Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur


                                                                                              

Miðvikudaginn 14. maí 2014.

Nr. 327/2014.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hvorki væri fullnægt skilyrðum c. né d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli þeirra laga. Þá var ekki talið að X hefði verið gert að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið var reyna á gæsluvarðhald, svo sem áskilið væri í 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Að virtum gögnum málsins er hvorki fullnægt skilyrðum c. né d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli þeirra laga svo sem krafist er.

Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008 um breyting á þeim lögum, er heimilt að úrskurða útlending í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga nr. 88/2008, eftir því sem við á ef hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta. Einnig getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Fyrrgreind tilvísun í reglur laga nr. 88/2008 felur það eitt í sér að um meðferð máls fer samkvæmt þeim lögum eftir því sem við á, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2013 í máli nr. 781/2013.

Varnaraðili er meðal annars sakaður um líkamsárás 30. janúar 2014 og hótunarbrot 25. mars sama ár. Er fyrrnefnda brotið talið varða við 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hið síðara 233. gr. sömu laga. Þá er hann sakaður um að hafa sýnt starfsmanni Landspítalans ógnandi hegðun 9. maí 2014. Samkvæmt þessu er fullnægt því skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 að varnaraðili hafi sýnt af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta.

Í athugasemdum með 18. gr. frumvarps til áðurnefndra laga nr. 86/2008 um breyting á 29. gr. laga nr. 96/2002, segir meðal annars að nauðsynlegt sé í tilvikum eins og því er hér um ræðir að lögregla geti lagt fyrir viðkomandi útlending að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald. Með „afmörkuðu svæði“ sé til dæmis átt við tiltekinn bæjarhluta, gistiheimili eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem um ræði. Til þessa úrræðis hefur ekki verið gripið af hálfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2014.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að útlendingur sem kveðst heita [...], fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. júní 2014, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að þann 13. maí 2011 hafi Fjölskyldu- og félagsþjónustan í [...] tekið á móti hælisleitandanum [...] og fjölskyldu hans. Í samskiptum Félagsþjónustunnar og [...] hafi fljótlega komið í ljós erfiðleikar sem hafi stigmagnast jafnt og þétt og loks leitt til þess að þann 29. apríl s.l. hafi [...] verið lagður inn á geðdeild Landspítalans vegna gruns um að hann væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Þá hafi [...] einnig ítrekað lent upp á kannt við aðra hælisleitendur í [...] og aðra aðila sem komi að málefnum hælisleitenda í [...]. Vísast í þessu skyni til bréfs félagsþjónustu [...] til Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2014. Þá hafi [...] einnig stöðu sakbornings í málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu og varði m.a. meint brot hans gegn 2. mgr. 218. gr., 233. gr., 244. gr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Síðdegis í gær, þann 9. maí 2014 hafi [...] verið útskrifaður af geðdeild Landspítalans þar sem starfsmenn Landspítalans hafi ekki talið á það hættandi, vegna öryggis starfsmanna og sjúklinga deildarinn, að vista hann lengur á Landspítalanum.

Afskipti lögreglu af [...]  frá 11. ágúst 2013

Lögreglumál nr. 008-2013-10403, brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga

Í málinu hafi [...] verið kærður til lögreglu vegna meintrar líkamsárásar, hans gegn hælisleitandanum [...], f.d. [...], þann 11.08.2013. Atvik málsins hafi verið þau að [...] hafi lent í átökum við framangreindan aðila á heimili aðilans. Hafi þeir báðir hlotið nokkra áverka í slagsmálunum. Málið hafi verið fellt niður af ákæruvaldinu á grundvelli 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem sönnunarstaðan í málinu hafi verið talin vera með þeim hætti að ekki væri unnt að fullyrða hvor hefði ráðist á hvorn. Þó hafi verið ljóst skv. framburði [...] og aðilans og gögnum málsins að átök höfðu átt sér stað en þeim hafi ekki borið saman um það hvers vegna og hver hefði átt frumkvæðið af þeim.

Lögreglumál nr. 008-2013-10461, fyrirmælum lögreglu ekki fylgt

Þann 12. ágúst 2013, hafi lögreglu borist tilkynning um aðila sem væri með hníf við bensínstöð Olís í Reykjanesbæ. [...] hafi skömmu síðar komið á lögreglustöðina og kvaðst hann hafa lent í útistöðum við menn á þeim stað sem lögreglu hafði skömmu áður borist tilkynning um. Enginn hnífur hafi fundist á [...] við komu hans á lögreglustöðina. Hafi [...] í kjölfarið verið bent að fara til síns heima og halda sig þar. Skömmu síðar hafi lögreglumenn rekist á [...] þar sem hann kvaðst ekki vera á leið heim til sín heldur á Gistiheimili í bænum og hafi hann ekki viljað fylgja fyrirmælum lögreglu um að halda heim á leið og hafi hann því verið handtekinn og færður á lögreglustöðina þar sem hann hafi verið vistaður í fangaklefa. Skömmu síðar hafi lögregla komið að [...] þar sem hann hafði vafið teppi um hálsinn á sér og var við það að reyna að hengja sig. Skömmu síðar hafi lögregla komið að [...] þar sem hann hafi verið við það að skrapa á sér úlnliðinn með pappaglasi. Í ljósi þessa hafi verið höfð mikil aðgát þegar [...] hafi fengið að borða, honum hafi þó tekist að brjóta úr plastskeið sem hann hafði haft til afnota. Skömmu síðar hafi [...] kvartað undan eymslum í hálsi og sagðist þá hafa gleypt brotið. Hafi [...] jafnframt kvartað undan því að fá ekki að taka líf sitt. Sökum alls þessa hafi verið gripið til þess að kalla til lækni sem hafi skömmu síðar komið á lögreglustöðina og hafi læknirinn tekið þá ákvörðun að svipta [...] sjálfræði og hafi hann í kjölfarið verið fluttur á geðdeild Landspítalans. Hafi hann verið útskrifaður næsta dag af geðdeildinni.

Lögreglumál nr. 007-2013-57964, 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga

Þann 1. nóvember 2013 hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um yfirstandandi slagsmál í Kringlunni þar sem hnífum hafi verið beitt. Í málinu hafi [...] verið handtekinn ásamt öðrum manni vegna slagsmála sem hafi brotist út á milli [...] og félaga hans og tveggja annarra manna. Hafi annar árásarþolanna verið stunginn í tvígang með hníf af samverkamanni [...]. Sé málið nú til afgreiðslu hjá ríkissaksóknara og sé þess beðið að ákvörðun verði tekin um hvort ákæra verði gefin út vegna málsins og þáttar [...] í málinu.

Lögreglumál nr. 007-2013-64299, 244. gr. almennra hegningarlaga

Þann 6. desember 2013 hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning vegna tveggja manna sem hafi verið staðnir að þjófnaði í verslun Hagkaupa í Kringlunni. Hafi þar verið um að ræða [...] ásamt öðrum aðila. Hafi þeir haft íþróttatöskur meðferðis sem hafi verið fullar af meintu þýfi. Þá hafi jafnframt fundist hnífar á þeim. Kvaðst samverkamaður [...] hafa hnífinn meðferðis til að verja sig en [...] kvaðst hafa hnífinn til að gera að fiski. Málið sé til afgreiðslu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglumál nr. 008-2014-1162, 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga

Þann 30. janúar 2014 hafi lögreglu verið tilkynnt um líkamsárás þar sem [...] var grunaður um að hafa ráðist á hælisleitanda í Reykjanesbæ. Samkvæmt lýsingum vitna hafi verið um [...] að ræða og hafi hann gengið harkalega í skrokk á brotaþola og sparkað m.a. í höfuð hans. Svo virðist sem árásin hafi verið algerlega tilefnislaus. [...] hafi verið yfirheyrður vegna málsins í dag.

Lögreglumál nr. 008-2014-3460, fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt og 233. g. almennra hegningarlaga

Þann 24. mars 2014 hafi lögreglu borist beiðni um aðstoð frá Félagsþjónustu Reykjanesbæjar vegna [...] og fjölskyldu hans. Ekkert hafi heyrst frá [...] í nokkrar vikur og hafi hann ekki sinnt fyrirspurnum félagsþjónustunnar. Þá hafi börn [...] og eiginkonu hans ekki farið í leikskóla í nokkurn tíma. Knúði lögregla dyra en hafi ekki fengið svar þó augljóst væri að einhver væri á heimilinu. Hafi lögregla því gripið til þess ráðs að kalla til lásasmið sem hafi opnað útidyrahurðina. Hafi þá komið til átaka við [...] sem hafi ekki viljað hleypa lögreglu og starfsmanni félagsþjónustunnar inn. Hafi það því farið svo að lögregla hafi þurft að beita [...] valdi og hafi hann verið handtekinn og færður á lögreglustöðina. Í kjölfar aðgerða lögreglu hafi [...] hótað starfsmanni félagsþjónustunnar líkamsmeiðingum og hafi starfsmaðurinn lagt fram kæru á hendur [...]. sé málið til rannsóknar hjá lögreglu og hafi [...] verið yfirheyrður vegna málsins í dag.

Lögreglumál nr. 008-2014-4235, 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga

Þann 11. apríl 2014 hafi lögreglu borist ósk um aðstoð frá Félagsþjónustunni í [...] vegna [...]. Við könnun stafsmanna Félagsþjónustunnar á högum [...]og fjölskyldu hans hafi komið í ljós að [...] kvaðst vera kominn í hungurverkfall. Við skoðun á húsnæði fjölskyldunnar að [...],[...], sem Félagsþjónustan leigi fyrir [...] og fjölskyldu hans, hafi komið í ljós að töluverð eignaspjöll hafi verið unnin á íbúðinni. Þannig hafi sófa sem hafi verið í íbúðinni verið hent út, skemmdir hafi verið unnar á útidyrahurð, eldhúsinnréttingu, baðinnréttingu, útveggja klæðningu o.fl. Sé áætlað tjón vegna eignaspjallanna kr. 1.423.779-. Vísast í þessu skyni til meðfylgjandi skjals sem beri heitið gróf kostnaðaráætlun v/[...]. Hafi eigandi húsnæðisins lagt fram kæru hjá lögreglu vegna eignaspjallanna og hafi [...] verið yfirheyrður vegna þeirra í morgun.

Lögreglumál nr. 008-2014-4440, eftirlit lögreglu með heimilisaðstæðum hjá [...] og fjölskyldu

Vegna þeirra atvika sem á undan höfðu gengið, einkum yfirlýsinga [...] um hungurverkfall hans hafi lögregla hafið daglegt eftirlit með [...] og fjölskyldu hans. Hafi ákvörðunin um eftirlitið verið tekin af lögreglu eftir samráð við Félagsmálayfirvöld og Útlendingastofnun. Hafi eftirlitið hafist þann 16. apríl s.l. og staðið til 29. apríl s.l. þegar [...] hafi verið lagður inn á geðdeild. Eftirlitið hafi farið vel af stað og hafi [...] og fjölskylda hans verið jákvæð við lögreglu og hleypti lögreglu inn á heimilið. Eftir því sem hafi liðið á eftirlitið hafi lögregla mátt greina viðhorfsbreytingu hjá [...] gagnvart eftirlitinu. Þann 29. apríl s.l. hafi lögreglu borist ósk um aðstoð frá Félagsmálayfirvöldum í [...] þar sem til hafi staðið að fara inn í íbúðina til að laga leka í eldhúsi íbúðarinnar. Við skoðun á íbúðinni hafi mátt sjá að búið hafi verið að vinna miklar skemmdir á íbúðinni til viðbótar við þær skemmdir sem kærðar hafi verið í lögreglumáli nr. 008-2014-4235. Þá hafi starfsmaður félagsstofnunar einnig komið að sprittkerti sem logaði og hafi verið á blaðabunka án þess að nokkuð væri á milli. Vegna eldhættu hafi verið slökkt á kertinu.

Lögreglumál nr. 008-2014-4929, 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga

Vegna tilkynningar starfsmanns Félagsþjónustunnar um meint eignaspjöll og hugsanlega tilraun til íkveikju hafi [...] verið handtekinn í þeim tilgangi að taka af honum skýrslu vegna málsins. Hafi [...] verið vistaður í fangaklefa áður en taka hafi átt skýrslu af honum. Eftir að [...] hafði verið skamma stund í fangaklefanum hafi lögregla komið að honum þar sem hann hafi verið við það að bíta sig í úlnliðinn við púls þannig að úr fór að blæða. Hafi lögregla rætt við [...] og hafi hann lofað hann að haga sér skynsamlega. Skömmu síðar hafi heyrst hljóð úr klefa [...] og við könnun lögreglu hafi mátt sjá að [...] hafi verið búinn að vefja teppi utan um hálsinn á sér og hafði hert að. Hafi [...] verið mjög rauður í framan þegar lögregla hafi komið að og hafi hann virst við það að vera að missa andann. Hafi því verið kallaður til læknir til að líta á hann. Áður en læknirinn hafi komið á lögreglustöðina hafi [...] verið byrjaður að skalla höfði sínu í veggi fangaklefans. Hafi því verið gripið til þess að binda [...] niður uns læknirinn hafi komið. Hafi það farið svo að [...] hafi verið færður á geðdeild.

Vist [...] á geðdeild

Samkvæmt samtali við starfsmenn geðdeildar Landspítalans hafi í fyrstu verið grunur um alvarlegt geðrof hjá [...]. Eftir því sem leið á dvöl hans hafi læknar talið ljóst að [...] væri ekki geðveikur í þeim skilningi að nauðsynlegt væri að nauðungarvista hann lengur en til næst komandi mánudags, þ.e. 12. maí 2014. Eftir nokkra daga á deildinni hafi [...] verið farinn að sýna af sér ógnandi hegðun í garð starfsfólks og sjúklinga. Hafi það farið svo að lögregla hafi verið kölluð til í gær, 9. maí s.l. vegna sífellt alvarlegri ögranna [...]. Atvikið sem hafi orðið til þess að starfsmenn geðdeildar Landspítalans ákváðu að kalla til lögreglu hafi verið með þeim hætti að [...] sætti sig ekki við þann kvöldmat sem honum hafi staðið til boða. Hafi hann óskað eftir öðrum mat en ekki hafi verið unnt að verða við því. Hafi [...] brugðist illa við þeim tilmælum og gripið gítar sem hann hafi sveiflað í kringum sig uns hann hafi kastað honum í áttina að stafsmanni deildarinnar. Hafi gítarinn lent á vegg skammt frá starfsmanninum og brotnað. Hafi atvikið verið litið alvarlegum augum og hafi starfsmenn deildarinnar ekki treyst sér til að vista [...] lengur af ótta við hann. Hafi [...] verið handtekinn í kjölfarið og færður á lögreglustöðina í Reykjanesbæ.

Ferill erlendis

Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, sem hafi borist frá skrifstofu alþjóðalögreglunar Interpol í Danmörku sé [...] þekktur af þarlendum lögregluyfirvöldum vegna ofbeldismála. Sé [...] reyndar þekktur af þarlendum yfirvöldum undir öðru nafni og öðrum fæðingardegi, skv. upplýsingum frá dönsku lögreglunni sé [...] þekktur þar í landi undir nafninu [...], f.d. [...]. Hafi samanburður á fingraförum leitt í ljós að um sama aðilann sé að ræða þrátt fyrir mismunandi nöfn og fæðingardag.

Sem stendur vinni Alþjóðadeild nú að því að staðreyna þessar upplýsingar og afla frekari upplýsingar um þau mál sem kunni að varða [...].

Staða máls innan stjórnsýslunnar

Samkvæmt upplýsingum frá Innanríkisráðuneytinu muni úrskurður í máli [...] og fjölskyldu hans liggja fyrir strax eftir helgi vegna umsóknar hans um hæli hér á landi. Verði niðurstaðan í því máli sú að [...] verði synjað um hæli hér á landi liggi fyrir að Útlendingastofnun mun í kjölfarið taka ákvörðun um brottvísun [...] og fjölskyldu hans af landinu á grundvelli ákvæða útlendingalaga nr. 96/2002.

Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Kröfu þessa byggi lögreglustjóri á 7. mgr. gr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002. En þar segi m.a. að ef útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta sé heimilt að handtaka hann og úrskurða í gæsluvarðhald. Vísast í þessu skyni einnig til nefndarálits allsherjarnefndar Alþingis Íslands varðandi ákvæði 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga þar sem segir: „Virðist nauðsynlegt að hnykkja á þeirri meginreglu að þeir útlendingar sem ekki liggur fyrir hverjir eru, eða sýni af sér hegðun sem bendi til þess að af þeim stafi hætta, eiga ekki rétt á að ganga lausir hér á landi.“

Af framansögðu og með vísan til annarra gagna málsins þá telji lögregla það ljóst að kærði hafi á undanförnum mánuðum sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta og að hann kunni að grípa til frekari ofbeldis eða hótana um ofbeldi gangi hann laus. Þá telji lögregla jafnframt, í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga frá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, að rökstuddur grunur sé um að [...] hafi gefið yfirvöldum hér á landi rangar upplýsingar um það hver hann sé. Vísast í þessu skyni til 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 og c og d liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. júní 2014, kl. 16:00.

Fram kemur í beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum að sakarefni þeirra mála sem kærði sé hugsanlega viðriðinn, séu talin varða við 2. mgr. 218. gr., 233. gr., 244. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 sbr. c. og d. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Eins og rakið er að framan er kærði undir rökstuddum grun um að framið fjölda afbrota. Hafa verið talin til brot eins og líkamsárásir, þjófnaður, hótanir og stórfelld eignaspjöll auk þess sem kærði hefur komið við sögu í fleiri málum. Í nokkrum þessara mála hafa hnífar komið við sögu. Eins og rakið er í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum þá kom kærði til landsins sem hælisleitandi í maí 2011. Fljótlega hafi farið að bera á því að kærði ætti í erfiðleikum í samskiptum sínum við annað fólk. Hafi kærði þannig verið ógnandi og hótandi í garð starfsmanna félagsþjónustu [...] og gengið í skrokk á öðrum hælisleitendum. Kvartanir í hans garð hafi einnig komið frá atvinnurekanda hans og presti fjölskylduþjónustunnar sem taldi kærða geta verið hættulegan öryggi fólks ef hann yrði reiður. Af málsgögnum má ætla að þessi hegðun hans hafi stigmagnast sérstaklega í garð starfsfólks félagsþjónustu [...]. Í ágúst 2013 hafi hann ráðist með höggum og spörkum í andlit annars hælisleitanda á heimili hans og hafi kærði verið vistaður í einn sólarhring á geðdeild í framhaldi af því. Frá því í nóvember 2013 liggi fyrir grunur um aðild kærða í að minnsta kosti fimm refsimálum, í öllum tilfellum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum eins og að framan er rakið. Kærði mun hafa verið lagður inn á geðdeild þann 29. apríl s.l. í framhaldi af ítrekuðum eignaspjöllum og hugsanlegri tilraun til íkveikju í apríl s.l. Þann 9. maí s.l mun geðdeild Landspítalans hafa haft samband við lögreglu vegna ógnandi hegðunar kærða í garð starfsfólks og sjúklinga og sífellt alvarlegri ögranna. Hafi það endað með því að kærði hafi sveiflað í kring um sig gítar og kastað í átt að starfsmanni geðdeildar og mun tilviljun ein hafa ráðið því að ekki varð af líkamstjón. Hafi kærði verið handtekinn í kjölfar þessa en starfsmenn geðdeildar hafi ekki treyst sér til þess að vista kærða lengur af ótta við hann. Hafi það verið mat geðdeildar að hann væri ekki geðveikur í þeim skilningi að nauðsynlegt væri að nauðungarvista hann lengur.

                Í gögnum málsins kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum frá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra sem hafi borist frá Interpol í Danmörku þá sé kærði þekktur af þarlendum lögregluyfirvöldum vegna ofbeldismála og sé reyndar þekktur af þarlendum yfirvöldum undir öðru nafni og öðrum fæðingardegi. Hafi samanburður á fingraförum leitt í ljós að um sama aðila sé að ræða.

Í 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 kemur fram að ef útlendingur neiti að gefa upp hver hann sé, rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann sé eða hann sýni af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við eigi. Einnig geti lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.

Fram kemur í gögnum málsins að félagsþjónusta [...] leigi fyrir kærða og fjölskyldu hans húsnæði í [...]. Kærði býr því ekki með öðrum hælisleitendum og er því þegar á afmörkuðu svæði í þeim skilningi en það virðist ekki koma í veg fyrir hegðun hans gagnvart öðrum hælisleitendum í það minnsta. Í máli verjanda kærða kom fram að hann teldi að kærði ætti frekar heima á geðdeild en ekki í fangelsi þar sem hann gæti orðið sjálfum sér að skaða. Eins og að framan er rakið þá kemur fram í gögnum lögreglu að samkvæmt læknisfræðilegu mati sé kærði ekki geðveikur í þeim skilningi að nauðsynlegt sé að nauðungarvista hann lengur. Þá treysti starfsmenn geðdeildar sér ekki lengur að vista hann af ótta við hann. Að mati dómsins hafa önnur úrræði en gæsluvarðhald verið fullreynd. Þá er að mati dómsins ekki sýnt, verði kærði sakfelldur af öllum framangreindum brotum að þau muni aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu miðað við aðstæður.

Með vísan til þessa og nánari lýsinga á málsatvikum í greinargerð lögreglustjóra þykir hafa verið sýnt fram á það að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið mörg afbrot á síðustu mánuðum sem fangelsisrefsing liggur við. Þá þykir hafa verið sýnt fram á að hegðun kærða gefi til kynna að af honum stafi hætta og ætla megi að kærði haldi brotastarfsemi sinni áfram meðan framangreindum málum hans er ekki lokið, fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum, 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, sbr. c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði nema að því leyti að ekki þykir hafa verið sýnt fram á að skilyrði d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eigi við.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Útlendingur sem kveðst heita [...], fd. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní 2014, kl. 16:00.