Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2016

A (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjanesbæjar (Ásta Björk Eiríksdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt lögræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2016 þar sem sóknaraðili var samkvæmt kröfu varnaraðila svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu um sviptingu sjálfræðis verði hafnað, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún þess að þóknun verjanda síns verði greidd úr ríkissjóði.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2016.

Með beiðni, dags. 19. maí 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur Fjölskylduþjónustan í Reykjanesbæ, kt. [...], Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, krafist þess að A, kt. [...],[...],[...], verði svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár með vísan til a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að beiðninni verði hafnað, en til vara að henni verði markaður skemmri tími en krafist sé.

Í beiðni sóknaraðila segir að varnaraðili eigi við geðræn vandamál að stríða sem hafi veruleg áhrif á getu hennar til að ráða persónulegum högum sínum sjálf. Hún dvelji nú á bráðageðdeild 32C á Landspítala, háskólasjúkrahúsi, þar sem hún hafi verið nauðungarvistuð samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 29. apríl sl. Í beiðninni segir að varnaraðili þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi og fíknivanda. Hún hafi verið með skert innsæi í langan tíma og hafi ítrekað verið svipt sjálfræði áður. Hún hafi nú verið nauðungarvistuð vegna mikilla geðrofseinkenna og sé ekki fær um að sjá um sig sjálf. Að mati B geðlæknis sé áframhaldandi meðferð varnaraðila nauðsynleg og án hennar stefni varnaraðili heilsu sinni í voða og spilli möguleikum á bata.

Beiðnin sé sett fram með vísan til a- og b-liða 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en varnaraðili sé að mati sóknaraðila ófær um að sinna persónulegum högum sínum í núverandi ástandi. Varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu um meðferð sína á geðdeild og hafi slakt sjúkdómsinnsæi. Því sé nauðsynlegt að fara fram á að varnaraðili verði svipt sjálfræði tímabundið, sbr. 5. gr. lögræðislaga, þ.e. í tvö ár frá uppkvaðningu úrskurðar. Varðandi heimild sóknaraðila til að bera fram kröfu þessa er í beiðninni vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Í vottorði B geðlæknis á bráðageðdeild 32C á Landspítalanum, dagsettu 17. maí 2016, kemur fram að varnaraðili sé með áratugasögu um alvarlegan geðsjúkdóm, geðhvarfageðklofa, en enn fremur sé hún með fíknivanda og spilafíkn. Veikindi varnaraðila megi rekja aftur til ársins 1989 og eigi hún að baki tíðar innlagnir á geðdeildir frá þeim tíma. Hún hafi þó átt betri tímabil þar sem hún hafi fylgt meðferð og haldið sig frá fíkniefnum til skemmri tíma. Varnaraðili hafi misnotað áfengi á árum áður, en hafi hin síðari ár að mestu leyti misnotað lyf og þá helst parkódín forte, valíum og ritalín. Síðustu 10 ár hafi varnaraðili lagst 28 sinnum inn á geðdeild og hafi þessar innlagnir varað í allt að fimm mánuði í senn. Hún hafi verið svipt sjálfræðis í sex mánuði árið 2007 og aftur í lok árs 2012. Varnaraðili hafi þá verið meðhöndluð með geðrofslyfjum í forðasprautum. Eftir hægan bata hafi hún útskrifast af endurhæfingardeild á Kleppi 7. janúar 2013. Eftir það hafi hún verið í vikulegri eftirfylgd frá geðteymi í Reykjanesbæ og mætt til þeirra í sprautur á hálfsmánaðarfresti fram eftir vori, en hætt því fljótlega eftir að sjálfræðissviptingin rann sitt skeið á enda vorið 2013. Næst hafi varnaraðili verið svipt sjálfræði í september 2013 og þá til tveggja ára. Á þeim tíma hafi varnaraðili verið í eftirliti hjá geðteyminu í Reykjanesbæ, sem hafi fylgt málum hennar vel eftir og hafi varnaraðili mætt í sprautur á hálfsmánaðarfresti á meðan á sjálfræðissviptingunni stóð. Frá því að sviptingin rann út í september 2015 hafi aftur farið að síga á ógæfuhliðina.

Í lok apríl sl. hafi varnaraðili verið nauðungarvistuð með bæði geðrofs- og örlyndiseinkenni á geðdeild í [...] í [...]. Hafi varnaraðili síðan verið flutt til landsins í fylgd tveggja starfsmanna geðdeildar 28. apríl sl. Við komu til landsins hafi hún verið flutt á móttökudeild 33A í fylgd lögreglu og héraðslæknis þar sem hún hafi verið nauðungarsprautuð og í kjölfarið flutt á bráðageðdeild 32C. Varnaraðili hafi nú legið inni í rúmar tvær vikur og sé enn með töluverð örlyndis- og geðrofseinkenni. Hún hafi ekki verið til samvinnu um lyfjameðferð og reynt endurtekið að koma undan lyfjum. Þá hafi hún sótt stíft í alls konar róandi og ávanabindandi lyf.

Niðurstaða vottorðsins er sú að varnaraðili sé með alvarlegan geðsjúkdóm, auk alvarlegs fíknivanda. Hún hafi skert innsæi til lengri tíma og hafi ekki getað fylgt eftir nauðsynlegri læknismeðferð. Varnaraðili hafi áður verið svipt sjálfræði til að tryggja meðferðarramma og hafi það gefið góða raun og fækkað innlögnum verulega. Síðasta sjálfræðissvipting hafi runnið út haustið 2015. Varnaraðili hafi nú enn á ný verið innlögð með mikil geðrofseinkenni og sé hún ekki fær um að sjá um sig sjálf. Hún sé ekki til samvinnu um meðferð, reyni að koma undan lyfjum og fái eiginmann sinn til að smygla til sín fíkniefnum. Enginn vafi sé á að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að meðferð sé nauðsynleg. Án hennar stefni varnaraðili heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum á bata.

B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti áðurgreind vottorð sitt. Hún staðfesti að varnaraðili væri ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum, sem og að varnaraðili væri ekki fær um að mæta fyrir dóminn vegna andlegs ástands síns.

Í ljósi þess sem að framan er rakið auk fyrirliggjandi gagna telur dómari að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu. Verður varnaraðili því svipt sjálfræði tímabundið, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði í tvö ár frá deginum í dag að telja.

Þóknun verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., að fjárhæð 160.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.