Hæstiréttur íslands

Mál nr. 628/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                              

Föstudaginn 12. október 2012.

Nr. 628/2012.

Gunnlaugur M. Sigmundsson og

Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

Teiti Atlasyni

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

G og S kærðu ákvæði héraðsdóms um að vísa frá kröfu þeirra um ómerkingu ummæla sem viðhöfð voru um þau á bloggsíðu A. Talið var að málatilbúnaður G og S fullnægði ekki áskilnaði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og var ákvæði héraðsdóms um frávísun á kröfu þeirra því staðfest.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2012 um að vísa frá dómi kröfu sem sóknaraðilar gerðu í máli á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að þetta ákvæði dómsins verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu þeirra til efnismeðferðar. Til vara krefst sóknaraðilinn Gunnlaugur „að felldur verði úr gildi frávísunarþáttur héraðsdómsins og lagt fyrir dóminn að taka kröfur stefnandans í aðalsök til efnismeðferðar.“ Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest og sóknaraðilum gert að greiða sér kærumálskostnað.

Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta með stefnu 24. maí 2011 til ómerkingar nánar tilgreindra ummæla sem varnaraðili viðhafði um þau bæði 16. febrúar 2011 í færslu á bloggsíðunni dv.is/blogg/eimreidin. Með stefnu 24. nóvember 2011 höfðaði sóknaraðilinn Gunnlaugur framhaldsök á hendur varnaraðila vegna annarra nánar tiltekinna ummæla sem varnaraðili viðhafði um hann einan í færslu 8. ágúst sama ár á sömu bloggsíðu. Telja sóknaraðilar fyrrgreind ummæli varnaraðila stórkostlega móðgandi og meiðandi fyrir sig og fela í sér brot gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Mál sem höfðuð eru til ómerkingar ummæla samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru ekki undanskilin heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, ef fullnægt er skilyrðum lagaákvæðisins um sameiginlegan uppruna krafna þeirra aðila er sækja vilja mál saman.

Með dómi 19. september 2012 sýknaði héraðsdómur varnaraðila af kröfum sóknaraðilans Gunnlaugs um ómerkingu þeirra ummæla er birtust um hann einan 8. ágúst 2011, en vísaði frá dómi af sjálfsdáðum kröfum beggja sóknaraðila um ómerkingu þeirra ummæla sem birtust um þau 16. febrúar 2011. Krefjast sóknaraðilar endurskoðunar hinnar síðarnefndu úrlausnar hér fyrir dómi. Í umræddum ummælum varnaraðila er fjallað um báða sóknaraðila í nokkuð löngu og samfelldu máli, en ummælin varða þó að langstærstum hluta sóknaraðilann Gunnlaug. Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda, svo sem refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir og ómerkingu tiltekinna ummæla.  Í héraðsdómsstefnu er krafist ómerkingar áðurgreindra ummæla í heild sinni en þar í engu greint hvaða kröfur eru gerðar til ómerkingar annars vegar vegna sóknaraðilans Gunnlaugs og hins vegar vegna sóknaraðilans Sigríðar. Slíkur málatilbúnaður fullnægir ekki framangreindum áskilnaði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður því staðfest ákvæði héraðsdóms um frávísun á kröfum sóknaraðila um ómerkingu ummæla varnaraðila sem birtust 16. febrúar 2011.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun málsins að hluta er staðfest.

Sóknaraðilar, Gunnlaugur M. Sigmundsson og Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Teiti Atlasyni, 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. september 2012 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 24. maí 2011 af Gunnlaugi M. Sigmundssyni og Sigríði G. Sigurbjörnsdóttur, báðum til heimils að Þverárseli 30, Reykjavík, gegn Teiti Atlasyni, Ormebaksgatan 2F, 416 78 Gautaborg, Svíþjóð.

Kröfur aðila

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru að eftirfarandi ummæli sem birst hafi fyrst á bloggsíðunni, dv.is/blogg/eimreidin/, þann 16. febrúar 2011 verði dæmd dauð og ómerk:

Höfum í huga að fjölskylda hans á allan sinn auð undir pólitískum tengslum. Faðir Sigmundar var þingmaður í nokkra mánuði og kom sér þannig fyrir að hann hafði aðgang að innherjaupplýsingum sem varðaði fyrirtækið Kögun sem var ríkisfyrirtæki sem verið var að einkavæða. Sá lét konuna sína bjóða í fyrirtækið og vitandi að risa-samningur var fyrirliggjandi við Nató, var fjármögnun auðveld. Leikar fóru þannig að Gunnlaugur Sigmundsson (faðir Sigmundar Davíðs) eignaðist stóran hlut í Kögun og smám saman sölsaði hann undir sig allt fyrirtækið. Gunnlaugur varð milljarðamæringur á nokkrum árum vegna þessa. Hann tapaði reyndar megninu af eigum sínum í braski með hlutabréf í Flugleiðum...“

Þá krefst stefnandinn, Gunnlaugur M. Sigmundsson, þess að eftirfarandi ummæli sem birst hafi fyrst á bloggsíðunni, dv.is/blogg/eimreidin/, þann 8. ágúst 2011 verði dæmd dauð og ómerk:

„Tilgangi hans er í raun náð með því að setja á loft hamar sem hann hikar ekki við að berja fólk með, gangi það (að hans mati) of langt í gagnrýni sinni á hann sjálfan.“

Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til þess að birta dómsorð í máli þessu og forsendur dómsins á vefsíðunni dv.is/blogg/eimreidin/, þegar eftir að dómurinn hafi verið birtur. Þess er krafist að dómshlutinn verið birtur með sama hætti og annað efni bloggsíðunnar og á þeim stað að eftir honum verði tekið. Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnendum 654.720 krónur, auk virðisaukaskatts, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2010 til greiðsludags, til þess að standast kostnað af opinberri birtingu dóms í máli þessu og forsendna hans tvívegis í tveimur dagblöðum. Þá krefjast stefnendur þess að stefnda verði gert að greiða stefnendum málskostnað að mati dómsins og að tildæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir.

Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá er þess krafist, hvernig sem úrslit málsins verði, að stefnendur verði dæmdir in solidum til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættu álagi að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Atvik máls

Stefndi hefur um nokkurra ára skeið haldið úti svonefndri bloggsíðu. Hinn 16. febrúar 2011 birtist eftirfarandi færsla á síðunni, dv.is/blogg/eimreidin/, undir fyrirsögninni „Formaður Framsóknarflokksins og hræðslan“:

„Formaður Framsóknarflokksins segir að stjórnin sé skíthrædd við almenning. Þetta er ekki satt. Mikið líklegra er að formaður Framsóknarflokksins sé skíthræddur við almenning. Höfum í huga að fjölskylda hans á allan sinn auð undir pólitískum tengslum. Faðir Sigmundar var þingmaður í nokkra mánuði og kom sér þannig fyrir að hann hafði aðgang að innherjaupplýsingum sem varðaði fyrirtækið Kögun sem var ríkisfyrirtæki sem verið var að einkavæða. Sá lét konuna sína bjóða í fyrirtækið og vitandi að risa-samningur var fyrirliggjandi við Nató, var fjármögnun auðveld. Leikar fóru þannig að Gunnlaugur Sigmundsson (faðir Sigmundar Davíðs) eignaðist stóran hlut í Kögun og smám saman sölsaði hann undir sig allt fyrirtækið. Gunnlaugur varð milljarðamæringur á nokkrum árum vegna þessa. Hann tapaði reyndar megninu af eigum sínum í braski með hlutabréf í Flugleiðum og kann sjálfsagt Hannesi Smárasyni litlar þakkir fyrir. En höfum grundvallaratriðin á hreinu áður en við vöðum af stað með blammeringar um ótta, þjóðarvilja eða hvaða þá frasa sem stjórnmálamenn telja álitlegasta hverju sinni.“

Stefnandinn, Gunnlaugur M. Sigmundsson, sendi ritstjórum DV tölvupóst, sama dag og tilvitnuð færsla birtist, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að skrifin væru mjög ærumeiðandi og innihéldu „hreinar lygar“ um hann og eiginkonu hans, stefnandann Sigríði G. Sigurbjörnsdóttur. Fullyrti stefnandinn Gunnlaugur að ekkert í skrifunum væri sannleikanum samkvæmt. Krafðist hann þess að færslan yrði fjarlægð af vef dv.is, þegar í stað, en jafnframt yrði gripið til „viðeigandi ráðstafana“ gagnvart „ritsóðanum“. Í svarpósti ritstjóra DV sama dag sagði að ritstjórinn hefði haft sambandi við bloggarann og kynnt honum alvarlegar athugasemdir Gunnlaugs. Hann (bloggarinn) ætlaði að athuga málið en almenna reglan sé að bloggarar beri sjálfir ábyrgð á skrifum sínum. Ritstjóri DV mun hafa kynnt stefnda framangreindar athugasemdir stefnandans Gunnlaugs. Í framhaldi af fyrirspurn stefnda sendi stefnandinn Gunnlaugur honum tölvubréf 18. febrúar, þar sem hann staðhæfir m.a. að skrif stefnda hafi verið „hreinar lygar“ og falið í sér „sóðalegan áburð á saklaust fólk í þeim tilgangi einum að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga...“. Þá gerir stefnandinn Gunnlaugur  athugasemdir við að stefndi hafi í tengslum við umrædd bloggskrif birt 13 ára gamla Morgunblaðsgrein, Agnesar (Bragadóttur), sem verið hafi full af rangfærslum í sinn garð og ritstjóri Morgunblaðsins á sínum tíma þurft að biðja sig afsökunar á. Stefndi mun í framhaldi af framangreindum athugasemdum stefnandans Gunnlaugs hafa fjarlægt umrædd bloggskrif af upprunalegum birtingarstað þeirra. Hins vegar er ágreiningur með aðilum málsins um hvort bloggfærslan sé enn aðgengileg á öðrum birtingarstað. Stefnendur kröfðust þess með bréfi 23. mars 2011, að stefndi fjarlægði þegar í stað, í heild sinni, bloggfærslu sína sem fyrst hefði birst á vefsvæði hans 16. febrúar 2011 undir fyrirsögninni: Formaður Framsóknarflokksins og hræðslan. Þá var þess krafist að stefndi birti afsökunarbeiðni á vefsvæðinu vegna birtingar færslunnar og birti jafnframt undirritaða yfirlýsingu þess efnis að hann tæki til baka hinar ærumeiðandi ósönnu staðhæfingar, sem færslan hefði að geyma. Jafnframt var þess krafist að stefndi greiddi stefnendum 300.000 krónur til að standast kostnað af opinberri birtingu yfirlýsingarinnar í heild eða að hluta. Með bréfi 6. apríl 2011 hafnaði stefndi framangreindri kröfugerð stefnenda og krafðist þess að kröfugerðin yrði dregin til baka og hún látin niður falla. Stefnandinn Gunnlaugur höfðaði undir rekstri málsins framhaldssök á hendur stefnda með kröfu um að eftirfarandi ummæli, sem stefndi hefði birt á bloggsíðunni dv.is/blogg/eimreiðin/, 8. ágúst 2011, yrðu dæmd dauð og ómerk:

„Tilgangi hans er í raun náð með því að setja á loft hamar sem hann hikar ekki við að berja fólk með, gangi það (að hans mati) of langt í gagnrýni sinni á hann sjálfan.“

Stefndi hefur í greinargerð í framhaldssök hafnað framangreindri kröfu.

Málsástæður stefnenda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnendur byggja á því að með bloggfærslu stefnda 16. febrúar 2011, í heild sinni, hafi gróflega verið vegið að mannorði og æru beggja stefnenda og ráðist með ólögmætum hætti á friðhelgi einkalífs þeirra. Stefnendur byggja á því að þótt tjáningarfrelsi sé að sönnu verndað í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé fjarri því að frelsið sé takmarkalaust. Þannig þurfi menn að ábyrgjast tjáningu sína fyrir dómi og takmarka megi tjáningarfrelsi manna með lögum í ákveðnum tilvikum, m.a. af tillitssemi við mannorð annarra. Þá feli 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu í sér takmörkun á tjáningarfrelsinu, en þegar þessi hliðstæðu réttindi rekist á þurfi hverju sinni að fara fram hagsmunamat um það hvor réttindin vegi þyngra. Þau lagaákvæði sem feli í sér viðurlög við ærumeiðingum feli í sér vernd mikilsverðra og viðurkenndra mannréttinda, en ástæða hafi verið talin til þess að vernda æru manna að íslenskum rétti svo langt aftur sem rakið verði. Öllum mönnum beri að íslenskum lögum réttur til friðhelgi einkalífs og til að njóta æruverndar og séu stefnendur þar engin undantekning. Hvorugt stefnenda sé opinber persóna í skilningi fjölmiðlaréttar. Hvorugt þeirra hafi með höndum opinbert trúnaðarstarf eða gegni nokkru því starfi né stöðu sem réttlætt gæti skerta æru- og persónuvernd. Stefnandinn Sigríður hafi starfað sem kennari, meinatæknir og við almenn skrifstofustörf og sé húsmóðir í dag. Stefnandinn Gunnlaugur sé menntaður viðskiptafræðingur og hafi mestan hluta starfsferils síns starfað sem slíkur, utan áranna 1995-1999, þegar hann hafi sest á þing fyrir Framsóknarflokkinn, eitt kjörtímabil. Það hafi hann gert tveimur árum eftir að þau viðskipti með hlutabréf í Kögun hf., sem séu gróflega afbökuð í bloggfærslu stefnda, hafi átt sér stað.

Stefnendur hafi aldrei kallað eftir kastljósi fjölmiðla og athygli og raunar forðast hana. Sérstaklega sé rétt að nefna að þau hafi aldrei gert fjárhagslega stöðu sína að fjölmiðlaefni. Þau hafi lifað hófsömu lífi og aldrei borist á. Þegar metnar séu þær skorður sem friðhelgi einkalífs og æruvernd manna seti tjáningarfrelsinu, skipti grundvallarmáli hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Tilefni ummælanna hafi þannig mikla þýðingu. Tilefni bloggfærslu stefnda virðist vera ummæli formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í umræðum um Icesave samningana á Alþingi 15. febrúar 2011. Í tilvitnaðri færslu stefnda sé hlekkur á frétt á vefsíðunni visir.is, þar sem haft sé eftir formanninum að ljóst sé að ríkisstjórnin ætli að gera allt sem hún geti til að ljúka umræðunni um Icesave samningana sem fyrst, hún sé skíthrædd við almenning. Í kjölfar þessara ummæla formanns Framsóknarflokksins og að því er virðist til þess eins að sverta ímynd hans hafi stefndi séð ástæðu til þess gera að umfjöllunarefni 18 ára gömul viðskipti með hlutabréf í Kögun hf. og ljúga þar til, skálda og afbaka sannleikann. Rétt sé að fram komi að stefndi skilgreini sjálfan sig sem gegnheilan krata. Þótt viðurkennt sé að stjórnmálamenn geti þurft að sætta sig við takmarkaðri æruvernd og friðhelgi einkalífs, að því er snerti þætti sem starf þeirra varði, geti sú skerta persónuvernd aldrei tekið til þriðja aðila eða stefnenda í þessu tilviki, en þau séu foreldrar Sigmundar Davíðs. Stefnendur hafi ekki gefið nokkurt tilefni til ummæla stefnda. Ummælin sem stefndi hafi viðhaft um stefnendur geta ekki með nokkru móti réttlæst af þeirri umræðu sem átt hafi sér stað á Alþingi um Icesave samningana og geti ekki með neinum hætti talist eðlilegt innlegg í almenna þjóðfélagsumræðu á þeim tíma sem þau hafi verið viðhöfð. Þau séu ekki í neinu samhengi eða tengslum við Icesave umræðuna né umræðu um íslenska efnahagshrunið yfirleitt eða aðra opinbera umræðu. Ummælin hafi ekkert fréttagildi og eigi ekkert erindi við almenning. Telja verði ómálefnalegt og í meira lagi óréttlætanlegt að draga fram róg um foreldra formanns stjórnmálaflokks í þeim tilgangi einum að draga úr trúverðugleika hans. Ummæli stefnda hafi birst á bloggsíðu hans á vefsvæði vefútgáfu DV, dv.is. Vefurinn sé opinn og aðgengilegur öllum netnotendum án endurgjalds. Samkvæmt Hagtíðindum Hagstofu Íslands frá 15. september 2010 hafi 92% heimila á Íslandi verið með nettengingu og netnotkun almenn. Þannig hafi 95% landsmanna á aldrinum 16-74 ára heimsótt netið á síðustu þremur mánuðum fyrir rannsókn Hagstofunnar. Samkvæmt fjölmiðlakönnun MMR, Market and media research, frá janúar 2011, sé dv.is þriðja mest lesna íslenska vefsvæðið, sé miðað við lestur daglega eða oftar. Heil 31,4 % netnotenda heimsæki vefinn daglega eða oftar en 54% netnotenda lesi vefinn vikulega eða oftar. Þá sé netið þeim eiginleikum gætt að einfalt sé að afrita ummæli sem á því birtist og birta annars staðar. Það sé því ljóst að útbreiðsla ummæla stefnda sé gríðarlega mikil og skaðinn fyrir stefnendur eftir því. Í borða hægra megin á forsíðu dv.is birtist fyrirsagnir og hlekkir á nýjustu færslur fastra bloggpistlahöfunda á vefsvæði DV, þar á meðal stefnda. Bloggið sé þannig ákaflega aðgengilegt, en það megi einnig nálgast með auðveldum hætti með því að smella á „blogg“ í rönd efst á forsíðu dv.is og velja nafn stefnda við hlið andlitsmyndar af honum á lista sem þar birtist. Stefndi sé með afkastamestu og mest lesnu bloggurum á vefsvæðinu. Til marks um það megi nefna að í febrúarmánuði 2011 hafi birst eftir stefnda 53 færslur á bloggsíðunni dv.is/blogg/eimreidin/ eða nálægt tveimur færslum á degi hverjum, alla daga vikunnar. Í heild sinni sé færsla stefnda stórkostlega móðgandi og meiðandi fyrir stefnendur auk þess sem hún feli í sér brot gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Þá sé hún uppfull af rangfærslum. Með umfjölluninni hafi stefndi gerst sekur um brot gegn 229. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi sé ákaflega stóryrtur og brigsli stefnendum m.a. um athæfi sem sé í besta falli verulega siðferðislega ámælisvert en í versta falli refsivert svo varði þungum refsingum. Stefnendur hafi aldrei verið grunaðir um refsiverða háttsemi og þaðan af síður hlotið dóm fyrir slíka háttsemi. Með fullkomlega tilefnislausri umfjöllun um fjárhagsleg málefni stefnenda hafi stefndi einnig brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Stefndi setji sig í dómarasæti í dómstól götunnar og kveði miskunnarlaust upp dóm yfir stefnendum án laga og réttar. Hann hafi þannig gerst sekur um grófar móðganir og aðdróttanir í garð stefnenda.

Stefnendur byggi á því að leggja beri hlutlægan mælikvarða á ummæli þegar metið sé hvort þau séu ærumeiðandi eða brjóti gegn friðhelgi einkalífs, þ.e. hvort tjáningin sé til þess fallin að skerða persónulega hagsmuni þess sem fyrir verði samkvæmt almennri og hlutlægri viðmiðun. Umfjöllun stefnda sé sérlega meiðandi fyrir stefnendur og hafi fengið mjög á þá báða. Það leysi stefnda ekki undan ábyrgð að aðrir fjölmiðlar hafi áður fjallað um sömu málefni í óþökk stefnenda, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 34/2008. Þá myndi ekki heldur skipta máli þótt stefndi hefði fjarlægt ummælin af bloggsíðu sinni, sem hann hafi í reynd ekki gert, enda sé skaðinn þegar skeður. Dómstólar hafi fellt ábyrgð á höfunda þrátt fyrir að umstefnd ummæli hafi verið fjarlægð af vefsvæði þeirra, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-415/2010, sem fallið hafi 14. febrúar 2011, enda sé netið þess eðlis að ummæli sem einu sinni hafi verið sett þar fram lifi þar áfram þrátt fyrir að hin upprunalegu skrif sé þar ekki lengur að finna, eins og stefndi hafi reyndar sjálfur bent á í færslu á bloggsíðunni dv.is/eimreidin/. Eftir því sem ummæli skjóti oftar upp kollinum magnist lygin og fleiri trúi því að efni þeirra sé satt. Stefnendur byggi á því að sönnunarbyrði fyrir sannleiksgildi hinna ærumeiðandi ummæla hvíli alfarið á stefnda. Stefnendur byggi á því að saknæmisskilyrði séu uppfyllt að því er stefnda varði. Brot hans sé framið af ásetningi, þ.e. vitund stefnda um að tiltekin tjáning hans geti haft meiðandi áhrif á æru stefnenda. Þá hafi hann ekki látið af brotum sínum þrátt fyrir áskoranir stefnenda og ábendingar um rangfærslur og geti því ekki talist í góðri trú. Þá verði að hafa í huga að æruverndarbrot séu í eðli sínu samhverf brot og refsiverð án tillits til afleiðinga og fullframin er tjáningin komi til vitundar brotaþola. Stefnendur krefjist þess að eftirtalin ummæli verði dæmd dauð og ómerk:

„Höfum í huga að fjölskylda hans á allan sinn auð undir pólitískum tengslum. Faðir Sigmundar var þingmaður í nokkra mánuði og kom sér þannig fyrir að hann hafði aðgang að innherjaupplýsingum sem varðaði fyrirtækið Kögun sem var ríkisfyrirtæki sem verið var að einkavæða. Sá lét konuna sína bjóða í fyrirtækið og vitandi að risa-samningur var fyrirliggjandi við Nató, var fjármögnun auðveld. Leikar fóru þannig að Gunnlaugur Sigmundsson (faðir Sigmundar Davíðs) eignaðist stóran hlut í Kögun og smám saman sölsaði hann undir sig allt fyrirtækið. Gunnlaugur varð milljarðamæringur á nokkrum árum vegna þessa. Hann tapaði reyndar megninu af eigum sínum í braski með hlutabréf í Flugleiðum...“

Kröfugerð stefnenda að því er þessi ummæli varði byggi á því að með þeim sé vegið gróflega gegn æru þeirra, mannorði og friðhelgi einkalífs. Réttindin séu varin í 234., 235. og 229. gr. almennra hegningarlaga svo og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Ummælin séu óviðurkvæmileg og beri að ómerkja á grunni 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Með umfjöllun um meintan „auð stefnenda sé fjallað á ólögmætan hátt um fjárhagsmálefni þeirra sem teljist til einkamálefna. Umfjöllunin sé fullkomlega án tilefnis, fréttagildi hennar ekkert og hún sé ekki í neinum tengslum við almenna þjóðfélagsumræðu. Með ummælum stefnda um að hinn meinti auður stefnenda sé til kominn vegna meintra pólitískra tengsla stefnandans Gunnlaugs sé vegið með óviðurkvæmilegum hætti að æru hans og mannorði. Honum sé borin á brýn háttsemi sem í besta falli geti talist siðferðislega ámælisverð. Enginn fótur sé fyrir ummælunum sem feli bæði í sér ólögmæta móðgun og aðdróttun. Stefndi geri lítið úr stjórnmálaferli stefnda Gunnlaugs þegar hann kveði hann hafa verið þingmann „í nokkra mánuði“ þegar hið rétta sé að Gunnlaugur hafi setið á þingi heilt kjörtímabil, eða árin 1995-1999. Pistill stefnda verði ekki skilinn öðruvísi en svo að með þingmennsku sinni um nokkurra mánaða skeið hafi stefndi Gunnlaugur komið sér í stöðu innherja við viðskipti með hlutabréf í Kögun hf. Það sé ljóst að þessi staðhæfing standist ekki nokkra skoðun. Þau hlutabréfaviðskipti sem stefndi kjósi að afbaka í pistli sínum hafi farið fram vorið 1993 eða tveimur árum áður en stefnandinn Gunnlaugur hafi sest á þing. Þetta séu staðreyndir sem stefnda hafi verið í lófa lagið að ganga úr skugga um áður en hann hafi ákveðið að birta hinn ærumeiðandi pistil. Þá sé rétt að fram komi að stefnendur hafi ekki átt persónulega aðild að umræddum hlutabréfaviðskiptum. Um hafi verið að ræða að Kögun hf. hafi keypt eigin hlutabréf af Þróunarfélagi Íslands hf. (Þróunarfélaginu hf.) en fyrir því hafi verið samþykki stjórnar Þróunarfélagsins hf. Vegna aðdróttana um að stefnandinn Gunnlaugur hafi notið pólitískra tengsla skuli tekið fram að Kögun hf. hafi verið stofnuð árið 1988 og samningur um fyrsta verk félagsins verið gerður við utanríkisráðherra, sem þá hafi verið Alþýðuflokksmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson. Fráleitt sé að ætla að stefnandinn Gunnlaugur hafi notið einhvers konar pólitískrar velvildar hjá ráðherranum. Staðhæfing stefnda sé því augljóslega röng og verulega móðgandi og meiðandi fyrir stefnandann og feli í sér ólögmæta aðdróttun. Stefnandanum sé borin á brýn alvarleg refsiverð háttsemi sem sé auk þess verulega ámælisverð í augum almennings. Til viðmiðunar varði innherjasvik í dag sektum og fangelsi allt að sex árum samkvæmt 3. tl. 146. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Stefnendur hafi sem fyrr segi aldrei verið grunaðir um refsiverða háttsemi og þaðan af síður hlotið dóm fyrir slíka háttsemi. Rétt sé að hafa í huga að Kögun hf. hafi fyrst verið skráð á markað árið 2000. Stefndi fullyrði að Kögun hf. hafi verið ríkisfyrirtæki sem verið var að einkavæða“. Þetta sé alrangt. Kögun hf. hafi aldrei verið ríkisfyrirtæki og því aldrei einkavætt. Hér sé því um augljósar rangfærslur að ræða. Á þeim tíma sem umrædd hlutabréfaviðskipti hafi átt sér stað, árið 1993, hafi Kögun hf. verið lítið fyrirtæki með innan við 30 m.kr. veltu og innan við 20 starfsmenn. Fyrirtækið hafi síðar vaxið og dafnaði undir stjórn stefnandans Gunnlaugs, en það hafi verið verkefni og fyrirtækjakaup á ýmsum sviðum sem lyft hafi Kögun hf. upp í þau verðmæti sem félagið hafi staðið í þegar það hafi verið yfirtekið á markaði árið 2006. Enginn fótur sé fyrir ummælum stefnda um að stefnandinn Gunnlaugur hafi látið konuna sína bjóða í Kögun. Ummælin hafi að auki á sér neikvæðan blæ og geri lítið úr sjálfstæðum vilja eiginkonunnar sem og gefi til kynna að eiginmaðurinn hafi ráðskast með konu sína í annarlegum tilgangi. Ummælin séu móðgandi og feli í sér aðdróttun. Þau séu óviðurkvæmileg og beri að ómerkja. Fullyrðing um að fjármögnun hafi verið auðveld fyrir stefnendur vitandi að risa-samningur var fyrirliggjandi við Nató“ lesin í samhengi við færsluna í heild vísi til meintra innherjasvika stefnanda Gunnlaugs og vegi gegn mannorði hans og æru með óviðurkvæmilegum hætti. Þá skuli ítrekað það sem fram sé komið, að verðmæti fyrirtækisins við sölu árið 2006 hafi byggt á fjölmörgum þáttum. Samningur milli Íslands og Nató/Bandaríkjanna um íslenska loftvarnarkerfið hafi einungis verið einn af þeim. Staðhæfing stefnda: Leikar fóru þannig að Gunnlaugur Sigmundsson (faðir Sigmundar Davíðs) eignaðist stóran hlut í Kögun og smám saman sölsaði hann undir sig allt fyrirtækið“ séu móðgandi og meiðandi fyrir stefnandann Gunnlaug. Orðalag stefnda, að stefnandinn hafi sölsað fyrirtækið undir sig gefi til kynna að hann hafi með ámælisverðum hætti eignast hlut í Kögun hf. og ástundað vafasama viðskiptahætti. Þessi fullyrðing sé alröng og engum stoðum undir hana skotið af hálfu stefnda. Árið 2006 hafi stefnendur átt innan við 2% hlut í félaginu. Tilvitnuð fullyrðing stefnda sé óviðurkvæmileg og beri að ómerkja. Staðhæfing stefnda um að stefnandinn Gunnlaugur hafi orðið milljarðamæringur á nokkrum árum vegna þessa“ sé tilhæfulaus, meiðandi og ósönnuð. Ummælin séu óviðurkvæmileg, þau brjóti gegn friðhelgi einkalífs stefnandans og séu stórlega móðgandi og meiðandi fyrir hann. Með fullyrðingunni um að stefnandinn Gunnlaugur hafi tapað megninu af eigum sínum í braski með hlutabréf í Flugleiðum sé enn höggvið í sama knérunn. Umfjöllun um fjárhagsmálefni stefnandans varði almenning engu og brjóti gegn friðhelgi einkalífs hans. Enginn fótur sé fyrir þessum ummælum. Stefnandinn eigi ekki og hafi aldrei átt hlut í Flugleiðum/Icelandair. Hann hafi setið í stjórn félagsins sem fagmaður. Staðhæfing stefnda um að stefnandinn hafi átt í braski með hlutabréf gefi auk þess til kynna að stefnandinn hafi ástundað vafasama viðskiptahætti. Hið tilvitnaða orð hafi á sér neikvæðan blæ og sé til þess fallið að vekja í augum almennings og viðsemjenda Gunnlaugs þá hugmynd að stefnandinn sé ekki góður pappír í viðskiptum. Ummælin séu verulega móðgandi, meiðandi og skaðleg fyrir hann, feli í sér ólögmæta aðdróttun og hljóti að teljast óviðurkvæmileg. Þá skuli áréttað það sem þegar hafi komið fram, að umfjöllun stefnda hafi ekkert fréttagildi. Hún sé með öllu tilefnislaus og eigi ekkert erindi við almenning. Svo virðist sem eini tilgangur stefnda með umfjölluninni hafi verið að ráðast að syni stefnenda, formanni Framsóknarflokksins, fyrir ummæli sem hafi ekki minnstu efnisleg tengsl við bloggfærslu stefnda. Í kjölfar þess að stefnda hafi verið birt stefna í málinu hafi stefndi færst allur í aukana í bloggskrifum um stefnendur, einkum stefnandann Gunnlaug. Stefndi hafi á tímabilinu 8. júní til 10. ágúst 2011 skrifað og birt á bloggsíðu sinni dv.is/blogg/eimreidin/ a.m.k. 14 færslur  þar sem rekinn hafi verið einhliða málflutningur gegn stefnendum í tilvitnuðu meiðyrðamáli. Í þeim málflutningi hafi stefndi brugðið sér bæði í hlutverk sækjanda og dómara yfir stefnendum og kallað bloggheima til liðs við sig, óskað eftir upplýsingum þaðan um svonefnd „Kögunarmál“, fjárstuðningi til að standa straum af málskostnaði sínum og beðið bloggheima um að halda með sér. Hann hafi valið þá leið að ráðast til atlögu í hinu villta vestri netheima í stað þess að láta nægja að skylmast um málið í réttarsölum landsins, þar sem það eigi heima og þar sem meginreglur einkamálaréttarfarsins séu í heiðri hafðar, ekki síst reglan um jafnræði málsaðila sem geri ráð fyrir því að báðir málsaðilar njóti sömu aðstöðu við rekstur máls síns, án nokkurrar mismununar, og þeir eigi þess jafnan kost að hafa uppi kröfur og röksemdir, afla sönnunargagna, kynna sér sönnunargögn gagnaðilans og tjá sig um kröfu og röksemdir hans. Þessi opinbera aðför stefnda að stefnendum undir rekstri dómsmálsins beri vitni um einbeittan vilja hans og ásetning til þess að sverta mannorð þeirra sem mest hann megi. Rauður þráður í gegnum bloggskrif stefnda séu aðdróttanir um að ástæður málshöfðunar stefnenda, einkum Gunnlaugs, séu kostnaðurinn sem stefndi muni þurfa að bera vegna málarekstrarins, þ.m.t. miskabóta og birtingakostnaðar, en ein færsla hans beri yfirskriftina Réttlæti hinna ríku. Látið sé að því liggja að stefnendur hafi ákveðið að höfða meiðyrðamál á hendur stefnda í skjóli efnahags síns; málskostnaðurinn sé smotterí fyrir stefnanda Gunnlaug, enda sé hann miljarðamæringur, einn ríkasti maður landsins og hristi miljónir fram úr erminni. Gunnlaug muni ekkert um málskostnaðinn og svo segi stefnda hugur að „Gunnlaugi sé slétt sama um sigur eða tap í þessu máli. Í bloggfærslunum sé dregin upp mynd af aðstæðum stefnda sem virðist ætlað að skapa samúð lesandans með lítilmagnanum sem eigi í stríð við „hina ríku“; stefndi sé bara venjulegur maður“, eigi enga miljón, það eina sem hann eigi af veraldlegum hlutum sé svona 10% hluti (sic.) íbúð á Ásvallagötu. Stefnan sé að flytja aftur inn í íbúðina þegar hann og fjölskylda hans flytji til Íslands frá útlöndum þar sem hún búi nú, ef ekki þurfi að selja hana upp í skuld við Gunnlaug M. Sigmundsson, einn ríkasta mann landsins“. Sama nálgun virðist búa að baki einkennilegu „sáttaboði“, sem stefndi hafi birt á bloggsíðu sinni 1. júlí sl., svohljóðandi:

Ég legg til að við finnum okkur eitthvað málefni til þess að styrkja og gerum það í sameiningu.  Ég skal svo styrkja það um ein mánaðalaun og Gunnlaugur og kona hans gera slíkt hið sama.  Mér skilst að Gunnlaugur hafi verið með 1.9 miljónir á mánuði í fyrra þannig að upphæðin verður umtalsverð og gæti virkilega stoðað þar sem hjálpar er þörf. „Sáttaboðinu“ hafi nokkru seinna verið fylgt eftir með símtali af hálfu lögmanns stefnda en hafnað, enda feli það ekki í sér sátt. Það sé athyglisvert að stefndi virðist ýkja verulega meintan mun á þjóðfélagslegri stöðu aðila. Stefnandi viti raunar ekki betur en eiginkona stefnda starfi sem læknir í Svíþjóð og því kannski ekki sá munur á stöðu aðila sem gengið sé út frá hjá stefnda. Þá sé og mat á efnalegum gæðum afstætt. Þá hafi meint fjárhagsstaða stefnda ekki haft nokkur áhrif á ákvörðun stefnenda um að höfða meiðyrðamál á hendur honum í upphafi né síðar með framhaldsstefnu. Tilefni hinna ærumeiðandi ummæla stefnda, sem stefnt hafi verið fyrir í framhaldssök, sé ekki annað en það að stefnendur hafi talið illa á sér brotið og ákveðið að leita löghelgaðs réttar síns til þess að fá tiltekin ummæli stefnda dæmd dauð og ómerk, leita miskabóta og krefjast birtingar dómsins. Alþekkt sé að fólk veigri sér gjarnan við að höfða meiðyrðamál, enda hafi slík málshöfðun oft í för með sér að hin ærumeiðandi ummæli séu rifjuð upp aftur og aftur í tengslum við meðferð dómstóla með tilheyrandi óþægindum fyrir stefnendur, en meðferð meiðyrðamála fyrir dómi sé jafnan opinber. Þá birtist hin ærumeiðandi ummæli opinberlega í dómum og oft á tíðum í umfjöllun fjölmiðla í tengslum við uppkvaðningu dóma í meiðyrðamálum. Það sé því þung ákvörðun að ráðast í höfðun meiðyrðamáls og hún ekki tekin nema að rækilega athuguðu máli. Tilgangurinn með höfðun meiðyrðamála sé fyrst og fremst að fá tiltekin ummæli dæmd dauð og ómerk og endurheimta æruna sem stefnandi hafi verið sviptur með refsiverðum hætti. Krafa um miskabætur, birtingu dóms og greiðslu kostnaðar af opinberri birtingu dóms séu allar leiddar af meginkröfunni um ómerkingu ummæla og þjóni þeim tilgangi að rétta hlut þess sem meiddur hafi verið með orðum. Það sé algjör grundvallarregla í réttarríki eins og okkar og stjórnarskrárvarinn réttur borgaranna að allir menn séu jafnir fyrir lögum landsins, óháð stöðu sinni, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Misjafn efnahagur manna megi þannig ekki leiða til mismunandi réttarverndar. Slík niðurstaða myndi vega að grunnstoðum samfélagsins. Að íslenskum rétti njóti allir menn æruverndar og að sama skapi réttar til þess að höfða meiðyrðamál, telji þeir á sér brotið. Þessum rétti verði menn ekki sviptir fyrir það eitt að vera í sæmilegum álnum. Á hin ærumeiðandi ummæli verði lagður hlutlægur mælikvarði, þ.e. hvort þau séu niðrandi að almannadómi. Það hafi verið á grundvelli þessa lögvarða réttar að stefnandi hafi höfðað mál á hendur stefnda. Hann hafi hins vegar ekki órað fyrir afleiðingunum. Hann hafi ekki grunað  að eftirmálar málshöfðunarinnar yrðu sú holskefla rætinna bloggfærslna stefnda sem raun beri vitni og náð hafi ákveðnu hámarki í eftirfarandi ummælum um stefnanda, sem stefnt sé fyrir í framhaldssök, og birst hafi fyrst á bloggsíðunni dv.is/blogg/einreidin/, 8. ágúst 2011: „Tilgangi hans er í raun náð með því að setja á loft hamar sem hann hikar ekki við að berja fólk með, gangi það (að hans mati) of langt í gagnrýni sinni á hann sjálfan.“ Sú staðhæfing sem ummælin feli í sér séu verulega meiðandi fyrir stefnandann Gunnlaug og brjóti freklega gegn æru hans sem vernduð sé að lögum. Stefnandi byggi á því að ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en með þeim sé dróttað að stefnanda þannig að virðingu hans sé til hnekkis. Ummælin séu óviðurkvæmileg og beri að dæma ómerk á grunni 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Ummæli stefnda séu gróf og verulega niðrandi, sama hvaða mælikvarði sé á þau lagður. Fyrir þeim sé enginn fótur. Fullyrt sé að tilgangur stefnanda með höfðun meiðyrðamáls á hendur stefnda hafi verið illfýsi. Ekkert sé fjær sanni. Ummælin hafi meitt stefnanda Gunnlaug og verið honum þungbær. Augljóst sé af því samhengi sem ummælin séu sett fram í að stefndi sé með þeim að vísa til þess að stefnandi hafi höfðað málið í skjóli efnahags síns í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að um hann sé fjallað og þannig beitt einhvers konar fjárhagslegum aðstöðumun til þess að stýra opinberri umræðu sér í hag. Í bloggfærslu á bloggsíðu stefnda, sem birst hafi fyrst 5. júlí, sé höggvið í sama knérunn: Þetta er um leið frekleg misnotkun á dómskerfinu því svona var þetta ekki hugsað. Ríka fólkið á ekki að geta beitt borgarana þvingunum í krafti peninga sinna. Þaðan af síður ætti ríka fólkið að geta stýrt samfélagsumræðunni um það sjálft!“ Það sé grafalvarlegt mál að halda því fram að einstaklingar, sem hafi ágæt efni, höfði mál á hendur efnaminni til þess eins að berja á þeim. Þeim sé sama um niðurstöðu málsins. Það álit, sem lesa megi úr skrifum stefnda, að einstaklingar í efnum eða „hinir ríku“, eins og hann nefni þá, skuli fjárhagsstöðu sinnar vegna njóta takmarkaðri æruverndar en aðrir borgarar þessa lands og að þeim efnaminni beri rýmra tjáningarfrelsi, eigi sér enga stoð í lögum. Það stríði þvert á móti alvarlega gegn stjórnarskrárvörðum rétti allra, óháð stöðu, til þess að vera jafnir fyrir lögum og vegi að grunni réttarríkisins. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi gætt ríkrar tilhneigingar í þessa átt; að „hinir ríku“ séu ærulausir. Opinber umræða, einkum á bloggsíðum, sé gjarnan afar fordómafull, alið á öfund og andúð gagnvart þeim sem eigi peninga og mikið um niðurrif. Um leið sé lögvarinn réttur hluta borgara landsins til æruverndar fótum troðinn. Sem betur fer hafi sumir risið upp þessum hópi til varnar og bent á þær galdrabrennur sem eigi sér nú um stundir daglega stað á bloggsíðum. Þau ummæli sem stefnt sé vegna í framhaldssök geta ekki talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, sem eigi erindi til almennings. Þegar metið sé hvort meiðandi ummæli teljist í raun refsiverðar ærumeiðingar fari ávallt fram mat á því hvort vegi þyngra í hverju tilviki, réttur til tjáningarfrelsis eða æruverndar. Í máli þessu geti niðurstaða hagsmunamats ekki annað en orðið stefnandanum Gunnlaugi í vil. Ærumeiðingarnar séu grófar eins og að framan hafi verið rakið og ummælin eigi ekkert erindi í almenna þjóðfélagsumræðu. Þegar svo freklega hafi verið brotið gegn æru manna stoði ekki að skýla sér bak við tjáningarfrelsið. Ríkir hagsmunir stefnanda réttlæti lögum samkvæmt skerðingu á því. Stefnandi geti ekki fellt sig við þær refsiverðu svívirðingar og ærumeiðingar sem stefndi hafi látið á honum dynja og réttlættar séu með vísan til einhvers konar fjárhagslegs aðstöðumunar. Hann sé nauðbeygður til þess að höfða mál þetta til þess að ná fram lögvörðum rétti sínum. Kröfu sína um að stefndi verði dæmdur til þess að birta dóm í máli þessu og forsendur hans á vefsíðu sinni, þegar eftir birtingu dómsins, með sama hætti og annað efni miðilsins og þannig að eftir verði tekið, reisi stefnendur á 59. gr. laga um fjölmiðla, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi verið að finna í 22. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956. Kröfu um greiðslu 654.720 króna, auk virðisaukaskatts, til þess að standast kostnað af opinberri birtingu dóms í máli þessu og forsendna hans tvívegis í tveimur dagblöðum reisi stefnendur á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Fjárhæðin byggist á gjaldskrá auglýsingadeildar Morgunblaðsins sem gildi frá 1. janúar 2011 og sé miðað við verð auglýsingar að stærðinni 20,3 cm x 22 cm og tvær birtingar í tveimur dagblöðum, samtals fjórar birtingar. Stefnendur vísi til 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um samlagsaðild sína. Þá vísi þeir til 71. og 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, einkum 229., 234., 235. og 241. gr. Þá sé vísað til laga um fjölmiðla nr. 38/2100, einkum 51. gr. og 59. gr. þeirra, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Hvað kröfugerð í framhaldsök varði sé vísað til 1. mgr. 27. gr. og 29. gr. laga um meðferð einkamála, til 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglna íslensks einkamálaréttarfars, einkum reglunnar um jafnræði málsaðila. Um dráttarvexti vísist til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um málskostnað til XXI. kafla einkamálalaga, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir á því  að ummælin sem krafist sé ómerkingar á í stefnu (hér eftir „ummælin"), hafi verið liður í gagnrýnum skrifum stefnda á bloggsíðu sinni um samfélag- og stjórnmál og önnur málefni líðandi stundar, þar með talið um viðskiptahætti og siðferði í stjórnmálum og viðskipta- og þjóðlífinu almennt. Stefndi hafi vakið athygli á þekktu máli sem varði almenning miklu, þ.e. hvernig hlutir í Kögun hf. hafi endað að stórum hluta í eigu fjölskyldu framkvæmdastjóra félagsins, sem jafnframt hafi verið framkvæmdastjóri í móðurfélaginu, Þróunarfélagi Íslands hf., sem upphaflega hafi átt stóran hlut í Kögun hf. Stefndi hafi m.a. vísað í umfjöllun fjölmiðla um málið og dregið síðan ályktanir af þeirri umfjöllun. Stefnandinn Gunnlaugur, hafi starfað í Framsóknarflokknum frá unga aldri. Hann hafi starfað á árunum 1974-1982 í fjármálaráðuneytinu og orðið framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands hf. árið 1986. Því hafi verið haldið fram að hann hafi hlotið þá stöðu fyrir tilstilli Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, og hafi tveir stjórnarmanna félagsins sagt af sér vegna ráðningar hans. Þá hafi stefnandinn Gunnlaugur verið þekktur af fjárfestingum sínum, m.a. þegar hann hafi keypt hlut Finns Ingólfssonar eða félags í hans eigu í Icelandair Group. Stefnandinn Gunnlaugur hafi setið á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins á árunum 1995-1999. Á þeim tíma hafi hann m.a. átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sem og utanríkismálanefnd. Í þeirri síðarnefndu hafi á þeim tíma m.a. verið fjallað ítrekað um viðræður um brottför ameríska hersins frá Íslandi og yfirtöku á rekstri Keflavíkurflugvallar, stækkun Atlantshafsbandalagsins og framkvæmd varnarsamstarfs við Bandaríkin. Stefnandinn Gunnlaugur hafi verið framkvæmdastjóri Kögunar hf. 1993-2006. Kögun hf. hafi verið stofnuð árið 1988 fyrir tilstilli utanríkisráðuneytisins og hafi haft einkaleyfi á gerð, viðhaldi og þróun IADS ratsjárkerfisins sem byggt hafi verið upp á vegum Atlantshafsbandalagsins. Við stofnun Kögunar hf. hafi Þróunarfélag Íslands hf., sem stefnandinn Gunnlaugur hafi veitt forstöðu, átt 70% hlutafjár í Kögun hf. Aðrir hluthafar hafi verið Félag íslenskra iðnrekenda (3%) og 37 íslensk hugbúnaðarfyrirtæki sem hvert hafi verið skráð fyrir 0,7% hlut. Með því að skipta hlutunum upp í svo smáar einingar hafi verið leitast við að tryggja dreifða eignaraðild. Stefnandinn Gunnlaugur hafi verið viðstaddur stofnfund Kögunar hf. Einkaleyfið á ratsjárkerfinu hafi verið veitt fyrir tilstilli utanríkisráðuneytisins á þeim forsendum að eignarhald á Kögun hf. myndi ekki færast á hendur örfárra aðila, enda framtíðartekjur Kögunar hf. vegna ratsjárkerfisins öruggar og fyrirsjáanlegar þar sem kaupandi að þjónustunni hafi verið Atlantshafsbandalagið en bandaríski herinn hafi þá haft aðsetur í herstöðinni á Miðnesheiði. Eftir að stefnandinn Gunnlaugur hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins hf. hafi eiginkona hans, stefnandinn Sigríður, verið ráðin til að sjá um bókhald félagsins og eftir að stefnandinn Gunnlaugur hafi orðið framkvæmdastjóri Kögunar hf. hafi stefnandinn Sigríður verið ráðin þangað sem skrifstofustjóri. Hinn 22. maí 1989 hafi Kögun hf. fengið einkarétt utanríkisráðherra á að annast rekstur og viðhald hugbúnaðarkerfisins fyrir ratsjárstöðvar Bandaríkjamanna á Íslandi. Af því tilefni að Kögun hf. skyldi fá einkaleyfið hafi verið útbúin yfirlýsing, dags. 15. febrúar 1989, af þáverandi stjórn Þróunarfélagsins hf., sem afhent hafi verið utanríkisráðuneytinu. Meðal þess sem fram komi í 2. gr. í nefndri yfirlýsingu Þróunarfélagsins hf. sé m.a. að það sé grundvallarskilyrði að enginn hluthafi eignist samtals meira en 5% hlutafjár í Kögun hf. og að dreifing eignaraðildar að fyrirtækinu yrði sem mest, sbr. 4. gr. Á einhverjum tímapunkti sé ljóst að stefnendur, hafi byrjað að kaupa hluti í Kögun hf. Í það minnsta hafi því verið haldið fram að við árslok 1992 hafi hlutur stefnandans Gunnlaugs í Kögun hf. verið orðinn nálægt 12%. Því hafi jafnframt verið haldið fram að utanríkisráðuneytinu hafi ekki verið tilkynnt um að stefnendur ættu meira en 5% í Kögun, sbr. 5. gr. yfirlýsingar Þróunarfélagsins hf. til utanríkisráðuneytisins. Í árslok 1992 hafi ríkissjóður selt sinn hluta (30%) í Þróunarfélaginu hf. til lífeyrissjóðanna en Ríkisendurskoðun hafi talið að of mikill  asi hafi verið á þeirri sölu og hann orsakað lægra söluverð en ella hefði fengist fyrir hlutinn. Í apríl 1993 hafi ný stjórn Þróunarfélagsins hf. ákveðið að athuga með sölumöguleika á hlutum Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf. og falið framkvæmdastjóranum að kanna sölumöguleika. Því hafi verið haldið fram að stjórnin hafi ekki veitt framkvæmdastjóranum sérstaklega heimild til að selja Kögun hf. bréfin, að sú sala hafi verið án samráðs við stjórn og stjórnin hafi í raun ekki vitað af sölunni fyrr en eftir að hún hafi verið um garð gengin. Leikar hafi síðan farið þannig að Kögun hf. hafi keypt eigin bréf af Þróunarfélagi Íslands hf. á genginu 4 og söluverðið verið 16.000.000 króna. Við þessi kaup hafi stefnandinn Gunnlaugur verið framkvæmdastjóri í Kögun hf. og í Þróunarfélaginu hf. Stjórnarmenn Þróunarfélagsins hf. í apríl 1993, þegar félagið hafi selt Kögunarbréf sín, hafi lýst því síðar yfir að verð hluta Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf., þ.e. sala á genginu 4, hafi verið ákveðið m.a. með hliðsjón af fullyrðingum og mati framkvæmdastjórans, stefnandans Gunnlaugs, um stöðu og verðmæti Kögunar hf. Í opinberri yfirlýsingu þáverandi stjórnar Þróunarfélagsins hf., sem birst hafi í Morgunblaðinu 15. maí 1998, hafi stjórnarmenn haldið því fram að þeim hafi, við ákvörðunartökuna um söluna á hlutum Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf., ekki verið kunnugt um ofangreinda yfirlýsingu Þróunarfélagsins hf. til utanríkisráðuneytisins, þar sem fram komi að enginn skuli eiga meira en 5% í Kögun hf. Í téðri yfirlýsingu stjórnarinnar komi jafnframt fram að stefnandinn Gunnlaugur hafi verið „eini maðurinn í fundarherbergi Þróunarfélagsins þegar ákvörðun um söluna var tekin, sem vissi um fyrrgreinda yfirlýsingu“ en hann hafi kosið „að halda vitneskju sinni um hana fyrir sig“. Í yfirlýsingu stjórnarmanna Þróunarfélagsins hf., komi jafnframt fram að þegar ákveðið hafi verið að selja hlutina í Kögun hf. hafi stefnandinn Gunnlaugur kynnt fyrir stjórn Þróunarfélagsins hf. og lagt fram, tiltekið minnisblað um fyrirtæki sem Þróunarfélagið hf. hafi verið hluthafi í, þ. á. m. Kögun hf.. Umsögn stefnanda um Kögun hf. á téðum fundi sé tekin upp orðrétt í yfirlýsingu stjórnarmanna Þróunarfélagsins hf. en þar komi fram frekar dapurlegar framtíðarhorfur Kögunar hf., m.a. að ekki sé búist við mikilli veltuaukningu á næstu árum, aðeins sé um einn kaupanda að ræða að þjónustunni, fjárframlög til varnarmála hafi verið skorin niður og verði sennilega enn um hríð, samningar um verð og mannskap séu orðnir afar erfiðir og að Kögun hf. muni að óbreyttu ekki ná þeirri stærð og veltuaukningu sem vonast hafi verið til. Finna þurfi fyrirtækinu nýtt svið til að renna frekari stoðum undir reksturinn og að fyrirsjáanlegar séu miklar fjárfestingar í tölvubúnaði og skrifstofubúnaði. Stjórnarmenn Þróunarfélagsins hf. segist hafa haft ofangreinda umfjöllun stefnanda um framtíð fyrirtækisins, ásamt aðstæðum á hlutabréfamarkaði, í huga, þegar ákvörðun hafi verið tekin um verð og sölu Kögunar hf. Þá hafi stjórnarmenn jafnframt tekið fram í téðri yfirlýsingu að framkvæmdastjóri félagsins hafi skilað inn minnisblaði til stjórnar nokkrum dögum áður en hann hafi hætt störfum þar sem fram komi að Kögunarbréf Þróunarfélagsins hf. gætu orðið lengur í sölu en þrjá mánuði. Þegar þarna sé komið sögu, í apríl 1993, hafi stefnandinn Gunnlaugur, að mati Morgunblaðsins, átt um 12% í Kögun hf. og því verið haldið fram að stjórnarmenn Þróunarfélagsins hf. hafi ekki vitað af því eignarhaldi. Með opinberri yfirlýsingu hafi stjórn Þróunarfélagsins hf. haldið því fram að hún hafi boðið stefnandanum Gunnlaugi að segja upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins hf. um mánaðamótin apríl/maí 1993, í kjölfar skoðunar stjórnarinnar á málavöxtum viðskiptanna með hluti Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf. Stjórnarmenn hafi einnig tjáð sig opinberlega um eftirmála af viðskiptagerningnum. Í tilkynningum Kögunar hf. til hlutafélagaskrár komi fram að á hluthafafundum í félaginu á árinu 1994 hafi verið teknar ákvarðanir um að lækka hlutafé annars vegar um 2.500.000 krónur, 28. febrúar 1994, og hins vegar um 10.000.000 króna, 15. júlí 1994. Í báðum tilvikum hafi lækkunin verið færð á móti eigin hlutabréfum sem félagið hafi eignast, m.a. við kaupin á bréfum Þróunarfélagsins hf. Við lækkunina hafi vægi hluta hluthafa félagsins aukist, m.a. stefnenda, sem eftir lækkunina hafi átt samtals 27% í félaginu. Sonur stefnenda, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, hafi einnig átt einhvern hlut í Kögun hf., sbr. m.a. fullyrðingar stefnandans Gunnlaugs sjálfs, en auk þess komi fram á minnisblaði utanríkisráðuneytisins að auk stefnenda hafi feður þeirra beggja og tvö börn þeirra einnig átt hluti í félaginu. Athygli veki jafnframt að einungis þremur árum eftir að Þróunarfélagið hf. hafi selt hluti sína í Kögun hf. til Kögunar hf. hafði verðmæti bréfanna 56 faldast. Í mars 2006 hafi 51% hlutur í Kögun hf. verið seldur til Skoðunar ehf., félags í eigu Dagsbrúnar hf., sem hafi verið fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki, móðurfélag Og Vodafone og 365 ljósvaka- og prentmiðla. Hafi félagið Skoðun ehf., í kjölfarið, gert yfirtökutilboð til annarra hluthafa á genginu 75.

Eftir að hið svokallaða Kögunarmál hafi aftur komist í hámæli 1998 með umfjöllun Morgunblaðsins, sem og ítrekun umfjöllunarinnar árið 1995 með frétt Helgarpóstsins,  hafi stefnandinn Gunnlaugur, sem þá hafi verið alþingismaður, ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum. Hafi hann af því tilefni sent sérstakt bréf til allra þingmanna, sem einnig hafi verið birt opinberlega í Morgunblaðinu. Mál þetta sé sprottið af umfjöllun og opinberri umræðu um ofangreint málefni sem viðgengist hafi um árabil og stefndi hafi tekið þátt í með ummælum þeim sem greini í stefnu. Málefnið snúi að sölunni á hlutafé Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf. og hvernig stefnendur hafi orðið stórir hluthafar í félaginu. Ástæða sé til, eins og gert hafi verið, að rekja kringumstæðurnar sem umfjöllunin sé sprottin úr, samhengisins vegna. Eftir að stefndi hafi viðhaft ummælin á bloggsíðu sinni hafi stefnandinn Gunnlaugur haft samband við stefnda og krafist þess að hann fjarlægði umfjöllunina eða ella yrði honum stefnt fyrir dóm. Stefndi hafi talið sig hafa orðið við kröfu stefnenda og fjarlægt umstefnd ummæli af bloggsíðu sinni, jafnvel þótt honum væri það ekki skylt, enda hafi hann óttast fjárhagslega tilvist sína ef honum yrði stefnt fyrir dóm, með þeim kostnaði sem því fylgi. Þetta hafi stefnendum þó ekki þótt nægjanlegt heldur hafi þau krafist þess að hann undirritaði og birti yfirlýsingu sem samin hafi verið af þeim eða lögmanni þeirra. Stefnda hafi verið ókleift að skrifa undir þá yfirlýsingu enda hafi þar komið fram fullyrðingar sem stefndi sé ekki reiðubúinn að leggja nafn sitt við, eins og t.d. að Agnes Bragadóttir hafi birt efnislega ranga grein í Morgunblaðinu og með því meitt stefnendur. Grein Agnesar í Morgunblaðinu  hafi aldrei verið dæmd dauð og ómerk og ekkert tilefni til að ætla efni hennar rangt. Telji stefnendur enn að grein Agnesar sé röng verði stefnendur að stefna Agnesi Bragadóttur í ómerkingarmáli en stefndi eigi enga aðild að slíku máli. Þrátt fyrir að stefndi hafi fjarlægt hin umstefndu ummæli af vefsíðunni hafi honum samt verið stefnt fyrir þau. Stefndi byggi á því að ummælin sem krafist sé ómerkingar á séu vernduð af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár, sbr. 73. gr. hennar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Engar þær kringumstæður séu til staðar í máli þessu sem réttlæti takmarkanir á þeim stjórnarskrárvörðu mannréttindum hans að tjá skoðanir sínar opinberlega. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eigi ekki við í máli þessu enda túlkuð þröngt. Þá vísi stefndi til þess að hann hafi í engu brotið gegn neinum meintum réttindum stefnenda með

ummælum sínum. Stefndi hafi hvorki meitt æru stefnenda né greint frá nokkru því varðandi málefni þeirra sem verndað sé skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Ummælin falli ekki undir 72. gr. stjórnarskrárinnar, með vísan til íslenskra réttarreglna, dómafordæma og dómafordæma frá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Stefndi byggi á því að ummælin og öll umfjöllun hans um málefni stefnenda og félagsins Kögunar hf. og Þróunarfélags Íslands hf. eigi brýnt erindi til almennings og sé stefndi því í fullum rétti að fjalla um þau málefni á þann máta sem hann hafi kosið að gera. Stefndi byggi á því að hann sé ekki upphafsmaður þessarar áralöngu umræðu um málefni stefnenda og Kögunar hf., heldur hafi hann einungis tekið þátt í umræðunum, fyrst á þessu ári. Stefndi vísi til þess að umræðan um málefni stefnenda og Kögunar hafi hafist fyrst á fyrrihluta tíunda áratugar seinustu aldar og standi enn yfir. Stefndi vísi til þess að umfjöllunin eigi almenna skírskotun og varði m.a. siðferði í viðskiptum og tengsl pólitíkur og viðskipta. Um þessi atriði hafi m.a. mikið verið fjallað í tengslum við hið svokallaða efnahagshrun í lok árs 2008 og í eftirleiknum eftir það. Ótal slíkar umfjallanir birtist dag hvern í fjölmiðlum á þeim grundvelli að þær eigi erindi til almennings. Í uppgjöri hrunsins hafi slík umræða verið áberandi og sér í lagi lögð áhersla á siðferði og pólitísk tengsl við einkavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja eða fyrirtækja í eigu opinberra stofnana eða lífeyrissjóða landsmanna, eins og við eigi um Þróunarfélag Íslands hf., sem upphaflega hafi verið að hluta í eigu ríkisins en síðan selt til lífeyrissjóða landsmanna. Frjáls opinber skoðanaskipti séu mikilvægur hornsteinn í frjálsri þjóðfélagsumræðu og lykilþáttur í nútíma lýðræði. Stefndi vísi til þess að ummælin séu réttmæt, heimil og að auki fyllilega sannleikanum samkvæm. Hann hafni því hins vegar sem byggt sé á í stefnu að hann beri einhverja sérstaka sönnunarbyrði fyrir ummælunum enda sé slík krafa á skjön við íslenska dómaframkvæmd og dómafordæmi frá MDE. Stefndi leggi þó fram með greinargerð sinni, nægileg sönnunargögn til að sanna eða a.m.k. leiða nægar líkur að sannindum ummæla sinna, þrátt fyrir að hann telji að slíkt sé honum ekki skylt. Stefndi byggi á því að ummælin séu liður í gagnrýni á íslensk stjórnmál, viðskiptahætti og siðferði. Heimild til slíkrar tjáningar sé viðtækari en almennt gegni um tjáningu um annars konar málefni. Þá séu ummælin ádeila og njóti einnig víðtækari verndar sem slík. Stefndi vísi til þess að hann njóti sama frelsis og aðrir fjölmiðlar til að færa almenningi upplýsingar sem eigi erindi til almennings og að hann beri sömu skyldur til að færa almenningi slíkar upplýsingar. Stefndi vísi til þess að málefnið sem ummælin varði sé á almannavitorði og hafi verið margrætt á opinberum vettvangi síðan á síðustu öld. Stefndi sé ekki upphafsmaður þeirrar umræðu. Hafi sú umræða verið bæði í tengslum við stefnandann Gunnlaug sjálfan og m.a. verið rifjuð upp þegar sonur stefnenda hafi orðið formaður Framsóknarflokksins og við önnur tilefni enda séu báðir, stefnandinn Gunnlaugur og sonur hans, opinberar persónur sem núverandi og fyrrverandi þingmenn. Þá sé þeim feðgum ítrekað spyrt saman á grundvelli Kögunarmálsins í satírskri umfjöllun. Stefndi byggi á því að stefnandinn Gunnlaugur hafi sjálfur áður ítrekað tekið þátt í opinberri umræðu um sama málefni. Með því hafi hann gefið stefnda, sem og öllum öðrum sem kjósi að tjá sig um málefni stefnenda og Kögunar hf., fullt og ítrekað tilefni til áframhaldandi umræðu á opinberum vettvangi og geti ekki núna fyrst krafist friðhelgi um umfjöllunina. Með því að taka þátt í umræðunni um sama málefni gefi stefnandi sjálfur til kynna og viðurkenni að málefnið eigi erindi til almennings. Með því að stefnendur hafi kosið að stefna þeim bloggurum ekki sem um ræði í fyrirliggjandi skjölum m.a. Þórði Má Jónssyni, Agli Helgasyni og Jakobínu Ingunni Ólafsdóttur, né heldur Agnesi Bragadóttur, Morgunblaðinu, Helgarpóstinum eða Vestfirska Fréttablaðinu, hafi stefnendur gefið stefnda, fullt tilefni til áframhaldandi opinberrar umræðu um efnið. Þá hafi stefnandi skapað réttmætar væntingar stefnda og annarra um að hann kysi að svara ummælum um efnið á opinberum vettvangi í stað þess að stefna mönnum fyrir það eitt að tjá sig um sama málefni. Þá bendi stefndi á að ummæli hans, sem krafist sé ómerkingar á, gangi mun skemur en önnur ummæli í fyrirliggjandi dómskjölum. Það skuli af gefnu tilefni tekið fram að það sé ekki krafa skv. íslenskri dómaframkvæmd að andlag ummælanna hafi sjálfur tekið þátt í þeirri þjóðfélagsumræðu sem um ræði en sú staðreynd, að stefnandinn Gunnlaugur hafi sjálfur tekið þátt í ítrekaðri og áralangri opinberri þjóðfélagsumræðu um málefni sitt og Kögunar hf., veiti tjáningu stefnda enn sterkari vernd og víkki mörk heimillar gagnrýni og tjáningar um málefnið. Stefndi byggi á því að stefnendur séu opinberar persónur í margþættum skilningi. Í fyrsta lagi sé sonur stefnenda, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og þingmaður. Stefnendur og Sigmundur Davíð virðist þar að auki hafa verið viðskiptafélagar vegna viðskipta sinna með hlutabréf í Kögun hf. Athygli veki að mikil áhersla sé lögð á tengsl stefnenda við Sigmund Davíð í stefnu og hagsmunum Sigmundar Davíðs haldið á lofti sem málsástæðum og rökum, þrátt fyrir að téður Sigmundur Davíð eigi ekki aðild að máli þessu. Það staðfesti skýrlega það sem stefndi haldi fram, að tenging stefnenda við Sigmund Davíð, bæði gegnum fjölskyldutengsl, pólitísk tengsl og viðskiptatengsl, sé þess eðlis að stefnendur skuli báðir en þó sér í lagi stefnandi Gunnlaugur, teljast í stöðu opinberra persóna, hvað varði ummælin sem séu grundvöllur málssóknar þessarar. Stefnendur og Sigmundur Davíð munu öll hafa hagnast af viðskiptum sínum með hlutabréfin í Kögun hf. Það málefni sé á almannavitorði og margumrætt í þjóðfélaginu. Þegar Sigmundur Davíð hafi kosið að fara útí stjórnmál þá fylgi þessi sameiginlega viðskiptasaga honum og fjölskyldu hans. Það gefi auga leið að ekki verði fram hjá þessum tengslum litið og því sé vísað á bug að málefni fjölskyldu stefnenda, varðandi kaup og sölu á hlutum í Kögun hf., sé einkamálefni, þar sem líta skuli framhjá þessum tengslum og þeirri staðreynd að feðgarnir séu báðir stjórnmálamenn. Í öðru lagi sé stefnandinn Gunnlaugur opinber persóna í þeim skilningi að hann hafi verið þingmaður f.h. Framsóknarflokksins eitt kjörtímabil, á árunum 1995-1999. Það eitt að gegna slíku embætti geri stefnandann Gunnlaug að opinberri persónu og þar með eigi almenningur rétt á ríkari upplýsingum er varði stefnandann Gunnlaug, einnig upplýsingum um tiltekna þætti einkalífs hans, fjárhag og viðskiptasögu, sbr. dómafordæmi MDE. Vakin sé athygli á því að stefnandinn Gunnlaugur hafi tekið sæti á Alþingi eftir að umdeild viðskipti stefnenda, og annarra fjölskyldumeðlima þeirra með bréf í Kögun hf. hafi hafist. Óljóst sé hvenær nákvæmlega stefnendur hafi hætt að kaupa upp bréfin í Kögun hf. Sú viðskiptasaga hafi því fylgt stefnandanum Gunnlaugi inn í þingmannsferilinn og sé á því byggt að þar með sé réttur almennings til upplýsinga um þau viðskipti alþingismanns, og nú fyrrum alþingismanns, ásamt fjölskyldu sinni, enn ríkari en ella. Almenningur eigi rétt á upplýsingum um viðskiptasögu og viðskiptalegt siðferði alþingismanna, bæði fyrir og eftir þingsetu en sérstaklega þegar alþingismaður komi með slíka viðskiptasögu með sér í þingmennskuna. Upplýsingar sem varði hæfi opinbers embættismanns til að gegna eða hafa gegnt stöðu sinni séu ekki verndaðar af friðhelgissjónarmiðum, jafnvel ekki þótt þær fjalli um viðkvæm einkalífsmálefni, sbr. dómafordæmi MDE. Í þriðja lagi hafi stefnendur um langa hríð bæði verið fjárfestar í þeim skilningi að þau hafi fjárfest í ýmsum félögum og hafi um það verið fjallað á opinberum vettvangi. Þá hafi þau sjálf, einkum stefnandinn Gunnlaugur, einnig fjallað um slíka fjárfestingastarfsemi sína á opinberum vettvangi. Í fjórða lagi hafi eldri umfjöllun um sama málefni gert stefnendur, einkum Gunnlaug, að opinberum persónum hvað þetta mál varði enda eigi málið, nú sem endranær, erindi til almennings. Byggi stefndi á því að ganga megi lengra í gagnrýnni tjáningu um opinberar persónur en um aðra. Staða stefnenda, einkum Gunnlaugs, sé slík að hann verði að una því að um hann sé fjallað á opinberum vettvangi. Ekki sé unnt að hefta slíka umræðu. Þá byggi stefndi á því að ummælin varði auk þess málefni sem eigi brýnt erindi við almenning og varði viðskiptahætti sem framkvæmdir hafi verið með tilteknum hætti og því megi stefndi ganga lengra en almennt í ummælum sínum og gagnrýni varðandi þann gerning og þær kringumstæður sem fjallað sé um. Þá megi ganga enn lengra þar sem stefnandinn Gunnlaugur hafi sjálfur ítrekað tekið þátt í opinberri umræðu um sama málefni. Stefndi byggi þar að auki á því að ummælin séu einungis liður í áralangri umfjöllun um sama málefni, viðskipti stefnenda með bréfin í Kögun hf. Stefndi byggi á því að það sem efnislega komi fram í ummælunum hafi um áralangt skeið ítrekað komið fram á opinberum vettvangi í tjáningu og umfjöllun stefnenda sjálfra sem og annarra aðila, bæði bloggara, fjölmiðla, alþingismanna sem og annarra einstaklinga sem kosið hafi að taka þátt í umræðum um stefnendur og viðskiptahætti þeirra. Stefndi hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi fyrri umfjöllunar, sbr. fyrirliggjandi dæmi um slíka umfjöllun og dómafordæmi MDE. Málefni Kögunar hf. og stefnenda hafi þannig verið viðvarandi og ítrekað í opinberri þjóðfélagsumræðu í næstum tvo áratugi. Ummæli stefnda séu afar sakleysisleg í heildarsamhengi þeirrar umræðu og hafi stefnendur þó aldrei stefnt neinum öðrum til ómerkingar. Stefndi eigi ekki að þurfa að efast um réttmæti fjölmiðlaumfjöllunar og eigi með réttu að geta myndað sér skoðanir og dregið ályktanir af slíkri umfjöllun. Þá byggi stefndi á því að stefnandinn Gunnlaugur hafi sjálfur gegnum tíðina tamið sér orðræðu gagnvart öðru fólki sem gangi mun lengra og sé mun grófari en ummæli stefnda. Um þetta séu dæmi í fyrirliggjandi skjölum. Geti stefnandi því vart krafist þess að honum beri einhver aukinn réttur umfram það sem hann telji að gildi um þá aðila sem honum þóknist að tjá sig opinberlega um eða við. Sé sérstaklega vakin athygli á því að stefnandinn Gunnlaugur hafi kosið að nefna stefnda „galinn mann“ á opinberum vettvangi. Í besta falli sé þar um að ræða algera smekkleysu. Stefndi bendi á að hann hafi aldrei uppnefnt stefnendur á nokkurn máta heldur sé honum einungis stefnt fyrir málefnalega umræðu um tiltekið málefni sem stefnendur virðist helst vilja banna almenningi að fjalla um framar. Þá byggi stefndi á því að jafnvel þó svo að talið yrði að ummælin væru ósönnuð eða ónákvæm þá felist í þeim gildisdómur stefnda, sem hann hafi myndað sér eftir ítrekaða fjölmiðlaumræðu um árabil og séu ummælin því að öllu leyti innan marka heimillar tjáningar, sbr. dómafordæmi. Hvað þetta varði minni stefndi á að hann beri ekki sönnunarbyrði fyrir ummælunum auk þess sem þau séu þess eðlis að ekki verði þess heldur krafist að þau séu hárnákvæm, sbr. íslenska og evrópska réttar- og dómaframkvæmd. Stefndi bendi á að þegar um gildisdóma eða gagnrýna ádeilu sé að ræða séu mörk leyfilegrar tjáningar víðtækari og leiði til aukinnar verndar ummælanna. Stefndi byggi jafnframt á því að aðstöðumunur, líkt og sé á aðilum, m.a. hvað auð varði, víkki mörk heimillar gagnrýni stefnda á stefnendur, sbr. dómafordæmi frá MDE. Ummælin beri það með sér að vera sýn stefnda á ofangreint málefni. Í fyrsta lagi verði það sem kunni að vera óskýrt í ummælunum ekki án fyrirvara túlkað þannig að það heimili að banna stefnda tjáninguna. Í öðru lagi hafi þetta tiltekna málefni um áratuga skeið verið í opinberri umræðu og stefndi verið í fullum rétti að taka þátt í þeirri umræðu. Í þriðja lagi hafi stefnandinn Gunnlaugur, sjálfur tjáð sig um sama málefni og gefið þar með stefnda og öðrum ástæðu til að halda umfjölluninni áfram og svara honum. Í fjórða lagi séu mörk heimillar gagnrýni rýmri þegar í hlut eigi opinber persóna eins og stefnandinn Gunnlaugur sem sé fyrrverandi þingmaður. Í fimmta lagi séu mörk heimillar tjáningar rýmri þegar um gildisdóma sé að ræða, þegar dregnar séu ályktanir líkt og stefndi hafi gert í umstefndum ummælum og þegar um ádeilu eða stjórnmálalega gagnrýni sé að ræða. Allt eigi þetta við í tilviki stefnda. Hvað varði einstaka þætti stefnu um hin umstefndu ummæli bendi stefndi á að í stefnu séu ummælin túlkuð á versta mögulegan máta og honum brigslað um að hafa meint tiltekna hluti sem erfitt sé að finna stað í ummælunum. Í raun sé allur málatilbúnaður stefnenda þessu marki brenndur, að tekin séu tiltekin orð í ummælunum og því blákalt haldið fram að þau geti aðeins þýtt tiltekna hluti, en ekki aðra. Slíkum málatilbúnaði sé vísað á bug. Því sé hafnað að gengið sé lengra en heimilt sé í að bera stefnendum á brýn siðferðilega ámælisverða háttsemi. Háttsemin í ummælunum sé sú sama og Morgunblaðið hafi kallað „Löglegt? Siðlegt?“. Sú umfjöllun standi óhögguð enda hafi hún ekki verið ómerkt með dómi og stefndi verið í góðri trú um sannleiksgildi hennar. Hafnað sé þeirri skýringu stefnenda á ummælunum að merking orðsins „innherjaupplýsingar“, eins og það sé notað í textanum, sé takmarkað við þingmennsku. Í textanum sé þýðing orðsins sú að þar sé átt við upplýsingar sem almenningur hafi ekki átt  aðgang að, bæði upplýsingar úr rekstri félagsins sem og aðrar upplýsingar, m.a. frá nefndarsetum á Alþingi. Þá standist það ekki skoðun að gera grófa atlögu að tjáningarfrelsi stefnda fyrir að hafa notað orðið „innherji“ þegar staðreyndin sé sú að stefnandinn Gunnlaugur hafði í raun og veru haft stöðu fruminnherja í skilningi núgildandi 121. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, allt frá því hann hafi setið stofnfund hlutafélagsins Kögunar hf. hinn 29. desember 1988 og verið kjörinn þar í stjórn og þangað til hann hafi selt félagið árið 2006. Stefnandinn Sigríður hafi einnig haft innherjastöðu. Þannig hafi stefnandinn Gunnlaugur haft innherjastöðu í núgildandi skilningi allan þann tíma sem hann hafi setið á Alþingi. Hvort þingmannsstörfin eða tengsl hans við rekstur Kögunar hf., á þingmannstímanum, hafi gert hann að innherja, skipti nákvæmlega engu máli í þessu sambandi og sé fráleitt að ætla að brjóta gegn tjáningarfrelsi stefnda með slíkum rökum. Stefndi hafi sýnt fram á með framlögðum gögnum, að stefnandinn Gunnlaugur hafi haft aðgang að upplýsingum sem almenningur hafi ekki haft, bæði sem eigandi og framkvæmdastjóri Kögunar og sem þingmaður með sæti í utanríkismálanefnd. Notkun á orðinu „innherji“ falli þannig augljóslega innan marka leyfilegrar og verndaðrar tjáningar. Hvort stefndi kjósi að telja þingmennskutíma stefnanda Gunnlaugs í mánuðum eða árum geti ekki verið grundvöllur fyrir því að takmarka tjáningarfrelsi hans. Eitt kjörtímabil, sem stefnandi hafi setið á Alþingi, sé fjögur, þ.e. 48 mánuðir. Stefnda sé frjálst að nota hvorn tímakvarðann sem hann kjósi. Óljóst sé hvað átt sé við í stefnu þegar því sé haldið fram að stefnendur hafi ekki átt „persónulega aðild að umræddum hlutabréfaviðskiptum“. Staðreyndin sé sú að stefnendur hafi átt, persónulega, stóran hlut í félaginu. Ekki sé unnt að takmarka tjáningarfrelsi stefnda með því að fullyrða að hann hafi átt við einhver einstök tiltekin hlutabréfaviðskipti umfram önnur í ummælunum. Ummælin varði persónulegt eignarhald stefnenda á hlutum í félaginu. Slíkt persónulegt eignarhald  sé enda óumdeilt. Þá sé á það bent að fullyrt sé í stefnu að fyrir sölunni á hlutabréfum Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf. til Kögunar hf. hafi legið samþykki stjórnar Þróunarfélagsins hf.. Þessi fullyrðing stangist á við framlögð gögn. Stefndi hafi aldrei haldið fram að stefnandinn Gunnlaugur hafi notið „pólitískrar velvildar“ hjá Jóni Baldvini Hannibalssyni. Umfjöllun um slíkt í stefnu sé merkingarlaus. Orðtakið „pólitísk velvild“ sé hvergi að finna í ummælunum. Í ummælunum sé hins vegar að finna orðtakið „pólitísk tengsl“ en augljóst sé að einstaklingur sem sé, eða hafi verið, þingmaður, hafi „pólitísk tengsl“. Þá sé sonur stefnenda þingmaður og m.a.s. formaður stjórnmálaflokks. Það séu líka „pólitísk tengsl“, auk þess sem bent sé á fyrirliggjandi upplýsingar um deilur og afsagnir í stjórn Þróunarfélagsins hf. þegar stefnandinn Gunnlaugur hafi hafið þar störf. Pólitísk tengsl stefnenda séu þannig sönnuð. Fullyrðingu í stefnu um að Kögun hf. hafi aldrei verið ríkisfyrirtæki sé mótmælt. Hugtakið ríkisfyrirtæki sé í almennri orðnotkun ekki einskorðað við ríkisstofnanir eða félög sem séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Þróunarfélagið hf. hafi átt hlut í Kögun hf. frá stofnun félagsins árið 1988. Þróunarfélagið hf. hafi verið að hluta til í eigu ríkisins, allt fram til áramóta 1992-3 þegar sá hluti hafi verið seldur lífeyrissjóðum landsmanna. Kögun hf. hafi þannig um nokkurra ára skeið verið í eigu félags sem verið hafi í eigu ríkisins að hluta. Lífeyrissjóðir teljist til opinberra aðila í þeim skilningi að þeir fari með opinbert vald, hlutverk þeirra sé bundið í lög og þeir lúti eftirliti opinberra stofnana. Þannig hafi bæði ríkið og aðrir opinberir aðilar átt hagsmuna að gæta hvað varði söluverðmæti hluta í Kögun hf. Ekki sé hægt að túlka hugtakið ríkisfyrirtæki svo þröngt í þessu tilliti að ofangreindir aðilar séu útilokaðir í skilningi sölunnar á hlutum Þróunarfélagsins hf. í Kögun hf. Hafnað sé skilningi stefnenda á hugtakinu að „sölsa undir sig“, einkum því að í hugtakinu felist fullyrðing um að „ástunda vafasama viðskiptahætti“. Slík túlkun sé fráleit og ekki byggð á hefðbundinni orðskýringu eða þýðingu hugtaksins í íslenskum orðabókum. Ósannað sé að slík merking hafi falist í ummælum stefnda. Fullyrðing um að á árinu 2006 hafi stefnendur átt innan við 2% hlut í félaginu skipti engu máli og tilgangurinn með þeirri yfirlýsingu óljós. Því sé hafnað að það sé meiðandi að kalla einhvern milljarðamæring, líkt og byggt sé á í stefnu. Því sé jafnframt mótmælt að stefndi beri einhverja sönnunarbyrði fyrir því hvort stefnendur séu milljarðamæringar eða ekki. Slík krafa sé á skjön við íslenska dómaframkvæmd. Hafnað sé fullyrðingum í stefnu að stefnda sé óheimilt að tjá sig um meint tap stefnenda í hlutabréfaviðskiptum, einkum hvað varði eignarhald á Flugleiðum. Skorað sé á stefnendur að upplýsa um eignarhlut sinn í eignarhaldsfélaginu Mætti hf., sem farið hafi með eignarhald á hlutum í Icelandair Group. Stefnandinn Gunnlaugur, sem framkvæmdastjóri Máttar hf., hafi áður sjálfur tjáð sig um aðkomu sína að Icelandair Group. Stefnandi hafi þar með gefið fullt tilefni til þess að um þátt hans í þeim viðskiptum væri fjallað áfram á opinberum vettvangi, auk þess sem það mál eigi fullt erindi til almennings. Hafnað sé þeirri fullyrðingu stefnenda að í hugtakinu „brask“ felist merkingin „að ástunda vafasama viðskiptahætti.“ Fyrir slíkri túlkun sé enginn fótur, túlkunin sé í fullkomnu ósamræmi við almenna orðnotkun og fyrirfinnst hvergi í íslenskum orðabókum. Þá sé óljóst hvað átt sé við með orðinu „vafasama“. Ósannað sé að nein slík merking felist í ummælum stefnda. Ósannaðar séu fullyrðingar um að tilgangur með umfjölluninni sé að ráðast að syni stefnenda,. Sigmundi Davíð, formanni Framsóknarflokksins, eða að slíkur meintur tilgangur skipti yfir höfuð máli. Um tengsl þeirra, bæði fjölskyldu- og viðskipta-, hafi og ítrekað verið fjallað á opinberum vettvangi, einnig af þeim feðgum sjálfum. Því sé hafnað sem röngu og ósönnuðu að ummælin séu enn aðgengileg á netinu. Þvert á móti hafi stefndi orðið við kröfu stefnenda um að fjarlægja ummælin þegar í stað en þau stefnt honum samt. Stefndi bendi á að dómkrafa stefnenda gangi allt of langt. Jafnvel ef svo ólíklega færi að eitthvað í ummælum hans teldist brjóta gegn lögvörðum rétti annars hvors stefnenda, þá sé ómerkingarkrafan of víðtæk enda fráleitt að öll umfjöllunin sem krafist sé ómerkingar á í heild, teljist brot á réttindum annars hvors stefnenda. Stefndi taki fram að málatilbúnaður stefnenda sé um margt óljós og algerlega ókleift að ráða af stefnu, hverju í ummælunum hvort stefnenda um sig byggi á. Því verður trauðla haldið fram að meint ummæli um stefnandann Gunnlaug séu móðgandi fyrir stefnandann Sigríði, o.s.frv. Þrátt fyrir þetta sé engin tilraun gerð til sérgreiningar eða útskýringar á því hvað í málatilbúnaðinum tilheyri hvorum stefnenda. Kveði svo rammt að þessum málatilbúnaði að stefndi telji að dómari hljóti að íhuga að vísa málinu frá ex officio. Stefndi geri einnig athugasemd við orðalag dómkrafna í D lið þar sem hugtakið að „standast kostnað“ sé á skjön við íslenska málnotkun og ekki tækt sem orðalag í dómsorði. Stefndi telji að dómari hljóti að huga að því að vísa þessum kröfulið frá ex officio. Stefndi bendi að auki á að fjárhæðin í kröfuliðnum, sem og aðrar fjárhæðir stefnu, sé ósönnuð og órökstudd. Sérstaklega sé mótmælt upphafsdegi vaxta hvað kröfulið D varði. Hvað varði aðild stefnandans Sigríðar sérstaklega, sé krafist sýknu. Vísað sé til þess að stefnandinn Sigríður sé aldrei nafngreind í ummælunum og í raun ómögulegt fyrir hinn almenna lesanda að átta sig á því hver hún sé af ummælunum einum. Þá sé hlutur stefnandans Sigríðar í ummælunum hverfandi og óljóst hverju hún byggi á enda ekki skýrt af málatilbúnaði hver hennar hlutur í dómkröfunum sé. Því sé hafnað að stefnandinn Sigríður geti á einhvern máta samsamað sig eiginmanni sínum, stefnandanum Gunnlaugi, hvað varði ummælin eða að líta megi á þau hjónin sem einhvers konar óskilgreinda heild. Því sé sérstaklega mótmælt, sem í stefnu greini, að ummælin hafi á sér neikvæðan blæ fyrir stefnandann Sigríði, eða að meintur „neikvæður blær“ sé yfirhöfuð skaðabótaskyldur. Þá sé því hafnað að stefndi geri á nokkurn máta „lítið úr sjálfstæðum vilja eiginkonunnar“ eða að „eiginmaðurinn ráðskist með konu sína í annarlegum tilgangi“. Sé þetta fráleit túlkun á ummælum stefnda og sé langt seilst. Þessu sé vísað á bug og mótmælt sem ósönnuðu að slíka merkingu beri að leggja í ummæli stefnda. Hins vegar sé af gefnu tilefni bent á að málatilbúnaður stefnenda sjálfra snúist í heild um það að samsama þau hjónin með hvoru öðru. Skjóti þá skökku við að stefnandinn Sigríður telji ofangreind ummæli meiðandi fyrir sig, sem eiginkonu Gunnlaugs, og hafni meintri samsömun hvað þennan þátt snerti. Hvað varði ummæli um meint eignarhald stefnandans Sigríðar, eiginkonu stefnandans Gunnlaugs, á hlutabréfum í Kögun hf. þá sé slíkt eignarhald óumdeilt, því sé ekki mótmælt af stefnendum, og sýnt hafi verið fram á að fleiri fjölskyldumeðlimir þeirra hafi einnig átt hluti í Kögun hf. Stefnda sé frjálst að vekja athygli á þeim eignatengslum og fjölskyldutengslum á þann máta sem hann kjósi. Stefndi byggi á því að málatilbúnaður stefnenda sé tilraun til þöggunar og þar með tilraun til að brjóta gegn mannréttindum hans, einkum 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi starfi sem kennari í hlutastarfi í Gautaborg í Svíþjóð og sé afar mikill munur á fjárhagslegri stöðu aðila. Stefndi hafi nú þegar orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna kostnaðar við að grípa til varna fyrir dómstólum og sjái fram á enn meira tjón, jafnvel þó svo að hann vinni mál þetta. Stefndi byggi kröfu um álag á málskostnað á því að stefnendur séu að nýta sér aðstöðumuninn sem á þeim og stefnda sé í krafti auðs, til að þagga niður í löglegri og réttmætri umfjöllun stefnda um málefni sem eigi erindi við almenning. Hvað þetta varði sé m.a. vísað til dómafordæma MDE. Málssókn stefnenda sé þannig tilhæfulaus og tilefnislaus og stefnendur hafi uppi kröfur og staðhæfingar sem þau megi vita að séu haldlausar eða rangar, sbr. 131. gr. eml. Málatilbúnaður stefnenda sé heldur ekki svo vandaður, skýr og ótvíræður sem krafist sé lögum samkvæmt heldur afar ruglingslegur, kröfur óljósar og á reiki og mjög torvelt fyrir stefnda að reifa efnislegar varnir sínar á fullnægjandi máta nema með þeirri fyrirhöfn sem greinargerð stefnda beri með sér. Um þetta bendi stefndi einnig á að hann hafi vegna málssóknar stefnenda þurft að sitja undir því að stefnandinn Gunnlaugur uppnefni hann opinberlega „galinn mann“. Stefndi byggi, hvað varði umstefnd ummæli í framhaldssök, á því að með vísan til SMS-skeyta sem stefnandinn Gunnlaugur hafi sent stefnda og liggi fyrir í málinu, verði að telja að ummælin sem framhaldsstefnt hafi verið út af séu raunsönn lýsing á upplifun stefnda á hegðun stefnandans Gunnlaugs gagnvart honum. Áður en framhaldsstefndi hafi skilaði greinargerð sinni i aðalsök hafi  framhaldsstefnandi Gunnlaugur gert sér far um að kalla hann „galinn mann“ á opinberum vettvangi. Því til viðbótar komi þessi háttsemi framhaldsstefnandans Gunnlaugs, að vega að framhaldsstefnda með SMS- sendingum, í skjóli nafnleyndar, að því er virðist í tilraun til að vekja hjá framhaldsstefnda ugg um velferð sína og fjölskyldu sinnar. Slík háttsemi sé enn alvarlegri þegar haft sé í huga að SMS-skeytin hafi verið send í tilefni af ágreiningi aðila fyrir dómstólum. Sannleiksgildi hinna framhaldsstefndu ummæla sé því staðfest. Vísað sé til þess að framhaldsstefnandi hafi um árabil tjáð sig frjálslega í athugasemdakerfum ýmissa bloggara sem og á öðrum vettvangi. Framhaldsstefndi hafi allan rétt til að draga ályktanir af slíkri opinberri hegðun framhaldsstefnandans Gunnlaugs og tjá sig um skoðanir sínar á slíkri hegðun. Því til viðbótar komi síðan hegðun framhaldsstefnandans Gunnlaugs í garð framhaldsstefnda sjálfs. Framhaldsstefnda sé frjálst að tjá sig um hana og hvernig hann hafi upplifað hana. Þá byggi framhaldsstefndi m.a. á því að í ummælunum felist ályktun hans og gildisdómur. Ummælin hafi fallið í kjölfar bæði höfðunar dómsmáls stefnenda á hendur stefnda og að auki í kjölfar ofangreindrar háttsemi framhaldsstefnanda Gunnlaugs í garð framhaldsstefnda. Ummælin verði að skoðast í því samhengi.

Því til viðbótar vísi framhaldsstefndi til almennra reglna og sjónarmiða um orðhefnd. Í því skyni sé vísað til ofangreindrar háttsemi framhaldsstefnanda, höfðunar dómsmáls stefnenda á hendur stefnda og ummæli framhaldsstefnanda um að framhaldsstefndi sé „galinn maður“. Stefndi hafi afar vítt svigrúm til að svara slíkum ummælum og háttsemi á opinberum vettvangi. Vísað sé til 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994  og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979. Þá sé vísað til 234.-236. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 Stefndi vísi til 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum d- og e-liðar. Varðandi málskostnaðarkröfu vísi stefndi til 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en vegna greiðslu virðisaukaskatts sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um álag á málskostnað sé vísað til 2. mgr. 131. gr. sömu laga.

Forsendur og niðurstaða

Stefnendur, Gunnlaugur M. Sigmundsson og Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir, hafa í máli þessu gert sameiginlega óskipta kröfu um ómerkingu eftirfarandi ummæla, er stefndi viðhafði í bloggfærslu hinn 16. febrúar 2011:

„Höfum í huga að fjölskylda hans á allan sinn auð undir pólitískum tengslum. Faðir Sigmundar var þingmaður í nokkra mánuði og kom sér þannig fyrir að hann hafði aðgang að innherjaupplýsingum sem varðaði fyrirtækið Kögun sem var ríkisfyrirtæki sem verið var að einkavæða. Sá lét konuna sína bjóða í fyrirtækið og vitandi að risa-samningur var fyrirliggjandi við Nató, var fjármögnun auðveld. Leikar fóru þannig að Gunnlaugur Sigmundsson (faðir Sigmundar Davíðs) eignaðist stóran hlut í Kögun og smám saman sölsaði hann undir sig allt fyrirtækið. Gunnlaugur varð milljarðamæringur á nokkrum árum vegna þessa. Hann tapaði reyndar megninu af eigum sínum í braski með hlutabréf í Flugleiðum...“

Stefnendur reisa kröfu sína um ómerkingu framangreindra ummæla á því að þau séu í heild  stórkostlega móðgandi og meiðandi fyrir stefnendur auk þess sem þau feli í sér brot gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Þá séu ummælin uppfull af rangfærslum. Með ummælunum hafi stefndi gerst sekur um brot gegn 229. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 71. gr. stjórnarskrárinnar.                                                                                       

Aðild stefnenda að framangreindri dómkröfu felur í sér samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar er ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt sé að nýta sér réttarfarshagræði samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 að hver kröfuhafi geri sjálfstæða aðgreinda kröfu og varði frávísun máls af sjálfsdáðum sé þetta ekki gert, sbr. dóma réttarins í málum nr. 294/2005, 439/2005 og 538/2005. Í stefnu í frumsök er sameiginleg aðild stefnenda að framangreindri ómerkingarkröfu ekki rökstudd með öðrum hætti en almennri tilvísun til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, í þeim þætti sem tilgreinir lagatilvísanir. Í greinargerð stefnda í frumsök er því haldið fram að málatilbúnaður stefnenda sé um margt óljós og ómögulegt að ráða af stefnu, hverju í þeim ummælum sem krafist sé ómerkingar á, hvort stefnenda um sig byggi kröfur sínar á. Því verði trauðlega haldið fram að meint ummæli um stefnandann Gunnlaug séu móðgandi fyrir stefnandann Sigríði o.s.frv. Þrátt fyrir þetta sé engin tilraun gerð til sérgreiningar eða útskýringar á því, hvað í málatilbúnaðinum tilheyri hvorum stefnenda. Kveði svo rammt að þessum málatilbúnaði að stefndi telji að dómari hljóti að vísa málinu frá ex officio. Þessi sjónarmið voru ítrekuð af lögmanni stefnda í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins. Stefnendur hafa þrátt fyrir framangreint ekki séð ástæðu til að leiðrétta þá annmarka sem samkvæmt framansögðu er á kröfugerð þeirra. Verður ekki talið að dómara málsins hafi, með hliðsjón af tilvitnuðum athugasemdum í greinargerð stefnda í frumsök og ábendingum lögmanns stefnda við aðalmeðferð málsins, borið að vekja sérstaka athygli stefnenda á framangreindum réttarfarslegum annmarka, sbr. 3. mgr. 101 gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður framangreindri ómerkingarkröfu stefnenda vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Stefnandinn, Gunnlaugur M. Sigmundsson, krefst þess að eftirfarandi ummæli, sem birst hafi á bloggsíðunni dv.is/blogg/eimreidin/, 8. ágúst 2011, verði dæmd dauð og ómerk:

„Tilgangi hans er í raun náð með því að setja á loft hamar sem hann hikar ekki við að berja fólk með, gangi það (að hans mati) of langt í gagnrýni sinni á hann sjálfan“.

Stefnandinn, Gunnlaugur, byggir á því að framangreind ummæli séu verulega meiðandi fyrir sig og brjóti freklega gegn æru sinni, sem vernduð sé að lögum. Stefnandi byggir á því að ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem með ummælunum sé dróttað að stefnanda þannig að virðingu hans sé til hnekkis. Ummælin séu óviðurkvæmileg og beri að dæma ómerk á grunni 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummælin séu gróf og verulega niðrandi, sama hvaða mælikvarði sé á þau lagður. Fyrir þeim sé enginn fótur. Stefndi fullyrði að tilgangur stefnanda með höfðun meiðyrðamáls á hendur honum hafi verið illfýsi. Ekkert sé fjær sanni. Ummælin hafi meitt stefnandann Gunnlaug og verið honum þungbær. Augljóst sé af því samhengi sem ummælin séu sett fram í að stefndi sé með þeim að vísa til þess að stefnandi hafi höfðað málið í skjóli efnahags síns í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að um hann væri fjallað og þannig beitt einhvers konar fjárhagslegum aðstöðumun til þess að stýra opinberri umræðu sér í hag. Í bloggfærslu á bloggsíðu stefnda, sem birst hafi fyrst 5. júlí, sé höggvið í sama knérunn en þar segi: Þetta er um leið frekleg misnotkun á dómskerfinu því svona var þetta ekki hugsað. Ríka fólkið á ekki að geta beitt borgarana þvingunum í krafti peninga sinna. Þaðan af síður ætti ríka fólkið að geta stýrt samfélagsumræðunni um það sjálft!“ Það sé grafalvarlegt mál að halda því fram að einstaklingar sem hafi ágæt efni höfði mál á hendur þeim sem séu efnaminni til þess eins að berja á þeim. Þeim sé sama um niðurstöðu málsins. Það álit, sem lesa megi úr skrifum stefnda, að einstaklingar í efnum eða „hinir ríku“ eins og hann nefni þá, skuli fjárhagsstöðu sinnar vegna njóta takmarkaðri æruverndar en aðrir borgarar þessa lands og að þeim efnaminni beri rýmra tjáningarfrelsi, eigi sér enga stoð í lögum. Það stríði þvert á móti alvarlega gegn stjórnarskrárvörðum rétti allra, óháð stöðu, til þess að vera jafnir fyrir lögum og vegi að grunni réttarríkisins. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi gætt ríkrar tilhneigingar í þessa átt þ.e. að „hinir ríku“ séu ærulausir. Opinber umræða, einkum á bloggsíðum, sé gjarnan afar fordómafull, alið sé á öfund og andúð gagnvart þeim sem eigi peninga og mikið sé um niðurrif. Um leið sé lögvarinn réttur hluta borgara landsins til æruverndar fótum troðinn. Sem betur fer hafi sumir risið upp þessum hópi til varnar og bent á þær galdrabrennur sem eigi sér  daglega stað á bloggsíðum nú um stundir. Þau ummæli sem stefnt sé vegna geti ekki talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu, sem eigi erindi til almennings. Þegar metið sé hvort meiðandi ummæli teljist í raun refsiverðar ærumeiðingar fari ávallt fram mat á því hvort vegi þyngra í hverju tilviki, réttur til tjáningarfrelsis eða æruverndar. Í máli þessu geti niðurstaða hagsmunamats ekki annað en orðið stefnanda Gunnlaugi í vil. Ærumeiðingarnar séu grófar eins og að framan hafi verið rakið og ummælin eigi ekkert erindi í almenna þjóðfélagsumræðu. Þegar svo freklega hafi verið brotið gegn æru manna stoði ekki að skýla sér bak við tjáningarfrelsið. Ríkir hagsmunir stefnanda réttlæti lögum samkvæmt skerðingu á því. Stefnandi geti ekki fellt sig við þær refsiverðu svívirðingar og ærumeiðingar sem stefndi hafi látið á honum dynja og réttlættar séu með vísan til einhvers konar fjárhagslegs aðstöðumunar. Hann sé nauðbeygður til að höfða mál þetta til að ná fram lögvörðum rétti sínum.

Stefndi byggir sýknukröfu sína, hvað framangreind ummæli varðar, á því að þau feli í sér raunsanna lýsingu á upplifun stefnda af hegðun stefnandans Gunnlaugs gagnvart sér. Áður en stefndi hafi skilað greinargerð sinni í frumsök hafi stefnandinn Gunnlaugur gert sér far um að kalla hann „galinn mann“ á opinberum vettvangi. Því til viðbótar komi sú háttsemi stefnandans Gunnlaugs að vega að stefnda með SMS- sendingum í skjóli nafnleyndar, að því er virðist í tilraun til að vekja hjá stefnda ugg um velferð sína og fjölskyldu sinnar. Slík háttsemi sé enn alvarlegri þegar haft sé í huga að SMS- skeytin hafi verið send í tilefni af ágreiningi aðila fyrir dómstólum. Sannleiksgildi hinna stefndu ummæla sé því staðfest. Vísað sé til þess að stefnandi hafi um árabil tjáð sig frjálslega í athugasemdakerfum ýmissa bloggara, sem og á öðrum vettvangi. Stefndi hafi allan rétt til að draga ályktanir af slíkri opinberri hegðun stefnandans Gunnlaugs og tjá sig um skoðanir sínar á slíkri hegðun. Því til viðbótar komi síðan framkoma stefnandans Gunnlaugs í garð stefnda. Stefnda sé frjálst að tjá sig um hana og hvernig hann hafi upplifað hana. Þá byggi stefndi m.a. á því að í ummælunum felist ályktun hans og gildisdómur. Ummælin hafi fallið í kjölfar bæði höfðunar dómsmáls stefnenda á hendur stefnda og að auki í kjölfar ofangreindrar háttsemi stefnandans Gunnlaugs í garð stefnda. Ummælin verði að skoðast í því samhengi. Því til viðbótar vísi stefndi til almennra reglna og sjónarmiða um orðhefnd. Í því skyni sé vísað til ofangreindrar háttsemi stefnanda, höfðunar dómsmáls stefnenda á hendur stefnda og ummæla stefnandans Gunnlaugs um að stefndi sé „galinn maður“. Stefndi hafi afar vítt svigrúm til að svara slíkum ummælum og háttsemi á opinberum vettvangi.                                

Stefndi nýtur tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og verður að skýra allar takmarkanir á því þröngt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 382/2003. Telja verður með hliðsjón af atvikum máls þessa að framangreind ummæli stefnda í bloggfærslu 8. ágúst 2011 hafi að geyma myndlíkingu og feli í sér ályktanir sem stefndi hafi talið sig geta reist á kröfugerð stefnanda á hendur sér í frumstefnu og SMS- orðsendingum, sem stefnandi hefur viðurkennt að hafa sent stefnda og nánar er lýst í gögnum málsins. Ummælin fela jafnframt í sér mat á meintum staðreyndum en ekki miðlun staðreynda og fela því í sér gildisdóm. Viðurkennt er í dómaframkvæmd að gildisdómar njóti almennt ríkari verndar, hvað tjáningarfrelsi varðar, en staðhæfingar um staðreyndir, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 321/2008, hvort sem um framlag til þjóðfélagsumræðu sé að ræða eða ekki, þótt sjá megi þess ótvíræð merki að gildisdómar sem falli í þjóðfélagsumræðu njóti ríkari verndar en annars væri. Í framangreindum ummælum stefnda fólst ekki refsiverð aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og stefnandi heldur fram, heldur samkvæmt framangreindu gildisdómur, sem telja verður, með hliðsjón af atvikum málsins, að settur hafi verið fram í góðri trú. Verður stefndi, að gættum rétti hans samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, þegar af þeirri ástæðu, sýknaður af kröfu stefnanda.

Eftir framangreindum málsúrslitum ber að dæma stefnendur, in solidum, til að greiða stefnda  málskostnað. Ekki eru rök til að dæma álag á málskostnað samkvæmt 131 gr. laga nr. 91/1991, líkt og stefndi krefst, og þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Það er aðfinnsluvert að greinargerð stefnda í frumsök hefur að geyma verulegan skriflegan málflutning.

                Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Kröfum stefnenda, Gunnlaugs M. Sigmundssonar og Sigríðar G. Sigurbjörnsdóttur, um ómerkingu ummæla, sem birtust í bloggi stefnda, Teits Atlasonar, 16. febrúar 2011, er vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Stefndi, Teitur Atlason, er sýknaður af kröfu stefnanda, Gunnlaugs M. Sigmundssonar, um ómerkingu ummæla, sem birtust í bloggi stefnda, 8. ágúst 2011.

Stefnendur greiði stefnda, in solidum, 1.500.000 krónur í málskostnað.