Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Föstudaginn 21

 

Föstudaginn 21. júlí 2006.

Nr. 353/2006:

Ákæruvaldið

(Sigurður Tómas Magnússon

settur ríkissaksóknari)

gegn

X

(Gestur Jónsson hrl.)

Y og

(Jakob R. Möller hrl.)

Z

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Ákæra. Kæruheimild. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, sem tók til greina að hluta kröfu sakborninga um frávísun opinbers máls. Vísað var frá Hæstarétti kröfu sakborninganna um frávísun málsins í heild sinni, þar sem niðurstaða héraðsdóms sætti ekki kæru til Hæstaréttar að því leyti sem hann hafnaði frávísunarkröfu þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006, þar sem vísað var frá dómi I. kafla ákæru í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum, en jafnframt hafnað kröfu varnaraðila um frávísun málsins í heild. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka allt málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann aðallega frávísunar á kærum varnaraðila, en til vara að staðfest verði synjun héraðsdómara um frávísun 2. til 19. liðar í II. til V. kafla ákæru.

Varnaraðilarnir X og Y kærðu fyrir sitt leyti úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar 3. júlí 2006. Um kæruheimild vísa þeir til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991, 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðilinn X krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um að vísa frá dómi I. kafla ákærunnar og að öðrum liðum hennar verði einnig vísað frá. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Y krefst þess að ákærunni í framangreindu máli verði vísað frá dómi.

Varnaraðilinn Z kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar 3. júlí 2006 og vísar um kæruheimild til sömu ákvæða og aðrir varnaraðilar. Hann krefst þess að ákæru á hendur sér verði vísað frá dómi og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991, sbr. i. lið sömu mgr. verður kærður til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms um frávísun máls frá dómi. Með gagnályktun frá því ákvæði er sýnt að ekki verður kærður til Hæstaréttar úrskurður, þar sem frávísun er hafnað. Engin efni eru til að fallast á með varnaraðilum að sú regla, sem styðst við auðsæ rök, stangist á við stjórnarskrána eða eigi ekki við vegna jafnræðissjónarmiða, þar eð málið sé komið til Hæstaréttar fyrir tilstuðlan sóknaraðila. Að þessu virtu getur ekki komið til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms um að hafna frávísun hluta málsins og verður kröfum varnaraðila þar að lútandi því vísað frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti kröfum varnaraðila, X, Y og Z, um frávísun málsins umfram það sem héraðsdómur kvað á um í hinum kærða úrskurði.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006.

Með ákæru, dagsettri 31. mars sl., höfðaði settur ríkissaksóknari samkvæmt um­boðs­skrá  opinbert mál á hendur þeim X, [kt. og heimilisfang], Y, [kt. og heimilisfang] og Z, [kt. og heimilisfang].

Ákærðu eru gefin að sök brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bók­hald og hlutafélög á árunum 1998 til 2002, samkvæmt málavaxtalýsingum í ákærunni.  Þar segir að brot ákærðu hafi tengst rekstri A hf. sem stofnað var 1. júlí 1998. Hluta­bréf fél­agsins voru skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands 28. apríl 1999 en afskráð af þeim lista 11. júlí 2003. Félagið var á þeim tíma al­menningshlutafélag með dreifða eignaraðild.

Málið var þingfest 27. apríl sl. og kröfðust ákærðu þess þá að því yrði vísað frá dómi.  Í þinghaldi 23. maí sl. létu verjendur ákærðu bóka um grundvöll frá­vísunar­krafn­anna og í sama þinghaldi vakti dómarinn athygli á því að vera kynni að I. kafli ákær­unnar væri ekki svo glöggur sem vera skyldi og gaf sakflytjendum kost á að tjá sig um það atriði, sbr. 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. 

Settur ríkissaksóknari krefst þess að frávísunarkröfunum verði hafnað.  Þá telur hann enga þá meinbugi vera á I. kafla ákærunnar er varða kunni frávísun.

Málið var flutt um frávísunarkröfurnar 21. og 22. júní sl.

II

Forsaga þessa máls er sú að í lok ágúst 2002 gaf ákærði, Z, sig fram við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og gaf skýrslu um atvik, sem hann taldi kunna varða við lög, eins og segir í lögregluskýrslu sem tekin var af honum.  Í skýrslunni skýrði hann frá viðskiptum sínum við ákærðu, X og Y, og aðra sem tengdust rekstri A hf.  Á grundvelli framburðar Z og gagna frá honum var krafist dómsúrskurðar 28. ágúst sama ár, er heimilaði leit í húsnæði fyrir­tækjanna B hf. og A hf. og jafnframt til að handtaka framangreinda X og Y.  Héraðsdómur Reykjavíkur heimilaði leit þennan sama dag og við leitina var lagt hald á mikinn fjölda gagna.  Þá var Y handtekinn og hafður í haldi lögreglu þar til síðdegis næsta dag.  X var erlendis.

Rannsókn lögreglu hélt áfram næstu árin og teygði anga sína víða um lönd.  Henni lauk með því að ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 1. júlí 2005 og var málið þing­fest 17. ágúst.  Héraðsdómur taldi vera annmarka á málinu, er væru þess eðlis að varða kynni frávísun.  Var sakflytjendum gefinn kostur á að flytja málið varðandi þau atriði 13. september og með úrskurði 20. sama mánaðar vísaði héraðsdómur málinu frá dómi.  Ríkis­lögreglustjóri kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og með dómi hans 10. október var fyrstu 32 ákæruliðunum vísað frá dómi.  Dómur féll í héraði 15. mars sl. um þá ákæruliði sem eftir stóðu og voru allir ákærðu sýknaðir, en auk ákærðu, X og Y, voru fjórir aðrir ákærðir sem ekki eru ákærðir í þessu máli.  Ákærði, Z, var ekki ákærður í málinu, en kom fyrir dóm sem vitni.  

Eftir að Hæstiréttur hafði vísað meginhluta ákæru ríkislögreglustjóra frá dómi af­henti hann málið ríkissaksóknara sem ákvað að “taka til athugunar þau gögn málsins sem lágu að baki ákæruliðunum 32 til þess að ganga úr skugga um hvort efni væri til þess að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra gagna, sbr. 1. og 2. mgr. 28. gr. laga um með­ferð opin­berra mála nr. 19/1991.”  Skömmu síðar kom í ljós að ríkissaksóknari taldi sig ekki bæran til að stýra þessari athugun og sagði sig frá málinu.  Sigurður Tómas Magnússon lög­fræð­ingur var settur ríkissaksóknari 21. október 2005 til að fara með málið og gaf hann út ákæruna í því 31. mars sl.  Hann flutti einnig það sem eftir stóð af fyrra málinu og dæmt var 15. mars sl.

III

Ákærðu, X og Y, byggja frávísunarkröfur sínar á eftirfarandi:  “Í fyrsta lagi með vísan til 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Engin ákvæði eru í íslenskri löggjöf um endurútgáfu ákæru í kjölfar frávísunar máls, sbr. 1. mgr.

Brotið var gegn meginreglu 1. mgr. um jafnræði aðila í aðdraganda útgáfu nýrrar ákæru.

Reglur um málshraða skv. 1. mgr. hafa ekki verið virtar.

Afskipti sérstaks saksóknara af skipan dóms eru sérstakt brot á 1. mgr. um sjálfstæði dóm­stóla.

Afskipti Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, af málinu eru ósam­rým­an­leg réttindum sakborninga, skv. 2. mgr.

Sönnunarfærsla ákæruvalds er andstæð a og b lið 3. mgr.

Í öðru lagi með vísan til þess að grundvelli máls hefur verið raskað í nýrri ákæru.

Bætt hefur verið við nýjum sakborningi.

Lýsingum staðreynda hefur verið breytt.

Heimfærsla til refsiákvæða hefur breyst.

Í þriðja lagi með vísan til verulegra galla á rannsókn máls.

Rannsókn, sem lá að baki ákæru í málinu S-1026/2005, uppfyllti ekki skilyrði laga um meðferð opinberra mála.

Rannsókn var ekki lokið þegar ákæra var gefin út.

Einstakar sakargiftir voru ekki bornar undir ákærðu

Sérstakur saksóknari lagði ekki sjálfstætt mat á rannsóknina.”

Ákærðu byggja kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að ákvæði mann­rétt­inda­sáttmála Evrópu hafi ekki verið virt eins og rakið var.  Í lögum um meðferð opinberra mála er ekki sérstakt ákvæði sem fjallar um þau tilvik er dómstólar vísa ákærum frá dómi.  Í lokamálslið 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er þó gert ráð fyrir að til slíks geti komið og hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir fyrningu sakamáls, eins og þar greinir.  Þótt beinu lagaákvæði sé ekki fyrir að fara sem heimili ákæruvaldi að ákæra að nýju þegar fyrri ákæru hefur verið vísað frá dómi gerir þó framangreint hegn­ing­ar­laga­ákvæði ráð fyrir að svo sé og hafa dómstólar lengi litið svo á að það væri heimilt að íslenskum lögum.  Verður hér að hafa í huga fyrirmæli 111. gr. laga um meðferð opin­berra mála sem mælir fyrir um að sérhver refsiverður verknaður skuli sæta ákæru, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum.  Þessari reglu er síðan fylgt eftir með reglu 112. gr. sömu laga um skyldu ákæranda til að ákæra sakaðan mann, telji hann skilyrði til þess. 

Á grundvelli rannsóknar máls, sem hófst í lok ágúst 2002, var gefin út ákæra 1. júlí 2005.  Meginhluta þeirrar ákæru vísaði Hæstiréttur frá héraðsdómi með dómi 10. október sama ár.  Ástæða frávísunarinnar var sú að ákærusmíðin var ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála.  Með vísun til þess, sem sagði hér að framan, hafði ákæru­valdið heimild til þess að gefa út nýja ákæru og verður málinu ekki vísað frá dómi af þeirri ástæðu að í lögum um meðferð opinberra mála er ekki bein heimild til útgáfu hennar. 

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segir meðal annars að öllum beri réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma.  Jafnvel þótt dómstólar litu svo á að ákærandi hafi ekki virt þessa reglu og dregið óhæfilega að ákæra þá geta þeir ekki vísað máli frá sér af þeim sökum einum.  Í þessu máli er því hins vegar ekki til að dreifa þar eð ákært var að nýju tæpum sex mánuðum eftir frávísun fyrri ákærunnar og er það innan hæfilegs tíma.  Á sama hátt getur það ekki varðað frávísun máls frá dómi þótt rann­sókn þess kunni að hafa dregist.  Það kann hins vegar að hafa áhrif á ákvörðun refs­ingar, komi til sakfellingar. 

Þegar ákæra hafði verið gefin út í málinu var hún send Héraðsdómi Reykjavíkur ásamt rannsóknargögnum og skrá yfir vitni sem ákærandinn hyggst leiða við aðal­meðferð máls­ins, sbr. 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Hvort þessi listi er endan­legur eða ekki ræðst m.a. af því hvort málinu verður vísað frá dómi að ein­hverju leyti.  Það getur ekki varðað frávísun þótt gerð vitnalista kunni að einhverju leyti að vera að­finnslu­verð.  Úr því má bæta undir rekstri málsins, sbr. 4. mgr. 122. gr. lag­anna, en ekkert er fram komið um að svo sé.  Þá varðar fjöldi málsskjala ekki frávísun, enda ber að veita ákærðu nægan tíma til að undirbúa vörn sína, sbr. 2. mgr. 128. gr. laganna.

Af hálfu ákærðu er því haldið fram að settur ríkissaksóknari hafi haft afskipti af skipun dóms í málinu.  Í gögnum málsins eru bréfaskipti hans og dómstjórans þar sem fram kemur að saksóknarinn tjáði dómstjóranum fyrir útgáfu ákærunnar að dóms­forsetinn í málinu sem dæmt var 15. mars sl. væri tengdur endurskoðanda fjöl­skyldu­böndum, en hann hefði unnið að rannsókn málsins fyrir ákæruvaldið.  Verjendur ákærðu kröfðust þess að settur ríkissaksóknari og dómstjórinn yrðu kvaddir fyrir dóminn til að bera nánar um þetta.  Þessu var hafnað með úrskurði 12. júní sl. sem staðfestur var af Hæstarétti 14. sama mánaðar.  Í dómi Hæstaréttar segir:  “Jafnvel þótt varnar­aðilar teldu að skýrslur vitn­anna, sem þeir óska eftir, gætu leitt í ljós frekari atriði í þessu sambandi, gætu rök­semdir, sem á þessu væru reistar, ekki orðið til þess að málinu yrði vísað frá dómi.”  Það hefur því verið dæmt af Hæstarétti að þetta atriði varðar ekki frávísun og þarflaust að fjalla frekar um það.

Daginn eftir að Hæstiréttur hafði vísað meginhluta fyrri ákærunnar frá dómi bað ríkis­­lögreglustjóri, er farið hafði með málið og ákært í því, ríkissaksóknara að taka til athug­­unar þau atriði ákærunnar er vísað hafði verið frá.  Tveimur dögum síðar til­kynnti ríkis­saksóknari dómsmálaráðherra að hann væri ekki bær til að annast þessa athugun, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um meðferð opinberra mála.  21. október sl. setti dóms­málaráðherra Sigurð Tómas Magnússon lögfræðing til að fara með málið “og taka sem ríkissaksóknari allar þær ákvarðanir sem máli þessu tengjast þar með talið að fara með heimildir ríkis­sak­sóknara varðandi þau ákæruefni sem eftir standa” af ákæru ríkis­lögreglustjóra.  Hinn setti ríkis­saksóknari er þannig æðsti handhafi ákæruvalds við meðferð þessa máls, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Afskipti þau sem dómsmálaráðherra getur haft af störfum hans takmarkast af 26. gr. laganna.  Af þessu leiðir að orð og gerðir dóms­mála­ráð­herra, hvort sem er í eigin nafni eða ráðu­neytisins, geta á engan hátt valdið vanhæfi setts ríkissaksóknara.  Hér er og til þess að líta að með dómi 9. janúar sl. komst Hæsti­réttur að þeirri niðurstöðu að dóms­mála­ráðherra hefði verið hæfur til að setja nefndan lög­fræðing ríkissaksóknara í málinu.      

Í öðru lagi byggja ákærðu á því að grundvelli málsins hafi verið raskað í nýrri ákæru.  Hæsti­réttur vísaði meginhluta ákærunnar frá 1. júlí 2005 frá héraðsdómi með dómi sínum 10. október sl.  Ástæðan var sú að ákæran uppfyllti ekki ákvæði laga um meðferð opin­berra mála og hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að ákæru­valdinu hafi verið heimilt að ákæra að nýju.  Í frávísuninni fólst að ákæran er ónýt og ákæru­valdið verður að hefjast handa á nýjan leik.  Það er hins vegar á engan hátt bundið af fyrri ákærunni sem hefur ekkert gildi lengur.  Ákæruvaldið getur samið nýja ákæru á grundvelli sömu rann­sókn­argagna og gamla ákæran var byggð á eða rann­sakað málið betur og bætt við sakar­giftum eða fallið frá að ákæra fyrir atriði sem ákært var fyrir.  Á sama hátt getur það ákært aðra en ákærðir voru í fyrri ákæru.  Í þessu máli stendur þannig á að þrír eru ákærðir, tveir sem voru ákærðir í fyrra máli og einn sem var vitni í því.  Þá voru fjórir ákærðir í fyrra máli sem ekki eru ákærðir nú.  Ákæruliðir eru ekki orðaðir á sama hátt og fyrr og ætluð brot eru að einhverju leyti færð til annarra refsiákvæða.  Vegna þess að fyrri ákæran er ónýt er ákæruvaldinu heimilt að gera þetta, enda er nýtt mál lagt fyrir dóm­stól­inn þótt byggt sé að langmestu leyti á sömu rannsókn og eldra málið. 

Loks byggja ákærðu á því að verulegir gallar séu á rannsókn málsins.  Hafa þeir til­­tekið fjögur atriði sem rakin eru hér að framan.  Samkvæmt 112. gr. laganna um með­ferð opin­berra mála skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um hvort rannsókn þess sé lokið.  Að þeirri athugun lokinni ber honum annað­hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þörf á því, eða taka til athug­unar hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki.  Það er þannig ákærandinn sem metur það hvort rannsókn sé fullnægjandi eða ekki til að hægt sé að semja ákæru og leggja málið fyrir dóm.  Eftir að ákæra hefur verið gefin út hvílir sú skylda á dómara að kanna hvort einhverjir þeir gallar séu á málatilbúnaði ákæruvaldsins að varðað gætu frávísun, sbr. 3. mgr. 119. gr. laganna.  Þessi athugun, jafnvel þótt hún leiddi í ljós galla og hvort sem ákæruvaldið bætti úr þeim eða ekki, bindur ekki hendur dóm­arans.  Hann getur hvenær sem er eftir þingfestingu vísað máli frá dómi, þótt engin krafa komi fram um það, ef hann telur svo bersýnilega ann­marka vera á málinu að ekki verði úr þeim bætt undir rekstri þess, sbr. 4. mgr. 122. gr. lag­anna. 

Settur ríkissaksóknari hefur metið gögn málsins samkvæmt nefndri lagagrein, lokið rann­sókn þess og tekið ákvörðun um útgáfu ákæru.  Meðferð málsins hingað til hefur ekki leitt í ljós neina þá meinbugi á lögreglurannsókn þess að varðað gætu frá­vísun af þeim sökum.  Það girðir hins vegar ekki fyrir að til frávísunar geti komið á síðari stigum, komi eitt­hvað í ljós við meðferð málsins fyrir dómi sem ekki verði bætt úr, sbr. tilvitnað ákvæði.        

Samkvæmt framanrituðu verður ekki orðið við kröfu ákærðu, X og Y, um að vísa málinu frá dómi.

IV

Ákærði, Z, byggir frávísunarkröfu sína á því að  sak­sóknari við embætti ríkislögreglustjóra hafi með bréfum 14. október og 20. desember 2005 lýst því yfir að ákvörðun hafi verið tekin um að gefa ekki út ákæru á hendur ákærða.  Ákvörð­unin byggðist á því mati ákæruvaldsins að það, sem hefði komið fram við rannsókn málsins um hlut hans, væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis og var vísað í því sam­bandi til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Saksóknarinn hafi lýst því sama yfir við aðalmeðferð málsins sem dæmt var 15. mars sl.  Ekki verði séð að ný sönnunargögn hafi komið fram eftir að rannsókn lauk og framangreindar yfir­lýsingar voru gefnar.

Framangreind bréf hafa verið lögð fyrir dóminn.  Hvorugt þeirra er stílað á ákærða, Z, heldur er hið fyrra sent verjanda ákærða, X, og hið síðara honum og öðrum lögmanni, er var verjandi eins þeirra er sýknaðir voru með dómnum 15. mars sl.  Bréfin eru svör við fyrirspurnum verjendanna til ríkis­lög­reglustjóra um af hverju ákærði, Z, hafi ekki verið ákærður í ákærunni 1. júlí 2005.  Í báðum bréfunum er vísað til 112. gr. laga um meðferð opinberra mála og greint frá því mati “ákæruvalds að það sem fram hefði komið við rannsókn málsins um hlut hans í málinu væri ekki nægilegt eða lík­legt til sakfellis.  Við þetta mat var litið til allra gagna málsins og á grundvelli þeirra varð niðurstaðan sú að framlögð gögn gerðu það ekki líklegt að háttsemi Z yrði lögð að jöfnu við háttsemi skjólstæðinga ykkar, ...”   Þá er því ómót­mælt af hálfu ákæruvaldsins að við aðalmeðferð málsins sem dæmt var 15. mars sl. hafi nefndur saksóknari borið á sama hátt og fram kemur í bréfunum.

Eins og fram kom hér að framan var upphaf málsins að ákærði, Z, sneri sér til ríkislögreglustjóra í ágúst 2002 og var þá tekin af honum skýrsla.  Við þessa skýrslu­­töku, og allar skýrslutökur hjá lögreglu eftir það, hafði ákærði stöðu vitnis.  Svo var og við aðalmeðferð málsins sem dæmt var 15. mars sl., en þó var athygli hans þá í einstaka til­vikum vakin á ákvæðum 51. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Það er fyrst eftir að settur ríkissaksóknari tekur við málinu að ákærði hefur stöðu grunaðs manns við yfir­heyrslu hjá lögreglu.  Þegar af þessari ástæðu eiga ákvæði 3. mgr. 76. gr. laganna um með­ferð opinberra mála ekki við hér.  Af sömu ástæðu er ekki hægt að líta á fram­an­greind bréf og framburð saksóknarans sem tilkynningu um að fallið hafi verið frá sak­sókn, sbr. 1. mgr. 114. gr. laganna, enda hafði ákærði ekki haft stöðu sak­born­ings og þessum tilkynningum var ekki beint til hans.  Ákæruvaldið hefur þannig hvorki fellt niður mál á hendur ákærða, sbr. 112. gr. laganna, né fallið frá saksókn á hendur honum, sbr. 113. gr., og standa því ákvæði laga um meðferð opinberra mála ekki í vegi að settur ríkis­sak­sóknari ákæri hann.  Kröfu ákærða um frávísun er því hafnað.  

V

I. kafli ákærunnar er svohljóðandi: “I. kafli.  Auðgunarbrot í tengslum við viðskipti með hlutafé tveggja hlutafélaga með nafninu C á árunum 1998 og 1999.

1. Ákærða X eru aðallega gefin að sök fjársvik, en til vara umboðssvik, með því að hafa við sölu á 70% hlutafjár í C hf., [kt.1], (áður G hf.), eiganda reksturs verslana D, til A hf., 21. maí 1999, fyrir samtals kr. 1.037.000.000, sem svarar til kr. 1.481.428.600 heildarverðmætis hlutafjár félagsins, beitt stjórn A hf. blekkingum í auðgunarskyni með því að leyna því að hann væri raun­verulegur seljandi hlutafjárins ásamt E ehf. og umráðamaður og stjórnandi E ehf. Jafnframt með því að vekja hjá stjórn A hf. þá hugmynd að seljandi hluta­fjárins ásamt E ehf. væri F en ákærði hafði keypt allt hlutafé C hf., [kt.2], af F 7. október 1998 fyrir kr. 1.150.000.000 og var enn eigandi 25% hlutafjárins en E ehf. eigandi 45,2% þess. Allt hlutafé C hf., [kt.2], sem rak verslanir D, var lagt fram sem hlutafé G hf. við stofnun þess félags 4. desember 1998. Með þessum blekkingum fékk ákærði samþykki stjórnar félagsins, á stjórnarfundi 20. maí 1999, til að ganga frá kaup­um á hlutafénu á verði sem hann taldi stjórninni trú um að væri niðurstaða samninga við ótengda seljendur en var í raun ákvarðað af honum einum.

Ákærði hafði áður selt 29,8% hlutafjár C hf.,  [kt.2], en eftir að A hf. hafði eignast það hlutafé 7. júlí 1999 hafði félagið greitt samtals kr. 1.474.297.818 fyrir rekstur verslana D. Þegar ákærði hins vegar keypti allt hlutafé C hf., [kt.2], 7. október 1998, voru auk reksturs verslana D í eigu þess félags fasteignir sem ákærði lét afsala til H ehf. í desember 1998 og lét svo selja til I hf. 1. júní 1999 með um það bil 140 milljóna króna ágóða sem rann til J ehf.

A hf. galt samtals um 325 milljónum kr. hærra verð fyrir hlutafé C hf., [kt.1], en það sem ákærði galt fyrir hlutafé C hf., [kt.2], og telst það tjón A hf. Þeir sem auðguðust á þessum blekkingum voru auk ákærða sjálfs, J ehf., sem var á árunum 1998 og 1999 í eigu ákærða, föður hans og systur og E ehf., sem var undir stjórn og umráðum ákærða. Auðgun þessara aðila nam að minnsta kosti 200 milljónum kr. og var því talsvert minni en tjón A hf. þar sem ákærði hafði umtalsverðan kostnað af kaupum og sölu hluta­fjárins og því að leyna eignarhaldi sínu og tengslum við H ehf. og E ehf.

Brot ákærða átti sér rúmlega sjö mánaða aðdraganda og var gert mögulegt með þeim löggerningum sem hér greinir:

Með kaupsamningi, dagsettum 7. október 1998, keypti ákærði af F allt hluta­fé í C hf., [kt.2], fyrir samtals kr. 1.150.000.000. Í kaup­­samn­ingi kom fram að ákærði keypti hlutaféð fyrir hönd ótilgreindra kaupenda. Kaupverðið skyldi greiða með kr. 200.000.000 hinn 8. október 1998, kr. 800.000.000 5. nóvember 1998 og kr. 150.000.000 á gjalddaga víxils 1. mars 1999. Afhending skyldi fara fram 5. nóvember 1998 og gekk það eftir.

Ákærði lét afhenda sér án heimildar kr. 200.000.000 frá A-B ehf. hinn 8. október 1998 til að standa skil á fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningnum en þá fjár­muni endurgreiddi hann í tvennu lagi, 4. og 21. desember 1998.

Ákærði fékk Y til að fá K og L til þess að þess að skrá sig sem stofnendur einkahlutafélagsins E í nóvember 1998. Ákærði fór frá upphafi með félagið sem eign sína.

Þrátt fyrir að ákærði hafi með kaupsamningi 7. október 1998 eignast öll hlutabréf í C hf., kt. [kt.2], var látið líta svo út að F ætti félagið enn að fullu þegar samið var við T hf. hinn 10. nóvember 1998 um að fá fagfjárfesta að félaginu, T hf. hafði milligöngu um sölu á 35% hlut í C hf. til E ehf. fyrir kr. 450.000.000 og 35% hlut til S hf. fyrir kr. 490.000.000 en auk þess keypti bankinn sjálfur 5% hlut fyrir kr. 57.500.000.

Til að fjármagna greiðslu á þeim kr. 800.000.000, sem ákærða bar að greiða F 5. nóvember 1998, lét ákærði E ehf. taka lán í T hf. 16. nóvember 1998 að fjár­hæð kr. 451.000.000 en af lánsfjárhæðinni runnu kr. 450.000.000 til F. Eftirstöðvar af kr. 800.000.000, eða kr. 350.000.000, voru greiddar með and­virði láns að fjárhæð kr. 351.777.778, þar af voru kr. 1.777.778 vextir til F. Lán þetta var veitt í samræmi við samning 10. nóvember 1998 og endur­greitt við sölu 35% eignarhlutar í C hf., [kt.2], til S hf. og 5% hlutar til T hf., sbr. uppgjör T hf., dagsett 4. desember 1998. Samkvæmt uppgjörinu dróst frá söluverði, kr. 547.500.000, niðurgreiðsla láns kr. 351.777.778, vextir af láni kr. 2.366.194,14 og þóknun til handa T „v/umsjónar, sölu og skráningar félagsins á VÞÍ” kr. 77.000.000, eða samtals kr. 431.143.972,14. Eftirstöðvarnar kr. 116.356.027,86 greiddi T hf. með útgáfu banka­tékka sem stílaður var á M og hann framseldi og lagði inn á banka­reikning A-B hf.

Eftirstöðvar kaupverðs hlutafjár C hf., [kt.2], átti ákærði að greiða á gjalddaga víxils, að fjárhæð kr. 150.000.000, hinn 1. mars 1999. Víxill þessi, sem var gef­inn út af J ehf. og samþykktur til greiðslu af ákærða X f.h. N hf.  16. nóvember 1998, var ekki greiddur en samn­ingsskyldan efnd 3. nóvember 1999 með afhendingu á hlutafé í A hf. að nafn­virði kr. 16.200.000 en að markaðsvirði u.þ.b. kr. 162.000.000.

Í desember 1998 seldi C hf., [kt.2], allar fasteignir félagsins til H ehf., [kt.], sem ákærði fékk O og sam­­býlis­konu hans, P, til að stofna 10. desember 1998 en ákærði hafði um­ráð yfir frá upphafi. Kaupverð fasteignanna var samtals kr. 217.100.000 og var það ein­göngu greitt með yfirtöku áhvílandi skuldbindinga. H ehf. seldi I hf. þessar sömu fasteignir 1. júní 1999 fyrir kr. 357.204.000 sem var kr. 140.104.000 hærra verð en félagið keypti þær á. Greiðslurnar runnu inn á banka­reikning í eigu J ehf.  Það félag keypti allt hluta­fé í H ehf. af O og P á nafn­verði kr. 500.000 á árinu 1999. H ehf. var sameinað J ehf. í árslok 1999. Umræddur hagnaður endaði þannig hjá J ehf. J ehf. greiddi hins vegar af­borganir af kr. 100.000.000 láni sem ákærði tók, ásamt Q, 21. desember 1998 til endurgreiðslu á síðari hluta þeirra kr. 200.000.000 sem ákærði fékk hjá A-B ehf. 8. október 1998.

G hf., [kt.1], voru stofnaðar 4. desember 1998. Skráðir stofn­endur voru E ehf. og F og var hlutafé C hf., [kt.2],  lagt fram sem hlutafé. Nafni C hf., [kt.2], var breytt í R hf. 23. desember 1998 og sama dag var nafni G hf., [kt.1], breytt í C hf. Í árslok 1998 var hlutafé G hf. að nafnverði kr. 300.000.000 og voru skráðir eigendur E ehf. með 35%, S hf. og aðilar á þess vegum með 35%, F með 25% og T hf. með 5%. Þá var eina raunverulega eign C hf., [kt.1], allt hluta­fé í R hf.

S hf., og aðilar á þess vegum, seldu 35% hlut sinn í C hf., [kt.2],  27. apríl 1999 fyrir kr. 563.500.000. U hf. keypti 12,4% hlutafjárins fyrir kr. 200.000.000 krónur, T hf. 12,4% fyrir kr. 200.000.000 kr. og E ehf. 10,2% fyrir kr. 163.500.000.

Með kaupsamningi, dagsettum 21. maí 1999, keypti A hf. 70% hlutafjár C hf., [kt.1], fyrir kr. 1.037.000.000 en í raun var hið keypta 70,2% hluta­­fjárins. Við undirritun samnings skyldi kaupandi greiða kr. 225.000.000. Þá skyldi kaup­andi gefa út skuldabréf að fjárhæð kr. 162.000.000 og auk þess afhenda hlutafé í A hf. að nafnverði kr. 65.000.000, sem metið var á kr. 650.000.000. Kaup­verð umrædds hluta­fjár svarar til kr. 1.481.428.600 heildarverðmætis hlutafjár C hf., [kt.1],  Seljendur voru sagðir F og E ehf.

Greiðslum A hf. samkvæmt kaupsamningnum var ráðstafað þannig að af kr. 225.000.000 útborgunargreiðslu höfðu kr. 163.500.000 verið greiddar til T hf. 14. maí 1998 sem greiðsla E ehf. á 10,2% hlut í C hf. Þá hafði ákærði látið afhenda sér tékka, útgefinn 19. maí 1999, að fjárhæð kr. 25.000.000, stílaðan á hand­hafa. Andvirði tékkans lagði ákærði inn á reikning sinn í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 20. maí 1999 og ráðstafaði í eigin þágu. Loks ráðstafaði ákærði kr. 36.500.000 til J ehf. og var sú greiðsla innt af hendi með tékka útgefnum 8. júní 1999. Að undirlagi ákærða voru þessar þrjár greiðslur ranglega færðar í bókhaldi A hf. sem greiðslur til F.

Ekki kom til útgáfu skuldabréfs að fjárhæð kr. 162.000.000 sem gert var ráð fyrir í kaup­­samningi dagsettum 21. maí 1999. F fékk hins vegar afhent hluta­bréf í A hf., að nafnverði kr. 16.200.000 en að markaðsvirði kr. 162.000.000, sem ráðstafað var út af fjárvörslureikningi A hf. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hinn 3. nóvember 1999. Með þessari afhendingu var ákærði að efna síðasta lið kaupsamningsins við F frá 7. október 1998. Hlutabréf í A hf. að nafnvirði kr. 65.000.000, en að mark­aðsverði kr. 650.000.000, voru afhent E ehf. að af­staðinni hlutafjáraukningu í A hf. sem samþykkt var 24. júní 1999.

A hf. keypti 12,4% eignarhlut U hf. í C hf. 30. júní 1999 fyrir kr. 200.000.018 og 12,4% eignarhlut T hf. fyrir hlutafé í A hf. að nafn­­virði kr. 17.500.000 en að verðmæti kr. 175.000.000. T hf. seldi síðan R hf. 5% hlut í C hf. 7. júlí 1999 á kr. 62.297.800, en R hf. var þá komið í eigu A hf. Samtals hafði A hf. og félag í þess eigu því bók­fært kr. 1.474.297.818 sem kaupverð fyrir rekstur D verslananna en þann rekstur, ásamt fast­eignum sem H ehf. hagnaðist um 140 milljónir króna á, hafði ákærði keypt án vitundar stjórnar A hf. fyrir samtals kr. 1.150.000.000.

Auk framangreindra ráðstafana gerði ákærði samning við F, dagsettan 5. júní 1999, þar sem fram kom að hún seldi honum 25% hlutafjáreign sína í C hf. fyrir kr. 297.500.000. Tekið var fram að kr. 287.500.000 væru þegar greiddar en kaup­andi skyldi auk þess afhenda hlutabréf í A hf. að nafnvirði kr. 5.000.000 í ágúst 1999 og að nafnvirði kr. 5.000.000 í október 2000. Með þessum samningi var látið líta svo út sem ákærði væri að kaupa 25% af hlutafé C hf. sem hann hafði þegar keypt 7. október 1998 og selt A 21. maí 1999. Í þessum samningi fólst hins vegar að heild­ar­kaupverð ákærða á hlutafé C hf.,  sem verið hafði í eigu F, var hækkað um kr. 100.000.000 frá samningnum 7. október 1998.

Til vara eru ákærða X gefin að sök umboðssvik með því að hafa með fram­an­­greindri háttsemi misnotað aðstöðu sína sem forstjóri A hf. og komið því til leiðar að stjórn A hf. veitti honum umboð til að binda A hf. við kaup á 70,2% hluta­fjár C hf. en með þessari misnotkun á aðstöðu auðgaðist ákærði, J ehf. og E ehf. á kostnað A hf. eins og að framan er nánar lýst.

Með því að fá þau F, M, K, L, O og P til að undirrita fjölda gern­inga og koma fram í nafni E ehf., H ehf. og beggja C-félaganna dró ákærði X dul á persónulega aðild sína að viðskiptum þessara félaga.

Brot ákærða X telst aðallega varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 249. gr. sömu laga.”

Samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga varðar það mann refsingu að koma öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hafa þannig fé af honum.  Í framangreindum ákærulið er lýst viðskiptum með hlutafé í til­­tekinni verslanakeðju sem virðast hafa hafist 7. október 1998 með því að ákærði keypti allt hlutfé í tilteknu félagi fyrir tilgreint verð.  Í langri greinargerð, sem kemur á eftir hinum eiginlega ákærulið, er lýst margvíslegum viðskiptum með hlutféð og að hluta til með fasteignir, eins og rakið var.  Af ákærunni verður ráðið að þessu við­skipta­ferli hafi lokið vorið 1999 með því að A hf. hafi keypt 70% hlutfjár í til­teknu hlutafélagi fyrir til­tekið verð. 

Ákærði er sakaður um að hafa “beitt stjórn A hf. blekkingum í auðg­un­ar­skyni með því að leyna því að hann væri raunverulegur seljandi hlutafjárins ásamt E ehf. og umráðamaður og stjórnandi E ehf. Jafnframt með því að vekja hjá stjórn A hf. þá hugmynd að seljandi hlutafjárins ásamt E ehf. væri F en ákærði hafði keypt allt hlutafé C hf., [kt.2], af F 7. október 1998 fyrir kr. 1.150.000.000 og var enn eigandi 25% hlutafjárins en E ehf. eigandi 45,2% þess”, eins og segir í ákærunni.  Og síðar segir:  “Með þessum blekkingum fékk ákærði samþykki stjórnar félagsins, á stjórnarfundi 20. maí 1999, til að ganga frá kaupum á hlutafénu á verði sem hann taldi stjórninni trú um að væri niðurstaða samninga við ótengda seljendur en var í raun ákvarðað af honum einum.”  Þá segir síðar að A hf. hafi goldið 325 milljónum króna hærra verð fyrir hluta­féð en það sem ákærði hafði greitt fyrir það og teljist það tjón A hf.  Ákærði, og aðilar tengdir honum, hafi hins vegar ekki auðgast nema um að minnsta kosti 200 milljónir króna þar eð þeir hafi haft kostnað af viðskiptunum eins og rakið var.

Í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hvað greina skuli í ákæru, en samkvæmt c – lið er það hvert brotið er sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórn­valdsfyrirmæla, ef því er að skipta.  Til að ákæra geti uppfyllt þessi skilyrði lag­anna verður verknaðarlýsing hennar að vera þannig úr garði gerð að hvorki ákærði né dómari þurfi að vera í vafa um hvaða refsiverð háttsemi ákærða er gefin að sök.  Verður að vera hægt að ráða þetta af ákærunni einni saman og skiptir engu hvaða ályktanir megi draga af rann­sóknargögnum eða hvað ákærða kann að vera ljóst vegna rann­sóknar málsins.  Með ákær­unni á þannig að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu svo hægt sé að fella dóm á það samkvæmt því sem í ákærunni er tilgreint, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 117. gr. laganna.

Í 1. lið ákæru er aðallega lýst viðskiptum með hlutafé sem ákærði á að hafa keypt og síðan selt A hf., allmörgum mánuðum síðar, án þess að láta þess getið að hann væri seljandinn.  A hf. á að hafa greitt hærra verð fyrir hlutaféð en ákærði greiddi.  Mis­mun­urinn sé tap A hf. en verulegur hluti hans sé hagnaður ákærða og til­greindra einka­hlutafélaga, eins og lýst var.  Því er ekki lýst í ákæruliðnum að ákærði hafi haft fé af A hf., heldur verður helst ráðið af honum að verið sé að lýsa því að A hf. kynni að hafa getað, eða hafi átt að geta, gert betri kaup ef ákærði hefði unnið að viðskiptunum á annan veg.  Verknaðarlýsing ákæru er samkvæmt þessu ekki lýsing á fjársvikum heldur við­skiptum sem vera kann að hafi verið óhagstæð fyrir A hf. en hugsanlega hagstæð fyrir ákærða og aðra.  Ákæran er því að þessu leyti ekki í samræmi við framangreint ákvæði c – liðar 116. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Til vara eru ákærða gefin að sök umboðssvik með því að hafa með fram­an­greindri hátt­semi misnotað aðstöðu sína sem forstjóri A hf. og komið því til leiðar að stjórn félags­ins veitti honum umboð til að binda það við kaup á mestum hluta hluta­fjár í tilteknu fyrir­tæki en með þessari misnotkun á aðstöðu hafi ákærði og til­tekin einkahlutafélög auðgast eins og lýst var.

Samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga er það refsivert ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjár­­reiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína.  Samkvæmt 243. gr. sömu laga verður þó aðeins refsað fyrir þessi brot að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.  Hér fyrr var komist að þeirri niðurstöðu að í ákærunni væri ekki lýst auðgunarbroti heldur við­skiptum sem kunni að hafa verið óhagstæð fyrir A hf. en hagstæð ákærða.  Ákæran er því að þessu leyti heldur ekki í samræmi við framangreint ákvæði c – liðar 116. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Í ákærunni er á tveimur og hálfri blaðsíðu gerð grein fyrir aðdraganda þeirra brota sem ákærða eru gefin að sök.  Skrifleg greinargerð af þessu tagi á ekki heima í ákæru­skjali, enda er tæmandi talið í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála það sem koma á fram í ákæru.  Breytir hér engu þótt svona framsetning sé ekki lengur bönnuð í lög­un­um, sbr. áður 3. mgr. 115. gr. laga nr. 74/1974 um meðferð opinberra mála. 

Samkvæmt framansögðu er I. kafli ákærunnar ekki í samræmi við það sem áskilið er í 116. gr. laga um meðferð opinberra mála og er óhjákvæmilegt að vísa honum frá dómi, en með því að eftir standa ákæruliðir á hendur öllum ákærðu verður ekki kveðið á um máls­varnarlaun í þessum úrskurði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

I. kafla ákærunnar er vísað frá dómi.