Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Kærumálsgögn
|
|
Föstudaginn 29. janúar 2016. |
|
Nr. 7/2016.
|
C Trade ehf. (Einar Sigurjónsson hdl.) gegn BVBA De Klipper (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Kærumálsgögn.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu C ehf. um að dómkveðja matsmann til að svara þremur nánar tilgreindum spurningum. Talið var að þegar litið væri til þeirra úrræða sem C ehf. hefði samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 og þeirra takmarkana sem heimild málsaðila til að afla matsgerðar væru settar í þeim lögum, væri ljóst að með matsbeiðni C ehf. væri nú leitað mats um atriði sem að mestu leyti hefðu áður verið metin í undir- og yfirmati. Að öðru leyti þótti bersýnilegt að matsgerð um það sem eftir stæði væri tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja beiðni C ehf. um dómkvaðningu matsmanns.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 4. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 18. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann ,,kærumálskostnaðar bæði vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.“
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili höfðaði mál þetta, sem þingfest var fyrir héraðsdómi 14. mars 2012, og krafðist greiðslu vangoldinna reikninga að fjárhæð samtals 169.568 evrur. Varnaraðili krafðist aðallega frávísunar en til vara sýknu og lagði í málinu fram reikninga, sem áritaðir voru um greiðslu. Sóknaraðili hefur aflað álitsgerðar Haraldar Árnasonar rithandarsérfræðings, matsgerðar og yfirmatsgerðar og með því móti freistað þess að sanna að áritanir á reikninga þá, sem varnaraðili lagði fram, séu falsaðar.
Ágreiningsefni þessa þáttar málsins lýtur að því hvort fallast beri á beiðni sóknaraðila, sem lögð var fram í héraðsdómi 18. desember 2015, um dómkvaðningu matsmanns til þess að skoða og meta þau atriði, sem þar greinir og tíunduð eru í hinum kærða úrskurði.
Í matsbeiðninni kemur fram að matsmaðurinn eigi að rannsaka frumrit reikninga, sem lögð hafa verið fram í málinu. Ástæða þess að dómkveðja þurfi nú matsmann sé sú að í fyrri matsgerðum sé ekki ,,nægilega svarað ákveðnum þáttum sem rannsaka átti í tilvitnuðum mötum og því liggi ekki fyrir hvort gögnin eru ófölsuð eða ekki.“ Í yfirmatsgerð sé bent á að ekki sé tekin afstaða til þess möguleika að um geti verið að ræða ,,þjálfaða eftirlíkingu sem skrifuð sé hratt.“ Þá komi að auki fram að um geti verið að ræða mann ,,sem þekkir aðferðir rithandarsérfræðinga og nýti sér þá þekkingu.“ Loks sé hvorki um það fjallað í matsgerðunum hvort sami maður og ritaði orðið ,,paid“ og skráði dagsetningar á reikninga hafi einnig fært á suma þeirra útreikninga, sem á þeim séu, né hvert sönnunargildi tiltekinna mynda sé.
Um ,,tilefni og markmið“ nýrrar matsgerðar segir að matsbeiðandi telji að hún muni leiða í ljós að fyrri matsgerðir séu ,,alltof varkárar og að mat á skjölunum og undirritun þeirra og að ekki sé um frumrit reikninga að ræða og sem slík geti þau ekki verið ígildi fullnaðarkvittana“ í málinu. ,,Til þess að leggja frekari grunn að kröfum sínum telur matsbeiðandi nauðsynlegt að dómkvaddur verði hæfur og sérfróður aðili til að meta hvort þær hugleiðingar er fram koma í tilvitnuðum matsgerðum hafi sönnunargildi sem fullnaðarkvittanir ... Með hinu umbeðna mati hyggst matsbeiðandi sanna að framlagðar matsskýrslur taki ekki [á] þeim þætti hvort unnt sé að falsa nafn hans með þeim hætti að það verði vart greint. Matsgerð muni leiða í ljós þá fullyrðingu matsbeiðanda að um fölsuð og breytt gögn sé að ræða eins og matsbeiðandi hefur haldið fram frá upphafi“.
II
Í IX. kafla laga nr. 91/1991 er að finna reglur um matsgerðir. Í 1. mgr. 61. gr. laganna er mælt fyrir um að í matsbeiðni skuli koma skýrlega fram hvað meta skuli og hvað aðili hyggist sanna með mati. Af 2. mgr. 60. gr. leiðir að ekki er unnt að beiðast matsgerðar ef tilgangur þess er að sanna lögfræðileg atriði, enda er það hlutverk dómara máls að leggja mat á atriði sem krefjast lagaþekkingar. Þá er í 1. mgr. 66. gr. kveðið á um að dómari geti úrskurðað um atriði er varða framkvæmd matsgerða svo sem hvort það hafi verið metið, sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu, eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd rísi ágreiningur um kröfu um endurskoðun hennar. Loks er mælt fyrir um í 1. mgr. 65. gr. að matsmanni beri, krefjist málsaðili þess, að koma fyrir dóm og gefa þar skýrslu til skýringar og staðfestingar um atriði sem tengjast matsgerð.
III
Þær spurningar sem fram koma í matsbeiðni sóknaraðila, er lögð var fram í héraðsdómi 18. desember 2015, lúta að efni til að atriðum sem hann hefur þegar fengið metin bæði með undirmatsgerð og yfirmatsgerð. Í framangreindri lýsingu í matsbeiðninni á tilgangi hennar og hvað sóknaraðili hyggist sanna með henni kemur í fyrsta lagi fram að hann telji matsmenn hafa verið of varkára í matsgerðum sínum og að mat á skjölunum og undirritun þeirra og að ekki sé um frumrit reikninga að ræða og því geti þau ekki verið það sem hann nefnir ígildi fullnaðarkvittana. Samkvæmt framansögðu á hann þess kost að afla skýringa frá matsmönnum um mat þeirra er þeir gefa skýrslu fyrir dómi. Mat á því hvort reikningur, áritaður um greiðslu, er fullnaðarkvittun er lögfræðilegt og samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 viðfangsefni dómara máls. Í öðru lagi kveður sóknaraðili tilgang með matsbeiðni þann að fá mat á því hvort þær hugleiðingar er fram koma í tilvitnuðum matsgerðum hafi sönnunargildi sem fullnaðarkvittanir í máli því sem hann rekur gegn varnaraðila. Að því leyti sem unnt er að skilja þennan hluta lýsingar sóknaraðila á tilgangi nýrrar matsgerðar er slíkt mat á sönnunargildi hugleiðinga í fyrri matsgerðum lögfræðilegt og því einungis á færi dómara máls, en getur ekki orðið andlag nýrrar matsgerðar. Í þriðja lagi kveður sóknaraðili nýja matsgerð muni sanna að fyrri matsgerðir taki ekki á þeim þætti hvort unnt sé að falsa nafn þannig að það verði vart greint. Matsgerðin muni leiða í ljós að um fölsuð og breytt gögn sé að ræða, svo sem sóknaraðili hafi haldið fram frá upphafi. Sá tilgangur með nýrri matsgerð, sem hér er lýst, er hinn sami og með fyrri matsgerðum, að leiða í ljós hvort undirritun á reikningana sé fölsuð.
Játa verður aðila máls ríkan rétt til þess að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á. Meðal slíkra gagna eru matsgerðir dómkvaddra manna. Almennt eiga hvorki gagnaðili né dómstólar að standa þeirri gagnaöflun í vegi. Þessum rétti málsaðila hafa þó verið settar nokkrar skorður í lögum. Hafi aðili þannig aflað bæði matsgerðar og yfirmatsgerðar getur hann ekki, samkvæmt gagnályktun frá 64. gr. laga nr. 91/1991, leitað nýrrar matsgerðar til sönnunar um sömu atriði. Þá verður ekki aflað matsgerðar um atriði, sem lögfræðiþekkingu þarf til að skera úr, enda er það hlutverk dómara máls svo sem fyrr greinir. Loks leiðir af 65. og 66. gr. sömu laga að sóknaraðili getur fengið úr því skorið með úrskurði hvort metið hafi verið það sem meta skyldi og hann getur leitað skýringa matsmanna á því sem fram kemur í matsgerð þegar matsmenn gefa skýrslu fyrir dómi.
Þegar litið er til þeirra úrræða, sem sóknaraðili hefur samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 og þeirra takmarkana sem heimild málsaðila til að afla matsgerðar eru settar í þeim lögum er ljóst að með þeirri matsbeiðni sem mál þetta varðar er leitað mats um atriði sem að mestu leyti hafa þegar verið metin í undirmati og yfirmati. Að öðru leyti er bersýnilegt að matsgerð um það sem eftir stæði er tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að við málskot þetta hefur sóknaraðili ekki sinnt fyrirmælum í reglum nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum, sem settar voru með stoð í 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991. Þannig hefur hann ekki gætt þess að leggja einungis fyrir Hæstarétt þau skjöl sem þörf er á til úrlausnar um ágreining þann er kærumálið varðar. Efnisyfirlit er ekki í samræmi við 4. gr. reglnanna og röð skjala er ekki sú sem mælt er fyrir um í 5. gr. Þá eru gögnin ekki í hefti og ekki með síðutali, svo sem boðið er í 7. gr. reglnanna. Ber að átelja sóknaraðila fyrir þessa ágalla.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, C Trade ehf., greiði varnaraðila, BVBA De Klipper, 450.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. desember 2015.
Mál þetta var þingfest 14. mars 2012 og tekið til úrskurðar í gær um ágreining aðila um dómkvaðningu matsmanns.
Stefnandi er C Trade ehf., Blásölum 22, Kópavogi, en stefndi er BVBA DE Klipper, Belgíu.
Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að stefnda verið gert að greiða 169.568 evrur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og málskostnaði. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að matsbeiðni hans verði tekin til greina og að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnda. Stefndi krefst þess að beiðninni verði hafnað og að stefnandi verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar í þessum þætti málsins.
I.
Atvik máls eru í stórum dráttum þau að stefnandi, sem er útflutningsfyrirtæki, seldi stefnda fisk á árinu 2009. Stefnandi var í fyrstu óskráð félag og voru þá reikningar gefnir út af Jónasi Snorrasyni, öðrum eiganda félagsins, en eftir stofnun stefnanda 3. júlí 2009 voru reikningar gefnir út í nafni stefnanda. Í stefnu segir að allir reikningar, sem Jónas Snorrason gaf út, hafi verið endurútgefnir á nafni stefnanda. Í þeim búningi var málið höfðað, þ.e. á grundvelli hinna endurútgefnu reikninga. Stefndi tók til varnar og byggði á því að skuldin væri greidd og lagði fram ljósrit af reikningum því til sönnunar. Eru þeir reikningar áritaðir um greiðslu, ýmist af Jónasi Snorrasyni einum eða af Jónasi og Jörgen Ingimar Hanssyni saman en Jörgen er helmingseigandi að stefnanda ásamt Jónasi.
Af gögnum málsins má ráða að ósætti hafi komið upp milli þessara tveggja eigenda stefnanda. Liggur frammi í málinu yfirlýsing Jónasar um að hann sé helmingseigandi að stefnanda og hafi verið framkvæmdastjóri félagsins á þessum tíma. Hann hafi aldrei veitt félaginu heimild til að gefa reikninga út á ný, enda fæli slíkt í sér tvígreiðslu af hálfu stefnda, kaupanda fisksins.
Eftir að stefndi hafði lagt fram framangreind ljósrit af árituðum reikningum skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram frumrit þeirra, sem hann og gerði í þinghaldi 19. desember 2012.
Stefnandi hélt því fram að Jörgen Ingimar Hansson kannaðist ekki við áritanir sínar á reikninga þá er stefndi lagði fram sem frumrit og fékk því Harald Árnason til þess að rannsaka þá. Beiðni stefnanda beindist m.a. að því hvort framlögð frumrit reikninga væru raunveruleg frumrit, hvort þeim skjölum hefði hugsanlega verið breytt, hvort misræmi væri á milli skjala sem lögð höfðu verið fram í málinu, hvort mögulegt væri að afmá undirritun af skjali og flytja hana annað og hvert sé álit rannsakanda á almennu gildi umrædda skjala sem frumskjala. Skýrsla Haraldar var lögð fram í málinu 31. janúar 2013.
Í þinghaldi 16. apríl 2013 lagð stefnandi fram matsbeiðni og í þinghaldi 27. júní 2013 var úrskurðað að umbeðin dómkvaðning skyldi fara fram þar sem eftirfarandi spurningum yrði svarað:
1. Hvort reikningar, sem stefndi lagði fram sem frumrit, séu í raun frumrit og hvort undirritanir séu réttar og stafi frá þeim sem undirrita skjölin.
2. Hvort skjölunum hafi verið breytt, t.d. með ljósritun eða annarri fjölföldun.
3. Hvort misræmi sé milli skjala sem lögð voru fram í dómnum í maí 2012 sem staðfest ljósrit af frumritum og sem kvittanir fyrir greiðslum á dskj. nr. 56-102 og þeirra skjala sem nú liggja fyrir réttinum sem frumrit.
4. Hvort hægt sé að breyta þessum skjölum þannig að afmá megi undirritun á sumum reikningum og færa undirritun á aðra og síðari reikninga.
5. Hvert álit rannsakanda sé á almennu gildi þessara skjala sem frumskjala.
Til þess að svara þessum spurningum var í þinghaldi 27. september 2013 dómkvaddur sem matsmaður Stephen Cosselett, Bretlandi, og var matsgerð hans lögð fram í þinghaldi 13. júní 2014.
Stefnandi óskaði eftir yfirmati og í þinghaldi 21. nóvember 2014 voru dómkvaddir matsmennirnir Dr. Manfred Hecker og Dipl.-Psych Manfred Phillipp, báðir búsettir í Þýskalandi. Óskað var eftir mati á sömu atriðum og í undirmatsgerð. Matsgerð þeirra var lögð fram í þinghaldi 19. ágúst 2015.
Í þinghaldi 7. október 2015 var ákveðið að aðalmeðferð færi fram 21. janúar 2016 og þinghald til þess að ljúka gagnaöflun yrði 18. desember 2016. Í því þinghaldi lagði stefnandi fram nýja matsbeiðni, sem nú er deilt um, þar sem óskað er eftir að matsmaður láti í té ítarlega, rökstudda og skriflega álitsgerð um eftirfarandi atriði:
1. Er hugsanlegt, líklegt eða ljóst að sérfræðingur í fölsun skjala, og þá einkum í undirritun þeirra, geti hafa ritað nafn J. Ingimars Hanssonar á þá reikninga sem deilt er um og stafa frá síðari dagsetningu en 13. júlí 2009.
2. Er hugsanlegt, líklegt eða ljóst að sami aðili og áritaði útreikninga á hina umdeildu reikninga hafi einnig áritað orðið „paid“ og dagsetningar á alla reikningana, bæði fyrir og eftir 13. júlí 2009.
3. Er hugsanlegt, líklegt eða ljóst að för sem sjást á skjölum eftir undirritanir á nafni J. Ingimars Hanssonar hafi verið gerð eftir að þær undirritanir fóru fram.
Í þinghaldinu mótmælti stefndi beiðni stefnanda um nýtt mat og var málinu frestað til 22. desember 2015 til flutnings um þann ágreining.
II
Mál þetta var þingfest 14. mars 2012 og hefur verið í fresti síðan. Reikningar, sem áritaðir eru um greiðslu, og sem stefnandi heldur fram að séu falsaðir, voru lagðir fram í þinghaldi 19. desember 2012. Mats var beiðst 16. apríl 2013 og lá matsgerð undirmatsmanns fyrir 13. júní 2014 eða um 14 mánuðum síðar. Yfirmats var krafist 21. nóvember 2014 og lá það fyrir 19. ágúst 2015 eða um níu mánuðum síðar. Eru nú liðin rétt þrjú ár frá því að hin umdeildu frumrit reikninga voru lögð fram í málinu. Auk þessara matsgerða hefur stefnandi einnig aflað álitsgerðar í málinu.
Stefnandi hefur nú óskað eftir nýju mati sem snýr að sama álitaefni og áður en aðalmeðferð hefur verið ákveðin 21. janúar nk.
Aðilum einkamáls hefur samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Sá réttur takmarkast hins vegar af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars, þar á meðal reglunni um hraða málsmeðferð sem á sér m.a. stoð í 2. mgr. 102 gr. laganna.
Fyrstu tvær spurningarnar í matsbeiðni varða báðar efni sem undir- og yfirmatsmenn hafa fjallað um og gefið álit sitt á en þriðja spurningin er um atriði sem ekki hefur áður komið fram í málinu. Ljóst er að stefnandi hefði getað komið þeirri spurningu að í fyrri matsbeiðnum en lét það undir höfuð leggjast. Verði fallist á beiðni stefnanda í málinu mun meðferð málsins fyrirsjáanlega dragast á langinn en eins og framan er rakið er dráttur á málinu orðinn ærinn vegna öflunar matsgerða. Er það því í andstöðu við fyrrgreinda meginreglu að veita frekari frest í því skyni.
Synjað verður því um umbeðna dómkvaðningu matsmanns. Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Synjað er beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.