Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2010


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Matsgerð
  • Meðdómsmaður
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 21. október 2010.

Nr. 21/2010.

Svetlana Krutitsenko

(Óðinn Elísson hrl.)

gegn

Jóhönnu Gunnarsdóttur og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Matsgerð. Meðdómendur. Gjafsókn.

S krafðist skaðabóta úr hendi J og V vegna tjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi og laut deila aðila einkum að því hvort S hefði orðið fyrir því líkamstjóni í slysinu. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ekki yrði talið að máli skipti fyrir sönnunarfærsluna að S hefði ekki lagt fram haldbær gögn um heilsufar sitt fyrir slysið. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að það sé á forræði dómstóla að leggja mat á sönnunarfærslu málsaðila er lúta að staðreyndum sem um er deilt, meðal annars hvert sönnunargildi matsgerðir dómkvaddra manna hafi sbr. 2. mgr. 66. laga nr. 91/1991. Í héraði hefði málið verið dæmt af embættisdómara og tveimur sérfróðum meðdómendum og þar væri að finna ítarlegan rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu að S hefði ekki tekist sönnun um orsakatengsl.  Var héraðsdómur staðfestur um sýknu J og V.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2010. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 3.494.415 krónur með 4,5% ársvöxtum af 928.665 krónum frá 6. ágúst 2005 til 6. febrúar 2006, en af 3.494.415 krónum frá þeim degi til 7. september 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þau þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og að málskostnaður falli þá niður.

Deila málsaðila lýtur að því hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir því líkamstjóni í slysinu 6. ágúst 2005 sem hún krefst bóta fyrir. Sönnunarbyrði um þetta hvílir á henni. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir sönnunargögnum sem fyrir liggja í málinu. Ekki verður talið að máli skipti fyrir sönnunarfærsluna að áfrýjandi hafi ekki lagt fram „haldbær gögn því til sönnunar að hún hafi verið einkennalaus frá stoðkerfi“ fyrir slysið, svo sem segir í forsendum héraðsdóms og er raunar vandséð hver þau gögn ættu að vera. Í málinu liggur fyrir staðfest af læknum, sem dómkvaddir voru til að meta orsakatengslin, að meiðsli áfrýjanda væru fremur almenns eðlis, eins og einn yfirmatsmanna tók til orða í skýrslu sinni fyrir dómi, og slík einkenni gætu komið til án þess að „verði bent á ytri ástæðu.“ Undirmatsmaður bar að einkenni eftir slys væru oft sértækari.

Áfrýjandi hefur meðal annars gert þá athugasemd við forsendur héraðsdóms að hún hafi aldrei byggt á öðru en því að einkenni hennar hafi komið strax fram, þó að hún hafi ekki leitað sér læknishjálpar fyrr en um sex mánuðum eftir slysið og þeirra sé ekki getið í sjúkragögnum í tengslum við það fyrr en átta mánuðir voru liðnir. Ekki verður talið að þessi athugasemd skipti máli, þar sem til úrlausnar er hvort staðhæfingar áfrýjanda um þetta teljist sannaðar í málinu og héraðsdómur hafnar því  sýnilega að svo sé.

Það á undir dómstóla að leggja mat á sönnunarfærslu málsaðila um staðreyndir sem um er deilt, meðal annars hvert sönnunargildi matsgerðir dómkvaddra manna hafi, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í héraði var málið dæmt af embættisdómara og tveimur sérfróðum meðdómendum. Þar er að finna ítarlegan rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu að áfrýjanda hafi ekki tekist að sanna að líkamstjón hennar verði rakið til umferðarslyssins. Með fyrrgreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna dómsins verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður felldur niður samkvæmt 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar sem ákveðin verður svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Svetlana Krutitsenko, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 18. september 2009, var höfðað 18. nóvember 2008.  Stefnandi er Svetlana Krutitsenko, Burknavöllum 17a, Hafnarfirði, en stefndu eru Jóhanna Gunnarsdóttir, Háholti 19, Hafnarfirði og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði gert að greiða henni 3.494.415 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 928.665 krónum frá 6. ágúst 2005 til 6. febrúar 2006, af 3.494.415 krónum frá þeim degi til 7. september 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða henni málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað en til vara krefjast stefndu þess að sök verði skipt í málinu og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

II

Málavextir eru þeir helstir að laugardagskvöldið 6. ágúst 2005 ók stefnandi bifreiðinni SG-889 suður Strandgötu í Hafnarfirði þegar bifreiðinni PG-856, sem er í eigu stefndu Jóhönnu, var ekið vestur Hringbraut gegn rauðu ljósi og í veg fyrir bifreið stefnanda.  Til þess að forðast árekstur sveigði stefnandi til vinstri og ók við það á bifreiðina KO-673 sem var við gatnamót Suðurbrautar og Strandgötu.  

Lögregla kom á vettvang í kjölfar árekstursins og tók skýrslu af ökumönnum og farþegum bifreiðanna.  Er í lögregluskýrslu haft eftir ökumanni bifreiðarinnar PG-856, Reyni Benediktssyni, að hann hefði verið valdur að umferðaróhappinu en logað hafi gult ljós eða bleikt þegar hann ók yfir stöðvunarlínu.  Þegar hann hafi verið kominn inn á gatnamótin hafi bifreiðinni SG-889 verið ekið suður Strandgötu og hafi verið „svaka blúss“ á ökumanni hennar.  Reynir gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og dró þá heldur úr því að hann hefði sagst vera valdur að umferðaróhappinu en hann hefði ekkert viljað fría sig frá því.  Ökumaður bifreiðarinnar KO-673, Gunnar Viktorsson, kvað ökumann PG-856 hafa ekið gegn rauðu ljósi og hafi bifreið stefnanda verið ekið á mikilli ferð suður Strandgötu og hafi hún sveigt til vinstri til að forðast árekstur við PG-856 með þeim afleiðingum að hún ók á bifreið Gunnars. 

Í lögregluskýrslu er haft eftir stefnanda að hún hafi ekið á um 50 km/klst. og að hún fyndi til í vinstri hendi eftir áreksturinn.  Þá kemur fram í lögregluskýrslunni að í viðræðum við stefnanda inni í lögreglubifreiðinni hafi fundist megn áfengislykt frá vitum hennar en hún hafi sagst hafa fengið sér einn bjór fyrr um daginn.  Í kjölfarið var stefnandi handtekin vegna gruns um ölvun við akstur.  Var hún flutt á lögreglu­stöðina í Hafnarfirði þar sem læknir tók blóðsýni úr henni auk þess sem hún lét lögreglunni í té þvagsýni.  Að þessu loknu var stefnandi frjáls ferða sinna og óku lögreglumenn henni að hennar ósk að veitingastað þar sem hún kvað eiginmann sinn vera.  Við rannsókn á blóðsýni stefnanda reyndist áfengismagn í blóði hennar vera 1,65 ‰

Bifreið stefnanda og bifreiðin KO-673 voru óökufærar eftir áreksturinn og voru fluttar af vettvangi með kranabifreið. 

Leitað var eftir afstöðu Tjónanefndar vátryggingafélaganna vegna árekstursins og var niðurstaða nefndarinnar sú að sýnt þætti að bifreiðin PG-856, sem ekið hafi verið inn á gatnamót gegn rauðu ljósi, hafi orðið til þess að bifreiðinni SG-889 var ekið á bifreiðina KO-673.  Þótti mega af gögnum málsins ráða að ökumaður SG-889 hafi ekið of hratt miðað við aðstæður auk þess sem hann hafi verið ölvaður við aksturinn.  Þótti ökumaður SG-889 því einnig bera ábyrgð á árekstrinum og var sökinni skipt þannig að ökumaður PG-856 bæri ¾ hluta sakar vegna tjóns á bifreiðunum SG-889 og KO-673 en ökumaður bifreiðarinnar SG-889 bæri ¼ hluta sakar vegna tjóns á bifreiðinni KO-673.

Stefnandi er rússnesk að uppruna en hefur verið búsett á Íslandi síðan 2003 og var hún gift íslenskum manni þegar hún lenti í slysinu.  Á þessum tíma vann hún í þvottahúsi Hrafnistu.  Nokkrum dögum eftir slysið fór stefnandi til Eistlands, en þar hafði hún búið áður, og dvaldi hún þar í 2 vikur en leitaði ekki læknis þar.  Vann stefnandi ekkert næstu 6 vikur en fór þá að vinna í fiski hjá fyrirtækinu Festi í Hafnarfirði.  Vann hún þar þangað til í júlí 2007 er hún var komin þrjá mánuði á leið með barn sem fæddist í árslok 2007.  Var hún í fæðingar­orlofi fram eftir ári 2008.  

Stefnandi kveðst strax eftir slysið hafa fundið fyrir verk í vinstri hendi, en hún hafi þó ekki leitað til læknis vegna þess.  Hún hafi svo farið að finna fyrir vaxandi einkennum frá stoðkerfi eftir slysið og í byrjun febrúar 2006 hafi hún leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna málsins.  Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði Páls S. Pálssonar, læknis á Heilsu­gæslu Sólvangs, leitaði stefnandi á heilsugæsluna 3. febrúar 2006.  Þá hafi hún kvartað undan eymslum yfir axlar- og hnakkasvæði.  Stefnandi mun hafa leitað til heilsu­gæslunnar 23. mars 2006 vegna kviðverkja.  Samkvæmt fyrrgreindu læknisvottorði kom stefnandi á heilsugæsluna 26. apríl 2006 vegna mikilla verkja á axlar- og hnakkasvæði og einnig í mjóbaki.  Röntgenmynd var tekin sem sýndi vægar slitbreytingar en ekki merki um brot eða „luxationir“.  Frá júní 2006 var stefnandi í þjálfun hjá sjúkraþjálfara vegna stoðkerfiseinkenna frá axlar- og hnakkasvæði og einnig frá „lumbalsvæði“.

Í fyrrgreindu læknisvottorði kemur einnig fram að einungis séu skráðar þrjár komur stefnanda eftir slysið og sú síðasta hafi verið í ágúst 2006.  Engar færslur séu til í sjúkraskrám heilsugæslustöðvarinnar með tilliti til stoðkerfiseinkenna fyrir slysið. Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefnandi til Heilsugæslu Sólvangs 1. febrúar 2005 vegna inflúensu og hinn 7. desember 2005 vegna kvefs.

Stefnandi óskaði eftir mati Örorkunefndar á afleiðingum slyssins með matsbeiðni 10. október 2006.  Niðurstaða Örorkunefndar var sú að varanleg örorka hennar væri 10% og varanlegur miski 10%. 

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., taldi ósannað að orsakatengsl væru milli einkenna stefnanda og slyssins frá 6. ágúst 2005 og óskaði þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta hvaða líkamseinkenni stefnanda væri unnt að rekja sannanlega á grundvelli læknisfræði­legra gagna til áðurnefnds slyss.  Voru Halldór Baldursson læknir og Örn Höskuldsson hrl. dómkvaddir til starfans hinn 30. mars 2007.  Samkvæmt matsgerð þeirra 8. október 2007 er niðurstaða þeirra sú að þeir telji ósannað að aðrir áverkar hafi orðið við slysið en ótilgreindur áverki á vinstri griplim.

Stefnandi var ekki sátt við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna og óskaði þess að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að meta afleiðingar slyssins og hvort orsakatengsl væru milli núverandi einkenna hennar og slyssins.  Voru læknarnir Atli Þór Ólason og Guðmundur Björnsson og hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður R. Arnalds dómkvaddir til starfans 18. apríl 2008.  Í matsgerð þeirra 16. júlí 2008 komast þeir að því að rétt sé að leggja til grundvallar að orsakatengsl séu milli slyssins og einkenna háls- og baktognunar hjá stefnanda sem staðreynd hefðu verið á matsfundi.  Meta þeir varanlega örorku stefnanda 12% og varanlegan miska hennar 10%.

Með bréfi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., 2. september 2008 var stefnanda tilkynnt að félagið féllist ekki á niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna og hafnaði bótaskyldu vegna slyssins þar sem ósannað væri að rekja mætti einkenni þau sem hrjá stefnanda til slyssins.

Stefnandi fékk hinn 15. febrúar 2008 leyfi dómsmálaráðuneytisins til gjafsóknar í málinu.

Í máli þessu snýst meginágreiningur aðila um það hvort þeir áverkar sem í dag hrjá stefnanda og metnir hafa verið til örorku verði raktir til umrædds umferðarslyss sem stefnandi lenti í hinn 6. ágúst 2005.

III

Stefnandi byggir á því að stefndu beri að greiða henni bætur vegna afleiðinga umferðarslyssins sem hún lenti í hinn 6. ágúst 2005.  Í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 komi fram að sá sem ábyrgð beri á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem hljótist af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.  Í 1. mgr. 90. gr. laganna komi síðan fram að skráður eða skráningarskyldur eigandi vélknúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur samkvæmt 88. og 89. gr. laganna.  Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga skuli mál til heimtu bóta gegn þeim sem bótaskyldur sé samkvæmt 90. gr. laganna jafnframt höfða gegn því vátryggingafélagi sem vátryggt hafi ökutækið.  Á slysdegi hafi skráður eigandi bifreiðarinnar PG-865, stefnda Jóhanna, verið með bifreiðina tryggða hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., og sé þeim því báðum stefnt.

Stefnandi kveður ágreining málsins og ástæðu málshöfðunar snúa að því hvort og þá hvaða líkamlegu einkenni sem stefnandi búi við í dag megi rekja til slyssins 6. ágúst 2005.  Í málinu liggi fyrir þrjár álits- og matsgerðir.  Í fyrsta lagi álitsgerð örorkunefndar þar sem stefnandi sé metin með 10% varanlega örorku og 10% varan­legan miska.  Í öðru lagi matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, læknis og lögfræðings, þar sem ósannað sé talið að rekja megi þau einkenni sem stefnandi kvarti yfir til slyssins 6. ágúst 2005 og sé stefnandi því í þeirri matsgerð metin með 0% varanlegan miska og 0% varanlega örorku vegna slyssins.  Í þriðja lagi liggi fyrir matsgerð þriggja dómkvaddra yfirmatsmanna þar sem varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé metin 12% og varanlegur miski 10%.

Sú niðurstaða dómkvaddra undirmatsmanna að ósannað sé að þau líkamseinkenni sem hrjái stefnanda í dag sé að rekja til umferðarslyssins 6. ágúst 2005 sé byggð á því að mjög skorti á læknisfræðilega staðfestingu á þeim áverkum sem stefnandi telji sig hafa hlotið í slysinu.  Þá byggi matsmenn á því að ekki liggi fyrir gögn er staðfesti aðra áverka en þá sem komi fram í lögregluskýrslu þ.e. áverka á vinstri hendi.  Matsmenn byggi á því að stefnandi hafi ekki leitað til læknis vegna slyssins fyrr en sex mánuðum eftir það og að hún hafi ekki skýrt lækni frá einkennum sínum vegna slyssins svo sannað sé fyrr en átta mánuðum eftir slysið.  Matsmenn byggi jafnframt á því að í millitíðinni hafi stefnandi leitað til læknis án þess að minnast á slysið eða einkenna vegna þess.

Stefnandi telur að ekki sé hægt að byggja á niðurstöðu dómkvaddra undirmatsmanna þegar metið sé hvaða afleiðingar megi rekja til slyssins 6. ágúst 2005.  Sé niðurstaða dómkvaddra yfirmatsmanna ítarleg og vel rökstudd og byggi stefnandi á því að með henni sé hnekkt sönnunargildi matsgerðar undirmatsmanna. Niðurstöðu um að orsaka­tengsl séu á milli einkenna stefnanda í dag og slysins 6. ágúst 2005 byggi yfirmats­menn á því að ekki liggi fyrir aðrar upplýsingar en þær að stefnandi hafi verið einkennalaus frá stoðkerfi fyrir slysið.  Þá byggi yfirmatsmenn á því að um harðan árekstur hafi verið að ræða og að bifreið stefnanda hafi verið óökufær eftir slysið.  Telji yfirmatsmenn, með vísan til þess hve harður áreksturinn var, að líklegt sé að hann hafi getað valdið þeim einkennum sem matsbeiðandi búi við í dag.  Þá byggi yfir­matsmenn á því að staðfest sé í lögregluskýrslu að stefnandi hafi orðið fyrir líkams­áverka við áreksturinn og að hún hafi hlotið áverka á hönd.  Með vísan til læknis­fræðilegra gagna málsins telji yfirmatsmenn að einkenni matsbeiðanda geti vel komið heim og saman við það umferðarslys sem stefnandi lenti í og að þessi einkenni séu staðfest með læknisfræðilegum gögnum eftir slysið.  Jafnframt byggi yfirmats­menn á því að eðlilegar skýringar séu á því að stefnandi leitaði ekki fyrr en raun ber vitni til læknis en stefnandi sé af erlendu bergi brotin og eigi því við tungumála­erfiðleika að stríða.  Að lokum byggi yfirmatsmenn á því að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar orsakir hefðu getað valdið þeim einkennum sem stefnandi búi við í dag.

Með vísan til rökstuðnings og niðurstöðu dómkvaddra yfirmatsmanna telur stefnandi að sannað sé að orsakatengsl séu á milli þeirra einkenna sem hún búi við í dag og slyssins 6. ágúst 2005.  Sé því með yfirmati hnekkt sönnunargildi fyrirliggjandi undirmatsgerðar sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggi höfnun sína um greiðslu bóta á.  Verði almennt að telja að matsgerðir dómkvaddra yfirmatsmanna hafi mun meira sönnunargildi en matsgerðir dómkvaddra matsmanna um sama efni enda felist það í eðli yfirmatsins að verið sé að endurskoða niðurstöðu matsgerðar.  Yfirmatsgerð í máli stefnanda sé unnin af þremur sérfróðum dómkvöddum matsmönnum en matsgerð dómkvaddra matsmanna aðeins af tveimur sérfróðum matsmönnum. Af skrifum fræðimanna og dómaframkvæmd megi ráða að almennt hafi yfirmatsgerðir mun meira sönnunargildi en matsgerðir dómkvaddra matsmanna, enda hafi stefndu ekki bent á neina ágalla á yfirmatsgerðinni með rökstuddum hætti.

Að mati stefnanda skorti verulega á í undirmatsgerð að tekið sé tillit til allra þeirra þátta sem skipti máli við mat á orsakatengslum einkenna stefnanda og slyssins 6. ágúst 2005 og sé því ekki unnt að byggja niðurstöðu um orsakatengsl á því einu að stefnandi hafi ekki leitað til læknis fyrr en hún gerði.

Enda þótt nokkur tími hafi liðið áður en stefnandi leitaði sér læknisaðstoðar hafi hún fundið fyrir miklum verkjum dagana eftir slysið og hafi hún til dæmis átt erfitt með að snúa höfðinu.  Stefnandi hafi tekið inn verkjalyf vegna einkenna þessara í þeirri von að þau myndu lagast af sjálfu sér. Einkenni stefnanda hafi lítillega lagast í kjölfar slyssins, en eftir að hún hafi farið að vinna í lok september eða byrjun október 2005, hafi líðan hennar ekkert batnað heldur fremur farið versnandi.  Hún hafi svo leitað til heimilislæknis í febrúar 2006.

Stefnandi hafi enga fyrri sögu um háls- eða bakverki eða aðra stoðkerfissögu og sé það með öllu ósannað að einkenni hennar leiði af öðrum atvikum en umræddu umferðar­slysi.  Byggi stefnandi á því að með vísan til eðlis árekstursins, og þess hversu bifreið hennar var illa leikin eftir hann, sé ljóst að áverkar hennar séu af völdum hans auk þess sem eðlilegar skýringar séu á því að hún hafi ekki leitað til læknis strax eftir áreksturinn.  Þá sé ekki óalgengt að verkir komi fram nokkrum dögum eftir slys þegar um tognunaráverka sé að ræða.  Stefnandi tali litla ensku og nánast enga íslensku og vegna tungumálaörðugleika eigi hún því mjög erfitt með að tjá sig um flókna hluti án aðstoðar túlks.  Megi rekja það að upplýsingar um afleiðingar slyssins hafi komið seint fram að hluta til þessara ástæðna.

Dómkröfur stefnanda sundurliðast svo:

Tímabundið tekjutap:

kr.    138.015

Greidd laun í ágúst 40.581

Greidd laun í september 118.920

Laun í júlí 148.758

Tekjutap á ágúst 108.177

Tekjutap í september 29.838

Þjáningabætur:

kr.      51.600

Dagar án rúmlegu 40 x 1.290 kr.

Varanlegur miski (10%):  

10% af kr. 7.390.500

kr.    739.050

Varanleg örorka (12%):   

kr. 2.565.750

Árslaun kr. 1.802.500 x 11,86200 x 12% = 2.565.750.-

Samtals:

kr. 3.494.415

Gerð sé krafa um greiðslu vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna miska frá tjónsdegi þann 6. ágúst 2005 til stöðugleikatímapunkts 6. febrúar 2006 og vegna varanlegrar örorku frá stöðugleikapunkti þann 6. febrúar 2006 til 7. september 2008, þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að krafa stefnanda var sett fram.  Þá sé krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæð frá 7. september 2008 til greiðsludags samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Um bótaábyrgð vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar og skaða­bótalaga nr. 50/1993.  Einnig vísar hún til umferðarlaga nr. 50/1987, meðal annars XIII. kafla laganna.  Um aðild máls vísar stefnandi til 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 16. gr. og 17. gr.  Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um varnarþing vísar hún til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. þeirra laga.  Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Stefndu byggja sýknukröfur sínar á því að ekki sé sannað að umstefnt líkamstjón stefnanda verði rakið til bifreiðaslyssins hinn 6. ágúst 2005.  Hvíli sönnunarbyrðin um orsakatengsl milli slyssins og líkamstjóns stefnanda á stefnanda samkvæmt almennum sönnunarreglum skaðabóta­réttarins.  Verði ekki ráðið af dómaframkvæmd að almennt séu gerðar vægari sönnunarkröfur um orsaka­tengsl milli atburðar og tjóns í líkams­tjóna­málum en öðrum skaða­bóta­málum.  Þá séu ekki heldur nein efni til þess í tilviki stefnanda að slaka á sönnunarkröfum en stefnandi hafi sjálf átt verulega sök á árekstrinum.

Samkvæmt dómaframkvæmd sé ekki nægilegt til sönnunar um orsakatengsl milli atburðar og tjóns í líkamstjónamálum að hugsanlega geti verið um slík tengsl að ræða, heldur þurfi að vera nokkuð víst og í öllu falli meiri líkur en minni fyrir því að orsakatengsl séu í raun og veru fyrir hendi.  Vegi þungt við sönnunarmat í því efni hvort samtíma læknagögn séu til staðar eða ekki og hvort einkenni viðkomandi sjúklings séu almenn eða sértæk og hvenær einkenni hafi sannanlega komið fram.

Vanti mikið á að meiri líkur en minni séu fyrir því, hvað þá að hægt sé að telja það víst, að stefnandi hafi í raun hlotið umstefnd bak- og hálseinkenni við bíláreksturinn 6. ágúst 2005.  Hafi stefnandi á árekstursvettvangi ekki kennt sér annars meins en að finna til í vinstri hendi og hafi hún ekki leitað til læknis í kjölfarið heldur látið aka sér að veitingahúsi.  Nokkrum dögum síðar hafi stefnandi svo farið til Eistlands og dvalið þar í tvær vikur án þess að leita læknis.  Hinn 7. desember 2005 hafi stefnandi leitað á Heilsugæsluna Sólvang vegna kvefs og aftur hinn 3. febrúar 2006 vegna vöðvabólgu í hálsi og herðum og enn aftur hinn 23. mars 2006 vegna kviðverkja.  Í engu tilvikanna hafi stefnandi minnst á áreksturinn 6. ágúst 2005 eða að hún kenndi sér nokkurs meins vegna hans.  Hefðu einkenni háls- og baktognunar af völdum árekstursins, ef um slíkt var að ræða, átt að vera komin fram fyrir löngu.  Sé það fyrst átta mánuðum eftir slysið, eða við komu á Sólvang hinn 26. apríl 2006 vegna bakverks, að stefnandi komi með sögu um að hún hafi lent í bílslysi í ágúst 2005 og að hún hafi verið afleit af verkjum síðan þá.  Samtíma læknagögn um bak- og hálsáverka af völdum áreksturs­ins séu því engin fyrir hendi.

Þá fái ekki staðist hjá stefnanda að tungumálaörðugleikar séu að hluta ástæða þess að upplýsingar um afleiðingar slyssins hafi komið seint fram.  Hafi stefnandi tjáð yfir­mats­­mönnum að hún teldi ekki að tungumálaerfiðleikar hafi staðið í vegi fyrir því að hún hefði leitað læknis ef hún á annað borð hefði viljað það.  Þá hafi stefnandi verið gift íslenskum manni sem hefði getað aðstoðað hana í þessu efni.   

Við komuna á Sólvang þann 26. apríl 2006 hafi stefnandi verið með mikla vöðvabólgu um herðar og háls.  Hafi röntgenmynd, tekin í framhaldi af skoðuninni, sýnt vægar hrörnunar­breytingar í hálsi en engin merki um brot eða liðhlaup.  Vöðvabólga í herðum og hálsi, sem og háls- og bakverkir, séu almenn sjúkdómseinkenni sem stafi venjulegast af öðru en áverkum eftir bílslys. Í tilviki stefnanda sé sennilegast að einkenni hennar hafi stafað af vinnuálagi en stefnandi hafi verið búin að vinna marga mánuði í fiski þegar hún kom á Sólvang 26. apríl 2006.  Hafi stefnandi í júní 2006 leitað til sjúkraþjálfara vegna stirðleika og stoðkerfiseinkenna frá axlar-,  hnakka- og lumbalsvæði auk dofaeinkenna.  Séu þau einkenni sem stefnandi kvarti um, og lýst sé matsgerðunum, ekki sértæk slyseinkenni.   

Að mati stefndu sé síðbúin sögusögn stefnanda, þess efnis að hún hafi  allar götur frá því áreksturinn varð fengið og fundið til þeirra einkenna sem hún búi við í dag, það eina sem fyrir liggi til sönnunar því að hún hafi í raun hlotið áverka við áreksturinn.  Hins vegar skorti mjög á læknisfræðilega staðfestingu á þessu eins og undirmatsmenn bendi réttilega á.  Séu engin samtíma læknagögn fyrir hendi til stuðnings sögusögn stefnanda og séu einkenni hennar ekki sértæk fyrir áverka vegna bifreiðaáreksturs.  Þá sé það fyrst að liðnum sex mánuðum frá slysi að stefnandi leiti læknis vegna stoðkerfis­einkenna en einkenni eftir háls- og bakáverka í bílslysi komi að jafnaði fram þegar í stað eða örfáum dögum eftir slys.  Mæli allt þetta eindregið gegn því að stefnandi hafi í reynd fengið áverka við áreksturinn sem núverandi einkenni hennar megi rekja til.  Fái yfirmatsgerðin engu breytt um þessar staðreyndir.  

Þannig fari því fjarri að með yfirmatsgerðinni sé sannað að orsakatengsl séu milli núverandi einkenna stefnanda og slyssins 6. ágúst 2005.  Sé yfirmatsgerðin ekki byggð á neinum læknis­fræðilegum samtímagögnum heldur á síðbúinni sögusögn stefnanda og afar hæpnum ályktunum yfirmatsmanna um líkur og sönnun.  Hafi yfirmatsgerðin því harla lítið sönnunargildi.  Telji yfirmatsmenn rétt að leggja til grund­vallar að mun meiri líkur en ekki séu á því að samband sé milli núverandi einkenna stefnanda og umferðar­slyssins  þar sem um sé að ræða í fyrsta lagi allharðan árekstur sem valdið hafi getað líkamstjóni, í öðru lagi að í lögregluskýrslu sé getið um áverka á hendi sem stefnandi kveði hafa verið óþægindi í upphandlegg, í þriðja lagi að stefnandi hafi haft stoðkerfiseinkenni við skoðun heimilislæknis um hálfu ári eftir slysið, sem hún hafi síðan haft og verið stöðug til dagsins í dag, í fjórða lagi að eðlilegar skýringar geti verið á því að hún leitaði ekki læknis fyrr og í fimmta lagi að ekki hafi verið sýnt fram á aðrar orsakir er hefðu getað valdið einkennum stefnanda. Ekkert af þessu sanni að núverandi einkenni stefnanda verði í raun og veru rakin til árekstursins eða að til þess séu mun meiri líkur en ekki.

Þau rök sem mæli því í gegn að einkenni stefnanda verði rakin til árekstursins og nefnd séu að framan, svo og mat undirmatsmanna þess efnis að ekki sé sannað að stefnandi hafi hlotið aðra áverka við bíláreksturinn en ótilgreindan áverka á vinstri grip­lim, sýni ljóslega að yfirmatsgerðin fái ekki staðist.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu geri þau til vara kröfu um sakarskiptingu og lækkun stefnukrafna.  Sé varakrafa stefndu byggð á því að stefnandi eigi sjálf höfuðsök á árekstrinum með ölvunarakstri og hraðakstri og verði stefnandi að bera tjón sitt sjálf í hlutfalli við þá sök.  Beri því af þeim ástæðum að stórlækka bótakröfu stefnanda.  Hafi áfengismagn í blóði stefnanda mælst 1,65 ‰ og hafi hún því verið óhæf til að stjórna ökutæki er áreksturinn varð, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Þá hafi vitni borið að stefnandi hefði ekið á mikilli ferð og „svaka blúss“ hafi verið á henni en leyfður ökuhraði hafi aðeins verið 50 km/klst. Með þessu háttalagi hafi stefnandi sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Fari, samkvæmt dómvenju og fræðum um bótarétt stefnanda, eftir sakarreglu 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en sem ökumaður bifreiðar geti hún einungis byggt bótarétt gagnvart stefndu á sakarreglu 89. gr. umferðarlaga en ekki á hlutlægu bótareglunni í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga sem hún byggi á í stefnu.  Beri því að skerða bætur til stefnanda að tiltölu við sök hennar án tillits til þess hvort sök hennar teljist stórfelld eða ekki.

Stefnukröfum sé jafnframt mómælt tölulega en ekki verði séð hvernig árslauna­við­miðun við útreikning örorkutjóns sé fundin.  Þá sé tímabundið tekjutap ósannað en aðeins beri að bæta raunverulegt og sannað tímabundið vinnutekjutap.  Að sama skapi verði að andmæla kröfu stefnanda um þjáningabætur.  Sé meint veikinda- og óvinnu­færni­tímabil, sem kröfur um þjáningabætur og tímabundið atvinnutjón byggist á, vefengt.  Ekkert liggi fyrir um óvinnufærni stefnanda eða veikindi á því tímabili en stefnandi hafi farið strax eftir slysið til útlanda.  Loks verði ekki séð að yfirmat sé réttara en mat örorkunefndar, hvað varði örorkuprósentu vegna varanlegrar örorku. Beri því að lækka kröfulið um bætur fyrir varanlega örorku til samræmis við  niðurstöðu örorkunefndar.

V

Eins og rakið hefur verið lýtur meginágreiningsefni máls þessa að því hvort rekja megi örorku stefnanda, sem staðreynd hefur verið með matsgerðum örorkunefndar og yfirmatsmanna, til umferðarslyssins sem stefnandi lenti í hinn 6. ágúst 2005.  Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefndu verði talið sannað að heilsubrestur stefnanda sem hún krefst bóta á verði rakinn til umferðarslyssins.  Hins vegar telja stefndu stefnanda sjálfa bera hluta sakar.

Í máli þessu liggja fyrir þrjár matsgerðir.  Í mati örorkunefndar 19. desember 2006 er ekki fjallað sérstaklega um hvort orsakatengsl séu milli slyssins og líkamstjóns stefnanda enda ekki farið fram á það í matsbeiðni stefnanda.  Aðeins var farið fram á að nefndin legði mat á líkamstjón stefnanda, sem fullyrt var að hún hafi orðið fyrir í umferðarslysinu.

Í matsgerð undirmatsmanna er eingöngu fjallað um það afmarkaða matsefni hvort stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni sem með sannanlegum hætti mætti rekja til umrædds umferðaslyss hinn 6. ágúst 2005.  Var óskað eftir því að lagt yrði mat á hvaða líkamseinkenni, sem hrjáðu stefnanda á þeim tíma er matsbeiðnin var sett fram, yrðu, á grundvelli læknisfræðilegra gagna, sannanlega rakin til umferðarslyssins.  Var niðurstaða matsmanna að mjög skorti á læknisfræðilega staðfestingu áverka sem stefnandi telji sig hafa hlotið í slysinu.  Töldu matsmenn ósannað að aðrir áverkar hefðu orðið við slysið en tilgreindur áverki á vinstri griplim.  Töldu matsmenn, með tilliti til eðlis slyssins, þess sem sagði í lögregluskýrslu um áverka á hendi og læknisskoðunar á matsfundi, að færa mætti líkur að því að stefnandi hefði í slysinu hlotið högg á vinstri framhandlegg og marist þótt ekki lægju fyrir læknisfræðileg samtímagögn þessu til stuðnings.  Yrði ekki af eðli slysatviksins ályktað um aðra áverka.  Að mati undirmats­manna væri því ekki sannað að þau líkamseinkenni sem nú hrjáðu stefnanda yrðu á grundvelli læknisfræðilegra rakin til slyssins.

Þá liggur frammi í málinu yfirmatsgerð þriggja dómkvaddra matsmanna og byggir stefnandi kröfur sínar á niðurstöðu hennar.  Í matsbeiðni til yfirmats­manna var meðal annars óskað eftir mati á því hvort orsakatengsl væru milli slyssins og einkenna stefnanda.  Er í yfirmatsgerð rakið að norrænir fræðimenn á sviði skaðabótaréttar telji að gerðar séu vægari kröfur til sönnunar orsakatengsla líkamstjóns en annarra tjóna.   Er það niðurstaða yfirmats­manna að við slysið 6. ágúst 2005 hafi stefnandi orðið fyrir líkamstjóni.  Þannig hafi hún vegna slyssins orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, þjáningum, 10% varanlegum miska og 15% varanlegri örorku.

Við mat á orsakatengslum leggja yfirmatsmenn til grundvallar eftirfarandi atriði:

  1. Beri fyrst að líta til þess að ekki liggi fyrir aðrar upplýsingar en þær að stefnandi hafi verið einkennalaus frá stoðkerfi fyrir umrætt slys. 
  2. Þá hafi áreksturinn verið allharður og megi telja að áreksturinn einn og sér hafi verið líklegur til að geta valdið þeim óþægindum sem stefnandi kvarti um í dag.  Að mati yfirmatsmanna séu meiri líkur en minni til þess að áreksturinn hafi getað leitt til  þeirra einkenna sem stefnandi búi við í dag. 
  3. Þá komi fram í lögregluskýrslu að stefnandi hafi orðið fyrir líkamsáverka við áreksturinn og hafi hún hlotið áverka á hendi sem þó séu ekki nánar útskýrðir.  Hafi stefnandi upplýst á matsfundi að hún hafi fundið fyrir óþægindum í vinstri öxl og upphandlegg af bílbeltinu.  Þá hafi hún haft roða á framhandlegg undan púðri í loftpúðum.  Geti þetta komið heim og saman við hluta þeirra einkenna sem stefnandi búi við nú.  Hafi stoðkerfiseinkenni stefnanda verið staðreynd við skoðun heimilislæknis um hálfu ári eftir slysið sem hún hafi síðan haft og verið stöðug til dagsins í dag. 
  4. Þá hafi stefnandi upplýst að hún hefði verið verulega hrædd eftir slysið og fengið taugaáfall.  Hún hafi ekki viljað tala um slysið eða afleiðingar þess við nokkurn mann og ekki viljað leita sér læknis af sömu ástæðum.  Ástæðan hafi ekki verið sérstakir tungumálaerfiðleikar.  Að mati yfirmatsmanna geti því verið eðlilegar skýringar á því hvers vegna stefnandi leitaði ekki til læknis fyrr vegna afleiðinga umferðarslyssins. 
  5. Auk framangreindra atriða hafi ekki verið sýnt fram á aðrar orsakir fyrir þeim einkennum sem stefnandi búi við.  Telja yfirmatsmenn því rétt að leggja til grundvallar að mun meiri líkur en ekki séu á því að samband sé milli núverandi einkenna háls- og baktognunar, sem staðreynd hafi verið á matsfundi, og umferðar­slyssins.

Kemur fram í yfirmatsgerð að stefnandi hafi sagst hafa fundið til óþæginda í hálsi, herðum, baki og höfði og í fyrstu heimsókn hjá heimilislækni um hálfu ári eftir slysið hafi hún kvartað um verk í hálsi, herðum og mjóbaki og eymsli hafi fundist á þeim stöðum.  Telja yfirmatsmenn að þessi einkenni geti vel komið heim og saman við einkenni sem hefðu getað hlotist af umferðarslysinu.  Komi þetta óþægindamynstur síðan fram aftur og aftur í sömu mynd í fyrirliggjandi gögnum.

Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 metur dómari sönnunargildi matsgerða. Yfirmatsmenn byggja niðurstöðu sína um orsakatengsl meðal annars á því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi stefnandi verið einkennalaus frá stoðkerfi fyrir umrætt slys.  Einu haldbæru gögnin um það fyrir utan fullyrðingar stefnanda sjálfrar er vottorð heilsugæslulæknis á Sólvangi, um að engar færslur séu til í sjúkraskrám heilsugæslunnar með tilliti til stoðkerfiseinkenna fyrir slysið.  Fyrir liggur að stefnandi flutti til Íslands árið 2003 og eru ekki fyrirliggjandi neinar upplýsingar um heilsufar hennar fyrir þann tíma.  Þykir stefnandi ekki hafa lagt fram haldbær gögn því til sönnunar að hún hafi verið einkennalaus frá stoðkerfi fyrir slysið þannig að það renni stoðum undir að orsakatengsl séu milli slyssins og líkamsástands stefnanda.

Þá byggja yfirmatsmenn á því að um allharðan árekstur hafi verið að ræða.  Fyrir liggur að bifreið stefnanda var óökufær eftir áreksturinn og ber gögnum málsins saman um að áreksturinn var harður þótt ekki sé til að dreifa óyggjandi gögnum um hversu harður hann var.  Harður árekstur getur valdið miklum áverkum og jafnvel engum eftir atvikum.  Eftir því sem árekstur er harðari er þó líklegra að áverkinn verði meiri og komi fram strax.  Þannig gætu einkenni þau sem stefnandi kvartar yfir hafa tengst slysinu en til að hægt sé að slá því föstu að þau tengist slysinu verða einkennin að koma fram innan ákveðins tíma.  Þeim mun lengri tími sem líður frá slysi þar til einkenni heilsubrests koma fram þeim mun ólíklegra verður að telja að einkennin eigi rætur að rekja til slyssins.  Einkenni tognunar koma fram strax eða mjög fljótlega eftir slys.  Tognunareinkenni eru tiltölulega afmörkuð og bundin við ákveðin líkamssvæði eða líkamshluta sem fyrir áverkanum verður.  Stefnandi leitaði til læknis um 6 mánuðum eftir slysið og kvartaði undan stoðkerfiseinkennum án þess að nefna við lækninn að hún hefði lent í umræddu slysi.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru þau einkenni sem hún þá kvartaði yfir óljós og ekki bundin við eitt líkamssvæði heldur mörg.  Það var svo ekki fyrr en rúmum 8 mánuðum eftir slysið að hún leitaði til læknis vegna verkja sem hún tengdi slysinu.  Að framangreindu virtu er það því mat dómsins að tognunareinkenni stefnanda verði tæplega rakin til slyssins og er allsendis ósannað að meiri líkur séu á því en minni.

Þá telja yfirmatsmenn að áverki sá á vinstri hendi sem nefndur er í lögregluskýrslu, og upplýsingar stefnanda á matsfundi um að hún hafi fengið óþægindi í vinstri öxl og upphandlegg, geti komið heim og saman við hluta þeirra einkenna sem stefnandi búi við.  Í lögregluskýrslu er talað um áverka á hendi án þess að það sé skýrt frekar.  Einkenni frá hálsi og baki eru hins vegar lögð til grundvallar örorku í matsgerðum.    Er það mat dómsins að sú staðreynd að stefnandi hafi fengið áverka á hendi hafi ekkert með orsakasamhengi milli slyssins og bakóþæginda stefnanda að gera og telur dómurinn fyrrgreinda ályktun yfirmatsmanna ranga.

Yfirmatsmenn telja skýringu stefnanda á því hvers vegna hún leitaði ekki læknis fyrr vera eðlilega.  Af málatilbúnaði stefnanda má ráða að ástæðan hafi fyrst og fremst verið hræðsla án þess að það sé skýrt nánar.  Þá hafi tungumálaerfiðleikar haft sitt að segja hvað þetta varðar.  Í gögnum málsins kemur fram að fyrir slysið og eftir það, en þó áður en stefnandi leitaði á heilsugæsluna vegna einkenna sem hún tengdi slysinu, leitaði hún þangað vegna kvefeinkenna.  Þótt ekki liggi fyrir með óyggjandi hætti hvers vegna stefnandi var hrædd má ætla að ástæða hræðslunnar hafi verið sú staðreynd að stefnandi var drukkin þegar hún lenti í slysinu.  Stefnanda var í sjálfsvald sett hvort hún upplýsti lækni um þá staðreynd.  Þá liggur fyrir að stefnandi var í fullri vinnu hér á landi og gift íslenskum manni auk þess sem hún hafði leitað til læknis áður en hún lenti í slysinu.  Verður því að gera ráð fyrir því að stefnandi hafi haft full tök á og þekkingu til að leita sér læknis vegna stoðkerfisvandamála.  Þá verður ekki fram hjá því litið að stefnandi fór í kjölfar slyssins til heimalands síns og dvaldi þar í tvær vikur án þess að leita til læknis þar.  Þegar þetta er virt þykir hræðsla, tungumála­erfiðleikar eða vanþekking ekki vera líkleg skýring á því hvers vegna stefnandi leitaði ekki til læknis fyrr en raun ber vitni. 

Þá verður með engu móti fallist á að það að ekki hafi verið sýnt fram á aðrar orsakir fyrir einkennum stefnanda leiði líkur að því að einkenni hennar verði rakin til slyssins, svo sem gert er í yfirmatsgerð, enda ekki sýnt fram á það með læknis­fræðilegum gögnum. 

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ekki verði byggt á þeirri niðurstöðu yfirmatsgerðar að orsakatengsl séu milli slyssins 6. ágúst 2005 og heilsubrests stefnanda sem fyrst var læknisfræðilega staðfestur í febrúar eða apríl árið eftir enda þykja þau ólíkleg og allsendis ósönnuð.  Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að heilsubrestur sá sem hún krefst bóta fyrir verði rakinn til umferðarslyssins og verða stefndu því sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður falli niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.484.740 krónur, þar af málflutnings­þóknun lögmanns hennar, sem þykir hæfilega ákveðin 650.000 krónur, þar með talinn virðis­auka­skattur, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Bryndís Guðmundsdóttir hdl. en af hálfu stefndu flutti málið Helga Melkorka Óttarsdóttir hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari og bæklunarskurðlæknarnir, Ríkarður Sigfússon og Yngvi Ólafsson kveða upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Jóhanna Gunnarsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda,  Svetlönu Krutitsenko.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.484.740 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar að fjárhæð 650.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.