Hæstiréttur íslands
Mál nr. 274/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Föstudaginn 27. maí 2011. |
|
Nr. 274/2011.
|
Arion banki hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Agla ehf. (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A hf. um að bú A ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. A ehf. gerði lánssamning 26. febrúar 2007 við S sem A hf. mun hafa yfirtekið frá 1. júlí 2010. Samkvæmt samningnum fékk A ehf. 25.000.000 króna lán til allt að þriggja ára í tiltekinni myntkörfu og skyldi endurgreiða lánið að fullu 10. mars 2010. J gekkst í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldarinnar í formi tryggingarvíxla og mun S hafa verið veitt allsherjarveð í nánar tiltekinni fasteign J fyrir skuld að fjárhæð allt 15.000.000 krónur með tryggingarbréfi 14. maí 2008. Munu 4.435.659 krónur hafa greiðst upp í framangreinda skuld. Með bréfi 3. september 2010 skoraði A hf. á A ehf. að lýsa því yfir skriflega að honum yrði fært að greiða kröfu samkvæmt samningnum sem næmi alls 78.851.791 krónu innan þriggja vikna að því viðlögðu að A hf. krefðist gjaldþrotaskipta á búi hans. Fyrir dómi reisti A ehf. mótmæli sín gegn kröfu A hf. einkum á því að lánssamningurinn hefði að geyma ákvæði um ólögmæta gengistryggingu sem virða bæri að vettugi í ljósi tiltekinna dóma Hæstaréttar, svo og á því að krafa A hf. væri tryggð með veði í fasteign J og fé sem A ehf. ætti á bundnum reikningi hjá A hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að án tillits til málsástæðna A ehf., sem lytu að gengistryggingu lánssamningsins, yrði ekki horft framhjá því að ekkert hefði komið fram til að hnekkja þeirri ályktun í hinum kærða úrskurði að krafa A hf. á hendur A ehf. gæti ekki verið lægri en sem næmi upphaflegum höfuðstól skuldarinnar á frádregnum innborgunum. Af hálfu A ehf. hefði ekki verið vikið að því að honum yrði innan skamms tíma fært að standa skil á lágmarksfjárhæð skuldarinnar eða að hann ætti eignir sem hrokkið gætu til tryggingar henni. Var A ehf. ekki talinn hafa sýnt fram á að krafa A hf. væri nægilega tryggð með veði í eignum hans eða þriðja manns eða með ábyrgð þriðja manns sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Væri því fullnægt skilyrðum 5. töluliðar 2. mgr. sömu lagagreinar til að taka bú A ehf. til gjaldþrotaskipta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili lánssamning 26. febrúar 2007 við Sparisjóð Mýrasýslu, sem með samþykki Fjármálaeftirlitsins 21. desember 2010 hefur verið yfirtekinn af sóknaraðila frá 1. júlí sama ár að telja. Í samningnum var kveðið á um að varnaraðili fengi lán „til allt að 3 ára að fjárhæð að jafnvirði kr. 25.000.000“, sem skyldi vera „í eftirfarandi myntkörfu, hlutfall myntar er innan sviga: CHF (50%) og JPY (50%)“. Lánið átti að endurgreiða „að fullu ... þann 10. mars 2010“, en bera svokallaða þriggja mánaða LIBOR vexti eins og þeir yrðu ákveðnir fyrir þessa gjaldmiðla hverju sinni að viðbættu 2,7% vaxtaálagi, sem greiða ætti ársfjórðungslega á lánstímanum, í fyrsta sinn 10. júní 2007. Þá var í samningnum svofellt ákvæði: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar setur Jón Snorri Snorrason ... að handveði 40.000 hluti í Kaupþingi hf. ... auk þess sem Jón Snorri gengst í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldarinnar í formi tryggingarvíxla að fjárhæð CHF 256.000 og JPY 25.000.000.“ Lán þetta mun hafa komið til útborgunar 1. mars 2007. Af gögnum málsins virðist mega ráða að Sparisjóði Mýrasýslu hafi verið veitt allsherjarveð í nánar tiltekinni fasteign áðurnefnds Jóns Snorra fyrir skuld að fjárhæð allt að 15.000.000 krónur með tryggingarbréfi 14. maí 2008, en ætla verður að óumdeilt sé að handveðréttur í hlutum í Kaupþingi banka hf. teljist nú einskis virði. Um víxla, sem virðist hafa átt að gera til tryggingar áðurgreindum fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum, liggur ekkert frekar fyrir í málinu. Samkvæmt yfirliti, sem sóknaraðili lagði fram í héraðsdómi, munu samtals 4.435.659 krónur hafa greiðst upp í framangreinda skuld, en með bréfi 3. september 2010 skoraði hann á varnaraðila að lýsa því yfir skriflega að honum yrði fært að greiða kröfu samkvæmt lánssamningnum, sem næmi alls 78.851.791 krónu, innan þriggja vikna að því viðlögðu að sóknaraðili krefðist gjaldþrotaskipta á búi hans. Með bréfi 25. nóvember 2010 mótmæli varnaraðili áskorun sóknaraðila, en gaf enga yfirlýsingu af þeim toga, sem hún sneri að. Í framhaldi af því krafðist sóknaraðili þess 13. desember 2010 að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Varnaraðili andmælti þeirri kröfu fyrir dómi og var henni hafnað með hinum kærða úrskurði.
Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdóms hefur varnaraðili reist mótmæli sín gegn kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti einkum á því að lánssamningurinn frá 26. febrúar 2007 geymi ákvæði um ólögmæta gengistryggingu, sem virða beri að vettugi í ljósi dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010, svo og að krafa sóknaraðila sé tryggð með veði í fyrrnefndri fasteign Jóns Snorra Snorrasonar og fé, sem varnaraðili eigi á svokölluðum bundnum reikningi hjá sóknaraðila nr. 0354-13-552100. Án tillits til málsástæðna varnaraðila, sem lúta að gengistryggingu lánssamningsins, verður ekki horft fram hjá því að ekkert er fram komið til að hnekkja þeirri ályktun í hinum kærða úrskurði að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila geti ekki verið lægri en sem nemi upphaflegum höfuðstól skuldarinnar, eins og hann var sagður jafngilda fjárhæð í íslenskum krónum, að frádregnum áðurgreindum innborgunum eða 20.564.341 krónu. Hvorki var í svari varnaraðila 25. nóvember 2010 við áskorun sóknaraðila né greinargerð þess fyrrnefnda fyrir héraðsdómi vikið að því að honum yrði innan skamms tíma fært að standa skil á þessari lágmarksfjárhæð skuldarinnar eða að hann ætti eignir, sem hrokkið gætu til tryggingar henni. Samkvæmt gögnum, sem lögð voru fram í héraði, er fasteignamatsverð þeirrar eignar, sem sóknaraðili virðist njóta veðtryggingar í fyrir kröfu sinni, 22.800.000 krónur og brunabótamatsverð 24.940.000 krónur, en á undan kröfu sóknaraðila stendur í veðröð verðtryggt skuldabréf frá 3. febrúar 2005 að upphaflegri fjárhæð 20.400.000 krónur. Á áðurnefndum bankareikningi varnaraðila hjá sóknaraðila stóðu samkvæmt framlögðu yfirliti 526.885 krónur í árslok 2010. Varnaraðili hefur því ekki sýnt fram á að krafa sóknaraðila með áðurgreindri lágmarksfjárhæð sé nægilega tryggð með veði í eignum hans eða þriðja manns eða með ábyrgð þriðja manns, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Að þessu virtu er fullnægt skilyrðum 5. töluliðar 2. mgr. sömu lagagreinar til að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta eftir kröfu sóknaraðila, en í ljósi þess, sem að framan greinir, getur þar engu breytt þótt áskorun sóknaraðila 3. september 2010 kunni að hafa varðað hærri heildarfjárhæð skuldar en rétt gæti reynst.
Samkvæmt framangreindu verður krafa sóknaraðila tekin til greina og varnaraðila gert að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Bú varnaraðila, Agla ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Arion banka hf., samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011.
Sóknaraðili, Arion banki, kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, krafðist þess með bréfi er barst dóminum 17. desember 2010 að bú varnaraðila, Agli ehf., kt. 711001-2710, Suðurhlíð 38c, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili mótmælir kröfunni og var rekið ágreiningsmál þetta, sem var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 6. apríl sl. Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar í þessu ágreiningsmáli.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
Krafa sóknaraðila er byggð á 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Hann beindi áskorun til varnaraðila um að hann lýsti félagið greiðslufært og að það gæti greitt tilgreindar skuldir við sóknaraðila innan tveggja vikna. Áskorun þessi var birt forsvarsmanni varnaraðila 21. október 2010.
Krafa sóknaraðila er samkvæmt lánssamningi dags. 26. febrúar 2007 milli varnaraðila og Sparisjóðs Mýrasýslu, en sóknaraðili tók yfir Sparisjóð Mýrasýslu á síðasta ári. Samningurinn var um lán „ að fjárhæð að jafnvirði kr. 25.000.000 “ Nokkru síðar segir: „Lánið skal vera í eftirfarandi myntkörfu, hlutfall myntar er innan sviga: CHF (50%) og JPY (50%).“
Í áskorun er lýst kröfu sem sögð er nema samtals 78.851.379 krónum. Er þá reiknað samkvæmt sölugengi japansks jens og svissnesks franka 2. september 2010. Krafan er sundurliðuð nánar þannig að höfuðstóll, vextir og dráttarvextir nemi JPY 29.045.874 og CHF 299.725,69. Þá er innheimtuþóknun og bankakostnaður auk virðisaukaskatts samtals 1.876.379 krónur. Í gjaldþrotabeiðni er krafan sögð nema samtals 64.789.944 krónum, en þar er miðað við gengi 10. desember 2010. Innheimtuþóknun er þá reiknuð 1.533.285 krónur.
Lögmaður varnaraðila ritaði sóknaraðila bréf dags. 25. nóvember 2010. Þar er mótmælt tveimur bréfum sóknaraðila, sennilega áðurgreindri áskorun og fyrra innheimtubréfi. Lögmaðurinn kveðst í bréfinu mótmæla því að bankinn hyggist innheimta kröfur, sem dæmdar hafi verið ólögmætar með dómum Hæstaréttar. Ekki er vikið að greiðslufærni félagsins í bréfinu.
Varnaraðili byggir á því að umræddur lánssamningur hafi verið um lán í íslenskum krónum, en skuldin verðtryggð miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík verðtrygging sé ógild samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, svo sem margdæmt hafi verið í Hæstarétti. Sóknaraðili hafi ekki reynt að reikna skuldina rétt.
Þá byggir varnaraðili á því að efnahagshrunið og afleiðingar þess séu svokallað „force majeure“ tilvik. Því ætti að telja lánssamninginn ógildan.
Þá bendir varnaraðili á að margnefnd áskorun sé röng samkvæmt útreikningum sóknaraðila sjálfs. Fjárhæð bæði í japönskum jenum og svissneskum frönkum sé lægri í gjaldþrotabeiðni en í áskoruninni. Byggir varnaraðili á því að röng áskorun geti ekki orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta. Þá bendir varnaraðili á mjög háa þóknun sem sóknaraðili áskilji sér fyrir innheimtu kröfunnar.
Varnaraðili telur að erindi sín til sóknaraðila um réttlátt skuldauppgjör hafi ekki hlotið réttláta meðferð. Vísar hann hér til laga nr. 107/2009. Ritaði hann Eftirlitsnefnd með skuldaaðlögun fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins bréf dags. 22. mars 2011.
Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili eigi veð til tryggingar skuldinni í fasteign að Suðurhlíð 38c í Reykjavík. Þá eigi varnaraðili fé á innlánsreikningum hjá sóknaraðila.
Varnaraðili kveðst telja sig geta greitt allar rétt reiknaðar skuldir sínar, sérstaklega ef hann fái sanngjarnt uppgjör sem hann eigi rétt á. Ekki hafi verið staðfest að hann geti ekki greitt skuldir sínar.
Varnaraðili bendir á í greinargerð sinni að sóknaraðili geri ekki í beiðni sinni grein fyrir því hvernig hann hafi eignast kröfuna. Er sóknaraðili lagði fram skjöl um yfirtöku sína á Sparisjóði Mýrasýslu taldi varnaraðili að þessi málsástæða væri of seint fram komin.
Þá eru í greinargerð bollaleggingar um það að sóknaraðili sé að innheimta af fullu afli ólögmætar kröfur. Er þessu lýst nokkru nánar. Segir hann að þessi háttsemi hljóti að teljast refsiverð.
Auk þeirra lagareglna er áður getur vísar varnaraðili til 18. gr. laga nr. 38/2001, 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán.
Sóknaraðili lagði ekki fram greinargerð. Í málflutningi mótmælti hann því að fjallað yrði um mótmæli varnaraðila. Í greinargerð hans væri að finna fyrirsögnina Málavextir, en ekki neinar málsástæður. Væri of seint að reifa þær í munnlegum málflutningi.
Þá mótmælti sóknaraðili því að lánið væri ólögmætt. Skuldin væri í erlendri mynt eins og heimilt væri. Þá sagði hann að ekki skipti máli þótt röng fjárhæð skuldar kæmi fram í áskorun. Í raun væri ekki nauðsynlegt að tilgreina nokkra fjárhæð í áskorun.
Sóknaraðili mótmælti því að lög nr. 107/2009 ættu hér við, það væri ósannað. Ennfremur væri ósannað að tryggingar sem hann hefði og innstæða á reikningi varnaraðila dygði til greiðslu allrar skuldarinnar.
Niðurstaða
Í greinargerð varnaraðila er lýst málsatvikum og málsástæðum hans undir fyrirsögninni Málavextir. Í greinargerðinni koma fram í skýru máli staðhæfingar um málsatvik, sem öllum má vera ljóst að fela í sér málsástæður varnaraðila. Ekki skiptir máli þó að hann hafi ekki létt lesturinn með millifyrirsögninni Málsástæður.
Sóknaraðili lagði fram í dóminum áskorun eins og rætt er um í 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga. Hann lagði einnig fram birtingarvottorð þar sem stefnuvottur staðfestir að hafa birt greiðsluáskorun fyrir forsvarsmanni varnaraðila þann 21. október 2010. Í málflutningi skýrði lögmaður sóknaraðila þessa tilgreiningu svo að ekki hefði verið útbúið heiti fyrir þessa tegund áskorunar í tölvukerfi sínu.
Varnaraðili heldur því fram að áskorunin hafi verið birt seint í nóvember og lögmaður sinn hafi svarað degi síðar. Hann mótmælir því ekki að áskorunin hafi verið birt. Svar lögmannsins við áskoruninni var hins vegar ekki fullnægjandi. Hann lýsti því ekki að varnaraðili gæti staðið í skilum við sóknaraðila innan tíðar. Verður því að líta svo á að áskorun hafi verið birt og að henni hafi ekki verið svarað réttilega. Reynir þá á frekari málsástæður varnaraðila sem hann telur að komi í veg fyrir gjaldþrotaskipti.
Lánssamningur aðila fjallar um lán að jafnvirði 25 milljóna íslenskra króna, í tiltekinni myntkörfu. Þarf ekki að hafa frekari orð um að þetta er lán í íslenskum krónum, gengistryggt. Þessi háttur á verðtryggingu hefur í dómaframkvæmd verið talinn óheimill. Hefur Hæstiréttur talið að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laganna séu ófrávíkjanlegar og því verði ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Skuldin er hins vegar ekki fallin brott, hvorki vegna þess að hún teljist ólögmæt, né að hún sé ógild af öðrum ástæðum. Ber að reikna skuldina á ný í samræmi við þær leiðbeiningar sem lesnar verða úr fordæmum Hæstaréttar.
Sóknaraðili lagði fram við munnlegan flutning málsins yfirlit um skuld varnaraðila. Skjalið er ekki skilmerkilegt í tengslum við þau álitamál sem hér eru uppi. Sóknaraðili hélt því fram í málflutningi að vextir hefðu ekki verið greiddir að fullu. Nánari skýring var ekki gefin á þessu. Ekki er reifað skýrlega hvenær vanskil urðu á láninu. Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var. Er málið ekki reifað nægilega af hálfu sóknaraðila til að unnt sé að reikna skuld varnaraðila. Verður að líta til þess að höfuðstóll nam 25.000.000 króna, en greiddar hafa verið samtals 4.435.659 krónur. Skuldin er því sennilega ekki lægri en 20.564.341 króna. Hversu mikið hærri hún með réttu er verður ekki reiknað út frá framlögðum gögnum. Rétt væri að bæta við innheimtukostnaði, en þóknun sú sem sóknaraðili reiknar sér í gjaldþrotabeiðni er óhæfileg.
Samkvæmt þessu skoraði sóknaraðili á varnaraðila að lýsa sig færan um að greiða nærri fjórfalt hærri skuld en hann hefur sýnt fram á fyrir dóminum að hann geti krafið hann um. Ekki er unnt að fallast á það með sóknaraðila að ekki þurfi að tilgreina fjárhæð í áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga. Af sjálfu leiðir að áskorun um að lýsa sig færan til greiðslu hlýtur að miða við ákveðna fjárhæð. Þá mótmælti varnaraðili kröfunni með bréfi. Að öllu virtu verður ekki fallist á að fullnægt sé skilyrðum greinds ákvæðis gjaldþrotalaganna. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað og honum gert að greiða varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Arion banka hf., um að bú varnaraðila, Agli ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.