Hæstiréttur íslands

Mál nr. 382/2001


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Játningarmál


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001.

Nr. 382/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Snorra Halldórssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ómerking. Heimvísun. Játningarmál.

Við fyrirtöku opinbers máls var ákærða kynnt ákæran og sagði orðrétt í bókun héraðsdóms um viðbrögð hans fyrir dómi: ,,Ákærði játar að hafa flutt til landsins myndbandsspólu þá er um ræðir í ákæru.” Þótt ekki væri þess berum orðum getið í héraðsdómi þótti ljóst að farið hefði verið með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991. Ekki var talið að bókunin yrði skilin svo að ákærði hefði játað að hafa flutt til landsins ofbeldiskvikmynd í merkingu laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Viðbrögð ákærða hefðu því ekki verið með þeim hætti, að héraðsdómari hefði með réttu mátt líta svo á, að fyrir lægi skýlaus játning á sakargiftum í þeim skilningi, sem um ræddi í 125. gr. laga nr. 19/1991. Varð því ekki komist hjá því að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. september 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins að fengnu áfrýjunarleyfi samkvæmt 1. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1994. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Ákærði gerir aðallega sömu kröfu og ákæruvaldið, en til vara að hann verði sýknaður af ákæru.

Mál þetta var tekið til dóms fyrir Hæstarétti án munnlegs málflutnings samkvæmt heimild í 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 37/1994.

I.

Málið var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði 28. febrúar 2001 þar sem ákærða var gefið að sök að hafa flutt til landsins með pósti frá Bandaríkjunum ofbeldiskvikmynd, en háttsemi ákærða var talin varða við 1. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 27. mars 2001 og ákvað héraðsdómari að gefa út nýtt fyrirkall til ákærða. Þegar málið var tekið fyrir á ný í héraðsdómi 17. apríl 2001 var ákærða kynnt ákæran og segir orðrétt í bókun héraðsdóms um viðbrögð hans fyrir dómi: „Ákærði játar að hafa flutt til landsins myndbandsspólu þá er um ræðir í ákæru.“ Að því búnu var ákærða boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar í ríkissjóð og upptöku umrædds myndbands. Ákærði hafnaði boðinu og var málið í framhaldi af því tekið til dóms að kröfu ákæranda.

II.

Þótt ekki sé þess berum orðum getið í héraðsdómi er ljóst, að farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í forsendum héraðsdóms segir að með játningu ákærða, sem samræmist gögnum málsins, teljist sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum sé gefin að sök og sé réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Af tilvitnaðri bókun héraðsdóms verður ekki séð að ákærði hafi tjáð sig um það hvort hann teldi myndbandið hafa að geyma ofbeldiskvikmynd með þeim myndskeiðum sem lýst er í ákærunni. Verður bókunin ekki skilin svo að ákærði hafi játað að hafa flutt til landsins ofbeldiskvikmynd í merkingu laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Viðbrögð ákærða voru því ekki með þeim hætti, að héraðsdómari hafi með réttu mátt líta svo á, að fyrir lægi skýlaus játning á sakargiftum í þeim skilningi, sem um ræðir í 125. gr. laga nr. 19/1991. Verður því ekki komist hjá því að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Samkvæmt þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Það athugast, að héraðsdómara hefði verið rétt að bóka skilmerkilega í þinghaldi 17. apríl 2001, að málið yrði dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 19. júní 2001.

Málið, sem þingfest var 27. mars 2001 og dómtekið 17. apríl s.á., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, dagsettri 28. febrúar 2001 gegn Snorra Halldórssyni, kt. 280875-5469, Þiljuvöllum 36, Neskaupstað „fyrir brot gegn lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum með  því að hafa þann 7. apríl 2000, flutt hingað til lands með pósti frá Bandaríkjunum ofbeldiskvikmynd sem fannst þann dag við tollskoðun í Reykjavík, en í myndinni er að finna safn myndskeiða sem sýna hrottalegar drápsaðferðir á mönnum, misþyrmingar, limlestingar, aftökur og illa útleikin lík.

Telst þetta varða við 1. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 47, 1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Þess er jafnframt krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á ofangreindri ofbeldiskvikmynd skv. heimild í 3. mgr. 10. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum."

Með játningu ákærða, sem samræmist gögnum málsins, telst sannað, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök og réttilega er heimfærð til lagaákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði dags. 09.01.2001, er ekki skráð neitt brot ákærða í sakaskrá.

Refsing ákærða, Snorra Halldórssonar, þykir hæfilega ákveðin 30.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Með vísan til 3. mgr. 10. gr. laga nr. 47/1995 er ofangreint myndband gert upptækt til ríkissjóðs.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist nokkuð fram yfir lögskilinn tíma vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, Snorri Halldórsson, kt. 280875-5469, greiði 30,000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Upptækt er gert til ríkissjóðs ofangreint myndband.