Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Miðvikudaginn
26. mars 2014. |
|
Nr.
194/2014. |
Guðjón Sigurðsson (Jónas
Örn Jónasson, hdl.) gegn Flóahreppi (Óskar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Kærður var úrskurður
héraðsdóms þar sem G var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í
máli sínu á hendur F. Kröfu sinni til stuðnings vísaði F til þess að fyrir lægi
að G hefði sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, en í þeirri umsókn
fælist viðurkenning af hálfu G um að hann væri fyrirsjáanlega ófær um að standa
í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Hæstiréttur féllst á þá niðurstöðu hins
kærða úrskurðar að sannað væri að fjárhag G væri þannig komið að skilyrðum b.
liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt til
þess að honum yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli
hans gegn F. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar og að teknu tilliti til
ætlaðs umfangs málsins var fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin
700.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt
Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2014 sem barst
réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands
21. febrúar 2014, þar sem sóknaraðila var gert skylt innan tveggja vikna frá
uppkvaðningu úrskurðarins að setja tryggingu í formi peningagreiðslu eða
bankaábyrgðar að fjárhæð 1.500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem
hann hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að
kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu verði hafnað, en til vara að
fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og
kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og
kærumálskostnaðar.
Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé að fjárhag sóknaraðila sé
þannig komið að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé
fullnægt til þess að honum verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu
málskostnaðar í máli hans gegn varnaraðila. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar
og að teknu tilliti til ætlaðs umfangs málsins verður fjárhæð
málskostnaðartryggingar ákveðin 700.000 krónur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Sóknaraðili, Guðjón Sigurðsson, skal, innan
tveggja vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, setja tryggingu í formi peningagreiðslu
eða bankaábyrgðar að fjárhæð 700.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar sem
hann kann að verða dæmdur til að greiða varnaraðila, Flóahreppi, í máli sem
hann hefur höfðað gegn hreppnum fyrir Héraðsdómi Suðurlands.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. febrúar 2013.
Mál þetta, sem tekið var
til úrskurðar 28. janúar 2014, er höfðað af Guðjóni Sigurðssyni, kt.
250541-4579, Kolsholti, Flóahreppi, á hendur Flóahreppi, kt. 600606-1310,
Þingborg, Flóahreppi, með stefnu birtri 17. desember 2013. Kröfur stefnanda eru
þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 22.274.565 í
skaðabætur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 4. júlí 2012 til þess dags þegar
mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt stefnda, en dráttarvaxta eftir
þann dag, skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Til vara
krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr.
7.067.036 í skaðabætur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 4. júlí 2012 til þess dags
þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt stefnda, en dráttarvaxta
eftir þann dag, skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá
krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að
viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda
var veitt gjafsóknarleyfi þann 25. mars 2013.
Mál þetta var þingfest
18. desember 2013. Við þingfestingu krafðist stefndi þess að stefnanda yrði
gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð kr. 1.500.000, en
stefnandi mótmælti kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu. Var málinu frestað til
flutnings um kröfu stefnda um málskostnaðartrygginguna og fór sá málflutningur
fram 28. janúar 2014 og var krafan tekin til úrskurðar að honum loknum eins og
áður segir. Við munnlegan málflutning um kröfuna gerði stefndi nánar grein
fyrir kröfunni og krafðist þess að stefnanda yrði gert að setja trygginguna
innan tveggja vikna frá uppsögu úrskurðar héraðsdóms í formi peningagreiðslu
eða bankaábyrgðar.
Kröfu sína um
málskostnaðartryggingu byggir stefndi á því að samkvæmt tilkynningu Umboðsmanns
skuldara, dagsettri 30. júní 2011, sem lögð hefur verið fram í málinu, hafi
stefnandi og eiginkona hans sótt um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010
um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hafi umsóknin verið samþykkt hjá Umboðsmanni
skuldara og yfirlýsingu þar að lútandi verið þinglýst á eignir þeirra skv. 28.
gr. laga nr. 101/2010. Sé greiðsluaðlögunartímabili ekki lokið og hvíli nefnd
yfirlýsing enn á eignum stefnanda og eiginkonu hans, sbr. 29. gr. laganna.
Í umsókn stefnanda til
Umboðsmanns skuldara hafi falist yfirlýsing stefnanda um að hann væri fyrirsjáanlega ófær um að
standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga
nr. 101/2010. Í því felist að stefnandi hafi lýst því yfir að hann sé ógjaldfær
í skilningi 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 4. tl. 65. gr.
sömu laga. Yfirlýsing stefnanda um eignaleysi og greiðslustöðu falli ekki niður
og verði ekki afmáð af eignum hans fyrr en að liðnu greiðsluaðlögunartímabili,
sbr. 29. gr. laga nr. 101/2010. Leiði af þessu að yfirlýsing stefnanda um
ógjaldfærni stefnanda, sem og samþykki Umboðsmanns skuldara fyrir því, standi
allan þann tíma og sé enn í gildi. Í því felist að stefnandi sé ófær um
greiðslu málskostnaðar. Leiði það einnig af eðli greiðsluaðlögunar, sbr. t.d.
IV. kafla laga nr. 101/2010.
Þar sem stefnandi hafi
ekki leitt að því neinar líkur að hann sé, þrátt fyrir framangreint, fær um að
greiða málskostnað beri að fallast á kröfu stefnda, sbr. b lið 1. mgr. 133. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um fjárhæð vísar stefndi
til þess að stefna og málsgögn séu töluverð að umfangi og fyrirséð að
málskostnaður muni að lágmarki nema þeirri fjárhæð sem krafist sé, en tímagjald
lögmannsstofu þeirrar sem stefndi njóti þjónustu hjá sé kr. 23.500 án
virðisaukaskatts.
Stefnandi krefst þess að
kröfu stefnda verði hafnað, en til vara að málskostnaðartygging verði ákveðin
verulega lægri en krafist er.
Stefnandi vísar til þess
að málskostnaðartrygging byggi á undantekningarákvæði laga. Beri stefndi
sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði séu uppfyllt. Sé stefnandi ekki ófær um að
greiða málskostnað. Stefnandi vísar til framlagðs skjals á tveimur blaðsíðum á
bréfsefni Umboðsmanns skuldara, með yfirskriftinni „frumvarp til samnings um
greiðsluaðlögun“, en engar staðfestingar eða undirskriftir eru á skjali þessu,
sem að auki er ódagsett. Í skjalinu kemur fram að áætlaðar mánaðartekjur
stefnanda, þ.e. útborguð laun og bætur að frádregnum sköttum og öðrum gjöldum,
séu kr. 169.000 og samsvarandi hjá eiginkonu hans kr. 200.000. Segir að eiginkonan
starfi sem matráður í grunnskóla en stefnandi sé menntaður smiður en sé öryrki
í dag eftir veikindi. Kemur fram að stefnandi og eiginkona hans séu með
hrossabúskap og standi vonir til að þau geti haft af því einhverjar tekjur í
framtíðinni, en lítið hafi gengið hjá þeim að undanförnu. Er áætlaður
framfærslukostnaður þeirra samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sagður vera kr.
332.403. Mánaðarleg greiðslugeta skuldara sé kr. 61.597, en skuldarar fái
ákveðið fjárhagslegt svigrúm og sé því miðað við að greiðslugeta skuldara sé
kr. 60.000. Þá segir að eignir skuldara séu verðmetnar að fjárhæð kr.
45.149.192 og er inni í því jörðin Kolsholt 2, Flóahreppi, að fasteignamati kr.
39.514.000. Ekkert kemur fram í skjali þessu um skuldir stefnanda og kemur
heldur ekki fram hvort frumvarp þetta hafi orðið að samningi eða nánar um
afstöðu kröfuhafa.
Stefnandi byggir á því að
hann hafi greiðslugetu og kveður yfirlýsingu í umsókn um greiðsluaðlögun ekki
nægja til gjaldþrotaskipta. Stefnandi eigi fjölmargar eignir og hafi ekki verið
lagt fram neitt um að þær séu yfirveðsettar.
Vísar stefnandi til þess
að gert sé ráð fyrir því að borgarar skuli eiga raunhæfan og virkan aðgang að
því að leita réttar síns fyrir dómstólum og vísar til Mannréttindasáttmála
Evrópu og alþjóðlegs samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá
kveður stefnandi hina umkröfðu fjárhæð málskostnaðartryggingarinnar vera of háa
og ekki í samræmi við umfang málsins.
Forsendur og niðurstaða
Fyrir liggur að þann 30.
júní 2011 tilkynnti Umboðsmaður skuldara að móttekin hefði verið umsókn
stefnanda og eiginkonu hans um greiðsluaðlögun. Þá liggur fyrir óstaðfest og
ódagsett afrit af frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, lagt fram af
stefnanda. Er því ekki mótmælt af stefnanda að hann hafi sótt um
greiðsluaðlögun, en ekki gat lögmaður stefnanda upplýst um afdrif þess
frumvarps eða um efni mögulegs samnings um greiðsluaðlögun. Stefndi byggir á
því að greiðsluaðlögunartímabil standi enn og hefur því ekki verið mótmælt af
hálfu stefnanda.
Skilyrði
greiðsluaðlögunar er það að einstaklingur sýni fram á það að hann sé eða verði
um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar
sínar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 101/2010, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr.
laganna telst maður ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla
má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við
fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna
og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.
Með því að sækja um slíka
greiðsluaðlögun hefur stefnandi lýst því yfir að fjárhag hans og getu til að
standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar sé svo komið sem lýst er í 1. og
2. mgr. 2. gr. laga nr. 101/2010. Stefnandi kannast við að hafa sótt um
greiðsluaðlögun og hefur lagt fram hluta frumvarps til samnings um
greiðsluaðlögun, en ekki kemur fram í því hvers efnis það er að öllu leyti og
liggur ekkert fyrir um afstöðu kröfuhafa til þess frumvarps eða hvort það varð
að samningi.
Það er mat dómsins að með
því að sækja um slíka greiðsluaðlögun, sem hefur ekki verið mótmælt að hafi
verið gert og hefur ekki verið mótmælt að hafi verið samþykkt af Umboðsmanni
skuldara, hafi stefnandi gefið yfirlýsingu sem sé sambærileg við yfirlýsingu
skuldara skv. 4. tl. 2. mgr. 65. gr., sbr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti
o.fl. nr. 21/1991. Ekki hefur stefnandi byggt á því að
greiðsluaðlögunartímabili sé lokið eða að hann hafi dregið umsókn sína til
baka, sbr. 29. gr. laga nr. 101/2010.
Þykir stefndi því hafa rennt nægum stoðum undir það að fjárhagur stefnanda sé
þannig að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar í máli þessu þannig að
fullnægt sé skilyrðum b liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, en ekki hefur
það verið hrakið af stefnanda að fjárhagur hans sé svo sem ráða má af umsókn
hans um greiðsluaðlögun sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 101/2010 og til hliðsjónar 64. og
65. gr. laga nr. 21/1991, en það þykir standa stefnanda næst að sýna fram á það
að hann sé borgunarmaður fyrir málskostnaði þrátt fyrir umsókn hans um
greiðsluaðlögun ef hann telur svo vera, enda eru gögn um fjárhag stefnanda
honum sjálfum tiltækari en stefnda. Sjónarmið um aðgengi borgara að dómstólum
og ótilgreind vísun til alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
geta ekki breytt þessu. Þá þykir ekki geta breytt þessu að ekki hafi verið lögð
fram gögn um að eignir stefnanda séu yfirveðsettar, enda gera ákvæði 2. gr.
laga nr. 101/2010 ráð fyrir að litið sé til eigna skuldara við mat þess hvort
hann uppfylli skilyrði um greiðsluaðlögun.
Þykir því bera að fallast
á kröfu stefnda um að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu
málskostnaðar eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Krafa um fjárhæð tryggingarinnar
þykir ekki vera úr hófi en þegar hafa verið lögð fram 24 dómskjöl í málinu og
má gera ráð fyrir töluverðri vinnu lögmanns stefnda við það.
Sigurður
G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefnandi, Guðjón
Sigurðsson, skal innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar setja
tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð kr. 1.500.000
fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda, Flóahreppi.