Hæstiréttur íslands
Mál nr. 620/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Skuldabréf
- Aðfararheimild
|
|
Þriðjudaginn 12. desember 2006. |
|
Nr. 620/2006. |
Hringbraut ehf. (Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf. Aðfararheimild.
H ehf. krafðist þess að fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafði gert hjá félaginu að beiðni K hf., yrði ógilt. Var fjárnámið reist á skuldabréfi, sem H ehf. hafði framselt til K hf. Fyrrgreinda félagið hélt því fram að aldrei hefði verið rætt um að það gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfunni, eins og bréfið virtist bera með sér, og hefði K hf. sett texta um það eftir á með stimpli án nokkurs samráðs við H ehf.. Í ljósi þess með hvaða hætti fyrirsvarsmaður H ehf. hafði staðið að undirritun sinni á bréfið um framsal á því var ekki talið að félagið hefði fært fram haldbæra sönnun um staðhæfingu sína. Var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu H ehf. því staðfest, enda hefði félagið ekki reist kröfu sína í málinu á því að ekki hefði verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 til að krefjast fjárnáms hjá því án undangengins dóms eða sáttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 10. maí 2006 fyrir kröfu varnaraðila að höfuðstól 4.817.428 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnám þetta verði ógilt og sér dæmdur málskostnaður í héraði auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðili verði dæmdur til að greiða ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki réttilega kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Þegar af þeirri ástæðu kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til frekari álita.
Fjárnámið, sem málið varðar, var gert hjá sóknaraðila samkvæmt aðfararbeiðni varnaraðila 20. mars 2006 að undangenginni greiðsluáskorun, sem birt var 27. febrúar sama ár. Beiðnin var studd við skuldabréf upphaflega að fjárhæð 5.000.000 krónur, sem bundin var vísitölu neysluverðs. Sóknaraðili gaf skuldabréfið út 10. janúar 2002 til handhafa og var það tryggt með veði í tilteknum eignarhlutum í fasteigninni Bæjarhrauni 16 í Hafnarfirði. Í skuldabréfinu var meðal annars ákvæði um að krafa samkvæmt því félli í gjalddaga ef skuldari stæði ekki skil á afborgunum, vöxtum og verðbótum og mætti „þá ávallt gera aðför án undangengins dóms eða sáttar samkv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989“ eða krefjast nauðungarsölu á veðinu án dóms, sáttar eða aðfarar. Skuldaraskipti urðu að kröfunni 30. ágúst 2002 með því að Kaffikot ehf. kom í stað sóknaraðila með samþykki eiganda skuldabréfsins, Eignanausts ehf., sem áritaði það 4. október sama ár um framsal til sóknaraðila. Neðan við þessa áritun var síðan færð á skuldabréfið yfirlýsing sóknaraðila um framsal, sem hvorki var dagsett né vottfest. Við þessa yfirlýsingu var stimplaður texti um að bréfið væri framselt varnaraðila, sem þá hét Búnaðarbanki Íslands hf., en að auki sagði þar eftirfarandi: „Jafnframt tekur undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi þessu“. Eignarhlutirnir í Bæjarhrauni 16, sem settir voru að veði með skuldabréfinu, voru seldir nauðungarsölu 8. október 2003 og greiddist þar ekkert upp í kröfuna. Varnaraðili fékk gert fjárnám fyrir henni 9. júní 2005 í tiltekinni fasteign sóknaraðila, sem hreyfði þá engum andmælum gegn kröfunni. Það fjárnám mun síðan hafa fallið niður vegna riftunar á kaupum sóknaraðila á þeirri fasteign 23. janúar 2006. Þegar sýslumaður tók fyrir 10. maí 2006 beiðni um fjárnámið, sem deilt er um í máli þessu, færði sóknaraðili fram mótmæli gegn framgangi þess á þeim grundvelli að hann hafi ekki gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfinu. Sýslumaður hafnaði þessum mótmælum og leitaði sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um gildi fjárnámsins 3. júlí 2006. Mál þetta var þingfest af því tilefni 17. sama mánaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er krafa sóknaraðila í málinu reist á því að hann hafi ritað á skuldabréfið eyðuframsal áður en hann afhenti það varnaraðila 15. janúar 2003 með ósk um að sá síðarnefndi keypti það. Sóknaraðili heldur því fram að aldrei hafi verið rætt um að hann gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfunni og hafi varnaraðili sett áðurgreindan texta á skuldabréfið, þar sem kveðið var á um þá ábyrgð, eftir á með stimpli án nokkurs samráðs við sóknaraðila. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefur sóknaraðili leitast við að skjóta stoðum undir þessa staðhæfingu með því að afla rannsóknar Iðntæknistofnunar á því hvort stimplaði textinn, sem hér um ræðir, hafi verið settur á skuldabréfið áður en fyrirsvarsmaður sóknaraðila ritaði nafn sitt á það, en að nokkru leyti skarast nafnritun hans við textann af stimplinum. Samkvæmt álitsgerð stofnunarinnar 7. desember 2006 reyndist ekki unnt að staðreyna þetta.
Skuldabréfið, sem deilt er um í málinu, er ritað á prentað eyðublað. Þar er meðal annars að finna sex tölusetta reiti, sem ætlaðir eru til útfyllingar við framsal með því að færa inn dagsetningu, nafn, kennitölu og heimilisfang framsalshafa og undirritun framseljanda. Þegar Eignanaust ehf. framseldi skuldabréfið til sóknaraðila 4. október 2002 var fyrsti reiturinn af þessum toga notaður og viðeigandi atriði færð þar inn á réttum stöðum. Yfirlýsing sóknaraðila um framsal er í öðrum reitnum, sem var þó að engu leyti útfylltur, heldur stimplaður ofan í hann áðurnefndur texti um framsal til varnaraðila og sjálfskuldarábyrgð framseljandans. Undirritun yfirlýsingarinnar í nafni sóknaraðila er á viðeigandi stað í stimplaða textanum, en á röngum stað miðað við prentaðan texta eyðublaðsins. Gegn þessu hefur sóknaraðili ekki fært fram haldbæra sönnun fyrir því að stimplaði textinn hafi verið settur á skuldabréfið eftir á og án samþykkis hans. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest, enda hefur sóknaraðili í engu reist kröfu sína í málinu á því að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 til að krefjast fjárnáms hjá honum án undangengins dóms eða sáttar.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hringbraut ehf., greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2006.
I
Málið barst dóminum 3. júlí sl. og var þingfest 17. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 1. nóvember sl.
Sóknaraðili er Hringbraut ehf., Grjótaseli 17, Reykjavík.
Varnaraðili er Kaupþing banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði fjárnám, nr. 011-2006-05849, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 10. maí sl. í eignarhluta sóknaraðila í Drafnarfelli 6, 8,10, 12 og 14-18, að kröfu varnaraðila, fyrir kröfu að fjárhæð 8.017.377 krónur. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður.
II
Sóknaraðili kveður málavexti vera þá að hann hafi gefið út skuldabréf til handhafa 10. janúar 2002 er tryggt hafi verið með 6. veðrétti í Bæjarhrauni 16 í Hafnarfirði. Í ágúst sama ár hafi Kaffikot ehf. keypt húsið og gerst skuldari að bréfinu með skuldskeytingu. Handhafi bréfsins, Eignanaust ehf., hafi síðan framselt það til sóknaraðila sem hafi samið um það við varnaraðila að hann keypti bréfið. Aldrei hafi verið um það rætt að sóknaraðili gerðist sjálfskuldarábyrgðaraðili að bréfinu. Sóknaraðili taldi að þáverandi framkvæmdastjóri sinn hefði ritað einfalt eyðuframsal á bréfið, enda var það mat sóknaraðila að veðið stæði undir skuldbindingum samkvæmt bréfinu. Þá komi ekkert fram um sjálfskuldarábyrgð á kaupnótu bankans. Sóknaraðili kveður eignina hafa verið selda nauðungarsölu 8. október 2003 og hafi ekkert komið upp í greiðslu á framangreindu veðskuldabréfi. Hann kveðst engar tilkynningar hafa fengið um uppboðið og heldur engar um að varnaraðili teldi hann bera sjálfskuldarábyrgð á bréfinu. Sóknaraðili kveðst því ekki hafa getað gætt hagsmuna sinna á uppboðinu. Það hafi ekki verið fyrr en í desember 2003 sem varnaraðili hafi tilkynnt sér um vanskil Kaffikots ehf., en hvorki hafi verið getið um að skuldabréfið væri án veðtryggingar né að sóknaraðili bæri sjálfskuldarábyrgð á bréfinu. Það hafi ekki verið fyrr en sumarið 2004 sem varnaraðili hafi haldið því fram að sóknaraðili bæri sjálfskuldarábyrgð á bréfinu og hafi framangreint fjárnám verið gert á grundvelli þess.
Varnaraðili getur þess í málavaxtalýsingu sinni að Eignanaust ehf. hafi framselt umrætt skuldabréf til sóknaraðila og við það hafi það orðið nafnbréf og séu framsölin á því í samræmi við almennar reglur sem gilda um framsöl viðskiptabréfa. Þá hafi sóknaraðili tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á bréfinu þegar forsvarsmaður hans hafi ritað nafn sitt í þar til gerðan reit á bréfinu. Hann hefði ritað nafn sitt á öðrum stað hafi ætlun hans verið að framselja það án ábyrgðar. Bréfið beri því með sér að sóknaraðili hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á því.
III
Sóknaraðili byggir á því að hann beri ekki sjálfskuldarábyrgð á bréfinu. Þáverandi framkvæmdastjóri hafi framselt það eyðuframsali án sjálfskuldarábyrgðar. Stimpill varnaraðila, sem kveði á um sjálfskuldarábyrgðina, hljóti að hafa verið settur á bréfið eftir að það var áritað af framkvæmdastjóranum. Bendi staðsetning nafnáritunarinnar við framsalið til þess. Einnig er á því byggt að varnaraðili hafi ekki tilkynnt sóknaraðila um sjálfskuldarábyrgðina eins og honum hafi borið að gera.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á bréfinu og með því að það sé að öllu leyti í lögmætu formi hafi verið rétt af sýslumanni að gera fjárnám á grundvelli þess. Það sé meginregla að kröfuhafi eigi öll þau réttindi sem viðskiptabréf beri með sér og sóknaraðili hafi ekki hnekkt því að hann hafi ritað nafn sitt undir áritun er fól í sér að hann tók á sig sjálfskuldarábyrgð á bréfinu. Varnaraðili byggir á því að ósannað sé að hann hafi ekki sent sóknaraðila þær tilkynningar sem honum bar og jafnvel þótt misbrestur hafi orðið á að senda tilkynningar varði það ekki ógildingu sjálfskuldarábyrgðarinnar.
IV
Í málinu er krafist ógildingar á aðfarargerð frá 10. maí sl., er gerð var í framangreindum fasteignum til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi sem varnaraðili heldur fram að sé með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila. Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu aðfarargerðarinnar á því að hann hafi ekki tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á bréfinu, heldur hafi það verið stimplað með ákvæði um ábyrgðina eftir að hann framseldi það til varnaraðila.
Sóknaraðili gaf bréfið út 10. janúar 2002 til handhafa. Það var framselt til hans af Eignanausti ehf. 4. október sama ár. Með ódagsettu framsali er það framselt til varnaraðila. Ágreiningur aðila er um það hvort sóknaraðili hafi þá tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á bréfinu eða ekki. Upphaflega var það tryggt með veði í fasteign, en hún var seld á nauðungaruppboði án þess að greiðsla kæmi upp í bréfið.
Frumrit bréfsins hefur verið lagt fyrir dóminn. Á blaðsíðu 2 eru prentaðir reitir fyrir framsöl og var slíkur reitur notaður þegar Eignanaust ehf. framseldi bréfið. Þegar sóknaraðili framseldi það til varnaraðila er stimplað ofan í prentaða textann með stimpli þar sem fram kemur að skuldabréf þetta sé framselt Búnaðarbanka Íslands hf., nú varnaraðila. Þótt stimpillinn sé að hluta til ógreinilegur má greinilega sjá að áletrunin felur í sér að sá sem undirriti hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á bréfinu. Raunar þarf ekki frekar að fjalla um stimpilinn þar sem ágreiningslaust er hvað í texta hans stendur. Neðst í stimplinum stendur Reykjavík og þar fyrir aftan er lína sem gera má ráð fyrir að ætlast sé til að framseljandinn riti nafn sitt í. Í þessari línu er stimpill með nafni og kennitölu sóknaraðila og ofan í þann stimpil hefur þáverandi framkvæmdastjóri hans ritað nafn sitt, eins og hann staðfesti fyrir dómi. Þegar nafnritun framkvæmdastjórans er skoðuð verður ekki annað séð en að hún sé dregin yfir áletrunina sem stimpill varnaraðila markaði á bréfið. Það er því ekki hægt að fallast á þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi stimplað bréfið með ákvæðinu um sjálfskuldarábyrgðina eftir að það var framselt honum. Jafnvel þótt misbrestur hafi orðið á að senda tilkynningar til sóknaraðila getur það ekki valdið því að sjálfskuldarábyrgð hans falli úr gildi og verður einnig að hafna þeirri málsástæðu hans.
Samkvæmt þessu er hafnað kröfu sóknaraðila um að ógilda fjárnámið, en málskostnaður skal falla niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kröfu sóknaraðila, Hringbrautar ehf., er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.