Hæstiréttur íslands

Mál nr. 103/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. febrúar 2007.

Nr. 103/2007.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 2. mars 2007 kl. 16 en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur aðalkrafa hans því ekki til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                     

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2007.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang] verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. mars 2007 kl. 16:00, en í dag kl. 16:00 rennur út gæsluvarðhald kærðu skv. úrskurði 15. febrúar s.l.

Kærða mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Suðurnesjum hafi til rannsóknar meint stórfellt brot kærðu á lögum nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni og brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940.  Kærða hafi verið handtekin vegna rökstudds gruns um aðild að innflutningi á um 688 grömmum af kókaíni, en hún ásamt A hafi verið handtekin við komu til landsins með flugi frá Amsterdam þriðjudaginn 13. febrúar s.l.  Við tollleit hjá þeim hafi fundist  fíkniefni, kókaín, samtals um 688 grömm.  Fyrsta athugun lögreglu hafi bent til að um tiltölulega hreint efni væri að ræða.  Kærði B hafi verið farþegi í sömu flugvél og konurnar og hafi hann verið handtekinn aðfaranótt 15. febrúar og hafi hann játað aðild að hluta af ofangreindum fíkniefnainnflutningi. Allir ofangreindir aðilar sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness til kl. 16:00 miðvikudag 21. febrúar 2007.

Lögreglu hafi með úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness verði heimilað að afla upplýsinga frá bankastofnunum og fjármálafyrirtækjum um viðskipti kærðu við þau svo og að afla upplýsinga um símanotkun kærðu á tilteknu tímabili frá símafyrirtækjum.  Rannsókn þessara gagna sé tímafrek og sé henni ekki lokið.  Meðal gagna lögreglu séu skýrslur aðila sem handtekinn var með kærða B, þar sem fram komi að kærði B hafi staðið að fíkniefnainnflutningi í janúar s.l., og þá hafi lögregla rökstuddan grun um og játningar kærðu um að ofangreindar tvær konur og kærði hafi farið utan í janúar s.l. og einnig sé um að ræða nokkurn fjölda utanferða þessara kærðu aðila á síðasta ári.  Beinist rannsókn lögreglu að því að um talsvert viðameiri innflutning ólöglegra fíkniefna hinna kærðu aðila kunni að vera að ræða en aðeins á þeim 688 grömmum kókaíns, sem fundust nú. Þá beinist rannsókn lögreglu að því hvort fleiri aðilar tengist málinu, en framburðir kærðu þyki gefa vísbendingar um að svo kunni að vera.

Lögregla telji brýna rannsóknarhagsmuni að kærðu verði með vísan til ofanritaðs, gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. mars 2006 kl. 16:00.

Um lagarök vísar lögreglustjóri til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 og laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni.

Rökstuddur grunur er um að kærða hafi framið refsiverðan verknað sem fangelslsrefsing er lögð við.  Málið er enn á rannsóknarstigi og þykir því nauðsyn bera til samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi.  Með vísan til þessa svo og framangreindra raka lögreglustjóra og atvika málsins að öðru leyti er krafa um að kærðu verði gert að sæta áfram gærluvarðhaldi tekin til greina en rétt þykir að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er og skal kærða samkvæmt því sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2007 kl. 16:00.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2007 kl. 16:00.