Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2006


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Umferðarréttur
  • Málsástæða
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 104/2006.

Arnar Pedersen

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

 

Vátrygging. Umferðarréttur. Málsástæður. Gjafsókn.

A krafðist greiðslu vátryggingabóta úr húftryggingu bifreiðar sinnar hjá vátryggingafélaginu S. A hafði lánað öðrum manni bifreiðina og stórskemmdist hún í árekstri á Laugavegi í Reykjavík. Í málinu var deilt um hvort ökumaður bifreiðarinnar hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn í skilningi greinar 2.6 í vátryggingarskilmálum húftryggingarinnar og hvort það ætti að leiða til brottfalls bótaréttar. Í dómi Hæstaréttar var talið að þegar akstursmáti ökumannsins og aðkoma á slysstað væri virt þætti sannað að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn í skilningi nefnds ákvæðis í vátryggingarskilmálunum. Samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins undanþægi það vátryggingafélagið bótaábyrgð þegar svona stæði á. Ekki var fallist á með A að víkja bæri ákvæðinu til hliðar með vísan til 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga þegar svo stæði á að ökumaður væri annar maður en eigandi ökutækis. Ekki var heldur fallist á að 18. gr. laganna hefði þýðingu um þetta atriði. Var sýknukrafa S því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.187.519 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. ágúst 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti

Gögn málsins sýna að bifreið áfrýjanda var ekið á vinstri akrein á götu þar sem áreksturinn varð, en gatan þrengist þar og úr verður ein akrein. Merking á yfirborði götunnar sýnir að hægri akreinin heldur óbreytt áfram en þeirri vinstri lýkur þar sem gatan þrengist. Umferð um hægri akreinina naut því forgangs, sbr. einnig 4. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ökumanni bifreiðar áfrýjanda bar í tæka tíð, þegar bifreiðin nálgaðist þrenginguna, að gefa til kynna að hann hygðist veita bifreið sem ók við hlið hans á hægri akrein forgang og draga jafnframt úr hraða bifreiðar sinnar, sbr. 5. mgr. 25. gr. umferðarlaga. Fyrir dómi sagði ökumaðurinn að hann hefði orðið var við hina bifreiðina hægra megin hálfa fyrir aftan sig og hefði þá ætlað að skjótast fram úr henni en ekki tekist það. Brást hann því við á allt annan hátt en honum bar samkvæmt lögunum. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst aðkomu á slysstað samkvæmt lögregluskýrslu og uppdrætti sem lögregla gerði á vettvangi. Var árekstur bifreiðar áfrýjanda við kyrrstæðar bifreiðar á staðnum svo harður, að augljóst er að ökumaðurinn ók miklum mun hraðar en aðstæður leyfðu, sbr. 36. gr. umferðarlaga. Þegar á allt þetta er litið þykir sannað að ökumaður bifreiðar áfrýjanda sýndi af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn í skilningi greinar 2.6 í vátryggingarskilmálum stefnda fyrir húftryggingu ökutækja. Verður krafa áfrýjanda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að ósannað sé að ökumaðurinn hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn.

Áfrýjandi hefur byggt á því að vegna ákvæða 18. og 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem í gildi voru þegar slysið varð, hafi stefnda verið óheimilt að undanþiggja sig ábyrgð þó að fallist yrði á að ökumaðurinn hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þessi málsástæða mun fyrst hafa komið fram af hans hálfu við aðalmeðferð málsins. Var henni þá mótmælt af stefnda sem of seint fram kominni. Héraðsdómari taldi hér vera um lagaatriði að tefla og tók því afstöðu til málsástæðunnar í dómi sínum. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti gaf stefndi yfirlýsingu um að hann félli frá mótmælum þeim sem hann hafði haft uppi í héraði við því að málsástæðan kæmist að. Kemur hún samkvæmt þessu til meðferðar í Hæstarétti sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í grein 2.6 í vátryggingarskilmálum stefnda fyrir húftryggingu ökutækja segir að félagið bæti ekki tjón sem verða kunni á ökutæki „þegar tjón verður rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis vátryggðs eða ökumanns.“ Samkvæmt beinu orðalagi þessa ákvæðis skilmálanna undanþiggur það stefnda bótaábyrgð, þegar svona stendur á. Verður ekki fallist á með áfrýjanda að víkja beri ákvæðinu til hliðar með vísan til 20. gr. laga nr. 20/1954, þegar svo stendur á að ökumaður er annar maður en eigandi ökutækis. Ekki er fallist á að 18. gr laganna hafi þýðingu um þetta. Með vísan til þessa verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Arnars Pedersen, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 300.000 krónur

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2005.

Mál þetta var höfðað 17. febrúar 2005 og dómtekið 1. þ.m.

Stefnandi er Arnar Pedersen, Teigaseli 2, Reykjavík.

Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.522.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2002 til greiðsludags og málskostnað.

 Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að sér verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda og til vara krefst hann lækkunar á kröfunum, málskostnaður verði felldur niður og dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi.

I

Málið er höfðað til greiðslu bóta samkvæmt altjónstryggingu á bifreiðinni YM-737, Aldi TT árgerð 1999, sem var tryggð altjónstryggingu hjá stefnda, en stefnandi var eigandi hennar og hafði lánað hana Hallgrími Hansen sem ók bifreiðinni kl. um 19.30 föstudaginn 26. júlí 2002 austur Hverfisgötu og Laugaveg og í beygju á móts við hús nr. 133 við Laugaveg var bifreiðinni ekið aftan á bifreið í bifreiðastæði.  Rétt austan við gatnamót Hverfisgötu/Rauðarárstígs/Laugavegar er þrenging á götunni, þ.e.a.s. út tveimur akreinum í eina akrein austur Laugaveg.  Er þrengingunni sleppir er aflíðandi beygja til vinstri á götunni.  Þarna á Laugaveginum er steinsteypt umferðar­eyja sem skilur að akreinarnar austur/vestur Laugaveg.  Þar sem óhappið átti sér stað er tælenskt veitingahús og nokkrum metrum vestan við slysstaðinn er stór biðstöð Strætó.  Auk þess er matsölustaður við biðstöðina og pizzastaður við athafnasvæði Hreyfils, Hlemmtorgi.

Lögregla var kvödd á staðinn kl. 19.33 og liggur frammi lögregluskýrsla sem Eiríkur Pétursson rannsóknarlögreglumaður skráði, en hann var einn sex lögreglu­manna sem unnu að málinu, svo og vettvangsuppdráttur.  Akstursskilyrðum er lýst þannig að dagsbirta hafi verið, skýjað og yfirborð vegar malbikað og slétt og færi blautt.  Hámarkshraði 50 km/klst.

Í skýrslu lögreglunnar segir að bifreiðinni YM-737 hafi verið ekið austur Hverfisgötu eftir vinstri akrein frá Snorrabraut og fram hjá Hlemmtorgi og áfram austur götuna, yfir Rauðarárstíg og áfram austur Laugaveg að þrengingunni.  Rétt er ökumaður hafi verið að komast í þrenginguna og í aflíðandi beygjuna hafi hann misst vald á ökutækinu með þeim afleiðingum að það hafnaði af miklu afli á bifreiðinni OM-603 sem hafi kastast í loft upp við höggið og stöðvast á hægri hlið ofan á vegriðsbogum fyrir framan innganginn að veitingahúsi sem þar er.  Á meðan á þessu stóð hafi bifreiðin OM-603 hafnað á afturhluta bifreiðarinnar DX-625 sem hafi verið mannlaus og kyrrstæð og verið lagt fyrir framan OM-603 sem einnig hafi verið mannlaus og kyrrstæð er slysið bar að.  Bifreiðin DX-625 hafi kastast út úr bifreiða­stæðinu, hafnað með hægri hliðina utan í vinstra afturhorn bifreiðarinnar R-2299 og kastast u.þ.b. 20 metra áfram og stöðvast á akreininni, mikið skemmd að aftan.  Frá því er greint að mikið tjón hafi orðið á bifreiðunum YM-737, OM-603 og DX-625 en lítið á bifreiðinni R-2299.  Þá hafi skemmdir orðið á vegriðsbogum og gátmerkjum við það að ökutæki höfnuðu á þeim.  Umráðamenn hinna kyrrstæðu bifreiða OM-603, DX-625 og R-2299 hafi verið á vettvangi.  Ökumaður bifreiðarinnar YM-737, Hallgrímur Hansen, og farþegi í framsæti, Hörður Ýmir Einarsson, hafi hlotið lítil meiðsl og aðeins verið aumir hér og þar.  Öryggisbúnaður í þeirri bifreið hafi verið öryggisbelti, líknarbelgur og bílpúði.

Fram kom við aðalmeðferð að stefnandi hafi í umrætt sinn lánað Hallgrími Hansen bifreiðina YM-737 til ferðar innanbæjar og að hann hafi leyft vini sínum, Herði Ými, að sitja í hluta leiðarinnar.  Um hafi verið að ræða kraftmikla sportbifreið sem heyrst hafi hátt í.  Hallgrímur og Hörður Ýmir báru að þeir hefðu ekki verið með öryggisbelti spennt en loftpúðar hafi blásið út.

Er lögreglumenn hafi borið að hafi ökumaður bifreiðarinnar YM-737 og farþeginn Hörður Ýmir Einarsson verið komnir út úr bifreiðinni sem hafi verið kuðlað undir OM-603 en hún hafi verið á hægri hliðinni ofan á vegriðsbogum fyrir framan innganginn að tælenska veitingahúsinu.  Allnokkru austan við slysstaðinn hafi bifreiðin DX-625 verið kyrrstæð á akreininni, mikið skemmd að aftan.  Sjúkra­bif­reiðar ásamt tækjabifreið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi komið á vettvang en greinilegt hafi verið að mikill viðbúnaður hafi verið varðandi mál þetta enda vettvangurinn slíkur sem stórslys hefði átt sér stað.  Ökumaður YM-737 og farþeginn hafi verið fluttir með sjúkrabifreið að slysadeild Landsspítalans Fossvogi en ekki hafi verið talið að þeir hafi slasast alvarlega.  Ljóst hafi verið af verksummerkjum að dæma á vettvangi að ökumaður YM-737 hafi ekið austur Hverfisgötu og Laugaveg á talsvert miklum hraða, að ekki sé meira sagt.  Mesta mildi sé að ekki hafi orðið stórslys þar sem ætla megi að gagnandi fólk væri við og í biðstöðvum Strætó og einnig við matsölustaðina sem áður er getið.  Fjöldi fólks hafi borið að og gefið sig fram við lögreglumenn sem voru við störf á vettvangi.  Það hafi allt haft sömu sögu að segja; að akstur YM-737 hafi verið ofboðslegur austur Laugaveg.  Ekki hafi unnist tími til að fá nákvæmar frásagnir fólksins varðandi tildrögin eða aðdragandann en greinilegt hafi verið að fólki hafi verið brugðið og slegið yfir háttalagi ökumanns YM-737.  Bifreiðarnar YM-737, OM-603 og DX-625 hafi verið óökufærar eftir áreksturinn og verið fjarlægðar af vettvangi með kranabifreiðum frá Króki.

Í lögregluskýrslunni er haft eftir ökumanni YM-737:  Hann hafi ekið af stað úr kyrrstöðu frá Snorrabraut eftir vinstri akrein.  Hann gæti ekki sagt til um ökuhraða.  Á hægri akreininni hafi verið ökutæki og ræki hann minnis til eins ökutækis sem muni hafa verið hvít Volvo fólksbifreið (sem hann lýsti nokkru nánar).  Hann kvaðst hafa ekið austur Laugaveg og yfir gatnamót Laugavegar/Rauðarárstígs.  Er hann hafi verið kominn nokkuð austur fyrir gatnamótin hafi hann beygt ökutækinu til vinstri áleiðis í aflíðandi beygju til vinstri.  Allt í einu kvaðst hann hafa orðið var við að ökutækið beygði ekki heldur hélt áfram í beygju og kvaðst hann muna að árekstur varð.  Hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir hvers vegna ökutækið lét ekki að stjórn.

Atvikinu rétt í þann mund sem óhappið varð, þ.e. er Hallgrímur Hansen ók að þrengingunni (hálsinum) á Laugavegi rétt austan við gatnamót Hverfis­götu/Rauðar­árstígs/Laugavegar, lýsti Hallgrímur þannig fyrir dóminum að hann hefði ekið á vinstri akrein á um 60 km hraða er hann hefði orðið var við bifreið á hægri akrein, samhliða en þó nokkru aftar þannig að framendi þeirrar bifreiðar hafi virst vera á móts við aftursæti bifr. YM-737.   Hann kvaðst hafa „frosið“ og ákveðið að reyna að komast fram úr bifreiðinni í stað þess að hemla.

 Vitnið Hörður Ýmir Einarsson kvað akstur bifr. YM-737 hafa verið eðlilegan í umrætt sinn er henni var ekið á vinstri akrein austur frá Snorrabraut og hraðann 50-60 km/klst.  Rétt áður en óhappið varð hafi hann tekið eftir bifreið við hliðina.   Hall­grímur hafi reynt að komast í „hálsinn“ og hann hafi haldið að það mundi takast „en eitthvað gerist“.   

Þór Martinsson var boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu þar sem hann hafði verið tilgreindur sem vitni að umræddu umferðaróhappi.  Hann gaf skýrslu 29. október 2002.  Hann kvaðst hafa séð aðdraganda slyssins.  Hann hafi setið á bekk fyrir utan SVR á Hlemmtorgi, Hverfisgötumegin.  Kvaðst hann hafa heyrt mikil vélahljóð, líkt og bílum væri gefið mikið inn.  Hann hafi litið upp og séð tvo bíla aka samhliða austur Hverfisgötu á mikilli ferð.  Bíllinn, sem hafi verið á vinstri akrein, hafi greinilega verið í kappakstri við þann sem var á hægri akrein.  Á móts við þrengingu á Lauga­vegi rétt fyrir ofan Hlemm hafi bílarnir verið nánast samhliða á mikilli ferð.  Greinilegt hafi verið að sá, sem var á vinstri akrein, reyndi að komast framúr en þar sem hinn hafi ekkert gefið eftir hafi hinn fyrrgreindi, YM-737, hafnað upp á umferðar­eyju sem myndar þrenginguna.  Við það hafi ökumaðurinn misst vald á bílnum sem hafi hafnað á kyrrstæðum bíl sem hafi henst á bíl sem var fyrir framan.   Aðspurður um hraða kvaðst Þór telja að bifreiðunum hafi verið ekið á um eða yfir 100 km/klst.  Hann kvaðst ekki hafa séð með vissu skráningarnúmer eða tegund bifreiðar­innar sem var ekið á hægri akrein.

Í vætti Þórs Martinssonar fyrir dóminum kom fram að hann gæti ekki staðfest að bifreiðunum hefði verið ekið á þeim hraða sem greinir hér að framan; þar hafi verið um ágiskun að ræða.  Sér hafi sýnst hraðinn vera meiri en venjulegt gæti talist; í því efni sé einnig að líta til afleiðingar og umfangs þess sem gerðist.  Þá kvaðst hann ekki geta lagt dóm á það hvort um kappakstur hafi verið að ræða.  Hins vegar hafi hvorugur gefið eftir og sá, sem var vinstra megin, reynt að komast fram úr hinum.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglunnar, gerðri af Benedikt Lund varð­stjóra 1. apríl 2003, hringdi hann í Jóhann Braga Ægisson, starfsmann hjá Krók, sem hafi sagst hafa getað stýrt bifreiðinni YM-737 þegar þurft hafi að færa hana til.  Einnig hafi hann rætt við Hilmar Símonarson sem hafi greint frá því að hann hefði unnið að viðgerð bifreiðarinnar.  Húsið utan um stýrisvélina hafi verið brotið eftir mikið högg þannig að olía lak af sem hafi ekki komið í veg fyrir að hægt væri að stýra bifreiðinni og það væri alveg ljóst að stýrisvélin hafi brotnað við áreksturinn.

Með bréfi af hálfu lögreglustjóraembættisins í Reykjavík 8. janúar 2003 var þess óskað við Magnús Þór Jónsson, prófessor  í vélaverkfræði, með tilvísun í gögn málsins að hann athugaði:

„Hraði bifreiðarinnar YM-737 þegar ökumaður hennar missti stjórnina á henni er hann kom að vegþrengingu og beygju rétt austan við gatnamót Hverfisgötu, Rauðarárstígs og Laugavegar.

1.        Hver er mögulegur lágmarkshraði?

2.        Hver er mögulegur hámarkshraði?

3.        Á hvaða hraða er sennilegast að bifreiðinni hafi verið ekið?

Hraði bifreiðarinnar Ym-737 þegar hún rakst á bifreiðina OM-603.

1.        Hver er mögulegur lágmarkshraði?

2.        Hver er mögulegur hámarkshraði?

3.        Á hvaða hraða er sennilegast að bifreiðinni hafi verið ekið?“

Í greinargerð Magnúsar Þórs Jónssonar, dags. 10. febrúar 2003, er byrjað á því að skýra þær aðferðir sem eru notaðar við að greina hraða bifreiðarinnar.  Síðan er sett upp líkan af atburðinum og fjallað um úrvinnslu útreikninga.  Að lokum eru niður­stöður settar fram.  Þar segir:

„Hér er settur fram ætlaður hraði bifreiðarinnar YM-737 sem er reiknaður út frá orkubreytingu vegna skriðs, formbreytingarvinnu vegna áreksturs og orku­breytingu vegna núnings í frákasti.  Með tilvísun í framangreindar aðferðir og for-sendur eru niðurstöður útreikninga eftirfarandi:

Hraði bifreiðarinnar YM-737 þegar ökumaður hennar missti stjórnina á henni er hann kom að vegþrengingu og beygju rétt austan við gatnamót Hverfisgötu, Rauðar­árstígs og Laugavegar.

1.        Mögulegur lágmarkshraði er :  84 km/klst.

2.        Mögulegur hámarkshraði er:  123 km/klst.

3.        Sennilegasti hraði bifreiðarinnar er:  92 km/klst.

Hraði bifreiðarinnar YM-737 þegar hún rakst á bifreiðina OM-603.

1.        Mögulegur lágmarkshraði er:  82 km/klst.

2.        Mögulegur hámarkshraði er:  110 km/klst.

3.        Sennilegasti hraði bifreiðarinnar er:  88 km/klst.

Samkvæmt þeirri aðferðarfræði, sem hér er notuð, gildir að raunverulegur hraði er hærri en reiknaður hraði þegar einhverjum atriðum er sleppt í útreikningum.  Það skal tekið fram að þar sem ekki eru til gögn um formbreytingar er ekki tekið tillit til þess að bifreiðin DX-625 hafnaði með hægri hliðina utan í vinstra afturhorni ökutækis R-2299 þegar hún kastaðist upp Laugaveginn.“

Magnús Þór Jónsson staðfesti greinargerðina fyrir dómi og gaf á henni nokkrar skýringar.

Af hálfu stefnanda var lagt fram minnisblað, dags. 12. febrúar 2003, sem Sigurður Ragnarsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun, skráði og kveðst hann þar fjalla lauslega um þær forsendur sem liggi til grundvallar hraðaútreikningum Magnúsar Þórs Jónssonar á mögulegum hraða YM-737 við áreksturinn.  Þær forsendur, sem Magnús Þór gefi sér við útreikninga á hraða bílsins, séu í flestum tilfellum mjög rúmar.  Þó sé á nokkrum stöðum hægt að finna stærðir sem hann gefi sér án þess að mælingar liggi til grundvallar, a.m.k. út frá tiltækum gögnum.  Í lokaorðum minnisblaðsins segir Sigurður m.a. að þar sem hann hafi ekki aðgang að forritinu, sem notað sé við útreikningana, sé ógerlegt að segja til um hversu mikil áhrif þær spurningar, sem settar séu fram við gefnar forsendur, myndu hafa.

Sigurður Ragnarsson staðfesti framangreint minnisblað fyrir dóminum og gaf á því nokkrar skýringar.

Í tölvupósti lögmanns stefnanda til deildarstjóra ökutækjatjóna hjá stefnda 21. mars 2003 kveður hann stefnanda hafa óskað aðstoðar sinnar vegna tjónauppgjörs á bifreiðinni YM-737, sem hafi lent í óhappi 26. júlí 2002, og biður hann um upp­lýsingar um stöðu málsins.  Í svari segir að ekki hafi borist rannsóknargögn frá lögreglu, nokkrum sinnum hafi verið spurt um framgang málsins og muni það vera á lokastigi.

Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 25. júní 2003, er honum tilkynnt að vegna ágreinings hafi verið leitað álits tjónanefndar vátryggingafélaganna á bóta­skyldu og greiðsluskyldu úr kaskótryggingu bifreiðarinnar YM-737 hjá stefnda.  Félaginu hafi borist svohljóðandi niðurstaða nefndarinnar:  „Af gögnum málsins má ráða að ökumaður YM-737 hafi valdið tjóni með ökulagi sem verður metið honum til stórkostlegs gáleysis.  Skv. gr. 2.6. í vátryggingarskilmálum kaskótrygginga bætir félagið ekki tjón sem verður rakið til stórkostlegs gáleysis vátryggðs eða ökumanns.  Tjónið bætist því ekki, sjá til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar í vátryggingamálum nr. 191/1998.“

Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 6. ágúst 2003, til lögreglustjórans í Reykjavík segir að stefnandi hafi nokkru eftir óhappið óskað eftir því við lögreglu að fá bifreiðina afhenta en verið tjáð að málið væri enn í rannsókn og því yrði bifreiðin í vörslu lögreglu í ótilgreindan tíma.  Síðar hafi hann ítrekað beiðni sína en málið hafi þá enn verið á rannsóknarstigi.  Í maí 2003 hafi stefnandi fengið þær upplýsingar að bifreiðin hafi verið seld þann 1. mars 2003 á uppboði sem haldið hafi verið af sýslumanninum í Kópavogi vegna ógreidds geymslukostnaðar að fjárhæð 143.800 krónur án þess að hann fengi tilkynningu um fyrirhugað uppboð.  Í sama mánuði hafi fengist þær upplýsingar hjá lögreglu að rannsókn málsins væri ekki lokið.  Óskað er upplýsinga um hvort og þá hvenær stefnanda hafi verið tilkynnt um að rannsókn á bifreiðinni væri lokið og hann gæti fengið hana til umráða; svo og hvort lögreglustjóraembættið hafi gert upp geymslugjöld bifreiðarinnar á meðan á rannsókn stóð.

Í svarbréfi lögreglustjórans, dags. 15. september 2003, við framangreindu bréfi segir að embættið hafi hvorki sent eiganda bifreiðarinnar tilkynningu vegna rann­sóknar á henni né greitt geymslugjöld vegna hennar.  Samkvæmt gögnum málsins hafi lögreglan ekki lagt hald á bifreiðina en fengið aðgang að henni til rannsóknar þar sem hún hafi verið í vörslum Króks.

Krókur Dráttarbílar óskaði þ. 19. desember 2002 eftir því við sýslumanninn í Kópavogi að fram færi nauðungarsala á bifreiðinni YM-737 til lúkningar kröfu að höfuðstól 123.800 krónur auk innheimtukostnaðar, dráttarvaxta og kostnaðar til greiðsludag.  Samkvæmt skilagrein sýslumanns fór nauðungarsalan fram 1. mars 2003.  Af söluverðinu, 255.000 krónum, komu til útborgunar 239.920 krónur sem var ráðstafað þannig að 198.079 krónur gengu til haldsréttarhafans Króks Dráttarbíla og 41.841 króna til stefnda sem eiganda veðskuldabréfs á 1. veðrétti.

Stefnandi hefur lagt fram yfirlýsingu sölustjóra Bílaþings Heklu um að áætlað viðmiðunarverð á bifreiðinni YM-737, Audi TT árg. 1999, sé 2.522.000 krónur miðað við 11. júlí 2002.  Bifreiðin hafi ekki verið skoðuð og ástand hennar ekki þekkt. Miðað sé við gott eintak og að bifreiðinni hafi verið ekið 50 þús. km.

Ákæruvaldið höfðaði mál á hendur Hallgrími Hansen vegna þess akstur sem hér um ræðir og krafðist refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2004 var ákærði dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í einn mánuð vegna brota á umferðarlögum.

II

Málshöfðunin er reist á þeirri meginmálsástæðu að stefnandi hafi verið með altjónstryggingu á bifreiðinni YM-737 og eigi því rétt til tjónsuppgjörs í samræmi við tryggingarskilmála.  Óumdeilt sé að altjón hafi orðið á bifreiðinni og hafi hún verið seld á uppboði fyrir 300.000 krónur (svo) án vitneskju aðila málsins.  Stefnda beri því að greiða kröfuna í samræmi við verðlista bifreiðarinnar eins og verðmæti hennar hafi verið á þeim tíma sem tjónið varð.  Því er mótmælt að ökumaður bifreiðarinnar hafi valdið tjóninu vegna stórfellds gáleysis en staðhæfing um það styðjist eingöngu við skýrslu Magnúsar Þórs Jónssonar en hann gefi sér forsendur sem standist ekki og því verði útkoman röng og byggist hún að auki á aðferðarfræði sem hvorki sé lagalega né opinberlega staðfest.  Vísað er til efnis minnisblaðs Sigurðar Ragnarssonar verk­fræðings, einkum um eftirfarandi:  Mæling lögreglu sé ónákvæm, sbr. að bifreiðin DX-625 hafi færst um “ca 20 metra” svo og að skýrsluhöfundur gefi sér að bifreiðin DX-625 (á að vera OM-603) hafi kastast 1-1,5 metra í loft upp án þess að nein gögn sýni að hún hafi kastast svo hátt (bifreiðin lenti ofan á 80 sm háum vegriðsbogum – innskot dómara).  Þá sé í skýrslunni gengið út frá því að 5% veghalli sé á þessum kafla vegarins en hið rétta sé að veghalli sé 3%.  Þá beri að vekja athygli á því að ökumaður og farþegi bifreiðarinnar hafi verið án öryggisbelta en engu að síður gengið óskaddaðir út úr bifreiðinni sem bendi til að ökuhraði hafi ekki verið mikill er óhappið varð.

Við aðalmeðferð bar lögmaður stefnanda fram þá málsástæðu að 18. og 20. gr. laga nr. 20/1954 leiði til þess að þrátt fyrir tryggingarskilmála eigi stefnandi ekki að bera halla af því þótt niðurstaða dómsins yrði sú að ökumaður bifreiðar hans hafi sýnt af sé stórfellt gáleysi.

III

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að hér sé ekki um að ræða tjónstilvik sem sé bótaskylt samkvæmt skilmálum stefnda um kaskó- (altjóns-) tryggingu ökutækja þar sem segir að félagið bætir ekki tjón  “þegar tjón verður rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis vátryggðs eða ökumanns. . .” (grein 2.6.).  Gögn málsins veiti ótví­ræða sönnun fyrir því að bifreiðinni hafi verið ekið allt of hratt miðað við aðstæður og auk þess, samkvæmt framburði vitnis, í kappakstri.  Akstur sem þessi teljist stórkostlegt gáleysi í skilningi skilmála og laga og ljóst sé að rekja megi tjónið til þess gáleysis þannig að það falli utan gildissviðs skilmálanna.

Af hálfu stefnda var hinni nýju málsástæðu stefnanda mótmælt sem of seint fram kominni.

Samkvæmt skilmálum stefnda beri í tilvikum sem þessum að greiða stað­greiðsluverð á tjónsdegi að frádregnu verðmæti bifreiðar eftir tjón.  Því er haldið fram að staðgreiðsluverð hafi verið lægra en sem nemur uppgefnu verði af hálfu Heklu hf.    Verði fallist á bótaskyldu beri að miða við að verðmæti bifreiðarinnar eftir tjón hafi verið 255.000 krónur sem komi til frádráttar sem og eigin áhætta stefnanda að upphæð 116.100 krónur sbr. gr. 20 í skilmálum stefnda.  Loks er dráttarvöxtum frá fyrri tíma en dómsuppsögu mótmælt.

IV

Við áreksturinn stórlaskaðist ekki einungis bifreið stefnanda heldur einnig tvær aðrar bifreiðar sem köstuðust að auki talsvert til.  Enn ein bifreið varð fyrir tjóni en mun minna. Allar aðstæður, m.a. þrenging vegarins, beygja og aðliggjandi biðstöð og veitingastaðir, eru þannig að þær gera kröfu til sérstakrar aðgæslu ökumanna.  Enda þótt  dómkvaðning matsmanns/matsmanna hafi ekki farið fram verður ekki í megin­atriðum litið fram hjá niðurstöðum í trúverðugri greinargerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors og hafa þær ekki verið hraktar með þeirri lauslegu umfjöllun sem Sigurður Ragnarsson verkfræðingur kveðst gera í minnisblaði sínu.

Ljóst er af verksummerkjum samkvæmt skýrslu lögreglu og vettvangs­upp­drætti, greinargerð Magnúsar Þórs Jónssonar og skýrslum fyrir dómi, einkum vætti Þórs Martinssonar, að akstursmáti ökumannsins Hallgríms Hansen var háskalegur og hraði bifreiðarinnar YM-737 allt of mikill miðað við aðstæður.  Samkvæmt því verður tjón það, sem stefnandi krefur bætt, rakið til stórfellds gáleysis ökumannsins og samkvæmt því er fullnægt skilyrði gr. 2.6. í tryggingarskilmálunum, sem stefndi byggir á, til að tjónið verði ekki metið bótaskylt.  Það er lagaatriði, og því óháð málsástæðum sem aðilar byggja á, að skýra ber vátryggingarskilmála með hliðsjón af lögum nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.  Stefnandi bar ábyrgð á akstrinum að því leyti sem á reynir í málinu þar sem hann hafði lánað bifreiðina.  Um var að ræða samsömun vátryggðs og ökumanns og verður framangreint ákvæði tryggingar­skil­málanna því ekki talið vera í andstöðu við 18. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 20/1954.

Niðurstaða dómsins er samkvæmt framangreindu sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Samkvæmt því ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda máls­kostnað sem er ákveðinn 200.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Arnars Pedersen.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.