Hæstiréttur íslands
Mál nr. 308/1998
Lykilorð
- Þjófnaður
- Líkamsárás
- Hótanir
- Ávana- og fíkniefni
- Eignaspjöll
- Skaðabætur
- Skilorðsrof
- Eignaupptaka
Fimmtudaginn 14. janúar 1999.
Nr. 308/1998. Ákæruvaldið
(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)
gegn
Kristjáni Markúsi Sívarssyni
(Hilmar Ingimundarson hrl.)
Þjófnaður. Líkamsárás. Hótanir. Ávana- og fíkniefni. Eignaspjöll. Skaðabætur. Skilorðsrof. Eignaupptaka.
K sætti fimm ákærum fyrir tvær meiriháttar líkamsárásir, hnífaburð og hótanir, eignaspjöll, vörslu fíkniefna ásamt fjölda innbrota. Talið var sannað, gegn andmælum K, að hann hefði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga hvað varðaði aðra þá líkamsárás sem hann var ákærður fyrir. Þá var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr., 233. gr., 244. gr.,1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lögum nr. 65/1975 um ávana- og fíkniefni og lögum nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og skotelda, á grundvelli játningar hans. K var dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og greiðslu skaðabóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní og 21. júlí 1998 með stefnum 28. júlí sama árs í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds. Málin voru sameinuð fyrir Hæstarétti og flutt í einu lagi. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af I. kafla ákæru 12. maí 1998, en að refsing verði að öðru leyti milduð. Hann krefst þess og að skaðabótakröfu Ragnars Más Alfreðssonar verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdómara er fallist á að nægilega sé sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru 12. maí 1998. Eins og greint er í hinum áfrýjuðu dómum er ákærði ungur að árum, en hefur þó gerst sekur um margvísleg og fjölmörg brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Hann hefur og ítrekað rofið skilorð. Að þessu virtu og með skírskotun til forsendna hinna áfrýjuðu dóma þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi 2 ár.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um skaðabætur til Ragnars Más Aðalsteinssonar, svo og ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað. Einnig ber að dæma ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi 2 ár.
Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 1998
Ár 1998, föstudaginn 26. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 486/1998: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni sem tekið var til dóms 9. júní sl.
Málið er höfðað með þremur ákærum á hendur Kristjáni Markúsi Sívarssyni, kt, 231080-4499, Skeljagranda 4, Reykjavík, svo sem rakið verður:
Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 12. maí sl. er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærða „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
I.
Fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 18. september 1997, við biðstöð SVR á Lækjartorgi í Reykjavík, slegið Ragnar Má Alfreðsson, kennitala 020479-5829, tvisvar sinnum hnefahögg í andlitið, fyrst inni í strætisvagni, sem var þar kyrrstæður og þessu næst eftir að hafa dregið hann út úr vagninum, slegið hann aftur í andlitið, með þeim afleiðingum að Ragnar Már nefbrotnaði með hliðrun yfir til vinstri og innkýlingu hægra megin, auk þess sem hann hlaut sár á gagnauga hægra megin og bólgnaði upp hægra megin á kjálka og gagnauga.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
II.
Fyrir hótanir og hnífaburð á almannafæri, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 17. desember 1997, að Hafnarstræti 18 í Reykjavík, dregið upp hníf með 95 mm löngu hnífsblaði og strokið honum um læri Hermanns Páls Sigbjarnasonar, kennitala 110274-5649, en framferði ákærða var til þess fallið að vekja hjá Hermanni ótta um líf sitt og velferð.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 34. gr. reglugerðar um skotvopn og skotfæri nr. 16, 1978, sbr. reglugerðir nr. 174, 1979 og 474, 1988, sbr. 34. gr. laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda nr. 46, 1977.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að hnífur sá er lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins í ákærulið II. verði gerður upptækur, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu Ragnars Más Alfreðssonar er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 419.520, auk lögmannsþóknunar og vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá tjónsdegi til dómsuppsögudags og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla s.l. frá þeim degi til greiðsludags.“
Með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 3. febrúar 1998 er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærða „fyrir eignaspjöll með því að hafa að kvöldi 19. nóvember 1997 hent steini í rúðu í vinstri framhurð bifreiðarinnar SZ-420, þar sem hún stóð á bifreiðastæði við Öldugötu 23 í Reykjavík, með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði og glerbrot dreifðust um alla bifreiðina.
Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Hjörtur O. Aðalsteinsson, kt. 270252-2069, kröfu um að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 29.635,70.“
Loks er með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 19. maí sl. mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærða „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 7. mars 1998 haft í fórum sínum 0,3 g af amfetamíni og 1 g af hassi, þegar hann var handtekinn á bifreiðastæði við Tryggvagötu í Reykjavík.
Þetta telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986, um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. reglugerð nr. 177/1986 og auglýsingu nr. 84/1986.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á ofangreindum fíkniefnum sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986.“
Mál samkvæmt framangreindum ákærum voru sameinuð skv. heimild í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á dómþingi 28. maí sl.
I. kafli ákæru ákæru dagsett 12. maí 1998.
Að kvöldi fimmtudagsins 18. september sl. var lögregla kvödd að Þingási 51, hér í borg, að beiðni Ragnars Más Alfreðssonar, kt. 020479-5829. Skýrði hann frá því að fyrr um kvöldið hefði hann orðið fyrir líkamsárás við biðstöð Strætisvagna Reykjavíkur á Lækjartorgi. Kvaðst hann hafa verið að ganga að strætisvagni við biðstöð á Lækjartorgi er piltur rakst utan í hann. Pilturinn hafi spurt hvort hann vildi vandræði, en hann gengið frá piltinum. Hafi pilturinn síðan elt hann að strætisvagninum og slegið hann fyrirvaralaust tvívegis í andlitið. Kvaðst Ragnar hafa komist undan árásarmanninum, sem hann þekkti ekki, og upp í strætisvagninn. Lýsti hann árásarmanninum þannig að hann væri 16-18 ára, u.þ.b. 173 cm hár, með ljóst aflitað hár, með bólur í andliti, í dökkblárri eða svartri peysu með tilteknu merki framaná og í bláum gallabuxum. Hafi hann sjáanlega verið undir miklum áfengisáhrifum. Sjá mátti áverka á nefi Ragnars og að það var lítið eitt bólgið.
Við frumrannsókn lögreglu beindist grunur að öðrum pilti en ákærða sem þeim er veist hefði Ragnari og slegið hann, og fór svo að Ragnar lagði fram kæru á hendur þeim pilti 29. september sl. Var sá piltur yfirheyrður 5. nóvember sl. og neitaði staðfastlega að eiga aðild að árásinni. Þann 20. nóvember sl. féll Ragnar frá kærunni eftir að hafa séð ljósmynd úr myndasafni lögreglu af piltinum. Fimm dögum síðar skoðaði Ragnar u.þ.b. 600 myndir úr myndasafni lögreglu og tók hann út mynd nr. 10-2581 og kvað upp úr um að pilturinn á myndinni væri sá sem ráðist hefði á sig greint sinn. Er sú mynd af ákærða í máli þessu.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 18. desember sl. Hann kvaðst hafa verið staddur á Lækjartorgi um kl. 23 fimmtudagskvöldið 18. september sl. og muna, þó ekki mjög vel, að hann hafi gengið þar utan í ungan mann. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi í framhaldi af því elt piltinn, kallað á eftir honum og ásakað hann um að hafa gengið utan í sig, en hann hafi örugglega gert það til að stríða stráknum. Inntur eftir hvort hann hafi farið á eftir piltinum inn í strætisvagn og slegið hann í andlitið, dregið hann út úr vagninum og barið hann aftur þannig að hann skall utan í fremri hurð vagnsins kvaðst ákærði ekki hafa farið inn í vagninn, en verið í dyrum hans og rifið í strákinn og kýlt hann, en myndi ekki hvar hann hefði kýlt hann. Kvaðst hann vera um 170 cm hár, vera með aflitað hár, eiga dökkbláa og svarta boli en ekki með þeirri áletrun sem kærandi nefndi. Beðinn að lýsa atburðinum umrætt kvöld kvaðst ákærði muna að hafa verið þarna og að hafa kýlt strákinn í strætisvagninum.
Ákærði mætti aftur til skýrslugjafar hjá lögreglu 20. mars sl. Kvaðst hann nú vera þess fullviss að hann væri ekki árásarmaðurinn. Þegar fyrsta skýrslan var tekin af honum hafi hann ruglað saman málum. Hann kvaðst muna að hafa lent í útistöðum við einhvern strák við strætisvagn í Lækjargötu og að hafa slegið strákinn í hnakkann, en hann kannaðist ekki við þetta mál. Þá kvaðst ákærði hvorki eiga né hafa átt svarta peysu með þeirri áletrun sem kærandi nefnir og aldrei ganga í gallabuxum.
Þriðju skýrslu sína gaf ákærði hjá lögreglu 2. apríl sl. Þar kvað hann aðalástæðu þess að hann væri viss um að Ragnar væri ekki sá sem hann sló vera þá að hann hafi ekki átt gallabuxur svo árum skiptir, í gallabuxum gangi hann aldrei og kannist ekki við peysu með þeirri áletrun sem kærandi nefnir. Inntur nánar eftir því atviki er hann lenti í útistöðum við strák í strætisvagni skýrði ákærði svo frá að hann hefði elt einhvern strák að strætisvagni og slegið hann í hnakkann. Hann hafi náð stráknum í strætisvagninum og kýlt hann einu sinni. Hann geti þó ekki tímasett atvikið. Strákurinn hafi verið u.þ.b. 18 ára, en nánar geti hann ekki lýst honum. Hann hafi verið að rífast við strákinn, því næst elt hann að strætisvagninum til þess að berja hann, en þá hafi strákurinn farið inn í strætisvagninn og hafi hann elt strákinn þangað. Kvað ákærði þetta hafa gerst á Lækjartorgi við Hafnarstræti 20 og hafi enginn skipt sér af slagsmálunum.
Við meðferð málsins neitar ákærði sakargiftum. Hann hafi verið staddur á Lækjartorgi umrætt kvöld og vissi hver hefði slegið Ragnar Má, en vildi ekki skýra frá nafni hans. Frá þessu hafi hann ekki skýrt við lögreglurannsókn málsins þar sem hann vildi ekki segja til vinar síns. Kvaðst ákærði hafa verið staddur við biðstöð Strætisvagna Reykjavíkur þetta kvöld ásamt þessum félaga sínum en hann gæti eiginlega ekki greint frá því hvað gerðist; hann hafi hvorki tekið þátt í þessum slagsmálum að neinu ráði né horft á þau. Kvaðst hann aðeins hafa séð strákinn hlaupa eða öllu heldur flýja inn í strætisvagn og félaga ákærða á eftir honum, en ákærði beðið álengdar. Ákærði kvaðst hafa séð strákinn sem varð fyrir árásinni ganga utan í félaga sinn, jafnvel óvart, og við það hafi félagi hans reiðst. Þeir hafi farið að rífast þarna fyrir utan og kvaðst ákærði alltaf hafa haldið að félagi hans hefði slegið strákinn þar fyrst, en það væri greinilega ekki rétt því að strákurinn hafi svo hlaupið inn í strætisvagninn og félagi ákærða á eftir honum. Sjálfur kvaðst ákærði hafa orðið eftir, nánar tiltekið framan við nálægan leiktækjasal, meira myndi hann eiginlega ekki, en hann héldi þó að félagi sinn hefði komið einn út úr vagninum. Hann minni að þetta hafi gerst áður og því næst hafi hann hlaupið inn í vagninn. Einnig kunni að vera að hann hafi slegið strákinn áður en hann fór inn í vagninn og síðan aftur inni í honum; hann hafi ekki séð það.
Þessi félagi hans héti Gunnar Þór Grétarsson og hafi þeir Gunnar verið saman í miðbænum umrætt kvöld. Kvaðst ákærði hafa verið búinn að neyta áfengis og verið undir áhrifum þess. Bent á að Ragnar Már lýsti árásarmanni sínum m.a. þannig að hann hafi verið íklæddur peysu með tilteknu merki framaná, kvaðst ákærði ekki muna hvernig hann var sjálfur klæddur, en hann ætti ekki peysu með þess konar merki. Gunnar Þór ætti aftur á móti þess konar peysu, svarta að lit. Ákærði kvaðst þó hvorki muna hvernig Gunnar var klæddur umrætt kvöld né hvort hann hefði verið í peysu með þessari tilteknu áletrun. Ákærði fullyrti að sjálfur hefði hann ekki verið íklæddur gallabuxum þetta kvöld og kvaðst ekki hafa klæðst slíkum buxum svo árum skipti. Ákærða var gerð grein fyrir að Ragnar Már hefði verið látinn yfirfara ljósmyndir í safni lögreglunnar og þá tekið út úr myndasafninu mynd af ákærða. Kvaðst hann enga skýringu hafa á því, hann væri saklaus af þessum verknaði og væri að sama skapi nokkuð viss um að þarna hefði Gunnar Þór verið að verki. Ákærða var bent á að Ragnar hefði einnig gefið lýsingu varðandi hæð piltsins. Hann kvaðst vera 170 cm hár, en vera kunni að hann hafi stækkað eitthvað frá því sl. haust. Gunnar væri 180 cm hár, þ.e. hugsanlega u.þ.b. 10 cm hærri en ákærði eða e.t.v eitthvað meira; í öllu falli væri allnokkur hæðarmunur á þeim.
Ákærði var beðinn að útskýra hvernig á því stæði að í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 18. desember sl. hafi hann, er hann var spurður um þetta atvik, kannast við að hafa lent í átökum þetta kvöld. Kvað ákærði það vera vegna þess að hann hafi ætlað að taka á sig sök fyrir Gunnar. Hafi Gunnar beðið sig um það, þó ekki beint. Ákærði sé vanur að taka svona nokkuð á sig vegna þess hann sé með svo mikið af málum á sér, enda hafi hann tekið á sig sök í nokkrum málum fyrir Gunnar. Ákærða var jafnframt bent á að í þessari sömu skýrslu segðist hann eiga gallabuxur. Inntur eftir hvort rangt væri eftir honum haft eða hvort hann hefði sagt ósatt svaraði ákærði að hann hafi aldrei sagt að hann ætti ekki gallabuxur, hann hafi sagt að hann gengi ekki í gallabuxum. Hann hafi á þessum tíma að líkindum átt tvennar gallabuxur, en ekki gengið í þeim. Fyrir kæmi að hann fengi lánuð föt af vinum sínum, þó aldrei Gunnari.
Vitnið Ragnar Már Alfreðsson skýrði svo frá við meðferð málsins að greint sinn hafi það verið að koma frá vinnu sinni og ætlað að taka strætisvagn heim á leið. Er vitnið var að ganga að biðskýlinu hafi strákur rekist utan í það og farið að ræða við það. Kvaðst vitnið hafa gengið áleiðis að vagninum og verið að fara inn í hann þegar strákurinn byrjaði að toga í vitnið sem hafi reynt að losa sig og snúið sér undan. Þá hafi strákurinn komið fram fyrir vitnið og byrjað að ýta við vitninu og rífa kjaft. Mundi vitnið að strákurinn sagði: „Af því að þú ert stærri en ég heldurðu að ég geti ekki lamið þig?“ Vitnið hafi reynt að ganga að vagninum, en strákurinn haldið áfram að elta vitnið. Kvaðst vitnið hafa hlaupið að vagninum og strákurinn á eftir og þegar vitnið var komið inn í vagninn hafi hann slegið vitnið tvisvar sinnum í andlitið og togað vitnið út úr vagninum. Fyrst hafi hann slegið vitnið í nefið og síðan á kjálka með krepptum hnefa. Þegar strákurinn var búinn að draga vitnið út úr vagninum hafi hann kýlt vitnið einu sinni enn, nú á hægri kjálka með krepptum hnefa og við það hafi vitnið dottið á strætisvagninn. Kvaðst vitnið við svo búið hafa farið inn í vagninn. Vitnið kvaðst hafa verið statt fremst í vagninum, hjá vagnstjóranum, þegar árásarmaðurinn sló það og hafi eitthvað af farþegum verið í vagninum. Því næst hafi vitnið tekið sér far með vagninum heim á leið og liðið afar illa í nefinu. Er heim var komið hafi móðir vitnisins hringt í lögreglu og í framhaldi af komu lögreglu á heimili vitnisins hafi vitnið farið á slysadeild til að láta athuga með nefið. Þá hafi komið í ljós að vitnið var nefbrotið.
Vitnið lýsti árásarmanninum svo að hann væri rauðhærður og lítið eitt minni en vitnið. Eftir fötunum kvaðst vitnið ekki muna svo gjörla, en sig minnti að hann hefði verið klæddur hermannabuxum og hettupeysu, dökkblárri að lit og minnti vitnið að framan á henni hafi staðið tiltekin áletrun. Hæð árásarmannsins hafi verið á að giska 170-172 cm, en vitnið kvaðst vera 178 cm hár.
Um ljósmyndirnar sem vitnið skoðaði á lögreglustöð kvaðst vitnið þegar hafa verið þess fullvisst að sú mynd sem það dró út úr myndasafninu hafi verið af árásarmanninum, en um hafi verið að ræða nokkur hundruð ljósmyndir. Eftir að hafa séð mynd af Gunnari Þór Grétarssyni á lögreglustöð 30. nóvember sl. kvaðst vitnið að sama skapi hafa verið visst um að sá piltur hefði ekki verið sá sem réðist á hann.
Buxurnar sem vitnið sagði árásarmanninn hafa verið íklæddan kvað það hafa verið grænar og brúnar hermannabuxur. Bent var á að í skýrslum vitnisins hjá lögreglu segði vitnið að árásarmaðurinn hefði verið í gallabuxum. Vitnið bar þá að það myndi ekki gjörla hvernig buxum árasarmaðurinn var í, það væri talsvert langt um liðið og hann myndi ekki gjörla hvort það hafi verið hermannabuxur eða gallabuxur, en hann hafi verið klæddur hettupeysu.
Vitnið Gísli Óskarsson vagnstjóri skýrði svo frá við meðferð málsins að umrætt kvöld er vitnið var í þann veginn að leggja upp í ferð og var að afgreiða farþega hafi hann séð tvo pilta vera að slást fyrir utan vagninn. Raunar hafi vitnið aðeins séð annan þeirra berja, því hinn hafi ekki barið á móti. Vitnið hafi lokað vagndyrunum og verið búinn að ákveða að taka piltana ekki með, en síðan séð að pilturinn sem slegið hafði hinn piltinn gekk í átt frá vagninum, en sá sem hafði verið sleginn var eftir fyrir utan vagninn. Sá vitnið að sá piltur var alveg rólegur og ákvað því að leyfa honum að taka sér far með vagninum. Virtist vitninu sem pilturinn væri lítið eitt vankaður.
Þegar vitnið hafði hleypt farþegunum inn í vagninn og piltarnir voru orðnir tveir eftir við innganginn í vagninn hafi vitnið lokað dyrum hans. Það sem vitnið sá af því sem fram fór hafi það séð úr ökumannssætinu. Í fyrstu hafi vitnið ekki velt því fyrir sér, enda verið að afgreiða farþegana. Hafi pilturinn eða þeir báðir verið komnir inn í vagninn hafi þeir a.m.k. ekki farið fram hjá vitninu til að borga. Nánar til tekið kvað vitnið annan piltinn hafa látið högg dynja á andliti hins piltsins og hafi þar verið verið um að ræða fleiri en eitt högg og hafi pilturinn sem fyrir höggunum varð verið verulega vankaður þegar hann kom inn í vagninn eftir árásina.
Er vitnið var beðið að lýsa árásarmanninum nánar kvaðst vitnið hafa veitt honum fremur litla eftirtekt. Það myndi þó pilturinn hefði verið með mjög stutt hár eða snoðklipptur, og fremur samanrekinn. Varðandi klæðaburð hans kvaðst vitnið helst vera á því að hann hefði verið í gallajakka og gallabuxum, en kvaðst ekki muna hvort buxur og jakki voru ámóta að lit. Vitnið var tvívegis boðað á lögreglustöð til skýrslugjafar, í síðara skiptið til að skoða ljósmyndir. Skoðaði vitnið 15-18 andlitsmyndir og átti að kanna hvort það þekkti meintan árásarmann, en það hafi ekki gengið upp hjá sér, enda hafi það séð hann svo lítið og einnig hafi árásarmaðurinn snúið baki í vitnið er hann gekk inn Hafnarstræti og hvarf fyrir horn. Þegar vitnið var að skoða ljósmyndirnar hjá lögreglu hafi það ekki treyst sér til að taka einhvern ákveðinn út, en bent á þrjá sem það teldi einna helst koma til greina. Við þær andlistmyndir sem vitnið tiltók hafi það farið eftir vaxtarlaginu, þeir hafi verið samanreknir í andliti. Varðandi hæð meints árásarmanns kvað vitnið hann hafa verið í lægra lagi e.t.v. 165-167 cm á hæð.
Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð neina áverka á piltinum sem varð fyrir árásinni, en hann hafi haldið lengi um höfuðið, og verið mjög vankaður. Vitnið kvað átökin áreiðanlega ekki hafa byrjað fyrr en eftir að vitnið var komið inn í vagninn, enda hafi það ekki orðið vart við neitt þegar það var að fara inn í vagninn, en síðan hafi fólk byrjað að streyma inn í vagninn og þá hafi það séð að eitthvað hafi verið um að vera úti fyrir vagninum. Vel gæti verið að piltarnir hafi verið komnir inn fyrir dyr vagnsins á einhverju tímabili í átökunum; vitnið hafi a.m.k. ekki veitt því eftirtekt. Þeir hafi a.m.k. ekki verið komnir svo langt að þeir ættu eftir að greiða. Það gæti ekki sagt til um hvort þeir hafi verið komnir upp í tröppur. Það gæti meira en verið.
Móðir ákærða kom einnig fyrir dóminn, einkum til að bera um klæðaburð og fataeign ákærða. Staðfesti hún að ákærði gengi aldrei í gallabuxum dags daglega, en hann ætti þó gallabuxur. Kvað hún ákærða yfirleitt alltaf ganga í taubuxum. Svokallaðar hermannabuxur væru til á heimilinu og hafi hún séð ákærða klæðast slíkum buxum; væru þær í eigu ákærða eða bróður hans. Þá kvað hún ákærða ekki eiga dökka hettupeysu í líkingu við þá sem lýst er í málinu.
Í vottorði Reynis Björnssonar deildarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 22. janúar 1998, segir m.a. svo um meiðsli Ragnars Más: „Við skoðun á Slysadeild kom í ljós veruleg bólga og mar hægra megin á nefhrygg, sem virtist sveigja yfir til vinstri. Hann var með storkið blóð í hægri nös, engin eymsli í augabrúnum eða kinn. Það voru veruleg eymsli og bólga við þreifingu á kjálkanum hægra megin en ekki komið fram neitt mar. Hann gat opnað og lokað munni eðlilega. Á gagnauganu hægra megin var smá sár og einnig talsverð bólga. Þá var hann talsvert aumur við þreifingu á hálsvöðvum hægra megin. Það skal tekið fram að allir þessir áverkar voru nýir við skoðun.“
Síðar í vottorðinu segir: „Þann 22.09. 1997 kemur hann síðan á göngudeild Háls-, nef- og eyrnadeildar. Við komu er hann greinilega nefbrotinn og nefið virðist hafa gengið aðeins yfir til vinstri og er innkýlt hægra megin. Hann er deyfður og fór honum að líða illa í kjölfarið, það leið yfir hann og hann var dálítinn tíma að ná sér. Nefið var síðan rétt og náðist í ágæta legu og ekki fyrirhuguð frekari endurkoma á Háls-, nef- og eyrnadeild nema eftir þörfum. Þann 22.01. 1998 kemur Ragnar Már í skoðun á Háls-, nef- og eyrnadeild og kemur þá í ljós að legan á nefinu er ágæt, en það má sjá skekkju á því ennþá.“
Niðurstaða:
Í máli þessu nýtur, auk skýrslna ákærða, einungis við skýrslna vitnanna Ragnars Más Alfreðssonar og Gísla Óskarssonar. Hefur vitnið Ragnar Már staðfastlega borið að ákærði sé sá sem veist hafi að honum að kvöldi 18. september sl. með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Ber í því sambandi að líta til þess að vitnið tók út mynd af ákærða í myndasafni lögreglu úr um 600 myndum á 17 mínútum og hér fyrir dóminum sá vitnið ákærða og kvaðst vera fullviss um að hann væri árásarmaður sinn. Vitnið Gísli gat hins vegar ekki með afdráttarlausum hætti, er honum voru þann 25. mars sl. sýndar 18 myndir úr myndasafni lögreglu, fullyrt að ákærði væri árásarmaðurinn. Hann tók þó út tvær myndir, aðra af ákærða, en hina af pilti sem svipar allnokkuð til ákærða. Vitnið sá ákærða einnig í dóminum, en treysti sér ekki til að fullyrða að þar færi maðurinn sem hann sá slá vitnið Ragnar hnefahögg í andlitið. Hann væri þó óneitanlega líkur honum.
Ákærði neitar afdráttarlaust sök, en skýrslur hans við rannsókn og meðferð málsins hafa verið óstöðugar. Vísast þar um til þess sem að framan er rakið úr skýrslum hans hjá lögreglu og framburði hans fyrir dómi. Verður því, auk framburðar vitnisins Ragnars Más sem hefur verið staðfastur, að meta trúverðugleik framburðar ákærða annars vegar og vitnisins Ragnars Más hins vegar. Að öllu virtu telur dómurinn sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, einkum með skírskotun til framburðar vitnisins Ragnars Más sem einnig fær stoð í framburði vitnisins Gísla, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla þessarar ákæru. Varðar atferli hans við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Elvar Örn Unnsteinsson hrl. hefur f.h. Ragnars Más Alfreðssonar lagt fram bótakröfu í málinu að fjárhæð 419.520 krónur auk lögmannsþóknunar og krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá tjónsdegi til dómsuppsögudags og dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Sundurliðar hann kröfuna þannig: Lækniskostnaður skv. nótu 2.620 krónur, ónýt úlpa v/blóðs og rifin 16.900 krónur og miskabætur 400.000 krónur. Ákærði og lögráðamaður hans mótmæla kröfunni. Þar sem ákærði er sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök þykir hann einnig bera bótaábyrgð gagnvart brotaþola, Ragnari Má. Eru skaðabætur honum til handa hæfilega ákveðnar 100.000 krónur ásamt vöxum eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola 20.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfu sinni.
II. kafli ákæru dagsett 12. maí 1998
Með skýlausri játningu ákærða er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í síðari kafla þessarar ákæru. Var framferði ákærða til þess fallið að vekja ótta hjá Hermanni Páli um líf sitt og velferð. Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæra dagsett 3. mars 1998.
Með skýlausri játningu ákærða er sannað að hann hafi gerst sekur um það atferli sem honum er gefið að sök í ákærunni og þar er rétt fært til refsiákvæðis.
Með bréfi dagsettu 29. maí sl. féll Hjörtur O. Aðalsteinsson frá bótakröfunni.
Ákæra dagsett 19. maí 1998.
Með afdráttarlausri játningu ákærða er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessari ákæru og þar er rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur til þessa þrívegis hlotið dóm og einu sinni gengist undir sátt. Í september 1996 hlaut ákærði sekt og var sviptur ökurétti í tólf mánuði fyrir umferðarlagabrot. Í september 1997 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás, brot gegn 2. mgr. 124. gr. almennra hegningarlaga og eignaspjöll. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þann 3. mars sl. hlaut ákærði þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás. Loks hlaut ákærði þann 6. mars sl. 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir líkamsárásir.
Refsingu þá sem ákærða verður nú gerð ber að tiltaka með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði.
Eins og krafist er í II. kafla ákærunnar frá 12. maí sl. og samkvæmt lagaákvæðum þeim er þar greinir ber að gera upptækan til ríkissjóðs hníf þann sem lögregla lagði hald á við rannsókn þess máls. Þá ber, eins og krafist er í ákærunni frá 19. maí sl. og samkvæmt lagaákvæðum þeim er þar greinir, að gera upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn þess máls.
Loks ber samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi í 2 mánuði.
Ákærði sæti upptöku til ríkissjóðs á hníf með 95 mm löngu hnífsblaði sem lögregla lagði hald á 17. desember 1997. Ákærði sæti einnig upptöku á 0,3 g af amfetamíni og 1 g af hassi sem lögregla lagði hald á 7. mars 1998.
Ákærði greiði Ragnari Má Alfreðssyni 100.000 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. mars 1998 til 26. júní s.á., en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 20.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 50.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Stefánssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 1998
Ár 1998, þriðjudaginn 21. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 609/1998: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni og Stefáni Loga Sívarssyni, sem tekið var til dóms 9. júlí sl.
Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum svo sem rakið verður:
Með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 16. júní sl. er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur Ágústi Ásbjörnssyni, kt. 121080-4789, Kristjáni Markúsi Sívarssyni, kt. 231080-4499, og Stefáni Loga Sívarssyni, kt. 101081-5599, öllum til heimilis að Skeljagranda 4, Reykjavík, „fyrir eftirgreind brot á almennum hegningarlögum framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á tímabilinu frá 30. mars 23. maí 1998:
I. Ákærðu Kristjáni Markúsi og Stefáni Loga er gefið að sök að hafa framið í félagi eftirgreinda þjófnaði:
1. Mánudaginn 6. apríl brotist inn í íbúð á 1. hæð til vinstri í fjölbýlishúsinu nr. 15 við Öldugranda og stolið munum verðmetnum á kr. 258.900 svo sem 2 rifflum, 2 skotbeltum með um 40 haglaskotum, myndbandstæki, 2 myndavélum, 3 ljósmyndalinsum, leifturljósi, 2 áfengisflöskum, tösku, gullhring og 2 úrum, öðru úr gulli.
2. Fimmtudagskvöldið 23. apríl brotist inn í Mýrarhúsaskóla við Nesveg á Seltjarnarnesi og stolið 2 myndbandstækjum og ferðageislaspilara samtals að verðmæti um kr. 67.000.
3. Þann 25. eða 26. apríl brotist inn í geymslu í fjölbýlishúsinu nr. 4 við Skeljagranda og stolið 4 bíldekkjum.
4. Í byrjun maí brotist inn í geymslu í síðastgreindu fjölbýlishúsi og stolið 4 bíldekkjum.
5. Sunnudaginn 10. maí brotist í félagi inn í bifreiðina ZS-038 við Tjarnarmýri 39, Seltjarnarnesi, og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara.
6. Sama dag brotist inn í bifreiðina AR-067 í bifreiðageymslu við Tjarnarmýri 35 á Seltjarnarnesi og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara að verðmæti um kr. 50.000.
II. Ákærða Kristjáni Markúsi er gefið að sök:
1. Að hafa að morgni laugardagsins 28. mars farið inn í íbúð á 2. hæð í fjölbýlishúsinu nr. 3 við Skeljagranda og stolið snyrtitösku með um 6.000 krónum í reiðufé.
2. Á tímabilinu frá 11. 14. apríl brotist inn í Grandaskóla við Keilugranda í félagi við Þorberg Bergmann Halldórsson, kt. 090681-4949, og stolið 6 ferðageislaspilurum, tölvuprentara og myndbandstæki.
3. Að morgni sunnudagsins 3. maí brotist inn í íbúðarhúsið að Kolbeinsmýri 2 á Seltjarnarnesi og stolið myndbandsupptökutæki og myndavél.
4. Aðfaranótt sunnudagsins 10. maí stolið sambyggðu útvarpi og geislaspilara að verðmæti um kr. 18.000 úr bifreiðinni A-12563 á bifreiðastæði við Seilugranda 1.
5. Í síðastgreint skipti stolið stolið geislaspilara að verðmæti um kr. 19.000 úr bifreiðinni NV-488 við Seilugranda 1.
III. Ákærðu Ágústi, Kristjáni Markúsi og Stefáni Loga er gefin að sök tilraun til þjófnaðar, með því að hafa, um miðnætti aðfaranótt föstudagsins 24. apríl, reynt í þjófnaðarskyni að brjótast inn í Vesturbæjarskólann við Sólvallagötu í Reykjavík, brotið þar rúðu í útihurð en horfið af vettvangi er þjófavarnarkerfi skólans fór í gang.
Teljast framangreind brot ákærðu varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 20. gr. laganna, að því er varðar brot ákærðu í III. kafla.
IV. Ákærða Stefáni Loga er gefin að sök líkamsárás, með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 9. apríl, slegið Gísla Þorberg Guðjónsson, kt. 010455-3329, með krepptum hnefa í andlitið fyrir framan útidyr sjúkrastöðvarinnar Vogs við Stórhöfða í Reykjavík, og nokkru síðar inni á stöðinni fellt Gísla Þorberg í gólfið og tekið hann hálstaki, með þeim afleiðingum að Gísli Þorbergur hlaut glóðarauga á vinstra auga, skurð á hægri kinn, bólgu vinstra megin við nefrót og gervitönn í efri gómi brotnaði.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:
Bótakrafa er varðar ákærða Stefán Loga:
Gísli Þorbergur Guðjónsson, kr. 400.000 í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. apríl 1998 til 25. maí 1998 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, útlagðan kostnað að fjárhæð kr. 40.000 og kostnað vegna lögmannsaðstoðar auk álags er nemi virðisaukaskatti af þóknuninni.
Bótakrafa er varðar ákærða Kristján Markús:
Friðrik Sigurðsson, kt. 220557-7319, kr. 149.900 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 3. maí 1998 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.
Bótakröfur er varða ákærðu Kristján Markús og Stefán Loga:
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. kt. 701288-1739, kr. 258.900 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 8. maí 1998 til greiðsludags.
Pétur Reimarsson, kt. 090351-3709, kr. 100.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 10. maí til greiðsludags.
Kristín Anna Ingólfsdóttir, kt. 140755-3389, kr. 20.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 10. maí til greiðsludags. Marteinn M. Jóhannsson, kt. 060945-3529, skólastjóri Mýrarhúsaskóla, kr. 66.900.“
Við þingfestingu málsins féll sækjandinn frá ákæru á hendur Ágústi Ásbjörnssyni.
Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 12. júní sl. er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur báðum ákærðu „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
I. Á hendur ákærða Stefáni Loga fyrir líkamsárás og gripdeild, með því að hafa laugardagskvöldið 18. október 1997, á Eiðistorgi, Seltjarnarnesi, slegið Hallgrím Svein Sævarsson, kennitala 210475-4949, nokkur högg í andlitið með þeim afleiðingum að Hallgrímur hlaut blóðnasir og skrámur í andlitið og kúlur og eymsli víða á höfði, og að árásinni lokinni að hafa tekið GSM-síma Hallgríms, sem hann hafði misst í átökunum og hlaupið með símann burtu.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 245. gr. almennra hegningarlaga.
II. Á hendur báðum ákærðu fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar 1998, við áramótabrennu að Ægissíðu í Reykjavík, í félagi ráðist á Bjarna G. Bjarnason, kennitala 020549-4089, og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og líkama, auk þess að hafa sparkað margsinnis í andlit Bjarna. Við þessa árás hlaut Bjarni G. Bjarnason nefbrot sem rétta þurfti með aðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, glóðaraugu báðum megin, mikla bólgu á kjálkum, hrufl og mar á augum og enni og sár á ennið, sem sauma þurfti saman með tveimur sporum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
Af hálfu Bjarna G. Bjarnasonar er gerð krafa um það að ákærði verði dæmdur (svo) til að greiða honum bætur samtals að fjárhæð kr. 215.846.“
Mál samkvæmt framangreindum ákærum voru við þingfestingu sameinuð sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991.
Ákæra dagsett 16. júní 1998.
I. hluti ákæru.
1. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa mánudaginn 6. apríl sl. brotist inn í íbúð á 1. hæð til vinstri í fjölbýlishúsinu að Öldugranda 15, Reykjavík, og stolið tveimur rifflum, tveimur skotbeltum með um fjörutíu haglaskotum, myndbandstæki, tveimur myndavélum. þremur ljósmyndalinsum, leifturljósi tveimur áfengisflöskum og tösku. Báðir ákærðu neituðu að hafa stolið gullhring og kváðust einungis hafa stolið einu úri, gylltu. Við meðferð málsins féll sækjandinn frá ákæru fyrir þjófnað á einum gullhring og einu úri í þessum ákærulið.
Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 1. lið I. kafla ákæru eftir að fallið hefur verið frá ákæru fyrir þjófnað á einum gullhring og einu úri. Framanlýst háttsemi ákærðu er réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákærunni.
2. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa fimmtudagskvöldið 23. apríl sl. brotist inn í Mýrarhúsaskóla við Nesveg á Seltjarnarnesi og stolið tveimur myndbandstækjum. Báðir ákærðu neituðu að hafa stolið ferðageislaspilara. Við meðferð málsins féll sækjandinn frá ákæru fyrir þjófnað á ferðageislaspilaranum í þessum ákærulið.
Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 2. lið I. kafla ákæru eftir að fallið hefur verið frá ákæru fyrir þjófnað á ferðageislaspilara. Framanlýst háttsemi ákærðu er réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákærunni.
3. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa þann 25. eða 26. apríl sl. brotist inn í geymslu í fjölbýlishúsinu að Skeljagranda 4, Reykjavík, og stolið þar fjórum bíldekkjum.
Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 3. lið I. kafla ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
4. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa í byrjun maí sl. brotist inn í geymslu í síðastgreindu fjölbýlishúsi og stolið þar fjórum bíldekkjum.
Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 4. lið I. kafla ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
5. og 6. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa, sunnudaginn 10. maí sl., í félagi við meðákærða Stefán Loga brotist inn í bifreiðina ZS-038 í bifreiðageymslu að Tjarnarmýri 39 á Seltjarnarnesi og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara.
Þá hefur ákærði Kristján Markús viðurkennt að hafa þennan sama dag í félagi við meðákærða Stefán Loga brotist inn í bifreiðina AR-067 í bifreiðageymslu að Tjarnarmýri 35 á Seltjarnarnesi og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara.
Við meðferð málsins tók ákærði Kristján Markús fram varðandi þessa tvo ákæruliði að hann hafi brotist einn inn í þessar bifreiðar, en meðákærði Stefán Logi hefði verið viðstaddur. Ákærði mundi ekki hvort þeir meðákærði ræddu um það fyrirfram að stela úr bifreiðunum. Þýfið hafi þeir falið við heimili sitt.
Með skýlausum játningum ákærða Kristjáns Markúsar er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 5. og 6. lið I. kafla ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
Ákærði Stefán Logi hefur viðurkennt að hafa, sunnudaginn 10. maí sl., farið í innbrotsleiðangur ásamt meðákærða Kristjáni Markúsi í bifreiðageymslur við Tjarnarmýri á Seltjarnarnesi. Þar hafi meðákærði Kristján Markús brotist inn í bifreiðina ZS-038 og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara, og einnig hafi hann brotist inn í bifreiðina AR-067 og stolið úr henni sambyggðu úrvarpi og geislaspilara. Önnur bifreiðin hafi verið jeppabifreið, en hin fólksbifreið. Ákærði kvað tilgang þeirra hafa verið að leita að geislaspilurum í bifreiðum til að selja. Kvaðst ákærði eingöngu hafa staðið hjá meðan meðákærði Kristján Markús var að brjótast inn í bifreiðarnar og athafna sig þar. Sjálfur hafi hann inn í hvoruga bifreiðina farið. Tæki þau sem stolið var úr bifreiðunum hafi þeir selt í sameiningu. Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað að brjótast sjálfur inn í bifreiðarnar, en hann hafi vitað um fyrirætlanir meðákærða Kristjáns Markúsar í þeim efnum.
Ákærði Stefán Logi hefur samkvæmt framansögðu skýlaust játað að hafa verið með meðákærða Kristjáni Markúsi í innbrotsleiðangri sunnudaginn 10. maí sl. í bifreiðageymslur við Tjarnarmýri á Seltjarnarnesi. Var honum fullkunnugt um að leiðangur þessi var farinn í þjófnaðarskyni. Enda þótt ákærði hafi ekki haft sig í frammi við að ná tækjunum úr bifreiðunum verður að telja hann sannan að sök um fullframin þjófnaðarbrot samkvæmt þessum ákæruliðum. Er sú háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.
II. hluti ákæru.
1. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa að morgni laugardagsins 28. mars sl. farið inn í íbúð á 2. hæð í fjölbýlishúsinu að Skeljagranda 3, Reykjavík, og stolið snyrtitösku með um 6.000 krónum í reiðufé.
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
2. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa á tímabilinu frá 11.-14. apríl sl. brotist inn í Grandaskóla við Keilugranda, Reykjavík, í félagi við Þorberg Bergmann Halldórsson, kt. 090681-4949, og stolið sex ferðageislaspilurum, tölvuprentara og myndbandsupptökuvél.
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
3. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa að morgni sunnudagsins 3. maí sl. brotist inn í íbúðarhúsið að Kolbeinsmýri 2, Seltjarnarnesi, og stolið myndbandsupptökutæki og myndavél.
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
4. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. maí sl. stolið sambyggðu útvarpi og geislaspilara úr bifreiðinni A-12563 á bifreiðastæði við Seilugranda 1, Reykjavík.
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
5. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. maí sl. stolið geislaspilara úr bifreiðinni NV-488 við Seilugranda 1, Reykjavík.
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
III. hluti ákæru.
Ákærðu Kristján Markús og Stefán Logi hafa viðurkennt að hafa um miðnætti aðfaranætur föstudagsins 24. apríl sl. reynt í þjófnaðarskyni að brjótast inn í Vesturbæjarskóla við Sólvallagötu, Reykjavík, brotið þar rúðu í útihurð, en horfið af vettvangi er þjófavarnarkerfi skólans fór í gang.
Framanlýst háttsemi ákærðu er sönnuð með skýlausum játningum þeirra. Er þetta atferli ákærðu réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
IV. hluti ákæru.
Ákærði Stefán Logi hefur viðurkennt að hafa að kvöldi fimmtudagsins 9. apríl sl., slegið Gísla Þorberg Guðjónsson, kt. 010455-3329, með krepptum hnefa í andlitið fyrir framan útidyr sjúkrastöðvarinnar Vogs við Stórhöfða, Reykjavík, og nokkru síðar inni á stöðinni fellt Gísla Þorberg í gólfið og tekið hann hálstaki, með þeim afleiðingum að Gísli hlaut glóðarauga á vinstra auga, skurð á hægri i kinn, bólgu vinstra megin við nefrót og gervitönn í efra gómi brotnaði. Kveður ákærði ástæðu þess að hann réðist að Gísla vera þá að kærandi hafi hreytt í sig ónotum og kallað sig aumingja og ræfil og hann gæti bundið ákærða niður og rassskellt eins og litla stelpu.
Í vottorði Sverris Jónssonar læknis á sjúkrastöðinni Vogi, dagsettu 10. apríl sl., um áverka kæranda segir svo: „Við skoðun er hann með glóðarauga á vinstra auga. Skurður á hægri kinn sem búið er að teypa vel saman. Er svolítið aumur í nefinu en ekki er hægt að finna neina nefskekkju, svolítið bólginn vinstra megin við nefrótina. Báðar nasir opnar. Engin merki um brot á andlitsbeinum. Er með falskar tennur og það er brotin ein tönn úr efri gómnum.“
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákæra dagsett 12. júní 1998.
I. hluti ákæru.
Ákærði Stefán Logi hefur viðurkennt að hafa laugardagskvöldið 18. október 1997, á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi, slegið Hallgrím Svein Sævarsson, kt. 210475-4949, nokkur högg í andlitið með þeim afleiðingum að Hallgrímur hlaut blóðnasir og skrámur í andlitið og kúlur og eymsli víða á höfði, og að árásinni lokinni að hafa tekið GSM-síma Hallgríms sem hann hafði misst í átökunum og hlaupið með símann burtu.
Kærandi leitaði til Heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi 24. október sl. Í vottorði Guðmundar Sigurðssonar læknis, dagsettu 10. febrúar sl., um áverka kæranda segir svo: „Við skoðun komu fram eftirfarandi áverkar: 1. Hrufl 6x1 cm. á hægri sköflungi. 2. Grunnt hrufl og mar framan á hægra hné. 3. 5x8 cm. mar innanvert á vinstra læri. 4. Ummerki e. glóðarauga vinstra megin. Ljósop eðlileg. Ekki að sjá merki um blæðingu inn í augað við speglun. 5. Kúlur og eymsli víða á höfði.“
Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
II. hluti ákæru.
Ákærði Kristján Markús hefur við rannsókn málsins viðurkennt að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar sl. við áramótabrennu við Ægisíðu í Reykjavík, ráðist á mann og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og líkama, auk þess að hafa sparkað margsinnis í andlit og líkama mannsins. Við meðferð málsins kvaðst ákærði ekki muna eftir atvikinu. Hann kvaðst þó muna að hafa lent í slagsmálum við áramótabrennuna við Ægisíðu 1. janúar sl. Kvað hann eftir yfirlestur skýrslu þeirrar sem tekin var af honum hjá lögreglu síðdegis sama dag, málsatvik ekki rifjast frekar upp fyrir sér. Ákærði kvaðst þó ekki draga í efa að skýrsla hans hjá lögreglu umræddan dag væri rétt eftir honum höfð.
Í vottorði Ingibjargar Hinriksdóttur sérfræðings á Háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 21. apríl sl., um áverka kæranda segir svo: „Við skoðun við komu á Slysadeild er Bjarni allur blóðugur í andliti með skurð á enni. Marinn á kinn vi. megin. Brot er á nefi en önnur andlitsbrot greinast ekki. Á enninu er skurður ca. 1 1/2 cm. langur, var flagnaður svolítill flipi þar. Meðferð: Sár á enni saumað með 2 sporum. Þann 06.01. sér undirrituð hann á Háls- nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við skoðun þá er hann marinn undir báðum augum, gulleitt mar, sár yfir nefbeini og mar þar. Einnig gulleitt mar yfir vinstra kjálka. Nef: Miðsnesið er skakkt og þrengir það fremri hluta nefsins. Finna ná brot á vinstra nefbeini. Í staðdeyfingu er nefbrotið rétt. Eftir það situr það ágætlega.“
Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skýlaus játning ákærða Kristjáns Markúsar fyrir dómi á þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum kafla ákæru telur dómurinn að ekki sé varhugavert að telja sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og er í samræmi við önnur gögn þessa þáttar málsins. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði Stefán Logi kveður það rétt vera að aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar sl. hafi hann verið staddur við áramótabrennu við Ægisíðu í Reykjavík ásamt meðákærða Kristjáni Markúsi. Kveður ákærði meðákærða Kristján Markús hafa ráðist á mann þarna við brennuna og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og líkama, en við þessi högg hafi maðurinn fallið til jarðar. Viðurkennir ákærði að eftir að maðurinn var fallinn hafi hann sparkað tvisvar sinnum í maga hans. Ákærði neitaði hins vegar að hafa slegið manninn með krepptum hnefa í andlit og líkama. Hann hafi eingöngu sparkað tvisvar sinnum í maga mannsins eftir að hann var fallinn. Ákærði viðurkenndi eftir yfirlestur skýrslu þeirrar sem tekin var af honum hjá lögreglu þann 1. janúar sl. að hann hafi einnig slegið manninn með krepptum hnefa í andlitið og hafi höggið lent á vinstri kjálka.
Með játningu ákærða Stefáns Loga, sem ekki þykir ástæða til þess að vefengja, telst sannað að hann hafi slegið kæranda eitt högg með krepptum hnefa í andlitið, nánar tiltekið á vinstri kjálka hans, og efir að kærandi var fallinn til jarðar að hafa sparkað tvívegis í maga hans. Eins og játningu ákærða er farið verður þessi háttsemi hans metin honum til sakar samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Refsingar:
Ákærði Kristján Markús hefur til þessa fjórum sinnum hlotið dóm og einu sinni gengist undir sátt. Í september 1996 hlaut ákærði sekt og var sviptur ökurétti í tólf mánuði fyrir umferðarlagabrot. Þann 24. september 1997 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás, helgispjöll og eignaspjöll. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þann 3. mars sl. var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás. Þann 6. mars sl. var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir líkamsárásir. Dómarnir frá 24. september 1997 og 3. mars sl. voru dæmdir upp og felldir inn í refsinguna. Loks var ákærði þann 26. júní sl. dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, hegningarauka, fyrir líkamsárásir, brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda.
Dómurinn frá 6. mars sl. var birtur ákærða Kristjáni Markúsi þann 16. mars sl. og afplánar hann nú óskilorðsbundinn hluta dómsins. Með brotum þeim sem ákærði framdi eftir þann dag hefur ákærði rofið skilorðshluta þess dóms. Er þar um að ræða öll brotin sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir skv. ákærunni frá 16. júní sl. Skilorðshluti þess dóms verður nú tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir þau brot sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir og þau brot sem honum var gerð refsing fyrir í þeim dómi. Refsingu ákærða ber að tiltaka með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en auk þess verður höfð hliðsjón af því að ákærði var einungis 17 ára þegar hann framdi brotin. Að öllu þessu virtu er hún hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár og sjö mánuði.
Ákærði Stefán Logi hefur til þessa hlotið þrjá dóma, en áður, þ.e. í október 1997 hlaut hann ákærufrestun, skilorðsbundna í tvö ár, fyrir líkamsárás og þjófnað. Þann 23. janúar sl. var ákærði sakfelldur fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Ákvörðun um refsingu var frestað, skilorðsbundið í tvö ár. Þann 3. mars sl. var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás. Ákvörðun um refsingu var frestað, skilorðsbundið í tvö ár. Loks var ákærði þann 6. maí sl. dæmdur í 75 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað. Dómarnir frá 23. janúar og 3. mars sl. voru dæmdir upp og felldir inn í refsinguna.
Síðastgreindur dómur var birtur ákærða Stefáni Loga þann 3. júní sl. Dómur þessi verður nú dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir og þau brot sem honum var gerð refsing fyrir með dóminum frá 6. maí sl. Við ákvörðun refsingar ber að hafa hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en auk þess ber að líta til þess að ákærði var aðeins 16 ára er hann framdi brotin. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Eftir atvikum er rétt að ákveða að fresta skuli fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og að hún skuli falla niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 13. maí til 24. júní sl., alls 42 daga. Að því er varðar hinn óskilorðsbundna hluta dómsins skal 42 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða koma til frádráttar refsingu að fullri dagatölu.
Bótakröfur:
Ákærði Stefán Logi hefur mótmælt bótakröfu Gísla Þorbergs Guðjónssonar sem gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Sundurliðast krafan þannig: Miskabætur 400.000 krónur og skemmdur tanngarður 40.000 krónur. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu kostnaðar við lögmannsaðstoð skv. mati dómsins. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings kröfunni. Allt að einu þykja efni til að dæma kæranda miskabætur er þykja hæfilega ákveðnar 50.000 krónur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærði einnig dæmdur til að greiða kæranda 15.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Ákærði Kristján Markús hefur mótmælt bótakröfu Friðriks Sigurðssonar sem höfð er uppi í málinu og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Krefst hann þess að kröfunni verði vísað frá dómi, enda beri gögn þau sem fylgja kröfunni með sér að um nýja hluti sé að ræða. Ekkert liggur fyrir í málinu um aldur hinna stolnu muna. Þykir ekki verða hjá því komist að vísa kröfu þessari frá dómi.
Ákærðu hafa mótmælt bótakröfu þeirri sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa uppi í málinu á hendur þeim og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Krefjast þeir þess að kröfunni verði vísað frá dómi sökum vanreifunar. Krafa þessi er ekki studd neinum viðhlítandi gögnum. Þykir ekki verða hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Í ákæru dagsettri 16. júní sl. er gerð grein fyrir að Pétur Reimarsson hafi uppi bótakröfu á hendur ákærðu. Formleg bótakrafa liggur ekki fyrir í málinu frá Pétri. Samkvæmt því verður svokallaðri bótakröfu Péturs Reimarssonar vísað frá dómi.
Í ákæru dagsettri 16. júní sl. er gerð grein fyrir að Kristín Anna Ingólfsdóttir hafi uppi bótakröfu á hendur ákærðu. Formleg bótakrafa liggur ekki fyrir í málinu frá Kristínu Önnu. Samkvæmt því verður svokallaðri bótakröfu Kristínar Önnu Ingólfsdóttur vísað frá dómi.
Ákærðu hafa mótmælt bótakröfu þeirri sem Marteinn M. Jóhannsson f.h. Mýrarhúsaskóla hefur uppi í málinu á hendur þeim og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Krefjast þeir þess að kröfunni verði vísað frá dómi sökum vanreifunar. Krafa þessi er ekki studd neinum gögnum. Verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Ákærðu hafa mótmælt bótakröfu þeirri sem Bjarni G. Bjarnason hefur uppi í málinu á hendur þeim og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 12. júní sl. Þrátt fyrir orðalag í niðurlagi ákæru verður að skilja kröfuna svo að hún beinist að ákærðu báðum. Krafan sundurliðast þannig: Miskabætur skv. 26. gr. laga nr. 50/1993 200.000 krónur og útlagður kostnaður 15.846 krónur. Vaxta er ekki krafist. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings miskabótakröfunni. Allt að einu þykja efni til að dæma kæranda miskabætur er þykja hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Krafan um útlagðan kostnað er studd ítarlegum gögnum. Ber því að taka hana til greina eins og hún er fram sett. Þykja ekki efni til annars en dæma ákærðu óskipt til greiðslu bótanna.
Sakarkostnaður:
Samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði.
Eins og áður er að vikið er mál þetta einnig höfðað á hendur Ágústi Ásbjörnssyni, en við þingfestingu málsins var fallið frá ákæru á hendur honum. Skipaður verjandi hans, Örn Clausen hæstaréttarlögmaður, krafðist þess í þinghaldinu að dómurinn ákvarðaði honum hæfilega þóknun úr ríkissjóði fyrir verjandastarfann. Verður honum ákvörðuð þóknun fyrir starfa sinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi í 1 ár og 7 mánuði.
Ákærði, Stefán Logi Sívarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Gæsluvarðhald ákærða, samtals 42 dagar, komi til frádráttar refsingu skv. óskilorðsbundnum hluta dómsins.
Ákærði Stefán Logi greiði Gísla Þorbergi Guðjónssyni 50.000 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 9. apríl 1998 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 15.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Ákærðu greiði óskipt Bjarna G. Bjarnasyni 115.846 krónur.
Bótakröfum Friðriks Sigurðssonar, Sjóvár-Almennra trygginga hf., Péturs Reimarssonar, Kristínar Önnu Ingólfsdóttur, og Marteins M. Jóhannssonar f.h. Mýrarhúsaskóla, er vísað frá dómi.
Þóknun Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, vegna verjandastarfa í þágu Ágústs Ásbjörnssonar, 20.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Allan annan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Stefánssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur, greiði ákærði Kristján Markús að hálfu og ákærði Stefán Logi að hálfu.