Hæstiréttur íslands

Mál nr. 581/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Miðvikudaginn 3. september 2014.

Nr. 581/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. september 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.   

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Að virtum gögnum málsins og dómi réttarins 13. ágúst 2014 í máli nr. 537/2014 er fullnægt skilyrðum til að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr.  95. gr. laga nr. 88/2008. Verði varnaraðili sakfelldur í máli því, sem nú er rekið á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, má ætla að refsing hans verði óskilorðsbundin. Stendur því ákvæði 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 gæsluvarðhaldi ekki í vegi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. september nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 5. ágúst sl. í máli nr. [...]/[...], sem staðfestur var í Hæstarétti þann 13. ágúst sl. (mál nr. 537/2014) hafi ákærða verið gert að sæta gæslu­varð­haldi allt til þriðjudagsins 2. september kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Áður hefði ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli áður greinds lagaákvæðis með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. júlí sl. í máli nr. [...]/[...] allt til þriðjudagsins 5. ágúst kl. 16.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærði sé grunaður um auðgunarbrot, umferðarlagabrot, vopnalagabrot og fíkni­efna­lagabrot. Rannsókn málanna sé nú lokið og hafi ákæra verið gefin út þann 5. ágúst sl. á hendur ákærða af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur ákærða þann 26. ágúst sl. fyrir brot gegn valdstjórninni. Þessar ákærur hafi verið sameinaðar í héraðsdómi Reykjavíkur undir málsnúmerinu [...]/[...]. Aðalmeðferð málsins hafi farið fram þann 29. ágúst. sl. og málið verið dómtekið samdægurs.

Ákærði eigi langan sakarferil að baki þrátt fyrir ungan aldur. Hann hafi verið dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára þann 23. mars 2012 vegna brota á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 8. júní 2012 hafi ákærði verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðbundið til tveggja ára vegna brota á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hafi skilorðsdómurinn frá 23. mars 2012 verið dæmdur upp. Þann 27. júní 2012 hafi ákærð verið dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára vegna brots á almennum hegningarlögum. Þann 20. febrúar 2013 hafi ákærði verið dæmdur í átta mánaða fangelsi, þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára, vegna brota á almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Hafi skilorðsdómurinn frá 27. júní 2012 verið dæmdur upp. Þann 27. febrúar hafi ákæri verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Hafi skilorðsdómurinn frá 20. febrúar 2013 verið dæmdur upp. Þann 4. júní 2013 hafi ákærði hlotið dóm vegna brota á almennum hegningarlögum en ekki verið ekki gerð sérstök refsing. Þann 15. apríl 2014 hafi ákærði gengist undir sátt hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna brots á lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 11. júní 2014 hafi ákærði verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára. Hafi skilorðsdómurinn frá 27. febrúar 2013 verið dæmdur upp. Sá dómur hafi verið birtur ákærða 7. júlí sl. og ákærði hafi ekki áfrýjað þeim dómi.

Við rannsókn mála ákærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu.

Með vísan til framangreinds og brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Svo sem rakið er að framan bíður sakborningur nú dóms í sakamáli [...]/[...] þar sem krafist er refsingar vegna fjölda ákæruliða. Brot þau sem ákært er fyrir voru framin á tímabilinu nóvember á síðasta ári fram til 7. júlí sl. Þá hefur ákærði hlotið sjö refsidóma á sl. rúmum 2 árum og gengist undir eina lögreglusátt svo sem rakið er í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og í fyrirliggjandi sakavottorði.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. ágúst sl., sem staðfestur var í Hæstarétti þann 13. ágúst s.á., er því slegið föstu að skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi til að úrskurða ákærða í gæsluvarðhald og jafnframt að brotaferill, fíkniefnaneysla og aðstæður ákærða hafi verið þannig að ætla mætti að hann héldi áfram brotum á meðan máli hans væri ólokið og var með því talið að skilyrði c. liðar 95. gr. laganna væru fyrir hendi.

Við meðferð kröfunnar nú um áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á að aðstæður ákærða hafi breytst á þann hátt að sú hætta sem réttlætir áframhaldandi gæsluvarðhald, með vísan til framangreinds lagaákvæðis, sé liðin hjá. Verður því með vísan til þess og brotaferils ákærða fallist á það með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði séu til áframhaldandi gæsluvarðhalds. Verður krafa þar að lútandi því tekin til greina. eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. september nk. kl. 16:00