Hæstiréttur íslands
Mál nr. 122/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
Reifun
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. febrúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tekin yrði skýrsla fyrir dómi af A. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin skýrslutaka verði heimiluð.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði eru til rannsóknar hjá lögreglu ætluð ofbeldisbrot varnaraðila gegn eiginkonu sinni. Með tölvupósti 11. febrúar 2016 óskaði verjandi varnaraðila eftir afriti af gögnum málsins og þá sérstaklega skýrslutökum, en brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 9. sama mánaðar. Þeirri beiðni hafnaði sóknaraðili að svo stöddu með tölvupósti sama dag á þeim grundvelli að það gæti skaðað rannsókn málsins, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 59. gr. laganna til að leiða brotaþola fyrir dóm til skýrslugjafar. Skiptir þá engu þótt hún hafi áður gefið skýrslu hjá lögreglu, enda fer sönnunarfærslan fram fyrir dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 111. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka skýrslu af brotaþola.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdóm að taka skýrslu af A.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. febrúar 2016.
-
Héraðsdómi Suðurlands hefur borist krafa lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsett 11. febrúar sl., móttekin sama dag, þess efnis að tekin verði skýrsla fyrir dómi af A, kt. [...], vegna rannsóknar lögreglustjórans á Suðurlandi á máli lögreglu nr. 318-2016-[...]. Fram kemur að um sé að ræða rannsókn á meintu ofbeldi gegn áðurnefndri konu og að kærður sé X, kt. [...]. Segir í kröfu lögreglustjóra að lögregla telji skýrslutökuna nauðsynlega áður en verjandi í málinu fái aðgang að rannsóknargögnum, auk þess sem það sé talið æskilegt með tilliti til hagsmuna brotaþola. Lögreglustjóri vísar til b- og c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála kröfu sinni til stuðnings.
II.
Í máli þessu óskar lögreglustjóri eftir skýrslutöku fyrir dómi og vísar til b-, og c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Meðal gagna sem fylgdu kröfu lögreglustjóra eru tölvupóstsamskipti milli verjanda kærða og fulltrúa lögreglustjóra þar sem verjandi óskar meðal annars eftir aðgangi að gögnum máls lögreglu nr. 318-2016-[...]. Í svari lögreglustjóra til verjanda þann 11. febrúar sl., kemur fram að fyrstu skýrslutökur í málinu hafi farið fram 9. febrúar sl. Þá hafnar lögreglustjóri beiðni verjanda um aðgang rannsóknargögnum málsins með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 fer skýrslutaka meðan á rannsókn máls stendur fram fyrir dómi af sakborningi, brotaþola eða öðrum vitnum ef lögregla telur það nauðsynlegt til þess að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess. Í máli þessu liggur fyrir að brotaþoli hefur nú þegar gefið skýrslu hjá lögreglu og er því vandséð hvað það er sem lögregla ætlar að upplýsa með skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi. Þá verður ekki annað ráðið af áðurgreindum tölvupósti fulltrúa lögreglustjóra til verjanda kærða en að honum hafi nú þegar verið neitað um aðgang að gögnum málsins en fulltrúi lögreglustjóra vísar í svari sínu til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, þar sem segir að lögregla geti neitað verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjá vikur frá því gögnin komu í vörslu lögreglu
Samkvæmt c-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 fer skýrslutaka meðan á rannsókn máls stendur fram fyrir dómi af brotaþola eða öðrum vitnum ef þau neita að mæta til skýrslutöku hjá lögreglu eða neita að svara spurningum hennar, ætla má að þau komist ekki fyrir dóm við meðferð málsins eða það er talið æskilegt með tilliti til hagsmuna þeirra, svo sem ef um börn er að ræða. Í kröfu lögreglustjóra er í engu rökstutt af hverju æskilegt er með tilliti til hagsmuna brotaþola að hún komi fyrir dóm og gefi skýrslu meðan á rannsókn þessa máls stendur. Þá verður ekki fram hjá því litið í þessu sambandi að brotaþoli hefur nú þegar gefið skýrslu hjá lögreglu í framangreindu máli, en samkvæmt samantekt þeirrar skýrslutöku mætti brotaþoli til skýrslutökunnar hjá lögreglu daginn eftir að hún tilkynnti um ætlað heimilisofbeldi.
Þá uppfyllir krafa lögreglustjóra ekki fyrirmæli 4. málsliðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008, en í 1. mgr. greinarinnar segir að telji lögreglustjóri þörf atbeina dómara til aðgerða samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laganna skuli hann leggja fram skriflega og rökstudda kröfu um hana fyrir héraðsdómara. Segir í 4. málslið að þess skuli jafnframt getið hvort sá sem hana gerir krefjist þess að hún sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 104. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 88/2008 er það meginregla að lögregla taki skýrslur af sakborningi og vitnum meðan mál er til rannsóknar. Í undantekningartilvikum er þó gert ráð fyrir að tekin sé skýrsla fyrir dómi af þeim sem við mál eru riðnir, sbr. 59. gr. laganna, en ákvæðið er frávik frá einni af meginreglum sakamálaréttarfars, þ.e. reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 111. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 88/2008 skal dómari gæta að því hvort krafa um skýrslutöku fyrir dómi fullnægi ákvæðum 59. gr. laganna. Að öllu framansögðu virtu þykir lögreglustjóri ekki hafa sýnt fram á skilyrðum 59. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt í máli þessu. Kröfunni er því hafnað.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi um skýrslutöku fyrir dómi af A er hafnað.