Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
|
|
Fimmtudaginn 22. september 2005. |
|
Nr. 401/2005. |
K(Hjördís E. Harðardóttir hdl.) gegn M (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.
Í kjölfar skilnaðar M og K deildu þau um forsjá tveggja barna sinna og lauk þeirri deilu með dómsátt á árinu 2002, þar sem kveðið var á um sameiginlega forsjá þeirra yfir börnunum og að eldra barnið hefði lögheimil hjá K en það yngra hjá M. K höfðaði mál til að hnekkja framangreindri dómsátt og fá ein forsjá beggja barnanna. Þá krafðist hún þess að henni yrði fengin forsjá barnanna til bráðabirgða meðan forsjármálið væri til úrlausnar fyrir héraðsdómi. Talið var að K hefði ekki tekist að sýna fram á að hagsmunir barnanna stæðu til þess að raska því ástandi, sem komið hefði verið á með dómsátt aðila, meðan forsjármálið væri til meðferðar fyrir héraðsdómi og var kröfu hennar því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. september sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. ágúst 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að samningur aðilanna 15. maí 2002 um sameiginlega forsjá tveggja sona þeirra, sem fæddir er 1997 og 1999, verði felldur úr gildi og að sóknaraðila yrði dæmd forsjá þeirra til bráðabirgða þar til dómur gangi í máli, sem hún hefur höfðað gegn varnaraðila til að fá ein forsjá sonanna. Með hinum kærða úrskurði var jafnframt hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðili skyldi greiða einfalt meðlag með börnunum til sama tíma. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að framangreindar kröfur hennar fyrir héraðsdómi verði teknar til greina og varnaraðila gert að greiða henni kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð skýrsla Rögnu Ólafsdóttur sálfræðings 16. september 2005.
Eins og frá er greint í hinum kærða úrskurði eiga málsaðilar saman tvo syni og fara sameiginlega með forsjá þeirra samkvæmt dómsátt frá 15. maí 2002. Á yngri sonurinn lögheimili hjá varnaraðila en sá eldri hjá sóknaraðila. Í kæru sinni byggir sóknaraðili á því að það sé börnunum fyrir bestu að hún hafi bráðabirgðaforsjá þeirra og telur að ekki hafi legið fyrir héraðsdómi réttar upplýsingar um aðstæður varnaraðila áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Auk þeirra röksemda sem byggt var á fyrir héraðsdómi fullyrðir sóknaraðili nú að varnaraðili hafi ekki haft búsetu á [A] frá því að hann flutti lögheimili sitt þangað heldur hafi hann búið í Reykjavík með sambúðarkonu sinni. Hafi varnaraðili því falið foreldrum sínum á [A] umsjá yngri sonarins, sem eigi lögheimili hjá honum samkvæmt dómsáttinni, og því ekki sinnt forsjár- og uppeldisskyldum sínum gagnvart drengnum. Þetta telur sóknaraðili ámælisvert, einkum þegar haft sé í huga að barnið sé að hefja skólagöngu og eigi við hegðunarvandamál að stríða. Telur sóknaraðili að börnum þeirra sé fyrir bestu að hún fái bráðabirgðaforsjá þeirra, enda hafi komið fram í málinu að aðstæður hennar séu mun betri en varnaraðila og hún hafi einnig rýmri tíma til að sinna börnunum en hann.
Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um búsetu sonar málsaðila á Eyrarbakka á meðan hann hafi sjálfur búið í Reykjavík. Þá kveður varnaraðili að drengurinn glími vissulega við nokkur hegðunarvandamál en telur að hringlandi með búsetu hans væri ekki til þess fallinn að bæta úr þeim vanda.
Fullyrðingar sóknaraðila, sem að framan eru raktar, og komu fyrst fram í kæru til Hæstaréttar eru ekki studdar gögnum og er mótmælt af hálfu varnaraðila. Sóknaraðila hefur ekki tekist að sýna fram á að hagsmunir drengjanna standi til þess að raska því ástandi, sem komið var á með dómsátt aðila, meðan ágreiningur þeirra um forsjá er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. ágúst 2005.
I
Hinn 9. júní sl. var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni K, [kt. og heimilisfang] um úrskurð til bráðabirgða samkvæmt 35. gr. barnalaga, nr. 76/2003, um forsjá og meðlag sona hennar og M, [kt. og heimilisfang]. Synirnir eru B, [kt.], og C, [kt.]. Hinn 15. júní var lögð fram greinargerð í því máli af hálfu varnaraðila.
Sóknaraðili þingfesti forsjármál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 7. júní sl. og hefur varnaraðili frest til 6. september nk. til að leggja fram greinargerð í því máli.
Krafa sóknaraðila er nánar tiltekið sú að samningur hennar og varnaraðila um sameiginlega forsjá sonanna frá 15. maí 2002 verði felldur úr gildi og að sóknaraðila verði dæmd forsjá þeirra til bráðabirgða þar til dómur gengur í forsjármálinu. Þá krefst sóknaraðili þess að úrskurðað verði að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila einfalt meðlag með báðum sonunum til sama tíma.
Sóknaraðili krefst þess og að varnaraðili verði dæmdur til að greiða málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en sóknaraðili fékk gjafsókn 20. júní sl.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðili verði hrundið og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu með virðisaukaskatti.
Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi 10. ágúst sl. og var málið munnlega flutt í framhaldi af því og tekið til úrskurðar.
II
Málsaðilar gengu í hjónaband á árinu 1996 en skildu á árinu 2000. Sóknaraðili á dóttur sem er fædd 1995. Sóknaraðili er nú gift að nýju og eiga þau hjón eitt barn. Varnaraðili er í sambúð og á eitt barn með sambýliskonu sinni.
Sóknaraðili fór eftir skilnaðinn ein með forsjá sona þeirra þar til málsaðilar gerðu sátt fyrir dómi 15. maí 2002, í máli sem varnaraðili höfðaði gegn sóknaraðila, um að þeir skyldu hafa sameiginlega forsjá sonanna. Jafnframt náði sáttin til þess að sonurinn C skyldi hafa lögheimili hjá föður en B hjá móður.
Í þinghaldi í máli þessu hinn 15. júní sl. komust málsaðilar að samkomulagi um það að fram til 10. ágúst sl. skyldu drengirnir vera hjá móður sinni sem býr í [...] og faðirinn taka þá til sín aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags.
Í þinghaldi í málinu 3. ágúst lýstu málsaðilar því yfir að þau myndu vinna sameiginlega að því að sonur þeirra C fari í greiningu á barna- og unglingadeild Landspítalans.
Ekki þykir ástæða til að rekja framburð málsaðila fyrir dómi sérstaklega en málsástæður þeirra byggjast að hluta til á framburðunum og kemur því það helsta fram í 3. og 4. kafla úrskurðarins.
III
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að hin sameiginlega forsjá hafi ekki gengið vel og samskipti foreldranna hafi ekki verið góð. Faðirinn hafi ítrekað beitt synina ofbeldi og harðræði, síðast í maí sl. Þeir fái ekki nægilega athygli hjá föður sínum og hann hafi ekki sýnt vilja til þess að taka á vandamálum sem C eigi við að stríða sem séu ýmis hegðunarvandamál og einkenni athyglisbrests og ofvirkni. B eigi einnig við hegðunarvandamál að stríða. C sé nú að hefja grunnskólagöngu og mikilvægt sé að hann fái læknismeðferð áður en skólaganga hefjist og að hann nái fótfestu og fái að búa við öryggi og reglufestu. Móðirin hafi betri tengsl við drengina og betri skilning á þörfum þeirra en faðirinn sem virðist loka augunum fyrir því að C eigi við hegðunarvandamál að stríða. Auk þess hafi hann lítinn tíma til að sinna sonunum. Sambúðarkona föðurins komi lítið að uppeldi sonanna. C hafi verið hjá móður sinni í sumar frá því um miðjan maí, og hafi aðlagast umhverfinu í [ ] sem sé ákjósanlegt fyrir börn. Þar hafi hann eignast vini og félaga. Móðirin sé heimavinnandi og hafi góðan tíma til þess að sinna sonunum. Hún búi í stóru einbýlishúsi þar sem synirnir geti haft sitt eigið herbergi. Í [...] sé lítill og góður grunnskóli rétt hjá heimili móður og þar sé góður stuðningur veittur þeim nemendum sem eigi við sérstök vandamál að stríða. Skólaganga í [...] valdi engri röskun á högum C. Móðirin hafi leitast við að kynna sér hvernig haga beri uppeldi barna sem eigi við hegðunarvandamál að glíma. Af þessu megi vera ljóst að það sé sonunum fyrir bestu að móðirin fái forræði þeirra nú þegar.
Af hálfu varnaraðila er því harðlega mótmælt að faðirinn beiti synina harðræði og ofbeldi. Þetta sé alrangt. Ásakanir þessar hafi ekki leitt til þess að barnaverndaryfirvöld hafi séð ástæðu til aðgerða og ótti móður sé ekki meiri en svo að hún hafi samþykkt að drengirnir væru hjá föður frá ágústbyrjun á meðan móðirin var erlendis og séu þar enn. Það sé ekkert sem bendi til þess að sonurinn C líði fyrir heimilisfesti sína hjá föður eða B fyrir umgengni við hann.
Faðirinn hafi verið tilbúinn til þess að taka á hegðunarvandamálum og hugsanlegri lyfjanotkun væri það gert að undangenginni rannsókn á þeim vandamálum eins og nú standi til að gera. C hafi verið heimilisfastur hjá föður sínum undanfarin ár. Hann þekki vel umhverfið á [A] þar sem faðirinn búi nú hjá foreldrum sínum ásamt sambýliskonu og barni þeirra í rúmgóðu húsi. Faðirinn geri ráð fyrir að vera kominn í nýbyggt hús fyrir næstu jól. [A] sé rólegur staður og börn þar gangi í góðan skóla á [...]. Faðirinn hafi góðan tíma til að sinna sonunum. Engin nauðsyn sé á því að breyta forræði drengjanna til bráðabirgða heldur eigi að bíða úrslita í forræðismálinu. Það yrði mun meiri röskun á högum þeirra fengi móðirin nú forræði drengjanna og að niðurstaða í forræðismálinu yrði síðan á annan veg.
IV
Eins og fyrr er rakið þingfesti sóknaraðili forræðismál á hendur varnaraðila 7. júní sl. og upplýst er að varnaraðili hefur frest til þess að skila greinargerð í því máli til 6. september nk. Málsaðilar hafa gert samkomulag um að sonur þeirra C gangist undir rannsókn vegna hegðunarvandamála sem hann á við að stríða, en ekki hafði verið beðið um þá rannsókn þegar mál þetta var tekið til úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild til þess að úrskurða til bráðabirgða eftir kröfu aðila hvernig fara skuli með forsjá barns eftir því sem barninu er fyrir bestu. Að framan eru raktar röksemdir sóknaraðila fyrir því að sonunum tveimur sé fyrir bestu að hún hafi forræði þeirra ein og að þeir búi hjá henni svo og gagnrök varnaraðila.
Frá því að málsaðilar gerðu samkomulag um sameiginlega forsjá sonanna hinn 15. maí 2002 hafa þau bæði flutt búferlum og verður ekki annað betur séð en hagur sonanna beggja hafi vænkast við það hvort heldur er litið til móður eða föður. Að vísu býr varnaraðili ekki enn í eigin húsnæði en stefnir að því fyrir næstu jól. Líta má svo á að aðstæður móður séu ívið betri að því leyti að hún býr með eiginmanni sínum í húsi þeirra, en faðir býr hjá foreldrum sínum. Aðstæður foreldranna að þessu leyti þykja þó það svipaðar að sá munur, sem þó verður að telja á þeim sé, geti ekki ráðið neinum úrslitum um kröfur sóknaraðila.
Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa eitt sinn, þ.e. í maí í ár, tuskað synina til þar sem þeir hafi verið óþekkir. Faðirinn kannaðist við að hafa tuskað drengina áður til en ekki síðar og segist aldrei haf beitt þá barsmíðum. Í málinu hefur verið lagt fram vottorð læknis á heilsugæslustöðinni í [...] þar sem því er lýst að drengirnir hafi komið á heilsugæslustöðina og sagt að faðir þeirra hefði lagt á þá hendur og hafi þeir borið ummerki þess. Því verður ekki neitað að þessi aðferð föðurins er ámælisverð. Hann kveðst nú hafa látið af henni og víst er að umgengni föður við drengina hefur gengið samkvæmt samkomulagi foreldranna og þeir hafa báðir dvalið hjá föður sínum í sumarleyfi móður. Ekkert annað er upplýst en að umgengnin hafi gengið vel.
Gögn málsins bera það ekki með sér að neinn sérstakur munur sé á umgengni og atlæti foreldranna við synina, þegar litið er frá því að faðirinn hefur á sínum tíma a.m.k. verið harðhentur við drengina, og verður ekki betur séð en þau séu, hvort um sig, vel hæf til þess að fara með forræðið.
Fyrir liggur að sonurinn B mun halda skólagöngu áfram í [ ]. C byrjar grunnskólagöngu innan fárra daga og að óbreyttu í grunnskólanum á [ ]. Hann hefur átt heimili hjá föður sínum frá því í maí 2002. Þá hafa foreldrarnir lýst því yfir að þau muni vinna sameiginlega að því að sonur þeirra C fari í greiningu á barna- og unglingadeild Landspítalans og er mikilvægt að foreldrarnir standi báðir að því og þeirri meðferð sem greiningin kann að leiða til.
Eins og atvik liggja fyrir í þessu máli og að framan er lýst þykja þau ekki gefa nægilega vísbendingu um að það sé sonunum fyrir bestu að breyta til bráðabirgða forræði þeirra frá því sem það nú er þar til dómur gengur í forræðismálinu sem höfðað hefur verið. Þykir rétt að forræðið haldist óbreytt en það mun ráðast af niðurstöðu í forræðismálinu hvernig því verður háttað til frambúðar. Verður af þessum sökum kröfum sóknaraðila hafnað.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri þessa máls.
Málskostnaður sóknaraðila, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Hjördísar E. Harðardóttur hdl., kr. 100.000 auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Kröfum sóknaraðila, K, er hafnað. Málskostnaður fellur niður. Málskostnaður sóknaraðila, þar með talin þóknun lögmanns hennar Hjördísar E. Harðardóttur hdl., kr. 100.000 auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.