um fjölda þeirra högga sem Sigurði Birni voru veitt, er samkvæmt framburði vitna og að nokkru leyti framburði ákærðu sjálfra, sannað að ákærðu réðust báðir að Sigurði Birni inni í sumarhúsinu og slógu hann nokkur högg með þeim afleiðingum sem raktar eru í ákæru og framlögðu læknabréfi. Þá er með sama hætti sannað að ákærðu gerðust sekir um húsbrot, eins og lýst er í ákæru.
Ákærðu hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 217. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt framlögðum sakavottorðum hefur ákærði Jón Bjarni tvisvar sinnum gengist undir sáttir fyrir brot gegn umferðarlögum, á árunum 1988 og 1989. Ákærði Gunnar Ólafur hefur á árunum 1990 til 1995 sjö sinnum hlotið sektarrefsingar fyrir brot gegn umferðarlögum.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærðu hafa ekki áður gerst sekir um brot eins og hér um ræðir. Af framburði allra þeirra sem skýrslur gáfu fyrir dómi má ætla að ákærði Gunnar Ólafur hafi gengið harðar fram en ákærði Jón Bjarni. Þá hefur ákærði Gunnar Ólafur, sem játaði brot sín þó hann hefði ekki réttilega skýrt frá málsatvikum, greitt Sigurði Birni skaðabætur.
Hins vegar ber að hafa í huga við ákvörðun refsingar að ákærðu ruddust með hunda sína inn í sumarhús þar sem fjölskylda ókunnug ákærðu dvaldi og sinntu í engu óskum húsráðenda um að yfirgefa húsið, heldur réðust í stað þess á Sigurð Björn. Þótt telja verði að líkamsárásin hafi ekki staðið lengi yfir og afleiðingar hennar hvorki verulegar né varanlegar, þá var árásin tilefnilaus og harkaleg, gerð af ákærðu tveimur gegn einum manni sem litla björg gat sér veitt.
Að öllu framansögðu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er refsing ákærðu hvors um sig ákveðin fangelsi þrjá mánuði.
Þar sem ákærðu hafa ekki áður sætt fangelsisrefsingum, þykir mega fresta fullnustu tveggja mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði Jón Bjarni greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorsteins Péturssonar, héraðsdómslögmanns, 90.000 krónur, en ákærði Gunnar Ólafur skipuðum verjanda sínum, Brynjólfi Eyvindssyni, héraðsdómslögmanni, 90.000 krónur. Hins vegar greiði ákærðu óskipt allan annan sakarkostnað.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm, en dómsuppkvaðning hefur dregist um nokkra daga vegna anna dómara.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Ólafur Gunnarsson, sæti fangelsi þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu tveggja mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Jón Bjarni Jónsson, sæti fangelsi þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu tveggja mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Gunnar Ólafur Gunnarsson, greiði verjanda sínum, Brynjólfi Eyvindssyni, héraðsdómslögmanni, 90.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði, Jón Bjarni Jónsson, greiði verjanda sínum, Þorsteini Péturssyni, héraðsdómslögmanni, 90.000 krónur í málsvarnarlaun.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.